01.07.2013 23:43

"Stóreflis ÚFÓ af himnum ofan datt..."

Húsið að ofan verðu.

872. Skyldu einhverjar framandi verur hafa týnt geimfarinu sínu þarna í uppsveitum Kópavogs, eða eru einhverjar jarðbundnari skýringar til á því sem þarna ber fyrir augu? Sennilega verða fæstir þeirra sem eiga leið um Vatnsendaveginn mikið varir við þetta stórhýsi, enda skilur há hljóðmön Fagraþingið frá þeirri götu. En þegar ég á leið þarna hjá sem er ansi oft, sit ég gjarnan mun hærra en almennt gerist og hef því mun betri yfirsýn yfir það sem mörgum öðrum er hulið. Ég hafði fregnað að þetta muni vera hið fræga hús Kára Stefánssonar, og þegar ég átti leið þarna um án þess að vera bundinn klukkunni um of, leyfði ég mér að gera örstuttan stans og smella af nokkrum sinnum á þetta furðuverk og það meira að segja frá báðum hliðum. En ég skal viðurkenna að ég var svolítið órólegur meðan ég staldraði við og gaf mér því ekkert umfram hæfilega langan tíma til skoðunnar og yfirlits, því svæðið er auðvitað þrælvaktað og ef vel var að gáð, mátti koma auga á nokkrar eftirlitsmyndavélar með ísköld, stafræn, glampandi, illkvittnisleg, ópersónuleg og ómanneskjulega vökul linsuaugu sem fylgdust með húsinu og næsta nágrenni þess.

-

Sögur af byggingu þess hafi oft og iðulega ratað í fjölmiðla og hafa fréttirnar undantekningalítið verið heldur í skrautlegri kantinum. Hér eru nokkur dæmi:

-

Fundargerðir Kópavogsbæjar 22. mars 2006

"Kári Stefánsson, Hávallagötu 24, Reykjavík, sækir um leyfi til að byggja einbýlishús að Fagraþingi 5. Teikn. Hlédís Sveinsdóttir."

9. okt. sama ár var umsóknin samþykkt og þess má gjarnan geta að Hlédís Sveinsdóttir er dóttir Sveins Eyjólfssonar fyrrverandi blaðaútgefanda.

-

5. júní 2008 má sjá eftirfarandi athugasemd í fundargerðum Kópavogs.

"Fagraþing 5, undirbúa afturköllun lóðar. Framkvæmdir nú í fullum gangi. Athuga stöðu við næstu yfirferð."

-

Pressan 20. ágúst 2010

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur hafið framkvæmdir á lóð sinni í Kópavogi, eftir ítrekuð tilmæli frá Kópavogsbæ. Hugmyndir Kára og Kópavogsbæjar ríma þó ekki alveg saman, því Kópavogsbær vill að Kári klári verkið en Kári vill byggja í áföngum.

Pressan greindi fyrst frá því í apríl að Kópavogsbær hafi hótað Kára dagsektum ef hann gengi ekki frá lóð sinni við Fagraþing 5 í Kópavogi, þannig að ekki stafaði hætta af. Í júlí hafði enn ekkert gerst í málinu og höfðu sektirnar, sem námu 20 þúsund krónum á dag, hrannast upp og var heildarupphæðin komin upp í tæpa milljón.

-

DV. 10. sept 2010

Eykt stefndi Kára fyrr á þessu ári vegna verksamnings þeirra á milli. Húseignin sem um ræðir er ókláruð og stendur við Fagraþing 5, Kópavogsmegin við Elliðaárvatn. Eykt hóf að byggja hið ókláraða húsið, sem samkvæmt fasteignaskrá verður um 550 fermetrar að stærð. Kári og Eykt deila um greiðslur vegna verksins. Heimildir DV herma að krafa byggingafélagsins hljóði upp á rúmar 11 milljónir króna, auk vaxta, útaf viðbótarkostnaði vegna tafa. Þær tafir vill Eykt meina að hafi orðið þar sem Kára hafi um tíma skort nauðsynleg leyfi fyrir framkvæmdunum.

Í lok júní sagði Kári í samtali við DV að hann væri búinn að borga byggingafyrirtækinu hverja krónu og gott betur. Hann var vongóður um sigur fyrir dómstólum enda sé hann vanur að hafa rétt fyrir sér.

-

Pressan 24. júní 2011.

Hús Kára, eða réttar sagt skortur á húsi hans, komst í fréttirnar í fyrra eftir að Kópavogsbær beitti hann dagsektum. Lóð Kára hafði staðið ófrágengin í töluverðan tíma, nágrönnum hans til mikillar mæðu.

-

Fréttatíminn 25. nóv. 2011

"Hriflu-villa Kára fór á 110 milljónir

Ingólfur Friðjónsson, framkvæmdastjóri löginnheimtu Frjálsa fjárfestingabankans, hefur fest kaup á hinu fræga húsi Hamragörðum sem standa við Hávallagötu. Ingólfur, sem var sæmdur heiðursorðu íþróttafélagsins Vals árið 2008, greiddi 110 milljónir fyrir húsið í peningum." 

"Ljóst er að ekki mun væsa um Ingólf við Hávallagötuna. Húsið er 329 fermetrar og sérlega reisulegt. Það er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, árið 1941. Upphaflega var húsið ætlað skólastjóra Samvinnuskólans. Sá var á þeim tíma sjálfur Jónas frá Hriflu og bjó hann í húsinu til dauðadags. Félag Kára keypti húsið af Elfari Aðalsteinssyni, syni Alla ríka á Eskifirði, árið 2002."

 

DV. 27. apríl 2012

"Ekki enn sem komið er, en hver veit, dagurinn er ungur," segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, aðspurður hvort hann hafi sigað lögreglu á iðnaðarmenn sem komu að byggingu rúmlega 600 fermetra einbýlishúss hans við Fagraþing í Kópavogi."

-

DV. 10. des. 2012

"Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þarf að greiða rafverktakanum Elmax 1,1 milljón króna samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í dag.

Málavextir eru þeir að Kári fól Elmax að athuga hvort allar lagnaleiðir fyrir rafmagn væru opnar og óskemmdar í nýbyggingu við Fagraþing 5 í Kópavog í fyrra. Þegar verkinu var lokið gaf Elmax út tvo reikninga vegna vinnunnar sem Kári mótmælti sökum þess að honum fannst Elmax rukka of mikið fyrir vinnuna.

Kári hafði látið matstækni fara leggja mat á vinnuna sem starfsmenn Elmax unnu af hendi og var niðurstað þess mats að heildarkostnaður vinnunnar var 310 þúsund krónur sem Kári greiddi Elmax í apríl á þessu ári og taldi hann það vera fullnaðargreiðslu fyrir vinnunna.

Féllst Elmax ekki á þetta og stefndi því Kára.

Kári var einnig gert að greiða fjögur hundruð þúsund krónur í málskostnað."

-

DV. 19. febr. 2013

"Þetta er mjög einföld deila á milli verktaka og verkkaupa um frágang á verki," segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um dómsmál sem verktakafyrirtækið Fonsi ehf. höfðaði á hendur honum. Fyrirtækið vann að byggingu húss Kára við Fagraþing í Kópavogi og forsvarsmenn þess telja hann skulda sér á annan tug milljóna króna fyrir verkið. Fyrirtaka fór fram í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn föstudag. Lögmaður Kára lagði fram matsgerð unna af dómskvöddum matsmönnum sem á að  sýna á fram á galla og vankanta við húsbygginguna.

Dómsmálið hefur staðið yfir í þó nokkurn tíma og greindi DV frá því í maí á síðasta ári að lögmaður hefði lagt fram greinagerð fyrir dómi. Þar kom fram að Kári teldi sig hafa gert upp við verktakafyrirtækið en hann hefur borgað þeim um 60 milljónir króna fyrir verkið.

Í greinargerðinni kom einnig fram að Kári teldi fyrirtækið skulda sér rúmlega 30 milljónir króna fyrir ofgreiðslu verklauna og galla.

Sigurbjörn Þorbergsson, lögmaður Fonsa, sagði í samtali við DV að ekki hefðu neinar sáttaumleitanir átt sér stað í málinu en nú þegar matið liggi fyrir sé kominn frekari grundvöllur fyrir hugsanlegri sátt.

Önnur fyrirtaka í málinu verður 15. mars næstkomandi og fer aðalmeðferð fram í kjölfarið nema aðilar semji sín á milli.

Töluvert hefur verið fjallað um byggingu hússins sem stefnir í að verða glæsihöll klædd með títani."

Í sama blaði er eftirfarandi gullkorn haft erftir Kára.

"Ég hef átt skrautleg samskipti við iðnaðarmenn, ég viðurkenni það. Enda eru iðnaðarmenn skrautleg stétt almennt," sagði Kári í samtali við DV á síðasta ári."

-

Viðskiptablaðið 1. júlí 2013-07-01

"Þarf að rukka Kára Stefánsson fyrir garðinn í dómsal

Guðmundur Jónsson segir erfitt að rukka Kára Stefánsson. Nær allir hafi þurft að fara í mál sem komu að verki fyrir hann.

"Það er ekki hægt að vinna fyrir Kára öðruvísi en að rukka hann með lögfræðingum," segir Guðmundur Jónsson hjá Torfi túnþökuvinnslu á Hvolsvelli. Hann hefur stefnt Kára Stefánssyni, forstjóra og stofnanda DeCode, vegna vangoldinna reikninga upp á þrjár miljónir króna. Fyrirtæki Guðmundar sá um að tyrfa lóð við nýlegt hús Kára við Fagraþing í Kópavogi. Húsið er engin smásmíði, rúmir 500 fermetrar að stærð og lóðin eftir því.

Bygging hússins hefur ekki gengið vandræðalaust fyrir sig. Árið 2010 stefndi byggingafélagið Eykt Kára vegna 11 milljóna króna viðbótarkostnaðar við byggingu hússins og þurfti rafverktakinn Elmax þurfti að fara með ógreidda kröfu á hendur honum fyrir dóm. Kári tapaði málinu i Héraðsdómi Reykjavíkur en fór þá með það í Héraðsdóm Reykjaness. Þá hótaði Kópavogsbær því að sekta Kára vegna tafa við frágang á lóðinni við húsið árið 2010. Túnþökuvinnslan tók verkið að sér í fyrrahaust. 

Þurfti að vinna verkið aftur

Guðmundur segir í samtali við vb.is farir sínar ekki sléttar. Hann segir fyrirtækið hafa lagt torf á lóðina við hús Kára en hönnuði hússins og lóðarinnar snúist hugur, hann gert breytingar og látið vinna verkið aftur. Guðmundur segir að ætlast hafi verið til þess að verktakinn tæki á sig kostnaðinn við að vinna verkið aftur. 

"Ég kom að þessu verki vegna þess að enginn vildi vinna fyrir Kára, tók ábyrgð á þessu öllu saman og skaffaði menn, efni og vélar og borgaði það. Ég ætlaði aðeins að selja honum torf og við ætluðum að hespa þessari lóð af. Við sömdum um að gera upp vikulega. Síðan dróst það í tvær vikur og þá varð allt vitlaust og ég sit uppi með útlagðan kostnað," segir Guðmundur og rifjar upp að allt sé á sömu bókina lagt í tengslum við byggingu hússins. 

Kári Stefánsson er sáttur við að málið fari fyrir dómstóla. 

"Þetta er bara maður sem bauð í verk. Hann bauð í það ákveðna upphæð. Þegar hann var hálfnaður með verkið þá sendi hann okkur reikning sem var þremur milljónum krónum hærri en sem nam heildarupphæðinni í verkið án þess að fyrir því fyndist nokkur skýring. Ég er ósköp sáttur við það ef hann vill fara með málið fyrir dóm til að skera úr um hvor okkar hefur rétt fyrir sér. Til þess eru dómstólar," segir Kári í samtali við vb.is."

-

Og svo mætti eflaust lengi telja ef menn nenntu að "gúggla" svolítið meira. Til "gamans" má geta þess að hvorki fleiri né færri en fimm byggingarstjórar komið að byggingu hússins og talsvert er eftir enn.



Húsið að neðanverðu

-

Og svo að muna bara, alveg sama hvað hann biður þig fallega; - "ekki skrifa hjá Kára."

24.06.2013 14:43

Söfnun stafrænna bílnúmera

871. Það er ekki öll vitleysan eins, eða ættum við kannski að tala um áráttutengt hegðunarmynstur í tilfellinu sem hér er nefnt til sögunnar? Reyndar myndi það líklega teljast vera af tiltölulega jákvæðum stofni, frekar meinlitlum og ekki líklegt til að raska sálarró þess sem því er haldinn þannig að hann eða hún þyrfti að leita sér aðstoðar. Alla vega meðan það fer ekki meira úr böndunum en þegar er orðið.

-

Fyrir nokkrum misserum sá ég stutt viðtal við sérvitring (rétt eins og mig) á RÚV og man ekki betur en það hafi verið í Kastljósi, en hann sagði frá sérstakri söfunaráráttu sinni. Hún fólst í því að viðkomandi safnaði bílnúmerum (reyndar stafrænt), en hjálpartækið og veiðigræjan sem hann notaðist við, var lítil myndvél sem var ávalt innan seilingar. Viðmælandinn sagðist vera kominn með yfir 200 myndir af bílnúmerum í möppu og virtist hinn hreyknasti af safni sínu. Mér þykir ástæða til að taka það fram að viðkomandi bar ekki með sér að vera þroskaskertur á neinn hátt. Mér þótti hins vegar minna til um þetta safn og var eiginlega svolítið móðgaður, því þá þegar hafði ég stundað sambærilega söfnun um skeið og kominn með miklu, miklu stærra safn og meira að vöxtum en hann.

-

En nóg um slíkt útúrdúratal, mér datt þessi skemmtilega vitleysa í hug einhvern tíma fyrir margt löngu og stundaði þá söfnunina grimmt um skeið. En þar kom að aðstæður breyttust, tímaleysistímabil tók við og mappan með bílnúmerunum "var sett upp á hillu" og gleymdist. Alla vega þar til nú, því á dögunum var ég að taka til í tölvunni og rakst þá á umrætt. safn. Á sínum tíma var ekki endilega mikiö lagt upp úr myndgæðum, því oft var mynd smellt af þegar stöðvað var á rauðu ljósi og ekki þótti ástæða til að mynda númer sem voru ekkert skemmtileg. En það voru líka dæmi um að bílar voru eltir þar til þeir komust í gott færi og stundum voru slíkir leiðangrar lengri en góðu hófi gegndi og skynsemin jafnvel ekki alltaf höfð með í ráðum. Ég man eftir að ég elti "OZZY" á sínum tíma frá Hafnarfirði og lengst inn í Grafarvog. Þar lagði bílstjórinn í stæði (líklega heima hjá sér) en ég beið eftir að hann færi af svæðinu og laumaðist þá að bílunum með myndavélina á lofti.

-

Hér að neðan eru nokkur sýnishorn úr safninu.





















































































Og svo mætti lengi telja...


13.06.2013 09:21

Og fleiri tveggja hæða


870. Og fyrst við erum farin að tala um tveggja hæða strætó á annað borð, er viðbót sem mér finnst reyndar svolítið merkileg. Hopparinn sem segir frá í blogginu hér að neðan, á sína heimahöfn á planinu hjá Kynnisferðum í Vesturvörinni í Kópavogi þó hann sé staðsettur við BSÍ sumarlangt. Við sömu götu og örskammt frá, á einnig heima þessa vígalegi tveggja hæða strætó sem er svo kyrfilega merktur Tal. En ég hef reyndar aldrei séð hann á ferðinni þrátt fyrir að útlitið bendi ekki til þess að hann sé úr sér genginn eða aflagður.



Örlítið lengra frá og einnig við Vesturvörina í Kópavogi, má svo berja þennan tveggja hæða strætó augum. Á bláa borðanum á hliðinni hefur staðið "ER EKKI LÍFIÐ DÁSAMLEGT", en eitthvað er sú merking farin að láta á sjá og kannski hefur líka líf þessa ökutækis verið dásamlegra einhvern tíma á árum áður. Framan á honum ofan til sést móta fyrir merkingu sem hefur verið fjarlægð, en þar hefur staðið; "Veislu Miðlun Árskógssandi". Mér var sagt að hann hafi um tíma verið gerður út frá þeim stað sem einhvers konar partýbíll fyrir hópa af ýmsum stærðum og gerðum og veitingar þá verið seldar um borð, en þær upplýsingar eru þó allar frekar óljósar. Og þrátt fyrir að vera á númerum, hef ég aldrei séð neina hreyfingu á bílnum frekar en Tal strætónum og ef rýnt er í myndina og hún stækkuð verulega, má sjá að hann er með 2012 skoðun.
-
Og þar sem "Hoppararnir" eru tveir, hafa alls fjórir tveggja hæða strætóar aðsetur sitt við Vesturvörina í Kópavogi, og það af alls fjórum slíkum sem ég veit um á landinu öllu.

09.06.2013 03:21

Hopparinn

869. Í síðasta mánuði var ég ræstur út frekar fyrirvaralítið á stutta aukavakt hjá Strætó, sem gerist endrum og sinnum og er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Ástæðan var sú að vinnufélagi minn Dylan, (hinn viðkunnanlegi Englendingur sem gerðist Íslendingur fyrir mörgum árum) var eiginlega pantaður á "Hopparann" af hópi ferðamanna. Og hvað er nú "Hopparinn" kynni einhver að spyrja. Jú, það skemmtilega fyrirbæri er tveggja hæða strætisvagn sem ekur með erlenda ferðamenn um Reykjavík sem fá í leiðinni svolitla sögu og fróðleiksmola í eyra um merka staði sem ekið er fram hjá, ásamt öðru góðmeti í formi ýmis konar upplýsinga um land og þjóð. Kerfið sem notast er við býður upp á að neytandinn (í þessu tilfelli farþeginn) geti valið milli m.a. ensku, frönsku, þýsku, spænsku og íslensku í headphones. Verulega sniðugt, ákaflega túristavænt og hið ágætasta framtak í alla staði hjá Kynnisferðum sem gera þessa vagna út og er reyndar það fyrirtæki sem ég starfa hjá um þessar mundir. - En nóg um það.

Ég ók sem sagt strætó (leið 28) fyrir Dylan sem skrapp yfir á "Hopparann", en þegar ég var staddur á stoppistöðinni í Mjódd, var hringt í mig.

"Endar þú ekki vaktina í Hamraborg"?

"Jú" svaraði ég.

"Og er ekki bíllinn þinn í Vesturvörinni"?

"Jú" svaraði ég aftur.

"Á ég ekki að skutla þér af því að ég á leið um báða staði í réttri röð og á sama tíma"?

"Jú takk," og þar með kom þriðja júið.

"Okay, ég verð þarna í stæðinu, þú kemst ekki hjá því að sjá mig."

Það var Dylan sem hringdi.



Og það reyndist rétt vera, ég gat alls ekki komist hjá því að sjá hann.



Og Dylan, hinn geðþekki enski íslendingur sat við stýrið og beið eftir eina farþeganum sem var væntanlegur í þessa ferð.



Ég varð auðvitað að skoða gripinn í leiðinni. Ég hafði ekki komið inn í tveggja hæða strætó síðan á því herrans ári 1984 sem túristi til London. Ég rölti upp hringstigann sem liggur upp á efri hæðina og tók mynd aftur eftir bílnum.



Ég gekk aftur eftir vagninum á efri hæðinni, settist í aftasta bekk og tók aðra mynd í átt til framendans. Hér var sko lágt undir loft, en allt etthvað svo undarlega útlenskt eða þannig...


                             

Svona lítur hringstiginn milli hæða út. Ég fæ það óneitanlega svolítið á tilfinninguna að ég sé að fara niður í ósamþykkt rými í kjallara eða upp á háaloft sem væri að mestu undir súð, í einhverri borulegri smáíbúð á hundraðogeinum svæðinu sem var einhvern tíma útbúin úr aukaherbergi og geymslunni í sameigninni fyrir hinn vaxandi leigumarkað, svona rétt til að drýgja tekjurnar örlítið.



Ökumaður notast við ákaflega frumstætt speglakerfi til að fylgjast með því sem gerist á efri hæðinni, þó það byggi reyndar á sömu grunnhugmynd og þeirri sem notast var við í sjónpípum þýsku kafbátanna í seinni heimstyrjöldinni þegar þeir gægðust upp fyrir sjávarborðið án þess þó að koma úr kafi.



Þetta er óneitanlega svolítið gamaldags. Sjáiði bara mælaborðið...!



En það sem kom mér svo rækilega á óvart var að allar áletranir inni í vagninum eru á þýsku, og ég sem hélt að tveggja hæða strætisvagnar væru svo innilega gegnum breskir í húð og hár eða kannski frekar grind og boddý og heimaborg þeirra langflestra væri London. En nú veit ég að svo er ekki, því þessi er alveg rammþýskur, er af gerðinni "Man", ók um götur Berlínar áður en hann fluttist á skerið og hefur aldrei til Englands komið.

Ég vil endilega hvetja sem flesta (og þá meina ég íslendinga) til að kynna sér, já og  taka sér far á góðum degi með svona vagni svo sem eins og einn hring, sem mun örugglega reynast flestum bæði fróðlegur og bráðskemmtilegur í senn. Svo er auðvitað ekki spurning um að ef erlenda gesti ber að garði, þá býður "Hopparinn" upp á svar við mörgum spurningum auk þess að vera í leiðinni hin skemmtilegasta afþeying og óvænt og skemmtileg upplifun í alla staði. Og fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar, er slóðin http://www.re.is/CitySightseeing/ 


Og það er eitthvað við þessa bíla hvar sem þeir eru í heiminum...

01.06.2013 09:06

Siggi Konn

868. Ég átti leið um miðbæ Reykjavíkur í gær (föstudag) og rakst þá á sjálfan Sigga Konn fyrir utan Tollhúsið, en í því húsi hefur hann starfað sem húsvörður lengst af frá því að hann flutti suður. Við tókum tal saman og hann sagði mér að hann væri að reyna að finna heppilegt stæði fyrir hann Magga múr þar sem yrði friður fyrir stöðumælavörðunum, en Maggi var að vinna að viðhaldi innan dyra.

"Þú þekkir Magga er það ekki"? spurði Siggi. 

"Hann er að norðan" bætti hann við.

Ég vissi auðvitað að það voru talsverðar líkur á að svo hlyti að vera.

"Það er nú það, og hverra manna er hann Maggi" spurði ég þá á móti."

"Hann er sonur hennar Gunnu í sjoppunni" svaraði Siggi og brosti sínu breiðasta.

Þar vissum við það og ég fékk í framhaldinu að skjóta nokkrum myndum að húsverðinum, svona rétt til að sýna þeim sem til þekkja að maðurinn hefur ekkert breyst í einhverja áratugi...









19.05.2013 09:57

Siglufjarðarskarð, einn apar eða tveir og uppákoma í Bauhaus



867 Ég á það til að kíkja annað veifið inn á bland.is og skoða hvað er helst að sjá og finna á þeim magnaða auglýsingavef. Núna síðast sá ég eftirfarandi auglýsingu sem vakti að sjálfsögðu athygli mina.

"Fallegt olíumálverk c.a. 100X80 cm. til sölu. Verð: 100.000 kr. Þeir sem hafa áhuga hafið samband í síma: 695-2134 eða hér á blandinu".

Alltaf flottur hann Ragnar Páll, og ekki fyrir nema hundraðþúsundkall, - ekki nokkur spurning.




Um nýliðin mánaðarmót þurfti ég að flytja talsvert magn af ýmis konar smádóti milli staða og notaði auðvitað til þess Micruna sem þekkt að því að vera stærri að innan en að utan. Þegar skottið og aftursætið var orðið fullt, átti ég eftir að koma fyrir litlum pappakassa og tuskuapanum sem sést á myndinni hér að ofan. Ég setti kassann í framsætið og lét apann ofan á, og því sat apinn nokkuð hátt í sætinu. Við svo búið lagði ég af stað.

Fátt bar til tíðinda til að byrja með, ég ók frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, setti Bítladisk í spilarann og hækkaði vel í. Ég stðvaði við rautt ljós á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, og þar sem þetta var snemma á sunnudagsmorgni var fátt folk á ferli. Þó sá ég út undan mér hvar hvítur skutbíll nálgaðist og stöðvaðist við hliðina á mér. Eftir skamma stund varð ég þess var að einhver hreyfing var inni í bílnum og ég leit upp. Í farþegasætinu fram í sat kona sem baðaði út höndunum og mér sýndis hún bókstaflega vera að ærast úr hlátri. Ég horfði undrandi á hana og gat með engu móti skilið hvað var svona fyndið, en hún tók þá bakföll og virtist vera við að ærast úr hlátri. Ég gat ekki betur séð en tárin væru farin að trítla niður kinnar hennar og hún sló út vinstri hendinni í bringu mannsins sem sat undir stýri og sagði eitthvað um leið og hún benti á mig. Hann teygði álkuna yfir til hennar og ég sá hvernig steinrunnið og fýlulegt andlit hans umhverfðist í einhvern óreglulega hringlaga flöt, sem sýndi væg krampaeinkenni og varð á stuttum tíma alveg eldrauður. Þau réru fram og aftur í sætum sínum, pötuði höndunum í átt til mín og skemmtu sér greinilega hið besta. Hvað ætli sé eiginlega að þessu fólki?

Þá mundi ég eftir fjárans apanum.



Það var líka fyrir nokkrum dögum síðan að manni nokkrum varð laus höndin í byggingarvöruversluninni Bauhaus. Ekki þó með þeim hætti að hann veittist að neinu öðru fólki sem þarna var statt, heldur réðist hann að brunaboða þeirrar gerðar sem er svo algeng á slíkum stöðum, þ.e. rofa sem er inni í litlum kassa með gleri yfir og er tengdur bjöllu. Maðurinn braut glerið og ýtti á rofann. Ekki var þó neinn eldur laus og ekki er vitað hvað manninum gekk til með háttalaginu. En þá fór ferli í gang sem erfiðara reyndist að stöðva en koma af stað. Bjallan glumdi og sjálfvirkt aðvörunarkerfi fór í gang og svolítið tölvuleg karlmannsrödd leiðbeindi viðskiptavinum samkvæmt forritaðri áætlun nokkurn vegin á eftirfarandi leið.

"Viðskiptavinir athugið; það er eldur laus í byggingunni.  Skiljið eftir kerrurnar og fylgið leiðbeiningum starfsmanna ."

Fólk staldraði við, horfði forviða í kring um sig og hélt síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. Enginn sýndi þess merki að til stæði að hætta við verslunarleiðangurinn, hvað þá að fara eitthvað að flýta sér út.

Önnur rödd heyrðist þá í hátalarakerfinu sem var greinilega að reyna að ná sambandi við starfsmann.

"Logi er beðinn að svara í símann".

Fljótlega uppgötvaðist þó að enginn eldur var neins staðar laus, en illa gekk að stöðva tölvuröddina og hélt hún lengi áfram að aðvara viðskiptavini milli þess sem leitað var logandi ljósi að honum Loga sem virtist vera ákaflega seinn til svars.

28.04.2013 09:24

Þór og vagninn hans


866. Í hinum norrænu goðafræðum er þrumuguðinn Þór sem einnig er kallaður Ása-Þór eða Öku-Þór, sagður eiga nokkra dýrgripi sem einkenna hann. Fyrst má nefna vagn sem hann ferðaðist á, en hann var dreginn af tveimur höfrum sem hétu Tanngrisnir og Tanngnjóstur. Á ferðum sínum hafði Þór þá oft til kvöldverðar, en safnaði svo beinum þeirra saman eftir matinn og vígði þá síðan til lífs á ný með hamri sínum. Vagninum ók hann um himininn og það fylgdu honum þá bæði þrumur og eldingar.

-

Ekki veit ég hvort verk það sem myndin er hér að ofan hefur verið orðið fyrir niðurskurðarhníf Jóhönnu Sig. og Steingríms J., en ég fæ ekki betur séð að hafurinn sé nú aðeins einn. Það er svo annað mál að það vekur örugglega eftirtekt þeirra sem fram hjá fara og hefur eflaust einnig alla burði til að lífga upp á umhverfið þar sem mér þykir líklegt að því verði komið fyrir.

Og eins og einnig má sjá, þá stendur það við vélaverkstæði í Hafnarfirði á vagni sem merktur er "Straumsvík" sem hlýtur því að gefa ákveðna vísbendingu um hver gæti tengst gerð þess, og miðað við áferð þess gæti það vel verið gert úr áli.


21.04.2013 08:24

Til hamingju Ásdís María


865. Hún Ásdís María Viðarsdóttir fór með sigur af hólmi í Söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi ásamt Oddi Inga Kristjánssyni, en þau kepptu fyrir MH. Þannig heyrði ég fréttina í útvarpinu í gærkvöldi, en var ekki alveg viss um að ég hafi heyrt rétt. Ég kveikti því á sjónvarpinu, notaði "I"  takkann til að galdra keppnina upp á skjáinn, og viti menn; þarna mátti sjá svo að ekki varð um villst að ég hafði heyrt rétt. Ásdís söng lagið Pink matter eftir Frank Ocean sem mér finnst reyndar ákaflega skrýtið lag og alls ekki það árennilegasta fyrir söngkonur sem eru að feta sín fyrstu spor.

-

Um Ásdísi er það að segja að hún vinnur með skólanum í Spúútnik í Kringlunni, en föt og fatatíska virðist tengjast genunum rétt eins og tónlistin, því Anna Sóley systir hennar rekur fataverslun við Stefansgade í Kóngsins Köben ásamt vinkonu sinni sem er fatahönnuður. Þá er ekki hægt annað en að minnast á bróðir hennar Arnar Inga Viðarsson sem spilaði með hljómsveitinni Moðhaus í músiktilraunum með ágætum árangri hérna um árið. Eftir nám í Tónlistarskóla FÍH þótti hann með efnilegri trommurum og er það reyndar enn, en undanfarið hefur hann verið við nám í Barcelona í grafískri hönnun. Ég prófaði að gúggla hann að gamni mínu og fékk 8.660 "results" sem segir auðvitað heilmikið.

En ástæðan fyrir þessum skrifum mínum um hana Ásdísi er að hún er frænka mín sem ég er ákaflega stoltur af. Reyndar er hún og hefur alltaf verið mjög mikil og góð frænka, dóttir Sæunnar systur minnar og Viðars Daníelssonar sem er Eyfirðingur innan "Akureyris". Um hana verður ekki annað sagt en að hún hefur alltaf verið uppátækjasöm, með ólíkindum ákveðin og stendur alltaf fast á sínu, hugmyndarík, listfeng, og svo mætti lengi telja og allt í plús. Hún hefur verið í tónlistrnámi um margra ára skeið, spilar m.a. á Celló og kassagítar, en hefur ofan á þetta allt saman englarödd sem á það þó til að breytast í eitthvað allt, allt annað og öðruvísi eins og kom svo glöggt fram í nýafstaðinni keppni.

Hún hljómaði eiginlega rétt eins og íslenska veðrið á umhleypingasömum degi.

-

Ásdís María, - rosalega er ég góður með mig núna fyrir að vera frændi þinn.

18.04.2013 01:36

Í Skarðdalsskógi



864. Þegar ég staldraði við á Siglufirði um páskana, datt mér í hug að kíkja inn í skógrækt sem ég vil þó eftir að trén hafa stækkað og meira land lagt undir, kalla Skarðdalsskóg sem er talsvert virðulegri nafngift. 
Heitir hann það kannski í dag? 



Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan ég var að bora græðlingum niður í jörðina á þessum slóðum, aðeins innan við fermingu og undir handleiðslu Jóhanns Þorvaldssonar og gaman að sjá hvað áunnist hefur. Þökk sé þeim framsýna manni sem fékk ekkert allt of mikið þakklæti á sínum tíma. 



Það er ekki mikil umferð manna í skóginum núna, aðeins ein spor liggja frá hliðinu og upp að Leyningsfossi.




Leyningsfoss er auðvitað í klakaböndum þessa dagana...



...og hann er ekkert síður flottur í vetrarbúningnum.



En rebbi hefur greinilega verið meira á ferðinni en mannfólkið í þessari náttúruparadís, því það voru alls staðar slóðir eftir hann. 

06.04.2013 02:34

Nokkrar myndir frá Bítlamessu




863. Það var mikið stuð í Bátahúsi og ánægjulegt að sjá hvað gömlu bítlalögin áttu greiða leið að huga og hjörtum viðstaddra. Slíkt fer ekkert á milli mála þegar virðulegir borgarar á enn virðulegri aldri, þekktir að hlæglæti og yfirvegun, standa upp og stappa og klappa í takt, syngja með og taka létt dansspor í kring um stólana á bryggjunni. Ég vil þakka þeim sem heiðruðu okkur með nærveru sinni fyrir komuna og einnig samstarfsaðilunum sem voru okkur hjálplegir um eitt og annað sem laut að undirbúningi; Vörumerking, Siglósport, Litróf, Egils síld og Ali.  




Birgir trommari og frændi hans Sindri Helgason koma fyrir myndvarpanum sem gegndi óvenju veigamiklu hlutverki á tónleikunum.



Og Bítla"strákarnir" voru þarna mættir, bæði á tjaldi og á dekki.



Danni sem var einn af róturunum kannar hvaða myndefni verður boðið upp á.



Gulli (Leósson og líka rótari) grípur í gítarinn eftir að hafa tekið þátt í að bera hljóðfærin inn, en hann kann alveg fullt af gripum og skemmtilegum lykkum.



Hann klifraði líka upp í möstrin til að festa stögin sem héldu tjaldinu, enda liðugur eins og apaköttur.



Ég (skreyttur marsmottu í ýmsum tónum haustlitaskalans) klifraði ekki neitt, en hélt mig sem fastast við jörðina, bryggjuna eða bátadekkið. Hér þurfti að festa tunnuna vel og vandlega sem myndvarpinn sat á.



Birgir var ekki lengi að koma gamla Ludwig settinu sem hann keypti á sínum tíma fyrir fermingarpeningana sína í stand, enda hefur hann gert það nokkur hundruð sinnum í gegn um tíðina.



Grímur mundar gítarinn, en þessi ágæti gítarleikari og tónlistarlegi reynslubolti spilaði með Ingimar Eydal síðustu árin og síðar með Ragga Bjarna eftir að hann flutti suður.



Hann var líka sérlegur tengingameistar...



...og mixermaður.




Ari og Magnús líta yfir dekkið. Allt er komið á sinn stað á mettíma og kominn tími á soundtest.



Magnús var með pínulítinn bassamagnara sem var síðan "línaður" inn á kerfið, en það var splunkunýtt og þarna að þreyta sína "jómfrúartónleika".



Ari laumaðist í hljómborðið og jú, það heyrðist alveg fullt, fullt af hljóði. Ari var hins vegar upphaflega fyrst og fremst trommuleikari og aðalsöngvari gullaldarhljómsveitarinnar Roof Tops. Hann sest nú orðið ekki eins oft við settið og áður, en kemur oftast fram sem söngvari enda firnagóður og hefur vaxið sem slíkur með árunum. Hann er líka mjög liðtækur munnhörpuleikari sem kom sér vel í bítlalögunum.



Og það er talið í, myndskreyttir textar laganna í blómabarnastíl birtast jafn óðum á tjaldinu og áheyrendur syngja með.



Fram yfir hlé voru gömlu lögin frá fyrri hluta ferils Bítlanna alls ráðandi 



Svo kom hlé og (bakara)meistari Jakob bauð upp á kaffi og ástarpunga, en það reyndist ekki unnt að fá leyfi til veitingu sterkari veiga en kaffis á þessum svo mjög heilaga degi. Það kom þó ekki í veg fyrir að margir gestanna hefðu með sér nesti, rétt eins og gert var á sveitaböllunum í denn.



Minný (Leósdóttir) sem var líka ein af róturunum aðstoðaði bakarann í hléinu.



Svo var haldið áfram...



...og boðið upp á bítlaepli á tjaldi.



Þegar á leið var farið að syngja og spila síðari tíma verkin þar sem hippar og blóm, ýmis konar "snefilefni" og indverskur gúrú settu mark sitt á tónlist Bítlanna.



Eftir rúma tvo tíma lauk svo tónleikunum og þá var farið að pakka saman. Hákon, Minný og Ásgeir Rúnar voru mjög liðtæk þegar koma að hljóðværaburði og síðar frágangi stóla og bekkja.



Það átti líka við um þær Gullu og Birnu Dís, en sú síðari rataði því miður aldrei inn á myndflötinn hjá Danna sem sá að mestu um að "dokjúmenta" atburði kvöldsins.



Það er alltaf svolítill handleggur að koma stólum og bekkjum á sinn stað, bæði fyrir og á eftir. Hér sýnist mér Aníta og Hákon vera að rogast með einn bekkinn eftir bryggjunni.



(Gulli Aníta og Danni).
Og eins og alltaf, þá kemur fyrr eða síðar að kveðjustundi. Við þökkum aðstandendum hins stórkostlega Bátahúss og Síldarminjasafns fyrir ánægjulega samvinnu.

28.03.2013 04:45

Meira um Bítlamessu



862. Það er kominn skírdagur og tími Bítlamessunnar nálgast. Aðstandendur hennar eru að tygja sig til norðurferðar og fregnir berast af því að forsala aðgöngumiða hefur tekið góðan kipp í gær og í fyrradag. Veðurspáin verður varla mikið hagfelldari og flest bendir til þess að bæði burtfluttir og nærsveitungar fjölmenni á staðinn, bæði skíðafólk og aðrir. Líklega verða einhverjir líka til þess að flýja umferðaröngþveitið í Hlíðarfjalli eins og dæmi eru til og færa sig um set. Þá er Skarðsdalurinn án nokkurs vafa langbesti og skynsamlegasti kosturinn. Það verður bæði gott og gaman að koma á heimaslóðir eins og alltaf.

-

En nokkur orð um Bítlana svona í leiðinni.

Þeir voru tíðir gestir á sjöunda áratugnum í óskalagaþáttum Ríkisútvarpsins og þá gjarnan nefndir Bresku bítlarnir til aðgreiningar frá hinni Keflvísku bítlahljómsveit Hljómum. Reyndar voru líka til Bravó Bítlar frá Akureyri sem unnu sér það til frægðar að hita upp fyrir Kinks í Austurbæjarbíói árið 1965, þá aðeins 12-13 ára gamlir. Þeir spiluðu líka á einum tónleikum hérna á Siglufirði, - líklega hafísárið 1965. Eftir þá tónleika biðu siglfirsku stelpurnar í röðum til að fá þá til að skrifa á handleggina á sér sem var eitthvað alveg nýtt og hefði aldrei komið til tals hjá heitustu dægurlagastjörnum þess tíma eins og Alfreð Clausen, Skapta Ólafs, Ragga Bjarna, Hauki Mortens og fleirum og fleirum. 

Og svo skulum við ekki gleyma Báu bítlunum sem æfðu uppi í risi í Æskó hér norður á Sigló, en það band sem varð því miður allt of skammlíft var skipað þeim. og haldið ykkur nú fast, - Friðfinni Haukssyni, Sigurði Blöndal, Bjössi Sveins og Róberti nokkrum Guðfinnssyni. Halli Gunni staldraði þar við um tíma, en strákarnir urðu að láta hann fara því hann kunni allt of mörg lög. Biggi Inga, sá sami og mun sitja við settið í Bátahúsi á morgun, mun einnig hafa komið lítillega við sögu í Bláu bítlunum undir það síðasta og Robbi þá gerst umboðsmaður sveitarinnar. Mér skilst að í þarna á Æskóárunum hafi orðið þau umskipti að Róbert Guðfinnsson hafi bæði hafið og lokið sínum tónlistarferli, en snúið sér að bissnessþættinum. Þetta mun hafa verið 1968 eða 69.

-

Nokkru áður eða um áramótin 1963-64 náðu Bítlarinr þeim áfanga að koma lagi í fyrsta sæti í Bandarríkjunum, en framan af hafði Ameríka svo gott sem hafnað bítlunum. Þeir þóttu rustalegir og ódannaðir, lögin þeirra kannski allt í lagi lesin af nótum, en textarnir allt að því dónalegir, eða í það minnsta allt of tvíræðir. Capitol sem hafði gert samning um útgáfu á bítlaefni í henni Ameríku, harðneitaði að dreifa efni þessarra bresku göndlarokkara til hinnar sakausu amerísku æsku. Sagan segir að umboðsmaðurinn Brian Epstein hafi hvatt John og Paul til að semja lag sem höfðaði sérstaklega til unga fólksins vestan hafs. Hún segir líka að þeir hafi orðið við því og útkoman hafi verið smáskífulagið I want to hold yur hand. En George Martin upptökustjóri þeirra segir hins vegar að sagan sé í raun tómt kjaftæði, en burtséð frá því þá stökk lagið nánast beinustu leið í fyrsta sæti í Ameríku og sat þar í sjö vikur.

Ýmislegt hefur eflaust haft áhrif og enn einu sinni hafa Bítlarnir eflaust verið á réttum stað á réttum tíma.

Hinn írskættaði John F. Kennedy hafði þá nýlega verið myrtur í Dallas í Texas og bandarríska þjóðin var enn í djúpum sárum eftir þá atburði. Forfeður hans höfðu flutt frá landinu hinum megin við Írlandshafið en austan þess stendur einmitt Liverpool fæðingarborg Bítlanna. Það mátti þess vegna með góðum vilja finna augljós tengsl milli Kennedy´s og Bítlanna.

I want to hold your hand var því eins og útrétt og sálargræðandi hönd huggunar yfir Atlandsála, vottur um samstöðu og hluttekningu, en í leiðinni ósk um styrk til handa bandarísku þjóðinni til að láta ekki bugast og halda ótrauð áfram.

Vestan hafs komu þeir fram í þætti Ed Sullivans og gerðu eins og fyrir þá var lagt, þ.e. að haga sér vel og halda sakleysislegri ímynd sinni barnslegri og hreinni. Sagt er að Ed hafi verið mjög kvíðinn fyrir þáttinn, en varpað öndinn léttar að honum loknum og sagt í heyranda hljóði að þeir væru sennilega ekki eins rosalegir og músikin gæfi til kynna þessir Bítlar. Þetta væru sætir, vel klæddir strákar sem sungu saklausa texta um þrá ungra manna um að fá að smeygja hönd sinni í lófa elskunnar sinnar og annað ekki.

Smáskífan seldist að meðaltali í 10.000 eintökum á klukkustund í New York City eingöngu þær sjö vikur sem hún var í efsta sæti Billboard og eftirleiðis stóðu bítlunum flestar dyr opnar upp á gátt vestra. Hver ætli summan sé af þeirri upphæð sé í íslenskum krónum að viðbættum verðbótum frá árslokum 1963?

-

En sjáumst við ekki bara í Bátahúsinu á föstudagskvöldið?

18.03.2013 09:07

Bítl í Bátahúsi



861. Það er mikið að gerast þessa dagana, því undirbúningur og æfingar standa nú sem hæst vegna fyrirhugaðs tónleikahalds í Bátahúsi um páskana. Og það á að fara svolítið óhefðbundnar miðlunarleiðir ef þannig mætti komast að orði, því hugmyndin er að tvinna saman hljóð og mynd þannig og áheyrendur verði samtímis einnig áhorfendur. Skilningarvit gestanna fá því væntanlega úr nægu að moða meðan á tónleikunum stendur. Verið er að safna saman bítlatengdum fróðleiksmolum, vinna að ýmis konar kynningarefni svo og að grafíkinni sem nota skal vegna myndasýningarinnar, ásamt því að afla myndefnis héðan og þaðan - einnig vegna hennar, og svo auðvitað að æfa öll flottu bítlalögin. Þá má einnig nefna að einnig er staðið í talsverðum fjárfestingum um þessar mundir, því það er verið að kaupa splunkunýtt hljóðkerfi svo bæði tal og tónar komist til skila eins og best verður á kosið. 

Þetta verður vafalaust bæði gaman og skemmtilegt, - en nánar um málið einhvern allra næstu daga.

08.03.2013 21:19

Gluggað í gömul blöð

860. Það getur oft verið meira en lítið gaman að kíkja í gömul blöð frá löngu liðnum árum, rifja upp næstum gleymdar stundir, draga nokkur nöfn fram úr þoku fortíðarinnar og minnast staða sem einu sinni voru þeir langsamlega heitustu. Sé flett upp á bls. 25 laugardaginn 1. maí, árið 1965 í Morgunblaðinu, getur að líta fimm auglýsingar þar sem nokkrar af vinsælustu hljómsveitum þess tíma leika á dansleikjum. Eftir að hafa rennt yfir síðuna sá ég mér til mikillar furðu en einnig talsverðrar ánægju, að þær eiga það allar sameiginlegt að tengjast Siglufirði með einhverjum hætti, reyndar bæði mjög misjöfnum og líklega mætti einnig segja mismiklum.



Haukur Mortens sótti konuefnið sitt Ragnheiði Magnúsdóttur til Siglufjarðar.



Guðjón Pálsson kenndi um tíma í Tónlistarskóla Siglufjarðar. Það mun hafa verið í kring um 1980



Hallvarður S. Óskarsson (Garíbalda) var um tíma trommuleikari í Lúdó sextet þó svo að hann hafi ekki verið orðinn það á þeim tíma sem hér er vísað til.



Karl Lilliendahl var eiginmaður Hermínu dóttir Jónasar rakara og reyndar líka faðir Krístínar Lilliendahl sem söng "Ég skal mála allan heiminn elsku mamma" árið 1972 og þá í leiðinni afi Grétu Salóme Júróvisjónfara.

Hallvarður var líka trommuleikari hjá Gretti Björnssyni um nokkurra ára skeið.

Það má svo láta þess getið að Hjördís Geirs er móðir stórsöngkonunnar Heru Bjarkar þó að það sé nú allt annað mál og sú tenging við Siglufjörð e.t.v. svolítið langsótt.



Alli Rúts er svo hálfbróðir Hannesar Rúts sem lengi bjó á Siglufirði og á líklega enn íbúð í Norðurgötunni, og einnig hálfbróðir Huldu Friðgeirs (kona Gests Hansa) sem á heima á Hverfisgötunni.

19.02.2013 09:55

Spurningakeppnir fyrr og nú



859. Þessa stórskemmtilegu uppsetningu má sjá á vefnum siglfirdingur.is. Hér er vissulega stórt spurt, en svarið fæst þó ekki fyrr en með vorinu. Eins og fram kemur stendur fyrir dyrum að halda spurningakeppni átthagafélaga sem rekja rætur sínar til margra og merkra staða víðs vegar um landið og án nokkurs vafa verður hún hin skemmtilegasta. Félögin sem taka þátt í keppninni eru: Árnesingafélagið, Átthagafélag Héraðsmanna, Átthagafélag Sléttuhrepps, Átthagafélag Strandamanna, Barðstrendingafélagið, Breiðfirðingafélagið, Dýrfirðingafélagið, Félag Djúpmanna, Húnvetningafélagið, Norðfirðingafélagið, Siglfirðingafélagið, Skaftfellingafélagið, Stokkseyringafélagið, Súgfirðingafélagið, Vestfirðingafélagið og Önfirðingafélagið. Keppnin sem verður haldin í Breiðfirðingabúð, hefst 28. febrúar og lýkur á síðasta vetrardag. 

-

En spurningin sem borin er fram getur þó varla talist út í hött þegar að er gáð og litið til fortíðar, því fordæmi eru fyrir því að Siglfirðingar hafi í raun stimplað sig inn sem mestu gáfumenn landsins. Það gerðist veturinn 1964-65 í geysivinsælum útvarpsþáttum sem útvarpað var á sunnudagskvöldum og nefndust "Kaupstaðirnir keppa". Birgir Ísleifur Gunnarsson og Guðni Þórðarson stjórnuðu þáttunum og leikarinn góðkunni Gunnar Eyjólfsson var kynnir. Keppnin var útsláttarkeppni og kepptu kaupstaðirnir þeirri röð sem hér segir:

18. nóv. 1964 Hafnarfjörður og Kópavogur.

29. nóv. 1964  Neskaupstaður og Seyðisfjörður.

13. des. 1964 Keflavík og Vestmannaeyjar. 

03. jan . 1965 Húsavík og Siglufjörður.

17. jan. 1965 Akranes og ísafjörður.

31. jan. 1965 Akureyri og Reykjavík.

14. febr. 1965 Hafnarfjörður og Neskaupstaður.

28. febr. 1965 Ísafjörður og Vestmannaeyjar.

14. mars 1965 Akureyri og Siglufjörður.

28. mars. 1965 : Hafnarfjörður og Vestmannaeyjar.

11. apríl. 1965 Sauðárkrókur og  Siglufjörður.

-

Þann 2. maí 1965 kl. 20.45 var svo komið að úrslitakeppninni milli Hafnfirðinga sem sigrað höfðu lið Vestmannaeyja og Siglfirðinga sem borið höfðu Sauðkræklinga ofurliði. Þar höfðu Siglfirðingar betur og sá sem þetta ritar gleymir ekki hinni rafmögnuðu spennu sem ríkti meðal bæjarbúa, enda orðinn næstum tíu ára og eyrun límdust hreinlega við útvarpið þegar þættinum var útvarpað.


Hið magnaða sigurlið Siglfirðinga: Frá vinstri eru Pétur Gautur Kristjánsson fulltrúi sýslumanns, Benedikt Sigurðsson kennari og Hlöðver Sigurðsson skólastjóri. Sérstaka athygli vekur auðvitað pípa Péturs sem hann skildi nánast aldrei við sig, en á þessum tíma þótti ekkert tiltökumál að reykt væri nánast hvar sem var. Í aðdraganda keppninnar er sagt að maður nokkur hafa átt erindi við Pétur á heimili hans. Hann fannst hvergi í fyrstu, en að lokum uppgötvaðist verustaður hans með þeim hætti að reykur sást liðast upp fyrir brúnina á risastórum bókastafla sem hann var á bak við. Mun þá Pétur hafa verið að undirbúa sig fyrir keppnina.

(Ljósmynd Steingrímur)


Í kjölfarið fylltust bæjarbúar auðvitað stolti yfir hinum frábæra árangri sinna manna og liðsmennirnir sem staðið höfðu sig svo vel, voru auðvitað ekkert annað en hetjur í augum þeirra sem heima sátu og hlustuðu spenntir á viðureignina. Þegar þarna var komið sögu hafði Benedikt kennt mér heila þrjá vetur í Barnaskóla Siglufjarðar og ég hafði alla tíð litið mjög upp til hans sem kennara, en eftir þetta breyttist hann í huga mér í eins konar hálfguð og vitsmunaveru sem var af einhverju allt öðru kalíberi en venjulegt gat talist. Auðvitað voru hinir keppendurnir settir í sama flokk, en Benedikt var sá eini þeirra sem ég þekkti vorið 1965. Það átti svo eftir að breytast í 12 ára bekknum þegar Hlöðver kenndi okkur krökkunum og við bárum svolítið óttablandna virðingu annars vegar fyrir honum sem skólastjóra og hins vegar fyrir gáfumanninum úr sigurliðinu.

-

Mogginn sagði svo frá þ. 14. maí 1965

Á SUNNUDAGSKVÖLD, 2. maí, lauk vinsælasta skemmtiþætti vetrarins: "Kaupstaðirnir keppa". Sigruðu þá Siglfirðingar Hafnfirðinga og urðu þar með sigurvegarar í þessari keppni og hljóta í verðlaun ókeypis flugfar til og frá Höfn, svo og uppihald þar í nokkra daga. Þessi kaupstaðakeppni er ein snjallasta hugdetta, sem þeir hafa fengið árum saman, útvarpsmenn. Hún hefur áreíðanlega glætt áhuga á útvarpinu vítt og breitt um landið, einkum meðal yngra fólks. Má þó segja, að efnið hæfði öllum aldursflokkum, sem útvarpsefni.

Ingvar Gí

-

Þjóðviljinn sagði líka frá úrslitunum sem var auðvitað ekkert undarlegt, því það má jafnvel halda því fram með ágætum rökum að hann hafi á vissan hátt átt sína fulltrúa í sigurliðinu.


                              

                              

Þjóðviljinn gerir þarna Pétur Gaut að Siglfirðingi í umsögn sinni eins og fram kemur í úrklippunni hér að ofan og auðvitað vildum við eiga hann eftir hina frábæru frammistöðu. Væntanlega hafa því fáir gert einhverja athugasemd við "eyrnamarkið". Hann var þó fæddur Seyðfirðingur, en ólst upp í Stykkishólmi og Hafnarfirði. Árin hans á Siglufirði voru ekki mjög mörg, því hann var þar fulltrúi sýslumanns á árunum 1961-1966 en flytur eftir það til Vestmannaeyja.

-

Gera má ráð fyrir að ekki hafi margir hlustað á fréttir, veðurfregnir og íþróttaspjall Sigurðar Sigurðssonar sem voru næstu liðir útvarpsins þetta kvöld, því sigurvíman hefur eflaust verið nokkra stund að renna af mönnum. En Siglfirðingar höfðu þó ekki yfirgefið þennan eina ljósvakamiðil landsins þetta kvöld, því dagskránni lauk með danslögum sem Heiðar Ástvaldsson valdi.

14.02.2013 01:57

Í minningu vagns 310


858. Það rata ekki allar fréttir "í fréttirnar", það hef ég upplifað og sannreynt nokkrum sinnum um dagana og þessi uppákoma er greinilega og svo sannarlega ein af þeim. Sennilega hafa allir fréttaöflunarmennirnir verið steinsofandi  kl. 06.20 þegar atburðurinn átti sér stað.

Í morgunsárið fórum við "strætókallarnir" í Kópavogi af stað laust upp úr kl. 06, komum okkur fyrir á sínum byrjunarreit að vanda og hófum síðan akstur saamkvæmt skipuriti. Ég ók þetta morgunsárið frá Hamraborg kl. 06.36 áleiðis í Mjódd um Vatnsenda. Á leiðinni heyrði ég í talstöðinni að eitthvað hefði greinilega farið úrskeiðis hjá einhverjum og þegar ég ók inn á Lindarveg eftir að hafa farið fram hjá Smáralindinni blasti við það sem má sjá á myndinni hér að ofan.

Eldur í strætó er eins langt frá því að vera nokkurt grin og hugsast getur og ég velti því strax fyrir mér hvort einhver slys hefðu orðið á fólki, - en vonaði auðvitað að svo væri ekki.

"Þetta er sennilega vagn sem hefur verið á leið 2" hugsaði ég og ók áfram upp Hlíðardalsveg.

Þegar ég var kominn upp á það sem ég kalla "hálendi Kópavogs" (Lindir, Salir, Kórar, Þing og Hvörf) fór mig þó að gruna eitt og annað. Ég ók öðrum vagni morgunsins sem fylltist von bráðar og eiginlega mun fyrr en venjulega eða grunsamlega fljótt. Margir kvörtuðu yfir að næsti vagn á undan mér (þ.e. fyrsti morgunvagninn) hlyti annað hvort að hafa verið á undan tímanum eða hreinlega ekki mætt. Sumir voru greinilega frekar súrir, reiðir og fúlir, enda hugsanlega orðnir of seinir til vinnu eða annarra tímasettra verka. Mér leist hins vegar ekki á málið í heild sinni þegar þarna var komið sögu og kallaði á Þjónustuver sem vissi ekkert um brunann. Ég hafði því samband niður á Kynnisferðir þar sem ég fékk að vita að kviknað hefði í vagni 310 (sem er einn af oss) og væri hann sennilega mjög illa farinn eða jafnvel ónýtur þar sem slökkviliðsmenn hefðu nánast klippt afturendann af honum til að komast að upptökum eldsins, þrátt fyrir að bílstjórinn (gamall kunningi úr videóbransanum frá því í denn) hefði farið langt með að slökkva hann áður en "liðið" mætti á staðinn.

Ég reyndi að segja þeim sem gagnrýndu hina "lélegu" þjónustu Strætó frá því hvað hafði gerst þarna um morguninn, en flestir horfðu á mig með fyrirlitlegu og vorkunarblöndnu augnaráði fullu af vanrtú og fannst afsökunin um strætisvagninn sem brann vera með lélegustu, aumkunnarverðustu og dapurlegustu afsökunum ever eða þannig...

Það var jú ekkert um þetta mál í fréttunum - og svo gerðist þetta á sjálfan ÖSKUDAGINN...


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 356
Gestir í dag: 70
Flettingar í gær: 742
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 322292
Samtals gestir: 35584
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 15:31:06
clockhere

Tenglar

Eldra efni