17.11.2014 23:48
Gaggó vest og hugurinn reikar til liðinna ára
965. Gamla skólahúsið sem stendur
við Hlíðarveginn er nú orðið ákaflega dapurlegt og tómlegt að sjá. Það er eins
og minnismerki í dulmögnuðum glæsileika sínum um löngu liðna daga. Um óteljandi
stundir, sumar minnisstæðar, aðrar hálfgleymdar en er þó ennþá hægt að bjarga
fyrir horn, draga fram í núið og rifja upp með góðum vilja og jákvæðu
hugarfari. Góða daga þó okkur fyndist það alls ekki alltaf þá.
Þegar ég á leið fram hjá því
skynja ég vel hina yfirþyrmandi og þrúgandi þögn sem hlýtur að umlykja allt innan
dyra. Og ef ég á leið fram hjá því eftir að skyggja tekur horfi ég stundum upp í
dimmuna í gluggunum, en þeir horfa þá bara á mig á móti eins og brostin augu með
ísköldu tómlæti í einhverri undarlegri ofurkyrrð.
Einhvern vegin svo kaldir, tómir
og holir að það er eins og það sé ekkert lengur þarna fyrir innan og svo er líka
eins og þeir séu líka fullir af eftirsjá.
Einsemd hússins verður næstum
því áþreifanleg.
Raddir kennaranna eru þagnaðar,
viskan og viljinn til að búa okkur sem áttum að erfa landið undir framtíðina
eru ekki lengur til staðar, ekki á þessum stað. Sömuleiðis kliðurinn í
nemendunum á leið til stofu og auðvitað öll ærslin á göngunum í frímínútunum.
En samt finnst mér ég ennþá heyra dauft bergmál frá æskuárunum og finna ofurlítinn
tóbakskeim við útidyrnar þar sem sum okkar stóðu úti í hvaða veðri sem var og
smókuðu sig. Fyrirmyndir óharðnaðra unglinga voru þá rétt eins og nú voru bæði
margar og margs konar. Já sum okkar fengu jafnvel sígarettur út á krít í
Lillusjoppu og borguðu þegar einhver peningur var til, fengu svo strax skrifað
aftur þrátt fyrir að vera bara fimmtán ára og engum fannst neitt óeðlilegt við
það. Fáeinum árum áður var ég líka stundum sendur niður í kaupfélag til að
kaupa þrjár, stundum fjórar sígarettur í lausu. Þá var ég bara tólf ára og
engum fannst það neitt óeðlilegt heldur.
Já og kennararnir, - þvílíkur
hópur af heiðursmönnum. Jóhann skólastjóri, Hafliði, Guðbrandur, Palli, Hinni og
fleiri og fleiri, svo komu þau Gunnar Rafn og Ína og ennþá fleiri eftir að skólagöngu
okkar lauk á Hlíðarveginum og aðrir skólar tóku við hinu innra og andlega
uppbyggingarstarfi, nú eða þá skóli lífsins.
Orð dagsins eru söknuður og
eftirsjá.