13.03.2012 23:44

2007


806. Ég hélt að bæði klukkan og dagatalið hefðu hökt svolítið eða jafnvel hrokkið upp úr fari sínu þegar ég átti leið um Vellina í Hafnarfirði um sexleytið í dag. Ég væri nú orðinn fimm árum yngri og árið 2007 aftur gengið í garð með öllum þeim ósköpum sem því fylgdi. Á undan mér skreið hvít og ógnarlöng glæsikerra eftir malbikinu í ólýsanlegum virðuleik, en eitthvað sagði mér að farþegarnir hefðu ekki greitt fyrir aksturinn úr eigin vasa. Getur verið að þarna hafi verið á ferðinni nokkrir strákar um fermingu á leið í "barnaafmæli" og einhver þeirra ætti hugsanlega ríkan pabba, - eða hvað? Ég hélt að það sem fyrir augu bar væri nokkuð sem heyrði sögunni til og ætlaði varla að trúa mínum eigin augum, en þá mundi ég eftir að sagan endurtekur sig víst alltaf. Það sem einu sinni hefur gerst, mun nokkurn vegin örugglega gerast aftur. Limmóinn leið yfir Vellina eins og fjórmöstruð skonnorta með öll segl uppi, en farþegarnir stóðu hins vegar bæði upp úr þaki hennar svo og út úr öllum gluggum. Það var eitthvað ósamræmi í öllum herlegheitunum og ég seildist eftir myndavélinni og tók nokkrar myndir út um framrúðuna. Mér var greinilega veitt athygli því strákarnir veifuðu og bílstjórinn hægði ferðina og beygði síðan inn á bílastæði þar sem hann beið þar til ég var komninn framhjá.




Hann ók þá aftur af stað og drengjahöfuðin hurfu eitt af öðru inn í eðalvagninn. 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 270
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 318297
Samtals gestir: 34933
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:34:59
clockhere

Tenglar

Eldra efni