11.05.2014 03:57

Eurovision 2014 - Pilla til Putins.



930. Úrslitin í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva sem fram fór í gærkvöldi voru ekki alveg fullkomlega í samræmi við spár veðbanka þó segja mætti að það munaði kannski ekki svo ýkja miklu. Aðeins fáeinir tugir stiga röðuðu sér á örlítið annan hátt en spekúlantarnir reiknuðu með, en það ruglaði auðvitað röðinni all nokkuð. Ég hef því miður haft alveg sáralítinn tíma undanfarið til að velta fyrir mér bæði mögulegum og ómögulegum sigurvegurum í keppninni og þegar hún brast á var ég að aka strætisvagn á leið 28 sem hafði upp á að bjóða frekar dapurt útvarp hvað hljómgæði varðar. Ég gaf mér því tíma til að kíkja á valda kafla þegar heim kom.

-

Fyrir okkur voru líklega mestu stórtíðindi hvað stigagjöf varðar, hin áttan sem við fengum frá San Marino og voru jafnframt voru okkar fyrstu stig. En um San Marino er það að segja að það er svo mikið örríki að íbúafjöldinn er aðeins 10% af íbúafjölda smáþjóðarinnar Íslands. Bestu þakkir San Marino.

Þess utan fengum við 7 stig frá Frakklandi og Ítalíu, 6 stig frá Hollandi og Norðmönnum, 4 stig frá Bretum og Svíum, 5 stig frá Ungverjum og Dönum, 2 frá Þjóðverjum og sigurvegurunum Austurríkismönnum. 1 stig kom svo frá Rússlandi og annað frá Spáni

En takið eftir; við fengum ekkert stig frá Svíum og Finnlandi, eða þá Eystrasaltslöndunum.

Og við enduðum eins og flestir vita í 15.sæti sem ég prívat og persónulega get verið meira en sáttur við miðað við að hafa tekið það 19. frá fyrir Pollana.

-

En það má alveg halda því fram að boðskapurinn um "enga fordóma" hafi kannski skilað sér með ágætum, eða í það minnsta átt góðan hljómgrunn ytra þrátt fyrir að okkar stig hefðu alveg mátt vera eitthvað fleiri. Í hvert sinn sem Rússland fékk stig, púaði salurinn sig næstum því hásan og lét þannig í ljós vanþóknun sína með mjög svo ótvíræðum hætti og vesalings tvíburaljóskurnar guldu þannig fyrir misgjörðir misvitra ráðamanna heima fyrir. Það velkjast líklega fáir í vafa um að nýlegar lagasetningar sem mismuna minnihlutahópum og þá sér í lagi samkynhneigðum og landvinningalögin sem veita þeim sjálfum heimild til að hlutast til um málefni nágrannaríkjanna eru ástæða hinna dapurlegu og neikvæðu undirtekta. Að Conchita Wurst hafi unnið, má heimfæra sem skýr skilaboð til handa fordómafullra ráðamanna og undirlægja þeirra austan tjaldsins sem er kannski ekki endanlega fallið. En hópur íhaldssamra Rússa, Armena og Hvít-Rússa stóðu fyrir undirskriftasöfnun þar sem keppnin í ár er sögð "gróðrarstía kynvillu" og hópurinn krafðist þess að Wurst yrði bannað að taka þátt í keppninni. Þá vildi sami hópur að Eurovision yrði tekin af dagskrá Rússneska ríkissjónvarpsins.

-

Segja má því og það alveg skuldlaust að úrslitin ásamt viðbrögðum áheyrenda bæði í sal og annars staðar hafi komið vel á vondan.



(Ein af fjölmörgum myndum sem birst hafa undanfarið þar sem Putin er lílkt við Hitler).

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 557
Gestir í dag: 134
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477451
Samtals gestir: 52758
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 07:04:09
clockhere

Tenglar

Eldra efni