14.11.2010 05:02

Selaveisla 2010



673. Í gærkvöldi var ég að spila í enn einni selaveislunni
og var hún haldin í Haukahúsinu hérna í Hafnarfirði fimmta árið í röð. Síðustu árin hefur aðsóknin verið á bilinu 200-250 manns og ef mér er ekki farið að förlast því meira, þá er þetta níunda árið í röð sem ég er að spila fyrir þennan frábæra hóp.



Svo vel vildi til að Axel Einarsson stórpoppgúrú og gítarleikari var staddur á landinu, ég hóaði í hann og mætti sá góði maður á pallinn fyrir minna en eitt orð.




Það er komið vel á þriðja áratug síðan grunnurinn var lagður að þessum mannfagnaði sem er orðin snar þáttur í félagslífi svokallaðra eyjabænda og afkomenda þeirra úr Breiðafirðinum. Í seinni tíð hefur það svo orðið hluti af hefðinni að halda mannfagnaðinn annan laugardag nóvembermánaðar. Þetta byrjaði allt saman í einhverjum beitningarskúr einhvers staðar fjarri mannabústöðum (líklega vegna lyktamengunarinnar), en hópurinn sem hafði alist upp við og ánetjast selaafurðunum stækkarði ört og þar kom að það þurfti að leigja samkomusal undir herlegheitin. Ekki liðu mörg ár þar til  þurfti að leigja stærri sal og fáum árum síðar enn stærri. Upphaflega voru veisluföngin eingöngu selaafurðir, en miðast nú orðið við það sem fólk í Breiðafjarðareyjum lagði sér til munns "heilt yfir" ef þannig mætti að orði komast. Hráefnið er og hefur ýmist komið upp úr sjónum eða af sjálfum eyjunum, þ.e. selur, fugl og fiskur ýmis konar auk lambakjöts. Skemmtileg viðbót við það sem áður hefur sést á borðum var súshiverkuð langreyður og hvalrengi sem er auðvitað pínulítið forskot á Þorrann. Veislugestir risu líka úr sætum og hrópuðu hátt og snjallt húrra fyrir Kristjáni Loftssyni














Veisluborðið sem var boðið upp á átti þó lítið skylt við réttinn "selspik og siginn fiskur" eins og ég kynntist þó alveg ágætlega í æsku, því hið hlaðna borð hefði bæði getað sómt sér með afbrigðum vel t.d. í Versölum á dögum Loðvíks 14. en einnig fengið og það án nokkurs vafa afar jákvæða gagnrýni á öllum betri veitingastöðum utan lands sem innan í dag.




Það var reyndar enginn aukvisi sem stóð fyrir hinni veglegu uppákomu hins sérstæða en þjóðlega fóðurs sem þarna var boðið upp á. Sá heitir Guðmundur Ragnarsson og er sonur Ragga sem rekið hefur veitingastaðinn Lauga-ás frá upphafi og fyrrverandi landsliðskokkur að auki. Hann hefur verið að elda fyrir ekki ómerkara fólk en Pierce Brosnan, Angeline Jolie, Kenneth Branagh og slíka Íslandsvini meðan þeir hafa staldrað við á skerinu ásamt því að sjá til þess að Latabæjargengið hafi ekki þurft að mæta í tökur með tóman maga. Það er annars alveg hreint ótrúlegt hvernig selurinn, signi fiskurinn, fuglinn og allt hitt getur breyst í ómótstæðilega veislurétti eftir að Gummi hefur farið um þá höndum.




Veislustjóri var svo Níels Árni Lund skrifstofustjóri í landbúnaðar og sjáfarútvegsráðuneytinu, en hann kann alveg hæfilega mikið af tvíræðum limrum og smásögum sem fáir koma betur til skila en hann sjálfur. Honum er ýmislegt til lista lagt og hefur hann m.a. gefið úr dist með gamanvísnasöng auk þess sem hann var að gefa út mikla og góða bók á dögunum. Sú heitir "Af heimaslóðum" og þar er rýnt í samfélagið við Leirhöfn á Melrakkasléttu á arum áður. Ég varð mér auðvitað úti um áritað eintak af bókinni, því ég veit að Níels er fróður, minnugur, hefur upplifað margt og segir mjög skemmtilega frá. Ég treysti mér þess vegna vel til að mæla með bókinni áður en ég hef lesið hana, - hugsiði ykkur.



Og svo var dansað...

En P.S. Addi Kitta Gau var á staðnum og ég sá ekki betur en hann fengi sér svolitla ábót, annars sýndist mér hann reyndar hafa "þrengst" oggolítið um miðjuna.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 445
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 2014
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 485123
Samtals gestir: 53494
Tölur uppfærðar: 10.12.2024 14:53:00
clockhere

Tenglar

Eldra efni