21.11.2011 23:14

Nú er liðin kattartíð

                          

773. Í dag kvaddi þennan heim hinn stórglæsilegi norski skógarköttur Tímon, en hann fékk nafn sitt strax á sínu fyrsta kattarári frá vinslæum marketti sem var óaðskiljanlegur vinur vörtusvínsins Púmbu. Hann kom inn á heimilið aðeins átta mánaða gamall fyrir rúmum sautján árum síðan. Heimsóknin átti að vera stutt, því hann var á leiðinni í hina endanlegu svæfingu, rétt eins og fóstbróðir hans hafði komið skömmu áður. Örlögin höfðu greinilega önnur plön en þáverandi aðstandendur hans, áætlanir breyttust snarlega eftir ærsl og leik um gólf og húsgögn og hann fór aldrei lengra, - fyrr en núna. Hann gerðist í kvölfarið fullgildur fjölskyldumeðlimur fyrir fullt og fast og var það alla sína kattartíð, allt til hinsta dags.




Fyrir var á heimilinu Tómas Brjánn Margrétarson og þeir uppeldissynir og fóstbræður áttu samleið í blíðu og stríðu næstu fimmtán árin, eða þar til sá síðarnefndi kvaddi þennan heim saddur lífdaga um mitt sumar 2008 eftir að hafa fengið hjartaáfall og barist við ýmsa krankleika því tengda. Auðvitað áttu þeir félagarnir það til að taka heilmiklar rispur og stundum hélt ég að nú myndu þeir hreinlega ganga hvor frá öðrum, en þeir náðu alltaf saman á endanum og urðu hinir mestu mátar á ný. Þegar Tómas var horfinn á braut var hans leitað í nokkurn tíma, en þegar hann fannst ekki tók við tímabil deyfðar og söknuðar. En sagt er að tíminn lækni öll sár og vonandi gerði hann það einnig í þessu tilfelli. Hjartnæm og tregafull eftirmæli Tómasar er að finna á slóðinni http://leor.123.is/blog/2008/07/13/268936/




Tímon var stundum strítt pínulítið og þá gjarnan uppnefndur "Grái fiðringurinn" vegna háralitsins, en hann tók því aldrei illa og ekkert benti til þess að hann erfði slíkt við þá sem það gerðu. Það er auðvitað til marks um framúrskarandi gott geðslag hans og umburðarlyndi.




Um tíma bjó tíkin Aría einnig á heimilinu, en hún sem er með geðbetri og þægilegri hundum sem ég hef kynnst um dagana. Tímon var samt ekkert sérlega spenntur fyrir að deila heimili sínu með henni, sniðgekk hana því og dvaldi langdvölum í gluggakistum og uppi á stólbökum þaðan sem hann horfði makindalega niður á hana. Og ég er ekki frá því að það hafi jafnvel mátt greina einhvers konar afbrigði af lítisvirðingu í auknaráði hans svona endrum og sinnum. 


Einhverju sinni gerði Tímon þó alvarlega tilraun til að losa sig við Aríu meðan enginn "fullorðinn" var heima til að gæta þeirra sambýlinganna. Eins og hann hafði svo oft gert áður og kunni svo vel, opnaði hann hurðina fram í sameignina og hleypti hundinum út. Á einhvern óútskýranlegan hátt hefur hún síðan lokast aftur, því þegar heimilisfólkið kom heim var voffi lokaður frammi á stigapalli og bar sig heldur aumlega yfir að komast ekki inn. En kisi virtist hins vegar vera svolítið hissa þegar einverunni og rólegheitunum lauk skyndilega, dyrnar opnuðust og Aría fór fyrir hersingunni sem datt inn úr dyrunum.

                           


Sá grái fékk í það skiptið engar sérstakar þakkir fyrir uppátækið þó hann sjálfur hafi eflaust haft sína skoðun á því máli, og gott ef einhvar sagði ekki stundarhátt, en þó með illa dulið bros á vör; "skamm kisi". Þegar hugsað er til þessa atviks, kemur kunnulegt textabrot upp í hugann: "Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið, það er alltaf að skamma mann." En hvað er svo sem hægt að gera þegar maður er bara köttur.




Hér að ofan getur að líta síðustu myndina sem tekin var af Tímon í lifanda lífi. Hún var tekin í dag skömmu fyrir andlátið. 

Bálför hans fór fram í kyrrþey.


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480837
Samtals gestir: 53309
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 04:33:36
clockhere

Tenglar

Eldra efni