16.10.2011 14:11

Stóri slagurinn og eldsvoðinn á Hótel Höfn



761. Úrklippuna hér að ofan fann ég í Lesbók Morgunblaðsins frá 23. ágúst 1959. Ég minnist þess að í mínu ungdæmi heyrði ég oft talað um "stóra slaginn" á Höfninni, en það var ekki fyrr en löngu síðar að ég gerði mér grein fyrir því hve mikið gekk þarna á. Ég minnist þess líka að hafa á árum áður heyrt mér talsvert eldri menn hafa haft þau orð um ýmsar fréttir sem birtust af þessum atburði, að ekki væri alltaf allt sagt. Stundum væri reynt að fegra þátt lögreglunnar og því jafnvel haldið fram að gasnotkunin hefði hreint ekki verið eins nauðsynleg og ýmsir vildu vera láta. Einn lögregluþjónanna ellefu hefði einfaldlega "panikað" og það hefði ekki verið fyrr en eftir að sá annars ágæti maður hleypti af fyrsta táragasskotinu, að allt varð endanlega vitlaust. Það var jafnvel gengið svo langt að halda því blákalt fram að ef hann hefði ekki gert það, þá myndi tjónið ekki hafa orðið mikið meira en þessi eina rúða sem var ástða þess að lögregla var kölluð til. En það er nú stundum svo margt sagt og yfirleitt mest eftir á.

 

Á árunum upp úr 1970 vann ég í frystihúsi S.R. við Vetrarbraut, en þar var kaffistofan fyrir mér eins og risastór gluggi til fortíðar. Þar heyrði ég margar krassandi og stórskemmtilegar sögur og menn skiptust á skoðunum, stundum ekki alveg hávaðalaust. Þarna voru margir og miklir snillingar saman komnir, bræðurnir Bjössi og Jón Frímannssynir, Siggi frá Dalabæ, Hallur Garibalda, Sigurjón Sigtryggs, Jóhannes Hjálmars, Jóhannes Jóseps, Friðrik Márusson, Hafsteinn Hólm, Kári Sumarliða og Ingimar Láka svo einhverjir séu nefndir. Ég man eftir að a.m.k. einu sinni var "stóri slagurinn" tekinn fyrir á Kaffistofunni og menn skiptust í nokkuð afgerandi hópa þegar rætt var um hver hinn raunverulegi sökudólgur var.

 

Á síldarævintýrinu 2010 átti Gunnar Smári alveg frábært viðtal við Ragnar Pál listmálara og gítarleikara um "stóra slaginn" á Höfninni. Ragnar mundi þetta allt saman greinilega mjög vel og sagði bæði frá aðdragandanum og því sem á eftir gekk. Eitt af því sem kom einkar vel fram í frásögn hans var, hve eyðileggingin var gríðarleg og að almennt var talið að langan tíma myndi taka að gera húsið nothæft á ný. Reyndar var það skoðun flestra nema "Palla á Höfninni" sem var hinn bjartsýnasti að venju og taldi lítið mál að klára þetta fyrir næstu helgi. "Þetta er ekkert mál" sagði hann og flest allir iðnaðarmenn í bænum unnu á staðnum alla vikuna frá því eldsnemma á morgnana og langt fram á nótt. Næstu helgi mun svo hafa verið haldinn dansleikur í nýuppgerðri Hótel Höfn.





Þessi "heimildamynd" birtist í Alþýðublaðinu þ. 28. júlí og þar fer vissulega ekkert á milli mála að þarna hefur gengið mikið á. Dansleikurinn hófst um kvöldið laugardaginn 25. júlí og ekkert bennti til annars en þetta yrði bara venjulegur en að vísu óvenju fjölsóttur dansleikur. Ölvun mun þó hafa verið í meira lagi, eða kannski fannst mönnum það bara vegna fjöldans, en lætin munu svo hafa svo hafa byrjað þegar nokkuð var komið fram yfir miðnættið og hinn skráði dagur "stóra slagsins" er því 26. júlí.

Í næst, næsta húsi og örlítið sunnar í Lækjargötunni var staðið á bak við gluggatjöldin í myrkvuðum herbergjunum og fylgst náið með atburðarrásinni. Til gamans má svo geta þess að þá sömu nótt meðan slegist var úti á götunni og nánast undir húsveggnum, fæddist Erla Gull inni í því sama húsi. 



Fimmtudaginn 23. júlí 1959 fyrir birtist þessi auglýsing í Mogganum. Ég hafði aðeins heyrt talað um Palla á Höfninni sem þann mann sem rak hótelið og engan annan. Hann var í mínu minni sá sem var alltaf nefndur um leið og hótelið og hótelið alltaf í sömu setningu og hann. En hver var þá þessi Guðrún Matthíasdóttir sem var að auglýsa heitt og kalt vatn á öllum herbergjum og hið vinsæla kalda borð. Það er oft haft á orði að sjaldan falli eplið langt frá eikinni og það á ágætlega við um Palla og dóttir hans Birgittu, en Bigga Páls rekur í dag Hótel Hvanneyri eins og bæjarbúar vita. Ég spurði hana hver Guðrún Matthíasdóttir væri og hún vissi auðvitað allt um það. Guðrún var ekkja Gísla fyrrum hótelhaldara sem lést árið áður í eldsvoða ásamt syni sínum. Ég sem hélt alltaf að Palli á Höfninni hefði verið eigandi hótelsins, sennilega hve nafn hans var alltaf nátengt því og rekstri þess, var nú leiddur í allan sannleika um að svo hafði ekki verið. Eftir að Gísli lést á svo sviplegan hátt sem raunin varð árinu fyrir "stóra slaginn", rak Palli hótelið fyrir Guðrúnu í hartnær áratug, eða þar til Steinar Jónasson keypti það.




Að morgni dags miðvikudaginn 19. mars 1958, kom upp mikill eldur á miðhæð hótelsins sem magnaðist mjög fljótt. Eftirfarandi frásögn birtist í Alþýðublaðinu strax daginn eftir.


"FEÐGAR BÍÐA BANA Í ELDSVOÐA Á SIGLUFIRÐI.

Tvær efstu hæðirnar af Hótel Höfn brunnu til ösku í gærmorgun. Sex ára drengur brann inni, en faðir hans lést af brunasárum sem hann hlaut við að reyna að bjarga drengnum.

Stórbruni varð á Siglufirði í gærmorgun, þegar tvær efri hæðir á Hótel Höfn brunnu til ösku. Eigandi hótelsins, Gísli Stefánsson, og sonur hans, sex ára gamall, fórust í eldsvoðanum. Kona Gísla og tvö börn þeirra sluppu út með naumindum.

Hótel Höfn var þriggja hæða forskalað timburhús. Var nýbúið að byggja við það og standsetja neðstu hæðina. Hótelstjórinn, Gisli Stefánsson, bjó á miðhæðinni ásamt fjölskyldu sinni, konu og fjórum börnum. Einnig bjó einn maður á efstu hæð hússins. Eldsins varð vart um kl. 8 í gærmorgun og magnaðist hann mjög fljótt. Elzti sonur hjónanna, 13 ára gamall, var nýfarinn í skóla, eða um 15 mínútum fyrir átta, og þá bar ekki á öðru en að allt væri með felldu, en kl. 8 var húsið alelda. Kona Gísla komst út um aðaldyrnar við illan leik og rétt á eftir var yngsta barni hjónanna, 5 ára, bjargað út um aðaldyr. Skömmu síðar tókst öðru barni, 11 ára gamalli stúlku, að komast út um glugga á austurhlið hússins með naumindum.


FLEYGÐI SÉR ÚT UM GLUGGA

Gísli mun hafa snúið við til svefnherbergisins til að ná í son sinn Stefán, sem varð 6 ára daginn áður. Þar hefur eldurinn gosið á móti honum og mun hann aldrei hafa náð til drengsins, sem fórst í eldinum. Meðan þessu fór fram varð húsið alelda. Urðu þeir, sem unnu að slökkvistarifinu, varir við að Gísli braut glugga á annarri hæð og kastaði sér út. Var hann þá all mikið brunninn og hafði skorizt mikið af glerbrotum. Var hann þegar fluttur í sjúkrahús, lézt hann þar skömmu seinna.


ALELDA Á 5-10 MÍNÚTUM

Þrátt fyrir að slökkviliðið kom á vettvang og hóf slökkvistarf örskömmu eftir að eldsins varð vart, fékk það ekki við neitt ráðið, því húsið varð alelda á 5-10 mínútum. Tókst með naumindum að verja næstu hús, þrátt fyrir að veðurvar mjög gott þegar þetta gerðist. Sem fyrr segir var Hótel Höfn forskalað timiburhús, en á milli fyrstu og annarrar hæðar var steingólf, sem eldurinn komst ekki í gegn um. Eldsupptök eru ókunn, en rannsókn stendur yfir."




Þetta var hörmulegur atburður, mikil sorg ríkti í bænum og fánar voru hvarvetna dregnir í hálfa stöng. Gisli sem var vinsæll maður og vel látinn, fæddist að Smyrlabergi í Húnavatnssýslu, missti föður sinn mjög ungur og þurfti snemma að sjá sér farborða. Hann var enn á unglingsaldri þegar hann hóf störf hjá Ríkisskipum, en eftir að hafa starfað þar um nokkurra ára skeið lærði hann til þjóns á Hótel Borg. Árið 1943 flyst hann til Siglufjarðar ásamt konu sinni og tók þá við rekstri að Hótel Hvanneyri. Einhverjum árum síðar kaupar hann Hótel Höfn sem hafði þar til hann eignaðist það, heitið Hótel Siglunes. Seljandinn var Hinrik Thorarensen sem mun hafa byggt það. Gísli rak eftir það bæði hótelin eða allt þar til þessi hræðilegi atburður átti sér stað.


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480914
Samtals gestir: 53310
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 05:38:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni