12.11.2010 06:00

Geimgrjót og hornsteinar


(Ljósmynd af visir.is)

672. Nýbygging Háskólans í Reykjavík við Nauthólsvík var að forminu til tekin í gagnið í gær þ. 11. nóv. Bakhjarlar skólans en voru ekki nafngreindir í fréttum gærdagsins, gáfu honum loftstein sem komið verður fyrir í miðrými skólans sem kendur er við sólina. Segja má að húsið sé svolítið "speisað" því þema hússins er jörðin og himingeimurinn og hlutar þess eru til að mynda. nefndir eftir hlutum sólkerfisins svo sem plánetum. En um steininn er það að segja að hann mun vera hluti af geimgrjóti sem féll á jörðina fyrir um 4000 einhvers staðar í suður Ameríku. Efnasamsetningin bendir svo til þess að hann sé kominn úr iðrum plánetu sem hefur sundrast fyrir hugsanlega milljónum ára og síðan ferðast einhverjar aðrar milljónir ára þar til hann lenti á áfangastað.

Ari Kristinn Jónsson sem var eitt sinn starfsmaður Nasa en er nú rektor skólans, fagnaði áfanganum í spjalli bæði á Rás 2 og Bylgjunni í gær. Hann sagði m.a. það það væri miklu frekar við hæfi að fá loftstein en hornstein vegna lögunar miðrýmis hússins, en það er hringlaga bygging.

Á honum mátti einnig skilja að enginn loftsteinn hefði nokkru sinni fallið til jarðar á Íslandi svo vitað væri og því hefði þurft að sækja þann sem um ræðir um langan veg.

 


(Mynd af xenophilius.wordpress.com)

Þessi loftsteinsumræða varð til þess að það rifjaðist upp gamalt mál frá Siglufirði og eftir svolitla leit fannst grein í Tímanum frá Sunnudeginum 26. nóvember 1961.

"Fyrsti loftsteinn féll hér á landi - í viðurvist sjónarvotta

Páll Bergþórsson veðurfræðingur skýrir frá því í nýju hefti af Veðrinu, tímariti um veðurfræði, að árdegis 6. september í haust hafi loftsteinn fallið á Siglufirði, og er

þetta í fyrsta skipti, að loftsteinn eða brot úr loftsteini finnst hérlendis. Steinninn er

tveir sentimetrar, eða rúmlega það á þann veginn, sem hann er stærstur. Það er i frásögur færandi, að bifreiðarstjóri á Siglufirði, Jón Þorsteinsson, varð sjónarvottur að því, er steinninn kom til jarðar. Jón fór þegar með steininn í lögreglustöðina á Siglufirði. Sagðist honum svo frá, að hann hefði komið auga á blys á lofti í suðvestri. Nálgaðist það, óðfluga, og fylgdi hann því eftir með augunum. Virtist honum það ætla að fljúga beint á bílinn. En þó fór betur en á horfðist, því að það skall á járngjörð á síldartunnu, rétt hjá honum. Jón sá þegar, að þetta myndi vera loftsteinn, og duldist honum ekki, að hann hafði orðið hér vitni að harla sjaldgæfum atburði. Steinninn flattist út, er hann lenti á járngjörðinni, og ber hann greinileg merki eftir höggið. Dálítið af ryðkornum úr gjörðinni hefur einnig runnið saman við bráðinn steininn. Steinninn hefur ekki verið efnagreindur enn."

 

Við Jón unnum saman um tíma í frystihúsi SR. við Vetrarbraut og einhverju sinni barst talið í kaffistofunni að loftsteininum. Hann sagðist ekkert vita af afdrifum hans og varla hafa verið þakkað fyrir að skila honum af sér á sínum tíma. Hann lýsti komu hans til jarðar þannig að fyrst hefði hann séð eitthvað sem líktist blysi með rauðbláum hala fara hratt yfir himininn. Honum hefði ekkert litist á blikuna því það hefði stefnt á sig, en þetta hefði allt gerst svo hrann að það var enginn tími til að hugsa til þess að forða sér. Hann hefði síðan smollið á jörðinni rétt við bílinn og verið á stærð við hálfan eldspýtustokk eða tæplega það.

 

Ég velti fyrir mér hvað hann er niður kominn í dag...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 439
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 2014
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 485117
Samtals gestir: 53494
Tölur uppfærðar: 10.12.2024 14:30:32
clockhere

Tenglar

Eldra efni