23.02.2012 19:25

Gramsað í gömlum málum






801. í nýliðinni viku réðist ég í talsvert stórvirki sem lengi hefur verið ofarlega á listanum yfir það sem bráðnauðsynlegt hefur verið talið að hrinda í framkvæmd. En það var að taka til í geymslunni, henda öllu því sem var hægt að henda með þokkalegri samvisku og ganga síðan frá því sem eftir væri á sæmilega snyrtilegan hátt. Sem sagt allt í röð og reglu eða þannig. Það er vægt til orða tekið að það hafi kennt ýmissa grasa í öllu því sem farið var höndum (og augum) um og margt var þarna sem teljast verður stórskemmtilegt. Í það minnsta afar fróðlegt og oft vel til þess fallið að vekja upp gamlar og hálfgleymdar minningar um löngu liðna tíð.

Meðal annars rakst ég á heilmikinn bunka af notuðum ávísanaheftum sem ég blaðaði lengi í og vöktu talsverða kátínu hjá afkomendum mínum, en sumir þeirra hafa aldrei á ævinni notað þessa aðferð við að greiða fyrir vörur og/eða þjónustu.

 

Með lestri á svuntum ávísanaheftanna sá ég að ég hafði á árinu 1986 greitt kr. 7.200 í júní fyrir þýðingu á heimildamyndinni Bermúda þríhyrningnum sem við hjá Videóbirninum gáfum síðan út og heilar 27.000 kr. fyrir prentun í Sólnaprenti á fjórum videókápum. Það hefur verið talsvert flandur á mér í ágústmánuði, því ég tek bensín á Hellu fyrir 560 kr. til að komast í bæinn, kaupi dekk á Akureyri fyrir 2.170 kr., annað í Stykkishólmi á 2.240 kr. í vikunni á eftir og tek bensín í Ólafsvík fyrir 900 kr., en á þessum tíma vann ég fyrir mér sem sölumaður og fór þá gjarnan einn hring um landið í hverjum mánuði allan ársins hring. Ég keypti mér bíl fyrir 75.000 í október og borgaði Jonna tannlækni með 10.000 ávísun fram í tímann og annari upp á rúman 7.000 sem mátti fara inn strax, dekkjagang sem kostaði kominn undir 12.840 í nóvember.

 

Í janúarmánuði 1987 heimsótti mig virðulegur kvikmyndagerðarmaður sem kynnti sig og sagðist heita Reynir Oddsson. Ég man að við tókum langt og mikið tal saman sem endaði með því að ég keypti af honum óseldan lager af íslensku myndinni "Morðsaga" sem hann framleiddi og leikstýrði. En þar sem svuntan á ávísanaheftinu hefur blotnað og blekið runnið svo kyrfilega til að það er með öllu ólæsilegt sem á henni stendur, sé ég ekki hvað sú fjárfesting hefur verið stór.

Þá sé ég að ég hef greitt út laun til "Frikka" upp á heilar 6.015 krónur, en umræddur "Frikki" er athafnamaðurinn þekkti Friðrik Weisshappel sem þá var nýorðinn 17 ára og tók eina og eina kvöldvakt með skólanum.

Þá keypti ég nokkuð öflugan tjakk upp á 1.000 kall í febrúar, fáeinum dögum síðar fór 300 kall í taxa og í ágúst fór ég með fötin mín í hreinsun og borgaði fyrir það 265 krónur.

Þann 16. nóvember hef ég verið staddur á Akureyri og líst greinilega ekki betur en svo á færðina, að ég fjárfesti í rándýrum keðjum upp á heilar 4.050 kr. Tveimur dögum síðar verður dekk ónýtt á Ísafirði svo það verður að kaupa nýtt sem kostar 3.373 kr. komið undir bílinn. Í desember gerði ég mér ferð upp í Bíóhöll til Árna Sam og verslaði stórt, því þar hef ég gefið út ávísanaröð upp á hvorki meira né minna hálfa milljón og allt fram í tímann og fimm hundraðþúsundkallar duttu inn á næstu fimm vikunum. Þarna var ég að versla bæði fyrir Videóbjörninn sem ég rak ásamt Guðnýju Reimarsdóttur endurskoðanda og þó heldur meira fyrir þá félaga Jóstein Kristjánsson og Björn (faðir Selmu Björns söngkonu) sem ráku á þessum tíma Sesarvideo við Grensásveg og Neróvideó við Austurberg, en þeir munu þá hafa verið í viðskiptabanni hjá Árna.

 

Í janúar 1988 hófst árið á því að tekið var bensín fyrir 200 krónur, ég greiddi Bjarna Harðar hluta af kaupverði íbúðarinnar að Suðurgötu 24 á Sigló í febrúar upp á heilar 30.000 krónur og ég gerðist helmingseigandi að Laugarásvideó í maí.

 

Og svo mætti lengi telja.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480895
Samtals gestir: 53310
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 05:17:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni