01.10.2013 06:43

Videóheimar loka


887. Og enn fækkar í videóbransanum. Í ársbyrjun lokaði hin gamalgróna myndbandaleiga Grensásvideó, og nú er komin röðin að Videóheimum sem Siglfirðingurinn Árdís Þórðardóttir (Dísa Þórðar í Hrímnir) hefur rekið með miklum myndarbrag í á þriðja áratug.

Breytt neysluhegðun hefur þrengt mjög að myndbandaleigunum á síðustu árum og þeim hefur þess vegna fækkað jafnt og þétt. Það er af sem áður var að þær voru næstum því jafn óteljandi og Breiðafjarðareyjarnar, vötnin á Arnarvatnsheiðinni eða hólarnir í Vatnsdalnum. Sú var tíðin að hvorki fleiri né færri en fimm aðilar leigðu út VHS spólur á Siglufirði á sama tíma svo nærtækt dæmi sé tekið og Bónusvideóleigurnar voru um eða yfir 30 talsins, þó sá sem þetta skrifar harmi endalok þeirrar keðju ekki svo mjög, frómt frá sagt.

Ég hitti Dísu á dögunum sem sagði mér að hafin væri rýmingarsala á myndefni leigunnar og hún gengi vonum framar. Um helmingurinn af lagernum væri þegar seldur og hún stefndi á að selja megnið af honum áður en hún skellti endanlega í lás.

Það er ekki laust við að maður spyrji sig hver loki næst.

21.09.2013 12:59

Sexý einkanúmer


886. Fyrir fáeinum dögum átti ég leið um bílastæði í austurbæ Reykjavíkur og rakst þá á þetta stórskemmtilega einkanúmer. Ég sem varð auðvitað að bæta því í safnið, dró upp myndavélina og festi þennan splunkunýja grip í flögu með það sama. En fyrir þá sem ekki vita, er ég haldin söfnunaráráttu af fremur fágætu tagi, en hún gengur út á að safna skemmtilegum einkanúmerum í stafrænu formi.

Sjá http://leor.123.is/blog/2013/06/24/666571/

Síðan hélt ég mína leið, en var þó ekki kominn langt þegar ég sá hvar bíleigandinn nálgaðist ökutæki sitt. Ég fylgdist með og hugsaði með mér að það sem fyrir augu bar, gæti nú varla verið tilfellið, en það var nú samt akkúrat þannig.




Eigandinn reyndist vera virðuleg eldri kona með silfurgrátt hár, líklega heldur nær áttræðu en sjötugu. Hún gekk við einhvers konar hjálpartæki sem mér sýndist vera eins og sambland af staf og lítilli göngugrind, en það skal þó tekið fram að þegar þarna var komið sögu var fjarlægðin all nokkur og því erftitt af henda reiður á smáatriðin. Hún átti greinilega í svolitlum erfiðleikum með að komast upp í bílinn, en það hafðist samt allt á endanum. Sú gamla var nú sest undir stýri og brenndi af stað með talsverðum tilþrifum. Ég hafði orð á því við nærstaddan kunningja minn hvort þetta gæti verið rétti eigandinn af ökutækinu með hinu verulega sexý einkanúmeri, en hann taldi svo vera því einhverjar fregnir hefði hann haft af því áður.

En miðað við bílinn og númerið sem á honum var, hélt ég í einfeldni minni að eigandinn hlyti að líta einhvern vegin allt, allt öðruvísi út. Ég verð bara að segja það.

15.09.2013 00:21

Lögguhasar í Mjóddinni


885. Ég mætti til vinnu í morgun laugardaginn 14. sept. kl. 6.45 samkvæmt vaktaplani og flest benti til þess að dagurinn yrði rétt eins og svo margir aðrir laugardagar, í flesta staði óskup venjulegur vinnudagur á venjubundnum rúnti sem stundum virðist allt að því endalaus. Ef til vill má segja að hann hafi að flestöllu leyti verið það utan lítilsháttar tilbrigða um stef um fljótvirkandi morgunvakningu og það aldeilis "óforvarendis".
Ég hafði komið akandi frá Hamraborg um Hjalla, Smára, Lindir, Sali, Kóra, Þing og Hvörf, áleiðis í Mjóddina og var einmitt nýlentur þar þegar atburðarásin tók svolitla vinkilbeygju í grámóskulegum hvunndeginum sem hafði kannski þegar betur er að gáð, fátt annað en ágæt áhrif á blóðrásina hvað mig varðar þegar málið er skoðað svona heildrænt.
Klukkan var 09.15.
Vagn númer 21 kom rétt á eftir mér og boraði sér inn í stæðið sitt fyrir framan mig sem honum tekst sjaldnast vel upp með því að hann á eiginlega að vera þarna á undan mér og þrengslin gera það að verkum að ef það gengur ekki eftir, verður hann alltaf eitthvað svo hjákátlega skakkur miðað við gangstéttina.
Ég sá að bílstjórinn tók upp síma og fór að tala í hann.
Vagn 24 sem var að koma úr Garðabænum renndi upp að hinum megin við umferðareyjuna.
Skyldi Siglfirðingurinn Dóri Jóns og Elsu Matt vera þar undir stýri?
Nei það var ekki hann, heldur einhver allt annar maður sem virðist ekki vera mjög mannblendinn og ég hef aldrei talað við.
Alla vega ekki ennþá.
Ég sá útundan mér hvar tveir dökkklæddir menn komu hlaupandi frá Stekkjarbakkanum og stefndu í átt að strætóstoppistöðinni.
Annar var aðeins fljótari en hinn eins og gengur - hmm... 
Þeir þurfa nú ekki að flýta sér svona mikið og eru nú alls ekkert að missa af strætó hugsaði ég, því fyrsti bíll fer nú ekki fyrr en eftir 3 mínútur.
Ég leit aftur yfir á vagn 24 og svo aftur í átt til Stekkjarbakkans.og nú sá ég mennina tvo koma hlaupandi upp á umferðareyjuna hinum megin við stoppustöð Akureyrarstrætósins. 
Í þann mund sem sá aftari náði þeim fremri, tók ég eftir því að sá sem hafði hlaupið lengst af á undan var svartur karlmaður, líklega milli tvítugs og þrítugs, en sá sem á eftir hafði farið var... - löggi.
Nú gerðist atburðarrásin heldur hraðari en hentaði mér og mínum smekk sem hefði gjarnað viljað taka betur eftir á fyrri stigum málsins og jafnvel spóla aðeins til baka.
Lögginn reif þarna í þann svarta sem tók hraustlega á móti og urðu úr talsverðar stimpingar og sviftingar.
Það var ekki fyrr en ég sá kylfu á lofti að sá svarti féll niður á annað hnéð, en stóð samt aftur upp og fangbrögðin héldu áfram svolitla stund.
Ég renndi hendinn ofan í brjóstvasann eins og í leiðslu og fiskaði upp myndavélina sem þar á sér nokkuð fastan samastað.
Áður en ég náði að kveikja á henni og stilla linsuna, dreif að fleiri aðila sem töldu sig greinilega málið varða.
Líklega hefur það líka gert það.
Um myndirnar sem ég náði að taka í hamaganginum er það að segja að þær eru allar vondar. Líklega er í fyrsta lagi ekki gott að taka myndir í gegn um óhreinar rúður plús að vélin sé á vitlausri stillingu og svo þarf ég að fara að fá mér eitthvað skárra en þessa hræódýru drusluvél. (Hmmm).
En áfram með söguna.
Löggubíll kom svífandi frá Breiðholtsbraut og stöðvaðist uppi á grasinu á eyjunni, ökumaðurinn stökk út og fór að liðsinna félaga sínum.
Man eftir skilti einhvers staðar sem á stóð "BANNAÐ AÐ GANGA Á GRASINU", ég hugsaði með mér hvað þá keyra á því.
Annar bíll kom úr gagnstæðri átt eða frá Stekkjarbakkanum og ökumaður hans lagðist líka á sveif með félögum sínum. (Átti reyndar ekki von á öðru).
Leikurinn var nú orðinn það ójafn að sá svarti hlaut að lúta í gras sem hann gerði að lokum.



Reyndar lét einn þeirra sem komu þarna aðvífandi félaga sína um mesta hasarinn, alla vega til að byrja með.




Nokkru siðar koma svo sá fjórði hlaupandi alveg lafmóður og ég gat ekki betur séð en hann væri algjörlega búinn á því. (Þarf kannski að fara í endurhæfingarbúðir)...!




Og áfram hélt aðgerðin um stund. Það virtist þurfa fjóra á einn og ekkert veita af.




Að lokum voru járnin komin á "sinn stað" en ekki gekk samt allt of greiðlega að koma hinum meinta sakborning til bíls.




Það gekk þó að lokum og hurð heyrðist skellt aftur.




Fljótlega var ekið í burtu og umferðareyjan var aftur orðin mannlaus eins og hún á vanda til.
Ég rölti til bílstjórans á vagni 21 sem var enn að tala í símann og spurði hvort hann hafi séð hasarinn.
"Hvaða hasar? var eitthvað í gangi? missti ég af einhverju?"...
"Það er lílklega kominn tími á okkur" sagði ég.
"Jú, jú" sagði hann, kvaddi í símann og brosti sínu breiðasta.
"Er ekki bara allt í gúddý"?
Þetta hljómaði eins og einhvers konar kveðja og þar með var hann rokinn.
Hann hafði greinilega ekki tekið eftir neinu og ég velti fyrir mér hvernig slíkt sé eiginlega hægt?
Ég gekk til baka og fram hjá strætóskýli þar sem kona í hvítri kápu spurði mig...
"Fannst þér þeir ekki fara illa með manninn. Og hann sem var svo vel klæddur og meira að segja líka með flott sólgleraugu"?
Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að svara þessum svolítið undarlegu spurningum konunar.
"Kannski hafa þeir haft einhverja ríka ástæðu".
ég lagði ríka áherslu á RÍKA. 
Það hnussaði í henni og ég skynjaði alveg að hún stóð ekki með laganna vörðum.
-
En því er við að bæta að ég hef ekkert fundið um málið á netinu. Hvorki hjá netfréttamiðlum, bloggurum eða dagbók lögreglunnar.
Ég er nú samt ansi forvitinn...


05.09.2013 20:16

Hvað heitir fuglinn?


884. Víst er að skrifara er meinilla við að viðurkenna vankunnáttu og fávísku sína, nánast sama á hvaða sviði það er, en stundum á hann þó engra annarra kosta völ eins og til dæmis akkúrat núna. 
Í vikunni sem senn er liðin eignaðist ég frekar óvænt nokkra uppstoppaða fugla sem er kannski ekki svo mjög í frásögur færandi, t.d. lítinn andarunga, lunda og svo þenna fugl sem ég viðurkenni (að vísu mjög treglega) að ég veit ekki hvað heitir. Það er svo sem ekkert nýtt að mér gangi illa að þekkja fuglana, en ég hef hingað til komist upp með að láta það mér í hæfilega léttu rúmi liggja. Reyndar á ég þessa líka fínu fuglabók sem Sigurður Ægis á hvað mestan heiður að hvað alla tilurð varðar og að öllu jöfnu hefði ég fundið svarið þar, en vandinn er bara sá að hún er á Siglufirði en ég sunnan heiða sem stendur. Ég neyðist því til að leita á náðir ykkar sem hingað kunna að reka inn nefið og óska eftir aðstoð í stóra fuglanafnamálinu. Það skal þó tekið fram að ég er alveg handviss um að þetta er hvorki páfagaukur né pelikani, storkur eða strútur, leirutíta eða landnámshæna, relluhegri eða rindilþvari, dómpápi eða dvergsnípa og svo mætti lengi telja.
En ef einhver vildi vera svo væn(n) þá endilega setjið inn smá athugasemd...

29.08.2013 19:08

Bíllinn hans Gylfa



883. Ég rakst á Gylfa Ægis í Bónus á Hrauninu í Hafnarfirði þar sem hann tíndi eitt og annað smálegt í körfu sína meðan hann átti orðastað við mann og annann sem köstuðu á hann kveðju sinni. Auðvitað hlaut hann að þekkja marga hér um slóðir því hann bjó lengi á Suðurgötunni í Hafnarfirði, nema það sé bara eins og svo oft að fleiri telja sig þekkja manninn á stallinum en maðurinn þá.





Það fór sem sagt ekkert á milli mála hver var á ferðinni innandyra og þá ekki síður þegar út var komið eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það verður tæpast annað sagt en að ökutækið sé vel nýtt til að auglýsa þá starfsemi og og þær afurðir sem eigandinn er þekktur fyrir, auk þess sem það þjónar eflaust sínu venjubundna hlutverki ekkert síður en önnur slík.
Hér fer og það eflaust víða, bæði mikil og góð auglýsing sem er líkleg til að koma þeim sem berja hana augum í betra skap og sjá lífið og tilveruna í bjartari litum eftir en áður. Alla vega var það mín upplifun. 
En það er hins vegar ekki ósennilegt að einhverjir komist ekki hjá því að láta hina fjölmöru ryðbletti sem hætt er við að fari ört stækkandi á næstunni, trufla hina jákvæðu heildarmynd og ég myndi því ráðleggja okkar manni að taka á því máli hið allra fyrsta. 





Ég fór allan hringinn og myndaði bílinn, en það var ekki fyrr en ég tók þessa mynd að ég tók eftir (sambýlis)konu Gylfa, (veit reyndar ekki hver hjúskaparstaða þeirra er) þar sem hún gætti bíls og beið þess undir stýri að hann kæmi úr búðarferðinni. 
Ég skal viðurkenna að ég varð pínulítið kindarlegur...

24.08.2013 20:18

Frítt í strætó á Menningarnótt




882. Í dag er Menningarnótt... Eða var kannski Menningardagur í dag og eftir kvöldið byrjar nóttin sem nefnd er Menningarnótt. En hvað sem þeirri skilgreiningu líður, þá byrjar dagskrá Menningarnætur strax um morguninn og stendur allan liðlangan daginn þó það hljómi vissulega svolítið undarlega að kalla dag nótt.
Það sem ég varð var við strax í upphafi vinnudags og hefur verið ófrávíkjanlegur fylgifiskur þessarr hátíðar var að það er frítt í strætó, en þannig hefur það verið árum saman. Þrátt fyrir að það sé eiginlega orðin hefð og talsvert hafi verið um kynningar á þessum frídegi strætónotenda, hefur u.þ.b. annar hver maður eða svo, reynt að greiða fyrir farið. Þegar ekið var af stað í morgunsárið var búið að líma fyrir rifuna á bauknum þar sem miðarnir og klinkið er sett í og skrifa með feitum tússpenna "FRÍTT" sem hefði tæpast átt að fara fram hjá nokkrum manni. Það var því oft svolítið spaugilegt að fylgjast með tilburðunum og að sjá á undrunarsvipinn á þeim sem uppgötvuðu á endanum hvernig í pottinn var búið. Strákur sem kom inn í Lindunum horfði angistarfullur á útbúnaðinn og sagði með þjáningarhreim í röddinni; "veistu að ég var góðan hálftíma að leita að klinki heima og missti þess vegna af næsta strætó á undan". En líklega verða það að teljast skemmtilegustu sjónrænu tilburðir dagsins þegar ung stúlka reyndi ítrekað að koma strætómiðanum sínum inn um rifuna á prentaranum sem prentar út skiptimiðana eftir að hún hafði gefist upp á flestum þeim öðrum leiðum sem henni höfðu áður til hugar komið, en þær voru ófáar.

20.08.2013 01:48

Elli Magg


881. Rakst á þessa gömlu mynd á netinu og sé ekki betur en að hún sé tekin ofarlega í Þormóðsbrekkunni, en húsakosturinn þarna hefur greinilega breyst alveg ótrúlega mikið síðan myndin var tekin. Maðurinn á myndinni er Elli Magg (Eldjárn Magnússon) pylsugerðarmaður með meiru, sem ég man eftir að hafi búið á Hávegi 3 eða 5 áður en hann flutti úr bænum einhvern tíma um miðjan sjöunda áratuginn. Myndin gæti samkvæmt öllu verið tekin um eða upp úr 1960.

Stelpan til hægri gæti verið Steinunn Margrét Eldjárnsdóttir, en strákurinn til vinstri heitir Hörður Þorsteinsson (fæddur 1953) og býr núna á Selfossi. Ég man ekki eftir honum og veit ekki hvaða tengingu hann hefur við Siglufjörð, en þó er nokkuð víst að einhver hafi hún verið.

Kannski getur einhver skotið inn fróðleiksmola.

14.08.2013 08:25

Kornungir gítarsnillingar



880. Þeir sem eiga það til að kíkja inn á youtube vefinn, vita að þar er auðveldlega hægt að ílengjast og það jafnvel svo um munar. Ég sá litla frétt á mbl.is í vikunni og í framhaldinu festist ég auðvitað í alllangan tíma á umræddum stað, en það er nú önnur saga. Tilefnið var sem sagt fréttin um frönsku stúlkuna, gítarsnillinginn sem er þó ekki nema 14 ára. Hún birti nýverið myndband af sér, þar sem hún situr með rafmagnsgítar og flytur, eða réttara sagt tætir það sem hún kallar verk til heiðurs Vivaldi. Flutningurinn er sannarlega ótrúlegur, en hann hefst á kunnuglegu stefi úr Sumri árstíðanna fjögurra, er í bráðskemmtilegum þungarokksstíl  og fer þessu rammklassíska verki hreint alls ekki sem verst. Slóðin að snilldinni er http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=DIGfO2Dgc9Y

Stúlkan, sem kallar sig Tina S á youtube, er ýmsum netverjum kunnug, því hátt í 6,7 milljónir hafa hlýtt á flutning hennar af Eruption eftir Van Halen.




Og á youtube leiðir oftast eitt af öðru og hlustandinn er gjarnan leiddur áfram á svipaðri braut. Eftir eitt myndbandið er boðið upp á næsta og næsta o.s.frv. Það gerðist einmitt í minu tilfelli að þessu sinni, því upp poppaði annað myndband þar sem um var að ræða 8 ára breska stelpu, en mbl.is mun einnig hafa fjallað um hana nýverið. Sú sló einnig í gegn með snilldarlegum gítarleik sínum, heitir Zoe Thomson og býr í bænum Thatcham. Hér má sjá hana leika lagið Stratosphere með finnsku þungarokkssveitinni Stratovarius en gítarhlutverkið í því lagi þykir síður en svo vera fyrir neina byrjendur.

Á mbl.is segir að Zoe litla Thomson er ekki óvön sviðsljósinu, því fyrir ári vakti hún mikla athygli með barnasveitinni The Mini Band. Sveitin varð vinsæl fyrir að flytja lagið Enter Sandman með Metallica, en meðlimir The Mini Band eru aðeins 8-10 ára.

04.08.2013 23:12

Steingrímur í nýju starfi




879. Steingrímur Kristinsson
eða Baddý í Bíó eins og hann hefur stundum verið kallaður, gefur ekki tommu eftir í ljósmyndabransanum þó hann sé nú fluttur úr Hvanneyrarbraut 80, nyrsta húsi Siglufjarðar og inn á Skálahlíð þar sem hann segist þurfa að hafa mun minna fyrir hinu daglega brasi og líkar að eigin sögn vistin vel. En um það leyti sem hann gerðist "löglegur" (eða þannig), setti hann á stofn nýjan siglfirskan netfjölmiðil "Lífið á Sigló", en áður hafði hann keypt allt það safn ljósmynda sem orðið hafði til eftir áratuga rekstur Kristfinns Guðjónssonar á Ljósmyndastofu Siglufjarðar, en hún hafði þá ekki verið starfrækt um árabil. Vefurinn fór fyrst á netið um miðjan júní 2003 og varð því tíu ára nýverið, en ljósmyndirnar sem hafa orðið aðgengilegar á netinu smátt og smátt allar götur síðan 1998, eru nú orðnar vel á annað hundrað þúsund og ljósmyndarar sem lagt hafa til efni skipta tugum. Breyting varð á eignarhaldi vefmðilsins á árinu 2008 sem varð til þess að fleiri komu að rekstri hans, en sú gríðarlega vinna sem felst í daglegum rekstri hans eins og hann hafði þá þróast, er ekki einum manni ætlandi. En eftir stendur að Siglfirðingar geta verið þakklátir Steingrími fyrir hið
 ómetanlega frumkvöðlastarf  hans sem aldrei verður réttilega metið til fjár.

Síðan umrædd breyting varð á rekstri vefsíðunnar hefur Steingrímur sinnt áhugamáli sínu af alúð og natni, enda haft mun meiri tíma til þess en áður og hefur því daglega mátt sjá hann á ferðinni í bænum, en að sjálfsögðu aldrei myndavélalausan. En líklega hefur okkar manni fundist hann hafa orðið of lítið að gera því hann hefur nú tekist á hendur nýtt starf, og nú sem safnvörður í hinu nýopnaða Ljósmyndatækjasafni sem er til húsa að Vetrarbraut 17 og er kærkomin viðbót í siglfirsku safnaflóruna sem er nú farin að spanna ansi breitt og skemmtilegt svið.
Ég leit við  hjá Steingrími í safninu og sníkti auðvitað kaffi í leiðinni. Þarna eru saman komnir fjölmargir forvitnilegir gripir sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast sögu ljósmyndunnar hérlendis allt frá upphafi hennar. Ég fékk þó að vita að ekki væri allt komið enn, því talsvert af tækjum væri enn í geymslum syðra. Baldvin og Inga eigendur ljósmyndavöruversluninnar BECO eiga heiður skilið fyrir framtak sitt, en þau hafa safnað öllum þeim tækjum og tólum sem þarna er að sjá og meiru til. Þau keyptu húsið við Vetrarbrautina fyrir nokkrum árum og eru nú langt komin með að gera það mjög smekklega upp. Fyrir fáeinum dögum átti ljósmyndari frá Mbl.is leið um Siglufjörð og leit þá við á safninu. Afrakstur þerrar heimsóknar má sjá ef fylgt er slóðinni http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/84708/?cat=innlent

Það má svo geta þess í leiðinni að unglambið er ekki nema 79 ára gamalt sem er auðvitað ekki nokkur aldur og þess vegna ekkert óeðlilegt að starfsorkan sé allt að því óendanleg eins og hún svo sannarlega virðist vera. En ber er hver að baki o.s.frv. eins og spakmælið segir, því ekki megum við gleyma þætti Guðnýar í Bakka sem stutt hefur bónda sinn alla tíð.
Hér að neðan (og reyndar ofan líka) eru nokkrar myndir sem ég tók í innlitinu, og ég vil hvetja þá sem enn eiga eftir að kíkja þarna við til að gera það sem fyrst - og oftast.




Steingrímur bauð upp á kaffi sem ég þáði með þökkum.




Tveir af fjórum skápum sem eru fullir af ljósmyndatækjum og tólum.




Myndavélarnar eru svo sannarlega frá ýmsum tímum.




Sumar greinilega komnar á mjög virðulegan aldur.




Eins og klipptar út úr svart/hvítum draumi síðustu aldar.




Og þessu tæki ásamt fylgihlutum skortir mig þekkingu til að lýsa.




Eða þá þessari gömlu merkismaskínu sem er Rússnesk eftirlíking af LEICA.
Þið verðið bara að sjá með eigin augum og njóta í leiðinni leiðsagnar Steingríms sem veit auðvitað heilmikið um þessa gömlu dýrgripi.

30.07.2013 08:24

Nokkrar sumarlegar myndir frá Sigló með meiru


878. Hér eru nokkrar myndir frá Sigló sem allar voru teknar helgina fyrir Síldarævintýrið, meðan sólin hafði skinið nánast upp á hvern dag vikum saman og oft mátti sjá verulega heitar tölur á hinum flunku eða splunkunýja hitamæli utan á SPS við Túngötu. Dag eftir dag hafði hann sýnt um og yfir 20 gráður og a.m.k. tvisvar sinnum sá ég töluna 27 sem verður að teljast í það minnsta alveg bærilegt svo ekki sé meira sagt. En því miður á sælan það til að taka enda og oftar en ekki á frekar óheppilegum tíma sé þess nokkur kostur. Föstudaginn 2. ágúst var ljóst að veðurspáin var okkur ekki hliðholl og hafði hrætt margan ferðalanginn frá því að heimsækja norðurlandið, en heimamenn horfðu upp í heiðbláan himinn og skildu illa hvers vegna lítið sem ekkert fjölgaði á tjaldstæðum bæjarins. 
Ég heyrði þá sögu að á fimmtudegi fyrir Síldarævintýri hefðu komið nokkrir húsbílar í bæinn, hreiðrað um sig á Rammatúninu og myndað eins og lítið þorp eða samfélag með auðu svæði í miðju. Þetta virtist vera annað hvort einhver stórfjölskyldan eða þá samhentur hópur sem síðdegis þennan dag var búin að koma sér notalega fyrir á svæðinu. En skyndileg breyting varð á að loknum veðurfréttum í sjónvarpi. Fólk kom út úr bílunum, tók saman útiborð, stóla og annað lauslegt og hvarf á braut úr bænum í miklum flýti. En rigningin sem spáð hafði verið kom þó ekki alveg strax, en laugardagurinn varð nánast eini alvöru rigningardagurinn sem komið hafði um langa hríð. - Óheppilegt.

Hér að ofan má sjá frumleg húsgögn fyrir framan bakaríiið. Hlutirnir þurfa nefnilega ekki alltaf að kosta mikið til að geta þjónað hlutverki sínu, auk þess að gleðja augað vegna frumleika og skemmtilegheita




Sjófyllingin undir hið glæsilega hótel sem ráðgert er að rísi við smábátahöfnina er komin á sinn stað, og nú er verið að setja farg ofan á hana eins og gert var áður en hið Akureyrska "Hof¨" áður en það var byggt.




Þessa mynd tók ég út um stofugluggann minn sem er þráðbeint fyrir ofan innganginn inn í bakaríið. Þegar ég horfði niður eftir götunni var Ómar Hauksson þar á rölti ásamt fólki úr Húsbílafélaginu, hann sagði sögu húsanna, fyrrum íbúa og athafnamanna sem þar höfðu átt viðdvöl og kom auðvitað víða við í frásögn sinni, enda bæði af nætu af taka og Ómar vel fróður um þessa hluti.




Skömmu síðar sama dag voru prúðbúnir gestir á leið til brúðkaupsveislu sem haldin var í Allanum. ér datt í hug lína úr Flowerslaginu Glugginn, "Ég sit og gægist oft út um gluggann, að gamni mínu út yfir skuggann".




Og einmitt þarna hafði Sparisjóðsmælirinn sýnt okkur töluna 27 í svolítinn tíma upp úr hádeginu og eithhvað fram eftir degi. Fleirum en mér varð orðið ansi heitt svo ekki sé meira sagt og einhverjum fannst heillaráð að fá sér kalt fótabað í fjörunni fyrir framan Hannes Boy og Rauðku. 




Á laugardagsmorgni settist ég inn í spjall á útvarpsstöðinni Trölla sem útvarpar á FM tíðninni103.7 hjá þeim Hrólfi, Gulla Stebba og Ægi, en þessi siglfirska stöð er nú til húsa í gömlu skattstofunni sem var í eina tíð á hæðinni fyrir ofan Verslun Guðrúnar Rögnvalds að Túngötu 5, húsinu sem hallar svo áberandi í áttina til fjalls, en þar er Ljóðasetur Íslands núna.




Eftir hálfs mánaðar dvöl á Sigló þurfti ég að skjótast suður yfir heiðar í tvo daga, en á leiðinni þangað ók ég um tíma á eftir þessari hestakerru sem var frábrugðin öðrum ökutækjum að því leytinu til að hún bar tvö skráningarnúmer. 
Ákaflega sérstakt og örugglega mjög sjaldgæft líka...

30.07.2013 04:47

Auglýsingin á Sparisjóðnum


877. Þetta er Túngatan á Siglufirði. Það ætti að vera nokkuð augljóst bæði þeim sem þekkja þarna til, og jafnvel einnig þeim sem þekkja minna til, því "Ríkið" er fyrsta hús til hægri á myndinni og þangað hafa margir ratað sem ekki hafa átt annað erindi í bæinn. En þetta er nú útúrdúr því leið okkar liggur um þessa götu í átt að sjálfum miðbænum og Ráðhústorginu þar sem lífæð íbúanna liggur um stéttir og stíga, þar sem svo auðvelt er að finna fyrir nálægð þorpssálarinnar og þar sem hjartað slær gjarnan glatt á góðum dögum. - En ef að er gáð, má sjá að eitthvað er öðruvísi en venjulega.



Nokkrir tugir metra til viðbótar eftir götunni og það er engum blöðum um það að fletta að þarna hangir eitthvað á spýtunni, og það alveg í bókstaflegri merkingu.



Nýeinangraður og múraður norðurveggur gamla Útvegsbankahússins eða SPS í dag, maður að sýsla uppi á vinnupöllum og annar að fylgjast með á jörðu niðri. Mikil litagleði einkennir auglýsinguna sem hangir þarna uppi og hún er risastór þó svo að hún sýnist ekki vera það á vegg þessa "sex" hæða húss (ef risið og kjallarinn eru talin með).



Jú, Skúli Jóns var að festa auglýsinguna en Höddi Júll sagðist vera svolítð lofthræddur og vildi því frekar hafa fast land undir fótum og segja Skúla til. Þarna var að fara upp stærsta auglýsing um skemmtun og/eða dansleik m/meiru sem sett hefur verið upp á Siglufirði eða upp á heila átta fermetra. Verður það ekki að teljast sögulegur viðburður eða hvað?



Og þá er komið að því sem ég vildi vekja athygli á og fór svo rækilega í kring um hér að ofan með endalausum orðalengingum og skrúðmælgi, en það er skemmtunin BÍTLAÁRIN á Rauðku föstudaginn 2. ágúst. Skemmtun í myndum, tali og tónum sem hefst með borðhaldi kl. 19.00 þar sem boðið verður upp á þriggja rétta kvöldverð. Sítrusmaríneraða sjávarrétti, reyktan og grafinn lax með piparrótar og graflaxsósu, nautacarpaccio með steinseljurót, jómfrúarolíu og parmessan í forrétt. Í aðalrétt eru beikonvafðar kalkúnabringur með supréme sósu og nautahryggjarvöðvi með villisveppasósu ásamt ofnbökuðu rótargrænmeti kryddjurtabökuðu kartöflusmælki, fersku slati, nýbökuðu brauði og smjöri. Í eftirrétt er svo gómsæt súkkulaðikaka með kremi og vanillusósu.
Þá munu bítladrengirnir Birgir, Leó (ég), Maggi og Grímur með stórsöngvarann Ara Jóns úr Roof Tops í broddi fylkingar stíga á pall ásamt sérlegum gestum kvöldsins, þeim Ómari Hauks og Þorvaldi Halldórssyni. Kynnir kvöldsins er blaða og sjónvarpsmaðurinn Þröstur Emilsson.
Miðasala og pantanir eru á Rauðku og í síma 467-7733 og athygli skal vakin á að aðeins eru 110 miðar í boði á hinn þriggja rétta kvöldverð plús skemmtunina.
-
Á eftir sér svo bítlabandið Vanir Menn um að allir skemmti sér á dunandi balli. 

24.07.2013 23:52

Póstkort

876. Og í beinu framhaldi af síðustu færslu koma þær skýringar sem þar voru boðaðar, þ.e. hvers vegna ferðin var farin upp í turninn? 
Jú, ástæðan var sú að mig vantaði eina mynd í átta mynda pakka. 
Átta mynda pakka hvað? 
Jú, það er víst hagstætt að prenta átta póstkort í einu svona kostnaðarlega séð. 
Ok., en af hverju er verið að prenta póstkort? 
Ég gerði mér ferð í fyrirtæki sem heitir "Sólarfilma" og falaðist eftir póstkortum og fleiru sem það kompaní hefur upp á að bjóða til endursölu, en fékk þau svör hjá forráðamanni og eiganda að það væri eiginlega fyrir neðan virðingu umrædds að vörur þess fengjust þar sem ég hugðist selja þær, þ.e. í Kolaportinu. Ég bankaði því upp á hjá öðru slíku fyrirtæki, Demantskortum í Hafnarfirði. Þar varð fyrir svörum Oddur Thorarensen frá Akureyri, sem er reyndar náfrændi Odds Thorarensen sem rak Nýja Bíó á Siglufirði um áratuga skeið. Hann tók mér vel og frá honum fór ég með talsvert af hinum ágætustu póstkortum, en umsvif Demantskorta eru talsvert minni en hinna fyrrnefndu og ég vildi því auka svolítið á flóruna, breikka línuna og bæta vð úrvalið. 
-
Hér að neðan má svo sjá afurðirnar...


Skólavörðustígurinn, Miðbærinn og Grandinn.


"Hopparinn" og nokkrir af helstu viðkomustöðum hans.


Flekaskil Evrópu og Ameríku nærri Reykjanesvita.


Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingastaður Jóns Sigurðssonar. - Myndin er meira að segja tekin þann 17. júní 2009. - Víkingaskipið Íslendingur. - Eyðibýli fyrir norðan Hafnarfjörð. - Frá Árbæjarsafni.


Hestamenn ríða yfir Siglufjarðarskarð, - Riðið á Löngufjörur í átt að Snæfellsjökli, - Villimannareið yfir Hólsá á Siglufirði, - Trússferð um Haukadalsskarð.


Tjörnin í Reykjavík, Fríkirkjan og Fríkirkjuvegurinn.


Vesturbærinn í Reykjavík. Myndin er tekin í fjörunni fyrir neðan Boðagranda.
 

Moldóttir hestar.

15.07.2013 19:06

Hátt uppi



875. Það getur verið gaman að vera hátt uppi - eða þannig...  Mig hafði lengi langað að gera mér ferð upp í Hallgrímskirkjuturn til að líta yfir bæinn og geta í leiðinni litið svolítið niður á samborgara mína í bókstaflegri merkingu. Og þar kom eftir margra daga grámósku og myglu, að veður gerðist gott einn daginn og ég hafði einnig ágætan tíma til að slóra svolítið. Ég gekk því til kirkju, greiddi 700 krónur fyrir innlitið eða réttara sagt upplitið, smeygði mér inn í lyftuna ásamt u.þ.b. tug túrhesta af ýmsum þjóðernum og skoðunarferðin var hafin.





Þegar upp var komið fór það ekkert á milli mála að útsýnið var harla gott til allra átta og dreg ég þá heldur úr. Ég naut þess til hins ýtrasta og smellti af nokkrum stafrænum. Þarna blasti við Vatnsmýrin með flugvelli allra landsmanna, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörðurinn og mér fannst ég líka sjá hálfa leið til Keflavíkur.





Í hina áttina mátti sjá Tjörnina þar sem Ráðhúsið húkti svolítið út í horni, Reykjavíkurhöfn og Seltjarnarnesið sem endaði auðnitað úti í Gróttu.





Austurbæjarskólinn.





Iðnskóli Reykjavíkur sem eftir sameiningu við tvo aðra skóla heitir Tækniskóli Íslands að mig minnir.





Stóri turninn sem ég heyrði einverntíma einhvern kalla "Hitt Borgarleikhúsið" einhverju sinni og það með glott á vör. Skálafell, Mosfellsbær, Úlfarsfell...





Austurbærinn og í Bláfjöllin í blámóðu fjarskans.





Handan við flóann sést Snæfellsjölull óvenju vel  að þessu sinni, enda "skyggni ágætt".





Skuggahverfisblokkirnar við Skúlagötuna og síðan taka við sundin blá. 





Það er stutt í Hörpuna úr turninum, sérstaklega ef maður notar aðdráttarlinsu. 





En þetta var eiginlega myndin sem ég fór upp til að taka. Skólavörðustígurinn, miðbærinn, höfnin og vesturbærinn að hluta. En nánar um það atriði í næsta bloggi.





Horft um öxl eða þannig... Það er reyndar talsvert langt þarna niður og það þrátt fyrir að hátt sé til lofts inni í kirkjuskipinu.





Líka niður á kollinn á honum Leifi Eiríkssyni sem þarna stendur keikur, grænn og steinrunninn í öllum veðrum, allan ársins hring, svo og alla "maurana" sem sjá má allt um kring.





En svo er auðvitað hægt að lækka flugið örlítið...

14.07.2013 04:27

Á strætórúntinum um Kópavog



874. Nú er nánast akkúrat ár liðið frá því að ég fór að aka strætó um Kópavog, nokkuð sem mér hefði líklega þótt fráleitt aðeins nokkrum mánuðum áður.en sá kapítuli hófst. Hér að neðan má sjá nokkur "skot" frá því tímabili.





Í vikunni sem leið voru hvorki meira né minna en 11 hraðahindranir (stundum kallaðar löggubrjóst) fjarlægðar af Digranesveginum og fáeinir púðar settir í staðinn. Ekki svo lítil breyting til batnaðar fyrir þá sem aka um á stærri bílum. Það var því mikið um þrengingar í götunni meðan á þessum umbótum stóð og umferðartafirnar voru talsverðar. En nú er það frá og allt annað líf að fara þarna um. Myndin hér að ofan var hins vegar tekin s.l. haust þegar framkvæmdir voru í gangi á Álfhólsveginum. Þá var aðeins ein akrein opin til beggja átta í nokkurn tíma, nokkuð þröngt milli keilanna eins og sjá má og því ekkert allt of marga aukasentimetra upp á að hlaupa. Ekki gerði það málin einfaldari að "göngin" voru s-laga, fyrst var sveigt lítillega til vinstri í átt að Túnbrekku, en síðan aftur upp á Álfhólsveginn þar sem hann hækkar og sveigir til hægri. Skemmtileg ökuleiknisþraut og hin fínasta tilbreyting á leið 28.





Maður sér alls konar farartæki í umferðinni, mörg hver miklu óhefðbundnari og sérstakari á allan hátt en þetta sem virðist vera afrakstur frjórrar hugsunar einhvers hagleiksmanns.





Alls konar uppákomur, vandræði og vesen í dagsins önn.





Þessi maður hefur helgað sér svæði á mörkum Rjúpnavegar og Arnarnesvegar, þar sem hann falbýður afurðir sínar, greinilega bæði lúnkinn og laginn með smíðatól sín.





Er þetta ekki svolítið eins og "gelguleg" skilaboð til einhverrar "vinkonu" sem hefur verið sett út í kuldann (a.m.k. tímabundið)...?





Einu sinni voru þeir kallaðir öskukallar eða ruslakallar, núna er starfsheitið þeir ræstitæknar. Samt finnst mér að þeir ættu ekki að loka annarri akreininni svona kyrfilega.





Dreifing símaskrárinnar virðist hafa farið fram a.m.k. að hluta til með annas konar hætti í Kópavoginum en víðast hvar annars staðar.





Hana mátti fyrir þá sem hefðu viljað glugga í hana, tína upp víða af götum bæjarins. Á Álfhólsvegi, Digranesvegi, Dalvegi, við Smáralind, Þingmannaleið, Vatnsendavegi og eflaust mun víðar. Bókin sú er þykk og mikil af vöxum eins og allflestir vita, svo það hefur varla farið fram hjá ökumönnum þegar þeir óku yfir hana í misjafnlega þungri umferð. Afleiðingin varð auðvitað sú að upplýsingarnar sem hún hefur að geyma dreifðust með þeim hætti sem fáum mátti verða að gagni.




Stundum má sjá svolítið æsilegan hasar, en það má auðvitað ekki stoppa til að fylgjast með nema rétt á meðan rauða ljósið logar á götuvitanum eða eitthvað svoleiðis. Hér er löggan greinilega að leita í bíl og var meira að segja enn að því næst þegar ég átti leið hjá.





Stundum bregður manni aðeins þegar fáír hafa verið á ferli um tíma, Einn inn og kannski einn út á margra stoppustöðva kafla, en svo allt í einu....





Þetta er ljótt að sjá en þvi miður allt of algengt. Ætli sumir séu bara með eitthvað drasl í hausnum?





En áður en við látum gott heita skulum við líta í baksýnispegilinn. Er þetta ekki Micra sem vill ekki? Jú þetta er geinilega Micra. Ef ég hefði verið öðru vísi akandi hefði ég líklega lagt þeim lið sem þarna áttu í vandræðum, en lífið er líka stundum svolítið súrt á köflum.
-
En nú er hafið fyrsta sumarfríið mitt í 30 ár sem launamaður og ég er þar með rokinn norður á Sigló. Ég ætla samt þrátt fyrir takmarkað aðgengi að tölvu, að reyna að blogga einu sinni eða jafnvel tvisvar næstu 2-3 vikurnar...

09.07.2013 23:55

Kvöldganga á Helgafell



873. Í kvöld fékk ég mér svolítinn kvöldrúnt upp að Kaldárseli sem er eins og a.m.k. sumir vita spölkorn ofan við Hafnarfjörð. Við mér blasti bæjarfjallið Helgafell, sem mér finnst oftast líta meira út eins og risastór hóll fremur en fjall. Mér datt si sona í hug að fátt væri nú að því að rölta upp að fjallsrótunum og til baka aftur og rölti af stað. Vigtin sagði mér að ég þyrfti á meiri hreyfingu að halda og svo er alltaf verið að stríða mér á að ég sé kominn með svokallaða bílstjóravömb.




Þegar þangað kom var auðvitað ekki hægt annað en að kíkja a.m.k. aðeins upp á brúnina fyrir ofan neðsta hluta stígsins.
Maðurinn á myndinni sést reyndar mjög illa, en hann hafði verið talsvert fyrir aftan mig skömmu áður, en geystist fram úr mér og hvarf síðan upp fyrir brekkubrún. Þvílik læti...



Þegar upp á brúnina var komið reyndist hún vera einber tálsýn því skammt fyrir ofan hana var önnur brún. - Og maðurinn var alveg horfinn. Kannski hafði jörðin gleypt hann, eða þá að hann faldi sig á bak við stein.



En það virtist svo sem ekkert mjög langt á toppinn, - þangað sem ég ætlaði reyndar alls ekki að fara að þessu sinni, enda engan veginn búinn til neinnar göngu.



Bara að kíkja örlítið ofar. 
Þetta fjall er annars miklu hærra en það sýnist vera frá bænum...



En hvað ætli hafi orðið af manninum? Sennilega hefur hann sest niður í skjóli, alveg að springa úr mæði og vill ekki láta neinn sjá það...



Skrýtið, en samt soldið flott hvað allt er sprungið. - Verulega flottar sprungur.



Eiginlega alveg rosalega flott. - Hvar ætli maðurinn sé annars?



Heitir þetta ekki sandsteinn?



Og varð hann ekki svona útleikinn eftir síðustu ísöld?
Fyrir ofan sandsteinsbrúnina virtist orðið mjög stutt á toppinn



En hvað varð af */#"%* kallinum???



Þarna er hann - og hann er á niðurleið...! 
Það þýðir bara eitt, hann er búinn að fara alla leið upp...



Ég gat því auðvitað ekki annað en gert það líka þó hægar færi...
Á mjög gömlum og slitnum spariskóm, í svörtum stássjakka keyptum á útsölu og með skyrtuna fráhneppta og flaksandi.



Þá var bara eftir að koma sér niður aftur.
-
Og þar sem ég sit og geri grein fyrir ferðum mínum í stuttu máli og nokkrum myndum finn ég hvar strengirnir eru að setjast að í lærum og kálfum. Manni hefnist auðvitað fyrir að hafa varla farið út úr bíl sínum (eða strætó) í næstum tvö ár...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 341
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 742
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 322277
Samtals gestir: 35572
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 14:18:39
clockhere

Tenglar

Eldra efni