05.12.2014 12:20
Tvenn tímamót
967. Þann 14. nóvember s.l. var
þess minnst að fimmtíu ár voru liðin síðan bókasafnið á Siglufirði flutti inn í
núverandi húsnæði og af því tilefni var verið sett upp sýning á munum úr sögu
Karlakórsins Vísis. Þar hittist væði vel og skemmtilega á, en ekki er þó víst
að allir átti sig á því að Karlakórinn Vísir var formlega stofnaður árið 1924
og er því níutíu ára í ár.
Þarna er því í raun verið að minnast tveggja stórafmæla.
Um bókasafnið
Það mun hafa verið þ. 11.
febrúar árið 1911 að sr. Bjarni Þorsteinsson lagði til á sveitastjórnarfundi að
stofnað yrði lestrarfélag og vísir lagður að bókasafni í þorpinu. Það var
samþykkt og fundurinn kaus sr. Bjarna, Jón Guðmundsson verslunarstjóra og
Sigurð H. Sigurðsson kaupmann í sérstaka undirbúningsnefnd. Erfitt reyndist að
afla fjár til bókakaupa, en 70 kr. styrkur mun hafa fengist úr landssjóði, kr.
150 úr hreppssjóði og kr. 25 úr sýslusjóði árið 1913 til verksins. Fyrstu
bækurnar munu þó ekki hafa verið keyptar fyrr en árið 1915 og ári síðar komu
þær tilbúnar frá bókbindara. Safnið taldi þá u.þ.b. 100 bindi og var komið
fyrir í barnaskólahúsinu og skyldu útlán hefjast þ. 20. febrúar það ár. Þrátt
fyrir að safnið væri ekki stórt í sniðum þótti átæða til að ráða sérstakann
bókavörð og var Hannes Jónasson bóksali valinn til starfans, en hann var
gagnfræðingur útskrifaður frá Möðruvallaskóla og að sögn ákaflega vel lesinn
maður. Árið 1920 var lestrarfélaginu slitið og bærinn eignaðist safnið. Vegna plássleysis
í barnaskólanum, m.a. vegna gríðarlega mikillar fjölgunar nemenda í ört
stækkandi bæ, flutti bókavörðurinn Hannes Jónasson safnið heim til sín, en hann
hafði þá nýverið byggt sér stórt hús við Norðurgötu númer 9. Þar var það til
húsa fram til ársins 1925, en fékk þá inni í herbergi í Íslandsfélagshúsinu að
Eyrargötu 5, en það var þá í eigu bindindisfélaganna í bænum. 1934 var safnið
flutt á kirkjuloftið og var þar til húsa þar til það var flutt að Aðalgötu 25
um haustið 1937. Árið 1938 hljóp á snærið hjá siglfirskum bókaormum þegar
bæjarstjórnin samþykkti að kaupa safn Guðmundar Davíðssonar á Hraunum, en það
taldi alls 5.300 bækur og kaupverðið mun hafa verið 5.500 sem voru hreint ekki
svo litlir peningar á þá daga. Árið 1939 varð að flytja safnið aftur, sennilega
vegna plássleysis og nú var því komið fyrir í nýbyggðu húsi að Eyrargötu 3.
Eftir að síðari
heimstyrjöldin hófst og með vaxandi dýrtíð var fyrst farið að taka gjald fyrir
útlán á bókum safnsins. Árið 1944 var fyrst farið að ræða um byggingu ráðhúss á
núverandi stað og var þá bókasafninu strax ætluð heil hæð. Aðdragandinn að því
varð þó lengri en í fyrstu var ætlað og 1947 flutti safnið aftur í Aðalgötu 25.
Í júní 1954 fékk bókasafnsstjórnin tilboð um að selja eða skipta út nokkrum
gömlum guðsorðabókum og þar á meðal fyrstu útgáfu Passíusálmanna. Safnstjórnin
þáverandi tó sé góðan tíma til athugunar málsins, sennilega m.a. vegna mjög
þröngra fjárráða safnisins á þeim tíma, en til allrar hamingju var tilboði
þessu hafnað.
Framkvæmdir við núverandi
húsnæði hófust í ágústmánuði 1961 og safnið flutti þar inn 1964.
Um karlakórinn Vísi.
Aðalhvatamaður að stofnun
Vísis og fyrsti stjórnandi hét Halldór Hávarðarson ættaður frá Bolungarvík.
Undir hans stjórn hófu 24 menn að æfa saman raddaðan söng og kom sönghópurinn fyrst
fram á söngskemmtun í barnaskólanum milli jóla og nýárs árið 1923 og á
gamlárskvöld söng hann af svölum húss Helga Hafliðasonar við mikinn fögnuð
bæjarbúa sem hylltu söngmennina ákaft. Eftir áramótin var farið að ræða stofnun
kórs af meiri alvöru og var í framhaldinu kosin nefnd til að setja hinu nýja söngfélagi
lög. Telst stofndagur hans vera 22. jan. 1924.
Því miður andaðist Halldór
Hávarðason um vorið 1924 en Tryggvi Kristinsson kirkjuorgelleikari tók þá við
söngstjórninni og annaðist hana allt til ársins 1929 þegar Þormóður Eyjólfsson
tók við af honum.
Þormóður stjórnaði kórnum í
23 ár af miklum dugnaði og óhætt er að segja að hann hafi eflt hann og bætt með
öllum tiltækum ráðum. Hann leitaðu m.a. upp góða söngmenn í öðrum héruðum eða
jafnvel landshlutum og fékk þá til að flytjast til Siglufjarðar og syngja með
kórnum. Góð dæmi um það eru m.a. Björn Frímans og Daníel Þórhalls. Þá fékk hann
bróður sinn Sigurð Birkis söngkennara til koma til Siglufjarðar um tíma til að
þjálfa kórfélaga. Sigurður Birkis mun vera fyrsti einsöngvari sem söng með
karlakórnum Vísi. Óhætt er að segja að undir stjórn og leiðsögn þeirra bræðra
hafi kórinn átt glæstan feril um langt árabil og verður þeim seint fullþakkað
fyrir framlag sitt til siglfirskrar tónlistariðkunar.
Þormóður lét af kórstjórn
árið 1954 þá sjötugur að aldri en við tók Haukur Guðlaugsson sem síðar varð
söngmálastjóri kirkjunnar. Hans naut þó stutt við því Haukur fór erlendis til
framhaldsnáms 1955 og eftir það varð talsverð lægð í starfseminni því ekki
tókst að fá fastan söngstjóra. Vísir kom þó nokkrum sinnum opinberlega fram
m.a. undir stjórn Pás Erlendssonar, Sigursveins D. Kristinssonar og Róberts A.
Ottóssonar, en óhætt er a ð segja að lítið hafi gerst þar til Gerhard Schmidt
var ráðinn söngstjóri árið 1964, en hann hafði þá áður tekið við stjórn
lúðrasveitarinnar og sinnt tónlistarkennslu í bænum. Hófst þá kórinn aftur til
vegs og virðingar og átti eftir það sinn annan glæsta feril sem stóð yfir í u.þ.b.
áratug.
Eftir að hann fluttist aftur
til Þýskalands 1975 hefur kórinn ekki starfað reglulega, en komið þó nokkrum
sinnum fram undir stjórn Elíasar Þorvaldssonar. Það mun hafa verið árið 1980
sem síðasta stjórn kórsins var formlega kosin á aðalfundi, en mér er ekki
kunnugt um að hann hafi í sjálfu sér verið leystur upp. - Enn er því von.
-
Það væri full ástæða fyrir
einhvern og/eða einhverja framtakssama aðila að taka saman þau gögn sem til eru
og eiga viðtöl við fyrrum kórfélaga í því skyni að rita sögu kórsins sem er
bæði mikil og merk.
-
Sjá hreint frábært myndband frá Guðjóni Björnssyni: https://www.youtube.com/watch?v=dqvxqOYp71g
-
Heimildir: Siglufjörður 1818-1918-1988, Siglfirskur
annáll, mbl.is, Siglfirðingur, Mjölnir, Einherji, Neisti, Ljósmyndasafn Siglufjarðar, siglo.is