03.08.2011 12:56
Á Síldarævintýri 2011
Það var þéttbýlt á flestöllun grænum svæðum í bænum og þó sést ekki nema hluti af tjaldsvæðunum. Það vakti þó athygli mína að venjuleg tjöld var því sem næst hægt að telja á tám og fingrum.
736. Margir trúbadorar og
hljómsveitir stigu á pall á nýliðnu Síldarævintýri, en eftir að hafa farið yfir
fréttaflutning á Sksiglo.is, siglfirðingur.is og 625.is, má sjá að tónlistarfólk
hefur höfðað mismikið til umsjónarmanna umræddra fréttavefja. Mig langar því að
minnast örlítið á þá sem fengu þar enga umfjöllun eða sáust hvergi á þeim fjölmörgu
myndum sem birtar hafa verið síðustu daga. Varla verður þó plássleysi kennt um,
því ágætar myndir var að finna t.d. af Hólshyrnunni, ein virkilega falleg sólarlagsmynd,
bátur að sigla út fjörðinn, bílar á leið um Héðinsfjarðargöng auk mynda þar sem
gangnamunnar eru í forgrunni, mávur sem horfir svolítið undirfurðulega á íslenska
fánann blakta við hún, nokkrar fallegar bæjarmyndir í talsverðum fjarska, nokkrum
vel til höfðum húsum sem hefðu getað verið teknar hvenær sem er og hafa takmarkaða
skírskotun til þessarar bæjarhátíðar og svo mæti lengi telja. Allt saman
flottar og vel teknar myndir, en tengingin við iðandi mannlífið í bænum er
vandséð.
Edda Heiðrún Backman hefði að ósekju mátt fá meiri umfjöllun, en hún hélt málverkasýningu í Veiðarfæraverslun Sig. Fanndal sem nú heitir Svarta Krían. Því var hvíslað að mér að skömmu áður en sýningunni lauk, hafi hún verið búin að selja allar myndirnar nema tvær, en það skal ítrekað að það eru óstaðfestar fréttir.
Hin stórskemmtilega hljómsveit
Papar, steig á sviðið við Ráðhústorg og lék síðan fyrir dansi á Allanum. Tónlist
þeirra með sínu Keltneska yfirbragði hefur löngum farið vel í landann, enda
ekkert skrýtið þar sem genasamsetning okkar Íslendinga er að stórum hluta af
þeim stofni. Það er því ekkert undarlegt þó okkur renni blóðið til taktsins og
tónlistarinnar sem fær jafnvel þunglamalegustu fýlupúka til að brosa út í annað
og dilla sér.
Ég heyrði á tal fólks sem fannst greinilega mikið til um hvað miðbærinn er afgerandi á Siglufirði, vegalengdir stuttar milli Ráðhústorgs, tjaldsvæðis, allrar verslunar og þjónustu að ógleymdri smábátahöfninni og Rauðkusvæðinu. Þetta er auðvitað alveg einstakur bær.
Þegar ég heyrði að
Fjallabræður ættu að troða upp á föstudagskvöldinu, datt mér strax í hug Óli
Palli og félagar hans sem starfað hafa undir því nafni á Reykjavíkursvæðinu.
Þeir munu hins vegar ekki hafa verið á faraldsfæti um helgina, heldur mætti til
leiks samnefnd hljómsveit héðan úr Fjallabyggð sem var sett saman að mér skilst
sérstaklega fyrir þetta kvöld. Og ég komst reyndar að því að það voru fleiri
sem héldu það sama og ég. Mér datt í hug að vel væri hægt að aðgreina þessa hópa
tónlistarmanna með því að nefna þá Fjallabræður nyrðri og Fjallabræður syðri, líkt
og Fjallabaksleið nyrðri og syðri sem var nokkuð í umræðunni þegar hljóp í Múlakvísl.
Það munu hafa verið þeir Gísli Rúnar, Maggi Ólafs, Rúnar Sveins og Ási Tona sem
mynduðu þetta band. Harðsnúinn hópur reynslubolta sem eru flestir tónlistarvegir
færir. Því miður var ég alveg upptekinn annars staðar og náði því hvorki að
heyra og sjá Papana né Fjallabræður (nyrðri) og á því enga mynd af þessum
megaböndum.
Cargo á Ráðhústorgi. Upp kom sú kómíska og í raun óvitlausa hugmynd að nefna hljómsveitina Cargolux að þessu sinni. Rökun voru þau að þetta væri eins konar deluxe útgáfa af þeirri gömlu vegna fjölgunarinnar.
Hljómsveitin Cargo "var uppi" á árunum 1986-1989 og átti alveg frábært "kombakk" um helgina. Á sínum tíma voru meðlimir hennar lengst af þeir Steini Sveins, Jói Abbýar, Össi Gunnu, Jón Erlings að ógleymdum Leifa Elíasar. Stjarna þeirra reis e.t.v. hæst þegar þeir unnu hljómsveitarkeppni á Skeljavíkurhátíð sem Bítlavinafélagið stóð fyrir. Það var árið 1988 og þeir fluttu þar fjögur frumsamin lög og fengu að launum hljóðverstíma í hljóðveri þeirra Bítlavinafélagsmanna. Þar sem þeir Jón og Leifi áttu ekki heimangengt um helgina voru kallaðir til afleysingamenn sem voru ekki af verri endanum. Það voru þeir Þröstur Þórhallsson gítarleikari úr Saga Class og Kiddi (kennari) Kristjáns Óla. Auk þeirra bættist við söngkonan Sesselja Magnúsdóttir við, en hún hefur sungið með hljómsveitum á borð við Áttavillt og Saga Class. Cargo kom fram á föstudagskvöldið og þá hlustaði ég alveg agndofa á þetta þétta og skemmtilega band, en svo voru þeir aðalhljómsveitin á laugardagskvöldinu á Ráðhústorgi.
Vanir menn á Ráðhústorgi
Við "strákarnir" í Vönum
Mönnum spiluðum fjórum sinnum á þeim þremur dögum sem sjálft ævintýrið stóð
yfir. Fyrst á litla pallinum á Rauðkutorgi föstudagskvöldið, en það hafði þá
hafði fengið yfir sig myndarlegt "parruk" til varnar lítilsháttar úrkomu, síðan
á stóra sviðinu við Ráðhústorg og aftur á Rauðkutorgi á laugardagskvöldinu. Á
þeim ágæta bæ töldu menn að þar hafi verið samankomið hátt í þúsund manns á öllu
svæðinu. Ekki vil ég þó fullyrða neitt um það en þegar ég leit upp úr texta og
nótnabókinni, sá ég að sundið milli Hannes Boy og Rauðku var sneysafullt stafna
á milli, örtröð var fyrir framan pallinn hjá okkur, innan dyra var Kaffi Rauðka
greinilega full af fólki og talsvert mannhaf var til beggja hliða frá okkur séð.
Þá heiðraði Baldvin Júlíusson fyrrum söngvari hinna landsfrægu Gauta, okkur með
nærveru sinni og söng nokkur lög sem hljómuðu gjarnan á Gautaböllunum fyrir
hartnær hálfri öld.
Vanir Menn á Kaffi Rauðku
Á sunnudagskvöldinu hafði útihitinn
lækkað svolítið og við vorum fluttir inn í stóra salinn á Rauðku. Þar myndaðist
notaleg stemming þegar leið á kvöldið, nokkur ágætlega fótmenntuð pör nýttu sér
"frímerkið" fyrir framan sviðið og fengu sér snúning.