03.11.2010 19:26

Siggi Þór og Fiatinn hans


Fiat 600 ásamt stoltum eiganda sínum.

666. Í tilefni af sjötugsafmæli Sigurðar Þór Haraldssonar datt mér í hug að rifja upp nokkurra áratuga gamla sögu sem tengist þeim ágæta manni. Hún gerðist seinni hluta sjöunda áratugsins og Siggi átti þá heima á Hávegi 7, eða nánar tiltekið í húsinu sem Óli Kára býr í núna. Hann var þá ungur maður og tiltölulega nýbyrjaður að búa. Eins og algengt er með ungt fólk sem her að feta sig út í alvöruna, sníður það sér þrengri stakk eftir vesti en síðar gerist yfirleitt, því efnin eru jú undantekningalítið talsvert minni framan af. Þessi formúla átti alla vega við þau Sigga og Mæju hvað bílakostinn snerti, því heimilisbíllinn var af gerðinni Fiat 600.

Fiat 600 og er sennilega einn minnsti bíllinn sem Fiat verksmiðjurnar hafa framleitt og var því uppnefndur Dúkkubíllinn m.a. af  guttunum sem héngu gjarnan úti á kvöldin þarna á brekkunni og fannst þetta ekki mjög mikið tryllitæki.

Það má eiginlega segja að bíllinn hafi orðið fyrir eins konar einelti og það var hreinlega litið niður á hann vegna smæðarinnar. En Siggi komst allra sinna ferða á Dúkkubílnum eftir því sem ég best veit og útgerðin hefur eflaust verið mjög prattísk.

 

En það var ekki alltaf sem krakkarnir á brekkunni létu sér nægja að leika sér í yfir, saltað brauð eða felu og eltingaleikjum. Einu sinni varð ég vitni að því að eldri strákarnir sem voru orðnir eitthvað meiri að burðum, lögðu á ráðin að gera aðsúg að þeim litla þá um kvöldið. Þannig var að Siggi lagði bílnum alltaf niður á Hverfisgötu við norðurenda Aðventistakirkjunnar sem síðar breyttist í bílageymslu og enn síðar bílastæði. Lóðin undir Aðventistakirjunni stóð aðeins hærra en gatan, og það var meðal annars eitt af undirstöðuatriðum væntanlegs samsæris. Það átti að lyfta bílnum í skjóli myrkurs þegar flestir brekkubúar voru sofnaðir, upp á bakkann utan og neðan við kirkjuna þannig að þegar Siggi ætlaði í vinnuna morguninn eftir, þá kæmist hann hvergi því bakkinn var sannarlega allt og hár til að keyra niður af honum. Það sem gerðist svo er frekar óljóst í minningunni, en mig minnir að strákarnir hafi látið verða af þessari fyrirætlan sinni og Siggi hafi gengið til vinnu morguninn ókátur í meira lagi. Mig rekur líka minni til þess að hann hafi komið í morgunkaffinu með flokk manna til að lyfta bílnum niður á götu og að þeim sem frömdu verknaðinn hafi verið blótað í sand og ösku meðan á björgunaraðgerðunum stóð. Ég held að þetta sé sami bíllin og Jóhann Sigurðsson (Jói Bö) eignaðist síðan, en hann málaði hann ljósbláan og ók á honum um götur bæjarins öll mín unglingsár.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 51
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 514
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 372349
Samtals gestir: 41095
Tölur uppfærðar: 22.6.2024 01:45:15
clockhere

Tenglar

Eldra efni