07.06.2014 02:12

Gramsað í föðurgarði - þriðji hluti.

 


935. Drengurinn sem gægðist upp úr kláfnum forðum á leiðinni suður yfir heiðar hét Jón Brandsson. Hann var bróðir Guðrúnar sem lesa má um hér að neðan og langafi skrifara.

Hann var fæddur að Prestbakka í Hrútafirði 24. mars 1875. Fimm ára að aldri flytur hann með foreldrum sínum austur að Ásum í Skaftártungum þar sem fjölskyldan býr næstu 12 árin, eða þar til faðir hans andast og móðir hans ásamt börnum sínum flytur á fornar slóðir þar sem flest skyldmenni þeirra bjuggu. Séra Jón minntist oft dvalar sinnar í Ásum og náttúrufegurðarinnar þar syðra. Um það bil sem hann flutti heim í átthaga sína, hóf hann nám í Lærða skólanum, varð stúdent 1899 og tók guðfræðipróf 1903. Hann dvaldi eftir það í eitt ár á Hólmavík og starfaði þá við verzlunarstörf. Þegar Arnór prestur Árnason lét af embætti í Tröllatunguprestakalli, sótti Jón Brandsson um embættið og fékk það þar sem hann var eini umsækjandinn. Hann var síðan vígður um haustið 1904.

 


Séra Jón að koma út úr Kollafjarðarneskirkju eftir messu. - Ljósmyndari ókunnur.


Presturinn og guðshúsið.

Í minningargrein um séra Jón sem Guðbrandur Benediktsson ritar í Morgunblaðið árið 1959, tengir hann saman persónu Jóns og kirkjuna á Kollafjarðarnesi sem er ekkert skrýtið, því þau eru svo sannarlega tengd órjúfanlegum böndum.

"Kirkjan á Kollafjarðarnesi er reist á traustum blágrýtiskastala, þar er og hátt til lofts og vítt

til veggja. En í þöglu kyrru umhverfi sínu, tign sinni og mjúkum línum, bendir hún sjáandanum til þeirra heima þar sem grunnurinn er enn traustari og viðsýnið enn meira.

Kollafjarðarneskirkja má teljast minnisvarði hins nýlátna prestaöldungs sér Jóns Brandssonar.

Á fyrstu prestskaparárum sínum í Tröllatunguprestakalli og fyrir hans atbeina var kirkja

byggð á Kollafjarðarnesi og þar með sameinaðar Fells- og Tröllatungukirkjur með þvi að þá var Kollafjarðarnes gjört að prestsetri. Séra Jón Brandsson vígist til Tröllatunguprestakalls árið 1904 tæplega þrítugur að aldri. Þar höfðu forfeður hans verið prestar í um 70 ár, þeir feðgar séra Hjálmar Þorsteinsson og Björn sonur hans. Fyrstu dvalarár sín í prestakallinu

átti séra Jón heima á Broddanesi, en vorið 1908 settist hann að á Kollafjarðarnesi sem eins og að framan getur var lögákveðið prestsetur. Næsta ár var svo kirkjan byggð þar og er hún því 50 ára nú í ár. í þessu musteri sínu og safnaðarins hafði hann unnið flest hin kirkjulegu

störf, flutt söfnuði sínum í gleði hans og sorg boðskap og blessun þess máttar er alls staðar ræður og ríkir".

Áður en séra Jón gerðist prestur í Kollafjarðarnesi hafði ríkt nokkur ófriður í Tröllatungu og Fellssókn, en flestir bændur í fyrrnefndu sókninni höfðu þá leyst sóknarbönd við prest sinn séra Arnór Árnason og tekið sér prestinn á Stað fyrir kjörprest.

Með tilkomu hins unga prests voru sóknirnar ekki aðeins sameinaðar, heldur var aðalkirkjustaðurinn færður frá Felli í Kollafirði og úr Tröllatungu að Kollafjarðarnesi í hina nýju kirkju og voru samstarfserfiðleikar safnaðarins og hirðis hans þar með úr sögunni.

Ekki er vitað til að í Kollafjarðarnesi hafi staðið bygging helguð kristinni trú fyrr en kirkjan var byggð og ekki heldur eftir að séra Jón lét af prestskap, en hún varð 105 ára á þessu ári.



Kollafjarðarnes eins og það leit út um haustið 2012. Jörðin mun hafa verið seld nýlega og frést hefur að verulegar endurbætur séu í undirbúningi, en þegar nýr eigandi skoðaði ýmis gögn um íbúðarhúsið kom í ljós að það var teiknað að Guðjóni Samúelssyni. Hann hyggst nú færa það að miklu leyti í upprunalegt horf. - Ljósmynd LRÓ.


Mannasættir, fjölskyldufaðir, sálusorgari, þjónn og embættismaður,

Með dyggri aðstoð góðra manna gekk séra Jóni fljótt og vel að sáttum innan safnaðanna og var þjónandi prestur á Kollafjarðarnesi fram til 1950 þegar hann lét af prestsskap fyrir aldurs sakir og hafði þá verið prófastur í 30 ár. Honum hefur verið lýst sem hlédrægum manni sem vildi lítt láta á sér bera, en ákaflega fastur á skoðunum sínum. Þéttum á velli og þéttum í lund, jafnt í kirkju sem hversdagslega. Rökföstum og kveðjuhandtakið hlýtt og innilegt.

Séra Jón hóf búskap á Kollafjarðarnesi um vorið 1908 og gekk þá að eiga heitmey sína

Guðnýju Magnúsdóttir bónda að Miðhúsum í Hrútafirði. í Kollafjarðarnesi voru þau í 43 ár, eða til 1951, en hann var þjónandi prestur í heil 44 ár.

 


Kollafjarðaneskirkja og kirkjugarðurinn í september 2012. - Ljósmynd LRÓ.


Síðasta bókabrennan á Ströndum.

Séra Jón var rökfastur eins og áður sagði og hafði mjög fastmótaðar skoðanir sem mótuðust af lífsviðhorfi hans, starfi og köllun. Ekki er það heldur alveg útilokað með öllu að eilítið hafi stundum blandast saman pólitíkin og guðfræðin.

Eitt sinn spurðist það út um sveitir að ungt og efnilegt skáld úr Dölunum, Jóhannes Bjarni Jónasson væri í þann vegin að senda frá sér nýtt efni. Jóhannes Bjarni sem hafði áður gefið út nokkrar ljóðabækur sem allar höfðu fengið góðar viðtökur, hugðist nú harsla sér völl á nýjum völlum skáldagyðjunnar og að þessu sinni var von á skáldsögu frá þessu upprennandi skáldi.

Í hreppnum mun hafa verið til svolítill vísir að bókasafni sem vistaður var á fáeinum hillum í forstofuherbergi, sumir segja hjá hreppstjóra. Fyrir þá aura sem inn komu vegna útlána, voru svo keyptar nokkrar bækur á ári sem voru þá lesnar nánast upp til agna af íbúum hreppsins.

Jón var einn þeirra sem beið útkomu bókarinnar og þegar hún kom loksins út, var hann einna fyrstur til þess að fá hana lánaða til aflestrar.

Nokkur tími leið og prestur skilaði ekki bókinni, en aðrir sveitungarnir spurðu mikið um hana.

Og enn leið og beið án þess að bókin kæmi aftur í hús, og þar kom að haft var samband við sérann og hann spurður hvernig lesturinn gengi.

"Já bókin sú" svaraði hann, "ég náttúrulega brenndi hana".

Presur hafði eftir lestur hennar talið allt of margt í henni vera lítt uppbyggjandi efni og geta jafnvel haft neikvæð áhrif á söfnuðinn og skoðanir hans. Hann var nú einu sinni sálnahirðirinn sem hafði þann starfa að hlú sem best að hinni andlegu hlið síns fólks.

Þetta álit Jóns voru sveitungar hans ekki fyllilega sáttir við og fór svo að prestur var krafinn um andvirði bókarinnar sem hann mun hafa innt af hendi með semingi. Nýtt eintkak var þá keypt sem var auðvitað lesið af enn meiri athygli og jafnvel áfergju en ella hefði verið gert.

Þess má geta að unga skáldið úr Dölunum, Jóhannes Bjarni Jónasson tók sér nafnið Jóhannes úr Kötlum.



Að lokinni athöfn í Kollafjarðarneskirkju. Ekki er vitað hver athöfnin var og ljósmyndari er ókunnur.


Um samskipti við biskupa.

Séra Jón var líka mjög alþýðlegur maður. Eitt sótti hann prestastefnu til Reykjavíkur og bjó þá hjá Ragnheiði dóttur sinni í Skipasundinu meðan hann dvaldi syðra. Þaðan tók hann strætisvagn til fundarins, en því hafði biskup spurnir af og líkaði stórilla. Hann tók Jón á eintal og fann að ferðamátanum við hann sem hann taldi ekki sæma virðingu stéttarinnar. Prestar ættu að koma akandi á bíl eða jafnvel gangandi frekar en að blanda of miklu geði við alls konar fólk sem væri eins misjafnt og það væri margt. Jón svaraði því þá til að hann teldi að best færi á því að prestar væru í nánum tengslum við söfnuði sína en forðuðust þá ekki.

 

Öðru sinni var Jón staddur á prestastefnu og var þá verið að minnast biskups sem var nýlega látinn. Að lokinni langri lofræðu voru viðstaddir beðnir um að standa á fætur og lúta höfði í virðingarskyni við hann.

Allir stóðu þá upp nema Jón sem sat sem fastast og horfði beint fram, en nokkur kliður myndaðist í salnum í kjölfarið. Jón var auðvitað spurður að því hverju sætti að framkoma hans væri með slíkum ólíkindum.

Hann svaraði því þá til að hann hefði aldrei getað borið nokkra virðingu fyrir umræddum biskupi sem hefði ekkert batnað þótt hann væri nú dauður.

 

Eitt sinn var biskup að vísitera á Ströndum og kom þá við á Kollafjarðarnesi. Þegar hann fór þaðan varð prestur honum samferða áleiðis því hann átti erindi á bæ þar skammt frá. Á leiðinni þangað gekk kona nokkur í veg fyrir ferðalangana og bað Jón að taka fyrir sig skírnarkjól sem hún hafði fengið lánaðan og koma honum til eiganda sins á bæ sem hann ætti leið hjá í bakaleiðinni. Prestur taldi það lítið mál og tók við kjólnum. Þetta líkaði biskupi ekki alls kostar vel og vandaði um fyrir Jóni.

"Vér eigum ekki að koma alþýðubændum upp á að nota oss sem sendisveina".

Jón svaraði því þá til að þetta væri góð kona sem ætti allt gott skilið og málið þar með endanlega afgreitt af hans hálfu.

 

Öðru sinni átti biskup leið um og kom þá að Kollafjarðarnesi eins og ráð hafði verið fyrir gert, en mun hafa verið öllu fyrr á ferðinni en áætlað hafði verið. Prestur var ekki heima við og ekki hafði verið byrjað að undirbúa komu hins tigna gest í mat og drykk, en þó var nýbúið að baka firnin öll af rúgbrauði og nóg var til af fiski. Guðrún Magnúsdóttir systir Guðnýjar konu Jóns var heima við og reyndi að bjarga málum sem hún frekast gat og tíndi eitt og annað til úr búri ásamt soðningunni og rúgbrauðinu sem biskup gerði hin bestu skil.

Biskup mun hafa verið fámáll meðan hann dvaldi við, en þegar hann var farinn varð henni að orði að "nú ætti þó að heyrast í biskupi".

Guðrúnu mun hafa þótt miður að geta ekki gefið biskupi og föruneyti hans eitthvað merkilegra og staðbetra en fisk, en síðar spurðist að biskup hefði haft orð á hvað það hefði verið mikil og góð tilbreyting að koma að Kollafjarðarnesi og fá þar fiskmeti eftir allar stórsteikurnar sem fram hefðu verið bornar á öllum hinum stöðunum sem hann hefði haft viðdvöl á.

 


Fjölskylda og heimilisfólk á Kollafjarðarnesi. Séra Jón í miðju og Guðný kona hans vinstra megin við hann.- Ljósmyndari ókunnur.


Kýrnar frá Hvalsá.

Séra Jón mun ekki hafa haft verulega afskipti af búrekstrinum, enda hélt hann alla tíð bæði vinnumenn og vinnukonur á Kollafjarðarnesi. Eitt sinn hafði hann átt erindi til Hólmavíkur, en þá var ekki tekið að myndast þorp á þeim stað.

Í bakaleiðinni fer hann fram hjá Hvalsá sem er næsti bær við Kollafjarðarnes og sér hann þá að kýr eru á beit milli bæjanna. Degi var tekið að halla og stutt í mjaltir. Þykir Jóni þá upplagt að reka þær með sér heim á leið þar sem hann er hvort eð er á sömu leið og þær. Gengur reksturinn ekkert sérlega vel þrátt fyrir að leiðin sé stutt, en að endingu eru þær komnar heim að bænum. Kemur þá vinnumaður út og spyr hverju það sæti að kýrnar frá Hvalsá séu nú komnar að fjósinu á Nesi.



Myndin mun vera tekin í Fellsrétt um miðbik síðustu aldar. Þarna sést séra Jón vinstra megin við miðju með hatt á höfði. - Ljósmyndari ókunnur.

 

Að lokum.

Þeim hjónum Jóni og Guðnýju varð níu barna auðið en eitt lést í bernsku.

Kollafjarðarnesheimilið var ávallt fjölmennt, einkum þó á fyrri árum og mun þá hafa þurft að

gæta mikillar hagsýni í rekstri þess.

Jón sat í sýslunefnd Kirkjubólshrepps um árabil og einnig í hreppsnefnd, var formaður skólanefndar og sat í fasteignamatsnefnd Strandasýslu. Hann ásamt Guðjóni Guðlaugssyni alþingismanni lögðu grundvöllinn að mati fasteigna í sýslunni sem enn er miðað við.

Öll þau verkefni sem honum voru falin, innti hann af hendi með sérstakri vandvirkni, samviskusemi og réttsýni. Hafði hann því einróma traust allra.

Þegar séra Jón Brandsson prófastur á Kollafiarðarnesi lét af embætti um vorið 1951, var Kollafjarðarsókn lögð undir Staðarprestskall í Steingrímsfirði,

Séra Jón var heilsuhraustur fram til sjötugsaldurs, en þá fór hann að kenna þess sjúkdóms sem dró hann til dauða árið 1959.

Langafi minn séra Jón Brandsson hvílir í Staðarkirkjugarði í Hrútafirði.

LRÓ.

 

Heimildir:

DV 2000 - Guðfinnur Finnbogason

Morgunblaðið 1959 - Guðbrandur Benediktsson.

NN.

Sæunn Óladóttir systir mín.

Sigurður Hjálmarsson föðurbróðir minn.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 404
Gestir í dag: 98
Flettingar í gær: 291
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 468926
Samtals gestir: 51444
Tölur uppfærðar: 6.11.2024 15:05:43
clockhere

Tenglar

Eldra efni