29.02.2012 02:57

Perla fyrir fimmtíukall

802. Mér finnst ákaflega gaman að gramsa svolítið og skoða gamalt dót. Vitandi að sumt af því á sér eflaust bæði langa og merka sögu sem er því miður í flestum tilfellum gleymd og týnd. Gamlir hlutir með sál sem fáir eða engir kannast lengur við heilla mig svolítið. Minningar sem búið er að yfirgefa vekja upp fortíðarþrá frá eigin brjósti og á eigin forsendum. Kitla mína innbyggðu tímavél. Þetta eru mismikið notaðir hlutir, velktir, lúnir, brotnir, beyglaðir, upplitaðir, máðir og slípaðir af tímans tönn og elli kerlingu. Þess vegna finnst mér í senn bæði skemmtilegt og fróðlegt að kíkja á nytjamarkaðina sem hefur farið fjölgandi síðustu árin. Kannski eftir að kreppan fór að bíta í rófubeinið á landsmönnum, að minnsta kosti suma þeirra og þá helst þá sem síst máttu við að harðnaði á dalnum. Markaðurinn brást þá við með því að bjóða þeim eitt og annað sem nýtilegt getur talist á afar sanngjörnu verði og viðbrögðin létu vissulega ekki á sér standa. Voru þetta þá kannski eðlileg viðbrögð hins frjálsa hagkerfis gæti einhver spurt eða var þetta eitthvað sem hefur hvort sem er alltaf vantað? Kannski einfaldur kapítalismi í umbreyttri og mun mýkri mynd en þekktist á bólutímabilinu? Kannski markaðurinn að svara kalli breyttra tíma? Jú líklega, því eftirspurnin var meiri en framboðið. Alla vega var það þannig fyrst í stað og nytjamörkuðunum hefur því farið talsvert fjölgandi síðustu misserin.

Góði Hirðirinn við Fellsmúla, Samhjálp við Stangarhyl, ABC barnahjálp við Skútuvog, Hjálpræðishersbúðirnar við Garðastræti og úti á Granda, Rauðakrossbúðirnar við Laugaveginn í Reykjavík og Strandgötu í Hafnarfirði er það sem kemur upp í hugann strax í fyrstu lotu.

Góðhjartað fólk og velviljuð fyrirtæki hafa verið sá bakhjarl sem hefur gert aðstandendum flestra þessara nytjamarkaða kleift að reka þá og fjármagna starfemi sína í leiðinni með því að fylla upp í hillurnar sem hafa oftar en ekki orðið svolítið tómlegar þegar annasamur dagur hefur verið að kvöldi kominn. Og það er vel því málstaðurinn er góður.

Fyrir nokkrum dögum átti ég leið upp í Stangarhyl og sá að það var útsala á bókum. Tíu bækur á fimmhundruðkall, og ég setti auðvitað upp gleraugum. Til gamans má geta þess að þar var líka mættur Gyrðir nokkur Elíasson stórskáld og handhafi Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2011, en ég rekst oft á hann á þessum stöðum sem ég nefndi hér að ofan.

Ég fann til einar tuttugu bækur sem ég greiddi fyrir lítinn þúsundkall og þóttist hafa gert hin ágætustu kaup sem urðu þó enn betri við nánari skoðun.




Ein bókanna heitir "HALLBJÖRG", undirtitill er "eftir sínu hjartans lagi" og hún er skráð af Stefáni Jökulssyni.

Þar er farið yfir magnað lífshlaup söngkonunnar Hallbjargar Bjarnadóttur, stúlkunnar með raddirnar þrjár, en hún hafði ótrúlegt raddsvið og söng jöfnum höndum bassa, tenór og alt. Hún var fyrsti Íslendingurinn sem steig á svið í Royal Albert Hall, lærði fyrst söng hjá Benedikt Elvar (sem var faðir Árna Elvar), sigldi á vit ævintýranna og sigraði heiminn, sigraði síðan Ísland þegar hún kom aftur heim. Hún söng í Gamla bíói í Reykjavík á stríðsárunum, Nýja bíói á Akureyri, hjá Tóra á Siglufirði á síldarárunum og alls staðar var hún sigurvegari. Eftir það fór hún utan, sigraði heiminn aftur og söng m.a. með ekki ófrægari manni en Nat King Cole.

Svo sat hún fyrir hjá Kjarval sem fáar konur hafa líklega gert.

Hallbjörg var fædd í Hjallabúð á Brimisvöllum sem eru í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi en ólst upp á Brunnastöðum á Akranesi. Hún fór ung utan og bjó lengst af í Danmörku en einnig í Bandarríkjunum um nokkurra ára skeið. Hún flutti aftur heim til Íslands árið 1992. Hallbjörg átti tvær systur, Kristbjörgu sem var reyndar tvíburasystir Hallbjargar og Steinunni sem var nokkrum árum yngri. Og allar urðu þær ýmist söng og/eða leikkonur.

Hallbjörg var fædd þ. 11. apríl árið 1915 og andaðist á Íslandi þ. 28. September árið 1997.


Einnig má geta þess að revíusöngkonan og leikkonan Steinka Bjarna söng með Stuðmönnum á plötunni Sumar á Sýrlandi lagið "Strax í dag".

Ég var með Badda á bjúkkanum í gær.

Ég var með Lilla á lettanum í dag.

Og heitasta óskin er sú.

Að hann Kalli komi kagganum í lag,

strax í dag.


 


Þegar heim var komið opnaði ég eina bókina og sá þá að eitthvað var ritað á saurblaðið. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég áttaði mig á hvernig í pottinn var búið. 


Ef farið er er inn á slóðina http://www.youtube.com/watch?feature=endscreen&NR=1&v=hZ4BODQe1RA má sjá Hallbjörgu á hressilegu spjalli hjá Hemma Gunn þar sem hún tekur einnig lagið, þá orðin 75 ára gömul.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 367
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481084
Samtals gestir: 53319
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 10:55:15
clockhere

Tenglar

Eldra efni