11.11.2010 00:00

Meira um Gest Fanndal

671. Ég nefndi hér að neðan (blogg frá 7. nóv.) að Gestur Fanndal kaupmaður hefði verið umboðsmaður flugfélagsins Vængja meðan það hélt uppi ferðum til Siglufjarðar. Daginn eftir rakst ég á stutt spjall við Gest sem birtist í Mogganum þ. 1. okt. 1967.

Ég rakst líka á skemmtilega grein eftir Jón Sæmund Sigurjónsson þar sem Gestur kemur lítillega við sögu og fer hér á eftir sá kafli hennar sem fjallar um fjölda matvörubúða á Siglufirði á árum áður.

"Matvörubúðir voru all margar eins og hæfði stórum bæ. Ekki fann ég fyrir verslun Gests Fanndal þótt ég gengi niður Suðurgötuna í þá daga. Í húsi hans á Suðurgötu 6 var þá rakarastofa Jónasar, en mér þótti lengi vel skrýtið að Gestur ætlaði að hafa búð í rakarastofunni þegar að því kom. Gestur var með sína matvörubúð í Aðalgötu 20, útibú úti í Bakka eins og áður sagði, og vefnaðarvörudeild hinum megin á horninu í Aðalgötu 15, en uppi bjó Addi Þuru vinur minn með sína fjölskyldu. Þegar Gestur flutti með verslanir sína í Suðurgötu 6, tók Sófus Árnason og Sigurður sonur hans við húsnæðinu í Aðalgötu 20 og ráku þar Litlu búðina, en glæsilegur jólabasar þeirra líður seint úr minni. Í mörg ár rak Jóhann Stefánsson, sem eiginlega var þekktari sem Jói dívana, Eyrarbúðina þar við hliðina og seldi sápusælgætið fræga, en þar hafði Verslunarfélagið verið áður til húsa undir forystu Ásgeirs Jónassonar. Seinna rak Ásgeir samnefnda verslun í Aðalgötu 14. Umfangsmestu matvöruverslunina rak sennilega kaupfélagið að Aðalgötu 32, þar sem Haraldur frændi minn Árnason og Fanna á Eyri voru fremst í flokki í mínum huga. Verslunarfélagið við Túngötu 3 með þá bræður Þórhall og Ásgeir Björnssyni að ógleymdum sjálfum Jónasi Ásgeirssyni var mjög umfangsmikið, en einnig var þó nokkur verslun hjá Pétri Björnssyni, sem hafði sína matvörubúð eiginlega á annarri hæð við Aðalgötu 25, á horni Grundargötu beint á móti Aðalbúðinni, en þar hitti maður ljúfmennin Helga í Lindarbrekku og Ragga sendil fyrir. Elstu búðirnar, sem ég man eftir á þessu sviði voru Verslun Sveins Hjartar, þar sem Hannes Guðmundsson réði ríkjum, en hún var við Aðalgötu 7, þar sem seinna var áhaldadeild Kaupfélags Siglfirðinga, verslun Halldórs Jónassonar í Aðalgötu 3 og svo verslunin Frón í Vetrarbraut hjá Dóra, en hjá Dóra í Frón stofnuðu tveir ævintýramenn fornsölu, sem þeir ráku í nokkur sumur. Verslunin Hamborg var neðst í Aðalgötu 1, en hún verslaði með fleira en matvöru."



Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 450
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 2014
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 485128
Samtals gestir: 53494
Tölur uppfærðar: 10.12.2024 15:19:14
clockhere

Tenglar

Eldra efni