15.09.2013 00:21

Lögguhasar í Mjóddinni


885. Ég mætti til vinnu í morgun laugardaginn 14. sept. kl. 6.45 samkvæmt vaktaplani og flest benti til þess að dagurinn yrði rétt eins og svo margir aðrir laugardagar, í flesta staði óskup venjulegur vinnudagur á venjubundnum rúnti sem stundum virðist allt að því endalaus. Ef til vill má segja að hann hafi að flestöllu leyti verið það utan lítilsháttar tilbrigða um stef um fljótvirkandi morgunvakningu og það aldeilis "óforvarendis".
Ég hafði komið akandi frá Hamraborg um Hjalla, Smára, Lindir, Sali, Kóra, Þing og Hvörf, áleiðis í Mjóddina og var einmitt nýlentur þar þegar atburðarásin tók svolitla vinkilbeygju í grámóskulegum hvunndeginum sem hafði kannski þegar betur er að gáð, fátt annað en ágæt áhrif á blóðrásina hvað mig varðar þegar málið er skoðað svona heildrænt.
Klukkan var 09.15.
Vagn númer 21 kom rétt á eftir mér og boraði sér inn í stæðið sitt fyrir framan mig sem honum tekst sjaldnast vel upp með því að hann á eiginlega að vera þarna á undan mér og þrengslin gera það að verkum að ef það gengur ekki eftir, verður hann alltaf eitthvað svo hjákátlega skakkur miðað við gangstéttina.
Ég sá að bílstjórinn tók upp síma og fór að tala í hann.
Vagn 24 sem var að koma úr Garðabænum renndi upp að hinum megin við umferðareyjuna.
Skyldi Siglfirðingurinn Dóri Jóns og Elsu Matt vera þar undir stýri?
Nei það var ekki hann, heldur einhver allt annar maður sem virðist ekki vera mjög mannblendinn og ég hef aldrei talað við.
Alla vega ekki ennþá.
Ég sá útundan mér hvar tveir dökkklæddir menn komu hlaupandi frá Stekkjarbakkanum og stefndu í átt að strætóstoppistöðinni.
Annar var aðeins fljótari en hinn eins og gengur - hmm... 
Þeir þurfa nú ekki að flýta sér svona mikið og eru nú alls ekkert að missa af strætó hugsaði ég, því fyrsti bíll fer nú ekki fyrr en eftir 3 mínútur.
Ég leit aftur yfir á vagn 24 og svo aftur í átt til Stekkjarbakkans.og nú sá ég mennina tvo koma hlaupandi upp á umferðareyjuna hinum megin við stoppustöð Akureyrarstrætósins. 
Í þann mund sem sá aftari náði þeim fremri, tók ég eftir því að sá sem hafði hlaupið lengst af á undan var svartur karlmaður, líklega milli tvítugs og þrítugs, en sá sem á eftir hafði farið var... - löggi.
Nú gerðist atburðarrásin heldur hraðari en hentaði mér og mínum smekk sem hefði gjarnað viljað taka betur eftir á fyrri stigum málsins og jafnvel spóla aðeins til baka.
Lögginn reif þarna í þann svarta sem tók hraustlega á móti og urðu úr talsverðar stimpingar og sviftingar.
Það var ekki fyrr en ég sá kylfu á lofti að sá svarti féll niður á annað hnéð, en stóð samt aftur upp og fangbrögðin héldu áfram svolitla stund.
Ég renndi hendinn ofan í brjóstvasann eins og í leiðslu og fiskaði upp myndavélina sem þar á sér nokkuð fastan samastað.
Áður en ég náði að kveikja á henni og stilla linsuna, dreif að fleiri aðila sem töldu sig greinilega málið varða.
Líklega hefur það líka gert það.
Um myndirnar sem ég náði að taka í hamaganginum er það að segja að þær eru allar vondar. Líklega er í fyrsta lagi ekki gott að taka myndir í gegn um óhreinar rúður plús að vélin sé á vitlausri stillingu og svo þarf ég að fara að fá mér eitthvað skárra en þessa hræódýru drusluvél. (Hmmm).
En áfram með söguna.
Löggubíll kom svífandi frá Breiðholtsbraut og stöðvaðist uppi á grasinu á eyjunni, ökumaðurinn stökk út og fór að liðsinna félaga sínum.
Man eftir skilti einhvers staðar sem á stóð "BANNAÐ AÐ GANGA Á GRASINU", ég hugsaði með mér hvað þá keyra á því.
Annar bíll kom úr gagnstæðri átt eða frá Stekkjarbakkanum og ökumaður hans lagðist líka á sveif með félögum sínum. (Átti reyndar ekki von á öðru).
Leikurinn var nú orðinn það ójafn að sá svarti hlaut að lúta í gras sem hann gerði að lokum.



Reyndar lét einn þeirra sem komu þarna aðvífandi félaga sína um mesta hasarinn, alla vega til að byrja með.




Nokkru siðar koma svo sá fjórði hlaupandi alveg lafmóður og ég gat ekki betur séð en hann væri algjörlega búinn á því. (Þarf kannski að fara í endurhæfingarbúðir)...!




Og áfram hélt aðgerðin um stund. Það virtist þurfa fjóra á einn og ekkert veita af.




Að lokum voru járnin komin á "sinn stað" en ekki gekk samt allt of greiðlega að koma hinum meinta sakborning til bíls.




Það gekk þó að lokum og hurð heyrðist skellt aftur.




Fljótlega var ekið í burtu og umferðareyjan var aftur orðin mannlaus eins og hún á vanda til.
Ég rölti til bílstjórans á vagni 21 sem var enn að tala í símann og spurði hvort hann hafi séð hasarinn.
"Hvaða hasar? var eitthvað í gangi? missti ég af einhverju?"...
"Það er lílklega kominn tími á okkur" sagði ég.
"Jú, jú" sagði hann, kvaddi í símann og brosti sínu breiðasta.
"Er ekki bara allt í gúddý"?
Þetta hljómaði eins og einhvers konar kveðja og þar með var hann rokinn.
Hann hafði greinilega ekki tekið eftir neinu og ég velti fyrir mér hvernig slíkt sé eiginlega hægt?
Ég gekk til baka og fram hjá strætóskýli þar sem kona í hvítri kápu spurði mig...
"Fannst þér þeir ekki fara illa með manninn. Og hann sem var svo vel klæddur og meira að segja líka með flott sólgleraugu"?
Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að svara þessum svolítið undarlegu spurningum konunar.
"Kannski hafa þeir haft einhverja ríka ástæðu".
ég lagði ríka áherslu á RÍKA. 
Það hnussaði í henni og ég skynjaði alveg að hún stóð ekki með laganna vörðum.
-
En því er við að bæta að ég hef ekkert fundið um málið á netinu. Hvorki hjá netfréttamiðlum, bloggurum eða dagbók lögreglunnar.
Ég er nú samt ansi forvitinn...


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 318
Gestir í dag: 105
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477212
Samtals gestir: 52729
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 05:17:08
clockhere

Tenglar

Eldra efni