22.07.2012 00:17

Meira um strætó

827. Og í beinu framhaldi af því sem áður var sagt datt mér í hug að gúggla svolítið og útkoman varð sú sem sjá má hér að neðan, þ.e. all nokkuð af skemmtilegum strætótengdum myndum frá ýmsum tímum, ýmsum stöðum og þar sem aðstæður eru með ýmsum hætti.



































































12.07.2012 09:20

Úti að aka



826. Það er ekki orðum aukið að undanfarna mánuði hafa flestar gerðir bíla, akstur og umferð, öryggismál, vegamál, að ógleymdum atvinnumálunum, verið það sem flest hefur snúist um allt þar til í þessari vikur sem nú er að líða. Sá tími sem farið hefur í nám við Ökuskólann í Mjódd frá því snemma í aprílmánuði sl., hefur verið aldeilis frábær og skemmtileg upplifun að sitja á skólabekk eftir 35 ára hlé. Þá er ekki verra að uppgötva að það sem hræddi einna mest var ekki það vandamál sem óttast var, en það var að hæfileikinn til að nema eitthvað nýtt væti að mestu fyrir bí vegna aldurs. Það var bóklegi þátturinn og það sem ég hef kallað teflonheilkennið sem fer venjulega vaxandi með árunum, sem var sérstaklega óttast að ætti alveg sérléga illa saman.




En síðan kom í ljós að það var einmitt bóklegi þátturinn sem heillaði. Umferðarsálfræði og Saga umferðar og ökutækja var eitt af því sem kom skemmtilega á óvart og í hinu síðar nefnda átti skrifarinn nokkra létta spretti í kennslustofu þar sem hann miðlaði m.a. myndinni hér að ofan, en þar er verið að leggja veginn yfir Siglufjarðarskarð þar sem verkfærinn eru aðallega haki, skófla, járnkarl og hjólbörur. Þeir sem yngri voru áttu svolítið erfitt með að trúa því að slík vinnubrögð hefðu nokkru sinni tíðkast svona í alvörunni og það mátti sjá einstaka enni hrukkast í forundran og einhverja setti hljóða. Því miður man ég ekki hvar, hvenær eða hvernig þessa sögulegu mynd rak á fjörur mínar, en hún segir segir okkur mikla sögu.




Og svona auglýsu menn í upphafi bílaaldar á Íslandi, eða nánar tiltekið árið 1926.




Ég rakst á þessa athyglisverðu grein þegar ég átti leið um netslóðir nýlega og leit eftir einhverju gömlu og kannski svolítið sögulegu þar sem umjöllunarefnið var bílar og umferð fyrir hart nær öld síðan. Hún birtist í Vísi þ. 19. júlí árið 1929 og ef til vill eru þarna á ferðinni fyrstu hugrenningar um nauðsyn þess að bílstjórar sé vel undirbúnir undir akstur sem meiri ábyrgð fylgir og fari ekki of snemma af stað í slíkt, eða það sem við köllum í dag meiraprófið.




S.l. þriðjudag tók ég "trailerprófið" eða próf á bíl með eftirvagn og gæti því samkvæmt myndini hér að ofan stuðlað að dreifingu hákarla um land allt, en CE prófið svokallaða var síðasti áfanginn í prófaröðinni. Var þar með þessum kafla lokið og tími til kominn að leta fyrir sér og nýta nýfengna þekkingu.




Það tók hvorki langa stund eða kostaði mikla fyrirhöfn að leita sér að vinnu, því á mánudaginn sl. byrjaði ég að aka strætó innanbæjar í Kópavogi af öllum leiðum og stöðum og það varð auðvitað að skella einu skoti á karlinn þegar hann smellti sér í búninginn fyrsta daginn. Það er margt sem erfitt er að sjá fyrir og ein lítil beygja á lífsleiðinni getur breytt öllu því sem á eftir fer. Í byrjun árs sá ég fyrir mér að ég yrði að vinna á Siglufirði a.m.k. eitthvað fram eftir árinu, fáeinum vikum síðar munaði minnstu að ég hæfi verslunarrekstur á Laugaveginum, en í aprílmánuði skráði ég mig í meiraprófið, eiginlega í hálfgerðu bríaríi. Nú er bara að bíða spenntur og sjá til hvert þessi ákvarðanataka leiðir.



02.07.2012 20:34

Fésbókarbömmer



825. Ósjaldan hef ég fengið þá spurningu hvers vegna kjaftaskur eins og ég sé ekki á Facebook, og jafn oft (eða ósjaldan) hef ég eiginlega ekki átt neitt nægilega gott svar við því. "Þú ert nú hálfgerð risaeðla" sagði einn sveitungi minn eitt sinn þegar "andlitsskræðumálið" bar á góma. Ég hef stundum orðið svolítið hissa þegar ég hef fengið vinalegar óskir um tengingu í venjulegum tölvupósti, milli þess sem ég hef fengið eftir sömu leiðum spurningar um hvers vegna ég þráist við að verða með-limur frá hr. Fésbók sjálfum, og er þá tónninn öllu minna vinalegri. Hvernig veit hann að ég L.R.Ó. hef verið svo tregur í taumi sem raunin hefur verið, nema nú sé loksins komin sú skýring sem dugar mér og jafnvel gott betur.

-

Katherine Losse sem var starfsmaður Facebook no. 51 var að senda frá sér bók sem hefur valdið talsverðu fjaðrafoki í umræddum bókarheimum, en þar opinberar hún leyndarmálin 13 eins og hún orðar það. Bókin heitir nefnist "The Boys Kings: A journey into the heart of the Social network" ýmislegt sem Mark Zuckerberg upphafsmanni og aðaleiganda síðunnar hlýtur að finnast frekar óþægilegt.

Í bókinni segir hún meðal annars frá lykilorði sem opnar hönnuðum síðunnar aðgang að síðum allra notenda. Einnig talar hún um skugga-prófíla sem gerðir voru árið 2006 fyrir fólk sem enn hafði ekki skráð sig á síðuna og byggðust á myndum sem vinir þeirra höfðu sett inn. Markmiðið var, að sögn Losse, að búa til gagnagrunn um allt fólk í heiminum. Um skeið var starf hennar falið í að skrifa texta undir nafni sjálfs Mark Zuckerberg.

Þá segist hún hafa upplifað mikið kynbundið misrétti og kynferðislegri áreitni, en Mark sem hún segir engan áhuga hafa á öðru en að forrita hafa sagt en hann hafði engan áhuga á að velta sér upp úr slíku. Um þetta má lesa m.a. á visir.is og pressan.is

-

Svona fréttir eru að öllum líkindum lítt til þess fallnar að trekkja inn á bókarskriflið.

28.06.2012 02:40

Aðdáandi Biebersins no 1


824. Í síðustu viku var viðtal við hið nýútsprungna stórstirni Justin Bieber í sjónvarpi allra landsmanna og þá var einnig sýnt frá tónleikum hans. Þessi hressi og hæfileikaríki strákur er fæddur í mars 1994 og því nýlega orðinn 18 ára. Sannkallað Justin Bieber æði hefur gripið um sig um allan heim og margt af því sem bar fyrir augu á skjánum minnti á bítlaæðið fyrir hálfri öld þar sem ungar meyjar rifu í hár sitt, æptu sig raddlausar og grétu úr sér augun í miklu tilfinningahitakasti.

-

Justin Bieber lýsti því nýlega yfir að hann hefði þroskast bæði hratt og vel sem listamaður, langaði að höfða til breiðari aldurshóps en áður með tónlist sinni og segist nú eiga erindi við eldra fólk. Það kom honum skemmtilega á óvart þegar 80 ára gömul kona, Josie Dimples, bættist í hópinn. Dimples, sem er margföld amma, óskaði Bieber til hamingju með nýtt lag sem hann sendi frá sér í vor og sagðist vera stórhrifin af nýju tónlistinni.

-

Ýmislegt fylgir því að verða heimsfrægur svo að segja á einni nóttu og það er auðvitað komin út bók um kappann sem var snarað skjótlega á ylhýra fyrr á árinu. Þar er spurt "HVERSU VEL ÞEKKIR ÞÚ BIEBERINN?" sem er þeir sem vilja láta taka sig alvarlega verða auðvitað að vita í heimildarmyndinni "ALL AROUND THE WORLD: PART 1" sem er líka nýleg, fá áhorfendur að fylgja honum á tónleikaferðalagi og sjá hvernig hann ferðast á milli 19 borga í 7 löndum á aðeins 12 dögum.

-

Bieberinn skrifaði líka nýlega undir kaupsamning á glæsivillu og borgaði hvorki meira né minna en andvirði 800 milljóna íslenskra króna fyrir eignina sem var áður í eigu Nicole fyrrum eiginkonu Eddie Murphy, rúmir 1000 fermetrar með sundlaug, gestahúsi, bíósal, vínkjallara, andatjörn úti á lóðinni og ýmsum öðrum flottheitum.

-

Á dögunum varð mér ljóst og það með afgerandi hætti að frægð og frami stráksa hefur náð að festa djúpar rætur í a.m.k. einhverjum íslenskum hjörtum og það svo um munar, ef marka má myndina hér að neðan sem var tekin þ. 18. júní sl. niður við Sundahöfn.



18.06.2012 16:08

Erfitt að vera Steingrímur J

Líklega er óþarfi að kynna manninn...

823. Það er líklega síður en svo tekið út með sældinni að vera Steingrímur J. þessa dagana, og mikið held ég að þeim ágæta manni hafi verið úthlutað sterkum beinum, þykkum skráp og greinilega ekki krækt saman með neinum kattarbeinum í öndverðri sköpunarsögu sinni. Álag og áreiti, umtal og illmælgi, ásamt hatursfullum áróðri og núna allra síðast rætnum níðvísum hefur gjarnan verið fylgifiskur hans á kjörtímabilinu sem senn fer að styttast í. Ég get ekki annað en virt hann fyrir margra hluta sakir, þó ég sé síður en svo alltaf sammála honum eða sáttur við verk hans og hafi aldrei kosið hann.

Ég man að eftir kosningarnar 2009 sagði einn ágætur kunningi minn sem stundum hefur setið á hinu "háa" Alþingi sem varamaður, að stærsta vandamálið núna væri að það vildi enginn taka við stjórninni, en sumir væru einfaldlega dæmdir til þess vegna þess hvernig þeir (og þær) hefðu talað. Það að fara í stjórn strax eftir hrun og verða að gera allar þær óvinsælu ráðstafanir sem ekki varð komist hjá, jafngilti að margra mati pólitísku sjálfsmorði, sama hver ætti í hlut. Margt ómaklegt hefur því verið sagt í hita leiksins (eða öllu heldur í hita hrunsins) og það fer ekki hjá því að stundum sé sú röksemdafærsla sem beitt er illskiljanleg á köflum. Alla vega fyrir leikmenn sem eru á svipuðu aulastigi í pólitík eins og ég er.



Björn Jón Bragason er ekki svo ólíkur Norðmanni sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið.


Ég rakst á grein sem Björn Jón Bragason skrifaði og birtist á pressan.is fyrir nokkru undir fyrirsögninni "Bankahrun Steingríms J." Ég varð bæði hissa og forvitinn, því ég hafði ekki heyrt af því að fjármálaráðherrann fyrrverandi væri talinn bera ábyrgð á neinu bankahruni og fór því auðvitað að rýna í lesefnið sem fjallaði nær einungis um aðkomu ríkisvaldsins að hinum gjaldþrota fjármálastofnunum SpKef og SPRON.

Þar segir hann: "Tap skattborgara vegna þessa ævintýris Steingríms J. er meira en öll útgjöld ríkissjóðs til Vegagerðarinnar á þessu ári". Hann vandar ráðherranum ekki kveðjurnar, telur fulla ástæðu til að draga hann fyrir Landsdóm og dæmir hann raunar sjálfur svona fyrirfram fyrir afglöp í starfi. Hann segir einnig að á "sama tíma og framsæknasta banka landsins var neitað um lausafjárfyrirgreiðslu var gríðarlegum fjármunum almennings dælt inn í gjaldþrota sparisjóði að geðþótta valdhafanna". Þar átti hann við fyrirmyndarbankann Straum-Burðarás þeirra Björgólfsfeðga sem hann fer um mörgum fögrum orðum. Maður spurði sjálfan sig allt frá miðri grein og alla leið niður úr hvort ekki væri allt í lagi sums staðar, því ekki var minnst svo mikið sem einu einasta orði á dóminn sem féll fyrr í mánuðinum í Hæstarétti. En það var þyngsti dómur sem fallið hefur hér á landi vegna efnahagsbrota. Ragnar Z. Guðjónsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs og Jón Þorsteinn Jónsson fyrrverandi stjórnarformaður Byrs fengu fjögurra og hálfs árs óskilorðsbundinn fangelsisdóm. Ekki heldur eitt einasta orð um Geirmund Kristinsson sem átti vafalaust mestan þátt í falli SpKef, en síðasta heila starfsár sjóðsins (2008) undir hans stjórn, nam tapið hvorki meira né minna en nítján milljörðum.

-

Í skýrslu Price Waterhouse Coopers um sparisjóðinn, sem gerð var fyrir fjármálaeftirlitið kemur fram að Sparisjóðurinn átti fasteign á Akureyri sem Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri réð einn yfir. Engin gögn lágu fyrir um hvernig fasteignin var notuð. Sparisjóðurinn yfirtók einnig íbúð í Kópavogi og leigði hana syni eins starfsmanna sjóðsins á verði sem virðist hafa verið vel undir markaðsvirði. Samkvæmt skýrslunni nutu valdir starfsmenn fríðinda umfram hefðbundin starfsmannakjör. Sjö starfsmenn höfðu bíl til umræða, sumir fengu farsíma og ADSL-tengingar en engar reglur giltu um úthlutun þessara fríðinda. Þá fengu níu háttsettir starfsmenn líf- og sjúkdómatryggingar greiddar og fjórir til viðbótar slysatryggingu. Í skýrslunni er gerð athugasemd við að ýmis fríðinda starfsmanna SpKef hafi ekki verið gefin upp til skatts. Bílahlunnindi voru þau einu sem gefin voru upp en tryggingarnar og afnotin af húsinu á Akureyri hefði átt að gefa upp til skatts. Þá voru starfsmönnum oft lánaðar háar fjárhæðir. Til dæmis fékk þjónustufulltrúi í útibúi á landsbyggðinni 200 milljón króna lán sem nú hefur verið afskrifað. Þá fékk stjórnarmaður SpKef 800 milljón króna lán sem einnig hefur verið afskrifað.

Björn Jón Bragason gerir sem sagt enga athugasemd við ofantalið.

-

En hver er svo þessi skríbent? Björn Jón Bragason er sagnfræðingur og laganemi sem hefur gefið kost á sér til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Hann skrifaði bókina "Hafskip í skotlínu" að beiðni (sumir segja samkvæmt pöntun) Björgólfanna þar sem hann fegrar sumt en reynir að kasta rýrð á annað.

Eftir útkomu bókarinnar gerði fyrrum bankastjóri Útvegsbankans sáluga verulegar athugasemdir við innihaldið og sagði þá meðal annars að hún væri því miður ekki góður vitnisburður um æðsta takmark sagnfræðinnar sem ætti að vera að leita sannleikans.

Því má svo bæta við að Björn mun hafa fengið ágætlega greitt fyrir skrifin.

-

Greinarnar um "Bankahrun Steingríms J." eru í tveimur hlutum og er að finna í heild sinni á http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Bjorn_Jon/bankahrun-steingrims-j.-120 og http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Bjorn_Jon/bankahrun-steingrims-j.--annar-hluti

-

En þetta er ekki allt, því einhverjir Skuggabaldrar hafa í skjóli nafnleyndar fengist við hinn forna (ó)sið að yrkja níð um ráðherrann sem finna má á hinum "vafasama" vef AMX.is

 

Skallagríms vísur.

 

Við skalla er kenndur skatni einn,
skuggabaldurinn, Grímur Steinn.
Fylgir honum flokkur smár
fyrst skal nefndur komminn Már.


Indriða telja einnig má
og IceSave Svavar líka þá.
Ill er þessi auma hjörð,
sem eftir skilur sviðna jörð.

 

Arði rænir illur sá,
auð hann telur víða.
Ævisparnað ei má sjá,
aldnir fyllast kvíða.


Rænir hann og ruplar þá
sem ráðdeild mátti prýða.
Land og þjóðin líða má,
og lokum fársins bíða.

 

Og aftur var hnýtt í efnahags og viðskiptaráðherrann á AMX þegar hann fékk skeyti sem sagt var að ætti að taka á upphafi og endi Steingríms í pólitík, en hún var svona:

 

Fáum var hann fyrirmynd,

fáir nefndu hann Jóhann.

Með Jóhönnu hann sökk í synd,

síðan bara dó hann.

 

En Steingrímur sem er með liprari hagyrðingum sendi AMX svar sitt.

"Ekki kippi ég mér upp við hefðbundið og reglulegt nag ykkar í mig, en þótti fróðlegt þetta með kveðskapinn og kíkti því á hann. Þá fór í verra, því mér þótti illa kveðið. Ég vil því bjóða ykkur að birta þetta svar frá mér og bréfið með ef þið viljið.

 

Illa kveðinn er þinn leir,

ýldu fylgir þefur.

Þegi skaði þegar deyr,

þessi aumi vefur.

með viðeigandi kveðju - Steingrímur J. Sigfússon.

 

Því er svo við að bæta að Steingrími J. Sigfússyni var boðið að taka við sem sérstakur fjármálastjóri á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Grikklandi í hálft ár, en hafnaði boðinu.

13.06.2012 03:58

ESB og fiskurinn í sjónum


822. Í gær komu ráðherrar evrópusambandslandanna saman til að greiða atkvæði um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu sem hefur verið nokkuð lengi í endurskoðun og miklar vonir voru bundnar við. En hvernig sem atkvæði falla er ljóst að engar grundvallabreytingar verða gerðar og framtíðarstefnan hvorki fugl né fiskur eins og komist var að orði í fréttaskýringaþættinum Speglinum í fyrradag. Framkvæmdastjórnin gerir sér grein fyrir að gagngerra breytinga er þörf, en ráðherrar flestra aðildarlandanna taka ekki annað í mál en að fresta öllum nauðsynlegum aðgerðum sem stuðla að sjálfbærni á tímum kreppu og atvinnuleysis. Ástands sem fylgt hefur ESB allt frá stofnun þess, og sé rýnt í tölur sést að meðal atvinnuleysi þar er u.þ.b. tvöfallt meira en við búum við um þessar mundir og þykir okkur þó meira en nóg um.

Talið er að allt að 90% fiskistofna í lögsögu sambandsins séu ofveidd og jafnvel í bráðri útrýmingarhættu á næsta áratug eða ekki síðar en þar næsta, verði ekki algjör kúvending á fiskveiðistefnunni sem nú er ljóst að mun ekki verða.

Fiskiskipaflotinn er allt of stór, allt of afkastamikill og allt of óhagkvæmur, en honum er haldið gangandi með endalausum niðurgreiðslum og ríkisstyrkjum.

Fiskneysla íbúa ESB er u.þ.b. tvöfallt meiri en fiskimið landanna stendur undir, svo flotinn er því gjarnan sendur á fjarlæg hafsvæði þar sem fiskistofnar annarra ríkja eru ofveiddir, eða á "enskis manns land" á úthöfunum þar sem lög frumskógarins er alls ráðandi. En niðurstaðan er sem sagt sú að umhverfissjónarmiðin skulu víkja fyrir þeim efnahagslegu og vandanum er frestað um ókomin ár. Það er því eins öruggt og 2 + 2 eru 4, að hann mun koma margfaldur í hausinn á þeim sem ákvarðarniranar tóku eða arftökum þeirra og verður þá eflaust nálægt því að teljast óviðráðanlegur. En því miður er sjaldnast  tekið tillit til slíks þegar skammtímahugsun og grunnt hugarfar ræður ferðinni eins og nú virðist vera raunin á.

Fyrir fáeinum árum tók makríllinn að ganga inn í íslenska efnahagslögsögu, líklega vegna vegna hlýnunar sjávar, nema hann hafi hreinlega verið að flýja sjávarútvegsstefnu ESB sem væri ekkert nema skynsamlegt af honum. Lengi vel viðurkenndi sambandið ekki að nokkur flótti hefði brostið í stofninn og engan makríl væri að finna á Íslandsmiðum, þrátt fyrir að mælingar sýndu að þar hefðust við meira en milljón tonn. Og þar sem við höfum tregðast við að láta kúga okkur til samninga eins og ESB vill hafa þá, er okkur hótað efnahagslegu ofbeldi nema við gefum frá okkur strandríkjaréttinn. Það glittir í hið rétta andlit kúgarans þar sem hann neyðist til að stíga út úr skugganum og taka af sér falska ímyndarblæjuna.

Við munum því standa frammi fyrir enn breyttara Evrópusambandi en fram kom í orðum Siglfirðingsins Illuga Gunnarssonar á Alþingi í vikunni, en honum varð þar tíðrætt um þróunina í átt til sambandsríkis og evrukrísuna.

Vonandi fáum við tækifæri sem allra fyrsta til þess að taka af öll tvímæli um hvort svona kompaní er eitthvað fyrir okkur?

10.06.2012 05:28

Sýning á Gróttumyndum



821. Grótta telst vera eyja á okkar dögum og hefur gert það síðast liðin 200 árin eða svo, en þannig mun það ekki alltaf hafa verið því hún var áður landfastur hluti af Seltjarnarnesinu. Hún er nú tengd er við land af mjóum granda sem fer á kaf á flóði og þarf því að sæta sjávarföllum til að komast frá og til lands. Þessi breyting hafa komið til vegna verulegs landsigs og aukins sjávargangs vegna þess, en einnig mun mikið landbrot hafa orðið í Básendaflóðunum miklu árið 1799. Eftir þau var Grótta sem áður taldist hin mesta kostajörð, því sm næst óbyggileg.

-

Á vef Seltjarnarneskauptaðar má lesa eftirfarandi:

"Aðfaranótt 9. janúar brá til útsuðuráttar um allt Suður- og Vesturland, með þeim býsnum, sem fæstir höfðu áður lifað.  Um öll Suðurnes, allt austur að Eyrarbakka, gerði feikna hafrót og stórflóð sem olli gífurlegum skemmdum. Básendakauptún á Miðnesi lagðist af með öllu, því að sjór og veður braut þar öll bæjar og verslunarhús, fékk kaupmaðurinn með naumindum forðað lífi sínu og fjölskyldu sinnar að Stafnesi. Fiskgarðar og túngarðar þar syðra sópuðust heim á tún, sumstaðar tók jafnvel af túnin, skipauppsátur og brunnar. Tvær kirkjur fuku, Hvalneskirkja og og kirkjan að Nesi við Seltjörn sem sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum. Á Seltjarnarnesi gerði óveður þetta mikinn usla og olli miklum skemmdum. Um 18 skip og minni róðrarbátar brotnuðu, svo að sum fóru í spón, en önnur löskuðust svo, að ekki gátu sjófær talist. Fyrir innan Lambastaði gekk sjór yfir þvert nesið milli Skerjafjarðar og Eiðsvíkur, svo að ekki var fært mönnum né hestum. Er haft eftir jafnathugulum heimildarmanni og biskupinum á Lambastöðum, að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhníptu máli, en í öðrum stórstraumsflóðum. Í Örfirisey spilltist land svo af sand og malarburði, að eyjan mátti lítt byggileg teljast, enda lögðust býli þar úti í eyði.

-

Frá Gróttu mun áður fyrr hafa verið talsvert útræði og eitt sinn þegar skip fórst við Gróttutanga varð til eftirfarandi vísa.

Dauðinn sótti sjávardrótt,
sog var ljótt í dröngum.
Ekki er rótt að eiga nótt
undir Gróttutöngum.

-

Viti var fyrst reistur í Gróttu árið 1897 og varð Þorvarður Einarsson vitavörður þar, en hann og kona hans Guðrún Jónsdóttir hófu þar búskap árið 1895. Í tíð þeirra var túnið stækkað til muna, en sjór braut land og brotnaði úr sjógarði þar veturinn 1926 -27 en hann var þá hlaðinn myndarlega upp aftur. Síðar var svo ekið stórgrýti á grandann milli Snoppu og Gróttu til að verja hann frekari niðurbroti. Er Þorvarður lést 1931 tók sonur hans Jón Albert (1910-1973) við vitavörslunni og gengdi þeim starfa til dauðadags, en hann drukknaði í róðri 12. júní 1970. Albert stundaði mest sjó á meðan hann bjó í eynni en hafði lítilsháttar búskap með útgerðinni. 

Nýr viti var reistur í Gróttu eftir síðari heimstyrjöld, allnokkru austar en gamli vitinn og voru ljós nýja vitans tendruð í nóvember 1947. Lendingaraðstaða í eynni var bætt á búskaparárum Alberts í Gróttu og var gerð bryggja framan við sjóbúð hans og við hlið hennar dráttarbraut og gat Albert dregið bát sinn þar upp. Grótta var friðlýst árið 1974".

-

Því má svo bæta við að Björgunarsveitin Albert á Seltjarnarnesi er nefnd eftir vitaverðinum.

-

En það er ástæða þess að Grótta kemur svo snögglega og kannski pínulítið óvænt inn í umræðuna þar sem Siglufjörður hefur ávalt verið efst á baugi og fátt annað komist að. Forsagan er sú að sr. Bjarni Þór Bjarnason rakst á mynd sem ég hafði tekið af Gróttu fyrir fáeinum árum og Gunnar Trausti síðan prentað fyrir mig á striga. Bjarni spurði mig hvort ég gæti ekki hugsað mér að lána hana á sýningu sem til stæði að halda á Gróttumyndum, og ég taldi mér auðvitað mikinn heiður að fá að gera. Það var svo í vikunni sem leið að ég gerði mér ferð þangað vestur eftir með myndina, og þar tóku á móti mér tvær konur sem voru að setja sýninguna upp. Við tókum tal saman og eftir svolitla stund hafði ég auðvitað komið hinum siglfirska uppruna mínum inn í umræðuna.

"Fyrri maðurinn minn var frá Siglufirði" sagði önnur, og "hann Örlygur á safninu var bekkjarbróðir min í Mynd & Hand" sagði hin. Það sannaðist sem sagt þarna eina ferðina enn að líklega hafa flestir Íslendingar einhverja tengingu við síldarbæinn fornfræga, ef ekki meðvitað þá að öllum líkindum ómeðvitað.

Það er svo í dag þann 10. júni að efnt er til svonefndrar Albertsmessu í Seltjarnarneskirkju. Þá er Alberts vitavarðar minnst, en hann lést 12. júní 1970. Eftir messu verður síðan sýningin opnuð.

08.06.2012 17:08

Á Búálfinum í Breiðholti


820. Síðast liðin þrjú skipti sem gítarleikarinn, söngvarinn, lagasmiðurinn og Fáskrúðsfirðingurinn Axel Einarsson hefur skroppið til landsins frá Svíaríki þar sem hann hefur verið búsettur undanfarin þrjú ár, höfum við skroppið saman eins og eina kvöldstund í Breiðholtið. En í verslunarmiðstöðinni Hólagarði er kráin Búálfurinn til húsa, og hún er rekin er af Ísfirðingnum Bjarna Hákonarsyni. Þar höfum við haft fyrir sið að taka a.m.k. eitt gigg í hverri (íslands)ferð Axels og það er einmitt það sem stendur til að gera í kvöld föstudaginn 8. júní. 




Í fyrstu var ég svolítið smeykur við að hætta mér inn í þetta villimannahverfi sem ég hafði í eina tíð fengið á tilfinninguna að Breiðholtið væri, og þá ekki síður eftir að skyggja tæki. En sá ótti reyndist ástæðulaus, rétt eins og hræðslan við "gömlu" villimennina í samnefndu hverfi heima á Sigló sem ég hef á síðari árum sannreynt að eru upp til hópa hinir mætustu menn og bestu drengir. Þarna er oftar en ekki alveg bullandi stuð og allir hinir kátustu á þessum vinalega og heimilislega stað jafnt eigandi, starfsfólk og gestir.

 

Heimasíða kráarinnar er http://bualfurinn.is/ er einhver vill kíkja á hvað staðurinn hefur upp á að bjóða.

05.06.2012 14:01

Meiraprófið


819. Þann 12. apríl sl. setti ég inn svolitla færslu undir yfirskriftinni "Aftur í skóla" án þess þó að fara neitt út í nein smærri atriði, þ.e. um hvers konar væri að ræða. Síðan þá hef ég alloft verið spurður þegar ég hef hitt kunningja og/eða sveitunga á förnum vegi, hvaða skóla ég sé nú kominn í. Það skal því upplýst að um er að ræða miklu frekar námskeið en einhverja alvöru skólagöngu, enda spurning hvort slíkt er ekki full mikið í lagt á "gamals" aldri.

Í byrjun aprílmánaðar þegar ég var á netflakki eins og svo oft, rakst ég á auglýsingu frá Ökuskólanum í Mjódd um meiraprófsnámskeið sem var í þann mund að byrja. Ég velti því fyrir mér svolitla stund hvort þetta gæti ekki verið allt hið skemmtilegasta mál, gagnlegt og opnaði e.t.v. ýmsar dyr, því verulega breytt skattalegt umhverfi ásamt mjög svo hækkandi verði á byggingarefni, hefur orðið til þess að það sem ég hef fengist við undanfarin ár getur tæplega talist mjög skynsamlegt lengur. Flest bendir því til að kominn sé tími til að taka svolitla vinkilbeygju, líta í kring um sig og huga að einhverju nýju sem hægt væri að reyna eða leggja jafnvel fyrir sig. Daginn eftir var ég enn að velta þessu fyrir mér og hringdi í umræddan skóla öðrum þræði og undir niðri fyrir forvitnis sakir. Ég spurði m.a. hvort ekki gæti verið að ég væri hreinlega orðinn of gamall til að setjast á skólabekk og hvort ég yrði þá ekki örugglega aldursforsetinn í hópnum. Sú sem var til svars hélt nú ekki og upplýsti mig um að á námskeiðinu sem hæfist þ. 11. apríl yrðu nokkrir á mínu reki og sá elsti allt að því heilum áratug á undan mér "í þroska". Símtalinu lauk með því að ég sló til og skráði mig í nám á vörubíl og trailer. Ég var á þeim tíma þeirrar skoðunnar að það yrði líklega nægilegur pakki í einu, og eins víst að móttakarinn í toppstykkinu sem er væntanlega farinn að slitna eitthvað, réði ekki við stærri skammt nema í einhverjum áföngum. Mér til svolítillar undrunar fór þetta allt saman svo vel af stað að það voru ekki liðnir nema þrír dagar af námskeiðinu þegar ég í bjartsýniskasti bætti leigubílnum og rútunni við og tók sem sagt allan pakkann. Róðurinn þyngdist að vísu lítillega þegar á leið, en þá var auðvitað ekki aftur snúið. Fyrir fáeinum dögum tók ég leigubílaprófið og í dag steinlá vörubílaprófið.

Ég er því bara nokkuð góður með mig þessa stundina þrátt fyrir að tæpast sé á slíkt bætandi, en þetta brölt hefur líklega orðið til þess að færri færslur hafa ratað hér inn á síðuna að undanförnu en ella hefðu gert.

28.05.2012 21:25

Evróið í Bakú


818. Ég bjóst til að setja niður einhverjar línur strax eftir keppnina ógurlegu í Bakú, en úrslitin komu svo flatt upp á mig að ég hef eiginlega verið kjaftstopp alveg samfleytt  í heila tvo daga og það er fyrst núna að ég er aðeins á átta mig á hinum ískalda raunveruleika.

7 stig frá Finnum.
6 stig frá Dönum.
6 stig frá Ungverjum.
6 stig frá Eistum.
5 stig frá Norðmönnum.
4 stig frá Spánverjum.
4 stig frá Slóvenum.
4 stig frá Slóvökum.
3 stig frá Þjóðverjum.
1 stig frá Kýpverjum.

En EKKERT frá Svíum, og við sem gáfum þeim tólfuna okkar.

Það er auðvitað ekki spurning um að loka IKEA strax og fara fram á neyðarfund í Norðurlandaráði vegna þessarra að okkar mati óvæntu aðstæðna sem upp eru komnar.

En borgaryfirvöld í Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö rifast nú um að fá að halda næstu Evróvisjónkeppni sem verður þann 18. maí 2013, en í vonbrigðakastinu segjum við bara að fátt sameini íslendinga betur en vond músik og góð skemmtun og hana nú. (Eða þannig).

-

Það jákvæða við 20. sætið er að skrifarinn gat farið á bensínstöð ÓB og fyllt hjá sér tankinn fyrir kr. 233 lítrann.

Einhver netverjinn spurði hvort lögreglan væri tilbúin með neyðaráætlun um að bregðast við umferðaröngþveiti við bensínstöðvar í kjölfar tónlistarlegra hrakfara í fjarlægu ríki.

Annar sagði að okkar framlag hefði verið lafið "Mundu eftir mér" - lagið sem gleymdist, og vildi í kjölfarið henda sápu ofan í Eyjafjallajökul til að fá svolitla tilfinningalega útrás.

Sá þriðji vildi meina að Albanska söngkonan (sem var engan vegin allra en þó algjörlega sumra), væri drottning af fjarlægri plánetu sem ætti að koma sér hið fyrsta langt út í geim, lokaorð Hrafnhildar hefðu átt að vera "Guð blessi Ísland" og Óla bæri að senda niðurstöðu kosninganna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

-

En auðvitað eru engin vonbrigði svona í alvörunni, engar hrakfarir og ekkert andlegt niðurbrot. Hvað sem stigunum eða öllu heldur stigaleysinu líður, þá var okkar fólk bara flott og ekkert annað. Jafnvel Gautarnir meðan þeir voru upp á sitt allra besta hefðu ekkert endilega gert þetta mikið betur.

23.05.2012 10:31

Þeir eru kynlegir þessir femínistar



817. Ég ætlaði að vera búinn að minnast á greinina sem birtist í DV fyrir nokkru, þar sem Eimskip og Kiwanishreyfingin voru gagnrýnd fyrir að gefa öllum sex ára gömlum börnum reihjólahjálma. En eins og alkunna er mun aldrei vera hægt að gera svo öllum líki, sama hvað tilgangurinn er óumdeilanlega af hinu góða og gjörningurinn í raun einfaldur. Það er því ekki laust við að maður velti fyrir sér hvað það getur verið erfitt að dansa á þeirri hárfínu jafnræðis og réttlætislínu sem flestir vilja þó alltaf gera, en ekkert síður hvar hin línan liggur sem er ekki síður hárfín þó á annan hátt sé. Þá á ég við hvar rétmætri og eðlilegri gagnrýni sleppir og öfgarnar taka við. Hin stóru og alvarlegu mistök gerðarmanna virðast að þessu sinni vera fólgin í litavali á öryggisbúnaðinn.

-

Hildur Lilliendahl ofurfemínisti segir litavalið vera tímaskekkju. "Það græðir enginn á öðru en að við komum fram við börn af virðingu, hættum að draga þau í dilka eftir æxlunarfærum og móta þau eftir hefðbundnum kynhlutverkum." Ekki verður betur séð ef vel er að gáð, en að Hildur sé hér að gagnrýna "hvernig að málinu var staðið" áður en hún hefur fyrir því að kynna sér "hvernig að málinu var staðið" ef þannig mætti komast að orði. Það er að mínu mati við hæfi að benda henni á að gamla spakmælið að "kapp sé best með forsjá" er enn í fullu gildi.

-

Þeir Eimskipsmenn segja að fyrir þremur árum hafi þeir fengið kvartanir yfir því að hjálmarnir sem þá voru gefnir hefðu verið úreltir, ekki í tísku og krakkarnir fengust því ekki til að nota þá. Næst var boðið upp á kúluhjálma sem voru þá í tísku. Þeir voru myndskreyttir en aðalliturinn var grár sem féll ekki heldur í kramið. Núna var gerð viðamikil könnun þar sem um 40 börn voru beðin um að velja þá liti af hjálmum sem þeim leist á. Niðurstaðan var að 90 prósent af drengjunum völdu bláa hjálma og 80 prósent af stúlkunum völdu bleika. Samkvæmt upplýsingum sem Eimskipsmenn segja vera komið frá lögregluembættum víðs vegar um land, má ráða að bleiku og bláu hjálmarnir séu mikið notaðir og þeir hafi að öllum líkindum bjargað fimm mannslífum það sem af er.

Og ég spyr: Skiptir ekki meiru máli hvort þeir gera gagn fremur en í hvaða lit þeir eru?

Mér kemur í hug annað sem oftlega bregður fyrir í málflutningi femínista, en það er krafan um kynjakvóta. Má þá ekki nota þeirra eigin rök og orðfæri þegar því er haldið á lofti að ekki eigi að flokka fólk eftir æxlunarfærum þess, og spyrja hvort ekki skipti meira máli hvað er milli eyrnanna á fólki en læranna á því.

Eru sumir fullkomlega samkvæmir sjálfum sér?

-

Þess utan er særandi, sálarlega niðurdrepandi, andlega tærandi og það orsakar vanlíðan og tilfinningarót af versta tagi þegar uppskeran er neikvæðni og vanþakklæti þeim til handa sem eru að gera vel og af góðum hug. En ráð til þeirra sem vila komast hjá slíku eru líklega af skornum skammti. Helst kannski að gera alls ekki neina slæma hluti og heldur enga góða hluti, segja aldrei neitt, skrifa aldrei neitt, blanda sem allra minnst geði við annað fólk og vera sem mest ósýnilegur. 

20.05.2012 09:16

Nokkur minningarorð um Dodge Caravan


816. Þar kom að því að sá sem þjónað hefur svo vel og svo lengi, lagði upp í sína hinstu för fyrir fáeinum dögum. Notkun bílsins sem jaðrað hefur við misnotkun á stundum, hefur verið bæði ótrúlega margþætt og mismunandi. Hann hefur jöfnum höndum verið notaður sem fjölskyldubíll, hljómsveitarbíll, vinnubíll og þá ekki svo sjaldan til efnisflutninga og það jafnvel af grófara tagi, svo sem ef flytja hefur þurft jarðefni, múrbrot, byggingarefni og fleira í þeim dúr. Sætum hefur því ýmist verið fækkað eða fjölgað og pláss hefur verið eftir atvikum fyrir allt frá einn og upp í sjö farþega.

Þessi samferðungur minn hefur lengst af verið góður þjónn en var þó orðinn svolítið óheppilegur húsbóndi undir lokin. En þá var hann farinn að þurfa nokkuð mikið til sín og orðinn bilanagjarn úr hófi fram að mínu mati. Slíkt er erfitt að hundsa og það stefndi í að útgerðarkostnaðurinn færi að valda mér verulegum verkjum í veskinu. Dæmi um hver þróunin var í þeim efnum er að finna á http://leor.123.is/blog/2012/03/28/606379/ en áður en þrautagangan varð lengri fékk hann heilaáfall og hefur síðan ekki farið í gang, alveg sama hvað reynt hefur verið að gera. Hann telst því vera heiladauður og mun því sennilega í framhaldinu rata á þann stað þar sem hans líkar glata gjarnan lögun sinni undir mikilli pressu.

Hljómsveitin hefur lokið leik sínum að þessu sinni ef svo mætti að orði komast og yfirgefið sviðið.

Blessuð sé minning hans.




En rétt eins og maður kemur í manns stað, kemur bill í bíls stað. Þar sem ég var ekki viðbúinn þessum óvæntu tímamótum, flýtti ég mér á netið og leitaði upp vænlegan kreppukost, a.m.k. til nánustu framtíðar, því bíllaus get ég illa verið. Ég rakst þar fljótlega á Micru af árgerðinni 2000 sem aðeins var keyrður 140 þús km. Og þar sem ég hef góða reynslu að tegundinni og hún svarar auk þess kröfum mínum um minni orkukostnað á tímum ört hækkandi bensínverðs á afar jákvæðan hátt, var strax farið að vinna í málunum. Það voru ekki liðnir nema tveir tímar eða svo frá því að leit hófst á bilasolur.is þar til nýr eigandi bifreiðarinnar LV 764 ók út af bílasöluplaninu. Kannski getur þetta flokkast undir svolítið fljótræði, en eitthvað segir mér að niðurstaðan hefði orðið sú hin sama þó lengri tíma hefði verið varið til djúpra pælinga og nákvæmrar skoðunnar. 

17.05.2012 04:58

Ef þetta væri bara svona einfalt


815. Ég rakst á alveg magnaða auglýsingu á netmiðli sem ég kíki stundum á. Við fyrsta lestur sá ég fyrir mér að nú væru öll mín vandamál sem tengjast á einhvern hátt fjármálum og efnahag leyst til frambúðar og það varanlega. Bæði þau sem eru til komin vegna yfirstandandi efnahagslægðar eða svokallaðrar kreppu, svo og einnig af öllum öðrum hugsanlegum og óhugsanlegum ástæðum. Og ekki bara mín, heldur hvorki meira né minna en landsmanna allra ef út í það er farið. Auglýsingin var svona:

-

Viltu verða skuldlaus ?

Peningar eru ekki allt en þeir auðvelda lífið töluvert!
Viltu verða skuldlaus?
Viltu geta gert það sem þig langar?
Viltu geta farið erlendis amk tvisvar sinnum á ári?
Viltu geta keypt draumabílinn sem fyrst?
Viltu láta drauma þína og fjölskyldu þinnar rætast?
Ef þú hefur áhuga, þá getum við veitt þér tækifæri lífsins
Hafðu samband og við bókum þig á fund.

-

Þetta var aldeilis ekkert svo lítið frábært. Einmitt það sem ég hafði alltaf óskað mér og lausn sem mig hafði oft vantað svo sárlega. Og nú bar ekki á öðru en að lausnin hreinlega steinlægi fyrir fótum mér í boði einhvers ótiltekins, ósýnilegs og enn sem komið var alla vega nafnlauss aðila sem stóð á bak við þessa gleðilegu auglýsingu. Nú biði mín farsældin sjálf til frambúðar í öllu sínu veldi, með útbreiddan faðminn rétt eins og álfkonan með sprotann. Eða hinn stóri og djúpi sannleikur sem engum hafði hingað til dottið í hug að gæti verið jafn sáraeinfaldur í mikilleika sínum og raunin virtist vera.

Ég sá framtíðina fyrir mér um stundarsakir í einhverjum himneskum og ljósrauðum bjarma. Blómafretandi englar með bollukinnar sem flögruðu um og léku á hörpur sínar og póstlúðra. Mér fannst umhverfið mettast af einhvers konar glaðlofti, gull og demantsryki, og umhverfið varð allt dýrðlegra en orð fá lýst.

En svo fann ég að ég var kominn með óþægilegt suð fyrir eyrun sem fór hækkandi eftir því sem ég sökk dýpra ofan í þessar pælingar mínar einhvers staðar langt handan fjarskans, eða kannski hinum megin við raunveruleikann. Og allt í einu vaknaði ég upp af dagdraumunum og hrökk ég til baka þar sem ég steytti allt í einu á fjárans núinu sem var vissulega ekki eins jákvætt og skemmtilegt. Þetta er líklega ekki alveg svona einfalt.

-

Að bóka á fund og hvað svo?

Líklega til að rukka fyrirfram einhver vesæl fórnarlömb fyrir veitta þjónustu, bjóða upp á lykil að framtíðinni, fá þau til að afsala sér dómgreindinni a,m,k, um stundarsakir, kannski að finna til einhverja einstaklinga sem ekki eru taldir trampa í vitinu.

Stendur kannski til að gera greindarskort væntanlegra viðskiptavina að féþúfu? Munu "handhafar sannleikans" leggja fram einhverjar "skotheldar pappírskenningar" sem standast síðan ekki hinn ískalda raunveruleika? - Ég veit það svo sem ekki.

En þar sem ég trúi miklu meira á rökvísi, staðreyndir og heilbrigða skynsemi en óræða skynjun, dulspeki og spádómsgáfu, tel ég að ef eitthvað virðist vera of gott til að vera satt, sé það líka undantekningalítið of gott til að vera satt. - Hvað heldur þú?

11.05.2012 02:48

Siglfirsk í báðar ættir



814. Sagt var frá því á siglo.is fyrir nokkrum dögum síðan, að Halldóra Ósk Helgadóttir nemandi í 9-L hafi unnið til fyrstu verðlauna í smásagnasamkeppni sem haldin var í Laugalækjarskóla nýverið, og þar kom einnig fram að Halldóra er barnabarn þeirra Hannesar og Höddu sem eru okkur siglfirðnum svo mjög að góðu kunn.

Linkur á umrædda frétt er: http://www.sksiglo.is/is/news/frett_af_heimasidu_laugalaekjarskola/



Hulda Þráinsdóttir leikskólakennari og Helgi Hannesson foreldrar Halldóru bjuggum á Siglufirði um árabil.


Við Siglfirðingar erum auðvitað alltaf stoltir af okkar fólki, en í tilfelli Halldóru getum við tvöfaldað það stolt miðað við áður fram komnar upplýsingar, því hún er siglfirsk í báðar ættir. Móðir hennar er nefnilega Hulda Þráinsdóttir, en Þráinn afi hennar var einmitt skólastjóri Laugalækjarskóla til margra ára þar sem umrædd smásagnasamkeppni var einmitt haldin núna.

-

Þráinn var fæddur á Brekkunni á Siglufirði 24. apríl árið 1933, en eftir menntaskólaárin á Akureyri lá leið hans suður á bóginn en ekki aftur á heimaslóðir, - því miður.



Þráinn Guðmundsson


Þráinn var einn af öflugustu félagsmönnum sem íslenska skákhreyfingin hefur átt og ritaði m.a. sögu Skáksambands Íslands. Þráinn var forseti Skáksambandsins 1986 til 1989, og mörg ár var hann fulltrúi Íslands á þingum Alþjóðaskáksambandsins FIDE. hann var skólastjóri Laugalækjaskóla eins og áður segir, einnig Námsflokka Reykjavíkur og um tíma fræðslustjóri í Reykjavík.




Ingibjörg móðir Þráins kom oft í heimsókn á æskuheimili mitt að Hverfisgötu 11. Hún og Sóley móðuramma mín voru báðar Svarfdælingar og höfðu þekkst frá unga aldri. Ingibjörg var fædd á Sauðanesi sem stóð skammt fyrir utan Dalvík, en bæjarstæðið hvarf undir veginn þegar hann var lagður fyrir að Ólafsfjarðarmúla. Og eins og svo margir gerðu snemma á síðustu öld , fluttist hún búferlum í hinn ævintýralega og  ört vaxandi síldarbæ.




Á myndinni er móðir skrásetjara Minný Leósdóttir, skrásetjari sjálfur Leó R. Ólason og Guðmundur Þorleifsson faðir Þráins. Hann er sá hinn sami Guðmundur og Guðmundartúnið var síðan kennt við, en hann ræktaði upp melinn fyrir ofan hús þeirra hjóna sem hefur eflaust ekki verið létt verk.

Ingibjörg og Guðmundur bjuggu síðan alla sína búskapartíð að Hávegi 12b á Siglufirði.

25.04.2012 05:39

A-týpan


  

813. Að vera A-týpa eða B-týpa er víst ekki það sama. Sú skilgreining sem skaut rótum í kollinum á mér fyrir margt löngu síðan, gengur út á að A-týpan vakni snemma að morgni, fjallhress og upptendruð. Afkasti miklu fyrir hádegi dag hvern, sé jákvæð, áreiðanleg og útsjónarsöm, með mikið frumkvæði og eigi gott með að starfa sjálfstætt. En þegar dagur er að kvöldi kominn, er líklegt að A-týpan taki nóttina jafn snemma og daginn, vel meðvituð um að svefn fyrir miðnætti er eða á að vera mun meira endurnærandi en svefn t.d. í morgunsárið.

B-týpan var samkvæmt sömu skilgreiningu aftur á móti sú lata sem nennir ekki á fætur á morgnana, heldur dúrar og dormar eins lengi og hún kemst upp með. Drattast þó á fætur að lokum, en auðvitað alltaf of seint. Verður síðan lítið úr verki yfir daginn, en er hins vegar orðin verulega virk þegar degi tekur að halla. Kvöldin og nóttin eru hennar tími.

-

Í einni af kennslubókunum sem ég er að glugga í þessa dagana, birtist mér svo alveg splunkuný og talsvert framandi sýn miðað við hina gömlu og ég vildi segja rótgrónu og jákvæðu greiningu sem hefur verið skilningur minn í áranna rás, en þar segir meðal annars:

 

Atferliseinkenni A-týpu eru að:

Hugsa og framkvæma fleira en tvennt í einu.

Reyna að gera meira og meira á skemmri og skemmri tíma.

Hætta að taka eftir og hafa áhuga á umhverfi sínu svo og fögrum hlutum.

Fyllast óþolinmæði þegar aðrir tala.

Fyllast tilgangslausu óþoli í biðröðum eða í akstri á eftir bifreið sem henni þykir fara of hægt.

Telja að ef gera þurfi eitthvað vel, þurfi hún að gera það sjálf.

Pata mikið með höndunum þegar talað er.

Sveifla mikið fótum eða smella fingurgómunum í borð.

Vera óðamála og nota mikið blótsyrði.

Leggja ofuráherslu á stundvísi.

Eiga erfitt með að sitja aðgerðarlaus.

Reyna alltaf að leika til sigurs, líka þegar börn eiga í hlut.

Mæla árangur sinn og annarra ávallt í tölum.

Smjatta, hrista höfuðið, kreppa hnefana, berja í borð og jafnvel gleypa loft þegar talað er.

Verða óþolinmóð þegar fylgst er með öðrum gera hluti sem hún teur sig geta gert betur.

Depla gjarnan augunum og lyfta augabrúnunum oft og mikið.

Venjur A-týpunnar eru svo rótgrónar að það er oft ekki fyrr en við hjartaáfall að henni verða ljós tengsl lífstíls sins við sjúkdóminn. Margir breyta þá um lífsstíl, en sýnt þykir þó að hægt er að kenna fólki B-atferli áður en í óefni er komið.

-

Ég verð að segja að þetta kom mér ekki svo lítið á óvart, en svo mörg voru þau orð...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 480
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 99
Samtals flettingar: 470823
Samtals gestir: 51775
Tölur uppfærðar: 12.11.2024 18:00:43
clockhere

Tenglar

Eldra efni