12.12.2010 21:14

Að lifa af listinni

                                      

681. Ég rakst eitt sinn á skondið máltæki þar sem segir: "Ekki reyna að lifa á listinni, flestir deyja af henni." Og mikið rétt, margir listamenn sem hara skarað fram úr voru fátækir alla sína hunds og kattartíð og áttu sjaldnast til hnífs og skeiðar. Þeir urðu síðan yfirleitt ekki "ríkir" fyrr en mislangt var liðið frá andláti þeirra og þá er eins og gefur að skilja fullseint að njóta árangurs erfiðisins. En svo eru auðvitað til undantekningar á þessu sem er auðvitað gott fyrir listamanninn. Ein af þeim sárafáu sem við þekkjum í nútímanum hér á Fróni og sem slíkt gæti átt við er sennilega Björgvin Halldórsson.

Talnaglöggur endurskoðandi sem ég þekki lítillega af afspurn, fór nýverið á tónleikana "Jólagestir Björgvins" en þeir hafa notið gríðarlegra vinsælda í ár. Eins og kannski er ekki svo óeðlilegt þegar slíkur maður á í hlut, eru málin jafnframt skoðaðir með öðrum og annars konar gleraugum en aðeins þeim listrænu. Eftir tónleikana sagði þessi ágæti maður að tónleikarnir hefðu verið frábærir í alla staði og jafnvel þeir bestu sem hann hefði sótt í langan tíma. En hann hafði líka kynnt sér aðsóknina á alla tónleikana hér syðra og margfaldaði þá tölu með miðaverðinu. Heildarniðurstöðutölur voru samkvæmt þeim útreikningum u.þ.b. 70 milljónir og þá var enn ekki búið að syngja sig inn í hjörtu Akureyringa, en þar voru fyrirhugaðir tvennir tónleikar. Þessi ágæti maður spurði nokkra stórpoppara út í líklega stærð kostnaðarliða við tónleikahald og hverjar gætu verið eðlilegar greiðslur til annarra þeirra sem fram komu, en síðan hélt áfram að reikna. Eftir að hafa hugsað málið fram og til baka í nokkurn tíma spurði hann svolítið annars hugar hvort það gæti verið að Bjöggi væri að hafa 25-30 millur út úr jólabransanum. Þessu gat auðvitað enginn svarað því að bókhald stórsöngvarans er bæði lokað og ógagnsætt, en það er auðvitað gleðiefni ef einhverjum gengur vel í kreppunni.


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 100
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 318127
Samtals gestir: 34904
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 08:28:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni