07.03.2008 21:54
Klemma.
454. Þegar ég átti leið um stigagang í fjölbýlishúsi þar sem ég kem alloft, rak mig í rogastans í eitt skiptið þegar ég sá það sem ég hélt í fyrstu vera stórslys. Ég tók andköf og ætlaði að hlaupa til og leggja þeim lið sem í hanskanum var, en áttaði mig þá á staðreyndum málsins. Einhver mun hafa verið að flýta sé um of og hreinlega gengið í gegn um dyrnar án þess að hafa fyrir því að opna. Við það sprakk út úr karminum ein og við var að búast, en einhverjum mun hafa komið í hug það snjallræði að taka upp hanskann hurðarinnar vegna. Og hanskinn reyndist mjög vel í þessu nýja hlutverki sínu. Svo vel að hann "ílentist í starfi" ef svo mætti segja og sinnti því með mikilli prýði í talsverðan tíma, og það má svo auðvitað læða því inn á milli línanna að það er jú smiður sem býr á staðnum. En því er ekki að neita að mér brá svolítið ónotalega í fyrsta skipti þegar sá þessa lokunartækni.
04.03.2008 11:32
Brakandi blíða.
En sólin hellti geislum sínum ofan af risastórum bláhimni sem endaði út við sjóndeildarhringinn þar sem hann annað hvort hvarf ofan í hafið eða á bak við fjöllin. Hvít mjöllin þekur landið eins og mjúkt teppi sem móðir Náttúra hefur breitt yfir það af mikilli alúð og endalausri umhyggju. Ef hinn blíði blær hefði getað bært nokkurt strá af sinni fádæma nostursamlegu nærfærni, hefði hann eflaust gert það. En eins og ástatt var kúrði allur gróður landsins sig undir hinu mjallhvíta teppi. Þetta var engan veginn dagurinn til að skríða ofan í einhverja kjallaraholu til að fara að sópa gólf, ryksuga út í öll horn, koma réttskeiðinni fyrir á sínum stað, hræra lím, leggja flísarnar, stilla þær af í krossunum, miðla, fela skekkju upp á einn eða tvo millimetra í næstu röð, jafnvel saga svolítið í keramikið í einhverjum tilfellum og svo mætti lengi telja.
Ég tók vitlausa beygju (hugsanlega viljandi) og stefndi til Krýsuvíkur, beygði þaðan inn á Bláfjallaafleggjarann og velti fyrir mér hvort ég ætti að skrópa svolítið í dag og gerast helst til kærulaus. Þegar ég kom að vegamótunum þar sem ég gat annað hvort beygt til hægri upp að skálunum og skíðasvæðinu, eða til vinstri niður eftir til Reykjavíkur staldraði ég lengi við og hugsaði ráð mitt. Ég gaf fyrst stefnuljós til vinstri og beið svolitla stund þó svo að engin umferð væri um veginn. Ég tók stefnuljósið af en beið samt svolítið lengur án þess að átta mig fullkomlega á tilganginum. Skyndilega var eins og ég vaknaði, ég steig þéttingsfast á bensíngjöfina og tók hægri beygju, en að þessu sinni án þess að gefa nokkuð stefnuljós. Teningunum var þar með kastað og ég var búinn að ákveða að vera latur í bili, en njóta heldur veðurblíðunnar og alls þess sem þessi dýrðlegi dagur bauð upp á.
Þegar ég kom upp að skíðasvæðinu voru brekkurnar og allt umhverfi skálanna eins og iðandi mauraþúfur. Mér fannst með ólíkindum hve margt fólk var þarna saman komið. Ég horfði forviða á allt það sem þarna var að gerast og gleymdi næstum því að taka myndir. Og svona eftir á að hyggja, þá sé ég enn fyrir mér öll skemmtilegu og skondnu skotin sem ég missti af. Bara af því að ég hafði ekki undan að drekka inn í meðvitund mína allt þar sem var að gerast umhverfis mig. Ég dvaldi þarna á svæðinu í mun lengri tíma en ég gerði mér grein fyrir allt þar til ég leit á klukkuna. Það var líklega kominn tími til að halda af stað heim á leið, en samt vildi ég fara lengri leiðina. Ég fór niður úr Bláfjöllunum, ofan á Suðurlandsveg og hélt eftir honum í átt til Reykjavíkur. Ég staldraði þó tvisvar við til að taka nokkrar myndir en næsti áfangastaður var Grafarholtið. Þar var líka tekið talsvert af myndum út yfir sundin, Viðey og niður eftir borginni í vesturátt. Aftur var haldið af stað og nú á svæðið umhverfis Kópavogskirkju. Þaðan var farið út á Álftanes, en eftir það upp í Ásland þar sem segja má að dagurinn hafi runnið saman við nóttina. En ég skaut síðasta skotinu þennan daginn þegar ég ók fram hjá kirkjugarðinum í Hafnarfirði sem er reyndar aðeins í nokkurra skrefa fjarlægð frá heimili mínu.
En mun fleiri myndir eru frá þessum ágæta degi í myndaalbúmi og möppu sem er merkt 1. mars.
01.03.2008 04:52
Á Catalinu.
452. Við Axel erum að spila á Catalinu þessa helgina og reyndar þá næstu líka. Í gærkvöldi (föstudag) var fullt út úr dyrum því húsbílafélagið var með einhverja uppákomu. Og eins og svo oft gerist þá þurftu einhverjir órabelgir að klessa sér því sem næst alveg upp að hátölurunum hjá okkur og vildu sitja þar í næði og spjalla. Það var ekki að sökum að spyrja að þegar fyrstu tónarnir liðu út í salinn spruttu viðkomandi snarlega á fætur og heimtuðu að við lækkuðum það mikið að þeir gætu talað saman fyrir framan hátalaraboxið. Ég benti þeim á setustofan hentaði þeim örugglega betur eins og sakir stæðu en orð mín fengu lítinn hljómgrunn hjá þeim. Við skyldum bara gera eins og okkur væri sagt. En okkur tókst þó að lokum að hrekja þá inn í setustofuna þar sem hefur vonandi farið betur um þá. Þegar nokkuð var liðið á kvöldið kom Portúgali með tvo þrefalda Teqila upp á pallinn. En þar sem ég er bara í kaffinu á slíkum kvöldum og Axel er ekki fyrir sterka drykki, fór það svo að mjöðurinn stóð enn eftir á pallinum ódrukkinn í glösum sínum þegar við fórum heim fljótlega eftir síðasta lag. En sá gjafmildi kom svo til okkar þegar talsvert var liðið á dansleikinn og vildi fá að syngja Portúgalskt þjóðlag fyrir dansgesti sem við áttum að sjálfsögðu að kunna. Hann var ekki sáttur við hvað við færðumst mikið undan sanngjarnri beiðni hans því því hann taldi sig hafa lagt inn fyrir uppákomunni. Óvenju margir komu og báðu um óskalög af ýmsum toga, allt frá gömlum íslenskum singalongslögurum og skátasöngvum til dauðarokks. Það er svo skrýtið að í þeim tilfellum sem við teljum einhver vandkvæði vera á að verða við slíkum óskum, þá fer "beiðarinn" undantekningalítið að kyrja lagið á staðnum og við eigum auðvitað að hlusta andaktugir. Oftar en ekki er viðkomandi bæði sauðdrukkinn og alveg óralangt frá hinum einna sanna tón ef svo mætti segja. Að flutningi loknum er síðan fastlega reiknað með að við höfum lært bæði lag og texta og sé nú fátt að vanbúnaði. En við höfum þróað með okkur varnartækni sem dugar yfirleitt í slíkum tilfellum. Ég beini straumnum sem til mín fellur til Axels sem heyrir síðan ekki neitt í neinum og hristir bara höfuðið í sífellu með uppgerðan vandræðasvip, því ég er þá þegar byrjaður á næsta lagi. Og þegar svo er komið er fátt annað hægt að gera en að halda þræðinum og sá eða sú sem vill fá skrýtna lagið sem við kunnum ekki bíður yfirleitt ekki lengi eftir næsta tækifæri til spjalls. Svo er vissulega vert að geta þess að maður sem er greinilega kominn örlítið yfir miðjan aldur og svolítið frjálslega vaxinn um miðstykkið, var kominn úr að ofan og upp á borð þar sem hann tók virkan þátt í dansinum. En það er nú svo algeng sjón að það tekur því varla að minnast á slíka smámuni. Að vísu var illa hægt að verjast því að brosa lítillega út í annað því að svona atriði hafa jú ótvírætt skemmtanagildi. En fulltrúi Stöðfirðinga sem var eins og alltaf í fantagóðu stuði. var ekki seinn á sér að grípa inn í þegar Axel skrapp frá eftir meira kaffi en ég naut liðsinnis hans á meðan. Eftir þrjú lög þakkaði ég svo listamanninum fyrir framlag hans og Axel komst aftur í stæðið sitt.
En svona eiga skröll að vera eða hvað?
Það heyrir eflaust til undantekninga að menn komi akandi á ball á svona bíl, en þannig var það nú samt. Og í ofanálag kom ökumaðurinn og ballgesturinn alla leið frá Akureyri. Mér þykir þó ekki með öllu útilokað að hann hafi átt einhver fleiri erindi suður yfir heiðar - svona í leiðinni.
(based on a true story.)
27.02.2008 12:35
EB.
451. Undarleg árátta er það að vera með augun sem límd á númeraplötum bifreiða sem leið eiga hjá, en þannig hefur það verið um nokkurt skeið og oft hef ég verið ofan í kaupið með myndavél á lofti. Og það sem verra er, ég er löngu hættur að skilja þessa vitröskun en mér finnst hún samt skemmtileg. Upp í hugann koma til að byrja með sauðheimskir smalahundar sem gelta að fretandi sjálfrennireiðunum sem flestar eru orðnar sjálfbíttaðar og með olíustýri í ofanálag nú til dags. En þær gætu auðvitað allt eins verið geitin Dáfríður og systur hennar komnar í sinn silfraða geimgalla, hver þeirra á tveimur settum af línuskautum, knúnar áfram af vindverkjum og metani á ferð sinni í leit að svarinu eina, - búkhreinsun. En þessi tiltekni smalahundur trampar ekki í vitinu og heldur áfram að gelta þar til honum hefur tekist að reka hina óboðnu gesti svo langt í burtu að ekkert sést til þeirra lengur.
Voff, voff, ég held ég sé svolítið að missa mig yfir strikið.
En ég á það reyndar til að sitja fyrir bílum, leita uppi bíla og svolítið kannski að elta bíla með myndavélina klessta upp við framrúðuna, en ég hef aldrei, aldrei reynt að reka þá í burtu. Þetta byrjaði allt saman snemma á síðasta ári en ég get ómögulega munað hvernig. En í dag hefur þessi áráttustreituundarlegheitaröskun orðið til þess að mér hefur safnast talsvert af einkanúmerum bifreiða í stafrænu formi og sumum ansi skondnum. Þar með getur það tæpast dulist nokkrum manni að flestu er nú hægt að safna. Maður hristir nú bara höfuðið og leyfir flösunni að fjúka yfir þessu öllu saman.
En hafandi rýnt í bílnúmer í tíma og ótíma við alls konar mögulegar og ómögulegar aðstæður, fór ég að velta fyrir mér skráninganúmerakerfi ökutækja og uppbyggingu þess. Er þetta virkilega algjörlega ?random? eða hvað? Mér fannst ég sjá suma stafi miklu oftar en aðra sem hluta af númeraplötunum, en einhverja jafnvel alveg sárasjaldan. A, P, U, X og Z fannst mér mun meira áberandi en margt annað ,en Z þó lang, lang algengust. Svo sá ég BO, OG, MU, DO, RE, MI og allan þann skala, en mest tók ég eftir EB.
Ætli það séu einhverjar pillur til við þessu?
25.02.2008 20:03
Enn og aftur á myndaveiðum.
Káta er heimilisvinur, kemur oft í heimsókn, gistir stundum en hún er hreinræktaður Íslenskur...
Keilir í kvöldsólinni bak við hafið bláa hafið.
Elliðaárstífla hin neðri í bullandi úðarigningu og því nóg af vatni.
Bessastaðir.
Horft til Norðurbakkans í Hafnarfirðinum ofan af Hamrinum.
Ljósbrot í klökuðum greinum trjánna í bakgarði við Hallveigarstíg.
Seljalandsfoss í vetrarbúningi í jan sl..
25.02.2008 19:58
Bleikjan.
449. Þetta er líklega einn bleikasti bíll sem ég hef séð í allan dag...
23.02.2008 23:34
Laugardagslögin.
448. Áður en Laugardagslögin hófust þetta laugardagskvöldið var hringt í mig frá veitingastað á Reykjavíkursvæðinu og spurt hvort ég gæti bjargað kvöldinu hjá þeim þar sem spilari kvöldsins hefði forfallast skyndilega. Eftir nokkra umhugsun svaraði ég því til að það væri mér með öllu ómögulegt án þess að tilgreina einhverja sérstaka ástæðu þó svo að ég hafi í sjálfu sér ekki haft neitt annað betra að gera þegar lengra væri liðið á kvöldið. Ástæðan var í rauninni sú að margir tónlistarmenn sem hafa ráðið sig til starfa á þessum stað, hafa ýmist seint og illa eða jafnvel alls ekki fengið greitt fyrir vinnu sína. Svoleiðis lagað gengur auðvitað ekki og stéttarvitundin sem gerði vart við sig og lagði drög að hinu eina rétta svari. Sjaldan hef ég flotinu neitað en þar kom að því.
En eftir að samtalinu við talsmann veitingastaðarins lauk hófst skemmtilegri tími kvöldsins. Lögin í undanúrslitunum voru í raun hvert öðru betra ef svo mætti segja þó svo þau ættu kannski misjafnlega mikið erindi til útlandsins.
- Dance with the Devil - Davíð.
- Gef mér von - Páll Rósinkrans.
- This is my life - Friðrik Ómar og Regína Ósk.
- Don't wake me up - Ragnheiður Gröndal.
- Ho, ho, ho, say hei, hei, hei - Merzedes Club.
- Hvað varð það sem þú sást í honum - Baggalútur.
- Núna veit ég - Birgitta Haukdal og Magni.
- Hvar ertu nú - Dr. Spock.
En ef satt skal segja þá finnst mér að skipta megi þessum lögum í tvo flokka, þ.e. þeim sem ástæða er að reyna að gera að útflutningsvöru og hinum sem best sé að halda eftir á klakanum okkur til skemmtunar, ánægju og yndisauka. Lög geta nefnilega alveg verið frábær þó þau henti ekki til keppni í Serbíu.
Það er greinilega ennþá gríðarlegur áhugi á Júróinu sem sést m.a. á að það voru greidd yfir 100.000 atkvæði samanlagt þannig að síminn hefur fitnað svolítið við uppákomuna.
En eins oft áður komu úrslitin í það minnsta mér svolítið á óvart því ég átti ekki von á öðru en að massaða lagið hans Barða Ho, ho, ho..., væri nánast öruggt með fyrsta sætið. En það er svo sem ekki í fyrsta skipti spádómsgáfan er ekki með öllu óskeikul. Ég man enn mjög vel hvað ég varð hissa og eiginlega svolítið sjokkeraður á yfirburðasigri Silvíu á sínum tíma þegar vanhugsandi landinn greiddi henni atkvæði sín í gámavís.
En Friðrik og Regína eru góðir fulltrúar lands og þjóðar og lagið hans Örlygs Smára fyrrverandi fasteignasala hljómar eins og uppskrift að góðu gengi. Örlygur Smári hefur greinilega vaxið og dafnað sem tónlistarmaður síðan Ágúst og Telma fóru til Stokkhólms með lag hans Tell me árið 2000 þegar Olsen bræðurnir hinir dönsku komu mörgum spámanninum á óvart. Og svo get ég bætt því við að það var einmitt Örlygur smári sem seldi mér fyrstu íbúðina sem ég keypti eftir að ég flutti suður yfir heiðar.
Og í tilefni konudagsins nokkuð sem ég fékk í pósti frá ágætum sveitunga mínum...
Hvernig gera á makann hamingjusaman?
Til að gera konuna hamingjusama, þarf bara að vera:
1. vinur
2. félagi
3. ástmaður
4. bróðir
5. faðir
6. húsbóndi
7. yfirmaður
8. rafvirki
9. trésmiður
10. pípari
11. handlaginn
12. skreytimeistari
13. stílisti
14. sérfræðingur í kynlífi
15. mannþekkjari
16. sálfræðingur
17. hagfræðingur
18. reiknimeistari
19. góður huggari
20. góður hlustandi
21. skipuleggjari
22. góður faðir
23. snyrtilegur
24. samúðarfullur
25. sportlegur
26. hlýr
27. skemmtilegur
28. aðlaðandi
29. snillingur
30. f yndinn
31. hugmyndaríkur
32. mjúkur
33. sterkur
34. skilningsgóður
35. þokkafullur
36. prúður
37. metnaðarfullur
38. hæfileikaríkur
39. þolgóður
40. skynsamur
41. trúr
42. ábyggilegur
43. ástríðufullur..og gleymir aldrei að:
44. gefa henni gjafir reglulega
45. fara með henni að versla
46. vera heiðarlegur
47. vera örlátur
48. að stressa hana ekki
49. horfa ekki á aðrar konur og um leið þá verðurðu líka að:
50. veita henni mikla athygli, og hugsa ekki mikið um sjálfan þig
51. gefa henni allan tíma sem hún þarf
52. gefa henni mikið frelsi, ekki hafa áhyggjur af því hvert hún fer
Það er líka mjög áríðandi að gleyma aldrei:
1. afmælisdögum
2. brúðkaupsdögum
3. plönum sem hún hefur ákveðið
Til að gera karlmanninn hamingjusaman þarf að:
1. Gefa honum að borða
2. Sjá til að hann fái það reglulega
3. og þegja svo....
21.02.2008 00:38
Gömul mynd að vestan
(Ljósmyndari ókunnur)
447. Fyrir nokkru barst mér svolítil sending frá tengdaföður mínum. Það reyndist vera lítil blaðaúrklippa úr blaðinu Skutli sem hann hafði vandlega geymt síðan á fyrri hluta síðustu aldar.
"Er hægt að prenta hana á betri pappír, stækka svolítið og gera kannski svolítið skýrari?"
Þetta var spurningin sem fylgdi sendingunni suður yfir heiðar og flóa. Þessir þrír merkismenn voru orðnir ansi dauflegir á að líta á upplituðum blaðapappírnum, en ég held mér hafi tekist að hressa aðeins upp á þá, þó svo að ég vildi gjarnan gera betur. En ég er engu að síður búinn að koma þeim fyrir í ramma og liggur því næst fyrir að senda þá aftur til vestur í Dýrafjörð þaðan sem þeir komu.
En áður en ég segði skilið við þessa mynd sem mér finnst um margt merkileg, þurfti ég auðvitað að "gúggla" aðeins betur ofan í söguna á bak við hana, en eins og við vitum er margan fróðleiksmolann að finna á netinu. Ég er að láta mér detta í hug miðað við þær upplýsingar sem ég hef frá sendandanum og af netinu, ásamt því að reyna að ráða í söguna, að myndin hafi verið tekin um aldamótin 1900
Hannes Þórður Hafstein sem er í miðju, er án vafa þekktastur þremenninganna. Hann er fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. des. 1861, lést þ. 13. des. 1922. Hann tók stúdentspróf við Lærða skólann 1880 og lögfræðipróf Hafnarháskóla 1886. Settur sýslumaður í Dalasýslu 1886 og sat að Staðarfelli. Málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1887, en sinnti eftir það lögfræðistörfum um hríð. Landshöfðingjaritari frá 1889 en jafnframt að nýju málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1890 - 1893. Sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1896 - 1904. Ráðherra Íslands 1904 - 1909. Bankastjóri við Íslandsbanka 1909 - 1912. Ráðherra Íslands að nýju 1912 - 1914. Varð aftur bankastjóri við Íslandsbanka 1914 - 1917, en þá lét hann af því vegna vanheilsu. Endurskoðandi Landsbankans 1890-1896. Átti sæti í millilandanefndinni 1907, varaformaður hennar og formaður íslenska hlutans. Foringi Heimastjórnarflokksins 1901-1912. Alþingismaður. Ísfirðinga 1900 - 1901. Alþingismaður. Eyfirðinga 1903 - 1915. Landskjörinn alþingismaður. 1916 - 1922 og sat síðast á þingi 1917 (Heimastjfl., Sambfl., Heimastjfl.).
Eins og sjá má er þetta ekki svo lítil afrekaskrá. Hannes var líka eitt af Skólaljóðaskáldunum góðu, en þangað rötuðu tæpast aðrir en þeir sem þangað áttu erindi. Ég rakst á eitt kvæða hans sem hefur þó ekki farið hátt, en það orti hann árið 1881 þegar flattur þorskur með kórónu var eins og segir; merki Íslands í ríkisskildinum.
Heill sé þér, þorskur, vor bjargvættur besti,
blessaða vera, sem gefur þitt líf
til þess að verja oss bjargræðis bresti,
bágstaddra líknarinn, sverð vort og hlíf.
Heyrðu vort þakklæti, heiðraði fiskur,
hertur og saltaður, úldinn og nýr!
Fyrir þinn verðleika fyllist vor diskur,
frelsi og þjóðmengun til vor þú snýr,
því ef þú létir ei lánast þinn blíða
líkam við strendurnar, hringinn í kring,
horaðir, svangir vér hlytum að stríða
og hefðum ei ráð til að ala vort þing.
Þú ert oss einlægust þjóðfrelsishetja,
þú ert sem dreginn úr almennings sál.
Mynd þín og fyrirmynd fögur oss hvetja,
föðurlandsástinni hleypa í bál.
Norski umsvifamaðurinn Hans Ellefsen sem er lengst til hægri á myndinni (1868-1915) reisti hvalveiðistöð við Önundarfjörð árið 1889 og var hún þá eitt stærsta fyrirtæki landsins. Stöðin brann rúmum áratug síðar og hóf Ellefsen þá smíði annarrar litlu innar við fjörðinn. Verkinu var hætt þegar búið var að hlaða reykháfinn og stendur hann enn rétt við þjóðveginn.
Hans Ellefsen hvalfangari sem bjó á Sólbakka 1889 - 1906 og Hannes Hafstein voru miklir vinir og kom Hannes oft til Ellefsens. Var jafnvel svo að ef Hannes þurfti að komast fljótt til Reykjavíkur var settur hvalbátur undir hann í slíkar ferðir.
Áður en Ellefsen fluttist brott gaf hann Hannesi Hafstein hið glæsilega íbúðarhús sitt á Sólbakka ofan við Flateyri. Sumir segja að hann hafi selt honum húsið á eina krónu, aðrir segja fimm krónur. Hannes lét taka húsið sundur og flytja til Reykjavíkur. En vegleg þótti vinargjöf Ellefsens til Hannesar er ljóst var að báðir voru að halda brott af Vestfjörðum.
En um Lauritz Berg sem er til vinstri á myndinni, er því miður ekki miklar upplýsingar að hafa. Hann fæddist í Stafangri í Noregi 9. febr. 1834., gerði sjómennsku sem ævistarfi sínu og var meðal annars skipstjóri á skonnortunum Sophie 1864, Saphir 1867 og Freidig 1880. Hann lést í Stafangri 16. febr. 1905.
Á Þjóðskjalasafni Íslands er að finna heimildir um að hinn 30. desember 1891 hafi staðið til hjá Kirkju og kennslumálaráðuneytinu að veita Lauritz Berg hvalveiðiskipstjóra á Dýrafirði opinbera viðurkenningu. Þar eru einnig uppköst og bréf frá sama ráðuneyti og landshöfðingja um málið til íslensku stjórnardeildarinnar.
Hvalveiðistöðin á Sólbakka. Ljósm.: Önfirðingafélagið - Sólbakkamenning.
Eftirfarandi er frásögn Gunnars M. Magnúss. eftir bruna hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka 6. ágúst 1901...
...Nokkrum misserum síðar, þegar Hannes Hafstein var valinn ráðherra hinn fyrsti á Íslandi, hittust þeir vinirnir í Ellefsenshúsi á Sólbakka.
Ellefsen sagði: Ég er að fara héðan alfarinn til Austfjarða, þar sem ég er ákveðinn að reisa hvalverksmiðju. Ég sný ekki hingað aftur. Nú afhendi ég þér þetta hús sem vinargjöf. Það er leikur einn að flytja húsið burt, hvert sem er.
Þetta get ég ekki þegið að gjöf, svaraði Hannes, en mikil og vegleg afhending er þetta.
Ef til vill hefur Hannesi Hafstein komið í hug Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs Arnarsonar. Ingólfur bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir austan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum. Þetta varð síðar lagamál á Alþingi.
Og Ellefsen sagði: Borgaðu mér þá fimm krónur fyrir.
Hannes lagði fimm krónur á borðið.
Ellefsen hripaði nokkur orð á miða, rétti Hannesi og sagði: Hér hefur þú kvittun fyrir því, að ég hef selt þér húsið.
Skömmu seinna var húsið rifið til flutnings. Síðan (1906) var það byggt í brekku vestanverðu við Tjörnina í Reykjavík. Það hefur verið nefnt Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu.
"Stöðin brann rúmum áratug síðar og hóf Ellefsen þá smíði annarrar litlu innar við fjörðinn. Verkinu var hætt þegar búið var að hlaða reykháfinn og stendur hann enn rétt við þjóðveginn."
17.02.2008 06:06
Siglóferð í febrúar 2008
446.Þegar ég skrapp á heimaslóðir fyrir fáeinum dögum síðan verður að segjast að aðstæður til myndatöku utandyra voru vægast sagt í slakara lagi þann tíma sem staldrað var við. Eins og sjá má af myndinni hér að ofan (og neðan reyndar líka,) var skyggni takmarkað og einskorðaðist að mestu við gráu tónana sem eru ekki alltaf það sem verið er að sækjast í. Það var því óvenju lítið um myndatökur í þessari ferð og reyndar svo lítið að það verður að teljast fullkomlega út úr korti, á skjön við allar hefðir og venjur og ferðalagið þess vegna nokkurs konar "afbrigði" að því leytinu.
En þegar sem ég brá mér í svolitla skoðunarferð um bæinn að venju, komu allt í einu upp í hugann húsin sem voru gefin hérna um árið. Þótti ýmsum þessi gjörð hvorki vera til fyrirmyndar eða af hinu góða fyrir "fasteignamarkaðinn" í bænum ef hægt var þá að tala um eitthvað slíkt á þeim tíma. En hún var þannig í höfuðatriðum að mig minnir, að í fyrstu var gerð kostnaðaráætlun sem gekk út á að rífa húsin. Sú fjárhæð var síðan látin fylgja húsinu sem styrkur til endurbyggingar og húsið gefið einhverjum sem líklegur þótti til að standa við þá meðfylgjandi kvöð að koma því í sómasamlegt ástand. Í öllum tilfellum var um að ræða hús sem bærinn hafði eignast með einum eða öðrum hætti og þurftu verulegra endurbóta við.
Ekki man ég hvort gjafahúsin sem gengu út voru fleiri en þessi þrjú sem myndirnar eru af, en enginn vildi þiggja "Hóla" við Lindargötu svo það var brotið niður. Mér finnst sem gömlum Brekkubúa mikil eftirsjá vera að því fallega húsi, en vissulega var ástand þess orðið slæmt og endurbygging þess hefði því væntanlega orðið mjög kostnaðarsöm.
En hvaða skoðun sem menn hafa á gjafaformúlunni og aðferðarfræðinni sem lögð var til grundvallar þeim gjörning sem á sér líklega fá eða engin fordæmi, verður að segjast að þegar litið er yfir sviðið í dag verður ekki annað sagt en að vel hafi tekist til með endurbætur.
Í dag eru þetta falleg og reisuleg hús sem ég hefði ekki viljað að vantaði inn í sínar götumyndirnar.
Sólroðið ský út við sjóndeildarhring.
Það hætti allt í einu að mugga og himininn varð allt að því alveg heiður. Það gerðist svo skyndilega að ekki var annað hægt en að staldra við, horfa upp í loftið og spyrja sjálfan sig svolítið hissa; - "hvað gerðist eiginlega..."
Gráu tónarnir voru að miklu leyti horfnir á braut og í stað þeirra voru litir jarðar, himins og hafs komnir í stutta heimsókn.En þetta ástand varði ekki lengi því skömmu síðar var allt orðið grátt á ný og þannig hélst það það sem eftir var af dvöl minni á Siglufirði í þetta skiptið.
En þar er alltaf gott að vera hvernig sem veðrið er.
10.02.2008 00:11
Þegar litirnir leika sér.
445. Þegar sólin er að setjast og dagurinn að breytast í nótt, geta litir náttúrunnar átt það til að sýna okkur mannfólkinu sínar sterkustu og fegurstu hliðar. Ofurrauðir, djúpbláir og logandi gulir blandast þeir saman, mynda óteljandi tilbrigði við áður óþekkt stef og leika sér glaðir í bragði innan um ljósgeisla og skuggamyndanir sem víða eru á sveimi.
Ég hef oft sagt að ef maður á myndavél, er alltaf með hana við hendina og notar hana mjög mikið, hljóta einhverjar afurðirnar að vera í það minnsta það þokkalegar og þeim sé hægt að flagga.
Ég átti leið til Reykjavíkur á dögunum um þann mund þegar sólin var að ganga undir. Sjóndeildarhringurinn sveiflaðist milli hins rauða og hins bláa, milli hins heita og hins kalda svo og milli dags og nætur. Ég fór lengri leiðina svo ekki sé tekið dýpra í þeirri árinni, því ég fór fyrst út á Álftanes. Og þar sem ég staldraði við til að horfa á sólarlagið, sá ég að sólin var einmitt stödd á vegferð sinni bak við turninn á Garðakirkju og tók sig bara vel út þar sem hún lýsti í gegn um hann. Við Perluna varð ég að stoppa aftur og mundi þá eftir að þrífóturinn var í skottinu. Hann kom því að góðum notum fyrst þar og svo aftur í bakaleiðinni þar sem ég staldraði við í Kópavoginum á þvottaplaninu á bak við N1.
En þrátt fyrir alla litadýrðina hér allt í kring um mig, er mig farið að langa að kíkja á heimaslóðir. Ég ráðgeri því að leggja af stað norður á Sigló eftir hádegi í dag (sunnudag) og staldra þar við í 2 - 3 daga.
04.02.2008 02:54
Harðan eða mjúkan.
444. Það skal skýrt tekið fram að myndin hér að ofan á að sjálfsögðu ekkert skylt við umfjöllunina hér að neðan. Hún er aðeins látin fylgja vegna sterkrar skírskotunnar sinnar til kvikmynda yfirleitt og þá um leið til myndbandaleigna þar sem eftirfarandi atburðir áttu sér stað.
Fyrir nokkrum árum vann ég við afgreiðslustörf á ónefndri myndbandaleigu, en þar var einnig rekinn söluturn. Einn af föstu kúnnunum var ung og hress stelpa sem kom nánast daglega, leigði sér mynd og verslaði sér eitt og annað smálegt í leiðinni. Einu sinni sem oftar kom hún og eftir að hafa gefið sér góðan tíma til að velja myndefni, gekk hún að afgreiðsluborðinu þar sem ég stóð, lagði kók og snakk á borðið ásamt myndinni sem hún ætlaði að sjá í það skiptið.
"Láttu mig svo hafa einn Winston," sagði hún og brosti sínu breiðasta.
En eins og flestir vita er hægt að fá flestar algengustu tegundir tóbaks bæði í hörðu boxi og mjúkum pakkningum.
"Harðan eða mjúkan?"
"Auðvitað vil ég fá hann harðan," svaraði hún af bragði og hló tröllahlátri.
Ég áttaði mig þá á hinni tvíræðu túlkun hennar á spurningunni og er ekki frá því að ég hafi roðnað pínulítið, en það varð auðvitað til þess að hún hló enn hærra.
Með mér vann maður nokkuð við aldur sem sóttist mjög í að afgreiða þá viðskiptavini sem voru af hinu fegurra kyni og því meira sem þeir, eða öllu heldur þær voru yngri að árum.
Ég vissi svo sem alveg að honum þótti mjög miður að hafa ekki "náð" þessari tilteknu afgreiðslu, en þegar stúlkan var farin spurði hann mig hvað hefði verið svona fyndið. Ég reyndi að útskýra fyrir honum á einfaldan hátt hvernig umbúðum Winstonpakkans hefði verið snúið upp í hæfilega tvíræðni með passlega fíngerðri og frjálslegri túlkun og farið í svolítinn orðaleik í leiðinni. Eftir svolitla stund og allnokkrar endurtekningar kviknaði á perunni hjá þeim gamla og það var engu líkara en hann hefði koksins uppgötvað leyndardóminn á bak við tilgang lífsins. Það mátti greina blik í auga, neðri vörin titraði svolítið og andardrátturinn varð eilítið örari.
Ég fór nú að fylla á goskælinn og var í óða önn við þá iðju þegar næsti viðskiptavinur gengur inn. Það var kona sem greinilega var komin af léttasta skeiði og gat tæplega talist til hins veikara kyns. Hún líktist einna helst fyrrverandi Austur-Þýskum kúluvarpara frá Kaldastríðsárunum sem hætt hefur keppni fyrir aldurs sakir, án þess að gera tilheyrandi ráðstafanir vegna breyttra aðstæðna og lífsmáta.
Ég heyrði hana nefna Winston og síðan svar afgreiðslumannsins.
"Viltu kannski fá´ann harðann?"
Ég ætla ekki að reyna að lýsa viðbrögðum "kúluvarparns" sem hafði greinilega engan húmor fyrir spurningunni. Það var ekki aðeins að krepptur hnefi hennar næmi fast við andlit gamla mannsins meðan hún lét dæluna ganga, heldur virtist orðaforði hennar af skammar og fúkyrðum vera því sem næst ótakmarkaður. Þegar hún var farin minnti aldraði maðurinn sem stóð eftir stjarfur á bak við afgreiðsluborðið mig einna helst á gamla hænu sem búið er að reyta allar fjaðrirnar af. Ég reyndi að láta sem minnst bera á því sem ískraði og sauð ofan í mér, en ég neita því ekki að mér þótti þessi uppákoma ekki gera daginn neitt leiðinlegri. Auðvitað lét ég sem ég hefði hvorki heyrt eða séð nokkurn skapaðan hlut og minntist ég ekki einu orði á atburðinn, en daginn eftir fékk ég svo óvænta spurningu.
"Hvernig sagðirðu þetta annars með Winstonið?"
(Based on a true story.)
02.02.2008 06:14
Bárujárnshús við Bergþórugötuna.
443. Fyrir fáeinum dögum keypti ég litla kjallaraíbúð við Bergdórugötuna eða "Bárujárnsgötuna" eins og hún hefur einnig verið kölluð á góðum stundum. Ég er langt kominn með að rífa innan úr henni bæði allt lauslegt en sumt jafnvel frekar fast, svo sem öll gólfefni, upprunalega eldhúsinnréttingu, skápa, innihurðir o.fl. En eitt af því sem ég rak augun í var þetta apparat í sameigninni sem ég vissi ekki í fyrstu hvað var. Einn íbúi hússins sagði mér að þetta væri líklega elsta "starfandi" sjálfvirka þvottavél landsins og þegar hún væri í gangi hristist húsið lítillega og smávægilegar sprungur ættu til að myndast í veggjum.
Skömmu síðar birtist sjálfur eigandinn, en aldur hans var í fullkomnu samræmi við aldur þvottavélarinnar áðurnefndu. Hann sagðist hafa eignast gripinn nokkurra ára gamlan árið nítjánhundruðfimmtíuogeitthvað eða um líkt leyti og sá sem þetta skrifar lærði að ganga.
"Ég sé mjög illa og heyri næstum ekkert, en ég heiti Kjartan."
Þannig kynnti þessi lífsreynslubolti sig og ég varð þess fljótlega áskynja að allt sem hann sagði var satt.
"Það eru allir löngu dauðir sem hafa verið með umboðið fyrir þessari vél þó hún sé ekkert svo mjög gömul" bætti hann við.
"En ég er hér enn..."
Ég sagði fátt en hugsaði þeim mun meira.
30.01.2008 18:53
Þykkvibær.
442. Ég átti leið austur í Þykkvabæ í vikunni. Áður en ég lagði af stað leit ég aðeins á veðrið í tölvunni og sá að samkvæmt því átti að vera glaða sólskin á suðurlandinu um hádegisbilið þann daginn. Ég hafði reyndar heyrt því fleygt deginum áður að þetta yrði besti dagur vikunnar svona veðurfarslega séð, en varla verður sagt að það hafi gengið eftir nema að litlu leyti. Auðvitað var myndavélin með í för og henni var líka beitt eftir því sem aðstæður gáfu tilefni til. Á leiðinni niður af þjóðvegi eitt til Þykkvabæjar sá ég svolítið skrýtin ský í austrinu og sólargeislana vera að reyna að brjótast í gegn um þau. Úr þessu varð skemmtilegt sjónarspil og svolítill leikur ljóss, skugga og skýja. Ég snaraðist því út úr bílnum, reyndi að finna heppilega stillingu á myndavélinni og byrjaði að skjóta.
Með hjálp aðdráttarlinsunnar færði ég mig nær, eða öllu heldur dró myndefnið nær mér.
Og ennþá nær.
Ég staldraði við til að taka mynd af kirkjunni, en eins og sjá má eru fjölmargir hvítir deplar inni á myndinni. Það eru snjókorn sem mér fannst vera risastór miðað við það sem ég á að venjast. Það gerði nefnilega allt í einu mjög skyndilega gríðarlega mikla ofankomu sem hætti líka jafn skjótt og hún byrjaði.
Neðri myndin af kirkjunni er tekin nákvæmlega einni mínútu á eftir þeirri efri. - Allt búið.
"Það er svalt að vera hestur." - Allavega í kuldakastinu sem gengið hefur yfir síðustu daga.
Á leiðinni til baka veitti ég athygli þessum undarlegu mannvirkjum. Ég velti fyrir mér hvaða tilgangi þau þjónuðu en hef ekki enn komist að neinni niðurstöðu.
"Áður fyrr var Þykkvibær umflotinn vatni á alla vegu og kýr bændanna varð að reka á sund til að koma þeim á haga. Fólk varð að vaða upp í mitti eða dýpra til að komst á milli bæja og erfitt var að fást við heyskap. Auk þess brutu vötnin landið, en árið 1923 var öflug fyrirhleðsla byggð þvert yfir Djúpós og er nú akvegur eftir stíflugarðinum. Minnismerki var reist um þennan merka atburð í sögu þorpsins sem í raun breytti þar öllu mannlífi og búskap."
(Gúgglað af http://www.allseasonhotels.is/)
Hér stendur ritað...
"Verkið var unnið að frumkvæði heimamanna og var einn mesta þrekvirki sem þá var unnið á Íslandi. Stíflan var 340 m. löng og 15 m. breið. Um 4000 dagsverk þurfti til að ljúka verkinu. Verkið hófst 26. maí og straumurinn stöðvaður 4. júlí."
En hvaða klettar eru þarna niður við ströndina?
Rétt svar er Vestmannaeyjar í slæmu skyggni en með hjálp góðrar aðrdráttarlinsu.
29.01.2008 21:43
Home alone 2 - fyrri hluti.
441. Eins og kom fram fyrir margt löngu síðan þegar uppi voru aðstæður svipaðar þeim sem nú eru, er ég ekkert sérlega mikil húsmóðir í eðli mínu. Þegar mér er ætlað það krefjandi hlutverk að gæta bús og bara, á að sjá til þess að allir hafi í sig og á og að ganga í hefðbundin heimilisstörf, getur eitt og annað farið öðruvísi en til stóð. Það hefur svo sem gerst áður og það gerðist einnig nú, því miður. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mjög sterkur á svellinu þegar kemur að eldamennskuþættinum og skyldum störfum, þó að ég hafi við illan leik lært að setja í þvottavél síðast þegar ég var staðgengill húsmóðurinnar vegna tímabundinnar fjarveru hennar. Ég vil samt ekki líta alfarið neikvætt á stöðu mála, af því að í því felast einnig sóknartækifæri ef vel er gáð. Ég fæ auðvitað tækifæri í leiðinni til að sanna mig og sýna fram á að ég er ekki jafn ósjálfbjarga og gefið hefur verið í skyn af ónefndum fjölskyldumeðlimum, þó svo að ég sé skilinn eftir til þess að gera eftirlitslítill í fáeina daga.
Til að afsanna fram komnar kenningar um takmarkaða hæfni mína á þessu sviði, fékk ég þá flugu í höfuðið að gera það sem mér hefur aldrei áður til hugar komið að reyna af framkvæma. Ég ætlaði að baka köku, þrátt fyrir að engar kröfur eða beiðni hafi komið fram um slíkan gjörning nema síður væri. Það er jú alltaf gaman að koma fólki á óvart og hver veit nema óvænt tiltæki eins og það gæti orðið til þess að ég fengi langþráð klapp á bakið.
En þar sem ég hef aldrei bakað köku, veit ég auðvitað mjög lítið um hvernig slíkt er gert. Ég hef þó séð eitt og annað uppi á eldhúsborðinu sem samheitið "bökunarvörur" er oftar en ekki notað um og veit svona nokkurn vegin hvað fellur undir þá skilgreiningu. Ég man að amma mín notaði gjarnan orðasambandið "að slumpa í köku" þegar hún tók til hendinni í þeim efnum. Ég skildi það svo að hún blessunin setti saman eitthvað eftir minni, eða jafnvel bara það sem væri til hverju sinni í stóra skál, hrærði eða hnoðaði síðan vel og vandlega en síðan tæki ofninn við. Út úr honum kæmi svo ilmandi kaka sem var undantekningalaust étin upp til agna á skammri stund. Þetta getur bara ekki verið mjög flókið ferli.
Þar sem ég vissi í hvaða skáp hrærivélin er geymd sem er auðvitað ekkert sjálfgefið, tók það skamma stund að gera hana tilbúna. Þá var komið að hveitinu sem ég veit að undantekningalaust notað þegar bakað er, - held ég.
"Ég er nú ekki svo vitlaus," hugsaði ég með sjálfum mér meðan ég leitaði að hveitinu sem ég gat hvergi fundið.
Ef ekkert slíkt er til verða menn bara að skreppa eftir því hið snarasta. Ég renndi niður í 10-11 og fann strax það sem ég taldi mig vanta.
"Nokkuð fleira?" Hún Anna litla sem á heima í næstu blokk var að afgreiða og brosti sínu blíðasta.
"Nei Anna mín, mig vantaði bara svolítið hveiti."
Andlitið á Önnu breyttist og varð eins hún hefði bitið í mjög súra sítrónu.
"En þetta er ekki hveiti, þetta er kartöflumjöl."
Kona fyrir aftan mig flissaði en Anna bjargaði mér frá frekari vandræðum með því að fara og sækja sjálf það sem mig vantaði.
"En þetta er Kornax hvað sem það nú annars er," sagði ég.
"Já, þetta er Kornax hveiti. Þú ert nú meiri brandarakarlinn."
Konan fyrir aftan mig flissaði aftur.
Þá sá ég að það stóð Kornax lárétt á pakkanum með svörtu letri, en hveiti lóðrétt með rauðu letri og annarri stafagerð.
"Rosalega eru þetta villandi merkingar" sagði ég í nöldurtón.
"Er fólk ekki alltaf að ruglast?"
Konan fyrir aftan mig hreinlega sprakk. Hún hló bæði á innsoginu og útsoginu og mér fannst hún hlægja á afar lítt þokkafullan hátt, en Anna laut höfði og horfði fast niður á fætur sér. Ég borgaði og flýtti mér heim með Kornax hveitið.
Sykur!
Ég veit líka að það á að nota sykur í bakstur, en hvar ætli sykurinn sé geymdur. Ég opnaði stóra skápinn við hliðina á ísskápnum sem stundum er kallaður "búrið." Við mér blasti talsvert magn af Kornax hveiti, en engan sykur var að finna. En þarna var flórsykur, púðursykur og molasykur, en engan strásykur. Sjitt, ég fer sko alls ekki aftur niður í 10-11 til að láta hlægja að mér. Ég velti fyrir mér hvort ég gæti ekki bjargað mér með það sem til væri. Er ekki sykur annars bara sykur eða hvað? Ég hélt leitinni áfram svolítið lengur en varð ekki var við neitt sem hét bara sykur eða strásykur. Ég tók því pakkann með molasykrinum og hellti honum í skál. Ég fann síðan eitthvað apparat í einni eldhússkúffunni og byrjaði að hnoða molasykurinn. Eftir svolítið hnoð höfðu molarnir brotnað í talsvert minni mola og fínan salla, en þar sem þetta var ekki sérlega mikið magn fannst mér það hlyti að vera í lagi að drýgja það með bæði púður og flór.
Smjörlíki!
Það á líka að vera með. Ég fann tæplega hálft smjörlíkisstykki inni í ísskáp, en ætli það sé alveg nóg? Létt & laggott er svipað í sjón svo ég skóf innan úr einni slíkri dollu og bætti við það sem fyrir var.
En það hlýtur að vera eitthvað fleira sem er notað í kökur eða hvað. Ég opnaði stóra skápinn aftur og fór yfir hillurnar.
Nupo-létt, íssósa, Ritzkex, fiskibollur í dós, tómatsósa, vanilludropar, grænar baunir og rúsínur var meðal þess sem þar var. Svolitlu af vanilludropum og vænni lúku af rúsínum sem reyndust vera súkkulaðirúsínur var bætt við í hrærivélarskálina.
En hvort notar maður vatn eða mjólk til að bleyta í öllu draslinu? Þar sem ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvort væri réttara, eðlilegra eða betra, má segja að það hafi kannski verið svolítið diplómatísk lausn að fara bil beggja. Ég bætti því svolitlu vatni og svolítilli mjólk út í skálina.
Ég leit aftur inn í skápinn.
Kaffi, hrísgrjón, gular baunir og rauðkál. Ég hrukkaði ennið. Það er vissulega til t.d. kaffisúkkulaði sem er skrambi gott og það hlýtur af vera notað kaffi í það.
Nú gæti einhverjum dottið í hug að ég hefði sturtað út BKI pakkanum, en það gerði ég ekki. Ég var nú farinn að finna mig í kökugerðinni og smátt og smátt farinn að hafa svolitla trú á sjálfum mér í framtakinu. Ég hellti afganginum af gamla kaffinu síðan í gær út í hið verðandi kökudeig og hugsað með mér að það verði líka að sýna af sér svolitla nýtni og ráðdeildarsemi endrum og sinnum.
En gular baunir?
Ég veit alveg að gular baunir eru notaðar í "saltkjöt & baunir" á Sprengidaginn, en til hvers ætli þær séu notaðar þess á milli. Ég skoðaði þessar gulu baunir svolítið betur og sá að það var búið að kljúfa þær allar í miðju. Þetta voru því bara "hálfbaunir," en til hvers ætli þetta sé gert? Getur verið að það sé til að þær blotni betur upp og linist við hita? Verði jafnvel mjúkar og gefi því sem þær eru notaðar í skemmtilegan keim og/eða fyllingu? Endalausar spurningar um gular hálfbaunir vöknuðu í huga mér, en ég átti engin svör við neinni þeirra. Með hálfum huga og hikandi handarhreyfingum fór þó ein lúka eða svo út í með öllu hinu.
Lyftiduft!
Alveg rétt, en er þetta ekki að verða nóg? Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um það en opnaði skápinn í þriðja sinn. Efsta hillan var full af kryddi, en skyldi krydd vera notað í kökur? Jú, það var sungið um það í piparkökusöngnum svo það hlaut að vera gert. Ég mundi líka eftir að hafa séð köku úti í búð sem hét Kryddkaka. Ég fór því létta umferð yfir kryddhilluna og valdi nokkur krydd sem ég taldi að gætu komið að gagni.
Whole black peppercorns, white pepper, piparblanda - fjórar árstíðir, sítrónupipar, garlic pepper og cayennepipar og chilipipar. Ennfremur malað kúmen, en því miður datt lokið af bauknum svo innihaldið fór allt ofan í skálina. En það var reyndar innan við helmingurinn eftir í bauknum svo það hlaut að sleppa auk þess að t.d. kúmenbrauð er mjög gott brauð, en það er nú með alvag bullandi kúmenbragði.
Ég setti hrærivélina nú í gang og hún malaði um stund meðan ég horfði stoltur á innihaldið blandast saman, en útkoman var samt ekki mjög lík neinu kökudeigi eins og ég hef séð það til þessa. Þetta var miklu líkara blautri steypu sem er á leiðinni í mót. En hvað um það, það geta ekki allar kökur verið eins. Ég leitaði nú uppi kökuform sem ég fann að lokum og hellti innihaldinu í það. Þegar það var fullt var samt helmingurinn eftir í hrærivélarskálinni svo ég þurfti greinilega annað form. En til þess að auka á fjölbreytnina fannst mér upplagt að bæta einhverju út í afganginn af deiginu, því þá væri ég að bakstri loknum kominn með tvær sortir en ekki bara eina.
Ég veit ekki af hverju brauðtertur komu upp í hugann, en það varð alla vega til þess að ég opnaði dós af aspas sem ég fann og bætti út í ásamt svolitlu af skinkustrimlum og mayonnaise. Til áhersluauka einnig tveimur matskeiðum að marmelaði til að laða fram mjúkan appelsínukeim.
Ég fann annað form og hellti afganginum í það, kveikti á ofninum og nú var væntanlega ekki langt í veisluna.
Ég fylgdist með í gegn um glerið á ofnhurðinni, en mér fannst lítið gerast þarna inni. Áttu kökurnar að lyftast eða áttu þær kannski ekki að lyftast? Áttu þær ekki að taka á sig einhvern lit og yfirborð þeirra að breytast frá því að virka svona rennblautt og hráslagalegt? Átti ég ekki annars að kveikja á ofninum um leið og kökurnar fóru inn, eða átti að gera það annað hvort skömmu áður eða skömmu síðar?
Það leið heil eilífð áður en ég sá nokkuð fara að breytast, en það gerðist þó á endanum. Kökurnar urðu sællegri að sjá í gegn um glerið, stækkuðu og lyftu sér upp úr formunum. Þær stækkuðu reyndar svo mikið og hratt um tíma að mér var hætt að lítast á blikuna. En svo hættu þær að stækka og þar kom að ég slökkti á ofninum, náði mér í þar til gerða hanska og setti afurðirnar upp á bekk til kælingar.
Tíminn leið og ég átti svolítið erfitt með mig af spenningi, en kökur verða samt að fá að kólna aðeins - held ég. Ég hafði verið einn heima í þessu kökubrasi framan af degi, en nú fór að fjölga á heimilinu.
"Krakkar komiði í nýbakaða köku."
Þau komu bæði í eldhúsdyrnar og horfðu forviða á mig en síðan hvort á annað. Hver kom með þessa köku hingað og hvaða skrýtna lykt er þetta?
Ég svaraði engu en náði í diska og kökuhníf, skar væna sneið af báðum kökunum á hvern disk og rétti þeim.
Þau hikuðu enn, horfðu á mig svolítið hissa á svipinn og síðan aftur hvort á annað.
Minný beit í aðra kökuna, leit síðan snöggt upp og sagði síðan án þess að kyngja.
"Ég ætla að borða þetta inni í herbergi."
Hún var horfin á braut með það sama og ég heyrði dyrnar lokast en gluggann opnast með svolitlum rykk.
"Það hefur líklega verið hitamolla inni hjá henni" hugsaði ég með mér.
Gulli settist við eldhúsborðið, náði sér í mjólkurglas og fékk sér stóran bita, saup vel á mjólkinni og byrjaði að smjatta. Svo hætti hann því skyndilega og kinnarnar urðu eins og tvær litlar blöðrur til beggja hliða. Hann stóð upp og horfði fast á mig, hendur hans lyftust eins og hann ætlaði að blessa mig fyrir vel unnin störf, en settist síðan aftur og byrjaði að kyngja í áföngum.
"Ertu búinn að smakka þetta sjálfur?" Hann stóð upp og gekk út úr eldhúsinu.
"Á ekki að klára?"
"Nei takk, ég treysti mér alls ekki til þess" sagði hann alveg ákveðið og dyrnar á herbergi hans lokuðust.
Ég get ekki neitað því að á þessu augnabliki fylltist ég efasemdum um árangur verka minna og hæfileika á sviði brauð og kökugerðar, en auðvitað varð ég að kanna málið til hlítar. Ég lét mig hafa það að smakka á báðum gerðum og verð að viðurkenna þá nöturlegu staðreynd að önnur var sýnu verri en hin sem verður þó engu að síður að teljast með öllu óæt.
En ég skil bara ekki hvað klikkaði...
26.01.2008 03:36
Óli & Villi
440. Ó, Reykjavík, ó, Reykjavík, þú yndisfagra borg... Það var hljómsveitin Vonbrigði sem flutti lagið í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík árið 1982. Þá var mikil gróska í tónlistarlífinu í höfuðborginni og segja má að enn sé veruleg gróska á sama stað, en kannski þó öllu meiri í pólitíkinni sem stendur. Og ljóst er að vonbrigði (þó ekki hljómsveitin) hafa enn og aftur komið við sögu hjá einhverjum, alla vega miðað við hasarinn í Ráðhúsinu á dögunum.
Ólafur er sagður hafa tekið "(metorða)rúllustigann eða jafnvel hraðlyftuna upp allar hæðirnar í einum áfanga," og því gæti leiðin ekki legið nema bara niður úr því sem komið væri. Ég var að gúggla svolítið og sá pistil þar sem pólitíkus nokkur er uppnefndur "Lánlausi Villi." Það er auðvitað ljótt að uppnefna fólk, en hver ætli það sé annars...? Það er greinilega heitt í kolunum í henni Reykjavík um þessar mundir og víst er að ekki er hægt að tala um gúrkutíð þessa síðustu daga fyrir Þorra.
Eftirfarandi "frétt" var að finna á baggalutur.is
Hlutirnir gerast hratt í ráðhúsi Reykjavíkur þessa stundina. Óstaðfestar heimildir herma að nýr borgarstjórnarmeirihluti hafi verið myndaður nú rétt í þessu.
Mun meirihlutinn skipaður sjálfstæðismönnum 40 ára og yngri, flakkaranum svonefnda auk auðra og ógildra.
Einn óháðasti armur F-lista og sjálfstæðisflokkur hafa náð saman um nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, þann tólfta á þessu kjörtímabili.
Mun meirihlutinn starfa undir slagorðinu Bingi sökkar! og er meginmarkmið hans að "halda völdum frá kómúnistum og kellingum," eins og segir í málefnasamningi flokkanna.
Gert er ráð fyrir að meirihlutinn haldi eitthvað fram eftir vikunni, en fljótlega verður svo haldið áfram að reyna öll þau mögulegu mynstur sem koma til greina við stjórn borgarinnar, til að fullnægja vilja sem flestra kjósenda.
Vonandi fer þessi mynd ekki fyrir brjóstið á neinum, en ég veit samt ekki hvort þessi Ráðhúsfarsi er fyndinn mikið lengur.