10.05.2011 17:42

Og þá er hann Bláus allur


707. Nú er hann Bláus allur, en hann hefur þjónað mér og mínum eitthvað á þriðja hundrað þúsund kílómetra, farið um vegleysur og lent í ýmsum skakkaföllum. Nú er svo komið að þrátt fyrir að það skili sér yfirleitt að leggja meira í viðhald og viðgerðir nú en fyrir kreppu, benti nýleg úttekt til þess að slíkt gengi tæpast upp hans tilfelli. Hann hefur því verið afskráður og seldur til niðurrifs.
Blessuð sé minning hans.

06.05.2011 13:55

Metingur og hrepparígur



706. Ég hitti hann Sigga Björns
á dögunum, en ég hef þekkt hann síðan síðan á videóárum mínum á Siglufirði. Þá rak hann ásamt Siglfirðingnum Ara Eðvalds, videóleigu í Ólafsfirði og ég átti talsverð samskipti við þá félaga. Ég hef ekki rekist á Sigga í a.m.k. áratug, svo við settumst niður á tröppurnar fyrir framan Bakaríið og tókum spjall saman. Það fór ekkert á milli mála að þarna var mættur alveg sami "Sigginn" og ég man svo vel eftir, a.m.k. þegar hann fór að tjá sig um menn og málefni og viðra skoðanir sínar á öllu mögulegu og ómögulegu. Svo það komist til skila við  hvað ég á, er ekki hægt að stilla sig og birta örstutt brot úr spjallinu.
"Býrðu einn núna?" Mig grunaði einhvern veginn að svo væri.
"Já, það tollir engin kjelling hjá mér." Það hnussaði í honum.
"Og af hverju skyldi það vera?" Ég átti auðvitað ekkert með að spyrja að því.
"Ég skil ekkert í því." Hann glotti út í annað og það var eins og hann væri að gera grín að mér fyrir að þykjast ekki vita það. En hann hafði greinilega ekkert of mikinn áhuga á að ræða sína einkahagi svo hann skipti um umræðuefni.
"Rosalega er mikið af gömlum ónýtum kofum hérna á Siglufirði." Ég hváði og sá nú í hvaða gír minn maður var kominn.
"Er eitthvað minna af þeim á Ólafsfirði." Ég taldi mig nú vita allt um það verandi nýkominn þaðan, þar sem ég hafði einmitt séð fullt af feysknum "byggingum" sem mörgum hverjum var ekkert allt of vel við haldið og tók meira að segja myndir af sumum þeirra.
"Því er nú ekki saman að jafna. Það þarf að fara að taka til hendinni hérna og rífa eitthvað af þessi braki sem er hérna út um allt." Ég minntist þá á skúrana sem ég hafði séð á Ólafsfirði og spurði hvort hann hefði ekki tekið eftir þeim.
"Þú meinar þá, ég veit ekki betur en það séu Siglfirðingar búsettir á Ólafsfirði sem eiga þá." Það hnussaði aftur í Sigga og hann hélt áfram í sama dúrnum.
"Hver er svo að steypa sökkul hérna neðar í götunni fyrir einn smákofann enn"? Þarna átti hann geinilega við framtak Örlygs neðan við Sæluhúsið.
"Ég get alveg lofað þér því að þar mun rísa einn flottasti kofi sem um getur." Ég hélt ró minni og vel það, þrátt fyrir að Siggi reyndi greinilega að ýta svolítið við mér og hann gerði eina tilraun enn.
"Rosalegt er að sjá hvað það er miklu meiri snjór hérna í fjöllunum en í Ólafsfirði. Þetta lítur ekki vel út hjá ykkur." Nú gat ég ekki annað en skellt upp úr, en Sigga var ekki hlátur í hug. Ég áttu auðvitað að bregðast allt öðru vísi við athugasemdum hans. Og ég hefði líklega líka gert það ef ég hefði ekki kannast við kauða.

Ég get auðvitað ekki setið á mér og fannst ég þurfa að láta nokkrar myndir fylgja sem ég tók á Ólafsfirði á dögunum.





 

Siggi er annars ágætur, bara svolítið stríðinn eða þannig...

02.05.2011 06:41

1. Maí 1938



Hátídahöldin 1. maí

 

D A G S K R Á:


 

I. Kl. 1 e. h. Útifundur vÍð Alþýðuhúsið . Ræða: Gunnar Jóhannsson.

II. Kröfuganga undir fánum verkalýðsfélaganna og íslenzka

fánanum.

Gengið verður suður Túngötu, suður Lindargötu og niður á Suðurgötu, niður Aðalgötu, út Vetrarbraut og staðnæmst á Skólabalanum.

III. Ræður: Jón Jóhannsson og Þóroddur Guðmundsson.

IV. Kröfugöngunni haldið áfram út að Alþýðuhúsinu og slitið með ræðu.

V. Kl. 6 e. h. Barnasýníng í BÍÓ. »Eitthvað fyrir alla«. Aðg. kostar kr. 0.25.

VI. Kl. 8.30 e h. Kvöldskemmtun í Alþýðuhúsinu:

1. Skemmtunin sett. Angantýr Guðmuridsson.

2. Kórsöngur. Karlakór Siglufj. undir stjórn Jónatans Ólafss.

3. Ræða. Ríkey Eiríksdóttir.

4. Upplestur. Gísli Indriðason.

5. Ræða.

6. Kórsöngur. Karlakór Siglufj. undir stjórn Jónatans Ólafss.

7. Ræða. Aðalbjörn Pétursson.

8. Dans.

Aðgangur kostar kr. 1.50. Börn fá ekki aðgang.

Allan daginn og á kvöldskemmtuninni verða seld merki og kosta 25 aura, 75 aura og 1 kr.

Skipið ykkur um hátíðahöld verkalýðsins.

Kaupið 1. maí merki. Sækið kvöldskemmtunina.

 

Allt alþýðufólk i kröfugönguna.

 

1. maí-nefndin.

 
705. Það er oft gaman að grúska í gömlu dóti og rata þá oft hinir ótrúlegustu hlutir upp á yfirborðið. Ég rakst á þessa auglýsingu sem birtist í "1. maí blaðinu" sem kom út einu sinni á ári, eða þann 1. maí eins og nafn þess ber með sér. Á þessum tíma hefur þáttaka í kröfugöngunni líklega verið all verulega mikið meiri og almennari en nú gerist, enda yfirleitt líka talsvert heitara í kolunum og oft ófriðarsamt á vinnumarkaði. Nöfn þeirra sem þarna koma við sögu koma flest kunnuglega fyrir sjónir, a.m.k. hjá þeim sem eru annað hvort komnir eitthvað "til vits og ára" eða hafa gluggað svolítið í söguna. Flestir áttu það líka sameiginlegat að vera yfilýstir bolsar, en einnig hinir mætustu menn.

Þarna eru þrír menn sem dæmdir voru fyrir að skera niður nasistafánann hjá þýska konsúlnum árið 1933 þ.e. Þóroddur Guðmundsson formaður verkalýðssambands norðurlands, síðar bæjarfulltrúi og varaþingmaður, Gunar Jóhannsson síðar formaður verkalýðsfélagsins Þróttar, bæjarfulltrúi og alþingismaður og aðalbjörn Pétursson gullsmiður.
Ríkey vr skráður félagi í Siglufjarðardeild ASV, en sú skammstöfun stóð fyrir alþjóðasamhjálp verkalýðsins sem hafði nokkra starfsemi á kreppuárunum.

Angantýr var einn af stofnendum Mjölnis og sá sem mest skrifaði í hann ásamt Gunnari og Þóroddi. Hann var líka einn af stofnendum Kommúnistaflokks Íslands en sagði sig úr honum 1934 í hreinsunum sem þá fóru fram. Í þeim var Gísli Indriðason rekinn, en hann mun hafa verið mjög hagmæltur og góður penni.
Þessi lausavísa hans á eflaust rætur í pólitíkinni á Siglufirði.
  Flestar skærur flæktur við
  fólsk meinsæris bulla.
  Spillir æru, forðast frið
  og fjandanum þvær um rassgatið.

Og þessi varð til þegar hann kom á gatslitnum skóm til skósmiðs.
  Af elli flestu aftur fer.
  Er það mesti bagi.
  Eins og sést er undir mér
  allt af versta tagi.

Ég er þó ekki viss um hvort Jón Jóhannsson er sá sami og starfaði mikið að verkalýðsmálum er var kratamegin við hina pólitísku vinstri línu, eða þá nafni hans.

Athygli vekur að Karlakór Siglufjarðar syngur þarna á kvöldskemmtuninni en ekki Karlakórinn Vísir. Ég vissi reyndar ekki að til hafi verið Karlakór Siglufjarðar fyrr en um aldamótin 2000. En stjórnandinn Jónatan Ólafsson er ekki ókunnur með öllu. Hann kom til Siglufjarðar sumarið 1933 á tónleikaferð með, en ílentist og giftist Þorbjörgu dóttir Guðmundar Fr. í Ytra-húsi. Jónatan var mikill tónlistamaður og hefur samið mörg þekkt lög sem þjóðin hefur sungið árum og áratugum saman. Meðal þekktustu laga Jónatans eru t.d. Laus og liðugur þar sem sungið er um Sigurð sem er sjómaður og sannur Vesturbæingur. Einnig Síldarvalsinn þar sem sjómönnum þótti á Siglufjörð farandi og upplifðu indælar andvökunæturnar upp í Hvanneyrarskál, hvar Adamssynirnir og Evudæturnar áttu sín leyndarmál. Jónatan var bróðir Sigurðar Ólafssonar hins landskunna söngvara og hestamanns, en dóttir hans er svo söngkonan Þuríður Sigurðardóttir. Jónatann Garðarsson poppfræðingur og útvarpsmaður með meiru er afabarn Jónatans eldri.

Svo birtust nokkrar auglýsingar í blaðinu, því auðvitað þurfti líka að fjármagna útgáfuna. Hér má sjá svolítið sýnishorn.

-

Munið að beztu hjólhestana

fáið þið í Verzlun Egils Stefánssonar.

-

 

Ný verðlækkun.
 

Kaffi brennt og malað frá Kaffibrennslu Akureyrar pr. kg. kr. 3.25.

 

Gestur Fanndal



30.04.2011 13:56

Tónleikarnir í Bátahúsinu


Ljósmynd Steingrímur Kristinsson.

704. Það er líklega alveg hægt að kalla tónleikana á föstudeginum langa í Bátahúsinu á Sigló upplifun, a.m.k. fyrir okkur sem stóðum á þilfari Týs SK-33 fyrir framan sneisafulla bryggju af fólki. Að lokinni forsölu í Sigló-sport vikuna á undan, voru aðeins 9 miðar óseldir á Vana menn og Þuríði Sigurðardóttur. Þeir dugði skammt fyrir talsverðan hóp prúðbúinna manna og kvenna sem reiknuðu fastlega með að geta keypt miða við innganginn eins og tíðkast hefur. Það dóu þó ekki allir ráðalausir, heldur settu sig í samband við Félagsheimilið Tjarnarborg þar sem Leikfélag Ólafsfjarðar var að sýna stykkið  "Leika, alltaf leika" í leikstjórn Guðmundar Ólafssonar, einnig kl. 20.00 þetta sama kvöld. Sýningunni var seinkað um korter svo að þeir sem ekki komust á tónleikana í Bátahúsi náðu tímanlega í Tjarnarborg.

Þegar ég leit við hjá Sýslumanni fyrir nokkrum vikum til að forvitnast um hvort það væri einhverjum vandkvæðum bundið að fá samkomuleyfi þennan dag, fékkst svarið ekki samdægurs. En þegar það kom var mér bent á þrú atriði sem væru ófrávíkjanleg. Það má ekki spila bingó, ekki dansa og ekki veita áfengi á föstudaginn langa. Ég hafði því samband við Aðalbakarann í bænum sem tók að sér að sjá um veitingar í hléi. Eitthvað mun þó hafa verið um að gestir hefðu með sér hæfilega blautlegt nesti svo lítið bæri á, en ég held að hafi aðeins verið af hinu góða og aukið á gleðina.

Það er ekki einfalt mál að ætla sér að reyna að lýsa hinu magnaða umhverfi í Bátahúsinu og sérstöðu þess sem tónleikahúss. Þeir sem reynt hafa, vita og skilja vel hvað átt er við. Þeir sem eiga það enn eftir verða einfaldlega að upplifa það á eigin skinni, því það er tilgangslítið að reyna að lýsa því sem er ólýsanlegt. Þeir sem vita hvað Síldarævintýrið á síðustu öld stóð fyrir, hafa líklega mestan og bestan skilninginn, en verða jafnframt fyrir þessum þægilegu og svolítið hrollkenndu umhverfisáhrifum þarna inni. Allt það sem fyrir augu ber og hin yfirþyrmandi nálægð við liðna tíma, kallar fram nostalgíugæsahúðina sem læsist mjúklega utan um hryggjarsúluna og veldur einhverju sem líkist kitlandi en þó ákaflega notalegum náladofa.

Myndir frá tónleikunum og fleira þeim tengdum, er að finna á "Myndaalbúm" í möppu merktri "Tónleikar í Bátahúsi" en þær eru teknar af Steingrími Kristinssyni nema annað sé tekið fram

21.04.2011 01:41

Annir


703. Það hefur verið meira en nóg að starfa síðustu daga og vikur. Reyndar svo mikið að sárafáar stundir hafa verið afgangs til að kíkja í bloggheima, hvort heldur til að láta ljós sitt skína, eða rýna í færslur þeirra sárafáu sem enn hafa ekki yfirgefið þá veröld og annað hvort flúið eða snúið á vit fésbókarsíðna. Eftir gríðarmikinn endasprett tókst svona nokkurn vegin að ljúka langþráðum áfanga í endurbótavinnunni á Suðurgötunni á Siglufirði og var íbúðin afhent ekki nema viku á eftir áætlun. Hún Stína er nú flutt inn og segir að það sé góður andi í húsinu.


Þá beið næsta verkefni, en það fólst í stífum æfingum vegna fyrirhugaðra tónleika í Bátahúsi. Sá tími sem til stefnu var, hefði líklega reynst full knappur fyrir einhverjum árum, en reynslan hjálpar vissulega til og allt small saman undir lokin. Mér reiknast nefnilega til að samanlagt höfum við sem ætlum að troða þar upp, lagt hvorki meira né minna en u.þ.b. 200 ár að baki í spilamennsku.


En jafnframt hefur verið setið við skriftir einhverja klukkutíma á dag, því mikið stendur til á þeim vettvangi á næstunni. Líklega er þó ekki tímabært að gefa út neinar stóryrtar yfirlýsingar um þá hluti að sinni.


Ég finn ekki snúruna milli myndavélarinnar og tölvunnar. Kannski gleymdist hún fyrir norðan og kannski er hún endanlega týnd. Ef hún er fyrir norðan leysist málið á morgun, en ef ekki þá þarf að komast í lesara sem ég á ekki. Á meðan er eitthvað á annað myndir í gíslingu inni á kortinu, myndir sem ég hefði gjarnan viljað vera búinn að birta hérna á síðunni jafnvel leggja svolítið út af. Það er þó ekki öll sagan því myndavélin sem hefur reynst mér svo vel undanfarin ár er alveg að verða "búin á því". Það þýðir að mig fer að sárvanta myndavél og það frekar fljótlega. Hingað til hefur Leó júníor lóðsað mig um allar svoleiðis slóðir sem geta reynst amatörum eins og mér hreint út sagt hálfgert torleiði, en nú eru aðstæður hans aðrar en áður var. Ég er ekkert allt of viss um hvað hentar mínum sérþörfum í dag, því nokkrar kynslóðir myndavéla hafa komið og farið síðan ég fjárfesti síðast í einni slíkri.
(Allar ábendingar eru vel þegnar.)


En talandi um að hafa nóg að gera og sjá helst ekki fram úr verkefnunum, kemur gamla spakmælið "vinnan göfgar manninn" stundum upp í hugann. Einnig ágæt saga sem ég heyrði um ýtumann á Siglufirði á árum áður þegar snjóaði mun meira en nú gerir á vetrum. Sá sagði að það væri ekkert dásamlegra en að vakna þreyttur að morgni og líta út um gluggann. Sjá þá að það hefði snjóað alla liðlanga nóttina og dagurinn myndi engan veginn endast til þeirra verka sem fram undan væru.

17.04.2011 06:29

Áframhaldandi Icesave umræða.

                                    

702. Eitt af því sem er nokkuð örugglega fylgifiskur úrslita kosninganna um Icesave samninginn, er að umræðan getur ekki annað en haldið áfram næstu tvö árin eða svo. Það er sá tími sem málið mun hið minnsta velkjast í dómskerfinu hérlendis og erlendis og þeir sem voru búnir að fá meira en nóg af henni munu því fá ennþá meira.

Rétt fyrir kosningarnar átti ég spjall við einn af NEI-mönnum.
"Jæja er búið að taka lokaákvörðun í stóra málinu"?
"Já ég er nú hræddur um það. Ég ætla sko að segja NEI því ég er ekki sáttur við að borga annarra manna skuldir".
"En nú er ekkert verið að kjósa um hvort menn vilji borga eða ekki, eflaust vilja allir þeir sem segja já vera lausir við að borga".
"Nú, það þykir mér skrýtið, um hvað er þá verið að kjósa"?
"Líklega um hvort við viljum samþykkja samninginn eða fara dómstólaleiðina".
Viðmælandinn horfið svolítið hugsi á mig um stund og virtist vera pínulítið ringlaður.
"Ég segi NEI af því að ég vil ekki borga þennan fj... reikning sem ég stofnaði ekki til".
Og þetta var ekki eina tilfellið sömu gerðar sem ég rakst á og mér sýnist nokkuð ljóst er að NEI-menn hafa fengið fullt af atkvæðum þeirra sem voru að kjósa um eitthvað allt annað en spurningin á kjörseðlinum gekk út á.

Ég hitti líka fyrir gallharðan JÁ-mann og hann fór ekkert í launkofa með skoðanir sínar.
"Lýðræðið er ekkert að gera annað en að þvælast fyrir okkur í þessu máli. Það á auðvitað ekkert að halda leynilegar kosningar í svona málum. Þeir sem vilja kjósa eiga bara að mæta á kjörstað og segja skoðun sína, síðan á einfaldlega að merkja við og halda upplýsingunum til haga. Þegar verður búið að klára þetta mál hvernig og hvenær sem það verður og meta hve miklu tjóni NEI-menn hafa valdið, á einfaldlega að senda þeim persónulega reikninginn fyrir mismuninum á niðurstöðunni og því sem samningsleiðin hefði þýtt. Varla vilja þeir að aðrir borgi fyrir þá fyrst þeir vilja ekki borga fyrir aðra".

Mér sýnist fátt benda til þess að sérlega friðvænlega horfi milli fylkinga og sátt sé á næsta leiti þó dómur þjóðarinnar liggji nú fyrir.


28.03.2011 03:01

Oh mamy blue.

701. Það var fyrir heilum fjórum áratugum síðan þegar hljómsveitin Frum var starfandi á Siglufirði, að nýtt lag varð vinsælt með slíkum ólíkindahraða að fáheyrt er. Það heyrðist fyrst í "Lögum unga fólksins" á þriðjudagskvöldi og áður en vikan var öll, var lagið á hvers manns vörum og sinni. Á þessum tíma spilaði hljómsveitin gríðarlega mikið í Allanum á Akureyri. Oftast aðra hverja helgi yfir sumarið og eitthvað á veturnar líka. Hún var eiginlega talsvert stærra númer þar í bæ en á sínum heimaslóðum. Eins og þeirra var gjarnan siður sem gerðu út á poppmarkaðinn, var setið yfir umræddum útvarpsþætti með kassettutæki ef þar kæmi eitthvað nýtilegt fram. Vísifingur og langa töng hægri handar voru þá tilbúnar á rec og play takkanum ef eitthvað yrði kynnt til sögunnar sem vænlegt þætti til notkunar. Þannig gerðist það einmitt að ofursmellurinn "Oh mamy blue" rataði inn á bandið, en það var upphaflega flutt af bresku hljómsveitinni Pop Tops en síðar gefið út af SG-hljómplötum með Mjöll Hólm. Það var auðvitað æft í einum hvínandi hvelli, því leiðin lá þá einmitt í Allann á Akureyri helgina á eftir. En það sem gerðist þegar við spiluðum lagið verður vart með orðum lýst. Salurinn hreinlega ærðist og þó einkum og sér í lagi yngri hluti kvenþjóðarinnar. Því verður ekki neitað að lagið féll afar vel að raddöndum söngvarans Guðmundar Ingólfssonar sem þá var rétt kominn yfir tvítugt. Við urðum svo auðvitað að endurtaka það sex, átta eða tíu sinnum um kvöldið og ég er ekki frá því að einhverjar ungmeyjar hafi fellt ofurlítið aðdáunartár við brún hljómsveitarpallsins og fótskör meistarans. Eftir að ballið var búið hófst þessi venjubundna rútína sem flestir popparar þekkja svo vel, það var farið að aftengja hljóðfærin, pakka niður og gera okkur klára til heimferðar. Að þessu sinni vorum við einum færri en vanalega, því eftir að við vorum búnir að pakka, gera upp og koma hljóðfærunum út í bíl, var söngstjarnan enn að gefa ungum táningsstúlkum eiginhandaráritanir. Þennan dag öfundaði ég Gumma Ingólfs af kvenhylli sinni.

28.03.2011 02:54

Sukkið í síldarbænum


(Ljósmynd úr safni Gunnars Bíldal)

700. Fyrir nokkrum vikum átti ég leið fram hjá hinu stórskemmtilega "Magasíni" Góða hirðinum og þar sem ég var á óvenju lítilli hraðferð, datt mér í hug að kíkja þar við. Eins og svo oft gerist þegar ég lít þarna inn, er ég fljótlega kominn að bókahillunum sem undantekningalítið þýðir að ég fer ekki tómhentur út. Þannig varð það einnig að þessu sinni, því mjög fljótlega rakst ég á bókina "Svartur sjór af síld" eftir Birgir Sigurðsson. Það er vægt til orða tekið að hún hafi síðan átt vísan stað á náttborðinu svo og öðrum þeim stöðum þar sem gjarnan er gripið til lesefnis, því hún grípur þann lesanda heljartökum sem hefur á annað borð áhuga á umfjöllunarefninu. ¨Svartur sjór af síld¨ er frábært lesefni, vel skrifuð, orðtak afar líflegt en þó er hún laus við óþarfa skrúðmælgi. Hún er mikill og góður pakki þar sem blandast saman skemmtun og fróðleikur í hárréttum hlutföllum. En hún er laus við þá einsleitni sem stundum er einkennandi fyrir upprifjun margra þeirra sem lifað hafa ævintýrið mikla og sjá það í rómantískri blámóðu fjarskans. Tíminn fer nefnilega stundum þannig höndum um minningar okkar mannanna, að hann mýkir útlínur misfellanna svo þær verða jafnvel ljúfsárar í mistri fjarlægðarinnar og vekja upp eftirsjá ekkert síður en hinar betri stundir.
Það hefur þó löngum farið miklu minna fyrir neikvæðu umfjölluninni þegar horft er til baka, en hún var þó til staðar og einnig að skoðanir fólksins í landinu voru síður en svo á eina lund gagnvart silfri hafsins og vinnslu þess. Birgir sleppir ekki þeim þætti málsins og það verður að segjast að oft rekur lesandann (þ.e. mig) í rogastans, því hinar dekkri hliðar eru bæði fleiri og allt öðruvísi en ég hafði gert mér í hugarlund. Þar hefur lengst af ekki verið talið mikið mál að vera vitur eftir á og það á líklega mjög vel við þegar sagan eða söguhlutar síldaráranna eru skoðaðir. Hvar átti skynsemin, réttsýnin og framsýnin heima og hvar ekki?
Hér að neðan eru nokkrar að mér finnst magnaðar tilvitnanir í þessa ágætu bók:

Hvernig voru svo viðhorf manna til þessa atvinnuvegar sem hóf menn ýmist til æðstu fullnægðar gróðahvatar eða hratt þeim í hyldýpi niðurlægingar, eignamissis og vonleysis? Hvað sögðu bændur sem voru í samkeppni um vinnuafl og fjármagn við þennan atvinnuveg? Hvað sögðu vammlausar sálir til sveita og sjávar um frjálsræðislífið í síldarverstöðinni?
-
Tíminn spyr 24 ágúst 1920: "Hvað er síldveiðin?" Svarar síðan spurningunni: "Hún er einhver farsældarminnsti atvinnuvegur sem rekinn er á Íslandi. Hún er rekin eingöngu í ca. tvo mánuði, einmitt um hábjargræðistímann. Hún tekur þá karla og konur hundruðum saman frá aðalatvinnuvegum landsins landbúnaðinum og þorskveiðunum. Þeim sem afkoma þjóðarinnar er undir komin, þeim sem veita atvinnu allt árið. Hún er hið glæfralegasta fjárhættuspil. Hún hefur komið af stað óheilbrigðri og óeðlilegri keppni um að ráða verkafólk til stórtjóns fyrir aðra atvinnuvegi landsmanna. Hún er sá atvinnuvegur þar sem hyggindi og atorka mega sín lítils en langmest er undir heppni komið. Hún ræður verðlagi á vinnu. Hún getur verið og hefur í mörgum tilfellum verið siðspillandi atvinnuvegur. Hún er sá atvinnuvegur sem gerir hinum ábyggilegu atvinnuvegum stórkostlega erfitt fyrir."
-
Magnús Guðmundsson fjármálaráðherra: "Síldveiðarnar eru versti keppinautur bænda. Þeir kvarta um vöntun á vinnukrafti um sláttinn, hver getur reiknað út það böl, sem af því getur leitt og hefur leitt?"
-
Pétur Ottesen: "Enginn skaði hefði það verið fyrir þjóðina, þótt hún (síldarútgerðin) hefði aldei verið rekin."
-
Bændur höfðu lengi haft horn í síðu síldveiðanna. Og það var von. Alveg frá því fyrir aldamót, þegar landnótaveiðin var stunduð í Eyjafirði, einu búsældarlegasta héraði landsins fyrr og síðar, höfðu þeir mátt horfa á sídina svelgja til sín vinnukraftinn, svo þeir áttu í erfiðleikum með að ná heyjum sínum fyrir vinnufólkseklu. Andúð bændastéttarinnar á þessum "óþjóðholla" atvinnuvegi átti sér þó enn dýpri rætur. Það hrikti í máttastoðum þessarar stéttar sem hafði til skamms tíma ráðið lögum og lofum í atvinnulífi þjóðarinnar og löngum verið lofuð í ræðu og riti sem kjölfesta þjóðarinnar, burðarás þjóðlegrar menningar. þar með losnaði um þau tök sem bændastéttin hafð haft á verkafólki frá alda öðli í skjóli laga og hefða sem renndu traustum stoðum undir óskorað bændaveldi sem skammtaði vinnuhjúum laun og kjör að geðþótta.
-
Pétur Ottesen þingmaður vefur illyrðum um síldarfólk inn í andúð sína á þessum atvinnuvegi. Í þingræðu talar hann um "spjöll sem orðið hafa á hugsanahætti fólksins. fyrir áhrif útlendrar ómenningar." Hann kallar síldarfólkið "landshornalýð" og "ruslaralýð."
-
Illræmdastur allra staða verður Siglufjörður. Kitlandi andúðarhrollur fer um bókstafsmenn dyggðanna þegar þeir horfa norður og niður í þetta díki forboðinna lifnaðarhátta þar sem spillingin vellur og kraumar í fúlum grúti, umvafin viðurstyggilegri brækju og allir hafa peninga eins og skít. Síldarstúlkan er hóra, sjómaðurinn slagsmálahundur og dryggjusvoli, útfgerðarmaðurinn svikafullur braskari, Siglfirðingar siðlaus lýður.
-
Siglufjörður er svínastía,
Satan þar býr og árar hans.
Ómenni þangað ótal flýja,
úr ýmsum héruðum þessa lands.
Lygi og svik þar lifa flott,
úr lýðnum sanngirni víkur brott.

Þar er Hallgrímur þjófagreppur,
Þorsteinn svikari Pétursbur.
Bæjarfógeti lögbrjótsleppur,
læknishálfbjáni gæðaþur.
Kaupmannasveit á kostum rýr,
kvenvargafans og yxna kýr.

Fram yfir dimmar humrahallir,
háreistar mæna bryggjurnar.
Kring um þær híma hringaþallir,
helkaldar margar næturnar.
Þó brimaldan hvæsi og bylji regn,
bíða þær eftir norskun þegn.

Sjái þær báta leggja að landi,
laumast þær fram á bryggjusporð.
Leystar frá öllu lífsins grandi,
og láta af munni nokkur orð.
Feta svo upp í fúlan krók,
fletta upp pilsi og niður brók.

Svona er lífið á Siglufirði,
sýna þar fáir gestrisni.
Fjandinn með eiturormabyrði,
uppbyggir þar nýtt Helvíti.
Allflestir lifa ýtar þar,
öðrum og sér til bölvunar."

Greinilegt er að sumum er heitt í hamsi og ekki nein síldarrómantík efst í huga.
En svo mörg voru þau orð að sinni og reyndar voru þau miklu fleiri.

26.03.2011 23:49

Ingveldur Eiríks


 

699. Mér barst athugasemd við mynd á 123.is. Skilaboðin sem fylgdu voru eftirfarandi... Sæll vertu hver teiknaði þessa mynd? - Kveðja Ingveldur Eiriks.

Þegar ég vildi svara fyrirspurninni áttaði ég mig á að ekkert netfang fylgdi svo ég gat ekki sent svarið til hennar Ingveldar. Ef hún skyldi rekast hingað inn ef það hins vegar eftirfarandi: Sá sem teiknaði myndina heitir Skúli Elíasson og hún er utan á vegg gamla sláturhússins á Þingeyri. Þess má einnig geta svona í leiðinni að sá hinn sami Skúli "alltmúlígtmann" byggði m.a. víkingaskipið Dýrfirðing.

En því má svo bæta við að ég er núna nýkominn suður í stutt "helgarleyfi" og í beinu framhaldi u.þ.b. að verða nýfarinn aftur norður á Sigló. Ástæðan fyrir ferðinni er sú að verið var að skíra afabarn no. 5 og auðvitað má ekki missa af slíkum stórviðburði. Það er svo farið að styttast í áfangalok nyrðra, sennilega aðeins rúm vika í afhendingu íbúðar og þá verður væntanlega andað með nefinu í einhvern tíma.

05.03.2011 17:33

Endurbætur á Suðurgötu

698. Þegar þessi færsla birtist verð ég búinn að dvelja á Sigló í einhverja daga og jafnvel farið að styttast í suðurferð. Þar er ég ekki í netsambandi, en á það stundum til að skrifa einn og einn "stubb" fyrirfram sem ég virkja svo ef ég kemst í tölvu nyrðra.Hér að neðan er svolítið sýnishorn af því sem þar hefur verið að gerast. Það er gaman að sjá hlutina breytast til batnaðar en myndirnar eru allar teknar inni í sama rýminu.









































Nú er lokaspretturinn eftir í eldhúsinu og reyndar í fleiri herbergjum, og eins gott að "láta ekki deigan síga" því afhending á að fara fram þ. 1. apríl. nk.

04.03.2011 08:34

Gerfihreyfingar á fasteignamarkaði


698. Ég átti leið á fasteignasölu á dögunum og hitti þar fyrir ágætan kunningja sem þar starfar. Ég spurði frétta af gangi mála á markaðinum, en hann bar sig ekkert sérlega vel og sagði hann jafn steindauðan og botnfrosinn eins og hann hefði verið síðustu tvö árin. Þetta fannst mér í ósamræmi við fréttaflutning af fjölda þinglýstra kaupsamninga og viðtal við formann félags fasteignasala sem sagði í sjónvarpsviðtali á dögunum eitthvað á þá leið að heldur væri nú að hýrna yfir. Kunninginn sagði þetta tóma þvælu og kjaftæði, fjöldi þinglýstra samninga stafaði af því að bankarnir væru að leysa til sín eignir eða kaupa þær á uppborðum. Þegar slíkt gerðist, þyrfti auðvitað að þinglýsa eigninni á hinn nýja eiganda og þar með væri komin skráð sala. Svo væri líka verið að færa eignir á milli kennitalna, oftast innan fjölskyldna og það væri líka skráð sem sala af sömu ástæðu. Að vísu hefði nauðsynleg skjalagerð vegna slíkra gjörninga skapað svolitla vinnu og komið í veg fyrir algjört hrun í stofninum.

Hann vildi sem sagt meina að tegundin "fasteignasalar" væri í útrýmingarhættu.

En svo bætti hann því við að það væru að vísu tvær fasteignasölur sem hefðu meira en nóg að gera við að verðmeta fyrir bankana.

Bara tvær? Ég hváði og vildi fá frekari útskýringar.

Jú, það væri þessi 110% regla og afskriftir bankanna á því sem þá stæði út af.

Það er auðvitað mikið hagsmunamál fyrir bankana að matið sé sem hæst því þá þarf minna að afskrifa. Tvær fasteignasölur náðu fljótlega bróðurpartinum af þessum viðskiptum því þær mátu allar eignir á yfirverði.

Mig langaði auðvitað til að vita hvaða fasteignasölur það væru.

"Eignamiðlunin og Fasteignamarkaðurinn en ekki nefna mig á nafn" sagði viðmælandi minn.

02.03.2011 18:18

Egill og Kiljan á Sigló

                                     

697. Miðvikudaginn 23. febrúar s.l. var ég staddur á Siglufirði. Reyndar hafði ég skotist í svolítinn matarbita, en tafist í símanum eftir hádegið þennan dag og klukkan var farin að halla í tvö. Að símtalinu loknu skynja ég á einhvern hátt sem ég kann þó ekki að skýra, að eitthvað er ekki alveg með sama brag og flesta aðra daga. Raddir sem bárust utan af götunni hljómuðu ókunnugar og hrynjandinn virtist svolítið nýstárlegur. Ég gægðist út um stofugluggann og sá að tilfinningin fyrir hinu óvenjulega átti við rök að styðjast. Á gangstéttinni hinum megin við götuna stóð Örlygur Kristfinnsson (sameign okkar Siglfirðinga) og hjá honum aðkomumaður sem mér fannst að ég ætti kannast eitthvað við. Sá aðkomni talaði mikið og hratt, pataði til beggja átta og það var eins og hann væri að gefa einhverjar skipanir.
"Mikið asskoti minnir hann mig á Egil í Silfrinu" hugsaði ég með mér. Svo áttaði
ég mig á að þetta var sá hinn sami Egill og þá sá ég líka tökuliðið sem stóð álengdar og mundaði kamerurnar. Eðlislæg forvitni mín varð til þess að ég opnaði gluggann upp á hálfa gátt og stakk hausnum út. Þá sá ég að ein myndavélin lyftist og ég veifaði inn í linsuna þegar ég vissi að hún beindist að mér. Myndatökustelpan brosti þá svolítið skökku brosi út í annað munnvikið, lét vélina síga aftur og veifaði á móti. Kannski var hún að stríða mér svolítið eða fæla mig úr glugganum til að geta myndað húsið án óæskilegra og ófrýnilegra andlita í glugga. Ég vissi að klipparinn sæi til þess að öll röskun á hinu slétta og
fellda yrði fjarlægð, lagði við hlustir og áttaði mig fljótlega á hvað var í bígerð.
Það var greinilega verið að taka upp efni fyrir Kiljuna og Örlygur var að fara yfir síðasta kaflann úr bóki sinni "Svipmyndir frá Siglufirði." Hann var að segja frá lífshlaupi Aage Schiöth meðan myndavélarnar beindust ýmist að honum eða
húsinu sem Schiöth byggði meðan ríkidæmi hans var sem mest. Húsinu MÍNU sem ég var á þessari stundu enn stoltari af en áður, þar sem ég var kominn bæði með höfuð og herðar út um gluggann. Ég hlustaði á Örlyg enda frásögn sína á því að segja frá hinum dapurlegu æfilokum apótekarans sem hafði vissulega lifað bæði hátt og lágt ef þannig mætti orða hlutina. Ég horfði síðan á eftir Ölla, Agli og öllu myndakrúinu rölta niður eftir götunni og halda áfram yfirferð sinni, enda er gnótt verðugra viðfangsefna  að finna í gamla Sildarbænum.

Viku síðar eða miðvikudaginn 2. mars var svo fyrsti hlutinn úr Siglufjarðarleiðangri Egils á skjánum, en það var jafnframt ljóst að þeir þeir hlutar eiga eftir að verða fleiri.

28.02.2011 05:08

Hljóðvæðing ástarlífsins



696. Austur af Hellisheiðinni stendur myndarlegur kaupstaður við mikla elfu. Yfir hana liggur brú rétt við miðbæjarkjarnann sem þykir hafa verið mikið mannvirki síns tíma. Við eystri brúarsporðinn er gamalt samkomuhús sem hefur fengið svolitla andlitslyftinu á síðustu árum. Það er bæði bæjarprýði og gæti sagt margar skemmtilegar sögur frá liðinni tíð ef það hefði mál.

 

Fyrir nokkrum áratugum á blómaskeiði átta millimetra myndanna átti óformlegur og nafnlaus karlaklúbbur atvarf í húsinu og kom þar saman á mánudagskvöldum. Fyrir hópnum fór maður nokkur sem þótti alla jafna afar sérstakur í háttum, jafnvel sérlundaður á köflum og af margra mati svolítill einfari, í það minnsta meðan dagsbirtunnar naut við. En þegar kvöldaði gerðist hann yfirleitt öllu félagslyndari og á umræddum mánudagskvöldum hreinlega umbreyttist hann í einhvern allt annan mann. Þá var eins og áður er sagt, komið saman til að sinna þeim áhugamálum sem félagsstarfið snérist um.

 

Félagsstarfið eða áhugamálið var frekar einhæft. Það var sest niður og horft á átta millimetra stuttmyndir sem áttu það allar sameiginlegt að vera af vafasamara taginu. Það ríkti undantekningalítið grafarþögn á samkomunum meðan á sýningu stóð ef frá var talið suðið í sýningarvélinni og síðfrakkaklæddir karlarnir héldu niði í sér andanum og gáfu hvorki frá sér hósta né stunu. Þegar hér er komið sögu er rétt að það komi fram að þær myndir sem þarna voru sýndar voru þöglar. En Formaðurinn (með stóru effi) eins og hann var gjarnan kallaður vildi endilega bæta úr þessu sem hann taldi verulegan ágalla á sýningunum, en óx í augum sá kostnaður sem fylgdi því að "hljóðvæða" myndakvöldin.

 

Það var vissulega úr vöndu að ráða, en uppátækjasamir menn deyja aldrei ráðalausir. Það var því eitt mánudagskvöldið að Formaðurinn mætti mun betur undirbúinn en venjulega. Auk sýningavélarinnar sem var að venju kominn á sinn stað, hafði bæst við tækjaflotann segulbandstæki og það af stærri gerðinni. Hófst nú sýningin sem óhætt er að segja að hafi verið með mjög svo öðru sniði en venjulega. Síðklæddu karlana rak í rogastans því í staðin fyrir þrúgandi þögnina sem venjulega grúfði yfir salnum, færðist nú öllu meira líf í "söguþræðina" en þeir áttu að venjast og andrúmsloftið varð um leið mun léttara en áður hafði verið.

 

Formúlan við allan galdurinn reyndist ekki mjög flókin þegar málið var skoðað nánar. Formaðurinn las ágrip af aðdraganda hverrar sögu og innihaldslýsingu, ásamt samtölum byggðu á eigin handriti inn á segulgandið. Við það bætti hann öllum þeim hljóðum (og óhljóðum) allra "leikenda" og allt það sem hann taldi að ætti við myndefnið og dró ekkert af sér. Leikhljóðin létu þó sum hver svolítið undarlega í eyrum reynslubolta á sviði ástarmála, því Formaðurinn hafði enga slíka. Aðspurður sagði hann það hafa verið stæsta vandamálið að láta segulbandið passa í tíma við sýningarvélina, en eftir talsverðar tilraunir og æfingar kvaðst hann hafa náð nokkuð góðum tökum á því.

11.02.2011 11:58

Fucking

                       

695. Hvar langar þig mest til þess að eiga heima? Kannski í einhverjum litlum bæ með mjög undarlegu nafni? Ef svo er þá gæti Fucking í Austurríki verið draumastaðurinn, en það er lítið þorp 33 km. norður af Salzburg og 4 km. austur af Þýsku landamærunum. Elstu heimildir um um bæinn eru taldar vera frá því í kring um árið 1000, en þá var nafnið ritað með öðrum hætti eða Vucchingen. En tungumál þróast og breytast í aldanna rás og þetta er sem sagt ritháttur dagsins í dag. Íbúarnir munu hafa mjög ólíkar skoðanir á nafninu vegna hinnar engilsaxnesku merkingar orðsins sem er kannski ekkert skrýtið, og sumir vilja breyta nafni staðarins. Það mun þó talsvert af ferðafólki leggja leið sína þarna um vegna nafngiftarinnar að talið er, en það þýðir auðvitað auknar tekjur íbúunum til handa. Og ef einhver skyldi halda að þetta sé eitthvert grin, þá er alls ekki svo.

09.02.2011 19:45

Siglfirskir Skíðakappar

694. Ég hef undanfarið verið að gramsa í gömlum fréttum af Siglfirskum skíðamönnum sem gerðu garðinn frægan á velmektarárunum þegar Siglufjörður var sannkallað stórveldi á því sviði og bar ægishjálm yfir önnur byggðalög. Flestir þeir bestu voru frá þessum litla kaupstað norður við íshaf og þeir gerðu margir hverjir alveg ótrúlega hluti. Hér er svolítið sýnishorn...


Bjarni Þorgeirsson sagði frá því í viðtali nýlega þegar hann og Gunnar Þórðarson, heitinn, voru ræsar upp í Skarði á einu mótinu. Það var svakalega gott veður. Jóhann Vilbergsson fór fyrstur af stað í brautina og keyrði svo rosalega vel og fallega að það gleymdist að taka tímann á næsta keppanda á eftir honum sem var Svanberg Þórðarson. Svanberg fór af stað þegar Jonni var komin hálfa leið niður brautina eins og venja var, nema hvað tímaverðirnir gleyma að setja klukkuna af stað fyrir Svanberg. Jonni var aðalstjarnan í augum Siglfirðinga og þarna gleymdu menn sér við að horfa á hann renna fallega niður brautina. Steingrímur Kristinsson labbaði með Svanbergi upp aftur og hélt á skíðunum fyrir hann, það tók 1-2 tíma að labba alla leiðina upp aftur og á meðan gekk sólin undir. Það varð kalt og frysti um leið og sólin fór, yfirborðið harðnaði og rennslið jókst. Þannig fékk Svanberg mikið betra rennsli fyrir vikið og var bara einhverjum sekúndubrotum á eftir Jonna, sem hann náði ekki í fyrri ferðinni. Keppendur fóru bara eina ferð og það var mikið lagt upp úr því að hafa brautina bara nógu langa, helst 2 og hálfan kílómeter á lengd. Jóhann Vilbergsson vann flest Skarðsmótin. Sigurður Sigurðsson, fyrrverandi íþróttafréttaritari, sá fyrst til Jonna á Akureyri 1957. ,,Þá var Jonni alveg í rassgati í fyrri ferð í svigi, svo keyrði hann alveg eins og berserkur seinni ferðina og vann og það var farið að athuga með þennan mann þarna, þennan Jóhann, þennan Siglufjarðarskelfir," sagði Sigurður. Nafni Sigurðar, sem eitt sinn var læknir á  Siglufirði, sagði líka einu sinni að strákarnir væru allir aumingjar við hliðina á Jonna.


Í viðtali við Jonna sem mun væntanlega birtast á siglo.is einhvern næstu daga, er þessi saga rifjuð upp. Jonni sagðist vel muna eftir þessu og Svanberg hefði sýnt af sér ótrúlega seiglu og keppnisvilja. Eiginlega fyndist sér að hann hefði átt skilið að vinna keppnina fyrir eljusemina.




Eftirfarandi grein birtist í Mbl. Senemma árs 1960

Skarphéðinn Guðmundsson er eini keppandi Íslands í skíðastökki á Olympiuleikunum í Squaw  Valley. Hann er elztur Olympíufaranna, fæddur í Siglufirði 1930 og verður því þrítugur innan fárra mánaða. Skarphéðinn er nú íslandsmeistari í skíðastökki og er það mál manna að fáir eða enginn hafi unnið þá grein á íslandsmóti með meiri glæsibrag en hann. Skarphéðinn hefur ákaflega fagran stökkstíl og er algerlega í sérflokki meðal íslenzkra stökkmanna. Stíll hans er mjög svipaður stíl beztu stökkmanna heims. En Skarphéðinn er óreyndur, hefur aðeins kynnzt íslenzkum stökkpöllum sem gefa ekki meira en 20-40 m stökk. En í Squaw Valley stekkur hann í braut þar sem búizt er við allt að 90 metra stökkum. Hver áhrif það hefur á óreyndan Íslending er óráðin gáta, en gaman verður að sjá þennan konung íslenzkra stökkmanna í dag meðal beztu stökkmanna heims. Olympíunefnd Íslands hafði fjármagn til að senda þrjá menn á Ieikana í Squaw Valley. Skíðasambandið valdi Eystein, Kristin og Jóhann Vilbergsson. Síðar bárust SKÍ þau boð frá Siglfirðingum að þeir hefðu skotið saman fyrir farareyri Skarphéðins. SKÍ mælti með þátttöku hans í Ieikunum og nú er hann við æfingar vestra. Slík er trú Siglfirðinga á getu Skarphéðins, að þeir vilja hann til Olympíuleika. Og þessi hógværi Siglfirðingur mun áreiðanlega sóma sér vel í hópi afreksmanna







Á gamla vef sksiglo.is er að finna mjög skemmtilega grein um afrek Sveins á hans yngri árum. Slóðin er http://157.157.96.74/gamli/morgunbl-6712.htm

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 388
Gestir í dag: 92
Flettingar í gær: 742
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 322324
Samtals gestir: 35606
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 19:49:32
clockhere

Tenglar

Eldra efni