18.10.2009 04:36
Axel kveður
589. Um nýliðna helgi var komið að enn einum vendipunktinum í tónlistarbröltinu, því "Vanir Menn" þ.e. dúóið Axel Einarsson og ég spiluðum saman á Catalinu að öllum líkindum í síðasta sinn. Ástæðan er sú að Fáskrúðsfirðingurinn Axel hefur pakkað saman öllum sínum pjönkum og sent til Svíþjóðar þar sem hann hyggst setjast að. Hann hefur einnig fest kaup á húsi þarlendis sem er því sem næst við enda Eyrarsundsbrúarinnar gegnt Köben og er þessar vikurnar að koma sér þar fyrir.
Öll tæki og tól sem tilheyrðu Stúdeó Stöðinni voru skrúuð í sundur og þeim pakkað í gám, en nú er unnið að því að koma því aftur saman úti í Svíaríki.
Ekki er hægt að segja annað en að samstarfið hafi gengið afburða vel og afraksturinn hafi verið verulegur miðað við hvað fyrir hlutunum var haft. Algengt var til dæmis að annar hvor okkar kæmist yfir texta sem var prentaður út í tveimur eintökum (eitt á mann), síðan var farið yfir hljómagang lagsins í bílnum á leiðinni á áfangastað og lagið spilað um kvöldið. Annað sem var svo skemmtilega jákvætt við Axel var óttaleysi hans við að prófa nánast hvaða lag sem var undirbúningslítið eða laust, hvort sem það var gert á fámennu skralli eða fjölmennri og virðulegri samkomu í fagurlega skreyttum salarkynnum. Skipti þá litlu hvort um var að ræða eitthvað sem hann hafði spilað fyrir 30 árum og þurfti að sækja inn í mistur hugans og lágþokubakka löngu liðins tíma, eða eitthvað splunkunýtt sem var að ganga þann daginn.
Eitt af lögunum sem við Axel höfum tekið fyrir undanfarið er "Nú er gaman" með hljómsveitinni Deildarbungubræðrum sem voru geysivinsælir upp úr 1970. Það er hins vegar ekki fyrr en fyrst núna að ég las þennan óborganlega texta og velti fyrir mér "hinni dýpri merkingu" hans. Niðurstaðan er að það er líklega auðveldast að hafa bara gaman af og komast í gott skap við lesturinn.
Deildarbungubræður gáfu út plötuna "Saga til næsta bæjar" árið 1976 og "Enn á jörðinni" ári síðar.
En til að fleiri en ég geti notið þeirrar ánægju að finna sér svolítinn húmorsvott í kreppunni er auðvitað nauðsynlegt að skjóta umræddu ljóði hérna að.
Nú er gaman.
Ég held ég elski Stínu samt er ég ekki viss,
því aðra fallegri ég sá í gær.
Ég arka nú um bæinn og vonast hana að sjá,
og viti menn brátt stendur hún mér hjá.
Og nú er gaman,
kærastan og ég hér saman,
leiðumst um bæinn hönd í hönd,
um draumalönd, - nú er gaman.
Því nú er gaman,
kærastan og ég hér saman,
leiðumst um bæinn hönd í hönd,
um draumalönd, - nú gaman er.
Ég reyti af mér brandara og hvísla ástarorð,
hún segist vera til í að fara á fast
Þó langt sé liðið kvöldið á er hvorugt okkar þreytt,
og hún segist vera afslöppuð hjá nér.
Ó hve unaðsleg,
þessi stund er mér,
er ég hugsa til þín.
Finn mig knúinn til,
til þess að faðma þig,
hamingjan mér hliðholl er.
Hmmm... Er hægt að finna svolítinn gelgjutón einhvers staðar?
Það er auðvitað skondnara en flest annað þegar maður hugsar til þess að þeir sem þetta "frömdu" á sínum tíma eru nú um sextugt...
Textann gerði annars Árni Sigurðsson sem var söngvari Deildarbungubræðra en lagið er danskt.
Um þessa vinsælu sveitaballahlómsveit sem stundum hefur verið talað um sem eins konar grínband er ýmislegt hægt að segja. Til að byrja með var tilurðin og upphafið mjög sérstök, því hljómsveitin var stofnuð á Jökuldalnum þar sem Eikin átti að spila í Valaskjálf á Egilstöðum um kvöldið. Á þessum tíma var Axel umboðsmaður Eikarinnar og hugmyndin var þróuð svolítið nánar síðasta spölinn austur. Hún fólst í því að þeir sem í bílnum voru flestir nýttir til verksins og spiluðu þá Eikarmenn á önnur hljóðfæri en þeir gerðu alla jafna. Til dæmis settist gítarhetjan Steini Magg við trommusettið, umoðsmaðurinn Axel tók til við gítarinn og bílstjórinn lék á bassann. Þegar á áfangastað var komið voru menn nokkurn veginn tilbúnir með u.þ.b. 20 lög, en uppistaðan voru laufléttirléttir rokkslagarar og mikið af kæruleysi og glensi. Þetta var eins og þeir sem þekktu til Eikarinnar vita, eins langt frá tónlistarstíl hennar eins og vera má en svínvirkaði. Um nafngiftina er það að segja að á leiðinni austur var ekið fram hjá sveitarbæ sem heitir Deildartunga og var nafninu lítillega breytt til að framkalla það sveitalega "bomsufíl" sem hugmyndin um Deildarbungubræðraþemað gekk út á. Það er skemmst frá því að segja að bandið sló í gegn þegar það kom fram í pásunni og svo fór að það kom fram aftur þegar lengra leið á ballið sem það kláraði og gæðasveitin Eik komst ekki aftur að á pallinum. Eftir þetta varð ekki aftur snúið og þróaðist sveitin á sínum eigin forsendum til frægðar og frama.
Nokkrir harðir poppnaglar hafa haft lengri eða skemmri viðdvöl í þessu "bræðrabandi" og má þar t.d. nefna Lárus Gríms, Jón Ragnars, Harald Þorsteins, Óla Kolbeins, Óla Garðars og bassaleikarann Kristinn Sigurjónsson eða Didda sem núna rekur ísbúðina í Kringlunni.
Hins vegar vil ég geta þess að ágæta umfjöllun um Eikina er að finna á vef Steins Skaptasonar en slóðin þangað er...
http://steinnskaptason.blog.is/blog/steinnskaptason/entry/391618/ og http://steinnskaptason.blog.is/blog/steinnskaptason/entry/401563/
En í beinu framhaldi af þessum textapælingunum hér að ofan kemur eftirfarandi vísa upp í hugann, en hún hefur verið eignuð ekki ómerkari eðaltöffara en Ragga Bjarna.
Diddi litli datt í dý
og meiddi sig í fótnum.
Hann varð aldrei upp frá því
jafngóður í fótnum.
Menn eiga það nefnilega til í þessum bransa rétt eins og í öðrum "brönsum" að fara annað slagið á svolítið flug.
En nú er ég kominn langt frá efninu eins og ég á svo sem vanda til.
Ég hef áður minnst á að Axel á sér talsvert skrautlegan feril að baki í poppinu og reyndar mun fjölskrúðugari á allan hátt en margurinn veit af. Hlómsveitin Icecross (1973) var líklega fyrsta íslenska poppútrásin, en með honum í þeirri sveit voru þeir Ómar Óskarsson (Pops) og Ásgeir Óskarsson (Stuðmenn). Þeir æfðu sitt prógram sem innihélt eingöngu frumsamið þungt rokk, sigldu út með Gullfossi og gerðust þar hústökumenn í fríríkinu Krisjaníu. Þeir spiluðu talsvert á hinum merka tónleika og veitingastað Revolution og m.a. á móti danska stórrokkbandinu Gasoline þar sem aðalmaðurinn var sjálfur Kim Larsen. Algengt var að erlendar hljómsveitir kæmu á þennan stað eftir tónleika til að kynna sér hina "dönsku" rokkmenningu. Axel sagði mér m.a. frá því að eitt sinn þegar hann leit upp eftir langt inproviserað gítarsóló sat hljómsveitin "Who" eins og hún lagði sig á borði næst sviðinu og fylgdist grannt með þessu íslenska bandi. Einhverju síðar eftir annað sóló sátu fjórir félagar við þetta sama borð og sperrtu eyrun. Það voru þeir Crosby, Stills, Nash og Yong.
Icecross starfaði í u.þ.b. 8 mánuði en leystust síðan upp og komu aftur heim með Gullfossi. Þegar þeir fóru út höfðu þeir keypt sér gamlan Benz sendibíl, en við heimkomuna lagði tollurinn hald á bifreiðina og hélt henni í þrjá daga til skoðunnar. Mun hið "rokksýrulega" útlit þeirra félaga eflaust hafa haft sitt að segja og sagt var að þeir ágætu enbættismenn þar á bæ hafi tekið þrjá daga að skrúa bílinn í sundur og setja hann saman aftur.
Eftir Icecross ævintýrið fór Axel til BNA og túraði þar m.a. um nokkurra mánaða skeið með hinni einu sönnu Shady Owens.
Næst tók við Tilverutímabilið en hljómsveitina Tilveru (1969-1971) stofnaði hann ásamt Engilbert Jensen sem kom úr Hljómum, Rúnari Gunnarssyni úr Dátum, Jóhanni Kristjánssyni bassaleikara úr Flowers og Ólafi Garðarssyni sem hafði verið í Óðmönnum. Fleiri höfðu einnig viðdvöl í Tilveru s.s. Gunnar Hermannsson bassaleikari og Herbert Guðmundsson söngvari.
Axel gerðist umoðsmaður Eikarinnar en út úr því ofurbandi spruttu áðurnefndir Deildarbungubræður fyrirvaralaust og því sem næst fullskapaðir.
Þá hefur hann starfað um lengri eða skemmri tíma í Sálinni (hinni eldri), Persónu, Landshornarokkurum, Haukum, Freeport og núna síðast Vönum mönnum. En flestir þekkja líklega Axel vegna samstarfs við Jóhann G. Jóhansson þegar þeir sömdu saman lagið "Hjálpum þeim", en svo undarlegt sem það kann að vera þá samdi Axel lagið en lagahöfundurinn Jóhann að þessu sinni textann.
Hebbi Guðmunds með okkur Axel á Catalinu í gærkvöldi (17.okt.)
Í lokasprettinum á Catalinu í gærkvöldi fengum við óvæntan gest upp á pall. Þar var mættur Herbert Guðmundsson í sínu besta formi og var þá snarlega skipt yfir í Bítla og Stones sem söngvarinn kann utan að rétt eins og Faðirvorið, en það má gjarnan geta þess að hann kann það alveg upp á tíu. Það var ekki að sökum að spyrja að dansgleði gestanna sem var þó ærin fyrir, jókst enn meira og það um talsvert margar "stuðeiningar". Ég er ekki frá því að klukkan hafi eitthvað "litilsháttar" verið farin að halla í fjögur þegar síðustu tónar Lennonlagsins "Imagine" dóu út.
Ég vil þakka Axel Einarssyni samstarfið sem staðið hefur undanfarin þrjú ár og verið einkar ánægjulegt og farsælt í alla staði, þó svo það sé auðvitað aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.
10.10.2009 00:06
Laufskálarétt 2009
588. Laugardaginn 26. sept. var ég staddur á Flugumýri, en þann hinn sama dag var heilmikið að gerast í næsta nágrenni. Það er hefð fyrir því að Laufskálaréttir beri upp á síðustu helgi septembermánaðar og því var engin spurning um hvernig verja ætti deginum. Þar sem Bjarni B. sem var samferðarmaður
Það var reyndar leiðindaveður þennan dag, hríðarhraglandi og skítakuldi. Það gerði nokkuð þétt él annað slagið fram eftir deginum og margir leituðu skjóls í heitum bílunum á meðan þau gengu yfir. Ég átti í endalausum vandræðum með myndavélina mina því linsan vildi hvorki opnast né lokast að fullu og kenndi ég kuldanum um.
Þarna voru samankomin um 500 hross og 2000 manns í þessum stærstu og mestu stóðréttum landsins sem jafnframt eru þær mest og best sóttu.
En það var mikið fjör í réttunum þrátt fyrir óheppilegt veðurfarið og ég hef aldrei séð eða upplifað neitt svipaða réttarstemningu og þarna var ríkjandi. Það var mikið sungið, trallað og svolítið sopið á.
Ég rakst á skemmtilegan greinarstúf efir Birgi Haraldsson bónda á Bakka í Viðvíkursveit og leyfi mér að hafa hann eftir í von um að ég komist upp með "glæpinn".
Frá ómunatíð hafa bændur í Hóla- og Viðvíkurhreppum hinum fornu rekið búfé sitt á Kolbeinsdalsafrétt. Elstu heimildir telja að búfé af þessu svæði hafi verið réttað í rétt sem stóð í Grófinni á milli dalanna (Kolbeinsdals og Hjaltadals) skammt vestan við núverandi afréttarhlið. Mikil dulúð hvílir yfir þessari rétt og sögur af henni með þjóðsagnablæ.
Árið 1818 er rétt byggð á Heljareyrum undir Heljarfjalli í Kolbeinsdal; var hún öll hlaðin úr grjóti með stórum almenningi og 15 dilkum. Upp úr 1920 fóru menn að ræða það af fullri alvöru að flytja réttina niður í byggð og smala til hennar af öllu svæðinu. Beindust augu manna fljótt að Laufskálaholti í landi Brekkukots (nú Laufskálar) en þrátt fyrir margra ára þóf náðist ekki að byggja hana þar. Sumarið 1929 var byggð timburrétt á Brekkukotseyrum (nokkru sunnar en núverandi rétt stendur) með 22 dilkum. Þessi rétt reyndist illa og var að verða ónothæf um 1950.
Aftur beindust augu manna að Laufskálaholtinu. Eftir fjögurra ára baráttu með ótal fundum, sendinefndum og viðtölum virtist allt komið í strand, en þá bauð Páll Jónsson, bóndi í Brekkukoti, land undir réttina og nátthaga á Laufskálaholti, endurgjaldslaust.
Bygging núverandi réttar hófst 2. júní 1954, en grunnur var jafnaður haustið áður. Byggingarnefnd skipuðu Sigurmon Hartmannsson, Kolkuósi, sem var formaður, Friðbjörn Traustason, Hólum og Pétur Runólfsson, Efra-Ási. Teikningu gerði Teiknistofa landbúnaðarins. Réttin er öll steinsteypt og stendur á stólpum en annars holt undir veggi, almenningur er láréttur en dilkarnir 23 halla lítilega frá miðju.
Áætlaður kostnaður var 150.þúsund en sú áætlun stóðst ekki og var endanlegur kostnaður kr. 201.989,55.
Heimamenn sáu um grunnin undir verkstjórn Hermanns Sveinssonar á Miklahóli . Svitnuðu margir við það verk því handgrafa þurfti fyrir öllum stöplum svo og almenningi og voru verkfærin skóflur, hakar og járnkarlar. Stöplarnir voru steyptir í mótum sem smíðuð voru úr gömlu réttinni, öll steypa var handhrærð á flekum og vatn sótt í mjólkurbrúsum. Um veggjabyggingu sá Kaupfélag Skagfirðinga og var yfirsmiður Guðmundur Sigurðsson.
Margir spáðu illa fyrir þessu verki, töldu að það yrði aldrei búið og svo myndi réttin hrynja. En með þrotlausri vinnu tókst að ljúka verkinu á réttum tíma og var réttin vígð þann 20 september 1954 að viðstöddu miklu fjölmenni.
Einn góðviðrisdag, á meðan á verkinu stóð, kallaði Friðbjörn á Hólum okkur saman, sem þarna vorum að störfum, og sagði: "Piltar. Þessi rétt á að heita Laufskálarétt, ekki Laufskálaholtsrétt. Þið heyrið það".
Síðan hefur Laufskálarétt staðið undir nafni í 50 ár, sér og sínum til sóma. Mjög hægur stígandi var í gestakomu í réttina framan af, en smátt og smátt laðaði stóðréttin að sér fleira fólk og um tíma var hrossaverslun allfjörleg þótt dregið hafi úr því á seinni tíð. Gestir sem nú koma í stóðréttina árlega skipta þúsundum , enda er Laufskálarétt af mörgum talin drottning stóðréttanna.
Líklega eru þessir að hita upp fyrir réttarballið sem var haldið um kvöldið í reiðhöllinni að Svaðastöðum þar sem mættu á þriðja þúsund manns.
Svo eru alltaf einhverjir sem finna sig best í þjónustuhlutverkinu og ekki skemmir ef hægt er að skrapa saman nokkrum aurum í leiðinni. Þessi opnaði afturhlerann á bílnum og seldi grimmt, enda er góður harðfiskur ómissndi við aðstæður sem þessar.
Strákurinn með möppuna snéri sér að mér og spurði hvort hann mætti leggja fyrir mig nokkrar spurningar. Hann kvaðst vera nemandi við Hólaskóla og yfir stæði könnun sem tengdist ferðamennsku. Ég var auðvitað alveg til í það og svaraði í kjölfarið nokkrum spurningum, m.a. hvort ég væri hestamaður.
Einn kaldur á mann í skítakulda. Brrrrrrrr...
Og það voru ekki bara hestar og menn sem sóttu Laufskálarétt.
Við Bjarni hittum vin okkar og félaga úr hestaferðinni miklu frá liðnu sumri sem farin var um Snæfellsnes sem fagnaði okkur vel og innilega. Þarna var Þórólfur bóndi, hið gangandi vísnasafn og gleðimaður frá Hjaltastöðum mættur, en hann lætur sig aldrei vanta við Laufskálaréttir.
Þessum piltum virtist ekki vera neitt átakanlega kalt, enda líklega ýmsu vanir ef það var rétt sem einhver nærstaddur hafði á orði þ.e. að þarna væru Grænlendingarnir mættir. Og þá er líklega fullkomlega eðlilegt að þeir haldi fast í baukana sína, því á dögunum var kynnt verðkönnun á bjór á veitingahúsum víða um lönd. Þar sagði að ölið væri dýrast á Grænlandi af öllum löndum í "Evrópu" eða 1500-2000 kr. Reyndar tilheyrði Grænland Ameríku í landafræðinni sem ég lærði í denn, en er að vísu undir stjórn gömlu herraþjóðarinnar okkar þ.e. Dana svo málið verður því e.t.v. pínulítið loðið og teygjanlegt fyrir vikið.
Er þessi ekki með réttu græjurnar eða kannski "réttargræjurnar" þ.e. hatt, lopapeysu og svo auðvitað peli innan seilingar.
Þeir kunnu sér ekki læti fyrir kæti þessir drengir og hoppuðu saman hring eftir hring. Fyrir vikið var alveg ómögulegt að ná þeim óhreyfðum á mynd, en við látum hana nú samt fljóta með þrátt fyrir augljósa annmarka.
Bogga og vinkonur hennar voru líka á of mikilli hreyfingu fyrir myndavél eins og sjá má. En það verður að hafa þær með, enda eru þarna á ferðinni kátar stelpur í góðri sveiflu.
Hann guðaði á gluggann Bjarna megin og var "hleypt inn" en kíkti bara aðeins í gættina af því að hann var með hest með sér. Ég tel mig hins vegar vita að hann sé Pálsson og frá Varmahlíð.
Þegar líða tók á daginn fór bæði mönnum og hestum fækkandi. Þeir tíndust í burt einn og einn rétt eins og jólasveinarnir þegar jólin eru búin og allt tilstandið er að baki.
Norpað við að kveikja í nagla í norðangarra og næðingi.
Við Bjarni vorum komnir inn í bíl og bjuggumst til heimferðar þegar honum datt í hug að gaman væri að fá eina mynd af sér inni í réttinni. Það var auðvitað hin ágætasta hugmynd og við fórum aftur út til að hrinda henni í framkvæmd. Þegar þangað kom stökk Bjarni inn fyrir réttarvegginn en ég setti mig í stellingar og skaut nokkrum léttum linsuskotum að honum. Að því loknu gengum við aftur til bíls og ég sá Bjarna setjast farþegamegin inn í
"Heldurðu að þú eigir nokkuð að vera að keyra bíl svona á þig kominn? Viltu ekki bara koma út fyrir og fá þér einn gráan með mér"?
Hann lyfti pelanum eins og hann vildi skála fyrir einhverju, en ég skildi ekkert í hvað hann var að fara. Reyndar fannst mér þessi athugasemd hans svolítið kjánaleg því ég er þess fullviss að ég lít ekkert mjög brennivínslega út.
"Komdu nú og fáum okkur einn léttan, því það er miklu betra að ég láti konuna keyra en þig".
Nú læddist að mér illur grunur og ég horfði betur í kring um mig. Í bílnum við hliðina sat Bjarni hinn rólegasti, talaði í gemsann sinn og beið eftir bílstjóranum sínum. Ég fann fyrir skyndilegri hitaaukningu í andliti og vissi satt best að segja ekki alveg hvernig ég ætti að reyna að afsaka mig. Ég steig út úr silfurlitaða Troopernum og skotraði augunum að silfurlitaða Land cruisernum þar sem Bjarni sat enn hinn rólegasti og malaði í símann. Gerðarleg kona sem hafði staðið svolítið til hliðar við manninn gekk nú að bílnum og settist inn þar sem ég hafði áður setið. Maðurinn rak upp mikla hláturroku og sló létt á bakið á mér.
"Fáðu þér nú einn og hafðu hann stóran" sagði hann og rétt mér pelann.
"Veistu að ég er edrú í alvörunni" sagði ég lágróma.
"Ha, ertu edrú í alvörunni"? Maðurinn horfði vantrúaður á mig.
"Já ég er bara svona vitlaus að ruglast á bílum" bætti ég við.
Ég man að ég sagði eitthvað fleira, en það var bæði svo ruglingslegt og vandræðalegt að engu tali tók.
Meðan ég talaði mjakaðist ég að rétta bílnum og kvaddi manninn með pelann og bað hann enn og aftur margfaldlegrar afsökunar.
Hann virtist enn svolítið vantrúaður á svipinn en um það leyti sem ég settist aftur undir stýri skellti hann upp úr og sagði eitthvað sem ég heyrði ekki. Ég ók af stað, heilsaði honum með týpískri bílstjórakveðju og var engan veginn hlátur í hug.
Það sem maður getur nú verið verið vitlaus hugsaði ég með mér, en rosalega tók hann þessu nú létt blessaður karlinn. Tómu dósirnar tvær vögguðu í takt á gúmmímottunni við fætur Bjarna og ég er ekki frá því að ég hafi verið hálf feginn að sjá þær þarna á sínum stað, en þegar ég var svo kominn úr augsýn fann ég að steinninn í maganum var byrjaður að léttast.
Við ókum síðan ofan Hjaltadalinn sem gekk ágætlega í fyrstu, en urðum þó fljótlega að slá af því á undan okkur fór Guðný kúabóndi alveg löturhægt á græna bílnum sínum. Hún myndaði í sífellu reksturinn og e.t.v. eitthvað fleira sem fyrir augu bar, ýmist út um framrúðuna eða gluggann farþegamegin. Ég er alveg viss um að Guðný hefur komið heim með mikið af myndum.
17.09.2009 07:14
September 2009
587. Þegar nokkuð var liðið fram yfir miðjan septembermánuð var pakkað niður í tösku og haldið norður í Skagafjörð. Nokkurt hlé hefur verið á spilamennsku þar sem meðspilarinn er staddur í Svíaríki og því var áformað að staldra við á Flugumýri um tíma, eða nokkra daga fram í október. Ávinningurinn af slíkri heimsókn er ekki ósvipaður því sem lesa má utan á ópalpakka eða maltflösku... "Bætir, hressir, kætir" eða "gefur hraustlegt og gott útlit, - bætir meltinguna"...
Í byrjun mánaðarins þegar ég var á Siglufirði fór ég í nokkrar stuttar gönguferðir. Ekki leist mér þó á að ganga á fjöll því lágskýjað var nánast alla daga svo stundum sást ekki nema upp í miðjar hlíðar og tæplega þó. Allt "labb" var því á mun lágstemmdari nótum en oftast áður ef þannig mætti að orði komast. Mig hafði alltaf langað til að skoða fjöruna undir Staðarhólsbökkum allt að Selvíkurnefsvita og nú var lag. Þó svo að ég hafi komið svo oft að rústum Evangerverksmiðjanna að vart verður tölu á komið, hef ég aðeins þrisvar sinnum farið norður fyrir Staðarhól. Ég gekk af stað fjöruna frá enda gamla flugvallarins að Evanger, en það er aðeins u.þ.b. korters ganga. Og áfram var haldið yfir Rjómalæk, fjörurnar undir Staðarhól og ekki staðnæmst fyrr en við Álfakirkju. Hana hef ég aldrei áður séð og það eru ekki mörg ár síðan ég hreinlega vissi af tilvist hennar, en þetta er myndarlegasti klettur.
Ekki reyndist unnt að ganga fjöruna lengra en yfir Klungurbás sem er sá syðsti af básunum undir Staðarhólsbökkunum og að Peningaþúfu sem er lítið nef sem skiptir umræddum bás og Peningabás sem er næsti bás norðan við það. Ég varð því að ganga bakkana þá leið sem eftir var út að vitanum. Líklega hefði verið hægt með þokkalegu móti að fara fjörurnar alla leið ef ekki hefði verið svo hásjávað sem var, en örugglega mun seinfarnara á sleipum þaranum en grösugum bökkunum. Það tekur líklega u.þ.b. klukkutíma að ganga út að Selvíkurnefsvita á þokkalegum gönguhraða.
Annað sem lengi var búið að standa til að koma í verk, var að ganga Snjóflóðavarnargarðana ofan bæjarins frá Bakkatjörn að Bolatjörn eða endanna á milli.
Þegar gengið er eftir þessum risamannvirkjum finnum maður ósjálfrátt fyrir smæð sinni, og gerir sér í leiðinni frekari grein fyrir hve kraftar þeirra náttúrulegu hamfara sem þau eiga að vernda bæinn gegn hljóta að vera gríðarlegir.
Mér datt líka í hug að skreppa upp í Hvanneyrarskál, en að þessu sinni fór ég beint upp hlíðina fyrir ofan Rafstöðina. Og ég fór ekki bara einu sinni heldur tvisvar sama daginn sem kom reyndar ekki til af góðu. Í fyrra skiptið var ég hálftíma upp á brúninaen í það síðara innan við korter. Í fyrra skiptið fann ég nokkrar vel útlítandi bláberjaþúfur svo ég laut fram og tíndi heilan helling af bláberjum, en í það seinna til að leita af símanum sem hafði runnið fyrirstöðulítið upp úr brjóstvasanum og ofan í lyngið. Símann fann ég ekki enda var hann bæði gamall og þreyttur, en um símaskrána gegndi öðru máli. En nú er bara að safna nöfnum og númerum...
Það kviknaði rétt eins og upp úr þurru óstjórnlega mikil löngun í bláber og skyr. Ég velti fyrir mér hvort einhver ber væri að hafa án þess að fara of langt og þá hvar. Skyldi ekki líka vera búið að týna öll bláber sem styttra er í. Ég skrapp yfir á Saurbæjarás, lagði bílnum á nýja stæðið fyrir ofan kirkjugarðinn og rölti spölkorn norður fyrir það. Auðvitað var ekki eitt einasta ber að finna þó nóg væri af lynginu. Ég gekk svolítið lengra og viti menn, þarna var talsvert af berjum en það var eins og stóru berin væru öll horfin og aðeins smælkið hefði verið skilið eftir. Ég fór enn norðar og var nú kominn á móts við nýju útsýnisskífuna sem allar upplýsingar vantar á enn sem komið er og þar var allt blátt í kring um mig. Á þrem korterum tíndi ég nægilegt magn af stórum og safaríkum bláberjum sem dugði mér út á skyrið næstu fimm daga. Skrýtið að það skuli ekki vera búið að týna þetta allt svona rétt við bæjardyrnar.
Það er til merkis um að haustið sé í nánd þegar stóra sviðið við torgið er tekið niður. Ferðafólk er þá orðið fáséðara, lauf trjánna sem óðast að verða gul, lyngið rautt og það er eins og kyrrðin hafi sest að í bænum eftir fjarveru um sumarið. Ósjálfrátt kíkir maður inn í fataskápinn og tekur til peysu og hlýrri yfirhöfn sem er komið fyrir í fatahenginu í ganginum þar sem föt til hins daglega brúks eiga heima.
Þegar ég rölti eftir fjörunni
Og nokkur orð til viðbótar um haustið...
Þegar degi hallar og birtu bregður er engu líkara en það dimmi með einhvern vegin öðrum hætti en aðeins örfáum vikum áður. Það er líka allt orðið miklu kyrrlátara en áður var og maður horfir varfærnislega í kring um sig rétt eins og skarkali sumarsins gæti alveg átt það til að upphefjast aftur jafn skyndilega og hann hljóðnaði.
En það gerist ekki.
Hann Ingimar sá ágæti mágur minn á Flugumýri hringdi í mig meðan ég var á Siglufirði og sagði formálalaust: "Ég ætla að bjóða þér upp á tækifæri lífs þíns". Og hvernig er annað hægt en að taka slíku tilboði hvernig sem það hljóðar.
Í beinu framhaldi af því gerði ég nokkuð sem ég hef ekki gert í heil 35 ár þ.e. að fara í göngur. En sennilega er "göngur" fullstórt orð fyrir aðgerðina sem slíka og nær væri að segja "smölun" þótt vissulega hafi líka talsvert verið "gengið". En það sem var þó alveg nýtt fyrir mér var að ég fór í fyrsta sinn á hestbak og mundi kannski einhver segja að ekki væri það seinna vænna. Smalaður var Flugumýrardalur sem liggur til austurs norðan við Glóðafeyki og er líklega öllu meiri og stærri en margir halda þar sem hann sést illa frá vegi. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir að hann væri til fyrr en í júní sl. þegar ég gekk á Feykinn. Á myndinni hér að ofan er ég í "pössun" hjá "litlu" systrum mínum þeim Helenu og Margréti sem eru hinar mestu hestakonur.
Farið var inn dalinn sunnan við Hvammsána og þegar nokkur hluti leiðarinnar var að baki vorum við Einar sendir upp í hlíðarnar norðanverðar til að ná fénu sem þar hélt sig niður og yfir á þar sem það gæti síðan sameinast rekstrinum í bakaleiðinni. Myndin er tekin inn í dalbotninn, en upp af honum er Tungufjall og sé lengra haldið er komið niður í botn Hjaltadals.
Hér er horft í átt að mynni dalsins og fyrir miðju má sjá "bakhlið" Glóðafeykis.
Einar fór hátt upp í skriðurnar en ég hélt mig mun neðar og var á ferðinni allt frá bökkum árinnar og um í miðjar hlíðar. Það var engu líkara en þessar skjátur áttuðu sig á þeim annmörkum sem fylgdi því að vera aðeins tveir í allri hlíðinni og þær smugu tvisvar á milli okkar og við hlupum lafmóðir (a.m.k. ég) ýmist upp fyrir eða inn fyrir þær, en allt kom fyrir ekki. Að lokum tóku þær stefnuna út dalinn, fyrir Hjaltastaðafjall og hafa þá væntanlega mætt öðrum göngumönnum sem þar voru. Við vorum auðvitað sáttir við að vandamálið var þar með millifært yfir á þá. Ég sannfærðist til að byrja með um að það væri líklega alveg rétt sem stundum er sagt þ. e. a. rollur væru heimskar, en fékk síðað svolitla bakþanka. Auðvitað hafa þær ekki nokkurn áhuga á að fara til byggða svona rétt fyrir sláturtíð.
Eftir heilmikil hlaup var því hægt að setjast niður um stund, bíða eftir að hinir kæmu niður dalinn sunnanvert og kasta mæðinni. Ég fann all verulega fyrir hlaupunum þó ég reyndi auðvitað að bera mig mannalega, en Einar greinilega ekki þrátt fyrir gríðarlega mikla yfirferð. Ég velti fyrir mér hvort hann hafi einhvern tíma farið í þindartökuaðgerð og ætti nú að bera tilhlýðilegt sæmdarheiti.
Þetta var hópurinn sem fór á dalinn að undanskildum myndatökumanninum, en það gekk illa að setja sig í fyrirsætustellingar. Að minnsta kosti virtust hestarnir alls ekki skilja til hvers var ætlast og hvað málið snérist um. Þegar þau Ingimar, Margrét, Dóri og Helena komu fram dalinn fórum við Einar "þindarlausi" aftur yfir ána og vorum í framhaldinu aftur komnir á bak.
Þetta er hann Villingur sem bar mig áleiðis til byggða. En til marks um hvað ég er "hestaglöggur" áttaði ég mig ekkert á að þetta var alls ekki sami hesturinn og ég hafði riðið um morguninn fyrr en mér var bent á það.
Þegar neðar dró var farið yfir svo stórþýft land að rétt þótti að teyma hestana. Ég stiklaði á þúfunum sem sumar voru allt að mittisháar og Villingur á hæla mér. Líklega var hann full mikið á hæla mér því a.m.k. tvisvar tróð hann af mér annann skóinn. Ég lengdi þá í taumnum sem varð til þess að hann steig á hann með þeim afleiðingum að annar "stýrisendinn" laskaðist.
Rétt fyrir ofan bæinn gengum við fram á þetta lamb sem hafði augljóslega lent í afvelti. Og eins og sjá má og vitað er þykir fleirum en okkur mannfólkinu lambakjöt hið besta fóður.
Frænkur mínar þær Rakel og Þorbjörg létu síðan ekki sitt eftir liggja þegar af fjalli var komið eins og sjá má.
Ég veit að það er ekki fallega gert að herma eftir og alls ekki þeim sem margra áratuga bústrit hefur sett mark sitt á. Annar mannanna er farinn að bogna að eðlilegum ástæðum en hinn lætur eins og fífl, en það er nú ekki nýtt.
Það væri ekki sanngjarnt að minnast ekki á framlag Depils til smölunarinnar, en hann var óþreytandi við sækja fé hvort sem var inn í gilskorninga eða upp í tinda og sparaði göngumönnum ófá sporin.
Daginn eftir kom þessi frændi minn hann Jón Hjálmar úr veiðitúr með sex væna urriða sem ættaðir eru úr Héraðsvötnunum. Skömmu síðar þennan sama dag yfirgaf ég Flugumýri þó ég væri tregur til. (Hesta)reynslunni ríkari, þreyttur á líkama en saddur á sálinni.
Þegar ég sá á siglo.is að þessa dagana stendur yfir Ljóðahátíðin GLÓÐ þriðja árið í röð, urðu menn alveg gríðarlega meðvirkir, duttu í einhvern gamlan og næstum alveg steingleymdan ljóðagír og afleiðingin varð eftirfarindi:
Ljóðalistahátíð góð,
lyftir andans leikjum.
Óðs er tími, eflum Glóð,
elda hugans kveikjum.
Og vafalaust munu einhverjir eldhugar andans stíga á stokk og ljóða á áheyrendur af hjartans list, en líklega verða þó flestir á mun nútímalegri nótum en hér að ofan og viðbúið er að stuðlar og höfuðstafir verði ekkert endilega allsráðandi sem er auðvitað í góðu lagi ef vel er að verki staðið.
Þarna verður mikið og gott lið s. s. Kristján Kristjánsson, Ingi Steinar Gunnlaugsson, Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir ásamt Páli Helgasyni, nemendum grunnskólans og fleirum.
Ég datt um vísukorn eftir Inga Steinar sem mun hafa orðið til eftir áramótin 2004-5, og þá væntanlega eftir einhverja atburði sem ég kann þó ekki að segja frá.
Eftir talsvert braml og bauk,
brá upp eldi drukkinn glanni.
Og kröftugt skeyti rakleitt rauk,
í rassgatið á næsta manni.
Og þó ég hafi ekki aflað mér leyfis fyrir birtingunni, vonast ég engu að síður til að komast upp með "glæpinn" án eftirmála.
Og þar sem ekkert aldurstakmark er inn á hátíðina, finnst mér rétt að benda mönnum á að gæta þarf velsæmis og alveg sérstaglega ef "kaffið" skyldi nú verða í sterkara lagi.
Sú að ljóða list er forn,
læt um hugann far´á flakk,
ófá ærleg vísukorn,
en ekkert neðan beltis takk!
15.09.2009 00:32
Patrekur, Darwin, Drottinn og Vitas.
586. Sú frétt barst eins og eldur í sinu um gjörvalla veröld að leikarinn Patrick Swayze úr hinum ofurvinsælu og næstum því tímalausu myndum Dirty dancing og Ghost væri látinn. Hann hefði dáið í gær þann 14. sept. úr krabbameini í brisi. Mun þá mörg miðaldra og ráðsett frúin hafa tárast með afgerandi hætti og fundið fyrir talsverðum fortíðarþráarfiðringi. DVD-birgðir af myndum sem kappinn lék í munu hafa selst upp á augabragði víða um heim og margir fjölmiðlar birt fréttina eins og við var að búast. En svo undarlegt sem það er þá fregnaðist það í kjölfar fyrstu fréttar að Patrekur hefði verið enn fljótari til en sjálfur meistarinn sem um ræðir hér að neðan og risið upp á fyrsta degi aftur og mótmælti því harðlega að vera jafn dauður og margir vildu vera láta. Eitthvað hökti pressan vegna þessarar leiðréttingar og einhverjir miðlar héldu að sér höndum um tíma, en nú hefur leiðréttingin verið endurleiðrétt og Patrekur er aftur sagður allur.
Frétt á visir.is sem birtist þar áðan vakti furðu mína og það ekki svo litla, en titill hennar og yfirskrift er "Kenningar Darwins of umdeildar fyrir Bandaríkjamenn". Ég las hana yfir og sannfærðist meira en nokkru sinni fyrr um að það væri eitthvað mikið bogið við þessa þjóð. Greinina sem enginn má fyrir nokkurn mun missa af, fékk ég því "lánaða" ef einhver skyldi rekast hingað inn sem ekki les visir.is.
"Kristnir Bandaríkjamenn eru ekki hrifnir af kenningum
Framleiðendur bresku bíómyndarinnar Creation sem fjallar um ævi og störf Charles Darwin eru í vandræðum þar sem þeim hefur ekki tekist að finna dreifingaraðila að myndinni í Bandaríkjunum. Þar á bæ þykir efnið of eldfimt, en
Þau fræði eiga víst ekki upp á pallborðið víða í Bandaríkjunum en í nokkrum ríkjum er sköpunarkenningin úr Biblíunni sett skör hærra og kennd sem heilagur sannleikur. Samkvæmt Gallup könnun sem framkvæmd var á árinu trúa aðeins 39 prósent landsmanna á þróunarkenningu
Myndin var opnunarmyndin á
Jeremy Thomas framleiðandi Creation segist furðu sleginn yfir málinu og að kenningar Darwins skuli enn vekja svo hörð viðbrögð í Bandaríkjunum, 150 árum eftir að hann sendi frá sér Uppruna tegundanna."
En ég rakst líka á hinn ótrúlega, dularfulla og Úkraínska Vitas á youtube sem er söngvari, leikari, tískuhönnuður og kannski eitthvað fleira. Ekki er vitað margt annað um piltinn en að hann fæddist í
12.09.2009 02:30
Eldsvoðinn á Laugarásvideó.
585. Þegar ég fékk fregnir af eldsvoðanum vegna íkveikunnar á mínum gamla vinnustað og fyrirtæki, var ég staddur á Siglufirði en þar er ég ekki nettengdur. Ég átti því fyrir vikið eitthvað minni möguleika á að tjá mig hér á blogginu um atburðinn. Það er alveg með ólíkindum hvað menn geta gert framhlið sína svo vel útlítandi, verið sannfærandi og áunnið sér svo mikla og almenna samúð sem raun ber vitni. Svo vel tekst til að ekki svo mikið sem einn einasti blaðamaður hefur til þessa náð að "kveikja" á þessu máli, skyggnast örlítið inn fyrir uppdiktaða glansframhlið þess, skoða lítillega bakgrunninn og reyna að sjá á því fleiri en einni hlið. Helst kemur manni sú skýring í hug að allir þeir sem kunna eitthvað fyrir sér í faginu séu uppteknir annað hvort við Icesave eða ESB.
Ekki verður annað sagt en að mikið óhæfuverk hafi þarna verið unnið og gerandinn sem vonandi kemst sem fyrst undir manna hendur, hljóti að vera verulega illa á sig kominn vegna dómgreindarleysis og andlegra vankanta. Ekki að veraldlegir hlutir svo sem DVD diskar þó magnið hafi e.t.v. verið talsvert, innréttingar af allra ódýrustu gerð eða annað það sem þarna fór forgörðum sé það sem mestu máli skiptir, heldur sú hætta sem íbúar hússins voru setti í. Virðingarleysið og skeytingarleysið fyrir lífi og limum þeirra sem koma á engan hátt nálægt rekstri myndbandaleigunnar á neðstu hæðinni sem árásinni var augljóslega beint að, er algjört. Aðgerðin virðist vera framkvæmd án nokkurrar vitrænnar hugsunar og getur ekki verið annað en ófyrirgefanleg hvernig sem á málið er litið.
Það var gefið í skyn í Moggablogginu að þarna væri enn eitt ákallið til þeirra sem landinu stjórna um að löngu tímabært væri að gera eitthvað fyrir hina minna meigandi. Ekki var hægt að skilja það sem þar var ritað á annan veg en að gefið væri sterklega í skyn að eigandinn hefði sjálfur staðið fyrir uppákomunni. Nú þekki ég Gunnar Jósefsson meira en nægilega vel til þess að vita að slíkt er svo fráleitt sem frekast getur verið. Því þrátt fyrir að hann sé verulega skuldsettur eins og svo margir aðrir og megi illa við þessu áfalli, er þetta ekki sú leið sem ég trúi að hann myndi nokkurn tíma fara. En hann er hins vegar látinn líta út í sumum þeim fjölmiðlum sem um málið hafa fjallað sem mannlegur engill, saklaus eins og fermingardrengur sem nýbúinn er að vinna hið stóra heit sitt við almættið, sá sem fráleitt gæti átt sér nokkra óvildarmenn og hvers manns hugljúfi í ofanálag. Þeir sem þekkja til vita þó betur og víst er að oft hefur verið mikill hamagangur í kring um Gunnar sem á sér sínar skuggahliðar sem þola dagsbirtuna ekkert sérlega vel. Þetta staðfestir bara það sem mér hefur svo oft fundist um umfjöllum fjölmiðla þegar fréttir eru lítt eða illa unnar. Þær verða yfirborðskenndar, bera með sér æsifrétta og meðaumkunaryfirbragð og stundum er tæplega hægt að draga af þeim öðruvísi ályktanir en að sannleikurinn birtist manni með öfugum formerkjum. Sjaldan er reynt að kafa ofan í mál eins og þetta eða kryfja að nokkru leyti, heldur aðeins birt sýn eins aðila þess og skoðanir hans verða í framhaldinu dómínerandi og fá á sig stimpil hins heilaga sannleika.
Mér þótti það óneitanlega svolítið broslegt þegar því var haldið fram að tjónið næmi 200 - 250 milljónum, en allir þeir fjölmilar sem ég sá að um málið hafa fjallað kokgleyptu þessa ekkisens vitleysu athugasemdalaust. Vera má að í tölvu Laugarásvideós séu u.þ.b. 39.700 skráningar, en þess var látið ógetið að af þeim fjölda eru að líkindum allt að 18.000 VHS titlar sem löngu eru horfnir af staðnum. Eftir standa þá 21.700 skráðir DVD titlar og má reikna með að 10-20% vanti þar upp á vegna eðlilegra affalla, þ.e.a.s. vegna vanskila, það sem hefur skemmst s.l. 12 ár sem liðin eru frá því að DVD útleiga hófst og það sem hefur verið selt. Þá gætu hugsanlega staðið eftir 18.000 titlar og sagan er ekki þar með öll sögð. Innflutta efnið sem er um 2/3 hlutar heildarmagnsins hefur lengst af verið keypt inn á verðbilinu 800-2000 kr. með vsk, en það sem eftir stendur á 4-5000 kr. með vsk. Heildarinnkaupsverðið gæti því verið u.þ.b. 44,5 milljónir, en þá kemur virðisaukaskatturinn til frádráttar sem ætti að vera skv. því tæpar 9 milljónir. Kaupverðið án vsk. gæti skv. mínum útreikningum numið rúmum 35 milljónum. Þá standa eftir innréttingar, hluti tölvukerfis, sælgætislager, o.fl. og við gætum því e.t.v. hugsanlega séð töluna 40 milljónir sem hina raunverulegu tjónatölu.
En það er ekki öll sagan. Það hafa birst myndir af bráðnuðum hulstrum sem standa tóm í hillum sínum því flestir diskarnir eru geymdir undir afgreiðsluborði í skúffum úr MDF sem er eldtefjandi efni. Ég hef tekið sérstaklega eftir því að það hafa hvergi sést myndir af ónýtum diskum í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna sem hafa orðið fyrir skemmdum af völdum elds eða hita. Sé málið þannig vaxið þarf að vísu að kaupa fullt af tómum hulstrum og prenta kápurnar út af netinu, en því fylgir ekki verulegur kostnaður þó svo það sé bæði tafsamt og óneitanlega umtalsverð vinna.
En ef einhverjir mynddiskar sem kostuðu 1.500 kr. í innkaupum fyrir 5-10 árum orðið ónýtir og hafa leigst út á tímabilinu fyrir jafnvel tífallt andvirði sitt, get ég ekki áttað mig á þeim útreikningi að tjón vegna missis þeirra sé nú metið á fimmþúsunkall eða meira. Stóran hluta af mikið leigðu, slitnu og útspiluðu efni þarf líka hvort eð er að endurnýja á nokkurra ára fresti. Miklu eðlilegra væri því að miða við Kolaportsverð sem myndi þá gera heildardiskatjón 10-12 milljónir eða svo, en þó aðeins ef altjón hefði orðið.
Ég er ekki frá því að upp í hugann komi textalínur úr lagi Mausaranna þar sem segir: "Allt sem þú lest er lýgi".
En allt horfir þó til betri vegar því farið hefur verið af stað með söfnun til bjargar Myndbandaleigunni á barnaland.is og höfðu safnast 6.000 kr. síðast þegar ég vissi. Annað átak er líka komið af stað og er nokkurs konar yfirskrift þess: "Gefum Laugarásvideó allar gömlu myndirnar okkar sem við erum hætt að horfa á". Það er því greinilega til fullt af góðu og vel meinandi fólki sem er ávallt tilbúið að styðja við bakið á lítilmagnanum sem er auðvitað aðeins af hinu góða. En ef við skoðum málið aðeins betur þá er Laugarásvideó og núverandi eigandi þess skráður eigandi af eftirtöldum fasteignum...
Einbýlishús að Brúnavegi 1, verslunarhúsnæði að Dalbraut 1-3, ásamt nokkrum litlum íbúðum við Sporðagrunn, Mánagötu, Grettisgötu og Nýlendugötu.
Það er því greinilega ekki vanþörf á að hefja söfnunina og það strax þó svo að börn einhverra einstæðra mæðra út í bæ svelti og þær hafi ekki ráð á að senda þau í skóla þar sem ekki er til fyrir stílabókum.
Meira síðar...
23.08.2009 05:02
Um sitthvað sem er gamalt
584. Í vikunni átti ég erindi í bóksölu stúdenta sem er til húsa í hinu splunkunýja Háskólatorgi. Þangað hef ég aldrei komið áður svo ég litaðist auðvitað um í glæsilegum húsakynnunum, því ég hafði ágætan tíma til að svala minni meðfæddu forvitni meðan samferðamaðurinn og nafni minn yfirfór bókalistann og fann til það sem hann átti að mæta með í Bifröst um helgina. Eftir að ég hafði rennt lauslega yfir bókakilina í nokkrum hillum beindist athygli mín m.a. að því hvaða höfundar stæðu að baki nokkurra þeirra bóka sem þarna voru. Eins og við mátti búast þekkti ég fæsta, en þó vakti athygli mína að þarna var að finna nokkur mjög kunnugleg nöfn sem kom mér eiginlega alveg í opna skjöldu. Martin Luter, Aristoteles, Virginia Wolf, Franz Kafka, Voltarie, Plato, Darwin, og svo mætti lengi telja. Var virkilega verið að nota áratuga gamalt, aldagamalt eða jafnvel allt að því tvö þúsund ára gamalt kennsluefni? Einhver myndi eflaust velta því fyrir sét hvort engar framfarir hefðu orðið á sumum sviðum síðan árið 300 eftir Krist, meistararnir hafi verið svona langt á undan sinni samtíð eða þeir hafi fundið hina endanlegu laust eða hinn eina og rétta stóra sannleik.
Sumt stendur líklega bara alltaf fyrir sínu og er í eðli sínu bæði tímalaust og síungt.
*
Á dögunum skrapp ég í Bónus eftir nauðþurftum sem eitt og sér er ekki í frásögur færandi.
En bíll sem lagt var á bílastæðinu fyrir utan vakti hins vegar mikla athygli, bæði mína svo og annarra sem áttu þarna leið um.
Ég gat ekki annað en dáðst að þessum gamla og snyrtilega Skoda sem þarna stóð. Uppi á grindinni þar sem varadekki var "vistað", var svo flaggað Tékkneska fánanum.
Þegar ég var lítill man ég að stundum var sungin níðvísa um þessa bifreiðategund sem var stolt Sudetahéraðanna og reyndar Tékklands alls.
Skódi ljóti, spýtir grjóti,
drífur ekki niðrí móti.
Þetta var auðvitað ekki fallega sagt...
En ég var svo sem ekki einn um að láta aðdáun mina í ljós þarna á planinu, því margir stöldruðu við og skoðuðu gripinn í krók og kring.
Að lokum kom eigandinn út úr búðinni klyfjaður gulum innkaupapokum og settist undir stýri.
Ég spurði hann um aldur bílsins og hann svaraði því til að þetta væri ´56 módel áður en hann ók stoltur á braut.
Segja má að upphafið af sögu Skoda meigi rekja til ársins 1894. Vaclav Klement sem þá var 26 ára gamall bóksali og hafði eignast þýskt móturhjól sendi fyrirspurn til framleiðandans varðandi hjólið. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera og hann vonaðist til að fá svör eða leiðbeiningar varðandi það sem bilað var. En þar sem hann var ekki vel þýskumælandi skrifaði hann á tékknesku. Hann fékk snubbótt svarbréf nokkru síðar og það byrjaði á eftirfarandi orðum.
"Ef þú vilt fá svar við erindi þínu skaldu skrifa á máli sem við skiljum".
Svarið fór fyrir brjóstið á Klement og leiddi til þess að ári síðar var hann varinn að selja mótorhjól. Árið 1899 var svo fyrsta hjólið smíðað og framleiðslan var orðin á annað hundrað hjóla ári síðar. Upp úr aldamótunum 1900 var svo farið að undirbúa bílasmíði og fyrsti "Skódinn" leit dagsins ljós árið 1905.
*
Ég átti leið um Skagafjörðinn í endaðan júlí og kom þá auðvitað við á Flugumýri sem er orðinn mjög fastur liður. Stæsta fréttin þann daginn var sú að það hafði fundist mjög gömul kona við bæinn Mið-Grund sem er þar skammt frá. Reyndar verður ekki annað sagt en að hún hafi verið miklu meira en fjörgömul, því hún var "frá tímum frumkristni" eins og það var orðað þarna á staðnum.
Fyrir 40 árum eða svo var farið að grafa fyrir nýju íbúðarhúsi á jörðinni en þá komu upp mannbein. Það var því vitað að þarna hefði að öllum líkindum verið kirkjugarður og húsinu var fundinn annar staður. Síðan hefur vitneskjan að vísu verið fyrir hendi, en engar frekari athuganir verið gerðar fyrr en nú.
Það var auðvitað gerður út leiðangur því hver vill ekki fá að sjá þessi undur og stórmerki. Ég fékk að fljóta með vopnaður myndavél að sjálfsögðu. Þegar við komum á staðinn var þar fyrir hópur af "túrhestum" sem fannst greinilega mikið til um það sem fyrir augu bar.
Þarna var líka bæði fornleifafræðingur og beinafræðingur sem tóku okkur vel, svöruðu misgáfulegum spurningum okkar greiðlega og héldu svolitla tölu um það sem fyrir augu bar.
Í gröfinni lá kona og kornabarn hjá henni. Hún hafði að öllum líkindum verið um 150 cm. á hæð í lifanda lífi og beinin voru hreint ótrúlega heilleg.
Fornleifafræðingurinn benti okkur á ljósa rák í jarðveginum og sagði okkur að þetta væri öskulag úr Heklugosi frá árinu 1104. Rákin væri rétt ofan við hið gamla yfirborð jarðlaganna eins og þau hefðu verið þegar gröfun var tekin og því hefði konan dáið einhverjum árum fyrir aldamótin 1100. Búið var að hreinsa yngri jarðlög ofan af þeim eldri á svolitlu svæði og komið höfðu í ljós a.m.k. átta grafir. Ljóst var þó að grafreiturinn var enn stærri því þegar vel var að gáð miðað við fram komnar upplýsingar, markaði enn fyrir útlínum hans eftir allan þennan tíma. Líklega hefur verið hlaðinn garður í kring um hann á sínum tíma sem enn var hægt að greina. Annað sem vakti athygli mína var að gróðurfarið innan og utan veggjar var ekki alveg með sama hætti hver sem ástæðan var.
Og þarna lá hún og brosti varalausu brosi til okkar forvitna fólksins sem virtum hana fyrir okkur í forundran.
En í morgunsárið verður lagt af stað norður á Siglufjörð til nokkurra daga dvalar.
19.08.2009 04:50
Síldarbærinn Skagaströnd
583. Að kalla einhvern annan bæ "Síldarbæ" en sjálfan Siglufjörð og það jafnvel með stórum staf, kemur mér reyndar svolítið undarlega fyrir sjónir því hingað til hef ég talið aðeins einn bæ á landinu geta með góðu móti staðið undir slíku. En sagan er víst ekki jafn einsleit í raun og hún er í huga Siglfirðings sem upplifði endi ævintýrisins mikla á sínum heimaslóðum og vissulega var silfir hafsins bæði saltað og brætt víðar en í "höfuðstað" síldarinnar. Ég rakst á frétt um ljósmyndasýningu um síldarárin á Skagaströnd og þar sem mér þótti hún merkilegra en margt annað sem á fjörurnar rekur, leyfði mér að fá hana lánaða til endurbirtingar.
Ljósmyndasýning um síldarárin á Skagaströnd
Síldarárin á Skagaströnd nefnist ljósmyndasýning sem sett hefur verið upp í bænum. Hún er risastór í þeim skilningi að myndirnar eru allar afar stórar, 2,5 m á hæð og 3,5 m á breidd.
Sýningarstaðurinn er líka talsvert frábrugðinn því sem venjulegt má teljast. Í stað þess að halda sýninguna innanhúss hafa myndirnar verið festar utan á hús víða um bæinn.
Síldarárin svokölluðu hafa jafnan yfir sér nokkurn ljóma en eins og önnur ævintýri tók síldarævintýrið á Skagaströnd enda. Þó saltað væri flest árin frá 1935 til 1962 dró mikið úr söltun á Skagaströnd eftir 1945 er Norðurlandssíldin fór að leita á nýjar slóðir.
Ljósmyndasýningunni er ekki ætlað að vera tæmandi lýsing á tuttugu og sjö síldarárum. Þess í stað hafa verið valdar myndir sem Skagstrendingurinn Guðmundur Guðnason tók árið 1959.
Þær eru allar svart-hvítar og afar vel teknar. Úr safni Guðmundar eru nú birtar myndir sem sýna annars vegar vinnuna sjálfa, uppskipun, síldarspekúlasjónir og vinnu á plani og hins vegar skemmtilegar nærmyndir af nokkrum einstaklingum við vinnu sína.
2500 manna bær skipulagður
Óvíða höfðu síldarárin meiri áhrif en á Skagaströnd. Á vegum nýsköpunarstjórnarinnar var árið 1945 skipulagður um 2.500 manna bæ. Íbúar á Skagaströnd þá ekki nema liðlega 300 talsins. Það er því vægt til orða tekið að bærinn hafi átt að breyta um svip. Nær er að tala um endurbyggingu hans.
Síldariðnaður átti að vera hornsteinn bæjarins. Reisa átti risastóra verksmiðju og nýbyggingaráð myndi styðja þau félag, sem vildu setja upp sildarverkmiður við Húnaflóa, ef þær yrðu settar upp á Skagaströnd. Gert var ráð fyrir að nokkrum síldarsöltunarstöðvum yrði komið á fót af einstaklingum og félögum enda mætti ganga út frá að söltun yrði mjög mikil. Þá átti að kanna vilja til að koma upp niðursuðu- eða niðurlagningarverksmiðju á síld á Skagaströnd. Í tillögunum var talið heppilegast að
Síldarverksmiðja byggð
Þegar hafnargerð hófst á Skagaströnd fór stjórn Síldarverksmiðja ríkisins þess á leit við ríkisstjórnina að fá leyfi til að hefja byggingu nýrra verksmiðja á Siglufirði og Skagaströnd. Var stefnt að því að verksmiðjurnar yrðu tilbúnar til vinnslu fyrir síldarvertíð 1946. Þetta samþykkti Alþingi í lok febrúar árið 1945. Benda má á að á vertíðinni 1945 veiddust í Húnaflóa um 43% þeirrar síldar sem Síldarverskmiðjur ríkins fengu til vinnslu.
Byggingakostnaðurinn verksmiðjunnar á Skagatrönd fór langt fram úr áætlun og var ríkisstjórnin mikið gagnrýnd fyrir það. Fór þá heldur að grynnka á eftirlæti stjórnvalda við síldariðnaðinn. Kom líka fleira til. Síldarvetríðin 1945 var ein sú slakasta um árabil og sú lélegasta frá því Síldarverksmiðjur ríkisins tóku til starfa árið 1930.
Síldin hverfur
Það kom brátt á daginn að aflatregðan 1945 markaði upphaf hrun veiða Norðurlandssíldarinnar. Örlögin höguðu málum því svo að framkvæmdir við nýju verksmiðjuna á Skagaströnd hófust á sama tíma og síldin ákvað að leita á nýjar slóðir.
Með hruni veiða Norðurlandssíldarinnar var brostinn sá grunnur öll nýsköpun á Skagaströnd hvíldi á. Innan tíðar varð ljóst að draumurinn um síldarútvegsbæinn sem átti að vera fyrirmynd annarra bæja, myndi aldrei rætast. Enn í dag gnæfir verksmiðjustrompurinn yfir bæinn eins og risavaxinn minnisvarði um þessa stóru drauma.
(Fréttin er tekin af vefnum skagastrond.is)
12.08.2009 15:16
Í fjörðinn Dýra.
582. Á dögunum voru vestfirðir heimsóttir eða öllu heldur svolítill hluti þeirra. Aldrei þessu vant var nefnilega ekkert farið út fyrir þær aðalbækistöðvar sem undanfarin ár eins og nú hefur verið Þingeyri, ef frá eru taldar tvær hæfilega langar ferðir inn í Dýrafjarðarbotn og um næsta nágrenni.
Ég hafði áður haft fregnir af skiltinu sem sjá má hér að ofan og leitaði það því uppi og festi í flögu. Sennilega er leitun að svona sérhæfðum verkstæðum í öðrum landshlutum, en að öllum líkindum er nóg að gera á þessum bæ því skriðdrekar eru algeng farartæki sem Dýrfirðingar hafa löngum kunnað vel að meta og a.m.k. annar hver maður í þessum sama firði hefur lokið einleikaraprófi á fiðlu og gerir út á Stradivarius.
Lengst af var lágskýjað meðan á dvölinni stóð og gekk ýmist á með skúrum eða jafnvel hellirigningu. Fjallatopparnir voru þá sjaldnast sýnilegir því þeir hurfu upp í grámann svo aðeins sást upp fyrir miðjar hlíðar, en þar kom að útlit var fyrir þurran og bjartan dag eða a.m.k. dagspart. Ég nýtti því þann tíma til fjallapríls, því eiginlega er komin hefð á slíkt þegar leiðin liggur á þessar slóðir. En af tilpassandi og hæfilega vel kleifum verstfirskum fjöllum verður seint verulegur skortur. Að þessu sinni varð Sandfjall fyrir valinu, en það er innsta fjall við sunnanverðan botn og stendur næst Glámu. Ég gekk í gegn um skógræktina og upp með Botnsá, í gegn um kjarrið, mýrarlega lyngmóana og upp hlíðina sunnanveða.
Mikið hamraþil er á framanverðu fjallinu en nokkuð minna klettótt til beggja hliða. Ég setti stefnuna inn í hvilftina sem er vestan við það (hægra megin) og sveigði síðan upp að stapanum sem þar er enn vestar. Ég sá ekki betur en að þar væri svolítið skriðurof í klettavegginn og uppganga gæti verið tiltölulega lítið mál.
Gangan þarna upp eftir reyndist heldur lengri en sýndist í fyrstu en engu að síður hin ánægjulegasta, því umhverfið er allt hið fegursta og mjög fjölbreytt. Bæði eru þarna hjalandi lækir og niðandi fossar, birkilággróður og grónar lautir...
...Gil og skorningar, mosi og mýrlendi, brattgengar skriður og klettabelti.
Í Landnámu segir: Dýri hét maður ágætur. Hann fór af Sunnmæri til Íslands að ráði Rögnvalds jarls en fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra. Dýri nam Dýrafjörð og bjó að Hálsum sem er í landi Hvamms. Hans son var Hrafn á Ketilseyri, faðir Þuríðar, er átti Vésteinn Vésteinsson. Þeirra synir vóru Bergur og Helgi.
Kenningar eru uppi um að nafn fjarðarins hafi upphaflega verið Dyrafjörður og gæti það verið vegna hinna náttúrulegu dyra sem opnast milli Sandafells og Mýrarfells þegar siglt er inn fjörðinn, en það er eitt sérkennilegasta og helsta auðkennið í landslaginu. Þó mun það vera álit flestra að nafngiftin hljóti að vera dregin af landnámsmanninum Dýra.
Munnmæli herma að Dýri sé heygður í Dýrahaug í Dýrahvilft, en myndin hér að ofan er mjög líklega af þeim hól sem átt er við.
Stóreflis steinar raðast sums staðar upp eins og einhver með ágæta skipulagsgáfu og góðan smekk fyrir úthugsuðu formi hafi komið þarna við sögu.
Og stundum fær maður á tilfinninguna að lítið þurfi til að allt fari af stað og þá væntanlega með miklum látum.
Þegar ofar kom sýndist mér uppgangan á fjallið ekki mundu verða mjög erfið.
En hún varð nú samt brösóttari en á horfðist síðasta spölinn, því fúið bergið var mjög laust í sér og mér skrikaði þó nokkrum sinnum fótur. Einu sinni rann ég af stað og bjóst við harðri lendingu en stöðvaðist á ögurstundu, varp öndinni léttar og hélt áfram upp. Það er nefnilega stundum þannig að við vissar aðstæður getur verið mun auðveldara að komast upp en niður.
En að lokum var toppnum náð eða öllu heldur brún hans. Fjörðurinn lá með öllum sínum stórbrotnu kennileitum við fætur mér og enn einu sinni hafði ég haft sigur á viðfangsefninu.
Eitthvert þinghald var viðhaft á Þingeyri á landnámsöld en ekki er vitað með vissu um byggð þar fyrst eftir landnám. Á 13. og 14. öld voru erlend kaupskip farin að koma í Dýrafjörð og á 16. öld var Þingeyri orðin miðstöð viðskipta í firðinum. Aðallega voru þetta þýsk skip og sóttust þýsku kaupmennirnir helst eftir fiski, lýsi og vaðmáli. Eini Íslendingurinn sem fékk einkaleyfi til verlsunarreksturs var Eggert Hannesson, en það var árið 1579. Á 15. og 16. öld voru það nær einvörðungu Bretar og Þjóðverjar ásamt einstaka spænskri skútu sem stunduðu verslun í Dýrafirði. 1602 var danska einokunin leidd í lög og tóku þá vellauðugir danskir kaupmenn við öllum verslunarrekstri á staðnum, en Dýrfirðingar versluðu þó á laun við franska duggara. 1684 var landinu öllu skipt í verslunarumdæmi og náði kaupsvið Þingeyrarkaupstaðar yfir norðurhluta Arnarfjarðar, Dýrafjörð og Önundarfjörð.
1742 voru á Þingeyri fjögur hús, krambúð, beykihús, pakkhús og torfkofi.
Af Sandfjalli er ágætt útsýni. Hinn fyrrverandi jökull Gláma er skammt undan og þótti mér slæmt að hafa ekki eins og 2-3 tíma aflögu til þess að ganga þangað.
Einnig sér fram á fjallsbrúnir til suðurs þar sem Arnarfjörðurinn tekur við, en þessar brúnir eru líklega skammt sunnan Mjólkárvikjunar.
Einnig sér vel yfir Hestfjarðarheiði sem liggur ofan í Hestfjörð við Djúp og líka svolítil rönd af Drangajökli handan Jökulfjarða ef vel er rýnt. Vötnin ofan við Dýrafjarðarbotn heita Þingvötn og eiga þau það líklega sameiginlegt við Þingeyri að draga nafn sitt af því þinghaldi sem var til staðar á Landnáms og Þjóðveldisöld.
Þessi skemmtilega lagaði steinn varð á vegi mínum þegar ég var farinn að huga að niðurgöngu. Eftir að hafa velt fyrir mér hvar og hvernig ég færi niður af fjallinu tók ég ákvörðun um að fara inn fyrir og suður af því. Mér sýndist sú leið greiðfærari og ekki eins brött við fyrstu sýn, en annað átti eftir að koma í ljós.
Brattinn var meiri en að norðan verðu og ég varð að ganga talsverðan spöl eftir syllu milli klettabelta.
En um það bil sem klettabeltin voru að enda, þraut sylluna og yfir gilið sem sést á myndinni hér að ofan varð alls ekki komist. Bæði var að jarðvegurinn var mjög laus í sér og svo var brattinn slíkur að nokkurn vegin heilbrigð skynsemi sagði mér að þarna væri með öllu ófært um að fara.
Ég gekk því nokkurn spöl til baka og kleif svolítinn klettaskorning (myndin að ofan) upp á næstu syllu. Myndin er tekin upp klettana og segir því lítið um hve bratt var þarna upp. Þessi leið var seinfarin en allt hafðist þetta að lokum.
Þegar allt klettaklifur var að baki fann ég mér heppilegan stall (sem ég setti sjálfan mig á) og fagnaði lengi þeim áfanga sem nú var lokið.
Næst varð á vegi mínum langur snjóskafl og ég renndi mér niður hann fótskriðu. Um miðja vegu missti ég fótanna og veltist áfram svolítinn kafla, en náði þó að spyrna við þokkalega skóuðum fótunum og komast aftur á lappirnar án þess að drægi nokkurn tíma úr ferðinni. Rétt eins og með klettagjána er myndin tekin upp á við og segir því hvorki mikið um brattann né lengd skaflsins og ég varð líka mjög feginn þegar þessum kapítula var lokið.
Þá var framundan talsverður spölur þar sem fyrst var farið um mýrlendi, þá mosavaxið hraun en síðast lyng og kjarr.
Að lokum var ég var kominn til bíls, alveg gersamlega búinn á því. En ég sá ekki eftir neinu og þetta var eftir á að hyggja alveg assk... gaman.
Ég eyddi góðum dagsparti í að skoða mig um á víkingasvæðinu, en það er farið að trekkja vel á "túrhestinn". Víkingaskipið Vésteinn lá við festar skammt undan ströndinni og vaggaði værðarlega í golunni. Fyrirmynd þess mun vera Gauksstaðaskipið sem fannst við Sandefjord í Noregi, en talið er að það sé jafnvel frá árinu 870 eða þar um bil. Það mun hafa verið úthafsskip, ætlað til hernaðar og knörrinn Íslendingur sem siglt var vestur um haf árið 1998 til minningar um Leif Eiríksson og fund "Vínlands hins góða" mun vera sömu gerðar. Vésteinn var vígður og sjósettur í júlí 2008.
Á heimasíðu Íslendings má lesa eftirfarandi: Á Víkingatímanum var áhöfn svona skips 70 manns, 64 bardagamenn og ræðarar og 6 yfirmenn. 32 réru á meðan 32 hvíldu. Í miðju skipsins var sandgryfja með opnum eldi, þar sem hægt var að matreiða í lengri ferðum. Algengt var, að búfé á fæti væri með í ferðum. Íslendingur er mjög verðugur arftaki víkingaskipanna, sem sigldu um Atlandshafið fyrir teinöld.
Íslendingur er hraðskreitt og öruggt úthafsskip. Skipið var byggt árið 1996. Það er 22,5 metra langt og 5,3 metra breitt, djúprista er 1.7 metrar og það vegur 80 tonn. Meðalhraði er 7 sjómílur, hámarkshraði 18 sjómílur. Fjöldi í áhöfn nú er 9 manns, en var 70 til forna. Skipið er byggt úr eik og furu og í það fóru 18 tonn af timbri og 5000 naglar.
Á Dýrafjarðardögum er alltaf mikið um að vera á svæðinu, en þá daga er haldin bæjarhátíð Þingeyringa sem stendur yfir heila helgi snemma í júlímánuði. Þá eru m.a. haldin námskeið í skógerð, bogsmíði, járnsmíði við opinn eld og fleira, allt með hliðsjón af verklagi víkinganna til forna.
Eftirfarandi frétt var að finna í B.B. í júlí á síðasta ári: Almennur fundur var haldinn í Félagsheimilinu á Þingeyri á síðasta ári þar sem rætt um ýmsa möguleika og tækifæri til atvinnusköpunar á svæðinu. Fundarmenn bjartsýnir á tækifæri sem uppbygging ,,Víkingasvæðis" hefur opnað nú þegar og jákvæðar hugmyndir eru um frekari þróun. Víkingasvæðið er búið að vera 4 ár í vinnslu og hefur strax skapað nokkra
atvinnu, m.a. hafa tveir menn verið í fullu starfi um tíma við að smíða víkingakip og smíði annars skips er áætluð. Tveir til þrír hafa starfað á Víkingasvæði hluta úr ári.
Talað um aðra möguleika sem liggja í ferðaþjónustu og störfum sem tengjast henni. Fólk sammála um að afþreying og fjölbreytt tækifæri til upplifunar séu stórir áhrifavaldar þegar kemur að vali á áfangastöðum á ferðalögum.
Hestaleiga er starfrækt á svæðinu og tveir til þrír hafa unnið í tengslum við hana.
Sögustaðir og víkingaþemað skipa stóran sess í því að skapa Dýrafirði, Þingeyri og nærliggjandi svæðum sérstöðu. Námskeið hafa verið haldin í skósmíði og málmsmíði á Þingeyri og nálægt 10 - 15% íbúa þar eiga víkingafatnað. Sögustaðir tengdir Gísla sögu verða merktir með söguskiltum og stórum skúlptúrum sem eru í smíðum.
Gistirými þarf að vera nóg og ákjósanlegt að hafa það fjölbreytt,
Á safnasvæðinu á Oddanum á Þingeyri er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu í anda víkingatímans. Þar er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir víkingaskip sem sigla um fjörðinn með farþega. Ekki er þó gert ráð fyrir hafnaraðstöðu heldur verði aðstaðan í anda tímans sem miðað er við. Gert er ráð fyrir sterkri tengingu milli þessa svæðis og aðliggjandi útivistarsvæða og að skil milli þeirra verði ekki skýr.
Elsta starfandi vélsmiðja landsins er á Þingeyri. Smiðjan sem er nánast í upprunalegu formi ber nafn Guðmundar J. Sigurðssonar sem tók til starfa árið 1913.
Allt handbragð mannvirkjanna á svæðinu vakti sérstaka athygli mína. Greinilegt er að vel er vandað til allra verka og mikið lagt í að nálgast hið þúsund ára gamla verklag eins og verða má.
Ekki er ólíklegt að tröppur hafi verið gerðar með þessu sniði á dögum Haralds Hárfagra.
Það er ekki á hvers manns færi að koma upp svona hleðslu.
Það er ekkert gler eða plexí af finna á víkingasvæðinu, enda væri slíkt mikið stílbrot og félli illa að hugmyndafræðinni sem allt þarna grundvallast á. Strengdar kálfshúðir eru í tóftum en þannig gerðu menn skjáina öldum saman.
Þessi auglýsingaskilti á vegg vélageymslu eða verkstæðis er eitt það fyrsta sem tekur á móti þeim sem eiga leið um þorpið. Ég áttaði mig ekki alveg strax á að þarna er á ferðinni annað þema og aðrar áherslur en maður sér svo víða. Auglýsingarnar ganga að vísu allar út á þjónustu við ferðamenn, en nálgunin er svolítið á annan veg en svo algengt er. Gallerí, veitingar, gisting og hestaleiga, en ekki t.d. videó og bensínsjoppa staðarins, matvara eða dekkjaverkstæði.
Einn ágætur dagur (framan af) fór í berjatínslu. Berin voru alveg merkilega vel sprottin og uppskeran var alls um sex og hálft kíló. En þegar leið á gerði hálfgert skýfall og það var hlaupið til bíls og haldið til þorps. Þá kom í ljós að gemsinn minn hafði líklega runnið upp úr brjóstvasanum og hvílir því líklega í einhverri bláberjalaut. Blessuð sé minning hans.
En þegar ég fór að forvitnast nánar um t.d. framboð á veitingum og gistingu á Þingeyri, kom það mér hreint ekki svo lítið á óvart hvað framboðið er gríðarlega mikið í þessu aðeins 300 manna þorpi.
Fyrir nokkrum árum kom belgískur ferðamaður til Þingeyrar og heillaðist svo af staðnum að hann settist að á Þigeyri. Hann keypti "Simbahöllina" sem þá var í mikilli niðurníðslu og stóð til að rífa, gerði hana upp og hefur nú opnað þar kaffihús.
Í þessu húsi var lengst af verslun Gunnars Sigurðssonar sem oftast var bara kallaður Trítill, hefur Raggi Þórðar opnað veitingastað og býður upp á hamborgara og franskar.
Hótel Sandafell er gistiheimili upp á 8 herbergi. Þar er líka boðið upp á veitingar alla daga yfir sumarið.
Þau heita Friðfinnur og Sigríður sem reka "Gistihúsið við fjörðinn" í gamla sjúkrahúsinu. Þau bjóða upp á uppbúin rúm og svefnpokapláss, góða aðstöðu fyrir hópa og einstaklinga, herbergi eða litlar íbúðir og aðgengi fyrir hreyfihamlaða.
Hinum megin við götuna er svo viðbótarrými í rauða húsinu ef sjúkrahúsið fyllist.
Þórhallur Arason býðst til að útvega farkost á sjóstöng, en einnig gistingu fyrir hópa og einstaklinga. Ég kynntist Þórhalli fyrir allmörgum árum, en þá rekur mig minni til að hann hafi verið deildarstjóri í Landbúnaðarráðuneytinu. Það kom þannig til að hann var daglegur gestur á Laugarásvideó forðum og að endingu það sem kallaðist "sjálfbjarga húsvanur kaffigestur" á þeim bæ.
Þórhallur var nýlega í þætti Gísla Einarssonar "Út og suður" og kom því vel og skilmerkilega á framfæri að hann byggi einn um þessar mundir, en færi alltaf í hreinar "nærur" og skipti um á rúminu fyrir helgar ef eitthvað ræki á fjörur hans.
Góóóóður...
Þórhallur keypti líka annað hús til að geta boðið upp á meira gistirými.
Gistiheimilið Vera er til húsa uppi á Hlíðargötu, en þar bjóða svo Skúli og Jóhanna upp á Stúdíóíbúð, uppbúin rúm, svefnpokapláss og eldunaraðstöðu.
En fyrir utan þessa upptalningu hér að ofan má einnig nefna Hótel Núp handan fjarðarins sem er stærsta hótelið á vestfjörðum svo og bændagistinguna Alviðru, rétt utan við Núp,en þar er boðið upp á ýmsar útfærslur á gistingu s.s. uppbúin rúm, svefnpokapláss, smáhýsi og hvort sem vill, eldunaraðstöðu eða mat og kaffi.
Ég gat ekki setið á mér að mynda þessa sérstöku skreytingu undir tröppunum á Veru.
Og ekki heldur hjá henni Gullu Vagns, en þarna er greinilega nostrað við garðinn.
Eitt elsta hús landsins er Pakkhúsið á Þingeyri sem einnig hefur verið nefnt Salthúsið, en það er svonefnt plankahús að gerð. Það var reist einhvern tíma á átjándu öld en tekið niður spýtu fyrir spýtu til viðgerðar árið 1994.
Ekki eru allir sammála um hver sé aldur hússins. Sumir hafa talið það vera elsta hús landsins reist árið 1732 eða 1734, en einnig er fullyrt að það sé nokkuð yngra eða byggt annað hvort árið 1774 eða 1778. En samkvæmt gömlum munnmælum er það jafngamalt Pakkhúsinu á Hofsósi sem hýsir nú Vesturfarasafnið. Húsið er sömu eða svipaðrar tegundar og bæði Tjöruhúsið og Turnhúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði.
Endurbætur hafa að sögn gengið ágætlega, en að þeim stendur Guðmundur Óli Kristinsson frá Dröngum á Ströndum. Hann hefur verið að bæta fjalir og endurgera bita ásamt lærlingum sínum. Reyndar hefur spurst út að þær séu líklega ekkert allt of margar spýturnar sem verði úr hinu upprunalega húsi að verki loknu.
Þetta er útveggurinn sem snýr að götu séður innan frá.
Svona er hlaðið undir fótstykkið.
Og svona mætast útveggir og vel sést hvernig plankarnir eru felldir saman.
Ég endurnýjaði kynni mín við þá bræður Tinna og Trölla...
...sem eru þrátt fyrir að virðast svolítið þungir á brún, alltaf til í eltingaleik og að sýna þá gjarnan af sér heilmikla hundakæti.
En eftir fimm daga á Þingeyri var kominn tími á heimferð. Á leiðinni út úr þorpinu sá ég svartar heyrúllur í fyrsta sinn.
Og einnig þennan myndarlega hrút sem stóð grafkyrr og pósaði meðan ég myndaði hann.
Það eru komin mörg ár síðan ég fór akandi um Barðastrandarsýsluna og ég rifjaði upp nöfnin á öllum fjörðunum, en ég varð að viðurkenna að ég var u.þ.b. búinn að gleyma þeim sumum. Frá Vatnsfirði liggur leiðin um eða framhjá Kjálkafirði, Mjóafirði, Kerlingarfirði, Vattarfirði, Skálmarfirði, Kvígindisfirði og Kollafirði, en þá er komið að bænum Skálanesi. Mér hefur alltaf fundist hann vera í sérstakara lagi þar sem nánast er ekið yfir tröppurnar við dyrnar á einu húsanna og sá bær hlýtur að vera vandfundinn sem stendur nær þjóðveginum. Ég man að á árum áður var þarna til húsa sjoppa og bensínstöð, en oftast mun hafa þurft að banka upp á ef óskað var eftir afgreiðslu.
Og þar sem ég var á annað borð kominn út úr bíl og auk þess með myndavélina hátt á lofti skaut, ég einu léttu skoti að þessum flottu klettaspírum fyrir ofan bæinn. Svo var sest inn og haldið áfram um Gufufjörð, Djúpafjörð, Þorskafjörð, Berufjörð, Króksfjörð og loksins Gilsfjörð. Eftir það fóru öll örnefni að verða mun kunnuglegri. Það var auðvitað tekið talsvert af myndum í þessari vestfjarðarreisu, en aðeins lítill hluti þeirra er notaður í þessum pistli. Þeir sem hafa vilja til að skoða fleiri, finna þær á slóðinni http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=155948
06.08.2009 00:29
Síldarævintýri 2009
581. Um Síldarævintýrishelgina komum við nokkrir afkomendur Leós afa saman vegna 100 ára ártíðar hans. Eins og búast mátti við varð því samkoman talsvert Vestfirsk yfirlitum sem hann hefði eflaust talið af hinu góða.
Leó Jónsson var fæddur þann 7. september árið 1909 á Höfðaströnd í Grunnavík. Foreldrar hans voru Jón Arnórsson hreppstjóri og Kristín Jensdóttir en þau eignuðust sex börn.
Kristín var seinni kona Jóns, en með fyrri konu sinni Kristínu Kristjánsdóttur átti hann einnig sex börn.
Alsystkini hans voru Valgeir, Kristín, Karl, Indriði og Sigríður sem öll eru látin en hálfsystkinin voru Árni Friðrik, Elísabet, Valgerður, Kristján, Ólafía og Arnór.
Leó var aðeins fárra ára gamall þegar faðir hans féll frá, og flutti hann þá með móður sinni og systkinum í Hnífsdal. Þar bjó hann aðeins skamma hríð því hann flutti fljótlega til Valgeirs bróður síns sem þá bjó að Gemlufelli í Dýrafirði. Þar leið honum mjög vel á sínum þroska- og uppvaxtarárum.
En þó kom að því að hann hleypti heimdraganum, yfirgaf æskuslóðir sínar á vestfjörðum og fór til Siglufjarðar líklega 1933, þá rúmlega tvítugur. Þar voru næg verkefni fyrir duglegan ungan mann, verkefni sem flest snérust um veiðar á silfri hafsins, síldinni og vinnslu á henni sem skilaði æ meiri verðmætum til lands og þjóðar.
Til Siglufjarðar kom margt ungt fólk til starfa á þessum árum og þar á meðal var ung stúlka úr Svarfaðardalnum, Sóley Gunnlaugsdóttir. Leiðir Leós og Sóleyjar lágu brátt saman og á ævigöngunni upp frá því voru þau samferða í lífinu. Þau hófu fyrst búskap á Ísafirði og bjuggu þar í eitt ár, en að þeim tíma loknum fluttu þau aftur til Siglufjarðar þar sem þau höfðu fyrst kynnst og bundist tryggðarböndum.
Þau Leó og Sóley eignuðust eina dóttur saman, Minný Gunnlaugu, en áður hafði Leó eignast soninn Gunnar með Soffíu Bæringsdóttur. Gunnar lést af slysförum þann 27. mars árið 1994. Hann var kvæntur Guðbjörgu Stefánsdóttur í Bolungarvík og áttu þau fjögur börn saman, Hafþór, Jóhönnu Sóley, Bæring og Elínu, en fyrir átti Gunnar dótturina Fanný.
Minný var lengst af búsett á Sauðárkróki og eiginmaður hennar var Haukur Stefánsson sem lést árið 1992 en hún árið 2002. Börn Minnýjar eru tvö, Leó Reynir og Sæunn. Leó Reynir ólst upp hjá móðurafa sínum og ömmu, Leó og Sóleyju á Hverfisgötunni og bjó hjá þeim fram yfir tvítugsaldur. Sæunn ólst upp hjá föðurafa sínum og ömmu á Ásfelli sem er rétt sunnan Akraness.
Fyrstu árin eftir að Leó kom til Siglufjarðar stundaði hann mest sjómennsku, en síðan söðlaði hann um og fór að vinna í landi. Fyrst í slippnum við bátaviðgerðir og ýmislegt fleira aðallega tengt bátum. Þar fann hann að smíðar áttu vel við hann, enda var hann laginn, nákvæmur og góður verkmaður. Hann vann í tunnuverksmiðjunni í mörg ár og síðar hjá Húseiningum allt frá stofnun þess fyrirtækis til 75 ára aldurs þegar hann dró sig í hlé. Hann var einn af þeim síðustu sem fengu ráðherrabréf sem veittu honum rétti til að vinna sem smiður, en það segir sitt um verkkunnáttu hans á þessu sviði. Það sem einkenndi Leó og kom glöggt fram í öllum hans störfum, var vinnusemi og trúmennska. Þá var hann snyrtilegur og vandvirkur, og vildi ávallt hafa hlutina í afar mikilli röð og reglu.
Hann var hægur maður sem hafði sig ekki mikið í frammi, en góður í viðkynningu og þægilegur í umgengni. Hann kom ekki mikið nálægt félagsmálum, en starfaði þó um skeið af áhuga með vestfirðingafélaginu á Siglufirði meðan það var virkt, en það áhugamál sem átti hug hans mestan og í raun allt til hinstu stundar var tónlistin. Hann hlustaði mikið á tónlist, söng gjarnan eða raulaði fyrir munni sér yfir útvarpinu og spilaði á orgel og harmoniku. En það var líklega harmonikan sem var honum hjartfólgnust og hana hafði hann gjarnan nálægt sér á góðri stundu.
En þótt gamla ítalska takkaharmonikan hljómi ekki lengur í höndum Leós afa þá geta hins vegar þeir gömlu tónar ómað sem gleðiríkur undirleikur þeirra minninga sem ástvinir eiga í hjarta á kveðjustundu og um ókomna tíð.
Með afar litlum fyrirvara var þeirri hugmynd hrint í framkvæmt að nokkrir gamlir félagar úr hinu Siglfirska poppi tengdu græjurnar og tækju nokkur lög saman á pallinum hjá Bigga Inga.
Og þar sem gengið hafði á með skúrum og jafnvel bullandi rigningu alla helgina, þótti skynsamlegt að gera þær ráðstafanir sem dyggðu til að verja hljóðfærin utanaðkomandi bleytu þó svo að mannskapurinn kættist yfirleitt af henni.
Ég fann til all nokkra fermetra af byggingarplasti sem Biggi kom fyrir með dyggri aðstoð Palla Sigþórs smiðs.
Biggi Inga, Páll Marel og sá sem þetta ritar þrútinn í framan vegna nýfengins bráðaofnæmis með "moonface" og allt. Þrír Siglfirðingar sem hafa ýmsa "fjöruna" sopið saman. Þó munu þeir líklega hafa sopið mest sameiginlega á vertíð í Eyjum forðum þegar þeir réðu sig í vinnu hjá Bassa Möller sem stjórnaði aðgerðinni hjá Ísfélaginu.
Palli var auðvitað útnefndur rótari bandsins og þurfti því m.a. að taka nokkra takta á settið til að fullvissa sig um að það virkaði. En það má bæta því við að eftir að hann fluttist suður yfir heiðar á sínum tíma, fór hann að spila á trommur í bandi sem starfaði um skeið á Reykjavíkursvæðinu.
Haft var samband við Gumma Ragnars sem var kominn frá Sauðárkróki skömmu eftir að símtalinu lauk með gítarinn og magnarann í skottinu. Það vantaði ekki áhugann hjá honum og ég verð að segja að hann er bara skrambi liðtækur á gítarinn, eða bara helv. góður ef ég orða þetta ögn nákvæmar.
Ég held að það sé svipað hjá Bigga að tromma og þegar maður lærði að hjóla á sínum tíma. Ef maður er einu sinni kominn upp á lagið þá gleymist það einfaldlega aldrei aftur. Þannig virkaði samspilið á mig milli mannsins og settsins á myndinni hér að ofan.
Það var alveg furðulegt hvað uppákoman og framkvæmd hennar gekk vel fyrir sig. Það var ekkert æft, engin lög ákveðin fyrir fram og ekki einu sinni gert soundtest, heldur bara talið í og byrjað.
Við þremenningarinr höfum ekki spilað saman síðan árið 1978 ef frá er talið að við æfðum nokkur lög með Selmu og Magga Guðbrands (Miðaldamenn 78) og spiluðum á Players á Siglfirðingaballi.
En þetta var auðvitað alveg "ógeðslega" gaman. Við spiluðum sleitulaust í u.þ.b. tvo tíma (frá 17 - 19), en hætta skal leik þá hæst hann stendur því það var m.a. kominn kvöldmatur.
Skömmu eftir að við hófum leikinn fóru forvitnir vegfarendur að staldra við og leggja við hlustir. Bílar óku löturhægt hjá, rúður voru skrúfaðar niður og brosandi andlit birtust. Um gjörvalt nágrennið opnuðust dyr húsanna, íbúarnir settust makindalegir á tröppurnar "með kaffibolla eða eitthvað svoleiðis í höndum sér" og virtust hinir kátustu.
Einn áheyrandinn hafði á orði að það væri gaman að sjá að hljómsveitin skemmti sér ef eitthvað væri, jafnvel betur en þeir sem hún væri þó að skemmta.
Þetta er líklega það sem kallað er spilagleði...
En niðri á torgi mátti svo hlýða á Buffið um kvöldið.
Og Papana.
Ég hitti Inga Hauks bekkjarbróður minn á torginu og var hann greinilega í góðu formi eins og sjá má.
Flugeldasýningin á laugardagskvöldinu var eiginlega flottari og betur heppnuð en magn skotelda hefði átt að gefa tilefni til.
Líklega hafði umhverfið sitt að segja.
Þessi unga stúlka heitir Þóra Sóley Ingvarsdóttir. Hún tók mig á eintal og tjáði mér eftirfarandi hálf hvíslandi en í mjög alvöruþrungnum tón.
"Afi, það eru bara fimm ár þangað til ég fermist".
Auðvitað verður að huga tímanlega að slíku...
Það hafði staðið til alla helgina að kynna sér í það minnsta einhvern svolítinn hluta af sögu síldarbæjarins mikla og ráðgerð ferð að rústum Evanger. Ekki gafst þó mikill tími til slíks fyrr en á sunnudeginum en þá fór að rigna. Við biðum þolinmóð um stund og vonuðums til að stytti upp, en virtumst ekki ætla að hitta á óskastundina hvað veðurfarið varðaði.
Eftir að hafa farið yfir á gamla flugvöll og horft út í sortann var látið vaða og fjaran gengin í átt að rústunum. Ég hélt svolitla tölu sem ég hafð þróað og æft í huganum undanfarnar vikur um mikilfengleik alls þess sem gerðist framan af síðustu öld, en flest orða minna hafa sennilega rignt flest í kaf áður en þau náðu eyrum viðstaddra. Eftir skamma viðdvöl gengum við til baka og þegar við komumst loks í hús var ekki þurran þráð að finna á okkur.
Þessi mynd lýsir líklega helgar og hátíðaveðrinu nokkuð vel. Við Bæring skruppum í stutta skoðunarferð upp á snjóflóðavarnargarðana í svolítilli uppstyttu þrátt fyrir að vita að hún myndi að öllum líkindum ekki standa mjög lengi.
Á þriðjudeginum var komið að því sem ég hafði beðið eftir. Þegar ég leit til veðurs um morguninn var ekki skýtutla á fjallatoppunum, logn og blíða. Við Haukur Þór höfðu talað um að ganga til fjalla ef veður leyfði og nú var tækifærið komið þil þess konar æfinga. Við lögðum af stað með nesti sem samanstóð af Maryland kexi, Marsipan súkkulaði (sem var keypt eftir að myndin var tekin) og blávatni á heppilega löguðum ílátum.
Við fengum skutl upp í Siglufjarðarskarð en þaðan var áætlað að ganga norður fjöllin ofan bæjar eins langt og veður eða við entumst.
Lagt var af stað upp úr skarðinu og áleiðis upp á fyrsta hnjúkinn sem ég veit því miður ekki hvað heitir. Ég hef leitað nafnsins á fjallabyggð.is/gonguleidir, snokur.is og spurt vísa menn en án nokkurs árangurs. Mikið yrði ég kátur ef einhver gæti leitt mig til hins stóra sannleika í málinu.
Ég get ekki annað en dáðst að Hauk sem hingað til hefur ekki lagt í fjallgöngur vegna meðfæddrar lofthræðslu að láta sig vaða til leiks.
Þessi uppstilling mun teljast vera innan skynsemismarka...
...En þessi líklegar mun síður.
Hér sést fjallið "nafnlausa" vel, en það er á milli skarðs og Illviðrishnjúks. Þegar hérna er komið sögu höfum við farið þar upp og aftur niður og erum komnir langt upp í hlíðar Illviðrishnjúksins.
Og toppnum er náð. Við höfum gengið rösklega fram að þessu en gefum okkur nú tilma til að virða fyrir okkur útsýnið. Hnjúkurinn er 895 metra hár og er næst hæsta fjall við Siglufjörð. Aðeins Almenningshnakki er litlu hærri eða 915 m. Ég rifjaði upp að það eru u.þ.b. 40 ár síðan ég stóð þarna síðast, en nýlega komu fram ljósmyndir sem voru teknar í þeirri ferð og mun ég örugglega gera henni og þeim skil síðar.
Þarna hefur verið komið fyrir sendi sem er knúinn sólarrafhlöðu með tilheyrandi sellu, en ég kann samt ekki alveg nógu vel skil á þessum búnaði sem þarna er nema að hann er svolítið "speisaður".
Og þar sem enn var ekki liðið langt á daginn var ennþá möguleiki á að gera nokkrar "morgunæfingar" tímasetningarinnar vegna
Og við fundum fleiri "skemmtilega" kletta sem varð að skoða nánar.
Þessi var hinn þægilegasti að tylla sér á.
Það rifjaðist upp fyrir mér að það voru líka teknar myndir í gegn um þetta sama gat fyrir fjörutíu árum, en líklega af Guðna Sveins sem var í þeirri ferð og myndefnið var ekki Siglufjarðarskarð á þeim tíma heldur nýfermdur LRÓ.
Á leiðinni niður af Illviðrishnjúk breiðir Mánárdalur úr sér fyrir fótum ferðalangsins ef horft er til vesturs.
Í norðri er Hádegisfjall og þangað fórum við næst, en af tilvist þess vita alls ekki allir. Líkleg skýring er að fjallið er ekki mikið að umfangi og sést ekki vel úr bænum.
Við gengum næst fram og niður á Snók, en af honum sést vel yfir bæinn og fjörðinn og má segja að þaðan sé ágætt skotstæði fyrir myndavélar.
Ef litið er til baka ber Illviðrishnjúk við himinn en nær er norðurendi Hádegisfjalls.
Framundan er svo Hafnarfjallið ofan Leirdala og stefnan var sett á Hafnarhyrnuna.
Hæsti hluti Hafnarhyrnunnar er þessi tvískipti toppur. (687 m).
Næsti áfangi var að ganga brúnirnar í kring um Hvanneyrarskálina. Í suðurhlíðun hennar er þessi grýtti hóll sem setur svolítið sérstakan svip á umhverfið og í fullkominni andstöðu við næsta nágrenni.
Iðjagræn Hvanneyrarskálin er svolítið dulúðleg í öllum sínum dýrðarljóma frá liðnum árum. Þarna hafa líklega margir skemmtilegir hlutir gerst.
Af brúnunum mikki skálar og Engidals var gott skyggni inn Skagafjörðinn.
En það var hátt niður að líta því þarna eru mikil klettabelti undir Engidalsmegin.
Þeir voru svo skemmtilega veðraðir þessir steinar að ég smellti mynd af þeim til frekari skoðunar á síðari stigum (eða þannig).
Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m). Fyrir neðan sést önnur hyrna og eru þær nefndar Hvanneyrarhyrnur á snokur.is. Þar fyrir neðan og lægst er Gróuskarðshyrna.
En nú var hafinn síðasti áfanginn og sá hluti leiðarinnar sem mér fannst mest spennandi, því ég hef hingað til aldrei komið í fjöllin fyrir norðan skál. Það eina sem ég hef vitað er að þar er landslag allt mun hrikalegra og stórbrotnara en annars staðar í firðinum og telst því síst af öllu heppilegt fyrir lofthrædda. Ég minntist á þetta atriði við Hauk en hann var hvergi banginn og harðákveðinn í að klára "pakkann".
Hann fór meira að segja á undan mér af stað þótt hann léti brúnir síga lítillega þegar hann sá bandið sem ætlað er til ígrips og stuðnings. Framundan er þessi myndarlega hyrna (myndin að ofan) sem ég veit ekki fyrir víst hvort er Strákahyrna eða Skrámhyrna. (Allar upplýsingar vel þegnar). Þarna eru hvassar eggjar og mun betra en ekki að jafnvægisskynið standist lágmarskröfur. Samkvæmt merkingu á mynd á örnefnavefnum snokur.is sýnist mér þó að Strákahyrna sé ysti hluti fjallsins.
Um tröllskessuna Skrámu sem fjallshyrna í Strókafjöllum dregur nafn sitt af, er það að segja að hún bjó ein í helli sínum framarlega í Engidal.
Um Stráka er það hins vegar að segja að talið er að fjallgarðurinn hafi upphaflega verið nefndur Strókar og þá dregið nafn sitt af sínum óteljandi klettastrýtum.
En það var kominn tími á að líta um öxl og horfa yfir farinn veg. Ekki sést til upphafsstaðarins því Siglufjarðarskarð er á bak við Illviðrishnjúkinn sem gnæfir yfir önnur fjöll (svolítið hægra megin við miðju). Ekki heldur til fjallsins sem nafnið finnst ekki á af sömu ástæðu. Aðeins grillir í Hádegisfjalls ef vel er rýnt, en Snókur sem er mun lægri felur sig á bak við Hafnarfjall. Nær er Hafnarhyrna (vinstra megin við miðju) og þaðan liggja brúnirnar umhverfis skálina og enda á Hvanneyrarhyrnunni (lengst til vinstri). Þetta er búinn að vera myndarlegt rölt hingað til en þó er stubbur eftir enn. Myndin er tekin af hnjúknum sem ég er ekki viss um hvort er Stráka eða Skrámhyrna.
Þegar þaðan er komið niður, er stutt í næstu hyrnu sem er þó mun flatari í kollinn en önnur fjöll á svæðinu.
En af brúnum hennar er hreint ótrúlega bratt niður á láglendið eða jafnvel alla leið ofan í fjöru.
Til vesturs má sjá bæinn Sauðanes og Sauðanesvita.
En hér endar landið og Grímseyjarsund tekur við. Ég varð samt að komast út í þennan klett sem er hin endanlega endastöð á þessari leið. Reyndar mæli ég með því við alla sem þarna fara um að þessum hluta leiðarinnar sé sleppt, því bergið þarna er mjög morkið svo erfitt getur verið að fóta sig. Og þeim sem verður fótaskortur á þessum stað, fá tæpast annan séns á þessu tilverustigi. Ég skal fúslega viðurkenna að ég var skíthræddur á leiðinni út í klettinn og jafnvel enn hræddari á leiðinni til baka, en þeirri stund fegnastur þegar ég var kominn til baka.
Hér sést niður gilið utan við Ófæruskál sem Herkonugil gengur niður úr, en það var sá farartálmi á sínum tíma sem varð til þess að Strákagöng þóttu mun hagkvæmari kostur en vegur yfir það.
Nokkrum metrum vestar sést hvar vegurinn er í þann veginn að hverfa inn í fjallið langt, langt, langt fyrir neðan.
Þessi klettur gæti alveg heitið Ystiklettur en gerir það þó sennilega ekki. Fyrir norðan hann er ekkert nema þverhnípið og áræddi ekki að nálgast hann meira en ég gerði þarna.
Það var kominn tími á að ganga nokkurn spöl til baka og hverfa til mannheima á ný. Við völdum að fara niður í Engidal, en alveg eins hefði verið hægt að ganga niður Hvanneyrarskálina norðan eða norðvestanverða.
Tilfinningin sem fylgdi því að vera kominn niður af fjallinu einkenndist af undarlegri blöndu léttis og feginleika en einnig svolítilli sigurvímu. Þetta var vissulega orðið gott í bili og ég var farinn að finna fyrir hinum vel þekktu byrjunareinkennum strengjamyndunar, en vissi jafnframt að eftir fáeina daga yrði allt komið í gott lag aftur og þá yrði enn á ný lagt á brattann.
Við sáum af veginum að þar sem við höfðum staðið rúmum hálftíma áður var nú skollin á svartaþoka.
Það var svo Gunni Óðins skipstjóri og stýrimaðurinn hans sem pikkuðu okkur upp af veginum og komu okkur í bæinn með góðum skilum. - Þökk sé þeim.
Ferðin um vesturfjöll Siglufjarðar hafði tekið slétta sjö tíma og það var farið að verða kvöldsett þegar henni lauk. Engu að síður var pakkað niður þetta sama kvöld og stefnan sett á Hafnarfjörð, en þangað var komið um fjögurleytið á miðvikudagsmorgun.
Aðeins lítill hluti þeirra mynda sem teknar voru á Síldarævintýri og í fjallgöngunni voru notaðar í pistilinn, en slóðin http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=152434
leiðir þá sem áhuga hafa til þeirra allra.
26.07.2009 04:03
Í hestaferð um Dali og Snæfellsnes
580. Í síðustu viku gerði ég nokkuð sem hefur hingað til ekki hvarflað að mér að ég ætti nokkurn tíma eftir að
Einhvern tíma heyrði ég mætan mann segja að "engin synd væri stærri en sú að vera leiðinlegur að upplagi", en samkvæmt þeirri kenningu hafa líklega allir í þessum flokki verið eins fullkomlega syndlausir og verða má. Öðrum eins hópi fólks sem þarna var á ferð, hélt ég í einfeldni minni að væri ekki með nokkru móti hægt að koma saman. Engan "veikan hlekk" var að finna í honum og hver dagur reyndist öðrum betri með sínu glaða bragði og góða geði. Um ferðafélagana til næstu daga mátti bæði segja og standa fast á að þeir hafi verið góðir og gefandi, skapandi og skemmtilegir, vingjarnlegir og velviljaðir, uppbyggilegir og alþýðlegir og þá er aðeins fátt eitt sagt.
Stór hluti hópsins voru Blöndhlíðungar og hafa margir þeirra komið við í hinum víðfræga karlakór Heimi. Þarna voru því samankomnar margar mikilfenglegar hetjuraddir sem voru þandar til hins ítrasta á kvöldin eftir að menn höfðu skolað af sér ferðaryki dagsins, komið hinu innvortis rakastigi í eðlilegt horf og gerðust þá gjarnan söngvinnir, dansglaðir og fagnaðarsælir svo um munaði. En að morgni risu allir upp rétt eins og Einherjar Óðins í Valhöll forðum og héldu út á völlinn, tilbúnir til að mæta nýjum og dýrðlegum degi.
Ofan úr Hítardal lá hluti leiðarinnar um Löngufjörur á Mýrum, en sú reiðleið hefur verið ein af þeim vinsælli hjá hestamönnum. Líklega skipta þeir sem þarna fara um allmörgum hundruðum ár hvert, en fara verður með gát og miklu skiptir að þekkja vel til eða hafa góða leiðsögn vegna sjávarfalla. Hópurinn fór niður í fjörurnar við Eldborg með reisn og þokka og kom upp við bæinn Kolviðarnes neðan við Laugagerðisskóla og var þá bæði sólhýr og svipléttur í meira lagi.
Ég rakst á skemmtilegt og mjög vel gert kvæði eftir Reyni Arngrímsson.
Löngufjörur
Er dagur rennur döggin sólu kyssir
þá dagbjört bíður sjónarrönd í hafi.
Á fjörum löngum fæðast sker úr kafi
og fyrirheit sem aðeins ein þú vissir.
Þar aldan gárar eilíf létt við fætur,
og öðuskel á fjörugrjótið leikur.
Þú aldrei aftur orðið getur smeykur,
ef undralagið heyrir baki nætur.
Nú daggarbjartur drösull svífur heiður,
í dýrlegri reið og engin orðin mælir,
er jórinn ber þig jökli nær og glaður.
Í eyjum fjarskans ernir búa hreiður,
og urta ein við fjöruborðið gælir,
þá hugsýn geymdu í hjarta þínu maður.
Eftir reiðina um Löngufjörur lá leiðin svolítinn hring um Hnappadalinn og næsta nágrenni, en svo norður yfir Heydal og þaðan svipaða leið til baka. Á myndinni hér að ofan má sjá upp að Haukadalsskarði, en vegurinn yfir það liggur niður í Hrútafjörðinn nokkurn veginn þar sem veitingaskálinn Brú stóð áður. Þarna er bráðskemmtileg, falleg og ágætlega jeppafær leið sem vert er að skoða, en vegurinn liggur m.a. um hlaðið á Eiríksstöðum þar sem Eiríkur Rauði bjó á landnámsöld.
Á vefnum htp://www.847.is/ má lesa eftirfarandi:
Inn úr Haukadal liggur leið um Haukadalsskarð yfir að Melum í Hrútafirði. Leiðin um Haukadalsskarð hefur frá fyrstu tíð verið fjölfarin og er hennar víða getið m.a. í Njáls sögu og Sturlunga sögu. Í Sturlungu stendur eftirfarandi: "En er Sturla Þórðarson spurði, að Brandur var kominn í Miðfjörð með flokk og ætlaði vestur í sveitir, þá dró hann þegar lið saman. Kom þá til liðs við hann Þorgils Böðvarsson og Vigfúss Gunnsteinsson. Riðu þeir þá norður yfir Haukadalsskarð og höfðu nær tvö hundruð manna; tóku þeir þá áfanga fyrir norðan skarðið. Komu þá aftur njósnamenn þeirra Sturlu og segja, að Brandur var í Miðfirði og fór heldur óvarlega."
Um Haukadalsskarð segir hinn merki danski fræðimaður Kristian Kalund í bók sinni Íslenskir sögustaðir: ?Austasti bær Haukadals er Skarð, stendur hinum megin ár. Rétt austan við bæinn er alfaravegur sem liggur um Haukadalsskarð upp á fjallheiðina, sem tengir austurenda Haukadals við Hrútafjörð (Melar).? Svo segir hann frá því að Gunnar á Hlíðarenda hafi stefnt Hrúti um fé Unnar, er við hann hafði skilið. Gunnar reið síðan úr Laxárdal og yfir í Haukadal og svo fyrir austan Skarð til Holtavörðuheiðar og heim.?
Fróðlegt væri að vita hvaða leið Gunnar hefur farið austur í Fljótshlíð. Er ekki hugsanlegt að hann hafi farið þvert á Holtavörðuheiði og komið einhvers staðar hjá Hólmavatni og þaðan í Hvítársíðu? Síðan yfir Hvítá á vaði og Kaldadal eða Okveg. Því næst Skessubásaveg hjá Skjaldbreið og Klukkuskarð niður í Laugardal nema hann hafi farið Hellisskarðsleið og komið niður hjá Úthlíð í Biskupstungum. Frá Úthlíð á vaði á Hvítá hjá Bræðratungu, en yfir Þjórsá á Nautavaði. Yfir Ytri-Rangá hefur hann farið á vaði hjá Svínhaga og síðan Kotveg að Keldum og þaðan heim. Þetta eru auðvitað getgátur einar. Gaman gæti verið að fá uppástungu um það hvaða önnur leið kæmi til greina.
Fleiri leiðir liggja úr Haukadal. Ein liggur upp hjá Litla-Vatnshorni upp með Prestagili yfir Kvennabrekkuháls að Kvennabrekku í Náhlíð, Prestagötur svonefndar. Prestarnir á Kvennabrekku munu hafa farið ríðandi þessa leið enda var útkirkja að Stóra-Vatnshorni. Frá Litla-Vatnshorni liggur líka leið að Kirkjuskógi og eins frá Saurstöðum um Saurstaðaháls yfir að Kringlu í Náhlíð.
Hér skal þess getið að sá eljusami handritasafnari Árni Magnússon fæddist að Kvennabrekku en ólst upp að Hvammi í Dölum. Líka hitt að skammt fyrir innan Saurstaði í Haukadal er bærinn Jörfi þar sem Jörfagleði var haldin fyrrum. Það var mikil skemmtun og vinsæl af alþýðunni og fékkst margt vinnufólk ekki til að ráða sig í kaupavinnu nema með því skilyrði, að það fengi að sækja Jörfagleðina.
Stundum gerðist Jörfagleðin full blautleg og eftir eina slíka fæddust 18 eða 19 lausaleiksbörn. Tók Jón Magnússon bróðir Árna Magnússonar þá á sig rögg og bannaði þennan gleðskap.
Eitt kvöldið var ég hvattur til að koma á bak og sjá veröldina af hestbaki, en áður en ég gæti svarað fyrir mig heyrðust hávær andmæli frá einum ónefndum félaga.
"Það er ekki til umræðu að hleypa honum á nokkurn hest og taka séns á að hann fái bakteríuna. Hver á þá að keyra á næsta ári"?
Og nú hefur aftur og enn verið lagt upp í ferð, en að þessu sinni er stefnt á Síldarævintýrið á Siglufirði. - Nema hvað.
25.07.2009 13:28
Nokkur orð um lítinn bláan bíl og eiganda hans
579. Það hefur komið nokkrum sinnum fram hér á síðunni að ég á lítinn bláan bíl sem er til ýmissa hluta nytsamlegur og er þá ekki tekið mjög djúpt í árinni eða kveðið verulega fast að orði. Fyrir utan það sem yfirleitt flokkast undir að vera hefðbundið hlutverk slíkra og sambærilegra bíla, þ.e. að vera nýttur sem fjölskyldubíll og til fólksflutninga eins og gengur, er þessu eintaki ætlað mun veigameiri og fjölþættari verkefni en t.d. hönnun ökutækisins hefur væntanlega gert ráð fyrir í upphafi. Hann er nefnilega líka notaður sem vinnubíll og oft er hreint ótrúlega mikið á hann lagt í því hlutverki. Hann hefur verið notaður sem flutningatæki fyrir mold, sand, sement, múrbrot, verkfæri, timbur, spónaplötur, heimilistæki og margt, margt fleira. Svo má einnig geta þess að í honum var flutt "innvolsið" sem var rifið innan úr tveimur tveggja herbergja íbúðum svo sem gólfefni, loftaklæðningar, innveggir með grind og öllu saman, gömlu rafmagns og pípulagnirnar ásamt innréttingum og "hreinlætistækjum" innan gæsalappa. Þá þykir mér einnig við hæfi að geta þess að um helgar er hann stundum hljómsveitarbíll og þykir mörgum oft komast alveg óheyrilega mikið inn í hann. Reyndar er það stundum svo að meðspilarinn þarf að sitja með farþegasætið í fremstu stöðu, ennið klesst út í framrúðuna og gítarinn í fanginu til þess að snúrutaskan komist það vel inn um afturhlerann að hægt sé að loka honum. En góður vilji er líka ein af undirstöðum þess að ná árangri í skipulagsfræðum af þeim toga sem hér um ræðir. Við höfum átt samleið u.þ.b. þrjú síðustu árin og ríflega 100.000 kílómetrana og mætti því ætla að ég væri farinn að þekkja sæmilega til hans, en með mér hafa nýverið vaknað verulegar efasemdir um það.
Á dögunum kom ég að húsi þar sem ég þurfti að erinda svolítið og staldraði þar við stutta stund. Þegar ég hafði lokið því gekk ég til baka og að bílnum, en að þessi sinni virtist lykillinn ekki ganga að skránni og mér gekk bölvanlega að opna. Reyndar gafst ég að lokum upp á því og tók þá eftir manni sem stóð hálffalinn á bak við gardínur eins gluggans á neðstu hæðinni og talaði í síma. Ég fékk það sterklega á tilfinninguna að hann hefði fylgst vel með mér og tilraunum mínum til að komast inn í bílinn. Mér virtist hann vera býsna þungur á brún og þrátt fyrir að ég kinkaði kolli til hans var ekki gleðivott að sjá í allt að því steinrunnu andlitinu.
Í gærmorgun (föstudag) fór ég með bílinn á verkstæði Friðriks Ólafssonar sem er við Smiðjuveg í Kópavogi því það var ekki hægt að fá nokkra ljóstýru á afturljósin og dagljósabúnaðurinn virkaði ekki lengur á framljósin. Tíminn hafði verið pantaður fyrir 15 dögum síðan því þarna var langur biðlisti og greinilega talsvert að gera.
Ég var búinn að fara á það verkstæði sem ég er vanur að leita til og þar var búið að leita bilunnarinnar, m.a. að mæla öryggi, athuga hvort sambandsleysi væri að finna einhvers staðar í raflögn og meira að segja leita að sjálfum dagljósabúnaðinum í bílnum en án nokkurs árangurs.
"Þú verður því miður að fara á eitthvað Nissan verkstæði" var sagt við mig þar á bæ sem ég og gerði.
Og þar sem ég hef ekki gengið mikið á fjöll allra síðustu daga fannst mér alveg tilvalið að rölta heim í góða veðrinu í morgunsárinu.
Ég gekk sem sagt heim frá Smiðjuveginum í Kópavoginu og í suðurbæinn í Hafnarfirði á einum tíma og 40 min., en komst að því fljótlega eftir gönguna að það er sitthvað að rölta um úti í náttúrunni eða þramma á hörðu malbikinu. Ég staulaðist því eins og spýtukarl milli herbergja það sem eftir lifði dags, en þó aðeins ef bráð nauðsyn krafði. Nokkru eftir hádegi var hringt í mig og mér sagt að bíllinn væri tilbúinn. Ég fékk að þessu sinni skutl á staðinn og gekki inn á verkstæðið með debetkortið á undan mér. Afgreiðslumaðurinn rétti mér lyklana nokkuð glottaralegur á svipinn og ég spurði hvað heildartjónið væri stórt.
"Viðgerðin tók heilar þrjár mínútur og kannski nokkrum sekúndum betur og það tekur því ekki að rukka fyrir eitt öryggi" svaraði hann og glotti enn meira.
18.07.2009 17:56
Vinnuferð á Sigló
578. Föstudaginn 10. júlí var Micran notuð sem "hljómsveitarbíll" og það var alveg merkilegt hvað hún tók vel við öllu því sem inn í hana var sett. Það var meira að segja talsvert pláss eftir þegar græjurnar voru allar komnar á sinn stað auk annars farangurs. Síðan var ekið sem leið lá norður yfir heiðar og ekkert staldrað fyrr fyrr en á Dýrfinnustöðum í Blönduhlíð þar sem mikið stóð til.
Þar hélt Ingólfur bóndi upp á stórafmæli sitt í hlöðunni sem var búið að breyta í hinn flottasta veislusal.
Á laugardeginum eftir að menn höfðu komið sér í gírinn, var svo rennt á Sigló. Himinninn var svo heiður og blár að undrum sætti, en fyrir ofan Haganesvíkina blöstu Siglufjarðarfjöllin við svo skemmtilega snjólétt að ég sá fyrir mér að göngustafirnir yrði að öllum líklindum notaðir í þessari ferð. Þó fór ekki fram hjá mér að þykkur skýjabakki lá fyrir utan landið og stóð lágt.
Sunnudaginn þ. 12. fór ég svolitla skoðunarferð upp í Siglufjarðarskarð til að athuga snjóalögin því ég hafði hug á að ganga frá skarðinu, upp á Illviðrishnjúk, niður á Snók og norður Hafnarfjall. Upp á Hafnarhyrnu, fyrir Hvanneyrarskálina yfir Strákana og út á Skrámu, en bara ekki í dag
Ég komst með góðu móti upp undir efstu beygjuna og þarna höfðu greinilega einhverjir fleiri ferið á ferðinni og komist u.þ.b. jafnlangt.
En fyrir neðan klettana undir Afglapaskarði var allt í fönn og lengra varð ekki komist.
Úr þessari hæð yrði gangan létt og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar.
Á leiðinni niður sá ég að hauskúpunan sem Eddi Páll málaði fyrir margt löngu síðan hefur fengið "andlitslyftingu" ef svo má að orði komast. Hún var orðin ansi máð og ógreinileg þarna á steininum fyri fáeinum árum síðan ef ég man rétt.
En auðvitað átti ég að stökkva á stað í blíðunni því skýjabakkinn sem beðið hafði fyrir utan læddist inn og gerði út um allar mínar fyrirætlanir. Það er nefnilega lítið gaman að fara í fjallgöngu í þoku. Ég hélt mig því að mestu uppi á háalofti þessa viku sem ég staldraði við og sagaði, negldi, skrúfaði, spartlaði, pússaði og málaði.
Á Hverfisgötunni við hliðina á æskuheimilinu býr Ranna og sem benti mér á "blómstrið eina" í skorsteininum hjá sér.
Allt bendir til þess að þamgað hafi borist fræ úr garðinum frá Tryggva og Reynitrésgræðlingur hafi skotið þarna rótum, en hvort það á fyrir honum að liggja að verða myndarlegt tré í fyllingu tímans á hins vegar eftir að koma í ljós.
Ég leit aðeins yfir garðinn þar sem ég lék mér sem strákur og sá að hann hefur tekið gríðarmiklum breytingum. Fá tré standa nú eftir til að klifra í, en umhirðan er góð eins og sjá má.
Ég get ekki sleppt því að láta fylgja mynd af mjólkurflöskunum og grindinni sem voru í eina tíð hluti af hinu daglega lífi, því yfirleitt var farið daglega í "mjólkurbúðina" með tómu flöskurnar og komið til baka með aðrar fullar. Líklega finnst þeim sem yngri eru skondið að það skuli hafa verið til búðir sem seldu aðeins mjólk og mjólkurafurðir og ekkert annað, en þannig var þetta hér í denn. Eftir að Hólsbúið var aflagt og hætt var að fara með álbrúsana og dæla í þá á staðnum, kom mjólkin frá Akureyri í svona flöskum og var þeim lokað með tappa úr álpappír sem mig minnir að hafi verið svolítið þykkri en sá sem er jafnan notaður í dag. "Tapparnir" voru litaðir til að aðgreina innihaldið, þ.e. grænn táknaði súrmjólk, gulur rjóma og mig minnir að undanrennan hafi verið með einhvern vegin daufbláum tappa.
Flöskurnar voru í þremur stærðum, heill lítir svo og hálfur sem voru yfirleitt notaðir undir nýmjólk, súrmjólk og undanrennu, en þriðjungur (þ.e. minnsta glerið) undir rjóma.
Þetta er líka eitt af því sem var bráðnauðsynlegur hluti af bernskunni, en ég man ekki til þess að það hafi verið til nein önnur tegund af djús eða appelsínuþykkni á sjöunda áratugnum. Mér þótti mikill fengur í þessum umbúðum þegar ég rakst á þær í gömlu dóti fyrir nokkru síðar og þær kveiktu svo sannarlega á fjöldanum öllum af perum í nostalgíuljósaseríunni rétt eins og grindin og brúnu flöskurnar hér fyrir ofan.
En í fyrramálið verður lagst í enn eitt ferðalagið og það er þess konar sem ég hefði alla mína daga til þessa, talið útilokað að ég ætti nokkurn tíma eftir að taka mér fyrir hendur. Ég ætla nefnilega að aka trússbíl um Snæfellsnesið fram undir næstu helgi og blanda geði við Skagfirska hestamenn og fleira gott fólk.
Það er með ólíkindum hvað hann Ingimar á Flugumýri getur fengið gamla hunda eins og mig til að gera og ég er jafnvel ekki frá því að hann sé nokkuð ákveðinn í að koma mér á hestbak.
Hvort það tekst á svo eftir að koma í ljós en við gerum því máli nánari skil um næstu helgi, en þá þarf ég að koma í bæinn til að spila á Catalinu.
10.07.2009 07:13
Á Þjóðlagahátíð
577. Það var auðvitað stormað á Þjóðlagahátíð strax og hún hófst miðvikudaginn 1. júlí. Margt var um manninn á Aðalgötunni sem er skemmtileg tilbreyting frá því sem stundum er. Sumir á þeim bæ þræddu nánast allt sem hægt var að komast yfir af dagskránni meðan aðrir voru rólegri í tíðinni og völdu sér eina og eina uppákomu til að kíkja á.
Ég hitti Ægi Eysteinsson fréttamann RUV uppi á torgi þar sem hann var að taka viðtal og átti við hann langt og skemmtilegt spjall, en Ægir var hér í eina tíð nágranni minn og því sem næst daglegur gestur á Laugarásvideó. Þess má einnig geta að hann er af Siglfirsku bergi brotinn, en móðurafi hans var Siglfirðingur, hét Viktor og var aðstoðarlyfsali hjá Schiöth.
Ég sá að þessi "drátthaga" mær dró flottar línur á blað þegar ég gægðist yfir öxlina á henni. Hún var að teikna steininn og baksvið hans, en þar var Sparisjóðurinn við Túngötu fyrirferðarmestur.
Ég hef stundum velt því fyrir mér að það hljóti að vera einstakt hvað svo margt er á svo til alveg sama stað á Siglufirði og hvað samþjöppunin er hreint ótrúlega mikil í kring um torgið. Það er ekki nóg með að nánast öll verslun og þjónusta sé þarna til staðar og raði sér í kring um þennan græna ferning sem Ráðhústorg er, heldur er tjaldstæðið og smábátahöfnin eiginlega þarna líka.
Smábátahöfnin við torgið... - Hljómar það ekki svolítið skondið?
Þegar ég fór að skoða myndirnar sem ég tók í þessari ferð sá ég að þær voru svo sem margar og margvíslegar eins og svo oft áður, en mér fannst samt óvenju lítill hluti þeirra eiga erindi í pistil eins og þennan og því verður hann í styttra lagi.
En vangaveltur um hversu langt er milli Siglufjarðar og Reykjavíkur eiga hins vegar fullt erindi hingað. Lengi vel hef ég talið að vegalengdin sé u.þ.b. 400 km., en hún hafi hugsanlega farið eitthvað niður fyrir 390 km. með tilkomu vegarins um Þverárfjall þar sem ekið er á ísbjarnarslóðum.
En að þessu sinni var gerð fagleg úttekt á málinu við vegamótin þar sem Þverárfjallsvegur kemur niður á Skagastrandarveg og niðurstöður skráðar eins og sjá má. En þaðan eru 133 km. til Siglufjarðar og 252 km. til Reykjavíkur. Og þá vitum við að það eru samtals 385 km. milli þessara staða og margra ára vangaveltur eru þar með úr sögunni, a.m.k. þangað við fáum göng milli Bjarnagils og Siglufjarðar.
Á laugardeginum 5. júlí varð ég því miður að yfirgefa staðinn því ég átti að spila í Árbæjarsafni um kvöldið. Nú eru menn sem sagt búnir að vera það lengi í bransanum að þeir eru komnir á safn í orðsins fyllstu merkingu. En hvað sem því líður þá var ég að spila í Skagafirðinum um helgina sem leið og er því núna aftur kominn á Sigló þar sem ég ætla að vera fram eftir vikunni. En svo þarf auðvitað að mæta aftur syðra um næstu helgi því það verður að halda sig að hljómborðinu um hábjargræðistímann.
07.07.2009 21:44
Systkinabarnamót 2009
576. Hið árlega systkinabarnamót var haldið dagana 26. til 28. júní sl., en þar er um að ræða börn Sóleyjar ömmu minnar sem bjó á Siglufirði og systkina hennar. Og þar sem eini afkomandi hennar er ekki lengur meðal vor, framlengist "mætingarrétturinn" til afkomenda móður minnar þ.e. til mín og Sæunnar systur minnar.
Á leiðinni vestur var staldrað við í Borgarnesi og þar sá ég þá stærstu hunda sem ég hef nokkru sinni séð. Ég spurði hvort ég mætti mynda þá og reyndist það auðsótt mál af eigendanna hálfu, en þeir eru annað hvort ekki mikil efni í fyrirsætur eða á einhverju mótþróaskeiði. Það var sama hvað reynt var, ómögulegt reyndist að fá þá til að samþykkja neitt þeirra sjónarhorna sem maðurinn með myndavélina reyndi að ná fram.
Við mættum í sumarhús sem er í landi Elliða á sunnarverðu Snæfellsnesi í miklu blíðskaparveðri, en það skyldi vera miðstöð samkomunnar.
Á laugardeginum var lagt upp frá Elliða norður yfir Vatnaskarð til Stykkishólms þess fallega bæjar, því áformað var að sigla milli nokkurra Breiðafjarðareyja. Ferjan Særún beið okkar og annarra ferðalanga við bryggju en á vef Sæferða sem gerir hana út má lesa eftirfarandi.
"Ævintýrasigling Breiðafjarðar er vinsælasta ferðin okkar. Þar er siglt um eyjarnar óteljandi, skyggnst inn í ævintýraheim Breiðafjarðar, skoðaðar fjölbreytilegar bergmyndanir, sögulegar slóðir og sterkustu sjávarfallastraumar við Íslandsstrendur.
Á sumrin iðar svæðið af fuglalífi og þá má meðal annars sjá toppskarfa, lunda, ritu, kríu, fýl, æðarkollu og stundum jafnvel haförninn, konung íslenskra fugla.
Hápunktur ferðarinnar er þegar plógur er settur út og upp koma ýmis skeldýr af botni sjávar. Gestir okkar fá tækifæri til að skoða gersemarnar en einnig smakka á hörpuskel og ígulkerjahrognum."
Kortið sýnir leiðina sem farin var um Breiðafjarðareyjar fyrir utan Stykkishólm og í mynni Hvammsfjarðar.
Ég undraðist hvað við sigldum nálægt Þórishólma sem var fyrsti "viðkomustaðurinn" en okkur var sagt að þarna væri mjög aðdjúpt sem og að mörgum eyjum á þessum slóðum.
Ég varð auðvitað að mynda þennan myndarlega krossfisk sem hafði fest sig við þarann utan í klettunum.
Ekki man ég hvað þessi klettur heitir en hann er fyrir norðan Bíldseyna.
En þetta er Bíldsey að norðanverðu þar sem er mikið fuglalíf og athyglisverðar stuðlabergsmyndanir.
Á næsta "stoppistað" sáum við arnarpar (rétt hægra megin við miðja mynd) sem lét sér fátt um finnast þó athygli ferðalanganna beindist að því.
Ég notaði aðdráttarlinsuna eins og hægt var og stækkaði síðan myndina heilmikið eftir að heim var komið, en okkur var sagt að þetta Hafarnarpar hafi haldið sig á svipuðum slóðum árum saman.
Næst lá leiðin inn til Dímonarklakka sem eru eiginlega tvö lítil fell sem setja mikinn svip á eyjaklasann fyrir mynni Hvammsfjarðar.
Undir þeim var lagst fast upp að hamraveggnum og Toppskarfaurinn sem er mjög algengur þar skoðaður.
Skipstýran sagði okkur að ferðir sem þessar væru farnar flesta daga sumarsins og stundum tvisvar og jafnvel þrisvar suma daga, hann væri því greinilega orðinn vanur mannaferðunum.
Nokkuð er einnig af Lunda þarna á eynni, en þessi fugl fylgdist með okkur um stund.
Síðan stikaði hann af stað að því er virðtist þungt hugsandi fram hjá Fýl sem lá á eggjum sínum og fór að sinna öðrum og eflaust merkilegri málum.
Á bak við Dímonarklakka er vogur en um hann er nokkuð fjallað í Eyrbyggju.
Dímon sem þýðir Tvífjall, og er heitið talið vera komið úr keltnesku. Í Dímonarvogi leyndi Eyjólfur Æsuson Eiríki rauða áður en hann sigldi til Grænlands eftir að hann hraktist úr Haukadal vegna vígaferla. Þarna mun hafa verið gott að leynast því á þeim tíma var eyjan öll svo skógi vaxin að báta mátti auðveldlega draga upp úr fjöruborði og inn í kjarrið. Álitið er að Eiríkur hafði einnig haft varðmenn uppi á klökkunum svo ekki yrði komið honum að óvörum
Hann bjó þó áður nokkur ár í Öxney við Eiríksvog, en lenti þar einnig í vígaferlum og var dæmdur sekur og réttdræpur á Þórsnesþingi.
Fór hann þá að leita landa í vestri, en eftir þrjá vetur kom hann aftur sagðist hafa fundið land mikið sem hann kallaði Grænland og "kvað menn það mjög mundu fýsa þangað ef landið héti vel" .Í voginum í eynni bjó hann skip til Grænlands, árið 985 eða 986 og fluttist síðan alfarinn vestur og fjöldi manns á hæla honum. Eiríkur bjó í Brattahlíð og varð höfðingi í Íslendingabyggð á Grænlandi. Hann hélt við heiðinn sið en Þjóðhildur gerðist kristin og lét reisa sér kirkju í Brattahlíð.
Skammt frá er Purkey, en þar eru mjög sérkennilegar stuðlabergsmyndanir. Sagt er að í árdaga þegar Almættið hafi verið að byggja jörðina hafi hann gjarnan notað mótatimbur við bygginga kletta og hamra. En þegar kom að Purkey hafi timbrið verið þrotið og hann hafi því orðið að notast við bárujárn, enda sjáist það glöggt á áferð klettaveggja eyjarinnar.
Á Purkey er Gálgagjá (fyrir miðri mynd), en þar voru sakamenn til forna gjarnan hengdir. Sagt er að sá siður hafi tíðkast á þessum stað að þeir væru ekki teknir niður að aftöku lokinni, heldur látnir "veðrast" úr snörunni.
Og við liðum fram hjá þessum glæsilega stuðlabergsvegg og spölkorn út frá eynni.
Þar var plógur setur út og dregið stutta stund, en síðan var aflinn innbyrtur og ferðamannahópurinn fylgdist vel með.
Innihaldi pokans var sturtað á aðgerðarborðið og nú hófst veisla.
Ekki voru allir tilbúnir að opna Hörpudisk eða Ígulker og sporðrenna innihaldinu beint upp úr sjónum, en þeir áræðnustu riðu á vaðið.
Smám saman urðu þeir fleiri sem vildu skoða málið.
Og vera ekki minni menn (eða konur) en hinir sem á undan reyndu.
Ég reyndi að sjá hvaða sjáfardýr maðurinn væri að gæða sér á en hef ekki komist að niðurstöðu. Mér sýnist þó einhvers konar fálmarar standa þarna út úr hnefa.
Hann steini frændi prófaði bæði Ígulkerjahrogn og Hörpudisk.
Og fannst það greinilega hið mesta lostæti.
Þessi kona sem talaði ensku með gelískum hreim var hreint út sagt óstöðvandi.
Hún stóð lengst af við enda "veisluborðsins" og hreinlega raðaði í sig krásunum.
Ég hafði staðið og myndað, en að endingu gat ég ekki annað en reynt þetta líka.
Ég skal viðurkenna að ég var eins og pínulítið hikandi fyrst...
...en Hörpudiskur sem gerist ekki "nýveiddari" en í þessu tilfelli er bara skrambi góður.
Þeir voru forvitnir þessir tveir ungu piltar og fannst mikið um að vera þarna á borðinu.
Enda kenndi þarna margra grasa, eða öllu heldur krabba, skrápdýra, kuðunga, krossfiska og ýmis konar skelja.
Ekki veit ég hvað þetta rauða furðudýr heitir, en mér sýnist það hafa þrettán fætur.
Ætli það sé ætt???
En eitt af því sem einkennir Breiðafjörðinn er að þar gætir sjáfarfalla meira en annars staðar á landinu. Það var engu líkara en beljandi fljót streymdi á milli þessara tveggja eyja.
Og það var eins og óhugnanlegir svelgir sem helst ættu heima í fornum og drungalegum ævintýraheimum mynduðust í sjónum.
En ferðin var senn á enda og við nálguðumst Stykkishólm á ný.
Ég þakkaði skipstýrunni sem hafði svo mjög miðlað af þekkingu sinni gegn um hátalarakerfi skipsins fyrir ferðina og fékk að smella einni mynd af henni.
Og eins og í fyrra var komið við í brugghúsi, en að þessu sinni er það Mjöður ehf. sem framleiðir bæði ljósan og dökkan "Jökul".
Við fengum að vita ýmislegt um stutta sögu fyrirtækisins sem var stofnað árið 2007 og að fyrsti bjórinn kom á markað í október 2008 í sömu viku og bankahrunið átti sér stað.
Og svo heilmargt um framleiðsluferlið sem ég treysti mér ekki til að hafa eftir nema að litlu leyti.
Og svo var smakkað... - Nema hvað.
Eftir bjórsmökkun og fróðlegan fyrirlestur var ekið um Berserkjahraun að enda Berserkjagötu sem munu vera elstu minjar samgöngumannvirkis á landinu.
Á ferðavefnum nat.is er að finna eftirfarandi upplýsingar um tilurð Berserkjagötu.
"Eyrbyggja segir, að Vermundur mjóvi í Bjarnarhöfn hafi flutt berserkina, Halla og Leikni, sem voru af sænskum ættum, með sér til landsins árið 982 frá Noregi. Hans bróðir var Víga-Styr, sem bjó undir Hrauni á bænum, sem síðast hét Berserkjahraun. Vermundur vildi ekki búa undir oki ofstopamannsins, bróður sins. Honum láðist þó að láta berserkina hafa nóg fyrir stafni og þeir fóru að ókyrrast. Þá snéri Vermundur sér til bróður sins og bað hann taka við þeim, sem hann gerði óviljugur. Hann hafði þá til aðstoðar við að vega menn en verkefnin voru ekki næg, þótt mikið blóð flyti. Halli vildi að Styr gæfi honum dóttur sína, Ásdísi, eða missa vináttu hans ella.
Víga-Styr ráðgaðist við Snorra goða á Helgafelli heilan dag vegna þessa vanda og fór heim með góð ráð. Þegar heim kom, var hann jákvæður í garð Halla, en sagði, að þeir yrðu að leysa nokkrar þrautir áður en af ráðahagnum yrði. Síðan sagði hann þeim að þeir yrðu að ryðja götu í gegnum hraunið til Bjarnarhafnar, leggja hagagarð yfir það og byrgi fyrir innan það. Það rann á þá berserksgangur og þeir luku þessum verkum á tiltölulega skömmum tíma. Á meðan hafði Styr látið grafa baðstofu í jörð niður heima við með glugga yfir ofninum, þannig að hella mátti vatni þar í gegn. Hann bauð berserkjunum til baðhússins, þegar þeir komu heim frá verkinu móðir mjög. Síðan lét Styr bera stórgrýti á hlemminn yfir innganginum og hellti sjóðandi vatni á ofninn. Þótt mikið væri dregið af berserkjunum, brutust þeir út en Styr tókst að leggja þá í gegn með sverði sínu. Skrokkarnir voru fluttir út á hraunið og dysjaðir í hraunlaut við sjálfa götuna."
Á Breiðafjarðarfléttunni má lesa eftirfarandi:
"Berserkjahraun í Helgafellssveit er eitt þekktasta hraunið á Snæfellsnesi. Það rann úr eldstöðvakerfi Ljósufjalla til sjávar suðvestan og suðaustan Bjarnarhafnarfjalls. Hraunið er erfitt yfirferðar og lítt gróið og snemma var hafist handa við að ryðja vegi í gegnum það. Leiðin milli bæjanna Berserkjahrauns og Kothrauns yfir hraunið er kölluð Skollagata. Frægasta leiðin er þó Berserkjagata, hún liggur til Bjarnarhafnar skammt ofan Hraunsvíkur. Hún er líklega elsta mannvirki sinnar gerðar á landinu. Hún og Berserkjadys eru friðlýst náttúruvætti. Söguna um berserkina er að finna í Eyrbyggju. Þeir voru af sænskum ættum og nefndir Halli og Leiknir og komu til landsins 982 frá Noregi á vegum Vermundur í Bjrnarhöfn. Þeir voru látnir ryðja götu í gegnum hraunið til Bjarnarhafnar og luku þeir þessum verkum á tiltölulega skömmum tíma, en að því loknu voru þeir vegnir og dysjaðir í hraunlaut við sjálfa götuna því erfitt þótti að tjónka við þá."
Og Berserkjahraun er vissulega úfið og erfitt yfirferðar. Það fékk ég að reyna þegar ég var búinn að klöngrast upp undir brún á jaðri þess og vildi flýta mér til baka þegar ég tók allt í einu eftir því að hópurinn var á förum.
En dagur var að kvöldi kominn og ég þurfti að yfirgefa Elliða á laugardagskvöldinu á undan öllum öðrum. Ástæðan var eins og svo oft að ég þurfti að mæta til spilamennsku um kvöldið.
Ég hefði sko alveg verið til í að vera þarna aðeins lengur...
En því má svo bæta við að það eru miklu, miklu fleiri myndir frá ferðinni í möppu í myndaalbúmi merkt Systkinabarnamót 2009, en bein slóð þangað er
30.06.2009 08:59
Norðurferð í júní - þriðji hluti
575. Frá Flugumýri lá leiðin aftur á Siglufjörð og upp á háaloft í smíðavinnu næstu dagana. Það miðaði vel þessa daga og háaloftið tók sífellt á sig meiri og betri mynd. Stundum var þó ekki annað hægt en að koma sér út úr rykinu um stund og einn daginn rölti ég út að Bátadokk. Þar hitti ég fyrir Guðbrand Ólafs og Bjössa Sveins og tókum við tal saman. Bar þá að Gunnar Trausta og Dóru Jónasar sem spurðu hvort ég ætlaði ekki að mæta í gönguna þá um kvöldið, en ég hváði því ég vissi ekki um neina göngu.
"Það verður gengið yfir Dalaskarð í kvöld, ætlarðu ekki að mæta"?
Gunnar talaði eins og allar aðrar ákvarðanir en sú "að mæta" yrðu teknar á röngum forsendum og ég fann fyrir einhverju sem flokka mætti sem afar kurteislegan þrýsting.
"Auðvitað mæti ég" svaraði ég svolítið hikandi.
Á leiðinni heim sá ég auglýsinguna í glugganum á Pizza 67 þar sem auglýst var Sólstöðuganga yfir Dalaskarð.
Mæting var kl. 20.30 og það var ekið inn að bílastæðinu í Mánárdalnum þar sem þeir félagar Þórður og Bjarki gerðu ítrekaðar tilraunir til að reisa sér sumarbústað á áttunda áratugnum.
Það var gengið inn Mánárdalinn og gönguleiðin var mjög vel merkt. Fyrir miðri myndinni hér að ofan er Hádegisfjall en hægra megin við það rís Illviðrishnjúkur.
Ferðin var farin á vegum Ferðafélags Siglufjarðar sem mér virðist eiga svolítið undir högg að sækja um þessar mundir þar sem starfsemin er borin uppi af örfáum áhugasömum einstaklingum. Það væru ill tíðindi ef það legðist af því tilvist þess er í eðli sínu heilsusamleg, félagsleg vítamínsprauta fyrir þátttakendur, mannbætandi hvernig sem á málið er litið og túristavæn í þokkabót.
Þessi lækur heitir að ég best veit Máná rétt eins og bærinn, en Mánárdalur er syðri dalurinn af tveimur sem saman eru nefndir Úlfsdalur. Sagt er frá því í Landnámu að Ólafur Bekkur og Úlfur Víkingur hafi orðið samskipa´til Íslands, Ólafur hafi numið Ólafsfjörð en Úlfur Úlfsdali. Sagnir eru um að Úlfur hafi setið á Dalabæ en verið heygður í hón nokkrum niður við árbakkana þar sem hann gæti fylgst með skipaferðum um alla tíð.
Gönguleiðin upp Mánárdalinn er ágæt yfirferðar og alls ekki brött. Þegar upp á brúnina er komið er fjallið Snókur mjög áberandi í landslaginu enda örstutt í það. Á þessum slóðum er Styrbjarnardys, en um Styrbjörn eru til nokkrar og svolítið misvísandi sagnir.
Eftirfarandi má lesa á snokur.is
"Nálægt vegi þessum suðaustan við Dalaskarð er
vörðubrot eitt, er nefnist Styrbjörn halda sumir hér það dys þó ólíklegt sé; en sagt
er að þar hafi bráðdauður orðið Styrbjörn bóndi á Hóli á heimleið frá Dalabæ með þunga byrði matar stolna frá Rafni bónda og var dauði hanns kenndur göldrum Rafns. Aðrir segja þó Styrbjörn hafa búið í Úlfsdölum en stolið frá Höskuldi bónda á Meiri Höfn sem líka var mjög fjölkunnugur talinn og hafi hann valdið dauða Styrbjarnar. Trúlegra er þó að þá hefði hann farið utar yfir fjallið. Virðist sögn þessi vera frá fyrri hlut 17. aldar því þá voru þeir Rafn og Höskuldur kunnir bændur, en oft munu hér hafa verið gripdeildir útlendra og innlendra."
Einnig hef ég rekist á frásögn um að Styrbjörn hafi verið eltur uppi af Höskuldi sem hafi banað honum og síðan dysjað.
Þetta er hópurinn sem gekk yfir Dalaskarð, en á myndina vantar þó Gunnar Trausta og Stellu Matt.
Þegar upp á brúnina er komið blasir Siglufjörður við.
Eins og sjá má er örstutt að fara að Snót (lengst til vinstri á myndinni rétt fyrir ofan miðju), en þaðan á að vera kjörstaður fyrir fólk með myndavélar og í góðu veðri.
Eins og sjá má er enn talsverður snjór á skíðasvæðinu í Skarðinu.
Þegar upp var komið og búið að staldra við um stund skipti hópurinn sér. Sumir gengu niður Stóra-Bola en þessi hluti sem hér sést gekk til norðurs ofan við Leirdali.
Þarna hækkar landið lítillega og áfram var haldið vestan við Hafnarhyrnu og að suðvesturbrún Hvanneyrarskálar.
Og áfram norður fyrir botn Skálarinnar. Hér pósum við Stella bekkjarsystir mín með sjálfa Hvanneyrarskál og hluta af bænum í baksýn.
Svo skemmtilega vildi til að gríðarlega langur og mikill snjóskafl náði frá efstu brún og alla leið niður á botn skálarinnar. Tóku þá ýmsir til þess ráðs að setjast niður og renna sér á rassinum upp á gamla mátann alla leið niður sem var hreint enginn smáspölur. Eins og sjá má er talsverð hreyfing í myndinni hér að ofan en mér finnst eiginlega ekki hægt annað en að láta hana fylgja þrátt fyrir það.
Og snjórinn bauð upp á fleiri möguleika. Hann var alveg hæfilega þéttur og gaf svo passlega mikið eftir að það var engum vandkvæðum bundið fyrir þá að renna sér fótskriðu sem það kusu.
Það var góður og skemmtilegur hópur sem þarna var á ferðinni þótt fleiri hefðu alveg mátt slást með í för. Veðrið var hið besta og það gerði ekkert til þótt svolítill rigningarúði og léttur goluþeytingur sæi "genginu" fyrir hæfilegri kælingu stutta stund.
Mig langar til að þakka þeim Gesti Hansa og Maresku alveg sérlega fyrir þeirra framlag í þágu félagsins sem heimamenn mættu að ósekju alveg sýna meiri áhuga og ræktarskap.
Fleiri myndir frá Siglufirði en einnig frá göngunni yfir Dalaskarð er að finna aftarlega í myndaalbúmi http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=141649
Kvöldið eftir var kominn tími til að kveðja norðurlandið og haldið af stað suður yfir heiðar. Það var þó ekki hægt annað en að smella af einni sólarlagsmynd út Skagafjörðinn á leiðinni eins og sjá má.
Síðan þessi ferð var farin er eitt og annað búið að bera til tíðinda og ég er kominn aftur norður á Sigló. - En nánar um það innan tíðar.