18.08.2010 11:44

Næturlitir og fleira skemmtilegt


644. Um miðjan júlí var ég á leiðinni á heimaslóðir eins og svo oft áður, en staldraði við mun oftar en venjulega. Ástæðan var logandi himininn, litlir dalalæðuangar sem hreiðruðu makindalega um sig í lautum og næturkyrrðin sem var næstum yfirþyrmandi.
Myndin hér að ofan er tekin í Miðfirði.


Umhverfið varð sífellt dularfyllra og ævintýralegra eftir því sem austar dró í Húnavatnssýslurnar.


Húsið á þokueyjunni.


Og himininn var orðinn ennþá rauðari þegar í Skagafjörðinn var komið. Í fjarska má sjá móta fyrir Drangey, Málmey og Þórðarhöfðanum.


Á heimaslóðum voru himnalitirnir keimlíkir þeim Skagfirsku, en húsin í bænum brutu upp myndina og gæddu hana lifi.

En að öðru...

Ég leit í lítið eitt gulnaða skræðu sem ég fann upp í hillu og rakst þar á gamlan reikning skrifaðan af Oluf Larsen málarameistara, en hann hafði tekið að sér að lagfæra altaristöflu í þorpinu Skrave í Danmörku árið 1790 en hann hljóðaði svo...
Tveimur boðorðum breytt og öll boðorðin olíuborin kr. 2.24.
Nýtt nef sett á ræningjann og hann gerður fingralengri kr. 1.02.
Pílatus hreinsaður og oliuborinn að aftan og framan og loðkraginn hreinsður. kr. 17.00.
Gabríel hreinsaður og settir á hann nýir vængir. kr. 3.00.
Nýjar tennur settar i munn Sankti Péturs og fjaðrirnar á honum lagaðar. kr. 1.30.
Himininn víkkaður og talsvert sett upp af nýjum stjörnum. Hreinsunareldurinn endurbættur og ásjóna djöfulsins lagfærð. kr. 1.09.
Heilög Magdalena (sem var hreint ónýt) gerð upp. kr. 5.00.
Silfurpeningar Júdasar húðaðir. Farið yfir forsjálu meyjarnar og dyttað að þeim á nauðsynlegustu stöðum. kr. 1.08
Hárið á jómfrú Súsönnu endurnýjað ásamt skeifunum á hesti Elísar. Mjói vegurinn breikkaður smávegis. kr. 3.24.
Gáfulegri svipur settur á Jósef, kona Pótífars olíuborin, heimsendir lengdur lítilsháttar þar sem hann var heldur stuttur kr. 3.07.
Samtals kr. 41.32.

Og að allt öðru...

Á morgun ætla ég að fara í sveitina og freista þess að hjálpa til við að smala, en nánar um það síðar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 956
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 1694
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 393855
Samtals gestir: 43906
Tölur uppfærðar: 27.7.2024 05:32:03
clockhere

Tenglar

Eldra efni