09.07.2013 23:55

Kvöldganga á Helgafell



873. Í kvöld fékk ég mér svolítinn kvöldrúnt upp að Kaldárseli sem er eins og a.m.k. sumir vita spölkorn ofan við Hafnarfjörð. Við mér blasti bæjarfjallið Helgafell, sem mér finnst oftast líta meira út eins og risastór hóll fremur en fjall. Mér datt si sona í hug að fátt væri nú að því að rölta upp að fjallsrótunum og til baka aftur og rölti af stað. Vigtin sagði mér að ég þyrfti á meiri hreyfingu að halda og svo er alltaf verið að stríða mér á að ég sé kominn með svokallaða bílstjóravömb.




Þegar þangað kom var auðvitað ekki hægt annað en að kíkja a.m.k. aðeins upp á brúnina fyrir ofan neðsta hluta stígsins.
Maðurinn á myndinni sést reyndar mjög illa, en hann hafði verið talsvert fyrir aftan mig skömmu áður, en geystist fram úr mér og hvarf síðan upp fyrir brekkubrún. Þvílik læti...



Þegar upp á brúnina var komið reyndist hún vera einber tálsýn því skammt fyrir ofan hana var önnur brún. - Og maðurinn var alveg horfinn. Kannski hafði jörðin gleypt hann, eða þá að hann faldi sig á bak við stein.



En það virtist svo sem ekkert mjög langt á toppinn, - þangað sem ég ætlaði reyndar alls ekki að fara að þessu sinni, enda engan veginn búinn til neinnar göngu.



Bara að kíkja örlítið ofar. 
Þetta fjall er annars miklu hærra en það sýnist vera frá bænum...



En hvað ætli hafi orðið af manninum? Sennilega hefur hann sest niður í skjóli, alveg að springa úr mæði og vill ekki láta neinn sjá það...



Skrýtið, en samt soldið flott hvað allt er sprungið. - Verulega flottar sprungur.



Eiginlega alveg rosalega flott. - Hvar ætli maðurinn sé annars?



Heitir þetta ekki sandsteinn?



Og varð hann ekki svona útleikinn eftir síðustu ísöld?
Fyrir ofan sandsteinsbrúnina virtist orðið mjög stutt á toppinn



En hvað varð af */#"%* kallinum???



Þarna er hann - og hann er á niðurleið...! 
Það þýðir bara eitt, hann er búinn að fara alla leið upp...



Ég gat því auðvitað ekki annað en gert það líka þó hægar færi...
Á mjög gömlum og slitnum spariskóm, í svörtum stássjakka keyptum á útsölu og með skyrtuna fráhneppta og flaksandi.



Þá var bara eftir að koma sér niður aftur.
-
Og þar sem ég sit og geri grein fyrir ferðum mínum í stuttu máli og nokkrum myndum finn ég hvar strengirnir eru að setjast að í lærum og kálfum. Manni hefnist auðvitað fyrir að hafa varla farið út úr bíl sínum (eða strætó) í næstum tvö ár...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 81
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480798
Samtals gestir: 53307
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 04:11:53
clockhere

Tenglar

Eldra efni