14.05.2014 02:15

Eru þeir ekki að ganga of langt?



932. Ef ég er reiður við Bjarna, þá lem ég bara hann Jón ef hann liggur betur við höggi. Einhvern vegin þannig kemur mér verkfall flugmanna og á næstunni einnig flugfreyja mér fyrir sjónir, þ.e. ef það er einfaldað hæfilega mikið. Í styrjöldum eru óbreyttir borgarar algengustu fórnarlömbin.

 

Pétur Blöndal sagði í viðtali við DV. að þeir hefðu gjarnan hæstu launin sem yllu mestu tjóni.

"Verfallsrétturinn er stjórnarskrárbundinn réttur til að beita ofbeldi. Þeir hafa hæstu launin út úr kjarasamningum sem valda mestu tjóni þriðja aðila, verstu tjóni án mikils eigin framlags," sagði Pétur H. Blöndal, 

 

RUV greindi frá að Clive Stacey, framkvæmdastjóri bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World, hvetur flugmenn Icelandair til að draga úr launakröfum sínum. Hann segir furðulegt að fámennur hópur flugmanna geti haldið íslenskum ferðamannaiðnaði í gíslingu.


RUV sagði einnig frá því að flugmenn færu fram á allt að 30% hækkun launa.


Um launakröfur flugmanna mátti svo lesa á Pressan.is

"Byrjendalaun flugmanns hjá félaginu, eru um 500.000 krónur. Ofan á það bætast svo við önnur laun, yfirvinna og aðrar greiðslur, og skv. útreikningum má gera ráð fyrir því að þau nemi um 100.000 krónum," segir í Morgunblaðinu. "Þá eru dagpeningar enn óreiknaðir, en þar má gera ráð fyrir um 150.000 kr. til viðbótar. Samtals gerir þetta um 750.000 krónur, en hafa ber í huga að dagpeningar eru ekki skilgreindir sem laun, heldur eiga þeir að duga fyrir útlögðum kostnaði."

"Flugmaður með tíu ára starfsaldur hefur 650.000 krónur í grunnlaun. Algengar aukagreiðslur eru 150.000 krónur á mánuði og dagpeningar 200.000 krónur. Í heild gera þetta um eina milljón króna.

Eftir 25 ára starf geta greiðslur til flugstjóra alls numið 1.700.000 krónum. Þar af eru 1.150.000 krónur í mánaðarlaun, 300.000 krónur í önnur laun og um 250.000 krónur í dagpeninga".

 

Visir.is

"Flugstjórar hjá Icelandair eru flestir með mun hærri heildarlaun en forsætisráðherra og bróðurpartur flugmanna er á ríflegum ráðherralaunum. Þeir sætta sig ekki við þær launahækkanir sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði".

 

Mbl.is

Af 100 launahæstu starfsmönnum félagsins voru 92 flugmenn," 

 

RUV.

"Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að vinnustöðvanir hafi margfeldisáhrif: "Þau eru að hafa mikil áhrif á hverjum einasta degi núna, vegna þess að það er verið að aflýsa flugferðum á hverjum degi. Við erum búin að missa mikið af hópum og annað núna síðustu daga. Þannig að við erum að finna verulega fyrir afbókunum".

 

"Þórir Garðarsson, stjórnarformaður rútufyrirtækisins Iceland Excursions, segir að ferðamenn hafi afbókað rútuferðir hjá þeim og fyrirtækið verði að endurgreiða þeim sem búnir séu að greiða fyrirfram. Þetta gildi um einhverja farþega hafi bókað ferðir á næstu tveimur vikum: "Það er að breyta sínum plönum. Það er að afbóka og fá endurgreitt. Menn vilja ekki taka áhættu á að fara upp á eyju í miðju Atlantshafi og verða innilyksa þar".

Þá hefur hann áhyggjur af því að erlendar ferðaskrifstofur tapi peningum, sem geti skaðað íslenska ferðaþjónustu til lengri tíma".

 

Mbl.is

Fjártjónið er gríðarlegt að sögn Bjarnheiðar. "Þetta eru tapaðar tekjur fyrir alla sem að þessu standa. Það eru rútufyrirtæki, leiðsögumenn, ferðaskrifstofur, hótel, veitingastaðir. Bara þessir hópar fela í sér tugmilljóna tap," segir hún.

Hina hliðina á málinu segir hún vera ímyndarskaðann. "Þegar þú ert að ferðast og heyrir af einhverju sem er í gangi í landinu, verkföllum eða náttúruhamförum, þá upplifirðu sem svo að áfangastaðurinn sé óöruggur og þú ferð frekar eitthvað annað. Ég er handviss um að það fari að streyma inn afbókanir ef þetta heldur áfram."

 

Sé dregin einhver ályktun af þeim fréttaflutingi af málinu sem borið hefur fyrir augu og eyru að undanförnu, verð ég að segja eins og er að hún er þá helst sú að tjónið er mikið og ég hef litla sem enga samúð með flugmönnum í kjarabaráttu þeirra og tel málstað þeirra í dapurlegra lagi. Sérstaklega ef laun þeirra eru borinn saman við kjör ýmissa annarra stétta í íslensku samfélagi sem óskað hafa eftir leiðréttingu sinna mála að undanförnu og fengið 2,8% hækkun sem deilst hefur niður á næstu 12 mánuði.

En vopn flugmanna virðast ætla að bíta rétt eins og kjarnorkuógnin í Kalda stríðinu, árangurinn gæti orðið í réttu hlutfalli við eyðileggingamáttinn, öll sátt um hóflegar kjarabætur á línuna verður endanlega fyrir bí og við verðum fljótlega komin með talsverðan efnivið í nýja verðbólguskriðu.

12.05.2014 21:40

"Ísland fyrir Íslendinga"





931. Hlutirnir breytast og mennirnir með. Það sem einu sinni stóð fyrir eitt, stendur nú fyrir eitthvað allt annað og meira að segja orð og orðasambönd í okkar ástkæra ylhýra hafa mörg hver fengið alveg splunkunýja og jafnvel öndverða merkingu frá því sem áður var.

Ég gat ekki annað en brosað út í annað þegar ég rakst á forsíðu NEISTA frá árinu 1934. Á þeim tíma fór stéttvíst fólk fór í kröfugöngu hinn 1. maí og dagurinn var ekkert minna heilagur í hugum margra en ýmsar kirkjulegar stórhátíðir nema síður væri.

-

Meðal framámanna í Jafnaðarmannaflokki Siglufjarðar á þessum tíma voru t.d. Gunnlaugur Sigurðsson, Jóhann F. Guðmundsson, Arnþór Jóhannsson, Kristján Sigurðsson, Kristmar Ólafsson, Jón Jóhannsson, Guðmundur Sigurðsson og Pétur Vermundsson svo einhverjir séu nefndir, en ábyrgðarmaður NEISTA var Kristján Dýrfjörð.

-

Væntanlega hafa þessir ágætu menn tengt slagorðið fyrst og fremst við hina stoltu vinnandi stétt og hugsanlega einnig drauminn um frjálst og fullvalda Ísland tíu árum fyrir lýðveldisstofnunina, en nú stendur það m.a. fyrir þjóðrembu, fordómum og rasisma eins og við vitum.



11.05.2014 03:57

Eurovision 2014 - Pilla til Putins.



930. Úrslitin í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva sem fram fór í gærkvöldi voru ekki alveg fullkomlega í samræmi við spár veðbanka þó segja mætti að það munaði kannski ekki svo ýkja miklu. Aðeins fáeinir tugir stiga röðuðu sér á örlítið annan hátt en spekúlantarnir reiknuðu með, en það ruglaði auðvitað röðinni all nokkuð. Ég hef því miður haft alveg sáralítinn tíma undanfarið til að velta fyrir mér bæði mögulegum og ómögulegum sigurvegurum í keppninni og þegar hún brast á var ég að aka strætisvagn á leið 28 sem hafði upp á að bjóða frekar dapurt útvarp hvað hljómgæði varðar. Ég gaf mér því tíma til að kíkja á valda kafla þegar heim kom.

-

Fyrir okkur voru líklega mestu stórtíðindi hvað stigagjöf varðar, hin áttan sem við fengum frá San Marino og voru jafnframt voru okkar fyrstu stig. En um San Marino er það að segja að það er svo mikið örríki að íbúafjöldinn er aðeins 10% af íbúafjölda smáþjóðarinnar Íslands. Bestu þakkir San Marino.

Þess utan fengum við 7 stig frá Frakklandi og Ítalíu, 6 stig frá Hollandi og Norðmönnum, 4 stig frá Bretum og Svíum, 5 stig frá Ungverjum og Dönum, 2 frá Þjóðverjum og sigurvegurunum Austurríkismönnum. 1 stig kom svo frá Rússlandi og annað frá Spáni

En takið eftir; við fengum ekkert stig frá Svíum og Finnlandi, eða þá Eystrasaltslöndunum.

Og við enduðum eins og flestir vita í 15.sæti sem ég prívat og persónulega get verið meira en sáttur við miðað við að hafa tekið það 19. frá fyrir Pollana.

-

En það má alveg halda því fram að boðskapurinn um "enga fordóma" hafi kannski skilað sér með ágætum, eða í það minnsta átt góðan hljómgrunn ytra þrátt fyrir að okkar stig hefðu alveg mátt vera eitthvað fleiri. Í hvert sinn sem Rússland fékk stig, púaði salurinn sig næstum því hásan og lét þannig í ljós vanþóknun sína með mjög svo ótvíræðum hætti og vesalings tvíburaljóskurnar guldu þannig fyrir misgjörðir misvitra ráðamanna heima fyrir. Það velkjast líklega fáir í vafa um að nýlegar lagasetningar sem mismuna minnihlutahópum og þá sér í lagi samkynhneigðum og landvinningalögin sem veita þeim sjálfum heimild til að hlutast til um málefni nágrannaríkjanna eru ástæða hinna dapurlegu og neikvæðu undirtekta. Að Conchita Wurst hafi unnið, má heimfæra sem skýr skilaboð til handa fordómafullra ráðamanna og undirlægja þeirra austan tjaldsins sem er kannski ekki endanlega fallið. En hópur íhaldssamra Rússa, Armena og Hvít-Rússa stóðu fyrir undirskriftasöfnun þar sem keppnin í ár er sögð "gróðrarstía kynvillu" og hópurinn krafðist þess að Wurst yrði bannað að taka þátt í keppninni. Þá vildi sami hópur að Eurovision yrði tekin af dagskrá Rússneska ríkissjónvarpsins.

-

Segja má því og það alveg skuldlaust að úrslitin ásamt viðbrögðum áheyrenda bæði í sal og annars staðar hafi komið vel á vondan.



(Ein af fjölmörgum myndum sem birst hafa undanfarið þar sem Putin er lílkt við Hitler).

04.05.2014 03:34

Litið "snögglega" um öxl



929. Þessi ákaflega sérstaka smáfrétt frá árinu 1934 ber það með sér að hafa ratað inn á "Lífið á Sigló" hér á árum áður, enda þykist ég kannast við fingraförin hans Steingríms neðst til hægri á úrklippunni. Líklega hef ég séð hana og skoðað vel og vandlega á sínum tíma, enda fylgst býsna vel með siglfirskum miðlum hin síðari ár, hvort sem þeir eru á prenti eða vef. En það eru þessir hugrænu lágþokubakkar sem framkalla fyrningar minninganna og ég rak því upp stór augu þegar ég rakst á hana (aftur) á nýlegu netflakki.




Það sem ég staldraði við að þessu sinni var nafnið "Magnús Nordal" sem mig minnir að ég hafi áður séð titlaðan verkstjóra frá Siglufjarðarárum sínum, en hvar eða við hvað veit ég ekki. Eftir að hann flutti suður sem gæti vel verið skömmu fyrir 1940, mun hann hafa starfað mikið fyrir Þjóðræknisfélagið. Það dúkkaði líka upp í kollinum á mér að hann mun hafa byggt húsið að Hverfisgötu 11 sem til að byrja með var skráð sem Lindfargata 20c þar sem það kom á undan götunni sem það stendur við. Hann bjó á efri hæðinni í einhver ár, en seldi hana Baldvin Þ. Kristjánssyni þegar sá maður flutti suður á mölina. Baldvin sem vann síðar mikið fyrir klúbbana "Öruggur akstur" syðra, bjó þar um tíma en seldi þá afa mínum og nafna hæðina einhvern tíma á árabilinu 1947-48. Afi og amma sem framan af höfðu búið á neðri hæðinni rétt eins og núverandi eigandur (Tryggvi Sigurjónsson og Erla Hlífarsdóttir síðan 1996 ef ég man rétt) fluttu þá upp, en seldu þá Jóhanni Möller og Helenu Sigtryggsdóttir neðri hæðina.

Verulegar líkur eru á að slysið sem um getur í fréttinni hér að ofan hafi átt sér stað á Brekkunni á Sigló, eða nánar tiltekið í húsi númer 11 við Hverfisgötu.

04.05.2014 03:29

Enn fleiri blá hús

Hávegur 7


928. Ég fékk á dögunum senda ábendingu vegna færslunnar "Blá hús", en Hlynur Arndal taldi að ég hefði alveg mátt hafa rúntinn örlítið stærri þar sem all nokkuð vantaði upp á úttektina. Hann var þá svo vinsamlegur að senda mér mynd af hinu glæsilega húsi sínu sem er númer 21 við Hverfisgötu hinnar syðri. Hann hefur nú bætt um betur og sent mér tvö blá hús til viðbótar og ég hef vegna frábærs árangurs hans í bláhúsaveiðum, útnefnt hann sem sérlegan bláhúsaleitarmann síðunnar. Ég gerði mér ekki grein fyrir að það væru svona mörg blá hús á Siglufirði, en eftir á að hyggja hefði ég auðvitað átt að vita betur. Bæði húsin sem bættust við að þessu sinni standa við Háveg hinn nyrðri og er örskammt á milli þeirra. 

Annað húsið er númer 7, en þar búa Ólafur Kárason og Þórey Guðjónsdóttir. Á undan þeim bjuggu þar Sigurður Þór Haraldsson og María Jóhannsdóttir sem nú búa að Suðurgötu 57.

Hitt húsið er skráð 14b. Þar hefur enginn haft fasta búsetu um áratuga skeið, en síðast bjó þar Þorvarður T. Stefánsson byggingafulltrtúi (1900-1980) ásamt konu sinni Guðrúnu Pálsdóttur (1909-1994).

Myndunum hefur auk þess að fylgja þessum nýskrifuðu orðum verið bætt í færsluna "Blá hús" hér að neðan.




Hávegur 14b

27.04.2014 01:22

Sá á fund sem finnur


927. Er tunglið úr osti? Hver á það? Af hverju stækkar það og minnkar til skiptis? Og af hverju togar það svona óskaplega mikið í sjóinn?

Tunglið hefur vissulega vakið margar spurningar í gegn um tíðina og við sumum þeirra kunnum við einfalt og skynsamlegt svar, en öðrum ekki. - Alla vega ekki ennþá. Það hefur verið endalaus uppspretta ævintýra, rómantíkur og veitt skáldunum ómældan innblástur.

-

Tunglið, tunglið taktu mig
og berðu mig upp til skýja.
Hugurinn ber mig hálfa leið
í heimana nýja.

Þannig orti Theodora Thoroddsen forðum og víst er að margur sveinninn og yngismeyjan hefur horft dreymandi augum á þetta gula fyrirbæri á himni okkar Jarðarbúa.

-

Svafstu illa? Dreymdi þig skrýtna drauma? Ef svo er, þá geturðu kennt tunglinu um frekar en nokkru öðru, því samkvæmt niðurstöðum nýlegrar breskrar rannsóknar þá breytast draumar fólks þegar tunglið er fullt. Okkur dreymir þá ýmist mjög skrýtna eða ákaflega dásamlega drauma, en það ástand og sú virkni fylgir ekki árstíðum eða vikudögum, heldur tunglinu.

.

"Ég tel að þessari þjóð beri að skuldbinda sig fyrir lok þessa áratugar að lenda manni á tunglinu og flytja hann aftur til jarðar".

Þetta sagði Kennedy bandaríkjaforseti forðum og bætti síðan við.

"Ekkert annað geimrannsóknarverkefni mun á þessu tímabili heilla jarðarbúa jafn mikið eða reynast eins mikilvægt fyrir komandi rannsóknir á geimnum. Og ekkert mun vera jafn örðugt eða kostnaðarsamt í framkvæmd."

Þar með hófst það sem kallað hefur verið kapphlaupið um tunglið.

Eftir að draumur Kennedy´s rættist að honum gengnum, hefur a.m.k. sumum ameríkönum fundist þeir eiga meira tilkall til tunglsins en aðrir jarðarbúar og fleyg eru orðin sem sögð voru eftir lendingu Appollo 11., en fáir muna þó hver sagði: "Brautin er nú greið fyrir landnám á tunglinu".

-

Í vetur bauð RÚV upp á frábæra þætti um Tunglferðirnar í umsjón Sævars Helga Bragasonar. Lokaþátturinn er ennþá aðgengilegur á Hlaðvarpinu og mun verða það allt til 1. júní nk. og er slóðin þangað er: http://www.ruv.is/sarpurinn/kapphlaupid-til-tunglsins/02032014-0

23.04.2014 20:30

Undarlegt tvíeyki


926. Ég rakst á þess mynd í dag og það er hreint ekki ofsagt að við það hafi ég hrukkað ennið í það minnsta lítillega. Fyrst kom auðvitað hið ágæta forrit "Photoshop" upp í hugann, en ég dró þó heldur í land þegar ég komst að því að myndin mun hafa birst í því ágæta tímariti "Lifandi vísindi" sem gerir hana að mínu mati mun trúverðugari en ella.

Spurning dagsins er því hvort þetta sé virkilega alvöru.?


-


En að allt öðru máli...

Ég fékk á dögunum sendar tvær ábendingar sem varða nýlegar færslur.

Önnur var vegna "Blá hús", en Hlynur Arndal taldi að ég hefði alveg mátt hafa rúntinn örlítið stærri þar sem all nokkuð vantaði upp á úttektina. Hann var svo vinsamlegur að senda mér mynd að húsinu sínu sem er númer 21 við Hverfisgötu hinnar syðri, en það er nýuppgert, orðið alveg stórglæsilegt og í alla staði hin mesta bæjarprýði. Ég tók mér það bessaleyfi að bæta myndinni hans Hlyns við mínar í færslunni.

Hin var vegna "Ævintýramaðurinn Per Martin Steen" sem hefur flakkað um landið að undanförnu og spilað á gítar og sungið fyrir mat og gistingu. Fréttirnar að norðan voru talsverð vonbrigði en slóðin að þeim er...

http://www.visir.is/-braust-inn-i-isskap-og-helt-veislu-fyrir-sjalfan-sig-/article/2014140419741

Auðvitað hefur hann verið orðinn svangur, en það réttlætir tæpast aðgerðir sem þessar og fyrirhyggja er og verður alltaf góður ferðafélagi. En þversögnin birtist okkur í ótengdri frétt á sama miðli nokkrum dögum síðar, en þar sagði frá sigurvegara í heljarmiklu kappáti á Prikinu sem fór nokkuð létt með að innbyrða 1,5 kg. af mat á 225 sekúndum.

http://www.visir.is/kappat-a-prikinu/article/2014140429524


20.04.2014 02:38

Margrét SI 4 og fyllerí aldarinnar sem leið


(Endurunnin ljósmynd úr Morgunblaðinu).


925. Miðvikudagurinn 18. febrúar 1959 er einn af stóru dögunum í útvegssögu Siglufjarðar, því þá sigldi splunkunýtt og stórglæsilegt fley inn fjörðinn og lagðist að Öldubrjótnum. Þó að tilkoma hins nýja skips væri tæpast til þess fallin að auka á fjölbreytileikann í atvinnumálunum í bænum, var hvert starf sem bættist við vel þegið. Næstum því tveir áratugir voru liðnir frá því að íbúatala Siglufjarðar hafði náð sínum hæstu hæðum og allra síðustu árin var ekki laust við að Klondike norðursins hefði sett nokkuð niður í þeim efnum. Atvinnuleysi yfir vetrartímann hafði að vísu alltaf verið vandamál og það varð varla leyst nema með nokkuð breyttum atvinnuháttum. Menn höfðu að vísu alltaf vitað að það voru fleiri fiskar í sjónum en síldin, en vonin um mikinn gróða á stuttum tíma hafði löngum dregið margan mætan spekúlantinn á síldartálarnar og það má með nokkrum rétti segja að bolfiskveiðar hafi því lengst af ekki haft það vægi í atvinnusögu staðarins sem skynsamlegt hefði verið.

 


 

Greinastúfurinn hér að ofan birtist í Alþýðublaðinu fimmtudaginn 19. febrúar 1959 og þar sagði frá komu skipsins á mjög svo hefðbundinn hátt. Ekki var minnst einu einasta orði á veisluna miklu sem í hugum þeirra sem upplifðu hana, var órjúfanlegur hluti af sögu og tilkomu Margrétar SI-4.

 

MJÖLNIR birtir föstudaginn 20. febrúar 1959 frétt af komu skipsins þar sem aðeins er ymprað á því að einhverjar veitingar hafi verið í boði við komu þess fyrir gesti og gangandi. Því miður er enginn skráður fyrir henni, en hér að neðan fer frásögn MJÖLNIS.

 

"Nýtt skip komið til Siglufjarðar Margrét, SI 4, kom hingað á miðvikudaginn.

Skipið fer á togveiðar eftir nokkra daga.

Á miðvikudaginn kom hingað til Siglufjarðar eitt hinna austur-þýzku togskipa, sem byggð voru fyrir atbeina fyrrverandi ríkisstjórnar. Skipið heitir Margrét og einkennisstafir þess eru S.I. 4. Eigandi skipsins er Útver h/f, framkvæmdastjóri þess er Árni Friðjónsson, en formaður félagsstjórnarinnar er Vigfús Friðjónsson. Stærð skipsins og vélaútbúnaður er að engu frábrugðinn frá hinum austur-þýzku skipunum sem áður voru komin, nema Margrét er útbúin með sjálfstýringu. Var sá útbúnaður settur í skipið í Kaupmannahöfn. Vélin er 800 ha. Mannheim dieselvél. Radar er ekki kominn í skipið, en von er á Decea-radar af nýrri gerð, sem settur verður í það strax þegar hann kemur. Skipið fór frá Stralsund 21. janúar til Kaupmannahafnar, en þar var sett i það sjálfstýringin, miðunarstöð og talstöðvar, en þær eru þrjár. Þá kom í ljós leki með stefnisröri, og var þá farið aftur til Stralsund og gert þar við lekann. Þaðan var lagt var stað heim 12. febrúar. Skipstjóri á Margréti er Helgi Jakobsson og sigldi hann skipinu hingað frá Þýzkalandi. Þegar á fyrsta degi eftir brottförina frá Stralsund hreppti skipið slæmt veður sem hélzt alla leiðina. Gizkaði skipstjórinn á að þegar það var verst, hafi vindhraðinn náð 12 -13 vindstigum. Reyndist skipið í alla staði hið bezta sjóskip, og mun meðal ganghraði þess hafa verið um 11 mílur. Norður af Shetlandseyjum heyrðu skipverjar á Margréti hjálparbeiðni frá vélbátnum Gullver NS 12. Er það nýr 70 lesta bátur, sem var á leið til Seyðisfjarðar frá Danmörku. Hafði brotnað tannhjól í kælivatnsdælu vélarinnar og rak bátinn fyrir sjó og vindi. Flutningaskipið Jökulfell var á sömu slóðum, en tókst ekki þrátt. fyrir nákvæma staðarákvörðun Gullvers að finna hann. Brá Margrét þá við til aðstoðar bátnun, en hún er búin mjög fullkomnum miðunartækjum, enda fann hún bátinn innan skamms. Setti hún vír yfir í Gullver og hugðist reyna að draga hann til hafnar í Færeyjum, en báturinn slitnaði fljótlega aftan úr, enda ekki nægilega sterk dráttartaug til um borð í Margréti. Varð það þá úr, að Margrét aðstoðaði Jökulfell við að finna bátinn, og síðan dró Fellið hann til hafnar í Klakksvík í Færeyjum. Gerðist ekki fleira sögulegt á leiðinni. Stýrimaður á Margréti er Halldór Hallgrímsson, en 1. vélstjóri er Björn Jónsson. Gert er ráð fyrir að skipið fari á veiðar eftir nokkra daga. Mun það leggja upp afla sinn hjá hraðfrystihúsi S.R. hér í Siglufirði. Áhöfn skipsins á veiðum verður 14 manns.

 

Bæjarbúum var boðið að koma um borð og skoða skipið kl. 2 í gær. Notfærðu margir sér það boð og þáðu veitingar. Íúðir skipverja, sem eru fyrir 21 mann, eru hinar glæsilegustu, og virðist aðbúnaður skipverja vera mjög góður. Menn vænta þess, að koma þessa skips verði til þess að gera atvinnulífið hér mun traustara en það hefur verið undanfarin ár, einkum þó til að bæta úr atvinnuleysinu sem hér hefur oft verið tilfinnanlegt yfir vetrarmánuðina. Tilvera Siglufjarðar byggist einvörðungu á útgerð og vinnslu sjávarafla, og því fleiri skip, sem héðan eru gerð út og leggja upp afla hér, því meiri horfur eru á, að hér verði vaxandi bær með blómlegt athafna og menningarlíf. Mjölnir óskar eigendum og áhöfn skipsins til hamingju í tilefni af komu þess hingað, og góðs farnaðar í framtíðinni".

 

Og árin liðu, Austur-Þýska skipið reyndist vel þrátt fyrir aðfinnslur og neikvætt umtal nokkurra sjálfskipaðra sérfræðinga, en aðrir sökuðu þá á móti um að hafa horn í síðu þess upprunans vegna, eða með öðrum orðum að halda því fram að það væri tæpast nægilega gott af pólitískum ástæðum. Það var ekki fyrr en 12. júlí 1963 sem ég rakst fyrst á umfjöllum í Morgunblaðinu þar sem Margrétar SI-4 er að einhverju leyti getið, en reyndar var fréttin ekki í neinum aðalatriðum um skipið þó það kæmi þar talsvert við sögu. Það mátti, en þó með "mjög góðum vilja" ætla að því væri lætt inn í greinina þó að þannig hafi það eflaust ekki verið, en skrifin voru á jákvæðum og skemmtilegum yfirlitsnótum um atvinnuhætti og mannlíf í síldarbænum undir yfirskriftinni "Svipast um af síldartunnu" og undirtitillinn var "Skyndimyndir frá Siglufirði". Það mun hafa verið Stefán Friðbjarnarson fyrrverandi bæjarstjóri sem skrifaði hana, en hann var fréttaritari Moggans á Siglufirði um árabil. En það sem Moggamönnum láðist að nefna og ég vil nú bæta úr þó seint sé, að það var auðvitað okkar maður Steingrímur Kristinsson sem tók meðfylgjandi myndir.



(Hluti af grein Stefáns í Mogganum árið 1963).


                               

                                   (Frk. Gígja Sveinsdóttir síldarmatskona).



(Saltað úr Margréti).



(Á Pólstjörnuplaninu)

 

En í bók sinni "Svipmyndir úr síldarbæ" segir Örlygur Kristfinnsson frá komu Margrétar á afar skemmtilegan hátt.

"Margrét SI-4 lagðist að Öldubrjótnum í febrúar 1959 fánum prýdd stafna á milli, og þá var haldin ein herlegasta veisla sem sögur fara af á Siglufirði.

Boð voru látin út ganga um að allir bæjarbúar væru velkomnir um borð til að skoða hið nýsmíðaða og glæsilega stálfley austan úr hinum sósíalíska heimi, - og þiggja veitingar. Fréttin um þetta veglega boð barst um bæinn eins og eldur um sinu.

Vigfús Friðjónsson, þessi rausnalegi maður og höfðingi, eins og einn skipverja Magrétar orðaði það, stóð fyrir veislunni en var ekki kominn til landsins svo það kom í hlut Árna bróður hans að taka á móti öllum gestunum og veita ósleitilega.

Vigfús hafði keypt vel til veislunnar, 300 flöskur af kornbrennivíni, tuttugu kassa af bjór og hundruð flaskna af þýzku kampavíni. Það eðalvín var í trékössum og hafði verið geymt í beitustíu frammi í stafni skipsins.

Vigfús gerði grein fyrir vínfarminum og fékk samþykki Ingólfs Kristjánssonar yfiortollara að veiganna mætti neyta um borð. Mikill fjöldi manna kom á skipsfjöl þennan dag og var öllum veitt eins og hver vildi. Stanslaus straumur allan tímann, ekki færri en þúsund var sagt, og fóru þeir síðustu frá borði þegar langt var liðið á næsta dag.

Allt veisluvínið kláraðist og varð af slíkt heljarinnar fyllerí  að telja má það eitt hið mesta í sögu Siglufjarðar. Um þetta var mikið talað í bænum og lengi í minnum haft.

Sagt er að einhver mektarmanna bæjarins hafi verið borinn í land. Ónefndur bóndi úr Fljótum hafi verið með aukaflöskur inn á sér sem hann fyllti til að drekka síðar. Og þegar hafði runnið af mönnum og samviskubitið komið í gleðinnar stað, hafi stúkustarfið hjá Jóhanni Þorvalds tekið verulegan fjörkipp - um sinn".

 

Og þegar sá sem þetta ritar var að vinna í frystihúsi S.R. við Vetrarbrautina á unglingsárum sínum, voru karlarnir þar endrum og sinnum að minnast á þessa ótrúlegu og einstæðu uppákomu á kaffistofunni, og það þrátt fyrir að áttundi áratugur síðustu aldar væri þá senn hálfnaður.

16.04.2014 05:05

Blá hús

924. Einhvern tíma hefði sá maður verið álitinn í það minnsta pínulítið undarlegur sem hefði látið sér til hugar koma að mála húsið sitt blátt. Og þá meina ég ALVEG BLÁTT.

En í dag upplifum við mjög svo breytta tíma frá þeim árum þar sem fordómar gagnvart m.a. mikilli litagleði utan dyra eru á hröðu undanhaldi. Ég man vel að fyrir næstum því hálfri öld var hús á Dalvík málað fjólublátt, og þrátt fyrir að það stæði ekki við neina af helstu umferðargötum bæjarins, lögðu margir hverjir sem áttu leið um það ágæta sveitarfélag lykkju á leið sína til að berja þetta furðuverk augum. Einhverjum árum síðar var svo hús við Hlíðarveg heima á Sigló einnig málað fjólublátt, en þá var litafrelsisslökunarferlið gagnvart ytra byrði fasteigna að einhverju leyti hafið og það vakti ekki eins mikla athygli og hið Dalvíska, en samt nokkra.

Akkúrat þetta kom allt í einu upp í hugann þegar ég var á rúntinum á heimaslóð einn góðviðrisdag á síðasta ári og hér er afraksturinn.

Eru bláu húsin kannski fleiri? - Allar ábendingar vel þegnar...



(Ljósmynd Hlynur Arndal)











(Ljósmynd Hlynur Arndal)



(Ljósmynd Hlynur Arndal)

13.04.2014 01:23

Ævintýramaðurinn Per Martin Steen

Per Martin Steen fyrir framan Hannes Boy. Kroppuð og stílfærð mynd af siglo.is (birt án leyfis).

 

923. Nýlega birtist frétt á siglo.is þar sem sagði frá hinum ævintýrgjarna Norðmanni Per Martin Steen og ferðum hans hérlendis.

( http://www.siglo.is/is/frettir/getAllItems/1/aevintyramadurinn-per-martin-steen-a-ferd-um-hid-ovaenta ) Þegar ég las greinina og sá myndina sem henni fylgdi, kviknaði snarlega á minnisperunni og ég minntist þess að við áttum saman svolítið spjall hér syðra fyrir fáeinum dögum.

Ég var að aka leið 28 á strætó eins og svo oft og var rétt ófarinn úr Mjóddinni þegar skeggjað andlit Norðmannsins birtist í gættinni, hann kynnti sig og bætti síðan við "ég spila á gítar".

"Og ég spila á hljómborð" svaraði ég af bragði.

Hann hló við og spurði hvort hann mætti koma með án þess að vera með strætómiða. Ég varð svolítið kjaftstopp við spurninguna því öll fyrirgreiðsla af því taginu er auðvitað alveg bönnuð, en það var eitthvað sem sagði mér að ef einhver ætti að fá slíka sérmeðferð, þá væri það maður eins og hann Per.

Til allrar hamingju leystist málið nánast af sjálfu sér því nærstaddur farþegi sem hafði fylgst með innkomuni og sennilega orðið fyrir svipuðum áhrifum og ég fór ofan í vasa sinn og fiskaði þaðan upp alveg heilan helling af klinki, skellti því í baukinn og sagði; "þetta er akkúrat" um leið og hann deplaði augunum ótt og títt. Ég horfði á hrúguna á botninum og sá að þarna var a.m.k. einn hundraðkall en kannski fleiri, fimmtíukall og vænn slatti af krónum, fimmköllum og tíköllum. Og þar sem klinkið var þegar komið ofan í strætóbaukinn var ég var ekki í neinni aðstöðu til að fara út í frekari skoðun á málinu, enda áhuginn takmarkaður. Ég sagði því bara ókey nokkuð ákveðið og bauð Norsaranum að ganga til bíls á einhverri skandínavískri mállýsku sem ég hannaði og spann upp úr mér þarna á staðnum. En hann skildi mig greinilega, kom inn og við tókum spjall saman. Hann sagði mér frá veru sinni og ævintýrum sínum hérlendis. Hann hefði aðeins átt fyrir (með hjálp góðra manna og kvenna) miða með Norrænu frá Færeyjum, en þar hefði hann verið svo lánsamur að kynnast tónlistardrottningu þarlendra lítillega henni Eivøru Pálsdóttir.

Nú var kominn tími til að leggja af stað og okkar maður fann sér sæti framarlega í vagninum og virti fyrir sér umhverfið upp eftir Breiðholtsbrautinni, um Hvörf, Þing og Kóra og að Hörðuvallaskóla þar sem ég stoppaði til að tímajafna. Þá stóð hann upp og við héldum áfram spjallinu. Hann hafði spilað á pöbb í miðbæ Reykjavíkur kvöldið áður og fengið fínan kvölverð fyrir framtakið. Þar hefði hangið gítar uppi á vegg sem hann hafði getað notast við eftir svolitla vinnu við stillingar og fíniseringu. Vertinn hafði að vísu haldið því fram að hann væri bara flottur uppi á vegg en varla til neins brúks á palli, en þetta hefði nú allt saman sloppið alveg þokkalega fyrir horn. Hann hefði síðan bankað upp á hjá þeim á lögreglustöðinni á Hverfisgötu og fengið þar hina þægilegustu gistingu. Þegar talið barst að Hverfissteininum brosti hann út í bæði og sagði að svona nokkuð væri nú ekki hægt að gera í Noregi, en þeir sem réðu þarna húsum væru miklir höfðingjar heim að sækja.

Aftur ók ég af stað og okkar maður settist og horfði út um gluggann á það sem fyrir augu bar. Fleiri Kórar, síðan komu Salir, Lindir og Smárar. Við Smáratorg var ég aftur um það bil að lenda aðeins á undan áætlun og staldraði því við stutta stund.

Aftur kom Per fram í til mín og nú vildi hann segja mér frá reynslu sinni af Íslandi og íslendingum, hafði um það mörg orð hvað hann hefði alls staðar mætt mikilli gestrisni og hvað honum fyndist landið að öllu leyti hreint ótrúlega heillandi. Það var líklega þá sem hann spurði hvert við værum annars að fara. Ég sagði honum að endastöðin væri Hamraborg, en sá staður væri eiginlega gamli miðbærinn í Kópavogi sem væri bær sem lægi þétt upp að Reykjavík en þó alls ekki hluti af henni. Og ég lagði mikla áherslu á þetta "ALLS EKKI". Hann spurði hvort þar væri ekki einhver pöbb sem hann gæti boðið fram þjónustu sína fyrir mat og/eða gistingu. Ég sagði honum af Catalinu, en bætti því við að mín reynsla af viðskiptum við eigendur staðarins væri með þeim hætti að líklega væri skynsamlegra að fara aftur niður í "city center of Reykjavik" og freista gæfunnar á þeim slóðum. Síðan ókum við af stað frá Smáratorgi.

Síðasti hluti samtals okkar fór svo fram í Hamraborginni. Hann hafði ákveðið að fara að mínum ráðum og reyna að koma sér niður í miðbæ Reykjavíkur. Ég lét hann fá skiptimiða og útskýrði hvernig hann virkaði, benti honum á að best væri að taka vagn númer EITT sem væri merktur "HLEMMUR". Hann spurði þá hvort ég væri á Facebook, en þar sem ég hef ekki ennþá meldað mig þar inn, hripaði hann niður póstfangið sitt á útrunnin skiptimiða og rétti mér um leið og hann þakkaði mikið fyrir sig og flýtti sér í næsta vagn. Út um gluggann sá ég hvar hann fór inni í vagn númer EITT, en bara vitlausu megin. Sá var að koma úr Reykjavík og því á leið til Hafnarfjarðar. Hann veifaði mér glaður í bragði út um gluggann og ég veifaði á móti, en samt kannski ekki alveg jafn glaðlega.

En hvað sosum um það, maðurinn var jú að leita uppi ævintýrin þar sem þau gætu hugsanlega gerst og leynst hverju sinni - eða þannig.

Kannsi biðu þau hans óþreyjufull í Hafnarfirði akkúrat þetta kvöldið.


P.S. Prófiði svo að gúggla "Per Martin Steen" og sjáiði bara hvað þið finnið.! 

08.04.2014 05:12

Nákvæm tímasetning


922. Ég veitti þessum ostapakka athygli í búðarhillu á síðasta ári og l´+et mér í fyrstu fátt um finnast þar til ég sá að á honum var ekki bara dagsetning, heldur líka tímasetningin. Það fannst mér með slíkum ólíkindum að ég tók mynd af honum en gleymdi síðan málinu fljótlega. En núna upp á síðkastið þegar umræðan um hve ótrúlega miklu er hent af mat sums staðar heiminum meðan aðrir svelta hefur góðu heilli verið talsverð, rifjaðist upp myndin af ostinum. Þegar ég rakst svo á hana í einni myndamöppunni nýverið, dró ég hana fram á desktoppinn og hér er hún sem sagt komin.

Best fyrir 30.08.13. - Ok. Það er ekkert nýtt fyrir neinum hér um slóðir, en bíðum nú við, auk þess klukkan 10.31.!

Kannski hefur þetta alltaf verið svona en ég bara ekki tekið eftir því.

Þetta er auðvitað til mikilla hægðarauka fyrir heittrúaða á slíkar leiðbeiningar, þ.e. allt nákvæmis og akkúratfólkið sem fer í einu og öllu eftir slíkum dagsetningum.

Það þýðir væntanlega samkvæmt þeirra skilningi á áreiðanleika slíkra merkinga að ef þú gleypir ostinn í þig í síðasta lagi þ. 30.08.13 kl. 10.30 ættir þú að sleppa, en ef þú gerir það fáum mínútum síðar gæti þér orðið illa brátt í brók bremsufaramegin.

05.04.2014 09:46

Andlát síðustu myndvélar



921. Fyrir fáeinum dögum varð ég fyrir því óhappi að missa myndavélina mína á gólfið í strætó. Má alveg örugglega segja að sá dagur sem það gerðist hafi hennar allra, allra síðasti, því linsan festist svo kyrfilega að hún hefur verið eftir það að hálfu úti og að hálfu inni og ég náði með herkjum að tæma kortið áður en hún lokaði endanlega á öll frekari boðkipti okkar á milli.

Henni verður sem sagt ekki bjargað og mig bráðvantar þess vegna létta og meðfærilega brjóstvasamyndavél.

Það má svo sem líka segja að tjónið hafi kannski ekki verið svo ýkja mikið, því fyrirsjáanlegt var að ég þyrfti fljótlega að fara að líta eftir arftaka hennar. Hún hafði nefnilega þá þegar orðið fyrir einhverju hnjaski og það jafnvel nokkrum sinnum áður, því það var farin að skorta nokkuð upp á skýrleikann þegar aðdráttur og ýmis fínlegheit voru annars vegar.

Eftir svolitla skoðun á milligóðum (og millidýrum) myndavélum sem færu vel í vasa, sá ég að Canon PowerShot SX210 IS var á dúndurgóðu tilboði hjá Nýherja. Sú er 14 megapixla, með þriggja tommu skjá og aðdrátturinn er fjórtánfaldur, en ég leit mjög til síðarnefnda möguleikans sem afar nýtist vel í landslagsmyndum á fjallaferðum.

Ég hafði samband við vin minn Steingrím sem flest veit þegar myndavélar eru annars vegar og hann hafði auðvitað sínar skoðanir á málinu sem ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart sem til þekkja.

Steingrímur vildi að sjálfsögðu að ég verslaði í BECO og það skiljanlega, því auðvitað eigum við Siglfirðingar að beina viðskiptum okkar til okkar manna. Hmmm. en svona í alvöru, þá sagði hann Nikon COOLPIX S5200 einfaldlega betri kost. Sú er 16 megapixla sem munar auðvitað um, er líka með þriggja tommu skjá, en aðdrátturinn er aðeins sexfaldur. Meira en gengur og gerist í svona litlum vélum, en samt ansi miklu minna en á Canonvélinni.

Svo bætti hann við; "En Leó, þú átt völina..........og kvölina".

Og mikið rétt, ég finn alveg hvernig valkvíðinn nagar mig að innan.

Eru annars nokkrar fleiri ábendingar?

02.04.2014 03:27

Ekki fara til Boston


920. Um helgina voru áríðandi skilaboð hengd upp á korktöfluna í kaffistofunni á mínum vinnustað. Þar voru áhugasamir beðnir um að hafa samband við formann starfsmannafélagsins vegna fyrirhugaðrar ferðar til Boston. Í fyrstu sá ég ekkert nema jákvætt við hugmyndina, (gaman þegar fólk gerir eitthvað skemmtilegt saman), en svo fór ég að velta málinu fyir mér frá ýmsum hliðum þess sem urðu æ fleiri eftir því sem ég hugsaði meira um það og þar kom að ég gat ekki lengur haldið aftur af orðum mínum.

Varla getur borgin talist taka vel á móti strætóbílstjórum frá Íslandi um þessar mundir, því á vögnum hennar getur að líta auglýsingar með áróðri gegn íslendingum þar sem fólk þar vestra er hvatt til þess að sniðganga íslenskar sjávarafurðir. En auðvitað verðum við að segja söguna alla og geta þess að sýnilega er ekki um að ræða óvild í garð hins norræna kynþáttar, heldur tengist áróðurinn hvalveiðum okkar og þar nam ég einmitt svolítið staðar í vangaveltum mínum, því hin öfgakennda hræsni kanans þykir mér alltaf vera með miklum ólíkindum þegar þau sjávarspendýr eru til umfjöllunar.


Þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hafi upp úr 1970 sett lög sem bönnuðu hvalveiðar svo og alla verslun með hvalaafurðir í bandarískri lögsögu, drepa þeir (veiða ekki) ógrynni hvala á hverju einasta ári.

Hvernig gengur það upp?

Jú þeir veiða túnfisk í Kyrrahafi.

Og hvað kemur það hvalveiðum við.

Jú (aftur).

Túnfiskar og höfrungar lifa oft í mjög sérstöku sambýli. Enginn veit nákvæmlega af hverju þeir gera það, en það er túnfiskurinn sem fylgir höfrungunum en ekki öfugt. Og af því að höfrungarnir halda sig við yfirborð sjávar og blása þar, þá benda þeir þannig veiðimönnunum á hvar finna má túnfisktorfurnar neðar í sjónum. Þeir umkringja þá höfrungana með netum sínum og veiða túnfiskinn, en höfrungarnir drepast eða eru drepnir í leiðinni.

Í dag segja bandarísk yfirvöld að um 1000 dýr deyi árlega við veiðarnar sem margir telja að sé stórlega vanmetið, en tæknilega séð eru Bandaríkjamenn ekki beinlínis að stunda neinar hvalveiðar í þessu tilfelli.

Ekkert er nýtt af dýrunum, heldur er hræin einfaldlega skilin eftir í sjónum og drápin á höfrungunum eru álitinn nauðsynlegur fórnarkostnaður við túnfiskveiðarnar.

Minnir svolítið á að þegar óbreyttir borgarar falla í stríði er þetta orðalag "nauðsynlegur fórnarkostnaður" stundum notað.

Ansi ógeðfellt.!


Norðmenn, Rússar, Japanir, Danir (Grænlendingar og Færeyingar), Bandaríkjamenn (frumbyggjar í Alaska) stunda alvöru hvalveiðar.

Ætli Kaninn þori ekki á ráðast á stærri og öflugri þjóðir (sér auðvitað ekki bjálkann í sínu egin auga) og kýs frekar að berja á hinni agnarsmáu örþjóð lengst út í ballarhafi bara af því að hún liggur betur við höggi?

Rétt eins og stórir og illa innrættir strákar ráðast frekar á sér yngri og minni drengi og leggja þá í einelti, frekar en að appast upp á jafnoka sína.

Uppátækjasamir landar þeirra sjá svo bissnesljósið í módelinu og hafa sett á stofn fjölda félaga (sem eru þó miklu frekar rekin eins og hardcore bissnessfyrirtæki), markaðssetja þau með jákvæðri glansímynd þar sem velferð dýra á að vera höfð að leiðarljósi og græða vel á uppátækinu. Þannig sé ég þetta.

En í Ameríku eru það hetjur sem drepa fólk.


Bresku hvalfriðunarsamtökin Whale and Dolphin Conservation Society (WDCS) lögðu mjög hart að sér árið 2012 að koma í veg fyrir að fiskur frá HB Granda yrði seldur til íþróttafólks, starfsmanna og áhorfenda á Ólympíuleikunum undir því yfirskini að þeir vildu með því stuðla að verndun dýra í útrýmingarhættu og þvinga þannig íslendinga til hlýðni.

Ja hérna. Líklega eru þessi bretaskinn búnir að gleyma "Sunday, bloody, sunday".

Norðurameríska matvælafyrirtækið High Liner Foods sem er að mestu með starfsemi sína í BNA og Kanada, ætlar ekki eiga frekari viðskipti við HB Granda fyrr en það fyrirtæki slítur öll tengsl sín við hvalveiðar.

Spurning hvernig HB Grandi á að stjórna því hverjir kaupa og selja hlutbréf á frjálsum markaði.

Þessir "herramenn" bera auðvitað við veiðum á dýrum í útrýmingarhættu.

Kanadamenn hafa líka verið að veiða hvali þó í litlum mæli sé, en eru ekki aðilar að Alþjóða Hvalveiðiráðinu og eru því svolítið fyrir utan "lög og rétt". Skyldu þeir taka tillit til þeirra vísindalegu niðurstaðna sem eiga að vera grundvöllur að störfum þess?

Veit ekki, en vert væri að forvitnast meira um það mál.

Stjórnendur High Liner Foods hljóta að vera miklar tilfinningaverur sem láta tilfinningar sínar ráða gerðum sínum frekar en skynsemina. Stór spurning hvort þeir eru í raun þokkalega vel upplýstir eða láta kannski bara kúga sig til hlýðni vegna uppblásinna skoðana þess hluta almennings (og fiskkaupenda) sem hefur verið plataður upp úr skónum með auglýsingum vafasamra "verndarsamtaka"?

Vísindanefndir Alþjóðahvalveiðiráðsins og Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO) hafa staðfest að stofnar hrefnu og langreyðar eru báðir ágætlega stórir. Þetta eru þær tegundir sem Íslendingar nýta og hvorug þeirra er á válista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) flokkuð sem dýrategund sem ógn steðjar að.

Þau samtök sem marg ítrekað hafa gert og eru enn að gera atlögu að íslenskum efnahag lifa því aðeins á lyginni og málstaður þeirra er vondur.


Á síðasta ári voru liðin 20 ár liðin frá því norskir hvalveiðimenn unnu sigur í baráttunni við Grænfriðunga og "friðsamlegar" veiðar á hrefnu gátu hafist á ný.

Slagurinn varð mjög harður sumarið 1993 þegar Grænfriðungar hugðust stöðva tilraun Norðmanna til að endurvekja hvalveiðar sínar í atvinnuskyni. Einum hvalbáti var sökkt og hinn óbilandi baráttumaður fyrir rétti Norðmanna Steinar Bastesen tók sér hvalskutul í hönd, varð þjóðhetja í kjölfarið og var síðan kosinn á þing eftir slaginn. Það er skemmtilegt að segja frá því að hann tók gjarnan hvalskutulinn sem varð sigurtákn hans í "stríðinu" með sér inn í þingsali við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna.

Sannur víkingur hann Steinar Bastesen.

Þjóðin stóð þétt að baki sínum mönnum, jók neyslu sína á hvalkjöti og tryggði þannig hvalveiðimönnum sigurinn. Að lokum gáfust Grænfriðungar upp og Noregsdeild samtakanna lýsti því yfir að veiðar á hrefnu við Noregsstrendur væru sjálfbærar.


Hvalir éta gríðarlegt magn af ýmis konar fiskmeti. 5 milljónir tonna af uppsjávarfiski og bolfiski, 2,5 milljónir tonna af krabbadýrum og ógrynni af smokkfiski á ári hverju. Hrefnan er talinn skæðust í þoskstofninum, hnúfubakur í síld og loðnu. Hver veit svo nema þorskurinn sem Hafró týndi hér í eina tíð hafi að hluta til endað á sama stað og Jónas forðum? Þ.e. í hvalnum.

Við þurfum að geta stýrt stærð hvalastofna við landið til að jafnvægi haldist í fæðukeðjunni og nytjað hvali rétt eins og önnur sjávardýr, því friðun þeirra myndi þýða með tíð og tíma óhóflega fjölgun sem myndi leiða af sér mikinn samdrátt í fiskveiðum.

Nýlega var sýnd athyglisverð mynd í RÚV þar sem þeirri hugmynd var velt upp hvort skordýr væru svarið við ört vaxandi fjölgun og í leiðinni fæðuþörf mannkynsins á komandi árum.

Þá er bara spurningin hvort við viljum skordýr frekar en hvalkjöt á diskinn okkar. 


Ég skal viðurkenna að ég horfi stundum á myndbandið sem má sjá ef fylgt er slóðinni http://www.youtube.com/watch?v=2_mS9bLaqtk og finnst hreint ekkert slæmt við það sem þar ber fyrir augu. Mér finnst hryðjuverkamaðurinn Paul Watson og Talíbanasamtök hans Sea Shepheard eiginlega bara fá það sem þeir eiga skilið og eru búnir að leggja inn fyrir.

Mér finnst það líka forkastanlegt ábyrgðarleysi þegar menn á borð við Paul Watson manna skip sín með reynslulausum ævintýramönnum sem sumir hverjir hafa að öllum líkindum aldrei migið í saltan sjó áður en þeir sigla á vit ófriðarins. Þeir virðast (alla vega sumir hverjir) ekki vita svo ýkja mikið um málstaðinn, en virðast kunna ágætlega og utanbókar ýmsa frasa og kennisetningar sem æðsti presturinn hefur innrætt þeim.


En nei, ég ætla ekki að fara með starfsmannafélaginu til Boston og líklega á ég aldrei eftir að fara til BNA. Mér finnst eiginlega að það eigi enginn Íslendingur að ferðast til Boston um þessar mundir. Ekki af því að þar sé hið venjulega almúgafólk sé neitt öðru vísi eða á einhvern hátt síðra en annars staðar í heiminum.

Nei alls ekki, og margt af því er jafnvel betra en gengur og gerist. Það eru bara allir hinir rugludallarnir sem eru því miður svo mikið bæði leiðandi og ráðandi. Það má því orða það svo að það sé af pólitískum ástæðum sem ég vil sitja sem fastast á Íslandinu góða.

Og því er við að bæta að það er leitt til þess að vita að á Íslandi dansa nokkrar óþjóðlegar undirlægjur og Kvislingar villtan dans óvinum okkar til heiðurs.



30.03.2014 09:49

Bakhliðin á Hörpunni



919. B-hliðin á Hörpunni er ekkert síður flott en sú sem fram snýr, allir túrhestarnir taka endlaust myndir af alla daga, er þekkt sem eitt af einkennum miðbæjarins, hluti af ímynd Reykjavíkur og reyndar landsins alls. Í dag er mun minna ósætti um húsið og byggingu þess en var kring um hrunið og flestir geta samþykkt í dag að þetta sé hin flottasta bygging. Samt er alltaf stutt í hina landsbyggðarpólitísku frasa og hrepparíginn þegar ég heyrði einhvern tala um "bruðlið" í kring um Héðinsfjarðargöng á dögunum. Það hefði nú verið meira vit í Sundabraut.

En þið fenguð Hörpuna.!

 

Ég rölti fram Ingólfsgarðinn og skaut þessari.

24.03.2014 23:15

Í tilefni nýliðins Bolludags


918. Það þurfti bæði kjark, þor (að mínu mati) og líklega talsvert magn af fífldirfsku ásamt stórum skammti af kæruleysi til að láta þessa skrípamynd sjást á hinu óendanlega alneti allra þjóða (nema Norður-Kóreubúa). Kannski var ég líka svolítið bæði manaður (og spanaður) til þess arna, en þess utan verður auðvitað að heiðra og halda upp á hinn árlega Bolludag með öllum tiltækum ráðum (og dáð).

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 613
Gestir í dag: 391
Flettingar í gær: 552
Gestir í gær: 127
Samtals flettingar: 323101
Samtals gestir: 36032
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 06:10:33
clockhere

Tenglar

Eldra efni