Færslur: 2014 Mars
30.03.2014 09:49
Bakhliðin á Hörpunni
919. B-hliðin á Hörpunni er
ekkert síður flott en sú sem fram snýr, allir túrhestarnir taka endlaust myndir
af alla daga, er þekkt sem eitt af einkennum miðbæjarins, hluti af ímynd
Reykjavíkur og reyndar landsins alls. Í dag er mun minna ósætti um húsið og
byggingu þess en var kring um hrunið og flestir geta samþykkt í dag að þetta sé
hin flottasta bygging. Samt er alltaf stutt í hina landsbyggðarpólitísku frasa
og hrepparíginn þegar ég heyrði einhvern tala um "bruðlið" í kring um Héðinsfjarðargöng
á dögunum. Það hefði nú verið meira vit í Sundabraut.
En þið fenguð Hörpuna.!
Ég rölti fram Ingólfsgarðinn
og skaut þessari.
24.03.2014 23:15
Í tilefni nýliðins Bolludags
918. Það þurfti bæði kjark, þor (að mínu mati) og líklega talsvert magn af fífldirfsku ásamt stórum skammti af kæruleysi til að láta þessa skrípamynd sjást á hinu óendanlega alneti allra þjóða (nema Norður-Kóreubúa). Kannski var ég líka svolítið bæði manaður (og spanaður) til þess arna, en þess utan verður auðvitað að heiðra og halda upp á hinn árlega Bolludag með öllum tiltækum ráðum (og dáð).
17.03.2014 09:57
Lítill flutningabíll með mikla flutningsgetu
917. Það er stundum haft á
orði um ýmsar tegundir smábíla að þeir séu stærri að innan en utan. Auðvitað er
þetta oftar en ekki sagt í léttu grínu og þá væntanlega helst af eigendum
þeirra sem tala þá upp veg þeirra, getu og gagnsemi og
Þannig bar til að ég keypti
eitt eurobretti af varningi af innflytjanda sem hafði ákveðið að leggja niður
þann hluta starfseminar sem tiltekin vörulína tilheyrði. Haldin var heilmikil útsala
þar sem ég mætti og verslaði í nokkra meðalstóra pappakassa. Þegar ég hafði
þakkað fyrir mig og gekk til dyra, kallaði eigandinn á eftir mér.
"Viltu ekki bara taka andsk.
brettið á fimmtíu þúsund kall".
Ég snarsnérist þá á hæli og áður
en ég vissi af hafði ég svarað hátt og skýrt með afgerandi "Jú takki".
En þar sem ég var þá á leið
til vinnu varð að samkomulagi að ég kæmi í hádeginu daginn eftir og gengi frá mínum
málum.
Ég mætti nokkuð stundvíslega
og hitti þá fyrir meðeiganda þess sem ég hafði átt viðskiptin við deginum áður
og sá var greinilega vel upplýstur um málin.
"Komstu ekki með einhvern bíl
með þér" spurði hann".
"Ég er á bíl" svaraði ég og
bennti á Micruna.
"Ég meina sendibíl undir dótið"
sagði hann og brosti til mín og það var eins og það örlaði aðeins fyrir
vorkunsemi bæði í röddinni og brosinu. Maðurinn hafði greinilega verulegar
efasemdir um þann hæfileika sem liggur að vísu nokkuð misvel fyrir mönnum og er
stundum kölluð "rýmisgreind".
"Heldurðu að þetta fari ekki
nokkuð langt í þennan" spurði ég á móti en maðurinn hló.
"Ég er líka á bíl og gæti
kannski tekið eitthvað af þessu og skotist með þér".
Þetta var þá vinalegur karl
og vel meinandi, en ég hafði ekki fleiri orð um pláss eða plássleysi og byrjaði
að bera dótið út og raða í bílinn. Hann fór þá að bera með mér og fylgdist áhugasamur
með hvernig raðaðist meðan lækkaði á brettinu en þéttist í bílnum. Þannig fór
að lokum að ég hélt á síðasta kassanum í fanginu sem var í stærra lagi, en hann
komst alls ekki inn. Það mál leystist þó með því að opna hann og raða
innihaldinu sem voru margir litlir hvítir kassar í allar þær glufur sem
fyrirfundust. Að lokum átti ég aðeins eftir að koma sjálfum mér inn sem hafðist
með góðum vilja og nokkurri lagni, því ég hafði þurft að færa bílstjórasætið svo
mikið fram að það lá við að ennið legðist á framrúðuna. Ég fann einnig út að ég
gat alls ekki sett í bakkgír vegna plássleysis, en það kom reyndar ekki að sök
að þessu sinni. Ég ók af stað og maðurinn sem hafði afgreitt mig og verið svo
hjálplegur við lestunina, stóð eftir og horfði hugsandi á eftir bílnum og
ökumanni hans fjarlægjast og hverfa síðan fyrir næsta horn.
15.03.2014 02:46
Umhleypingar
916. Vér Frónbúar munum
eflaust verða seint þreyttir á að spá í veðrið, velta fyrir okkur hvenær það
breytist næst, hvernig og hvað geti hugsanlega verið
Nokkuð sem gerist ekki alls
staðar í henni veröld.
Í vikunni sem nú er senn
liðin fengum við sem búum hérna á suðvesturhorninu svolítinn skammt af
umhleypingum.
Dagur 1.
Síðustu dagana hafði tekið
upp snjóinn sem síðast kom og það var orðið því næst sem autt.
Allt í einu en þó ekki aðlveg
að óvörum fór að snjóa og þær voru svo sannarlega ekki af minni gerðinni
flyksurnar sem svifu til jarðar og þöktu hana hvítu teppi á skammri stundu.
Að kvöldi hafði teppið
þykknað það mikið að mun réttara orðalag yfir úrkomu dagsins var jafnfallinn
snjór upp á einhverja tilgreinanlega þykkt samkvæmt viðeigandi mælieiningum.
Dagur 2.
Snjórinn síðan í gær var á
hröðu undanhaldi, enda rigndi eins og enginn væri morgundagurinn. (Þó hann væri
auðvitað tiltölulega skammt undan, - alla vega ef horft er til jarðsögulegra tímaviðmiðana).
Ég kom við í Bónus á Hrauninu í Hafnarfirði á leiðinni heim. Öðru megin við húsið eða þeim megin sem ég er vanur að leggja, var ekki mikið um nýtileg bílastæði eins og á stóð. Niðurfall hafði greinilega stíflast eða það hafði ekki undan flaumnum og svæðið ekki skótækt. Það mæta nebblega sárafáir í búðina á vöðlum. Allir voru því hinum megin og þar var algjört bílakraðak.
Dagur 3.
Það var næstum því eins og
sumarið væri komið. Engin rigning lengur og allir búnir að gleyma að það hefði
snjóað nokkuð að ráði þennan veturinn. Aðeins vantaði þó enn upp á græna, rauða, gula
og bleika litinn í gróðrinum.
Þetta er nú meiri tíðin sögðu
menn hver við annan og nutu veðurblíðunnar á stutterma.
07.03.2014 09:34
Borgarafundur um áfengismál
915. Margt var svo mikið öðruvísi
hér í denn að það þarf að setja sig í sérstakar stellingar til að meðtaka það
sem fyrir augu ber þegar grúskað er í gömlum blöðum. Ég rakst á greinina hér að
neðan í Siglfirska kratablaðinu NEISTA frá 29 nóv. 1945.
Almennur borgarafundur um áfengismál var haldinn s.l. sunnudag. Að fundi þessum stóðu helztu félagssamtök hér í bæ. Ræður fluttu: Frú Þóra Jónsdóttir, Guðmundur Hannesson bæjarfógeti, frú Sigurbjörg Hólm, Einar Albertsson verkamaður, Hlöðver Sigurðsson skólastjóri og Jóhann Þorvaldsson kennari. Ennfremur: Jón Jóhannesson, Jóhann G. Möller og Gunnar Jóhannsson. Fundarstjóri var Pétur Björnsson og ritari Nils Ísaksson.
Eftirfarandi ályktanir voru gerðar
á fundinum:
"Almennur Borgarafundur
haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945, skorar á hin ýmsu félagssamtök í bænum að
hefja samstarf um að vinna gegn áfengisneyzlu, meðal annars á eftirfarandi
hátt:
1. Að sjá um, að áfengi sé
eigi um hönd haft á skemmtunum, sem félögin standa að, eða ölvuðum mönnum
leyfður inngangur.
2. Að félögin vinni að því,
að meðlimir þeirra hafi ekki áfengi um hönd á opinberum skemmtistöðum.
3. Að félögin, hvert í sínu
lagi, ræði áfengismálin á félagsfundum og hvetji meðlimi sína til að vinna gegn
áfengisneyzlu. Jafnframt hafi félögin samstarf um þessi mál.
"Almennur borgarafundur
haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945 lítur svo á, að brýna nauðsyn beri til að í
öllum skólum landsins séu haldnir fræðandi og hvetjandi áminningarræður um
nauðsyn bindindis og reglusemi nemenda."
"Almennur borgarafundur
haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945 lítur svo á, að áfengisneyzla þjóðarinnar sé
nú svo mikil, að stórkostleg menningar og fjárhagsleg hætta stafi af.
Fundurinn telur það
algjörlega óhæft að mikill hluti tekna ríkisins sé ágóði af áfengissölu, og
skorar því á alþingi og
ríkisstjórn að vinna að því í náinni framtíð, að íslenzka ríkið byggi ekki
afkomu sína á slíkum tekjum."
"Almennur borgarafundur
haldinn á Siglufirði 25. nóv. 1945, skorar á ríkisstjórnina að láta koma til
framkvæmda lög um héraðabönn. Ennfremur lýsir fundurinn því yfir, að hann telur
óhjákvæmilega nauðsyn að áfengisútsölu ríkisins á Siglufirði sé lokað yfir
síldveiðitímann.
Svo mörg voru þau orð.
En mér þykir rétt að láta
kauptaxtann frá sama ári og fundurinn var haldinn fylgja þessari upprifjun, svona rétt til að minna á að full ástæða var að hafa ráðdeild og sparsemi að leiðarljósi þegar hugað var að áfengiskaupum.
02.03.2014 03:37
Endurnar á Tjörninni og gestir þeirra
914. Um helgar á ég oft leið
fram hjá Tjörninni í Reykjavík, ýmist að morgni eða kvöldi og freistast þá stundum
til að draga myndavélina upp úr brjóstvasanum og smella nokkrum hnitmiðuðum af
svæðinu, að þessu sinni undan sól.
-
Kyrrlátt og yfirvegað andrúmsloftið,
hrifning viðstaddra (sem fæstir tala reyndar íslensku) á þessari friðsælu vin í
miðri borginni, litir himinsins að kvöldi eða geislar sólarinnar sem gægjast
yfir sjóndeildarhringinn að morgni, gleði mannfólksins sem blandast gleði
fiðurfénaðarins sem þiggur sínar brauðgjafir með kvakandi þökkum, skautasvellið
nánast við hliðina á heita affallinu í norðausturhorninu sem heldur vökinni við
Iðnó ávallt opinni.
-
Allt þetta og miklu, miklu
fleira skapar stemmingu sem fyrirfinnst hvergi annars staðar, a.m.k. ekki hérlendis
og hefur mikið aðdráttarafl á þá sem vilja kynna sér svolítið sýnishorn af því hvernig Paradísarvist gæti verið.
-
Hér að neðan eru nokkar
myndir af fiðruðum íbúum Tjarnarinnar og ófiðruðum gestum þeirra plús ein sem ég
læt fljóta með og er af "seinni" turninum við Smáralind, en framkvæmdir við
byggingu hans eru nú hafnar að nýju síðan staldrað var við nokkru eftir hrun..
- 1