19.07.2008 04:15

Paul Simon.

484. Um mánaðarmótin síðustu hélt stórtónlistarmaðurinn Paul Simon tónleika í Laugardalshöllinni. Ég kann í sjálfu sér litlar eða engar skýringar hvers vegna ég hafði ekki tryggt mér miða í tíma, Því ég hafði á einhverjum tímapunkti vrið ákveðinn í að berja þetta stórmenni á sínu sviði augum eða eiginlega frekar eyrum hvernig sem það er nú gert. Daginn sem tónleikarnir skyldu haldnir hafði ég enn ekkert aðhafst og var eiginlega búinn að sætta mig við eigin athafnaleysi. Þá hringdi síminn sem gerist svo sem oft án þess að það hafi nein sérstök áhrif á hið daglega líf mitt eða raski þeirri dagskrá sem fyrirhuguð var, en að þessu sinni gerðist það. Í símanum var stórvinur minn Birgir Jóhann Birgisson tónlistarmaður með meiru sem spurði mig hvort ég væri búinn að ráðstafa kvöldinu. Þegar ég kvað svo ekki vera spurði hann mig hvort ég vildi ekki koma með honum á tónleika í kvöld því það væri alltaf minna gaman að vera einn á ferð og svo ætti hann líka aukamiða. Ég spurði þá hvað væri að gerast í bænum og hvaða tónleikar megnuðu að draga hann út úr hýði sínu.
"Það er einhver karl sem kallar sig Palla Símonar og ég er svolítið forvitinn um hann."
"Hver er Palli Símonar" spurði ég án umhugsunar.
Þegar ég uppskar ekkert skellihlátur með spurningunni áttaði ég mig og varð svolítið kindarlegur.
"Af hverju fer ekki konan með þér" spurði ég aftur.
"Sko henni finnst þetta eiginlega meira tónlist fyrir gamalt fólk og telur sig ekki tilheyra þeim hópi."
Biggi hló aftur en núna mun lægra. Ég fékk á tilfinninguna að hann horfði flóttalega í kring um sig í leiðinni, rétt eins og hann vildi fullvissa sig að enginn hefði ekki heyrt þessa skýringu hans á áhugaleysi frúarinnar.
Ég lýsti efasemdum mínum um að nokkur gæti haft slíka skoðun á tónlist Paul Simon, en hver sem ástæðan var í rauninni þáði ég boðið og við Biggi urðum samferða í Höllina um kvöldið.

Um tónleikana má það segja að þeir voru vissulega góðir, en þeir voru samt allt, allt öðruvísi en ég bjóst við. Paul Simon er greinilega ekki ræðinn maður að eðlisfari, alla vega ekki í fjölmenni. Ég giska á að hann hafi ekki sagt mikið meira en á bilinu sex til átta setningar til áheyrenda meðan á tónleikunum stóð. Framsóknarguðni Ágústson myndi því líklega flokka hann sem einn af daufgerðu mönnunum í tilverunni. En þó að Paul Simon sé ekki besti söngvari í heimi komst hann ágætlega frá þeim þætti með smávægilegum undantekningum. Ég hef nefnilega alltaf haldið að hann væri alveg rosalega mikill og góður söngvari, en komst að því að það er eiginlega ekki þannig. Hann er jú mjög fínn til brúks sinna eigin laga sem hann semur auðvitað fyrir sjálfan sig og eru því sniðin að hans raddlegu getu og framsetningu. Og nú skil ég enn betur en áður hvað Art Garfunkel gegndi miklu hlutverki í dúettnum forðum þó svo hann hafi staðið félaga sínum langt að baki þegar kom að lagasmíðunum. Paul tók nokkur lög frá tíma dúettsins og söng þau einn. Ég sá að sumum fannst það greinilega hið besta mál en mér fannst eitthvað vanta í pakkann. Eitthvað sem ég tók inn á mig á sínum tíma að ætti og yrði að vera til staðar. Og þetta eitthvað er auðvitað hin háa, silkimjúka, kórrétta og eyrnavæna rödd hans fyrrum félaga í dúettnum Simon & Garfunkel.

 

Tónleikarnir fóru rólega af stað. Það verður ekki annað sagt en að mjúku lágstemmdu nóturnar svo og einfaldleikinn hafi verið alls ráðandi. Ég leit á Bigga sem sat í sætinu við hliðina á mér og sá að hann var búinn að loka augunum. Höfuðið seig fram á við og það var engu líkara en hann væri að gogga ofan í bringuna á sér eins og syfjaður lítill fugl á sólríkum sumardegi.
"Þú ert greinilega í banastuði" sagði ég og hann hnykkti til höfðinu.
"Hvað eru búin mörg lög" spurði hann á móti.
Svona á þetta ekki að vera á tónleikum eða hvað hugsaði ég með mér.

Ég man að ég sá haft eftir eftir Grammyverðlaunahafanum Paul Simon að hann færi sjálfur aldrei á tónleika hjá öðrum. Til þess væri hann einfaldlega of eirðarlaus og myndi eflaust í flestum eða öllum tilfellum fara snemma heim. En hann ætti kannski samt að gera eitthvað eða meira af því vegna þess að þá gæti hann lært heilmikið um hvernig má koma sínu til skila með líflegri framsetningu og markvissari uppbyggingu. Þegar á leið var að mestu leyti tekið fyrir efni af sólóferlinum og þá helst efni af Graceland plötunni. Þá kom best í ljós hvað hljómsveitin var góð auk þess sem hljóðfæraleikararnir sýndu mikil og góð tilþrif í bakröddunum.

Ég hafði fyrir tónleikana kynnt mér hvað myndavélin gat komist upp í mörg ISO sem mér skilst að sé mæling á hraða ljóssins inn um linsuna. Það varð til þess að ég gat tekið myndir af goðinu ásamt meðspilurunum yfir salinn alla leið aftan úr stúkusætinu þar sem ég sat framan af. En auðvitað varð ég að færa mig niður á gólf Hallarinnar þegar á leið og reyna að nálgast sviðið svolítið meira auk þess sem hljómburðurinn var mun betri niðri á gólfi.

Að tónleikunum loknum er ég ekkert frekar ákveðnari í því en áður að eignast disk með tónlistarmanninum Paul Simon frá sólóferli hans, en mig langar því meira að komast yfir þennan eina sem mig vantar í Simon & Garfunkel tímabilið

13.07.2008 03:59

Tómas Brjánn Margrétarson allur.



483. Laust eftir miðnætti
og þegar lítilega var liðið á aðfararnótt hins 11. júlí s.l. var Tómas Brjánn Margrétarson borinn til grafar. Jarðarförin fór fram í kyrrþey og voru aðeins hans "nánustu ættingjar" viðstaddir. Hann var ekki nema fárra vikna gamall þegar hann gerðist fjölskyldumeðlimur fyrir fullt og fast fyrir rúmum fimmtán árum síðan. Hann var einn af þeim sem kom í þennan heim án þess að óskað væri eftir því af þeim húsráðendum sem fóðruðu móður hans. Ég segi ekki eigendum því að þeir sem vita eitthvað um ketti eru meðvitaðir um að enginn getur slegið eign sinni á þá og þeir fara gjarnan sínar eigin leiðir eins og sagt er. Ótrulega oft er að þeir velja sér frekar "húsbónda" en láta gjarnan þann hinn sama standa í þeirri trú að það sé hann sem ráði öllu þó önnur sé raunin. Algengt er að kettir taki t.d. upp á því að hafa vistaskipti án nokkurs samráðs við einhverja þá sem telja sig málið varða, en svo var ekki raunin með T.B.M.



Hann var á sínum kettlingsárum á leið til dýralæknis aðeins átta vkna gamall þar sem átti að svæfa hann svefninum langa þegar leiðir okkar lágu óvart saman og segja má að hann hafi hreinlega rekið á fjörur okkar. Eftir stutta en skemmtilega viðkynningu á stofugólfinu og næsta nágrenni þess, höfðu framtíðarhorfur hans tekið eins konar vinkilbeygju frá því sem útlit hafði verið fyrir stundu áður. Örlög hans voru þarna ráðin og hann bjó með okkur og hjá okkur alla sína kattartíð, nánast frá upphafi eins og áður segir og allt þar til yfir lauk.



Ég held að við höfum stundum fundið til einhvers konar undarlegrar samkenndar því við vorum ótrúlega líkir ef vel var að gáð og grannt skoðað. Við vorum í senn uppivöðslusamir óróabelgir en samt róleg og afslöppuð letidýr þess á milli. Sprelligosar og spraðbassar á góðum stundum, en ótrúlega þreytandi, verulega pirraðir og óþolandi fúllyndir í annan tíma. 



Saman vorum við því köttur og maður andstæðna og öfga en samt djúprar einlægni og þrá eftir hinum eina sanna vin sem við fundum í hvorum öðrum. Ófá eru þau skipti sem við skriðum saman til sófa og dormuðum samanfléttaðir og að því er virtist í ógreiðanlegri bendu eða flækju  yfir fréttunum og Kastljósinu.



Á síðasta ári fékk hann Hjartaáfall en náði sér smám saman aftur eftir að hafa fengið viðeigandi lyfjameðferð hjá dýralækni. Fyrir nokkru fór svo aftur að bera á krankleika hjá honum og hann fór aftur til læknis. Að þessu sinni kom í ljós að lungun voru full af vatni sem talið var að orsakaðist af hjartveikinni, en því var tappað af honum og hann var settur á hjartalyf og vatnslosandi lyf til frambúðar. Það nægði til að hægja á ferlinu en ekki að stöðva það, svo aftur varð hann að fara í aftöppun og svo enn og aftur hið þriðja sinni. En að lokum fór svo að baráttan tapaðist og ekkert var til ráða annað en svefninn langi.



Ég sló saman lítilli kistu úr óhefluðum borðviði og málaði hana hvíta. Þar var hann lagður til ásamt svolitlu nesti til landsins hinum megin, einni dós af ORA túnfiski sem alla tíð var í miklu uppáhaldi hjá honum. Það var breidd yfir hann þunn sæng en eftir það var lokið neglt á. Hann var síðan grafinn undir fallegu grenitré á friðsælum staðskammt frá Hvaleyrarvatni.



En við sem stöndum eftir þurfum að huga að sorginni sem býr í hjarta okkar allra, gefa okkur tíma fyrir hana og finna svolítið til þegar slíkar stundir verða til. En jafnframt horfa fram eftir veginum, þeirri lífsins leið sem okkur er öllum gert að feta skref fyrir skref allt þar til ferðinni lýkur.



Þó að ljós augna þinna hafi nú slokknað mun minningin lifa.

10.07.2008 13:06

Gulli tvítugur.



482. Þau tímamót urðu á dögunum að Gunnlaugur Óli Leósson (skammstafað GÓL) varð tvítugur. Nánar tiltekið átti þessi merki atburður sér stað þann 8. júlí kl. 09.45. En vegna mikillar fjarveru minnar undanfarið og einnig hversu netið hefur verið hægfara og illviðráðanlegt hér á bæ síðustu daga, komst þessi áríðandi tilkynning ekki út á alheimsvefinn á réttum tíma.



Á sínum yngri árum átti hann það til að fikta í dóti föðurs síns.



Og máta gleraugu móður sinnar.

En langt er um liðið hann var lítill og nú er hann orðinn stór strákur og meira að segja trúlofaður. Það hefur því í kjölfarið fjölgað um einn (eina) á heimilinu og er það vel. Til hamingju með áfangann hr. G.Ó.L.

22.06.2008 12:40

Systkinabarnamót.

481. Eftir Siglufjarðarferðina á dögunum var haldið til skemmtilegs mannfagnaðar. Það var boðið til Syskinabarnamóts á Akureyri sem er í raun eins konar míni ættarmót. Ég sagði á Akureyri sem er þó ekki alls kostar rétt, því lengst af var dvalið í sumarbústað uppi í Vaðlaheiði. Þetta mót hefur verið haldið árlega eitthvað á annan áratug og mætingin hreint ótrúleg frá upphafi, enda samheldnin mikil hjá þessari fjölskyldu. Það eru börn Sóleyjar ömmu minnar og systkina hennar sem eru umrædd systkinabörn, en að þessu sinni mættum við Sæunn systir mín sem fulltrúar móður okkar sem ekki er lengur til staðar.

Það var lagt af stað frá Siglufirði nokkuð snemma föstudaginn 13. júní þó svo að mætingin væri ekki fyrr en í hádeginu daginn eftir. Ástæðan var fyrst og fremst gott veður og að langt er síðan þessi leið hefur verið farin öðru vísi en með hraði.



Ég gat ekki annað en staldrað við hjá Hringveri í Ólafsfirði og mundað vélina. Í þessu gamla og litla samkomuhúsi hafði nokkrum sinnum verið slegið á strengi og græjurnar þandar til hins ýtrasta á árunum upp úr 1970. Þá var það hljómsveitin Frum sem var þar á ferð. (Ég, Biggi Inga, Viddi, Gummi Ingólfs og Guðni Sveins, en síðar Tóti Ben og Gummi Ragnars.) Ég man sérstaklega eftir einu balli sem við spiluðum á í Hringveri, en Gautarnir höfðu ákveðið með stuttum fyrirvara að spila á Ketilásnum sama kvöld. Við töldum því að miklar líkur væru á algjöru messufalli en vildum ekki gefa okkur. Raunin varð sú að húsið fylltist og nokkrir Siglfirðingar sem nú orðið teljast til virðulegri borgara, styttu sér leið inn um gluggana þar sem þeim fannst biðröðin við miðasöluna vera of löng fyrir sinn smekk. Síðar um kvöldið þurfti svo auðvitað að bregða sér út í hreina loftið og guðsgræna náttúruna og var þá aftur faið út og inn um gluggann. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum um kvöldið og þar kom að einn gestanna festi sig í glugganum, líklega vegna ölvunar. Hann var því þarna hálfur úti og hálfur inni og söng hástöfum fyrir gesti meðan fæturnir dingluðu út í loftið og dyraverðir reyndu eins og þeir gátu að ná taki á þeim. Það fór þó svo að lokum að hann var dreginn út og rukkaður um aðgangseyrinn, en eftir það gekk hann um aðaldyr hússins.



Stutt er frá Hringveri og niður á Ólafsfjörð eða í austurbæ Fjallabyggðar.



Er ekki alveg viss um hvað þessi bær heitir en tel mestar líkur á að hann heiti Garður. Íbúðarhúsið er á bak við timburverkið sem blasir við á myndinni.



Þetta er líklega eins konar gestahús við bæinn, og mér sýnist sértækar ráðstafanir hafa verið gerðar til að halda gestunum "niðri" í öllum veðrum.



Það er styttra nú orðið til Dalvíkur eða Böggvistaðasands eins og bærinn hét í fyrstu en þegar fara þyrfti gamla Múlaveginn. Stundum í mikilli hálku eða ófærð, þoku eða náttmyrkri, og yfirleitt svo grútsyfjaðir og þreyttir að menn sáu varla út úr augunum eftir eitthvað sveitaballið inni í Eyjafirði eða jafnvel Þingeyjarsýslum. Hægra megin á myndinni er "Stóllinn" sem er óumdeilanlegt stolt Svardælinga. Oft hef ég heyrt ættmenni mín halda því fram að þetta sé fallegasta fjall á Íslandi, en ég set hana hiklaust á stall með öðrum rismiklum fjöllum s.s. Hólshyrnunni á Sigló.



Þessi vel klæddi maður upp á gamla mátann, tekur svo á móti vegfarendum sem koma að norðan. Ekki veit ég hvort þetta er sjálfur Jóhann risi sem er eflaust einn frægasti Svardælingurinn, en gaman væri að fá póst um það ef einhver veit betur. En hver sem hann er, þá vísar hann veginn til Byggðasafnsins.



Og fyrir framan Byggðasafnið er þessi hjallur með "tilheyrandi."



Þessir drengir voru að "fiska" reiðhjól upp úr tjörninni.



Seint á áttunda áratugnum þegar við (Miðaldamenn) höfðum eitt sinn verið að spila heila helgi einhvers staðar á ausurlandi, ókum við í gegn um Dalvík á sunnudegi á heimleiðinni. Oft var það svo að eftir lengri túra voru menn svolítið slæptir án þess að ég taki neitt dýpra í árinni, en ekki síður svangir. Þá rak Norsk kona matsölu í Víkurröst og okkur fannst tilvalið að koma við og fá okkur svolítið í gogginn hjá þeirri ágætu konu. Við spurðum hvað væri í pottunum og ég heyrði ekki betur en eitthvað væri minnst á fisk sem mér leist vel á. En sú Norska talaði ekki alveg óbjagaða íslensku og þegar diskarnir komu á borð voru á þeim svið og rófustappa. Ég var þar með kominn í bölvuð vandræði því svið hef ég aldrei getað ofan í mig látið, þrátt fyrir að ekkert vanti upp á góðan vilja í þá veru. Mér fannst ekki þægilegt að horft væri á mig brostnu augnaráði frá disknum, en herti upp hugann og borðaði alla rófustöppuna með bestu lyst en henti sviðunum út um gluggnn. Skömmu síðar upphófust mikil læti, hávaði og gauragangur fyrir utan og þeir gestir sem þarna voru flykktust út að gluggunum til að athuga hverju sætti. Voru þar mættir til leiks nokkrir kettir og létu ófriðlega þar sem þeir börðust um sviðakjammana tvo. Komst þá upp um strákinn Tuma sem varð svolítið vandræðalegur eða jafnvel rétt rúmlega það.



Sunnan við Dalvík í mynni Svarfaðardals hafa hestamenn komið sér upp glæsilegri aðstöðu. Þar hitti ég góða vinkonu frá því í eina tíð, hana Möggu Alfreðs frá Reykjum í Fljótum. Við Magga unnum saman ásamt öflugu gengi sem samanstóð aðallega af Siglfirðingum og Skaftfellingum, í Ísfélaginu í Vestmannaeyjum m.a. undir verkstjórn Bassa Möller fyrir aldarþriðjungi síðan. Nú býr hún og starfar á Dalvík og stundar hestamennsku af miklum móð.



Það er stutt yfir til Hríseyjar



Þegar innar dregur í Eyjafjörðinn er ekið fram hjá húsi Davíðs, Fagraskógi sem mér virðist standa ágætlega undir nafni. Þar fæddist Davíð Stefánsson skáld, en hann bjó lengst af á Akureyri.



Hörgárdalur og Öxnadalur til vinstri. Hér liggur þjóðvegur eitt yfir Tröllaskaga innanverðan og fjöllin þarna eru vissulega svolítið Tröllsleg að sjá. Kannski eilítið meira en venjulega.



Þar sem nægur tími var til stefnu datt mér í hug að renna upp að hinu forna höfuðbóli Möðruvöllum.

Höfuðbýlið Möðruvellir stendur neðan við dalsmynnið í Hörgárdal, nokkru norðan við ána. Hefur þar lengstum verið stórbýlt, enda góð engi allt í kring og vel til búskapar fallið. Eru 13 kílómetrar frá Möðruvöllum til Akureyrar.

Möðruvellir voru eins og áður sagði höfuðbýli og hefur verið nálega alla tíð. Á 10. og 11. öld bjó þar t.a.m. Guðmundur Eyjólfsson hinn ríki, bróðir Einar Þveræings. Þótti hann með mestu höfðingjum landsins, en Halldór sonur hans var einn þeirra fjórmenninga sem Ólafur Tryggvason hélt í gíslingu hjá sér í Noregi meðan hann beið þess að Íslendingar gengju kristni á hönd. Var Halldór þar ásamt með Kjartani Ólafssyni pá og hefur Ólafur konungur sennilega valið Halldór sökum þess hve fjölskylda hans var áhrifamikil á Íslandi.

Árið 1296 setti Jörundur biskup Þorsteinsson á Hólum á fót munkaklaustur af reglu Ágústínusar á Möðrudal og státaði það brátt af einu stærsta og veglegasta bókasafni landsins í þá tíð. Klaustrið brann árið 1316 í kjölfar mikillar drykkju- og svallveislu munkanna þar eftir því sem sagan segir. Samdi þjóðskáldið Davíð Stefánsson leikrit um það sem nefnist Munkarnir á Möðruvöllum. Er legstaður Davíðs í Möðruvallarkirkjugarði.

Þegar Íslendingar breyttu um sið um miðja 16. öldina féll staðurinn undir Danakonung. Var þar síðan aðsetur margra amtmanna konungs, en einn þeirra var Bjarni Thorarensen skáld. Eins og Davíð er var Bjarni jarðaður þar í kirkjugarðinum.

Þá var á Möðruvöllum stofnaður Gagnfræðaskóli með lögum þann 17. nóvember árið 1879. Hann hóf þó ekki starfsemi fyrr en þremur arum síðar eða árið 1880. Var það fyrsti gagnfræðaskólinn á landinu. Fór þar fram almennt nám með sérstakri áherslu á búnaðarfræði. Stóð skólahald þar fram til ársins 1902 þegar skólahúsið brann og var þá skólinn fluttur til Akureyrar.

Árið 1974 var svo sett á fót tilraunabúi í Nautgriparækt á Möðruvöllum og mun vera þar enn.

Af kunnum einstaklingum sem fæðst hafa á Möðruvöllum má nefna Jón Sveinsson eða Nonna eins og hann er betur þekktur. Fæddist hann þar árið 1845. Þá fæddist Hannes Hafstein fyrsti ráðherrann þar árið 1861. Steindór Steindórsson frá Hlöðum síðar skólameistari Menntaskólans á Akureyri fæddist þar einnig.

Núverandi kirkja á Möðruvöllum var byggð á árunum 1865 - 1867, en forveri hennar varð eldi að bráð árið 1865. Hefur því verið haldið fram að hvergi á byggðu bóli á Íslandi hafi eldur valdið jafn miklu tjóni. Eins og áður sagði brann klaustrið þar árið 1326, kirkjan árið 1865 og skólinn árið 1902, en auk þess brann allur bærinn árið 1712, amtmannsstofan árið 1826 og aftur 1874 og þá brann íbúðarhúsið þar árið 1937. (Gúgglað)



Þessi var á beit í Möðruvallatúninu íklædd sínum "jugreoppeholdere."



Ég hitti Guðrúnu Sonju og Baldur Ben (frá Sigló) á Akureyri og þar sem við vorum á spjalli tók ég eftir þessu bráðskemmtilega einkanúmeri sem þó virðist ekki tjá sig um nokkurn skapaðan hlut, enga afstöðu taka og engan boðskap hafa fram að færa, ef svo mætti að orði komast.



Það voru að hefjast Bíladagar á Akureyri þessa helgi og þarna var Haukur Þór (Leósson) auðvitað mættur á nýja bílnum sínum með sæþotuna í eftirdragi.

Það var staldrað aðeins við á Ráðhústorginu, en þar var flest með öðrum hætti en venjulega. Það var greinilega orðið margt um manninn í bænum og ég verð að segja það hreint út að mér fannst Akureyringar ekki öfundsverðir af gestunum eins og þeir komu mér fyrir sjónir. Þessi friðsæli, bráðfallegi og snyrtilegi bær með sínu léttdanska ívafi var að breytast og það allhratt í einhvers konar ormagryfju. Það var þegar orðið mikið um rusl á götum og gangstéttum þó að klukkan væri ekki orðin nema hálf ellefu. Umbúðir utan af sælgæti og samlokum, tómir sígarettupakkar og gosílát. Mikið unglingafyllerí og lyktin af bráðnu gúmmí lá í loftinu því urmull gerfitöffara með hor í nös gerði sem þeir gátu til að spæna upp malbikið. Akureyri var snemma á föstudagskvöldi orðinn sóðalegri bær en orð fá lýst.



Það var því best að koma sér á mótsstað uppi í Vaðlaheiðinni.



Frá Hlíðarseli er frábært útsýni til allra átta.



Og ekki spillti veðrið og sólarlagið fyrir.



Til að búa sér og sínum svefnstað hafði ég fjarlægt tvo bekki úr bílnum og sett tvíbreiða dýnu í þeirra stað inn í Caravan. Og eftir að búið var að líma álpappír fyrir gluggana var kominn hinn ákjósanlegasti hvílustaður.



Að morgni var síðan búist til að hefja hina "formlegu" dagskrá.



(Amtsbókasafnið. - Gúggluð mynd.)

Laugardagurinn hófst á því að Amtmannsbókasafnið var skoðað, en það er annars öllu jafna lokað úm helgar. En þar er hún Magga frænka mín bókavörður svo að hópurinn fékk einkaleiðsögn um staðinn.

Amtsbókasafnið var stofnað árið 1827 af Grími Jónssyni amtmanni á Möðruvöllum. Aðsetur safnsins var í Laxdalshúsi fyrstu 20 árin og fluttist síðan milli ýmissa húsa og var meðal annars til húsa í Ráðhúsi Akureyrarkaupstaðar í Búðargili og Samkomuhúsinu.

Árið 1906 varð Amtsbókasafnið formlega eign Akureyrarbæjar, með þeim skilyrðum að kaupstaðurinn myndi byggja fyrir safnið eldtraust geymsluhús og lestrarstofu. Árið 1933 var vakið máls á að aldarafmæli Matthíasar Jochumssonar nálgaðist og ákveðið að reisa minnisvarða í formi vandaðs húss yfir Amtsbókasafnið. Efnt var til samkeppni um teikningar af húsinu og hlutu tveir ungir arkitektar 1. verðlaun, þeir Bárður Ísleifsson og Gunnlaugur Halldórsson. Ákveðið var að húsið skyldi standa við Brekkugötu, þar sem það stendur í dag. En það var ekki fyrr en 30 árum síðar að framkvæmdir hófust og þá í tilefni 100 ára afmælis Akureyrarbæjar. Leitað var til arkitektanna sem unnu samkeppnina 1935 og lögðu þeir fram alveg nýja og nútímalega hugmynd að bókhlöðu. Hið nýja húsnæði var vígt þann 9. nóvember árið 1968.

Ákvörðun um viðbyggingu var tekin á fundi bæjarstjórnar 29. ágúst 1987 á 125 ára afmæli Akureyrarbæjar. Í framhaldi af þessari ákvörðun var efnt til samkeppni um hönnun hússins. Tillaga Guðmundar Jónssonar arkitekts í Noregi hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni og voru ummæli dómnefndar svohljóðandi:
"Tillaga nr. 2 sameinar núverandi hús og nýbyggingu í listræna heild án þess að núverandi hús glati nokkru af sérkennum sínum."
Árið 2000 var ákveðið að hefja framkvæmdir og var verkið boðið út á vordögum 2001. Fyrsta skóflustungan var tekin 1. júní það ár og nýtt og endurbætt húsnæðið formlega opnað 6. mars 2004.
(Textinn er fenginn að láni frá akureyri.is)



Götunöfn á Akureyri (að minnsta kosti sum) benda til þess að ráðamenn bæjarins séu hinir mestu húmoristar.



En safnið er glæsilegt.



Og þar eru að virðist endalausar hirslur sem hýsa hinar margvíslegustu "bókmenntir."



Þaðan var farið og bjórverksmiðjan Kaldi skoðuð.



Þessi ungi maður stóð við dæluna og lét jafnframt dæluna ganga. Hann skenkti þeim sem vildu ótæpilega en sagði okkur í leiðinni frá framleiðslunni. Hann upplýsti okkur m.a. að nýlega hefði milljónasta flaskan farið í gegn um tækin sem væri u.þ.b. ári á undan áætlun.

Eftirfarandi var gúgglað af vef fyrirtækisins.

Saga Bruggsmiðjunnar er nú ekki löng, þar sem að fyrirtækið er einungis rúmlega eins árs. Þó svo að fyrirtækið hafi verið starfrækt í stuttan tíma þá hefur það tekið miklum breytingum frá upphaflegri mynd.

Hugmyndina af fyrirtækinu kom frá konu á Árskogssandi, henni Agnesi Sigurðardóttur. Hún fékk hugmyndina á að opna litla bruggverksmiðju eftir að hafa séð frétt í sjónvarpinu frá lítilli verksmiðju í Danmörku. Viku seinna er hún og eiginmaður hennar, Ólafur Þröstur Ólafsson, komin út til Danmerkur að skoða bruggverksmiðju. Þetta gerist í júní 2005. Í október skrifa þau undir kaupsamninga á bruggtækjum út í Tékklandi. Í desember 2005 var fyrirtækið formlega stofnað. Í byrjun árs 2006 koma síðan aðrir aðilar inn í fyrirtækið. Í dag er Bruggsmiðjan í eigu 15 aðila. Agnes og Ólafur eiga rúm 56%, og 44% skiptast á milli 14 aðila. Byrjað var að byggja húsnæðið í mars 2006. Húsið er 380 fermetrar með millilofti. Og er staðsett á Árskogssandi eins og áður sagði. Fyrsta bruggun var 22 ágúst og fyrsta átöppun var 28 september. Formleg opnun var síðan 30 september að viðstöddum fjölda fólks.

Agnes og Ólafur sáu færi á að koma með nýja tegund af bjór á markaðinn. Þeim langaði að búa til bjór sem væri mjög vandaður og með miklu bragði. Þess vegna var valið að brugga bjór eftir Tékkneskri hefð frá 1842, þar sem Tékkland er frægt um allan heim fyrir góðan og einstaklega vandaðan bjór. Þau höfðu tvær leiðir til að finna bjór við hæfi, kaupa uppskrift af öðrum erlendum bjór og flytja hana inn til landsins, eða fara leiðina sem þau völdu að gera og það var að fá bruggmeistara til liðs við sig og búa til sinn eigin bjór sem þau gætu sniðið eftir sínum eigin hugmyndum. Þar sem að markmiðið var að búa til eðal bjór þá var valið einungis allra besta hráefni sem völ er á og kemur allt hráefnið frá Tékklandi, fyrir utan að sjálfsögðu íslenska vatnið sem að kemur úr lind við Sólarfjall við utanverðan eyjafjörð. Útkoman er Kaldi. Íslenskur bjór, bruggaður eftir tékkneskri hefð, með besta hráefni sem völ er á, ógerilsneyddur,með engum viðbættu sykri og án rótvarnarefna, sem gerir hann eins hollan og bjór getur mögulega orðið.

Í upphafi var gert ráð fyrir ársframleiðslu uppá 170.000 lítra á ári. En eftir ótrúlega sölu og mikla eftirspurn fyrstu mánuðina, var fljótlega ákveðið að bæta við gerjunartönkum og auka gerjunarplássið um 10 þúsund lítra. Stækkunin kom í maí 2006. Í dag áætlað að framleiða um 300,000 lítra af Kalda á ári.

Hjá fyrirtækinu vinna í dag 5 manns sem er fastráðnir og 2 í hlutastarfi. Það má til gamans geta að á Íslandi eru einungis 4 lærðir bruggmeistarar og 2 af þeim eru hjá Bruggsmiðjunni. Annar þessara bruggmeistara, David Masa er nokkuð þekkt nafn í bruggheiminum. Hann hefur sérhæft sig í því koma af stað litlum brugghúsum út um allan heim. Hann er bruggmeistari í 4 ættlið og með 9 ára nám á bakinu, þar sem að grunn bruggmeistaranám er 4 ár. Hinn bruggmeistarinn er ungur og hefur ný lokið 4 ára bruggmeistara námi í Tékklandi og hefur samhliða unnið í aldagömlu munkabrugghúsi.



Mér finnst einhvern vegin að hin gylltu bruggtæki hefðu sómt sér vel sem leikmunir í Star wars.



Suðutækin eru hins vegar meira "venjuleg" á að líta.



Kynningin kostaði þúsundkall á mann og innifalið var bjórglas kyrfilega mergt í bak og fyrir svo og eins mikið af framleiðslunni sjálfri og menn gátu í sig látið meðan á heimsókninni stóð.



Og því var auðvitað vel tekið.



Næst var komið við í Freyjulundi hjá hinni Siglfirsku listakonu Öllu Eysteins, en þegar þangað var komið reyndist ekki nokkur vera heima nema kötturinn.



En þar var samt nóg að sjá.



Litla systir ásamt ókunnum "manni."



Ingvar virðist tilbúinn að leggja til höfuðið í þeirri von að það fullkomni þennan skúlptúr, en einhvern vegin virðist mér eitthvað vanta upp á samræminguna. Sennilega hefur búkur spýtukarlsins of marga ferkantaða fleti en Ingvar er meira "ávalur" í laginu. Það var því hætt við að skilja Ingvar eftir hjá Öllu til frekari úrvinnslu.



Meeeeeeeee...



Og þessir virðast bara slakir þó svo að full rúta af fólki virði þá fyrir sér.



Og auðvitað er flaggað.



Það er "bíó" í verkfærageymslunni. - Um kvöldið eru skoðaðar gamlar slidesmyndir af fjölskyldumeðlimum á tjaldi sem komið hefur verið þar fyrir. Margir sjá sjálfa sig með "gamalt útlit" og alls konar athugasemdir fljúga gegn um loftið, en sýningin vekur að vonum mikla kátínu.



Þarna eru líka leiktæki fyrir "börnin."



Ekki stóð á því að hinir fullorðnu fyndu barnið í sjálfum sér.




Hann Ingvar tjaldaði í talsverðum halla þrátt fyrir gnótt sléttlendis. Ég veit ekki af hverju hann gerði það, en sjáiði græna kassann fyrir framan tjaldið sem er greinilega tómur?



Á sunnudegi var farið að huga að heimferð.



Í nágrenninu býr sjálfur "Jóhannes í Bónus " í alveg þokkalegum híbýlum.



En það sem vakti aðallega athygli mína, var hversu rólegar endurnar á tjörninni voru. en mér er sagt að ástæðan fyrir því sé einfaldlega sú að þær eru úr plasti. 



En nafnið á bæ Jóhannesar er alvöru eins og sjá má. Hváll er eitthvað svo mikilúðlegt og virðulegt sbr. Arnarhváll.



En þarna rétt hjá er annað býli þar sem eflaust er eitthvað minna um þægindi, en staðirnir eiga þá það sameiginlegt að halda fugla sem aldrei fara neitt. 



Það var ekið upp í Skíðasvæði þeirra Akureyringa Hlíðarfjall. Þangað hef ég aldrei komið en vildi sjá staðinn og vita hvort þaðan væri hægt að mynda höfuðstað Norðurlands. Svo reyndist ekki vera með góðu móti, en þetta skilti vakti athygli mína. Það er auðvitað ekkert að þessu skilti, en það er samt svolítið skondið að lesa á það í sumrinu og blíðunni.



Hafa ekki allir heyrt um hinn landsfræga Brynjuís? Ég hef það auðvitað og svo hef æég líka smakkað hann og mér til mikillar undrunar fannst mér hann ekki standa undir frægðinni, en slíkt er auðvitað alltaf smekksatriði.



Það var allavega svo mikil traffík við og í kring um ísbúðina að það jaðraði við öngþveiti sem segir auðvitað heilmikið um skoðanir annarra á ísnum.



Og þegar rennt var úr bænum sá ég afkvæmi mitt vera að bisa við Sæþotuna á Höfnersbryggju.



á Suðurleið var litið við á Flugumýri í Skagafirði hjá Margréti, annari "litlu systur" sem þar býr. Einn af íbúunum (sá guli og græni) naut frelsisins og fór víða.
 


Og til að gera ekki upp á milli okkar systkinanna "heimsótti" hann (eða hún) Sæu systir sem tók honum fagnandi eins og sjá má.



Svo var komið að mér, en ég óttaðist pínulítið að hann (eða hún)  goggaði svolítið ofan í kollinn á mér, en sá ótti reyndist með öllu ástæðulaus.

Þegar leið að miðnætti var haldið af stað suður.

22.06.2008 12:39

Horft út um austurgluggann.

480. Hversu rauður getur himininn orðið? Aðfararnótt mánudags þegar klukkan var hálfþrjú var mér bent á að nú væri jafnvel meira en full ástæða til að kíkja út um austurgluggana. Ég gerði það auðvitað en tók í beinu framhaldi af alveg örstuttri skoðun undir mig stökk fram á gang og síðan út í bíl, en að sjálfsögðu með myndavélina upp á vasann. Ekki er hægt að orða það öðruvísi en að himinninn upp af Esjunni hafi beinlínis staðið í logandi báli. Ég flýtti mér upp í Ásland sem er örstuttur spölur, en stendur nokkru hærra en Öldugötuendinn. En þegar þangað var komið hafði rauði liturinn á himninum minnkað lítillega, svo rétt er hægt að ímynda sér hvernig verið hefur þegar best lét. Í sjálfu sér eru frekari orð með öllu óþörf svo ég hef þau ekki fleiri í þessum pistli...





















17.06.2008 16:35

Sigló í júní 2008



479. Að kvöldi miðvikudagsins 11. júní var ekið norður yfir heiðar og eins og regluverkið segir til um var myndavélin með í för. Að þessu sinni var gripið til hennar óvenju snemma í ferðinni, enda fullt tilefni til þess. Framan af var himininn heiður og blár eins og hann er oft á góðum degi, en þegar á leið breyttist liturinn og kvöldroðinn varð allsráðandi í norðvestrinu. Það var því staldrað við bæði víða og oft eins og sjá má á meðfylgjandi sýnishornum. Myndin hér að ofan er tekin í Húnavatnssýslunni og sýnir fjöllin norður eftir Strandasýslunni. Segja má að þema þessarar ferðar hafi verið þegar hinar stafrænu afurðir voru skoðaðar, að mestu leyti litrík augnablik sólarlagsins fönguð í kísilflöguna til skammtíma vistunnar en að lokum mátuð við vonandi sem flesta tölvuskjái af ýmsum stærðum og gerðum.



Þegar beygt er norður til Skagastrandar skömmu eftir að ekið er í gegn um Blönduós, er farið fram hjá nokkrum litlum vötnum. Þar staldraði ég við og gekk upp á svolítinn hól til að ná betri yfirsýn yfir hina gulu speglun



Þegar upp á hólinn var komið heyrði ég mikið rophljóð og brá við því stutt var á þekktar ísbjarnarslóðir. En það reyndist vera þessi rjúpa sem framkallaði hljóðin og var hún hin spakasta. Hún hinkraði meira að segja eftir að ég tæki þessa mynd af sér en þurfti síðan að bregða sér eitthvað frá.



Ég rölti því aðeins meira og betur um svæðið í leit að hinu eina rétta sjónarhorni til að fanga speglun "Guluvatna."



Svo var beygt upp á Þverárfjall, en á leiðinni yfir þennan fjallveg sem styttir leiðina til Siglufjarðar um heila 16. km., má sjá þetta skilti sem eftir síðustu bjarnartíðindi virðist vera full innistæða fyrir og það alveg grínlaust.



Á söndunum við ósa Héraðsvatna blasti þessi tilkomumikla litadýrð við. Drangey, Málmey og Þórðarhöfði eru eins og rof eða truflun á hinum kyrrláta og fullkomlega lárétta sjóndeildarhring sem skiptir litum hafs og himins.



Í eina tíð var sungið um "Hofsós city" í sætaferðunum á leið í Höfðaborg þegar sveitaböllin voru einu mannamótin sem voru "inn."



Þegar ekið var fram hjá Suðanesi og Sauðanesvita er stutt eftir á heimaslóðir. En þó ég hafi farið þarna um oftar en ég hef tölu á, hef ég aldrei séð Sauðanesið í þessum litum.



Meira að segja sjórinn tók í sig lit kvöldsólarinnar og ég beindi linsunni í áttina út að Skagagrunni.



Þegar komið var á sigló var alls ekki hægt að fara til húss og sængur, heldur varð að skjóta meira á dýrðina. 



Kvöldsólin var núna næstum því í hánorðri, en samt nokkuð vel yfir haffletinum.



Ég ók spölkorn upp eftir Saurbæjarásnum og sólin hækkaði sig að sama skapi.



Þetta er eitt af mínum uppáhaldssjónarhornum sem ég hef sterklega á tilfinningunni að sé verulega vanmetið af myndavélaeigendum og notendum. - Horft er út fjörðinn frá eða vestan við brúna yfir Hólsá og Álfhóll er í forgrunni.



Ég fór síðan svolítin rúnt um göturnar á eyrinni. - Húsin austan megin við Vetrarbrautina voru vel upplýst. 



Einnig þau við utanverða Túngötuna út við Hvanneyrarkrók.



Húsin úti í Bakka og aðdráttarlinsan á fullu.



Sorp er yfirleitt ekki mikið notað sem myndefni nema þá á frekar neikvæðan hátt. Það er engu líkara en að eldur sé laus á gámasvæðinu. (Og Ámundi ekki mættur...)



Klukkan var nú orðin rúmlega hálf þrjú þegar dimmur og drungalegur þokubakki læddist yfir nesið. Skömmu síðar var grái liturinn orðinn allsráðandi, það kólnaði lítillega og mér fannst nóg komið að sinni.



Daginn eftir fylgdist ég með Hauk Þór reyna sig á sæþotunni sem nú er búið að taka fram eftir hvíldina í vetrarhýðinu.



Hann lék listir sínar á innri höfninni og ég velti fyrir mér hvernig væri hægt að sitja þennan óða sæfák án þess að kastast af baki.



Eins og sjá má ristir hann ekki mjög djúpt.



En eftir tvo daga á Sigló var svo stefnan sett á Akureyri...

03.06.2008 09:11

Fyll´ann takk...



478. Ég gær fyllti ég stærri bílinn minn af bensíni, en hann er svo sem hvorki sérlega stór né sérlega lítill. Hann er sjö manna Caravan með aðeins 2.4 lítra vél. Telst það ekki bara svona "melló" eða tæplega það hjá hinni firnavel jeppavæddu þjóð vorri? Þegar dælan sló út sá ég að ég hafði sett nýtt persónulegt met í bensíndælingum. Tólfþúsundkall kostaði þessi áfylling sem mun væntanlega duga til Siglufjarðar, inn á Akureyri og þaðan e.t.v. í Varmahlíð eða á Blönduós. Eftir þessa upplifun læddist ég ofurvarlega heim og skipti um bíl.



Ég þurfti að útrétta eitt og annað eins og gengur og þegar ég kom út af einum staðnum sá ég að bíl hafði verið lagt í stæði (reyndar tvö) við hliðina á mér. Ég horfði á litlu bláu Micruna og hugsaði með mér að miðað við bensínverðið í dag sem líklega á eftir að hækka mikið enn, geti ég nokkuð vel við unað að eiga bíl með svo hægsígandi nál í bensímælinum sem raunin er á. En í dag er 11.júní og á eftir legg ég af stað til Sigló og stoppa svo næstum því aldrei þessu vant á Akureyri í bakaleiðinni.

03.06.2008 09:04

Ferðin á Klaustur, gangan á Lómagnúp og Fjaðrárgljúfur..

477. Föstudaginn 30. maí var haldið austur á Krkjubæjarklaustur og tilgangur þeirrar ferðar var fyrst og fremst að príla upp á hið tignarlega fjall Lómagnúp. En auðvitað var inni í myndinni að skoða það sem fyrir augu bar í þessari fallegu sveit því þar er vissulega margt að sjá. Ég vissi svo sem ekkert hvað ég var að fara út í þegar lagt var upp, en nú liggur það fyrir að líklega hef ég aldrei komið þreyttari heim eftir fjallapríl. Maggi Guðbrands var eins og svo oft áður minn helsti hvatamaður að ferðalaginu og bauð mér gistingu í tjaldvagninum sínum sem var eitt þeirra atriða sem réði úrslitum þegar að ákvarðanatöku kom. En það var gist á tjaldstæðinu að Klaustri og ég hef aldrei átt tjald eða ferðahíbýli af nokkru tagi. Ég hafði ætlað að vera duglegur um helgina og klára þakið á geymslunni á Hallveigarstígnum sem ég er að endurbyggja, en þegar það var sýnt að ég fengi ekki þakjárnið í tæka tíð sem ég hafði þó pantað með ágætum fyrirvara var þar komið annað lóð á Lómagnúpsvogarskálina. Ég skellti mér af stað og var kominn austur upp úr miðnætti.



Morguninn eftir var súld og þoka. Ferðinni var frestað til hádegis svo ég fékk mér bíltúr niður í Meðallandið. Þar bar þessa kirkju við himinn en mér finnst eitthvað kindarlegt við myndina. 




Það var ýmislegt að sjá í Meðallandinu, en ég hafði ekki farið vítt yfir þegar síminn hringdi. Það átti að ganga um í kring um Systrafoss og skoða næsta nágrenni hans.



Systrafoss.

Kirkjubæjarlaustur er austur á Síðu í Skaftafellssýslu. Landnáma getur þess að þar hafi búið Papar, þ. e. kristnir menn áður en Ísland byggðist af Norðmönnum. Svo mikil helgi var þegar í landnámstíð á þessum stað að því var trúað að þar mættu ekki heiðnir menn búa, enda vildi svo vel til að Ketill fíflski sem nam þar land og tók sér bólfestu í Kirkjubæ var maður kristinn.
En eftir Ketil andaðan vildi heiðinn maður sem Hildir hét færa þangað byggð sína og trúði því ekki að þar mætti ekki heiðinn maður búa. Þegar hann var kominn að túngarðinum varð hann bráðkvaddur og liggur í Hildishaugi sem er austur frá Kirkjubæ, en hann er nú orðinn mjög blásinn og hefur sést frá klaustrinu þaðan sem það var áður. Þar heita nú Fornugarðar.
Í Kirkjubæ var sett nunnuklaustur árið 1186.

Fyrir ofan Kirkjubæ er fjallshlíð fögur og grasi vaxin upp undir eggjar sem eru víðast manngengar þó bratt sé. Uppi á fjalli þessu er graslendi mikið og fagurt umhverfis stöðuvatn eitt sem kallað er Systravatn af því nunnur tvær frá klaustrinu áttu að hafa lagt þangað leiðir sínar, annaðhvort báðar saman eða sín í hvoru lagi.
Sagt er að gullkambur óvenju fallegur var réttur upp úr vatninu og fór önnur fyrst að reyna að vaða eftir honum, en vatnið varð henni of djúpt og fórst hún í því.
Hina langaði einnig til að eignast kambinn, en sá ekki nein ráð til þess. Loksins kom hún auga á steingráan hest hjá vatninu og ræður það af að taka hann og ríða honum, en hann var svo stórvaxinn að hún komst ekki á bak honum fyrr en hann lækkaði sig allan að framan eða lagði sig á knén. Reið hún honum svo út í vatnið og hefur ekkert af þessu sést síðan, hvorki nunnan, hesturinn né kamburinn. Af þessu er vatnið kallað Systravatn. Mun þarna hafa verið Nykur á ferð en ekki hestur.

Meðan Agatha Helgadóttir var abbadís á Kirkjubæjarklaustri gerðust þar ýmsir hlutir undarlegir.
1336 heyrðust langan tíma sumarsins stunur miklar í svefnhússgólfi og borðstofugólfi á Kirkjubæ; en ekkert fannst þó að væri leitað.
Árið sama og Agatha dó, 1343, kom út Jón Sigurðsson austur í Reyðarfirði með biskupsvígslu og byrjaði þaðan vísitasíu sína vestur um land sunnan megin og kom í þeirri ferð sinni að Kirkjubæ. Var þar þá brennd systir ein sem Katrín hét fyrir guðleysi og fleiri þungar sakir sem á hana voru bornar og sannaðar. Fyrst sú að hún hefði bréflega veðdregið sig djöflinum, annað það að hún hefði misfarið með Krists líkama (vígt brauð) og snarað aftur um náðhússdyr, það hið þriðja að hún hefði lagst með mörgum leikmanni og var það því dæmt að hana skyldi brenna kvika.
Sumir segja að það hafi verið tvær systur sem þá hafi verið brenndar, hin fyrir það að hún hafi hallmælt páfanum eða ekki þótt tala nógu virðulega um hann og því hafi hún verið brennd með Katrínu.

Skaftá rennur rétt hjá Kirkjubæ og stendur einstakur steindrangur þverhníptur upp fyrir vestan hana og er aðeins einstigi upp á hann einumegin. Efst á honum er slétt flöt lítil og tvær þúfur á flötinni, og segja menn að þær þúfur séu leiði þeirra systra og þar hafi þær brenndar verið og sé önnur þúfan sígræn, en hin grænki aldrei, en á henni vex þyrnir. Af þessu er drangurinn kallaður Systrastapi.

Meðan nunnuklaustrið var í Kirkjubæ var því samtíða munkaklaustur á Þykkvabæ í Álftaveri og er ekki lengra á milli en 1 1/4 mílu vegar þegar beint er farið, en á milli Síðunnar og Álftaversins rennur Skaftá sem kunnugt er. Á ánni var brú í fornöld og lá sú kvöð á Kirkjubæjarklaustri að viðhalda henni og því var rekafjara lögð til klaustursins sem enn heitir Brúarfjara. Seinna á öldum braut brúna af, en þar sem hún hafði verið á ánni heitir enn Brúarhlað og er þar nú almenningsvað á Skaftá.
Það er sagt að oft hafi ábótinn og munkarnir úr Þykkvabæ farið í Kirkjubæ að hitta abbadísina og systurnar og var það hægt í högum meðan brúin var á Skaftá. En á þeirri leið fyrir sunnan eða vestan ána heitir Sönghóll. Þaðan sér fyrst heim að Kirkjubæ þegar sú leið er farin. Þegar munkarnir komu á þenna hól hófu þeir allajafna upp söng svo mikinn að heyrðist heim að klaustrinu og af því dregur hóllinn nafn enn í dag. Þegar söngurinn heyrðist heim að Kirkjubæ lét abbadísin hringja klukkum, en gekk sjálf með öllum systrunum í móti ábótanum og munkunum niður að Skaftá. Þar eru nú sandgígar eintómir og heitir það svæði Glennarar.
Mikið var jafnan um dýrðir í Kirkjubæ þegar Þykkbæingar voru þar komnir og aldrei þótti systrunum jafngóð ævi sín sem þá. En snemma lagðist sá orðrómur á að munkarnir vendu þangað komur sínar meir en góðu hófi gegndi til að fífla systurnar. Þessi lifnaður keyrði svo úr hófi að abbadísin og systurnar vissu þetta nálega hver með annari og eru enn um það nokkrar sagnir.

Einu sinni er sagt að ábótinn frá Þykkvabæ hafi verið nótt í Kirkjubæ sem oftar. Morgumnn eftir komu systurnar inn í kompu abbadísarinnar og ætluðu að fara að klæða hana. Leituðu þær þá að nærklæðum hennar undir höfðalaginu og fundu þar brókina ábótans, en hvergi niðurhlut abbadísarinnar. Þær þekktu brókina og spurðu hvernig á þessu stæði, en þá er haft eftir abbadísinni að hún hafi átt að segja: "Allar erum vér brotlegar." En svo er bætt við: "kvað abbadís; og hafði brók ábóta undir höfðinu."
Öðru sinni var bæði ábótinn og munkur einn eða fleiri með honum nætursakir í Kirkjubæ. Það greinir nú ekki frá því fyrst um sinn hvar ábótinn svaf um nóttina, en þess er getið að abbadísin fór á hnotskóg með ljós um miðja nótt til að líta eftir lifnaði systranna. Kom hún þá í kompu einni að munki og nunnu sem sænguðu saman.
Abbadísin ætlaði að fara að ávíta nunnuna, en nunnunni varð þá litið á höfuðbúning abbadísar og segir: "Hvað hafið þér á höfðinu móðir góð ?"
Varð þá abbadísin þess vör að hún hafði tekið brókina ábótans í misgripum og skautað sér með henni í staðinn fyrir skuplu, svo hún mýkti málin og sagði um leið og hún gekk burtu: "Allar erum vér syndugar, systur."
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)



Systravatn.



Horft fram af brúninni við fossinn.



Pétur fararstjóri og Magnús.



Horft niður eftir Systrafossinum.



Kirkjubæjarklaustur og Skaftá sem liðast niður eftir landinu á leið til sjávar.



Séð inn til landsins. Hvítu byggingarnar með rauðu þökunum eru gömlu Kaupfélagshúsin og Sláturhúsið.



Þarna rétt hjá er Sönghellir.



En hann er rýmri og það er hærra til lofts þegar inn er komið.



Hlíðarnar þarna eru skógi vaxnar.



Og minna svolítið á myndir af skógum í útlandinu því ekki er um að ræða einhvern lágvaxinn kjarrgróður heldur alvörutré.



Áin hverfur síðan undir risastóran stein sem einhvern tíma hefur losnað úr hlíðinni fyrir ofan og lokar alveg farveginum.



En vatnið finnur sér alltaf leið.



Og þegar komið er niður fyrir steininn má sjá hvar áin kemur undan honum og seytlar áfram eins og ekkert standi í vegi fyrir henni.



Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra sem áttu að hafa verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust.
Klifurfært fólk kemst upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn.
(Gúgglað af síðu Skaftárhrepps.)




Lómagnúpur úr suðaustri. Myndin er "fengin að láni" af síðu Skaftárhrepps.



En um hádegisbilið var haldið af stað til fjallsins mikla.

Lómagnúpur er 767 m hár uppi á hábungunni, en 
688 m hátt standberg er suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi.  Nokkur augljós merki um berghlaup sjást við þjóðveginn (1790) vestan fjallsins og nýlegri merki sjást í austurhlíðunum (1998).  Líkt og önnur standberg meðfram suðurströndinni, náði sjór upp að Lómagnúpi á ísöld.
Gnúpsins er getið í Njálssögu í tengslum við draum Flosa á Svínafelli, þegar hann sá jötuninn ganga út úr fjallinu.  Jötunninn í Lómabnúpi prýðir skjaldarmerki Íslands.  Hann er einn fjögurra höfuðverndarvætta landsins og ver suðurströndina gegn illum öflum.
(Gúgglað af síðu Skaftárhrepps.)



Hin hefðbundna leið upp á fjallið liggur inn dal vestan við það, en nú orðið er einnig farið að ganga á það að austanverðu.



Síðasti spölurinn er aðeins fær jeppum og betur búnum bílum. 



En svo er lagt af stað.



Það voru alls 23 í hópnum



Fyrst var gangan tiltölulega auðveld. Farið var um grasi og mosavaxnar skriður.



En fljótlega fór þó brattinn að aukast.



Eftir því sem hærra dró jókst útsýnið yfir láglendið..



Það var áð og aðeins kíkt á nestið.



Svo var haldið aftur af stað.



Hærra og hærra.



Og áfram og upp fjallið.



Hér þurfti hjálpartæki.



Því þetta var of bratt á fótinn.



Allt of bratt.



Þessi keðja hefur verið þarna í e.t.v. hálfa öld.



Þeir hugrökkustu fóru fyrst.



Ég var einn af þeim síðustu, en ég tók margar myndir upp eftir klettinum.



Svo var reipi í klettagjá.



Þegar upp á brúnina var komið sást auðvitað bara sú næsta.



Það var áð á ný.



Og aftur var kíkt á nestið.



Og mæðinni kastað.



Maggi sötraði heitt kakó en átti ekkert kex aldrei þessu vant.



Svo var staðið upp og haldið áfram.



Hér hefur eitthvað gengið á fyrir margt löngu.



Hópurinn sem var kominn upp á brún númer 2 sér að það er líka til brún númer 3.



Vonandi er það sú síðasta.



Þegar upp er kimið er útsýnið ólýsanlegt.



Þarna er Hvannadalshnjúkur, hæsti tindur Íslands. Hann er því sem næst þrisvar sinnum hærri en Lómagnúpur sem er þó u.þ.b. 100 metrum hærri en Hólshyrnan svo dæmi sé tekið.



Eftir því sem ég kemst næst heitir skriðjökullinn á myndinni Súlujökull nær, en Skeiðarárjökull fjær.



En við vorum komin upp á fjallið innanvert og því ber að fagna. Síðan var gengið fram á hæstu bunguna.



Og þar stend ég á vörðunni sem segir mér að ég sé í 767 metra hæð yfir sjávarmáli.



Göngufólkið tínist á svæðið.



Og það er alltaf gaman að vera svolítið hátt uppi. Hér sést brúin yfir Sandgígjukvísl.



Og þær eru auðvitað líka á toppnum þessar stelpur eða þannig.



Maggi skoðar umhverfið vel og vandlega og vel græjaður í það.



Aftur er lagt af stað og nú liggur leiðin fram á brún. En þær eru margar brúnirnar og þarna er hendin teigð fram af og mynd tekin niður eftir standberginu.



Það er ekki laust við að maður fái svolítinn fiðring í iljarnar.



Landið fyrir neðan lítur svolítið út eins og landakort.



Upphleypt, í lit og prentað á rándýran pappír af bestu gerð.



Og enn er sest niður og nú fer að verða lítið eftir af nestinu hjá einhverjum.



Það er ekki mjög búsældarlegt landið milli fjalls og fjöru.



Önnur myndataka niður eftir standberginu og niður á dalbotninn. Þó ég sé ekki mjög lofthræddur lét ég þetta ógert. Ef það kæmi nú sæmilegur eftirskjáfti sem næði hingað austur þá eru nokkrar mjög sýnilegar sprungur í klettinum sem legið er á.



Og ég taldi rétt að merkja mér rækilega eins og eina mynd eða svo.



Ég man ekki betur en að Pétur fararstjóri hafi sagt okkur hinum sem minna vitum að þetta héti Tittlingaskarð.



Og enn fleiri myndatökur. Það er óhætt að segja að bjargbrúnin togar í.



Brúin yfir Núpsvötn.



Það er ekki leiðinlegt að sitja og sjá allt flata landið fyrir neðan.



Að endingu vorum við komin fremst á brún Gnúpsins. Þetta er Ingunn sem situr (eða réttara sagt stendur) fyrir á fyrstu myndinni, en hún bjó á Siglufirði í u.þ.b. einn og hálfan áratug.



Síðan kom Grétar ljósmyndari. (Ég held að jhann heiti örugglega Grétar.)



Og svona gekk þetta lengi því allir (sem þora) vilja auðvitað eiga mynd af sér fremst á Lómagnúpnum sem hefur vakað í þúsund sinnum þúsund ár. Fyrir neðan liggur þjóðvegur eitt og margur ferðalangurinn fyllist lotningu þegar hann horfir upp á þetta virðulega fjall.



Ég varð fyrir svolitlu "einelti" vegna skótausins sem var vissulega langt frá því að vera einhver merkjavara.
Hvernig geturðu eiginlega gengið á þessu?



Ég samþykkti eftir myndatöku svolitla umræðu. Þar eru skórnir mínir sem hafa dugað ágætlega til þessa bornir saman við gulu fyrirmyndarskóna hans Péturs. Jú líklega er eitthvað til í þessu og það er líklega nokkuð augljóst að ég er lúserinn á þessum samanburði.



En nú var kominn tími til að halda til baka. Það var farin önnur og svolítið styttri leið og þessi myndarlegi snjóskafl varð á vegi okkar.



Það var ekki gott að fóta sig í harðfenninu.



En eins gott að missa ekki fótanna því þá hefði líklega farið illa.



Giljagaur gæti alveg átt heima í þessu myndarlega gili.



Og nú var aftur komið að keðjunni. Það tók hópinn u.þ.b. klukkustund að feta sig þarna niður. Bara einn í einu og það er ekki farið hratt niður.



Mikilfenglegur staður til að hvíla sig á. - "Frjálst er í fjallasal" o.s.frv...



Litir, lögun og fjölbreytilegi bergsins og raunar umhverfisins alls er með ólíkindum.



Margar myndirnar sem teknar eru á þessum slóðum eru sannkallaðar "póstkortamyndir." Þetta er gilið sem Fjaðrá rennur um á leið sinni til sjávar.



Það má vel gleyma sér yfir þessum ótrúlega arkitektúr náttúruaflanna.



Það er lítill vandi að sjá hinar ótrúlegustu myndir í berginu, en það mun vera sjávarsorfið frá því um eða fyrir síðustu ísöld.



En nú voru skuggarnir farnir að læðast um og degi tekið að halla.



Það var bráðum kominn tími til að kveðja þessa náttúruperlu, þetta einstaka umhverfi og þennan háfjallasal.



Þegar komið var að bílunum var horft um öxl og þá blasti þessi undarlegi foss við okkur. Vatnið rennur fram af brúninni en á leiðinni niður virðist það fjúka út í loftið, breytast í fínan úða sem brýtur sólargeislana og myndar regnbogann sem sést vel á myndinni. 



En þessi frábæri dagur var liðinn, allir komnir í tjaldbúðirnar og sumir farinir að undirbúa grillið. Dagurinn hafði liðið áfram eins og tímalaus og ég áttaði mig á að ég hafði aldrei litið á klukkuna meðan á ferðinni stóð. En þegar að var gáð hafði hún staðið yfir í átta og hálfan tíma frá því að lagt var upp frá Klaustri og þar til komið var þangað aftur.



Það færðist ró yfir mannskapinn



Eitthvað lítilsháttar var "baukað" og "glingrað," en eftir þennan dag var ekki mikil orka afgangs til stórra verka af því tagi. Hér er Maggi á spjalli við Hannes, hinn fararstjórann. En hann er ættaður af svæðinu, þekkir hverja þúfu og er mikill göngugarpur.



Það var skrafað og skeggrætt yfir borðum.



Og goggað í fóðrið.



félagarnir hérna næst á myndinni lögðu sig fram um að útbúa glæsilegt grillfóður með tilheyrandi og fórst það snilldarlega úr hendi.



Hannes fararstjóri sagði nokkur orð og fórst það vel. Hann minntist sérstaklega á skóna mína sem hann lagði til að ég eftirléti ferðafélaginu þegar þeir hefðu lokið "göngu" sinni.



Og kvöldið leið áfram jafn ljúflega og dagurinn hafði gert. Upp úr miðnætti fór hópurinn að þynnast og einn af öðrum tíndist til poka síns eða sængur.



Á sunnudeginum var lagt af stað heimleiðis en staldrað við Fjaðrárgljúfri. Svo undarlegt sem það kann að viðrast, þá eru tvær ár sem heita Fjaðrá og eru ekki langt frá hvorri annarri. Önnur er nokkuð fyrir Austan Klaustur en hin spölkorni vestar.



Við Maggi gengum inn með bakkanum og höfðum því góða yfirsýn yfir þá sem gengu eftir gilbotninum.



Gilið varð dýpra eftir því sem innar dró.



Áfram var gengið og áfram var vaðið.



Fjaðrárgljúfur er meðal stórbrotnustu náttúruundra landsins.  Það er skammt vestan Kirkjubæjarklausturs við Lakaveg / Holtsveg.  Fjaðrá fellur þar fram af heiðarbrúninni í tiltölulega breiðu og hrikalegu gljúfri, sem er vel þess virði að gefa nánari gaum.
Einfaldast er að aka upp með gljúfrinu eftir Lakavegi og ganga síðan niður með því til að skoða móbergsmyndanirnar og höggmyndir náttúrunnar betur.  Það er einnig hægt að ganga upp eftir gljúfrinu, en þá má búast við talsverðu vazli.  Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá.
(Gúgglað af síðu Skaftárhrepps.)




Gljúfrið er u.þ.b. kílómetir að lengd.



Þarna eru margir klettar sem eru margbreytilegir að lögun.



Oft þarf að vað á milli bakka árinnar.



Því er næstum því nauðsynlegt að vera á vaðskóm.



Því vatnið er kalt og grjótið ómjúkt undir iljum.



Þetta er vissulega stórbrotið landslag og rétt við veginn. Samt held ég að margur maðurinn bruni framhjá á seinna hundraðinu án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað þarna er að sjá.


Að lokinni göngunni upp og niður með Fjaðrárgljúfri var heimferðinni haldið áfram. Enn einu sinni var þó staldrað við og nú Hjörleifshöfða. Hægt er að keyra í kring um hann á þokkalegum jeppa, en fólksbílafært er niður fyrir höfðann vestan megin. Því miður varð ég þess þarna áskynja að kortið í myndavélinni var orðið fullt. Það fannst mér slæmt og stefni á að fá nokkrar Hjörleifshöfðamyndir "lánaðar" hjá Magga á næstunni.

Og fyrir þá sem vilja skoða meira eru miklu, miklu fleiri myndir frá þessari ævintýraferð komnar í myndaalbúm, vistaðar í möppu merkt "Lómagnúpur," eða smella á slóðina http://album.123.is/?aid=99829 - nema hvað...

22.05.2008 05:40

Um íslensku SAUÐBÚFJÁRKINDINA.

476. Er ekki kominn tími til að við Íslendingar sem stöndum framar öllum öðrum þjóðum í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur, þróum og nútímavæðum þær afurðir og þá framleiðslu vora sem virðist allavega endrum og sinnum standa höllum fæti í grjóthörðu samkeppnisumhverfi dagsins í dag. Við höfum upplifað þá tíma að lambakjötið okkar með hinu óborganlega fjallalofts og náttúrubragði hefur ekki alltaf verið að seljast sem skyldi. Birgðir hlóðust upp um tíma og voru þær kallaðar kjötfjallið ef ég man rétt. Þá voru tvö fjöll mest, hæst og stærst í landslagi hins Íslenska bændasamfélags, þ.e. umrætt kjötfjall svo og smjörfjallið ógurlega. Nú eru bæði þessi fjöll uppétin m.a. af okkur Frónbúum, Færeyingum og öðru svöngu fólki sem hefur átt fyrir mat sínum. En það sem einu sinni hefur gerst, hlýtur að geta gerst aftur og vísa ég hér með til afbrigðis af lögmáli Murphy´s uppfært á Íslenskt samfélag.

Fyrir nokkrum árum átti sér stað merk tilraun í Japan sem ég mæli með að við lítum til. Þar voru kjúklingar fóðraðir á úrgangi og því sem af gekk úr verksmiðju sem framleiddi karrý. Hugmyndin var sú að framleiða kjúklingakjöt með karrýkeim, því eins og margoft hefur verið sagt: "Þú ert það sem þú étur." Ekki fara þó miklar sögur af árangri þeirra Japana, enda þykir þjóð mun hagkvæmara að stela hugmyndum annarra frekar en að uppdikta sínar eigin. Það sparar líka heilmikið sem lýtur að þróunarvinnu og tilraunastarfsemi svo líklega hafa þeir gefist upp á karrýkjúklingunum. En við Íslendingar erum ekki vanir að gefast upp og það jafnvel þó blási hressilega á móti. Margar af hinum vannýttu auðlindum okkar mætti með svolítilli hugkvæmni breyta í dýrmætan gjaldeyri s.s. evrur, svissneska franka og yen. (Mæli ekki með dollurum um þessar mundir.) Fjallagrösin sem reyndust þjóðinni svo vel þegar hún var horuð og vansæl, langt undir kjörþyngd og hafði danskan kóng, bíða þess að verða nýtt aftur. Söl og ýmis fjörusækinn þaragróður kemur svo auðvitað sterkt inn í myndina og jafnvel Skógarkerfilinn með sínu náttúrulega semi-lakkrísbragði og við þurfum hvort sem er að grisja hressilega í görðum landsmanna. Allt þetta og eflaust miklu fleira mætti hugsanlega nýta til að framleiða lambakjöt með hinum ýmsu bragðtegundum og hver veit nema þetta gæti orðið okkar næsta stóriðja.

Ullariðnaðurinn hefur sem kunnugt er átt undir högg að sækja en það hljóta að vera til einhver ráð við því. Íslenskt sauðfé hefur hingað til verið ræktað þannig að hinir ýmsu kostir þess hafa með tímanum komið enn betur fram en áður var. Getur ekki verið að það sé einnig hægt að rækta í það t.d. fleiri liti en það sem við þekkjum í dag sem íslensku sauðalitina? - Ég bara spyr?

14.05.2008 17:46

Siglfirðingaball.

Nokkrum sýnishornum af ballinu bætt við þann 20.maí.



475. Ekki þykir mér annað við hæfi en að bæta við nokkrum völdum sýnishornum af ballinu. Sum eru kannski enn meira sérvalin en önnur, en vonandi sleppur þetta allt svona móralslega fyrir horn. Myndirnar tala sínu máli og þurfa því lítilla skýringa við.











































Ekki voru allir bornir og barnfæddir Siglfirðingar sem þarna voru. Hér er tenginginn maður sem er ættaður frá Sigló, honum fylgir svo kona úr Reykjavík, þá vinkona hennar úr Breiðholtinu og síðan vinur hennar sem er Portúgali. Þá er vissulega farið að teygjast svolítið á þessu.



Þessi tvö fylgdust af miklum áhuga með því sem fram fór, en eru að öllum líkindum ekki að norðan. Alla vega man ég ekki eftir þeim þaðan.

En miklu fleiri myndir af ballilnu er að finna í myndaalbúmi í möppu merkt Catalina.

Eftirfarandi var svo skrifað þann 14. maí.



Það hefur oft komið til tals
meðal nokkurs hóps Siglfirðinga sem búa sunnan heiða og hafa staðið fyrir hljómsveitarútgerð og dansleikjahaldi á ýmsum tímum, að koma saman annað hvort fyrir norðan eða sunnan og taka nokkur lög sér og öðrum sveitungum til skemmtunar. Oftar en ekki hefur viðkvæðið verið: "Jæja, nú förum við að gera eitthvað í málinu," en síðan líða ár og dagar og frasinn er svo endurtekinn næst þegar menn hittast. En að þessu sinni myndaðist einhver pressa á framkvæmdina, yfirlýsing var gefin út og dagsetningin ákveðin. Þannig var búið um hnútana að tæplega var hægt að hætta við, fresta málinu eða bakka út úr því nema vera heldur minni maður á eftir. Samkoman er hugsuð með svipuðu sniði og var norður á Sigló í Allanum um páskana fyrir fáeinum árum þegar Svavar rak þann ágæta stað. Stefnan hefur verið sett á skemmtistaðinn Catalinu við Hamraborg í Kópavogi næstkomandi laugardag eða þ. 17. maí.

Dansleikur hefst laust fyrir miðnætti, en eftir svolitla upphitun stíga á svið Siglfirðingarnir Selma Hauksdóttir, Magnús Guðbrandsson, Leó Ingi Leósson, og Kristbjörn Bjarnason.



Maggi Guðbrands...



Leó Ingi...



Kristbjörn Bjarna, og Eyþór að greinilega að syngja millirödd af mikilli innlifun...



Selma Hauks...



Dúóið Vanir Menn leikur síðan fyrir dansi. Það er frítt inn og eru Siglfirðingar á suðvesturhorninu hvattir til að nota tækifærið, hittast og skemmta sér saman.



Steingrímur Stefnisson og Sigríður Samsonardóttir eiga og reka staðinn, en fyrir þá sem ekki vita er Steingrímur sonur Stefnis Guðlaugssonar sem bjó á Eyrargötu 22 á Siglufirði fyrir allmörgum árum.



Samkvæmt síður en svo óbrigðulu minni mínu var það annað hvort árið 2002 eða 2003 sem stormað var norður um páskana og slegið upp balli í Allanum hjá Svavari. Dúóið Vanir Menn sem þá var skipað þeim sem þetta ritar auk gítarleikaranum Eþóri Stefánssyni, fékk mikinn og góðan liðsauka. Hér að ofan er það Selma Hauks sem þenur raddböndin.



Gummi Ingólfs söng líka um rauðu sokka rabbarbarans.



Kristbjörn (Stubbi) Bjarnason í hreint ótrúlegum stórsöngvarastellingum.



Biggi Ölmu söng Creadence Clearwater eins og honum er einum lagið.



Rabbi Erlends söng bæði einn og svo dúetta með Selmu.
(Myndin er reyndar fengin að láni hjá Steingrími.)



Ég var hins vegar vel geymdur á bak við hljómborðsgrindina.

Skrallið var svo endurtekið árið eftir, en þá átti Rabbi því miður ekki heimangengt. Í staðinn mætti Gauti Sveins með svört sólgleraugu og söng m.a. um Jamison við mikinn fögnuð ungra meyja sem þyrptust að sviðinu, föðmuðu fætur hans í endalausri hrifningu og höfðu hátt. En mér hefur því miður ekki tekist að grafa um neinar myndir frá þeim atburði. - Slíkar væru hins vegar vel þegnar.



Það var svo í október 2004 að 1978 útgáfan af Miðaldamönnum kom saman alveg eins skipuð og 26 árum áður. Þá eins og þarna var hún mönnuð talið frá vinstri: Leó, Gummi Ragnars, Selma Hauks, Biggi Inga og Maggi Guðbrands.

11.05.2008 03:50

Saga af vini mínum. - Hártogun.



474. Einn vinur minn
á langan og viðburðarríkan tónlistarferil að baki og er reyndar enn að. Hann sagði mér á dögunum frá einu af fjölmörgum skondnum atvikum sem hann hefur upplifað á hljómsveitarpallinum, en hafði engin orð um að þau mættu ekki fara lengra. Og áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að það komi fram að á þeim tíma sem uppákoman átti sér stað, var hann með allt að því óeðlilega mikið sítt ljóst og liðað hár sem hann hirti líka með eindæmum vel. Hann var að spila á sveitaballi austur í Rangárvallasýslu fyrir allmörgum árum með þáverandi félögum sínum og nokkuð var farið að líða á kvöldið. Það var alveg rífandi stemming en óvenju mikið um ölvun. Rétt hjá sviðinu sátu nokkrir ærslabelgir og höfðu hátt. Þeir supu drjúgt á, stungu saman nefjum, ráku upp miklar hlátursrokur og bentu stundum í átt að hljómsveitinni. Enn líður nokkur tími og færast þeir allir í aukana í réttu hlutfalli við magn þess sem þeir innbyrða af eldvatninu sem nóg virtist vera til af. Vinur minn sér þá hvar einn þeirra stendur upp en hinir virðast hvetja hann óspart til dáða. Sá sem upp stóð gengur að pallinum og allur hans svipur ber vott um að hann eigi þangað brýnt erindi. Hann bíður hinn spakasti eftir að lagið klárist en að því loknu gefur hann umræddum vini mínum merki um að hann vilji eiga við hann orð. Sá lýtur þá niður að gestinum og á helst von á að hann hafi einhverjar hugmyndir um óskalag, kveðju fram í sal eða skilaboð af einhverju tagi. En þá bregður svo við að gesturinn rífur af afli í hár hans með báðum höndum og togar fast í. Vinur minn æpir upp skelfingu lostinn eins og stunginn grís og er alveg frávita af sársauka, því hann er og hefur alltaf verið með afbrigðum hársár. Við þessi viðbrögð verður gesturinn engu minna skelfdari og sleppir takinu hið snarasta. Hann stendur grafkyrr svolitla stund og starir uppglenntum augum á hár vinar míns sem er þó enn á sínum stað en komið í hina mestu óreiðu, en tekur síðan á rás fram salinn í átt til dyra. Félagar hans sem sitja við borðið voru búnir að setja sig í einhverjar sérstakar stellingar og virtust vera albúnir að fagna einhverju sem ekki varð, urðu allt í einu lítið annað en augun og skórnir. Eitthvað hafði gerst sem ekki átti að gerast, eða þá að eitthvað hafði ekki gerst sem átti að gerast. Fljótlega eftir atburðinn tíndust þeir einn af öðrum svolítið skömmustulegir úr sætum sínum og fundu sér annað borð eins langt frá hljómsveitinni og mögulegt var. Ekki urðu nein eftirmál af verknaðinum, hljómsveitin hélt áfram að spila eins og lítið sem ekkert hefði gerst og gestirnir héldu áfram að skemmta sér hið besta.

En skýringin á þessu undarlega athæfi barst spilurunum til eyrna síðar um nóttina, um það leyti sem flestallir voru farnir annað hvort í næsta partý eða til síns heima, hljóðfærunum hafði verið pakkað saman og voru á leið út í bíl. Húsvörðurinn gekk glottuleitur til strákanna og sagði þeim söguna, en þeim fannst hún með ólíkindum fyndin svona eftir á og hlógu þeir mikið undir frásögninni, allir nema einn þeirra sem varð eitthvað svo undarlega rjóður í kinnum. Hann sagði fátt og sá alls ekkert fyndið við söguna, en það voru vissulega ástæður sem lágu að baki hinu skerta skopskyni hans hvað þetta einstaka mál varðaði. Hann strauk sér varlega um hárið og klappaði létt ofan á kollinn á sjálfum sér um leið, líklega alveg ómeðvitað rétt eins og hann væri kominn með einhvern alveg splunkunýjan kæk.

Þannig var að það hafði spurst út að alveg áreiðanlegar heimildir væru fyrir því að einhver hljómsveitarmeðlimanna væri með hárkollu. Og það var einmitt það sem strákarnir við áðurnefnt borð voru að gaspra um og reyna í leiðinni að reikna út hver væri nú líklegastur til að vera kolluberinn. Eftir miklar umræður og skoðanaskipti komust þeir að þeirri niðurstöðu að vinur minn með sitt óeðlilega mikla, síða, ljósa og liðaða hár, hlyti að vera rétti maðurinn. Og nú skyldi gera svolítið sprell, rífa upp móralinn og hleypa svolítið meira fjöri í skrallið. Einn var því gerður út af örkinni eða kannski öllu heldur út af borðinu. Átti hann að fara upp að hljómsveitarpallinum, ná meintri hárkollu af höfði vinar míns, hlaupa með hana út í sal og skilja hann eftir á sviðinu með beran skallann fyrir allra augum. Hinir biðu svo alveg yfir sig spenntir eftir að sjá hver viðbrögðin yrðu.

En þau urðu bara ekki í samræmi við væntingar af nokkurn vegin alveg augljósum ástæðum...

09.05.2008 16:02

Vegurinn að heiman er vegurinn heim.



473. Enn og aftur var ég á leiðinni norður á Sigló. Það var strekkingsvindur hér syðra þegar lagt var upp og bíllinn sem ég ók fram hjá á Kjalarnesinu hafði sennilega fokið út af veginum og því var eins og áminning um að fara varlega. Að vísu var ekki mikil hætta á að ég færi of greitt á Micrunni með 1.275 lítra vélinni, en samt...

Utan á bílnum sem var kyrfilega skorðaður af ofan í skurðinum stóð; "ALLT FYRIR GÓÐAN SVEFN OG BETRI HEILSU." Ætli ökumaðurinn hafi kannski dottað undir stýri en fyrir einskæra heppni sloppið við heilsutjón?



Á Almenningunum vestan við Siglufjörð var greinilega nýlega búið að bera ofani í misgengi á veginum. Þetta sem hér sést er þó með allra minnsta móti, en stundum er eins og vegurinn hafi verið klipptur í sundur og hlutarnir standast þá engan vegin á. Hlutar hlíðarinnar í fjallinu síga smátt og smátt neðar og neðar og vegurinn auðvitað með. Fram hefur komið sú kenning að undir jarðveginum sé klöpp og eftir henni seytli vatn sem flytji vatnssósa jarðveginn með sér til sjávar. Stórfellt úrfelli gæti við vissar aðstæður orsakað aurskriðuhlaup úr fjallinu sem myndi þá breyta landslaginu  í einni svipan og hreinsa m.a. veginn í burtu og jafnvel fram í sjó. - Eins gott að vera ekki á ferðinni þann daginn.



Enn og aftur verða leifarnar af bryggjunni út af Hafliðaplaninu myndefni sem dregur að sér athygli mína. Þær eru eins og minnisvarði um liðna tíð þegar allt var í blóma og smjör draup af hverju strái, eða kannski er réttara að segja síld var í hverju bjóði. Ég fæ alltaf svolítið nostalgíukast þegar svona ber fyrir augu.


(Úr ljósmyndasafni Steingríms.)

Sú var tíðin að í "gullgrafarabænum" var meira að gerast á þessum slóðum en .þeir sem ekki þekkja munu nokkru sinni getað ímyndað sér.


(Úr ljósmyndasafni Steingríms.)

Þessi mynd er væntanlega tekin um eða upp úr 1973 því á henni er verið að byggja frystigeymsluna við væntanlegt frystihús Þormóðs Ramma, en Rauðkuverkstæðið þar sem Halli Þór réð ríkjum stendur enn. Hafliðaplanið er greinilega farið að láta verulega á sjá og virðist miðja þess vera fallin að mestu. Enn stendur hluti Rauðkuverksmiðjunnar vestan við Slippinn, en mestur hluti hennar var rifinn árið 1972. Þá stendur enn hús Haraldar Böðvarssonar & co á svipuðum slóðum og Fiskmarkaðurinn er núna, en á þessum vestasta hluta Hafnarbryggjunnar rak það fyrirtæki söltunarstöð. (Leiðrétting óskast ef ég er að villast í sögunni.)



Slippurinn hefur fengið nýtt og annað hlutverk fyrir löngu, löngu síðan og sleðinn hefur líklega ekki runnið mikið til sjávar undanfarinn ár. Karlarnir eru fyrir löngu hættir að kalfatta, teinarnir komnir á kaf í möl og þannig hefur það eflaust verið um langa hríð. Ég man samt að verulegar endurbætur voru gerðar á Dráttarbrautinni sumarið 1976, bæði ofan sjávar og neðan. Ég var nefnilega tíður gestur á staðnum, bæði til að fylgjast með framkvæmdunum og svo þurfti ég líka stundum að hitta á Bjössa Birgis sem vann við verkið en við spiluðum saman hluta af því sumri.



Annar minnisvarði um fortíðina er búinn að hvíla sig lengi á búkkunum við hliðina á sleðanum. Hvað skyldi þessi fleyta eiga eftir að vera þarna lengi og með hvaða hætli ætli hún hverfi á braut þegar hennar tími kemur?


(Ér ljósmyndasafni Steingríms.)

Þarna stendur Gránuverksmiðjan því sem næst á sama stað og frystiklefinn er núna. Sunnan við Gránu eru tankarnir sem Dagný dró fram af Hafnarbryggjunni og var síðan fleytt eitthvað langt í burtu. Norðan við (lengst til hægri á myntinni) Slippinn má svo sjá í Hafliðaplanið sem á þessum tíma hefur líklega verið í ágætri hirðu.



Hér tengjast svo nútíð og fortíð. Hinn eldrauði og endurgerði Roaldsbrakki er að mínu viti hið eiginlega Síldarminjasafn, en nær er svo Síldarbræðslan og þá Báthúsið. Nýju húsin sem byggð voru utan um söguna munu vonandi varðveita hana meðan byggð helst á þessum slóðum.



Þegar ég ók upp Gránugötuna tók ég eftir þessum stórskemmtilega "skúlptúr" og velti fyrir mér hvaða dýpri merkingu hann gæti haft.

En nú var kominn tími til að halda suður á bóginn.



Það var staldrað svolitla stund við Höfðavatn sem virtist vera í þann veginn að losna undan vetrarísnum, en svokallaðir "hungurdiskar" flutu um vatnið þó þeir sjáist ekki mikið á myndinni. En einhvern tíma skal ég klifra upp í fjöllin þarna fyrir ofan og ná betri mynd af Málmey.




Upp kom sú hugmynd að fara svolítinn aukakrók og aka í gegn um Hofsós, en það er orðið fátítt hin síðari ár. Og auðvitað varð Drangey sem er eitt af aðalkennileitum Skagafjarðar eins og alþjóð veit að fá að vera með á myndinni.



Það tekur sig vel út Vesturfarasafnið á Hofsósi þegar horft er yfir það af brekkubrúninni fyrir ofan. Það er eftir því sem ég hef fregnað annað mest sótta safn utan höfuðborgarsvæðisins á eftir Síldarminjasafninu. Þar inni var ekkert lífsmark svo ekki reyndist þetta vera dagurinn til að skoða það.



Í þessu húsi eru bersýnilega tvær íbúðir og sýnilega bendir fátt til þess að íbúar hússins hafi sömu skoðanir á því hvernig hlutirnir eiga að vera.



Nú orðið liggur leiðin milli höfuðborgarsvæðisins og Siglufjarðar oftar en ekki um Þverárfjall í stað Vatnsskarðs og er því enn styttra út á Skagaströnd en áður. Það var lögð önnur lykkja á leiðina og staldrað ögn við í þorpi kúreka norðursins.



Meðan rölt var í fjörunni fyrir sunnan þorpið sigldi þessi litla skekta hjá svo til alveg upp í harða landi eins og sjá má.



Sennilega hefur þetta hótel orðið undir í samkeppninni um gesti.



Sá sem er vanur að leggja í stæðið þarna undir húsveggnum ætti kannski að láta kíkja á bremsurnar á bílnum sínum. Dældin inn í húsvegginn er eiginlega mun meiri en myndin sýnir.



Þessi Tótemsúla stóð úti í garði við eitt húsið. Ætli það séu eitthvað af Indíánum á Skagaströnd?



Út við ysta sæ, blómstrar staður einn,
komdu í Kántrýbæ, komdu og líttu inn,
sæll þar sí og æ, sértu hýr á kinn,
komdu í Kántrýbæ, komdu vinur minn.

Já komdu í Kántrýbæ,
já komdu vinur minn,
komdu og líttu inn,
því þú ert velkominn.

Þegar Skagaströnd var kvödd varð auðvitað að skjóta einu lausu skoti eða svo í átt að Kántrýbæ þar sem nú er allt harðlæst og lokað.

En svo var haldið suður bóginn.

07.05.2008 05:26

Málningarvinna.



472. Meðan Magga dvaldi norður á Sigló, nærðist á skyri og vaskaði upp teskeiðar, fékk ég þá flugu í höfuðið að mála baðherbergið hér syðra sem var alveg komið á tíma. Hér í eina tíð var eiginlega komin hefð á að þegar hún fór í sitt svo til árlega "húsmæðraorlof," var eitt herbergi tekið fyrir á meðan og það málað hátt og lágt. Þessari hefð hefur verið ágætlega við haldið þau ár sem að baki eru, og ekki stóð til að breyta neinu í reglugerðarverkinu að þessu sinni. En þar sem herbergi, aðgreind rými, vistarverur eða hvað við viljum kalla það eru alls átta í íbúðinni að öllu meðtöldu, ætti hún því að vera máluð frá a til ö á u.þ.b. átta ára fresti samkvæmt þessari aðferð. Það hefur nokkurn veginn alveg gengið eftir.



Það hefur komið í minn hlut og fylgt framkvæmdinni að velja og bera alla ábyrgð á litavalinu, en að þessu sinni verður að viðurkennast að á þeim þætti  málsins var tekið með nokkurri léttúð. Það var nefnilega hafist handa á fimmtudegi (1.maí og uppstigningadegi í ofanálag) þegar alls staðar var lokað þar sem málningu var að hafa. Ég lagði því leið mína í geymsluna þar sem marga og misgamla afganga var að finna frá liðnum árum í þeirri von að eitthvað hentaði í umrætt verkefni. En þar sem eiginlega ekkert var til af heppilegum litum í nægjanlegu magni, var brugðið á það ráð að fara þá leið sem er vel við hæfi á krepputímum.

Ég hafði í flestum tilfellum merkt lokin með hinum ýmsu nöfnum og rifjuðust upp nokkur gömul handtök og uppákomur við lesturinn. "Baldursgata stofa," "Báru-bleikt," "Bláa herb. við Njálsg.," "Hvst-veggir (Hvst stendur fyrir Hallveigarstíg)" "Stofurautt," "Símahvítt," o.s.frv. Þess má geta að "Síma-hvítt" er ekki beint nafnið á litnum, heldur kom það til vegna þess að ég missti gemsann úr brjóstvasanum ofan í 10 lítra málningarfötu þegar ég laut yfir hana. Ég kafaði strax eftir símanum og þreif hann í skyndi með öllum tiltækum og að talið var skynsamlegum ráðum, en það er annars af honum að segja að hann er enn í fullri notkun og þjónar herra sínum og eiganda með stakri prýði. 



Ég byrjaði á loftinu og tíndi til alla þá málningu sem var frá "Kópal," helti henni saman og úr varð liturinn sem fór á loftið. Því næst hrærði ég saman þá afgangana sem eftir stóðu, en sleppti að vísu tveimur að eðlilegri ástæðu að mér fannst. Annar var hárauður, en hinn var dökkgrænn. Eftir heilmikla hrærivinnu með grautarsleif var kominn liturinn sem nota skyldi á veggina og þar sem pensill og rúlla var orðin vel þurr og þrifaleg eftir þvott og hreinsun frá fyrri áfanga var auðvitað ekki eftir neinu að bíða.

Og að lokum þegar litið er yfir verkið verð ég að segja: Alveg ótrúlegt hvað litasamsetningin heppnaðist (að mínu mati) með eindæmum vel miðað við blöndunaraðferðina og ekki varð úr einhver "ólitur."
HEPPINN...



VIÐBÓT: Mynd samkvæmt áskorun (mín millilínalesning) og eindreginni ósk frá Gunnari Th. sem sýnir umrædda litasamsetningu.

30.04.2008 20:55

Fyrsta fjallganga ársins.



471. Þegar degi tók að halla föstudaginn 18.apríl  s.l., var lagt af stað norður á Sigló. Fyrir mig átti þetta að vera helgarferð á heimaslóðuim en Magga ætlaði að verða eftir um óákveðinn tíma í húsmæðraorlofi eins og hún kallaði það. Hún gaf út þá yfirlýsingu að nú yrði skyr í alla mata a.m.k. fyrstu vikuna og hún myndi vaska upp að hámarki tvær teskeiðar á dag. - Rétt er að láta þess getið að ágætt bókasafn er á staðnum.



Myndirnar tvær hér að ofan eru teknar af brúnni yfir Blöndu, eða nánast af hlaðinu hjá Blönduóslöggunni stórvarasömu. Vel má sjá fjöllin á Ströndunum þar sem þau standa upp úr haffletinum hægra megin.



Hér má sjá Drangey standa aðeins upp fyrir gömlu aflögðu og einbreiðu brúna á Héraðsvötnum vestari. "Kvöldroðinn bætir, morgunroðinn vætir" stendur einhvers staðar og víst er að sá fyrrnefndi bætti útsýnið norðan heiða svo um munaði þetta kvöld.



Daginn eftir voru teknar margar myndir af Síldarbænum, enda veðrið til þess eins og sjá má. 



Það var ekki fyrir nokkurn mun hægt að loka sig inni á slíkum degi. Óhætt er að segja að sjórinn hafi verið spegilsléttur í víðtækustu merkingu þess orðs.



Það fjaraði á Leirunum og nokkrir fiðraðir trítlarar og svamlarar ýmist flutu þar um eða spígsporuðu um í leit að æti. Ef vel er að gáð sjást "hús" sandmaðkanna standa lítillega upp úr yfirborðinu.



Ég komst samt ekki hjá því að gjóa augunum annað slagið upp eftir Stórabola og hlíðum Hafnarfjalls. Það var nú líklega allt of mikill snjór til að fara að príla í fjöll ennþá, en samt var nú melurinn fyrir sunnan Strengsgilið auður alla leið upp á brún.



Og svo er þessi gríðarlega breyting á landslaginu fyrir ofan bæinn sem ég á svolítið erfitt með að venjast.



Og líklega væri engu logið upp á himinninn ef sagt væri að hann væri frekar blár þennan frábæra dag.



Eitt af betri skotstæðunum (fyrir myndavélar) er fyrir ofan Jóhannslund í skógræktinni.



Ef það er snjór, gott veður og Ríkið er lokað, verða að teljast yfirgnæfandi líkur á að Ómar Möller sé úti að moka snjó.



Ég skrapp upp á Skarð og undraðist mjög hve þar var fámennt miðað við að aðstæður til skíðaiðkunnar voru tvímælalaust með allra besta móti. Ég hallast því að þeirri skoðun sem fram hefur komið að skíðasvæðið á Siglufirði sé undarlega vel varðveitt leyndarmál sem full ástæða væri til að láta vita betur af.



Á brúnni yfir Skútuá sat hann þessi og var hinn rólegasti meðan ég mundaði myndavélina.



Ég lagði bílnum við rætur Stórabola og rölti upp í fjallið sunnan við Strengsgilið. Ég var þar með lagður af stað í fyrstu fjallgöngu ársins, en þó án þess að gera mér fyllilega grein fyrir því til að byrja með. Ég ætlaði í fyrstu aðeins að rölta svolítið upp í hlíðina til að ná nokkrum góðum skotum í blíðunni og það lá auðvitað beint við að byrja á Hólshyrnunni.



Útsýnið yfir fjöllin austan fjarðarins og inn af honum varð betra eftir því sem ofar dró



Fyrir miðjum Hólsdalnum rís Blekkill (776 m.), tignarlegt fjall sem ég hef oft litið vonaraugum til. Einhvern tíma verður það gengið, en líklega er skynsamlegt að bíða eftir að snjóa leysi. Ég man óljóst eftir að hafa heyrt einhverjar gamlar sagnir um mannskaða í fjallinu og ef einhver veit meira um það væru frekari upplýsingar vel þegnar.



En lítið sást til bæjar því Stóriboli byrgði sýn. Það var því ekki um annað að ræða en halda aðeins ofar. Það var einhvers staðar þarna sem ég velti fyrir mér hvort þetta væri rétti dagurinn til að fara alla leið upp á Hafnarhyrnuna, en hún er búin að vera ofarlega í huga undanfarið. Ég fann að ég var ekki í sérlega góðu formi, en skítt með það. Alla vega 20 - 30 metrar í viðbót.



Þarna var orðið mjög bratt og mér fannst eiginlega vera nóg komið í bili. Þetta var líklega ekki mjög skynsamlegt og ég búinn að vera full slakur til hreyfings mánuðum saman. En ég afréð að bæta við 20 - 30 metrum og sjá svo til. Ég var líka kominn upp fyrir Stórabola og fyrir ofan mig mátti sjá klettana sem kallaðir voru Tröllakirkja a.m.k. á Brekkunni hér í eina tíð.



Þarna fyrir sunnan eru líka klettar. Gaman væri að skoða þá aðeins betur við tækifæri, en það yrði þó ekki gert í þessari ferð. Ég var í raun alveg búinn að fá nóg en bætti samt við öðrum 20 - 30 metrum.



Ég var nú kominn jafnhátt Tröllakirkju og það var orðið mjög stutt upp á brúnina. Svo stutt að það var auðvitað með engu móti hægt að snúa við úr þessu. Áfram skyldi þá haldið.



Af brúninni var nú hægt að sjá Eyrina og bæinn að mestu.



Þegar ég segi "af brúninni" er ég að tala um brún Leirdala sem eru fyrir ofan Fífladali.



Nú blasti Hafnarhyrnan við í öllu sínu veldi, en hún er nyrsti hluti Hafnarfjalls.



Skuggarnir voru farnir að lengjast niðri í firðinum en hérna uppi var enn glampandi sól.



Þessi kassi varð á vegi mínum þarna uppi á reginfjalli, rétt eins og hluturinn "sem stingur í stúf" í einhverju súrrealísku verki.



Ég varð auðvitað að gá hvað væri í honum. Og viti menn, þarna var fullt af einhverju torkennilegu dóti sem sumt var merkt Veðurstofu Íslands.



Það var allt á kafi í Leirdölunum og byrjað að myndast þunnt hjarn ofan á snjónum. Samt var ágætt að ganga og ég sökk sáralítið ofan í snjóinn sem var alveg passlega þéttur í sér.



Hnjúkarnir austan fjarðarins teygðu sig í mikilfengleika sínum upp fyrir brúnina.



Í suðri kom Illviðrishnjúkur betur og betur í ljós eftir því sem ofar dró.



Lítilsháttar klettapríl framundan.



Og áfram gakk.



Illviðrishnjúkur var nú orðinn allvel sýnilegur og það rifjaðist upp að þangað kom ég ásamt nokkrum samferðungum fyrir u.þ.b. 40 árum. Það fer líklega að verða fljótlega kominn tími á hann aftur.



Ég var nú kominn langleiðina upp og sá nú vel ofan í Hvanneyrarskálina. Fyrir norðan hana er svo fjallið Strákar sem ég heyrði fyrir stuttu að hefðu í eina tíð heitið Strókar. Það var freistandi að ganga brúnirnar í kring um Hvanneyrarskálina og á Strákafjall, en ég vissi að tíminn myndi líklega hlaupa frá mér einhvers staðar á leiðinni og það yrði orðið dimmt áður en þeirri göngu lyki.



Út á Siglunes



Ysta hluta snjóflóðavarnargarðanna og Ströndina.



Húsin í bænum voru eins og kubbahús og ökutækin eins og litlir leikfangabílar.



Ég var nú kominn upp fyrir svolítð klettabelti í Hafnarhyrnunni.



Og framundan var svo hæsti tindurinn, - og þangað hélt ég auðvitað.



Takmarkinu var náð. Fyrir vestan mig eru lág fjöll upp af Leirdölum sem erui ekki sýnileg neðan úr bæ. En af toppnum er því sem næst þverhnípi niður í botn Hvanneyrarskálar. Ég gægðist fram af brúninni en var fljótur að bakka því ég var ekki viss nema ég stæði á snjóhengju.



Illviðrishnjúkur (895 m.) enn og aftur. Lengi vel hélt ég að hann væri hæsta fjall við Siglufjörð og því halda enn margir fram, eða þar til ég vissi að Almenningshnakki væri 915 m. En hnjúkurinn er miklu flottari...



Það er ekki oft sem maður getur litið niður á kollinn á Hólshyrnunni (683 m.), en það er alveg hægt frá Hafnarhyrnunni. (687 m.)



Fjöllin austan Héðinsfjarðar gægjast upp fyrir Kálfsdalinn og nágrenni. 



Og það skín enn sól úti á Siglunesi.



Það er komið kvöld og tímabært að fara að hugsa til heimferðar. Þarna niður frá er Norðurtún, en hún er syðsta gatan á Siglufirði svo öfugsnúið sem það er. Hverjum datt þessi nafngift í hug?



Héðan sést líka ágætlega út á Skagafjörð. Vegurinn á myndinni er beygjan undir Mánárskriðum.



Og rétt er að leggja fram óræka sönnun þess að ég fór þarna um í raun og veru en fékk ekki myndirnar lánaðar hjá einhverjum sem ekki vildi láta narns síns getið. En það má hins vegar glögglega sjá að það er orðin full þörf fyrir meiri hreyfingu eftir súkkulaðitímabilið mikla.



Leiðin niður af toppnum til vesturs.



Og svo til suðurs niður að Blýkerlingamel.



Og aftur er slóðin mynduð, en í þetta sinn fékk skugginn ekki að vera með á myndinni.



Ég kvaddi með svolítilli eftirsjá því ég hefði viljað vera þarna miklu lengur.



Hér hallar annars vegar niður til Siglufjarðar en hins vegar til Úlfsdala.



Það gerðist kvöldsettara og ég stillti myndavélina á "sunset" og tók nokkrar myndir á móti sól.



Mánárhyrna - Mánárskriður.



Hvergi sá á dökkan díl í Leirdölunum og ég fór einu sinni hálfur á kaf á leiðinni. Líklega hefur einhver gjóta verið undir snjóskaflinum, en ég kraflaði mig upp á hélt áfram.



Hér var ég kominn á svipaðar slóðir og fyrir ári síðan þegar ég lenti í sjálfheldu þarna við snjóflóðavarnirnar fyrir ofan Fífladal og nokkrir hrafnar voru farnir að krunka í kring um mig og virða mig fyrir sér.



Ég fór að þessu sinni niður norðan Strengsgils og eftir Stórabola.



Ég var eiginlega búinn að fá alveg nóg í dag, klukkan var að verða 10 þegar ég kom í hús og ég gerðist sjónvarps og sófadýr þá stuttu stund sem eftir lifði kvölds.



Klukkan hálftíu á sunnudagsmorgni skrapp ég niður á bensínstöð og hitti þar fyrir vin minn Steingrím (Lífið á Sigló). Ég sagði honum frá ferðalaginu frá því deginum áður og við sátum á tali (og mali) fram undir hádegi.



Og eitt skot í viðbót af Hólshyrnunni og því sem enn stendur af Hafliðaplaninu frá fjörunni við bensínstöðina.



Það var kominn mánudagur og ég var á leiðinni úr bænum. Það er sennilega ekki algengt að skólabörnin fjölmenni á pöbbinn í hádeginu, en í þessu tilfelli er það fullkomlega eðlilegt. - Þau eru nefnilega svöng.

Ég rakst áðan á línurnar hér að neðan þegar ég var að leita að gömlum myndum í möppu frá síðasta ári, en þær hef ég sett í ploggpistil þ. 11. maí í fyrra.

Ég var á dögunum að gera svolítinn óskalista yfir þá staði sem mig langar að heimsækja í sumar, og eftir nokkrar vangaveltur varð til eins konar topp-tíu listi.

Hólshyrnan (hressilegur labbitúr með Steingrími og myndavélunum okkar.)
Héðinsfjörður yfir Hestsskarð (en þangað hef ég aldrei komið.)
Illviðrishnjúkur (því ég átti enga myndavél síðast þegar ég fór)
Selvík og Kálfsdalur (sem þangað kom ég síðast fyrir 40 árum.)
Hafnarfjall (til að ná góðri mynd af Borgarnesi.)
Akrafjall (til að ná góðri mynd af Akranesi.)
Esjan (til að geta sagt að ég hafi farið þangað upp, og til að ná góðri mynd af Reykjavík.)
Reykjaneshringurinn (því það er fulllangt síðan síðast.)
Virkjanaleiðin upp eftir Þjórsá (til að telja hvað virkjanirnar eru margar, eða til að reyna að átta sig á hvað þær gætu hugsanlega orðið margar.)
Vík og Mýrdalurinn ásamt næsta nágrenni (því þar er bæði landið fagurt og fólkið gott.)

 Eins og gengur rætast ekki allar spár, óskir eða villtustu draumar og í þessu tilfelli væri e.t.v. hægt að tala um 40 - 50% "rætingu" með því að búa sér til sértæka reiknireglu að aðlaga hana síðan sinni hugmyndafræði.

Hólshyrnan var gengin, en að vísu án Steingríms sem fylgdist vel með okkur Magga af svölunum hjá sér og náði ótrúlegri mynd af okkur á toppnum úr 7 km. fjarlægð.
Héðinsfjörður var að vísu sigldur en ekki genginn, en nóg var nú gengið samt þegar þangað var komið. Frábær ferð daginn eftir Hólshyrnuna í fylgd góðra manna.
Illviðrishnjúkur varð ekki klifinn að sinni, en það komu í leitirnar myndir sem teknar voru í ferðinni fyrir 40 árum. Ég mun nálgast þær innan tíðar og flagga þeim hér á síðunni.
Selvík og Kálfsdalur (ásamt Reyðarárdal og Siglunesi) átti að gangast í ferðinni með Önnu Maríu þegar hún varð fimmtug, en þar sem ég hafði þá nýlega snúið undir mér löpp við fjallapríl í Hrómundartindum varð ég að taka það rólega í nokkrar vikur.
Framtaks og tímaleysi urðu til þess að ég gekk ekki á Hafnarfjall og Akrafjall.
En Esjan var farin tvisvar og þá sitt hvor gönguleiðin í hvort skiptið. Fyrst svokallaðar Smáþúfur, en síðan Þverfellshornið sem er langmest gengin.
Reykjaneshringurinn var farinn tvisvar, en aðeins að hluta í hvort skipti og enn vantar nokkra kílómetra upp á að honum hafi verið alveg lokað.
Virkjanaleiðin gleymdist hins vegar alveg og hefur ekki komið upp í hugann fyrr en nú þegar ég las þessar línur aftur ári síðar.
Heill dagur var tekinn í skoðun á Vík og Mýrdalnum, en það dugði hvergi til. Reyndar fór talsverður tími í skoðun ýmissa merkra staða á leiðinni en ljóst er að fara þarf aftur í sumar til að komast lengra áleiðis í því verki.

En nýr topptíu listi fyrir árið í ár gæti litið einhvern vegin svona út...

Frá Hestskarði upp á Hestskarðshnjúk, þaðan niður eftir fjallsbrúninni til norðurs og upp á Staðarhólshnjúk. Síðan áfram til "norðurs og niður" og upp á Hinrikshnjúk, en þaðan niður í Kálfsdal, Selvík og bakkana og fjöruna inn að Ráeyri..
Siglufjarðarskarð - Hólsskarð. Ekið upp í Skarð og gengið þaðan yfir Afglapaskarð, Hákamba, Leyningssúlur, Selfjall, Blekkilshorn, Blekkil, Fiskihrygg, Almenningshnakka og loks niður í Hólsdal við Hólsskarð.
Hestsskarð - Hólsskarð. Gengið upp í Hestsskarð síðan til suðurs á Pallahnjúk, Dísuna, Móskógarhnjúk, Presthnjúk og komið niður úr Hólsskarði Hólsdalsmegin.
Siglufjarðarskarð - Illviðrishnjúkur - Hafnarfjall - Hvanneyrarskálahringurinn - Strákafjall.
Hafnarfjall (Önnur tilraun til að ná góðri mynd af Borgarnesi.)
Akrafjall (Líka önnur tilraun til að ná góðri mynd af Akranesi.)
Aftur í Mýrdalinn, en að þessu sinni m.a. til að skoða Heiðardalinn og Þakgil.
Keilir. Ljúka við göngu á Keilir, en á síðasta ári hreinlega fukum við niður af honum þegar við vorum u.þ.b. hálfnaðir upp.
Kaldbakur sem er milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, en það er hæsta fjall á Vestfjörðum.
Virkjanaleiðin má gjarnan rata aftur á listann, en líklega er hún ekki mjög krefjandi þegar kemur að líkamlegri áreynslu. - En hún er flott...

Og svo er bara að sjá...

30.04.2008 20:48

Stöðumælasekt.



470. Ég varð fyrir svolítið undarlegri reynslu
í gær þegar nokkuð sem mig óraði ekki fyrir að gæti gerst, gerðist engu að síður. Aðdragandi málsins var sá að ég þurfti að bregða mér um stund inn í hús í miðborg Reykjavíkur þar sem gjaldskylda er. En þar sem ég er (alla vega núorðið) með eindæmum löghlýðinn borgari setti ég pening í mælinn, prentaði út miða sem ég setti ofan á mælaborðið fyrir innan framrúðuna. Allt eins og vera ber og samkvæmt skýrum og skorinorðum leiðbeiningum á sjálfum miðanum. En þegar ég kom út aftur varð ég ekki lítið hissa því það var kominn sektarmiði undir annað þurrkublaðið. Ég horfði forviða á þessa undarlegu og auðvitað óvelkomnu, ósanngjörnu og óæskilegu sendingu, síðan á litla miðann fyrir innan glerið sem var enn á sínum stað og ég trúi því tæpast að hann hafi þurft að bregða sér neitt frá um stund eins og ég.



Eins og sjá má er sektarmiðinn skrifaður kl. 13.47, en tími minn rann út kl. 14.12 skv. kvittuninni. Kannski gleymdi Stöðuvörðurinn þykku kókflöskubotnagleraugunum sínum heima, hann hefur e.t.v. verið óvenju syfjaður þennan dag vegna heimaleikfiminnar nóttina áður sem hafði verið að mestu gleymt fyrirbæri um nokkurra missera skeið, kannski var hann að hugsa um risastóra brúnkökusneið með miklu súkkulaði, óhóflega miklum þeyttum rjóma og rjúkandi kakói, eða konuna sína til síðustu 27 ára sem hafði sagt eins og upp úr þurru yfir kókópöffsinu um morguninn að hún ætlaði að gista í fyrsta skipti hjá æskuvinkonu sinni um helgina...!!!
Hvað veit ég um hver ástaðan hefur verið.

En hvað sem frekari pælingum líður þá tel ég mig hafa ástæðu til að hafa samband við höfuðstöðvar Bílastæðasjóðs við fyrstu hentugleika.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 341
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 742
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 322277
Samtals gestir: 35572
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 14:18:39
clockhere

Tenglar

Eldra efni