Færslur: 2013 Ágúst

29.08.2013 19:08

Bíllinn hans Gylfa



883. Ég rakst á Gylfa Ægis í Bónus á Hrauninu í Hafnarfirði þar sem hann tíndi eitt og annað smálegt í körfu sína meðan hann átti orðastað við mann og annann sem köstuðu á hann kveðju sinni. Auðvitað hlaut hann að þekkja marga hér um slóðir því hann bjó lengi á Suðurgötunni í Hafnarfirði, nema það sé bara eins og svo oft að fleiri telja sig þekkja manninn á stallinum en maðurinn þá.





Það fór sem sagt ekkert á milli mála hver var á ferðinni innandyra og þá ekki síður þegar út var komið eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það verður tæpast annað sagt en að ökutækið sé vel nýtt til að auglýsa þá starfsemi og og þær afurðir sem eigandinn er þekktur fyrir, auk þess sem það þjónar eflaust sínu venjubundna hlutverki ekkert síður en önnur slík.
Hér fer og það eflaust víða, bæði mikil og góð auglýsing sem er líkleg til að koma þeim sem berja hana augum í betra skap og sjá lífið og tilveruna í bjartari litum eftir en áður. Alla vega var það mín upplifun. 
En það er hins vegar ekki ósennilegt að einhverjir komist ekki hjá því að láta hina fjölmöru ryðbletti sem hætt er við að fari ört stækkandi á næstunni, trufla hina jákvæðu heildarmynd og ég myndi því ráðleggja okkar manni að taka á því máli hið allra fyrsta. 





Ég fór allan hringinn og myndaði bílinn, en það var ekki fyrr en ég tók þessa mynd að ég tók eftir (sambýlis)konu Gylfa, (veit reyndar ekki hver hjúskaparstaða þeirra er) þar sem hún gætti bíls og beið þess undir stýri að hann kæmi úr búðarferðinni. 
Ég skal viðurkenna að ég varð pínulítið kindarlegur...

24.08.2013 20:18

Frítt í strætó á Menningarnótt




882. Í dag er Menningarnótt... Eða var kannski Menningardagur í dag og eftir kvöldið byrjar nóttin sem nefnd er Menningarnótt. En hvað sem þeirri skilgreiningu líður, þá byrjar dagskrá Menningarnætur strax um morguninn og stendur allan liðlangan daginn þó það hljómi vissulega svolítið undarlega að kalla dag nótt.
Það sem ég varð var við strax í upphafi vinnudags og hefur verið ófrávíkjanlegur fylgifiskur þessarr hátíðar var að það er frítt í strætó, en þannig hefur það verið árum saman. Þrátt fyrir að það sé eiginlega orðin hefð og talsvert hafi verið um kynningar á þessum frídegi strætónotenda, hefur u.þ.b. annar hver maður eða svo, reynt að greiða fyrir farið. Þegar ekið var af stað í morgunsárið var búið að líma fyrir rifuna á bauknum þar sem miðarnir og klinkið er sett í og skrifa með feitum tússpenna "FRÍTT" sem hefði tæpast átt að fara fram hjá nokkrum manni. Það var því oft svolítið spaugilegt að fylgjast með tilburðunum og að sjá á undrunarsvipinn á þeim sem uppgötvuðu á endanum hvernig í pottinn var búið. Strákur sem kom inn í Lindunum horfði angistarfullur á útbúnaðinn og sagði með þjáningarhreim í röddinni; "veistu að ég var góðan hálftíma að leita að klinki heima og missti þess vegna af næsta strætó á undan". En líklega verða það að teljast skemmtilegustu sjónrænu tilburðir dagsins þegar ung stúlka reyndi ítrekað að koma strætómiðanum sínum inn um rifuna á prentaranum sem prentar út skiptimiðana eftir að hún hafði gefist upp á flestum þeim öðrum leiðum sem henni höfðu áður til hugar komið, en þær voru ófáar.

20.08.2013 01:48

Elli Magg


881. Rakst á þessa gömlu mynd á netinu og sé ekki betur en að hún sé tekin ofarlega í Þormóðsbrekkunni, en húsakosturinn þarna hefur greinilega breyst alveg ótrúlega mikið síðan myndin var tekin. Maðurinn á myndinni er Elli Magg (Eldjárn Magnússon) pylsugerðarmaður með meiru, sem ég man eftir að hafi búið á Hávegi 3 eða 5 áður en hann flutti úr bænum einhvern tíma um miðjan sjöunda áratuginn. Myndin gæti samkvæmt öllu verið tekin um eða upp úr 1960.

Stelpan til hægri gæti verið Steinunn Margrét Eldjárnsdóttir, en strákurinn til vinstri heitir Hörður Þorsteinsson (fæddur 1953) og býr núna á Selfossi. Ég man ekki eftir honum og veit ekki hvaða tengingu hann hefur við Siglufjörð, en þó er nokkuð víst að einhver hafi hún verið.

Kannski getur einhver skotið inn fróðleiksmola.

14.08.2013 08:25

Kornungir gítarsnillingar



880. Þeir sem eiga það til að kíkja inn á youtube vefinn, vita að þar er auðveldlega hægt að ílengjast og það jafnvel svo um munar. Ég sá litla frétt á mbl.is í vikunni og í framhaldinu festist ég auðvitað í alllangan tíma á umræddum stað, en það er nú önnur saga. Tilefnið var sem sagt fréttin um frönsku stúlkuna, gítarsnillinginn sem er þó ekki nema 14 ára. Hún birti nýverið myndband af sér, þar sem hún situr með rafmagnsgítar og flytur, eða réttara sagt tætir það sem hún kallar verk til heiðurs Vivaldi. Flutningurinn er sannarlega ótrúlegur, en hann hefst á kunnuglegu stefi úr Sumri árstíðanna fjögurra, er í bráðskemmtilegum þungarokksstíl  og fer þessu rammklassíska verki hreint alls ekki sem verst. Slóðin að snilldinni er http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=DIGfO2Dgc9Y

Stúlkan, sem kallar sig Tina S á youtube, er ýmsum netverjum kunnug, því hátt í 6,7 milljónir hafa hlýtt á flutning hennar af Eruption eftir Van Halen.




Og á youtube leiðir oftast eitt af öðru og hlustandinn er gjarnan leiddur áfram á svipaðri braut. Eftir eitt myndbandið er boðið upp á næsta og næsta o.s.frv. Það gerðist einmitt í minu tilfelli að þessu sinni, því upp poppaði annað myndband þar sem um var að ræða 8 ára breska stelpu, en mbl.is mun einnig hafa fjallað um hana nýverið. Sú sló einnig í gegn með snilldarlegum gítarleik sínum, heitir Zoe Thomson og býr í bænum Thatcham. Hér má sjá hana leika lagið Stratosphere með finnsku þungarokkssveitinni Stratovarius en gítarhlutverkið í því lagi þykir síður en svo vera fyrir neina byrjendur.

Á mbl.is segir að Zoe litla Thomson er ekki óvön sviðsljósinu, því fyrir ári vakti hún mikla athygli með barnasveitinni The Mini Band. Sveitin varð vinsæl fyrir að flytja lagið Enter Sandman með Metallica, en meðlimir The Mini Band eru aðeins 8-10 ára.

04.08.2013 23:12

Steingrímur í nýju starfi




879. Steingrímur Kristinsson
eða Baddý í Bíó eins og hann hefur stundum verið kallaður, gefur ekki tommu eftir í ljósmyndabransanum þó hann sé nú fluttur úr Hvanneyrarbraut 80, nyrsta húsi Siglufjarðar og inn á Skálahlíð þar sem hann segist þurfa að hafa mun minna fyrir hinu daglega brasi og líkar að eigin sögn vistin vel. En um það leyti sem hann gerðist "löglegur" (eða þannig), setti hann á stofn nýjan siglfirskan netfjölmiðil "Lífið á Sigló", en áður hafði hann keypt allt það safn ljósmynda sem orðið hafði til eftir áratuga rekstur Kristfinns Guðjónssonar á Ljósmyndastofu Siglufjarðar, en hún hafði þá ekki verið starfrækt um árabil. Vefurinn fór fyrst á netið um miðjan júní 2003 og varð því tíu ára nýverið, en ljósmyndirnar sem hafa orðið aðgengilegar á netinu smátt og smátt allar götur síðan 1998, eru nú orðnar vel á annað hundrað þúsund og ljósmyndarar sem lagt hafa til efni skipta tugum. Breyting varð á eignarhaldi vefmðilsins á árinu 2008 sem varð til þess að fleiri komu að rekstri hans, en sú gríðarlega vinna sem felst í daglegum rekstri hans eins og hann hafði þá þróast, er ekki einum manni ætlandi. En eftir stendur að Siglfirðingar geta verið þakklátir Steingrími fyrir hið
 ómetanlega frumkvöðlastarf  hans sem aldrei verður réttilega metið til fjár.

Síðan umrædd breyting varð á rekstri vefsíðunnar hefur Steingrímur sinnt áhugamáli sínu af alúð og natni, enda haft mun meiri tíma til þess en áður og hefur því daglega mátt sjá hann á ferðinni í bænum, en að sjálfsögðu aldrei myndavélalausan. En líklega hefur okkar manni fundist hann hafa orðið of lítið að gera því hann hefur nú tekist á hendur nýtt starf, og nú sem safnvörður í hinu nýopnaða Ljósmyndatækjasafni sem er til húsa að Vetrarbraut 17 og er kærkomin viðbót í siglfirsku safnaflóruna sem er nú farin að spanna ansi breitt og skemmtilegt svið.
Ég leit við  hjá Steingrími í safninu og sníkti auðvitað kaffi í leiðinni. Þarna eru saman komnir fjölmargir forvitnilegir gripir sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast sögu ljósmyndunnar hérlendis allt frá upphafi hennar. Ég fékk þó að vita að ekki væri allt komið enn, því talsvert af tækjum væri enn í geymslum syðra. Baldvin og Inga eigendur ljósmyndavöruversluninnar BECO eiga heiður skilið fyrir framtak sitt, en þau hafa safnað öllum þeim tækjum og tólum sem þarna er að sjá og meiru til. Þau keyptu húsið við Vetrarbrautina fyrir nokkrum árum og eru nú langt komin með að gera það mjög smekklega upp. Fyrir fáeinum dögum átti ljósmyndari frá Mbl.is leið um Siglufjörð og leit þá við á safninu. Afrakstur þerrar heimsóknar má sjá ef fylgt er slóðinni http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/84708/?cat=innlent

Það má svo geta þess í leiðinni að unglambið er ekki nema 79 ára gamalt sem er auðvitað ekki nokkur aldur og þess vegna ekkert óeðlilegt að starfsorkan sé allt að því óendanleg eins og hún svo sannarlega virðist vera. En ber er hver að baki o.s.frv. eins og spakmælið segir, því ekki megum við gleyma þætti Guðnýar í Bakka sem stutt hefur bónda sinn alla tíð.
Hér að neðan (og reyndar ofan líka) eru nokkrar myndir sem ég tók í innlitinu, og ég vil hvetja þá sem enn eiga eftir að kíkja þarna við til að gera það sem fyrst - og oftast.




Steingrímur bauð upp á kaffi sem ég þáði með þökkum.




Tveir af fjórum skápum sem eru fullir af ljósmyndatækjum og tólum.




Myndavélarnar eru svo sannarlega frá ýmsum tímum.




Sumar greinilega komnar á mjög virðulegan aldur.




Eins og klipptar út úr svart/hvítum draumi síðustu aldar.




Og þessu tæki ásamt fylgihlutum skortir mig þekkingu til að lýsa.




Eða þá þessari gömlu merkismaskínu sem er Rússnesk eftirlíking af LEICA.
Þið verðið bara að sjá með eigin augum og njóta í leiðinni leiðsagnar Steingríms sem veit auðvitað heilmikið um þessa gömlu dýrgripi.
  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 339
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481056
Samtals gestir: 53318
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 10:33:28
clockhere

Tenglar

Eldra efni