09.08.2014 01:27

Eyja-bylgjan, dagur þrjú



Íslenska útvarpsfélagið sem rak Bylgjuna hóf starfsemi sína á efri hæðinni í þessu húsi þar sem Osta og smörsalan hafði eitt sinn aðsetur. Á neðri hæðinni var verslun ÁTVR og tískufataverslunin Herraríkið. Síðar myndbandaleigan Ríkið ásamt málningarverslun frá Hörpu. Ég man að eitt sinn hringdi ég í beina útsendingu Bylgjunnar og rukkaði þáttagerðarmann (konu) um ógreiddar videóspólur sem fengust greiddar mjög fljótt og vel. 

947. Síðbúnum endalokum á umfjölluninni sem Bylgjan boðaði um útihátíðir verslunnarmannahelgarinnar lýkur hér með af minni hálfu og með all nokkuð færri orðum en ég hugði í fyrstu að myndi verða.

Það að dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar yrðu á ferð og flugi alla Verslunarmannahelgina og tækju stöðuna á flestum útihátíðunum reyndist bara prump og plat þriðja daginn í röð.

Strax í hádegisfréttunum var gefinn sá tónn sem entist allan daginn, því lítið var fjallað um hvað hafði gerst annars staðar en á Þjóðhátíð í Eyjum. Jú annars, lítillega var minnst á Mýrarboltann á Ísafirði, við skulum alls ekki gleyma honum.

En tjöld fuku í Eyjum þegar líða tók á nótt og upp komu ein 50 fíkniefnamál. Síðan var spáð í umferðarþungann frá Landeyjahöfn, bílastæðin eða öllu heldur bílastæðaleysið við höfnina og talað við lögguna á Selfossi plús nokkur orð svona almennt um umferðina.

Málið í hnotskurn. - Það sem á eftir kom og allt til enda dags var á sömu eða svipuðum nótum.


En það er ekkert nýtt að Bylgjan fari sínar eigin leiðir og sunar jafnvel nokkuð sérstakar þegar kemur að tónlistarstefnu, fréttaflutningi og umfjöllun ýmis konar. Sumt er gott en annað síðra eins og gengur. Það geta til dæmis varla talist meðmæli með útvarpsstöð sem hefur þá stefnu að spila ekki Bítlana vegna þess að þeir væru orðnir "svolítið gamaldags", en þannig var það um árabil.

Eitt sinn fór þekktur stórpoppari í viðtal á Bylgjuna og tilefnið var að hann ásamt fleirum stóð að útgáfu gospeldisks. Svo óheppilega vildi til að einn af starfsmönnum sömu útvarpsstöðvar stóð einnig að útgáfu svipaðs efnis um líkt leyti. En okkar maður fór í viðtalið eins og fyrr segir sem gekk með miklum ágætum, enda maðurinn vel máli farinn og hafði heilmikið að segja. En í lokin þótti auðvitað tilhlýðilegt að spila eins og eitt lag af umræddum diski, en þá brá svo við að hann reyndist með öllu ófinnanlegur. Var gerð talsverð leit, en án nokkurs árangurs. Það var engu líkara en þau eintök sem höfðu verið send inn á tónlistardeildina hefður hreinlega gufað upp, - eða kannski verið látin hverfa.


Þegar ég gaf út fyrri diskinn af "Svona var á Sigló" árið 1999, kom upp mjög svipuð staða. Lengi vel var ekki eitt einasta lag spilað á Bylgjunni þrátt fyrir að ég hefði sent þangað 10 eintök.

En eitt kvöldið þegar ég var að afgreiða á Laugarásvideó birtist þar maður í lopapeysu og Álafossúlpu sem spurði um mig. Sá sagðist heita Sigurður Pétur og kvaðst starfa á Bylgjunni. Hann vildi vita af hverju diskurinn með lögunum sem svo mikið væri beðið um í óskalagaþættinum sínum hefði ekki borist útvarpsstöðinni.

Sami Sigurður Pétur varð síðar einn helsti aðstoðarmaður Sophiu Hansen í forræðisdeilu hennar við fyrrum eiginmann sinn Halim Al og umsjónarmaður söfnunarinnar "Börnin heim", var með gríðarlega vinsælan þátt á laugardagskvöldum upp úr 1990 þar sem aðeins var spiluð tónlist með íslenskum textum. Þetta var á sínum tíma algjört stílbrot á tónlistarstefnu Bylgjunnar, en það svínvirkaði.

Sigurður Pétur fékk að sjálfsögðu ellefta eintakið sem segja má að gengið hafi þar með óbeint til Bylgjunnar og ég spurði hann hvernig hin tíu hefður getað horfið á svo dularfullan hátt, en lítið var um svör þó mig gruni að viðmælandi minn hafi engu að síður kunnað þau.

Á þessum tíma voru Bylgjan, Stöð 2 og Skífan eitt og hið sama fyrirtæki. - Skífan seldi geisladiska.


En nú er komið nóg af neikveiðum "bylgjum" í bili og tímabært að hugsa fram á við.

Tölum um eitthvað annað og skemmtilegra næst.

04.08.2014 01:42

Eyja-bylgjan, dagur tvö



946. Í beinu framhaldi af gærdeginum (sem hefur þegar þetta er skrifað umbreyst í fyrradag) og því sem bar fyrir eyru á Bylgjunni, stillti ég á sömu útvarpsstöð eftir hádegið á nýliðnum degi. Ég vildi ekki trúa því að sagan endurtæki sig annan daginn í röð, en vonbrigðin urðu mikil.

Í stuttu máli var sá hluti dagskrárinnar þar sem útihátíðar komu beint eða óbeint við sögu og sneytt hjá allri síbylju eitthvað á þessa leið:

 

Vatýr Björn, Bjarni Ara og Jói í "Verslunarmannahelgarútvarpi" Bylgjunnar.

Byrjunin lofaði góðu þegar þeir áttu ágætt spjall við forsvarsmann Kotmóts Hvítasunnumanna, en strax eftir það var farið að auglýsa brekkusönginn í Eyjum.

Þá var talað við Ásgeir Pál Bylgjupartýsmann sem var á leið til Eyja. Hann lýsti því hvernig fólksflutningaferjan Víkingur skoppaði eins og korktappi á sjónum í Landeyjarhöfn og hann taldi sig jafnvel sjá spýjur farþeganna gusast út yfir borðstokkinn. Valtýr Björn tók undir og taldi þá vera í "Æluvinafélaginu". Svo var hlegið.

Síðan var slegið á þráð vestur á Ísafjörð til aðstandenda Mýrarboltans, en síðan kom auglýsing um að brekkusöngurinn yrði í beinni á Bylgjunni.

Þá var spjallað við Árna Johnsen um Þjóðhátíðina og eftir það fluttu Fjallabræður ásamt Sverri Bergmann þjóðhátíðalagið frá 2012, "Þar sem hjartað slær". Reyndar ferlega flott lag, flottur flutningur og alltaf gaman að heyra það.

Næsta viðtal var við Ingó og væntanlega stjórn hans á Brekkusöngnum um kvöldið. Eftir það kom auglýsing um væntanlegan brekkusöng.


Talsverð umfjöllun var um Þjóðhátíð í fréttum kl. 17 en eftir þær tók Hlynur Hallgríms við.

Hann spilaði annað þjóðhátíðalag og Brekkusöngurinn var auglýstur tvisvar, bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum "auglýsinga"-hætti ef svo mætti segja.

Svo kom lag með Skítamóral og þess getið að þeir drengir hefðu nú verið að spila í Eyjum í gærkvöldi.

Þvi næst var "Eyjan græna" þjóðhátíðalagi Bubba Mortens frá 2009 demt yfir saklausa hlustendur. Sumir hafa þá líklega kveinkað sér og nuddað sár eyrun, - ég var einn þeirra.

Þá var fjallað um mjög bættar forvarnir af ýmsu tagi í Eyjum, s.s. hópinn sem stóð að "Bleika fílnum" og fjölgun myndavéla í dalnum. (Hið besta mál).

Svo flutti Jón Jónsson Þjóðhátíðalag 2014 sem var síðasta lag fyrir kvöldfréttir.

 

Í fréttum stöðvar 2 var sýnt frá Þjóðhátíð í Eyjum, Ein með öllu á Akureyri og Mýrarboltanum á Ísafirði, en þó lang, lang, lang mest frá Eyjum.

 

Eftir fréttir var svo Ásgeir Páll mættur á Partývaktina í beinni útsendingu úr Herjólfsdal. Reyndar var hin klassíska Bylgjusíbylja ríkjandi, en þáttastjórnandinn kom inn annað slagið alveg ofurhress og talaði þá fjálglega um að umrædd Partývakt væri stærsta og skemmtilegasta partý á Íslandi og hver vill ekki vera með??? Hann heimsótti Elliða bæjarstjóra sem stóð sig ágætlega í spjallinu, skreið undir sæng til Stebba Hilmars sem átti líka skemmtileg tilsvör og lagði heilmikið púður í að byggja upp sem mesta eftirvæntingu fyrir Brekkusönginn sem hófst svo kl. 23.

Á heimasíðu Bylgjunnar er hann auglýstur með eftirfarandi hætti:

"Ein stærsti viðburður í íslensku útvarpi verður svo klukkan 23:00 á sunnudagskvöld þegar Bylgjan færir þér Brekkusönginn úr Herjólfsdal í beinni útsendingu. Það er alveg sama hvar í heiminum þú ert. Þú getur hlustað á Brekkusönginn í beinni á Bylgjunni í gegnum útvarpið, í gegnum netið, í sjónvarpinu og í Bylgju- Appinu".

Mér fannst ekki sérlega mikið til um útkomuna og hreinlega nennti ekki að hlusta lengur og stillti yfir á aðra útvarpsstöð.

 

Á heimasíðu Bylgjunnar má einnig lesa:

"Dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar verða á ferð og flugi alla Verslunarmannahelgina og taka stöðuna á flestum þeim útihátíðum sem haldnar verða um helgina".

Bölvaðir lygalaupar, þeir fóru á einn stað og hringdu á þrjá. Kannski hafa þeir ekki átt meiri inneign...!

 

En á morgun verður kominn nýr dagur og ég ætla að fylgjast með þeim Bylgjukumpánum, en þó ekki nema með öðru því að við norðanmenn eigum greinilega fáa vini í höfuðstöðvum 365 í Skaptahlíðinni.

Ég hvet alla Siglfirðinga til að segja upp áskrift að Stöð 2 og verða sér úti um NETFLIX.

03.08.2014 01:43

Eyja-bylgjan, dagur eitt


Jói og Valtýr

945. Meðan ég kíkti á frásögn DV um glæpamennina sem halda Ólafsfirði í heljargreipum sínum, (slóðin er: http://www.dv.is/frettir/2014/8/1/olafsfjordur-i-heljargreipum-glaepamanna/ ) kveikti ég á útvarpinu og hlustaði svona með öðru eins og maður gerir stundum. Það var stillt á Bylgjuna að þessu sinni og þar hljómaði þáttur sem nefndur er Verslunarmannahelgarútvarp með þeim Valtý Birni og Jóa. En sá þáttur reyndist heldur betur einsleitur og það er ekki laust við að stoltinu vegna upprunans og rótanna hafi verið svolítið misboðið. Fyrst eftir að ég kveikti var rætt um Þjóðhátíð í Eyjum, síðan hringt á Ísafjörð og rætt stuttlega við aðstandendur Mýrarboltans, síðan var gamalt Eyjalag leikið, eftir það var rætt við Elliða Vignisson bæjarstjóra í Eyjum. Svo komu Bylgjufréttir kl. 16 þar sem m.a. var ítarlega fjallað um aðsókn á Þjóðhátíð í Eyjum, Eina með öllu og Ungmennafélagsmótið á Sauðárkróki en engar aðrar. Síðan hélt umfjöllunin um Þjóðhátíð í Eyjum áfram um stund og óspart var minnt á að Brekkusöngnum yrði útvarpað beint kl. 23 annað kvöld. Að lokum þökkuðu þeir kumpánar fyrir sig en vildu að lokum senda góðar kveðjur til Eyja



Sigurður Hlöðversson


Kl. 17 mætti svo Siggi Hlö til leiks hæfilega sjálfumglaður að venju og spilaði sérstakt Eyjabylgjumix, en tók þó fram sem rétt er að það væri talsvert á skjön við tónlistarstefnu þáttarins. Hann var hins vegar duglegur að plögga ballinu á Spot þar sem hann og Greifarnir ætluðu að trylla lýðinn og líklega að fá "stelpurnar" til að ÖSKRA af hrifningu. Ekki man ég hvort þær sem sögðu að Siggi væri æðislegur fengu óskalögin sín leikin frekar en aðrir, eða kannski frekar aðrar, en þannig finnst mér alla vega að hlutirnirnir gangi fyrir sig. - Bara svona tilfinning.

 

Í fréttum stöðvar 2 var boðið upp á beina útsendingu frá Eyjum og meira að segja í Íþróttafréttunum var sérstaklega fjallað um Jón Jónsson og Þjóðhátíðarlagið hans í ár.



Ásgeir Páll


Eftir fréttir tók við dagskrárliðurinn Partývaktin sem Ásgeir Páll sá um. Hann var auðvitað ofurhress að venju því þannig eiga menn að vera í hans starfi og öðru vísi halda menn ekki djobbinu. Áfram hélt umfjöllunin um Þjóðhátíð í Eyjum, hann spilaði mikið af ágætri "með sítt að aftan" tónlist í bland við nokkur misgömul þjóðhátíðarlög og hafði nokkrum sinnum samband út í Eyjar. Jú það var beðið um meira af íslensku efni og Ásgeir spilaði nokkur íslensk lög með flytjendum sem Bylgjan hefur velþóknun á án þess þó að ástæðan sé öllum fyllilega ljós í öllum tilfellum.

Svo voru það auglýsingarnar. "Það er alveg sama hvar í heiminum þú ert. Þú getur hlustað á Brekkusönginn í beinni á Bylgjunni í gegnum útvarpið, í gegnum netið, í sjónvarpinu og í Bylgju- Appinu". Og. - "Dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar verða á ferð og flugi alla Verslunarmannahelgina og taka stöðuna á flestum þeim útihátíðum sem haldnar verða um helgina".

Þá hló ég bæði hátt og snjallt.

 

Það er ekki laust við að maður velti fyrir sér hvað veldur þessum ósköpum. Ég hélt að Bylgjan væri ekki landshlutaútvarp. Ég hélt líka að það væru fleira að gerast á landinu þessa helgina en Þjóðhátið í Eyjum að henni ólastaðri. Hvað er þetta þá? Klíkuskapur, starfsmenn ættaðir frá Eyjum að misnota aðstöðu sína eða umfjöllun gegn greiðslu eða greiða?

Ég giska á þetta síðasta og get vel ímyndað mér að það sé bara nokkuð gott gisk.

 

Sé farið inn á visir.is sem er sama kompaníið, má finna þar sex fréttir sem tengjast mannamótum um helgina, þar af er helmingurinn tengdur Eyjum.


Það rifjaðist upp að í fréttatímanum í hádeginu sl. fimmtudag einmitt á Bylgjunni, voru taldar upp "helstu hátíðirnar" á landinu sem voru að mati viðkomandi: Mýrarbolti á Ísafirði, Ungmennafélagsmótið á Sauðárkróki, Ein með öllu á Akureyri sem fyrirfram var talið að yrði sú stæsta í ár og gætti þá undrunarhreims hjá fréttamanni, Neistaflug á Neskaupsstað, Þjóðhátíð í Eyjum, Kotmót Hvítasunnumanna, Edrúhátíð SÁÁ og Innipúkinn. Ekki var minnst á neitt annað.

 

Það rifjaðist líka upp að þeir Valtýr og Jói heimsóttu Siglufjörð á Síldardögum sem gladdi mitt Siglfirska hjartra alveg heilan helling, en eftir á að hyggja læðist sá grunur að manni að þarna hafi þeir aðeins verið að fylla upp í dagskrána, prófa útsendingargræjurnar eða búa til efni til að benda á að þeir hafi jú komið víðar við en raun ber vitni, - og nóta bene; Þjóðhátíðin var heldur ekki byrjuð þá.

 

Það er því dagljóst að Bylgjan er ekki útvarp allra landsmanna og það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu á morgun og hinn.

Að endingu og af gefnu tilefni vil ég benda á nauðsyn þess að Rás 2 verði EKKI seld og/eða einkavædd. - ALDREI.

30.07.2014 06:54

Skoger til sölu



944. Ég rakst á þessa auglýsingu þegar ég brá á svolítið á netflakk sem er ekki svo ýkja óalgengt. Hún birtist í Siglfirðingi síðla sumars árið 1936 og það er ekki alveg laust við að ég hafa velt aðkomu Andrésar Hafliðasonar að málinu eitthvað fyrir mér, en eflaust kann hann Jón Andjes þó öll svör við því.


Skoger er búinn að vera huti af hinu Siglfirska landslagi svo lengi sem flestir sveitungar muna aftur í tímann. Þó hitti ég burtfluttan mann fyrir nokkru sem sagði mér frá minningum sínum um það þegar atburðurinn átti sér stað í frumbernskunni og logandi flakið rak fyrst út, en síðan inn fjörðinn aftur þar til það strandaði þar sem það situr enn sem fastast. Reyndar er það svo að ég vildi ógjarnan sjá þetta spor sögunnar hverfa að fullu þó það hljóti samt að gerast í fyllingu tímans.



Skoger nýbyggt við bryggju skipasmíðastöðvarinnar í Svelvik í Noregi, árið 1921.


"Samkvæmt upplýsingum frá norska sjóminjasafninu var Skoger tréskip, byggt árið 1921 í Svelvik í Noregi. Það var 48 metra langt, 10 metra breitt og það risti 4,5 metra. Vélin var 320 hestöfl. Fyrst var skipið gert út frá Drammen en síðan Brevik og loks Porsgrunn. Þessir bæir eru mjög sunnarlega í Noregi og alls ekki langt frá Osló.

Í maímánuði 1934 skemmdist skipið þegar eldur kom upp í því þar sem það var til viðgerðar í Porsgrunn. Skipið var þó gert upp og tekið fljótlega aftur í notkun. Í skýrslum um norska skipsskaða segir að upptök eldsins 1936 hafi verið neisti frá gufukatli sem hafi komist í gas. Sama heimild segir að skipstjórinn hafi fengið áminningu og sekt (40 norskar krónur) fyrir að hafa björgunarbúnað ekki í lagi".

Um þetta ritar Jónas Ragnarsson grein sem birtist á síðunni siglfirdingur.is og heitir "Skoger á Skútufjöru.

Og Jónas skrifar áfram.

"Árið 1936 var gott síldarár. Um miðjan ágúst hafði "aldrei áður verið veidd líkt því eins mikil síld til bræðslu," að sögn Morgunblaðsins. Fimmtudaginn 20. ágúst var líflegt um að litast á Siglufirði. Mörg íslensk síldveiðiskip lágu við bryggju og á annað hundrað erlend skip voru úti á firðinum. Erlendi veiðiflotinn hafði víst aldrei verið jafn stór. Skipin voru flest í höfn vegna norðaustan hvassviðris úti fyrir Norðurlandi, en það hafði staðið í nokkra daga.

Laust eftir klukkan átta að kvöldi þessa dags kom skyndilega upp eldur í einu norsku skipanna úti á höfninni. Það hét Skoger og var um 580 brúttótonn að stærð. Skipið hafði komið til Siglufjarðar tveimur dögum áður. Í því voru um 2000 tunnur af síld sem söltuð hafði verið um borð, 500 tómar síldartunnur og 500 tunnur af salti. Í olíugeymum skipsins voru 8 tonn af olíu (sumar heimildir nefna 30 rúmlestir) og auk þess voru í skipinu átta föt af smurolíu".

Slóðin að greininni er: http://www.siglfirdingur.is/v.asp?page=251&Article_ID=92



Þær eru ófáar myndirnar sem teknar hafa verið af bænum þar sem Skoger er ýmist í forgrunni eða gæðir myndflötinn lífi og eykur fjölbreytileika hans.



Snemma um vorið 1965 meðan ég var ennþá níu ára fór ég með móður minni og stjúpa, afa og ömmu í bíltúr yfir á Ás. Þá var þessi mynd tekin, en hún sýnir þáverandi ástand á Skoger og auk þess Lukku, hina mjög svo sérstöku trillu hans Magga á Ásnum. Einnig sést ágætlega í búnaðinn sem hann notaði til að draga hana upp í fjöruna þó það sé nú annað mál.



Þessi mynd er tekin tveimur árum síðar þegar ég var á ellefta ári og farinn að gera út á kajak að hætti Brekku og Suðurfrágutta. Ég man að ég réri yfir Leirurnar, hafði með mér myndavélina sem ég hafði þá nýlega eignast og smellti nokkrum nærmyndum að flakinu, en í þá daga var mun meira dýpi milli þess og lands.



Og þá alveg eins og nú var Skoger gamli tilvalinn "átylla" fyrir sjófuglana.

24.07.2014 21:40

Led Zeppelin


Led Zeppelin um 1970


943. Síðast liðið mánudagskvöld dólaði ég í rólegheitunum eftir Dalveginum, áleiðis að Smáralindinni og stefndi þaðan upp í Lindir. Allt með eins venjubundnum hætti og hugsast gat, eltandi GPS-ið eins og hlýðinn rakki. Það voru mjög fáir á ferli og óvenju mikið næði um borð. Ég var saddur og sæll, enda nýkominn úr matarhléinu sem við fáum á u.þ.b. miðri strætóvaktinni. Ég hækkaði aðfeins í útvarpinu, en nei, þetta gengur ekki, ég vil ekki hlusta á rapp.

Ég ýtti á takkann þar sem ég vissi að rás 2 var prógrammeruð og þar kvað við heldur betur annan tón og hann all góðan.

Þátturinn "Albúmið" var að fara í loftið, en í honum taka þeir félagarnir Jón Ólafsson (Bítlavinafélagsmaður) og Kristján Freyr Halldórsson (fyrrum trommari í hljómsveitinni Reykjavík) fyrir plötur sem hafa haft afgerandi áhrif á rokksöguna. Að þessu sinni var Led Zepprelin viðfangsefnið, og þá aðallega fjórða plata þeirrar sveitar, en á henni er m.a. ein mest spilaða rokkballaða allra tíma, Stairway to heaven.

 

Fyrstu kynnin af þessari mögnuðu hljómsveit rifjuðust upp fyrir mér og ég gat ekki annað en glott svolítið út í annað við þá upprifjun, en það var árið 1969 á Gaggóárunum þegar unglingahljómsveitin Hendrix var og hét. Annar gítarleikarinn í bandinu Þórhallur Ben, hafði orðið fyrir tónlistarlegri vitrun og í beinu framhaldi af því skipti hann gamla tónlistarsmekknum út fyrir annan nýjan sem var að hans mati mun betri og þroskaðri. Hann bauð til sölu gegn vægu verði allar gömlu "kúlutyggjópoppplöturnar" sínar og hóf markvisst að kaupa þróaðra rokk fyrir lengra komna og í framhaldinu hlustuðum við strákarnir á Cream, Woodstock og fleira gæðaefni eftir skóla heima hjá Þórhalli. En það fékkst ekki mikið af svona efni í Föndurbúðinni hjá honum Júlla Júll blessuðum svo að það þurfti oftast að fá það sent í póstkröfu að sunnan.

Í eitt skiptið þegar búið var að aura saman fyrir einum góðum vinylgrip til viðbótar þeim sem fyrir voru, var hringt í Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur og spurt um afurð meistara Jimi Hendix og sveitar hans Experience. Ég man að það voru talsverð vonbrigði þegar því var svarað til að allt efni með honum væri uppselt í bili en ný sending þó væntanleg innan tíðar. Sá sem svaraði benti hins vegar á nýútkomna plötu með lítt þekktri hljómsveit sem spáð var mikilli velgengni og mælti eindregið með henni. Það varð úr að hún var keypt en að mig minnir með talsverðum semingi þó. Þegar platan kom var hún leyst út og sett á fóninn. Við áttum fá orð yfir það sem fyrir eyru bar þegar fyrsta lag á síðu A byrjaði. "Good times, bad times" hvílíkur kraftur, hvílíkir galdramenn voru þarna á ferðinni. Svo komu þau eitt af öðru, "Babe I´m gonna leave you", "You shock me", "Dazed and Confused", "Your time is gonna come", "Communication breakdown" og öll hin.

Það var engu líkara en þarna væri verið að fremja einhverja illskiljanlega tónlistargjörninga sem ekki voru þessa heims, slíkir voru töfrarnir.



Fjórða LP plata Led Zeppelin bar engan titil og hvergi var á henni að finna nöfn flytjenda. 


En við þá sem eru áhugasamir fyrir góðri rokktónlist sem nú er löngu orðin klassísk, mæli ég með að þeir smelli á linkinn http://www.ruv.is/sarpurinn/albumid/22072014-0 og hlusti á þrælgóðan þátt um eðalsveitina Led Zeppelin.

20.07.2014 10:09

Rigning



942. Þegar ég fór á fætur í morgun, leit ég út um gluggann og sá að það rigndi ekki í augnablikinu sem verða eiginlega að teljast tíðindi á þessum síðustu og hundblautu tímum. Það var hins vegar allt rennandi blautt utandyra eftir nóttina sem eru reyndar alls engin tíðindi. Það rigndi  mikið í júní og þegar ég fór norður fyrstu vikuna í júlí hlýt ég að hafa tekið rigninguna með mér því þar var varla hundi út sigandi flesta þá daga sem ég staldraði við og aðsókn á Þjóðlagahátíðina varð með dræmara móti. Ég kenni rigningunni að mestu leyti um það því dagskráin var glæsileg að vanda. Síðan ég kom að norðan hefur rignt mismikið hvern einasta dag og útlit er fyrir að þannig verði það svo lengi sem veðurfræðingar geta séð í kortum sínum.

Mað sama áframhaldi held ég að rigningin fari fljótlega að þrengja sér inn í sálina og setjist þar síðan að um ókomna tíð.

 

Þetta minnir mig á að árið sem ég fæddist rigndi líka mikið og þá mest fyrir norðan. Reyndar alveg gríðarlega mikið er mér sagt. Sumarið 1955 hefur löngum verið kennt við hina geysimiklu úrkomu sem einkenndi það og gjarnan nefnt "rigningarsumarið mikla".

Sé gluggað í gömul blöð sést að mikillar átu varð vart fyrir norðurlandi og síldveiðin byrjaði fyrr um vorið en hún hafði gert nokkru sinni áður og var þá mjög góð. Það bjargaði líklega vertíðinni því seinni hluta sumarsins var veiðin mun dræmari, en í heildina varð árið harla gott. Alla vega miðað fyrir árin á undan sem höfðu einkennst að aflaleysi.

Þetta var árið sem Halldór Laxness fékk Nóbelinn, Ragnar Fjalar Lárusson varð sóknarprestur Siglfirðinga, Jói dívana tók við rekstri Eyrarbúðarinnar og bæjarstjórnin frestaði byggingu elliheimilis,

 

"Ef ánamaðkar hefðu söguvitund og héldu annála, hefði rigningarsumarið mikla árið 1955 orðið þeim víti til varnaðar".

var haft eftir háskólanemanum Magnúsi Sigurðssyni í Lesbók morgunblaðsins þ. 9. apríl 2005.

15.07.2014 05:15

Og þá komu menn saman til að gráta...



941. Ég rakst á þessa gömlu en sögulegu Polaroidmynd (hér að neðan) þegar ég var að gramsa í gömlu dóti eins og ég geri svo oft (en allt of sjaldan þó, því nóg er til). Ég horfði á hana um stund, gruflaði stutta stund í lágþokubökkum hugans og velti fyrir mér staðnum og stundinni, en eftir svolitla stund rann upp það ljós sem dugði til þess að varpa ljósi á þetta löngu liðna augnablik og ljúfsára minningarbrot.

Myndin var tekin þ. 9. okt. 1986, eða daginn sem Stöð 2 fór fyrst í loftið og Jón Óttar flutti hljóðlausa ávarpið sem frægt er

Þá hafði ég rekið myndbandaleiguna Videóbjörninn við Hringbraut 119 (við hliðina á JL húsinu) í u.þ.b. tvö ár ásamt þeim Guðnýju Reimarsdóttir, Sverri Tryggvasyni, Pétri Ólafssyni, Birgi Kristmundssyni og Trausta Reykdal, en hann er Siglfirðingur sem býr á Eskifrði og er sonur Varða málara sem bjó eitt sinn á Túngötu 10.

Þetta var dagurinn sem heimurinn hrundi. Ég hafði leigt út heilar fjórar spólur frá því snemma um morguninn og ástandið var ekkert ósvipað hjá öðrum í bransanum sem ég hafði haft spurnir af.

Við sem á myndinni erum, vorum allir góðir kunningjar og samherjar, komum saman að loknum þessum örlagaríka degi inni á lagernum hjá mér og bárum saman bækur okkar. Við vorum svartsýnir á framtíðina og töldum víst að nú væri videóævintýrið sem átti að gera okkur alla ríka endanlega úti. Það er ekkert ofsagt að þarna hafi heilmikill grátkór komið saman og framið einhvern drungalegan gjörning sem einkenndist af svartsýni og vantrú á framtíðina. Það var ekki mikið um jákvæða strauma í þetta skiptið og engar gamansögur voru sagðar áður en menn tíndust út í haustnóttina hver til sins heima. Tilfellið var að það tók bransann nokkuð langan tíma að jafna sig þannig að út á hann yrði gerandi og ekki komust allir yfir þann hjalla sem Jón Óttar hafi þarna reist að okkar mati illu heilli. Reyndar er það svo að ég hef ekki enn þann dag í dag gerst áskrifandi að Stöð 2 og mun aldrei gerast, en til hvers þurfti maður svo sem að gera það þega maður átti videóleigu?




Á myndinni eru frá vinstri talið: Ástmundur Gíslason (hálfbróðir Röggu Gísla söngkonu), Ísleifur Haraldsson (rak nokkrar leigur í Grindavík og á Reykjavíkursvæðinu ásamt Magnúsi mági sínum og eiginkonum), Jón Björgvins (okkar maður á siglo.is), Ólafur Guðmundsson og (hálfbróðir Ásmundar) og Árni Sigurjónsson (mágur þeirra Ásmundar og Ólafs), allt frábærir drengir.

Þeir Ástmundur, Ólafur og Árni ráku myndbandaleigurnar Videosport að Háleitisbraut, Ægissíðu og í Eddufelli ásamt myndbandaútgáfu og framleiðslufyrirtækinu Bergvík. Þeir Ástmundur og Árni eru nú fallnir frá, enÓlafur rekur enn Bergvík ásamt fjölskyldu sinni.

Ég gat ekki setið á mér að vera svo andstyggilegur að kroppa út andlitið á Nonna Björgvins og stækka það eins og sést á myndinni hér að ofan, því svipurinn á honum er svo innilega lýsandi dæmi um ástandið á okkur öllum sem þarna sátum. (Sorrý Nonni).

10.07.2014 17:10

Kominn heim



940. Þá er annar hluti sumarleyfisins að baki og honum var að sjálfsögðu eytt á heimaslóðum, en því miður í mikilli rigningu nær alla dagana. En skítt með það, þetta var alla vega miklu meira nærandi fyrir sálina og andann en einhver sólarlandaferð þar sem maður eyðir tímanum að mestu í að elta skuggann af næsta húsi og kæla sig niður með öllum tiltækum ráðum eins og ég gerði hérna um árið.

Það var árið 1983, eða kannski var það 1984 (man það ekki alveg upp á tíu) sem ég dvaldi í heila viku í svækjunni á Spáni og fannst alveg nóg um þrátt fyrir að senn færi að líða að lokum septembermánaðar. Dagurinn byrjaði gjarnan á því að ég rölti út á barinn gegnt hótelinu þar sem ég bjó og fékk mér einn svellkaldann af stærri gerðinni, gekk síðan upp að hótelblokkinni og settist niður í forsæluna skuggamegin við húshornið. tíminn leið og sólin sem var á ferðalagi rétt eins og ég, fetaði sig frá austri til verstur allt þar til hún gægðist fyrir hornið mér til mikils ama. Þá var fátt annað að gera en að endurnýja það sem til þurrðar var gengið í könnunni þótt stór væri, og rölta síðan aftur til baka. Ekki þó á sama stað, heldur fyrir þar næsta horn, vitandi að þangað myndu sólargeislarnir ekki ná að skína fyrr en degi var tekið að halla og það versta afstaðið. Þá var þó enn eitt horn fyrir að fara ef þörf var á áður en myrkrið hvolfdist yfir eins og tjald að lokinni leiksýningu. Já það er víst lítið um bjartar nætur þarna suður frá. Ég varð því þeirri stundu fegnastur þegar ég komst aftur heim og hef ekki lagt leið mína í suðurálfu síðan.

 

En það var alls ekki þetta sem ág ætlaði að nefna, heldur það að ég rakst á þessa gömlu úrklippu frá árinu 1949 þar sem bregður fyrir nöfnum manna sem munu lifa í minningunni. Alvörumenn sem voru sannir góðborgarar síns tíma og settu svo sannarlega svip sinn á bæjarbraginn og það svo um munaði.

29.06.2014 01:21

Svona var á Sigló (2)


939. Í vikunni fékk ég skilaboð frá honum Ásmundi í Smekkleysu (áður í Gramminu) um að finna sig sem snöggvast þegar ég mætti vera að, sem ég varð auðvitað fljótt og vel við.

Erindið sem hann Ási átti við mig kom mér svolítið þægilega á óvart, því hann tjáði mér að fundist hefðu við tiltekt í kjallara Smekkleysubúðarinnar að Laugarvegi 35 fáein eintök af "Svona var á Sigló 2". Hann vildi láta mig vita af þessum óvænta "fornleifafundi" sem fyrst ef ég gæti nýtt mér þá eitthvað þetta efni sem er frá árinu 2004.

Það taldi ég mig svo sannarlega geta, því það hefur verið spurt um þessa diska alltaf annað slagið síðustu árin og ég vissi ekki betur en þeir væru löngu uppseldir.


Segja má að það hafi komið mér skemmtilega á óvart hvað það kom honum skemmtilega á óvart, hvað það kom mér aftur skemmtilega á óvart að þessir diskar höfðu fundist.

(Er ástæða til að orða þetta eitthvað öðruvísi)???


Því hefur disk númer tvö af "Svona var á Sigló" verið komið fyrir í annarri CD-hillunni af tveimur í bakaríinu hjá honum Kobba einum staða á landinu sem þykir mér vera hinn besti og eðlilegasti fyrir afurðina.

 

Á disknum eru 10 lög.

1. Sem lindin tær. Casano Conti / Bjarki Árnason, flutt af Hlöðve Sigurðssyni

2. Gautasyrpa. Syrpa af lögum sem Gautarnir hafa gefið út sungin af Balda Júll, Rabba Erlends, Selmu Hauks, Stebba Fidda, Ella Þorvalds, og Jómba Hilmars.

3. Ég átti von á því. Svavar Benediktsson/ Jakob Jónasson flutt af Þorvaldi Halldórssyni.

4. Bréfið hans Óla. Sven Gyldmark/ Sigurður Ægisson flutt af Kristbirni Bjarnasyni.

5. Eftir Ballið. Leó R. Ólason/Hafliði Guðmundsson flutt af Rut Reginalds

6. Dagdraumur. Maxted/Hafliði Guðmundsson - Blandaður kvartett.

(Þorvaldur Halldórsson, Eva Karlotta Einarsdóttir, Þorsteinn Sveinsson, Hólmfríður Rafnsdóttir).

7. Heim á Sigló. Jeff Christie/ Leó R. Ólason - flytjandi Ómar Hlynsson

8. Kveiktu ljós. Springfield/Hafliði Guðmundsson - Blandaður kvartett.

(Þorvaldur Halldórsson, Eva Karlotta Einarsdóttir, Þorsteinn Sveinsson, Hólmfríður Rafnsdóttir).

9. Ég er í stuði. Guðmundur Ingólfsson - flytjandi Guðmundur Ingólfsson.

10. Ekki meir. Eva Karlotta Einarsdóttir - flytjendur Eva Karlotta og Ragna Dís Einarsdætur.


En þess utan er unnið að því að undirbúa næstu Siglóferð. Því miður tókst mér aðeins að kría út eina viku í bili af sumarfríinu mínu sem er sú fyrsta í júlímánuði og er henni að sjálfsögðu hvergi betur varið en á heimaslóðum.

24.06.2014 05:15

"Stórmynd" að heiman



(Ljósmynd Magga)

 

938. Ég staldraði við í hinu risastóra anddyri Bónus verslunarinnar í Kauptúni í Garðabæ þegar ég átti þangað hefðbundið erindi á dögunum. Þar hékk uppi á áberandi stað risastór mynd af mjög svo kunnuglegu svæði, en það (sjá myndina hér að ofan) er eins og við vitum verulega vinsælt myndefni þeirra sem eiga leið um smábátahöfnina á Sigló. Líklega hefur ófáum "skotunum" verið hleypt þarna af og er þá ekki djúpt í árinni tekið, en varla þó nokkru af þessari stærð fyrr en nú.

 


(Ljósmynd Magga)


Ég skoðaði mig betur um áður en haldið var til búðar og þekkti þarna all nokkra staði, bæði héðan úr Hafnarfirðinum, innan úr Reykjavík og utan af landsbyggðinni. Svo var listamaðurinn niðursokkinn í vinnu sína á staðnum sem gerði sýninguna mun meira lifandi og tengdi myndirnar persónu hennar enn sterkari böndum.

 


(Ljósmynd Magga)


Þann 16. þ.m. sagði Sigurður Ægisson frá Steinþóru Hildi Clausen á vef sínum http://www.siglfirdingur.is/  undir titlinum "Augnakonfekt til sölu" 

sjá: http://www.siglfirdingur.is/v.asp?page=251&Article_ID=3134 en Hildur eins og hún mun yfirleitt vera kölluð útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 2008 

Sjá einnig: https://www.facebook.com/Heimilioglist?hc_location=timeline

 


(Ljósmynd Magga)

21.06.2014 12:51

Júní 1949 - júní 2014



937. Nú er fyrsta kafla sumarfrísins lokið og menn mættir aftur til starfa syðra. En blíðan fyrir norðan var engu lík eins og þeir vita sem þar voru. Mælirinn á Sparisjóðnum sýndi allt upp í 24 stiga hita yfir miðjan daginn. Blár himinn og glampandi sól megnið af þeim dögum sem ég staldraði við.

Hvað er hægt að biðja um meira?

Varla nokkurn skapaðan hlut - nema þá kannski risastóran ís...


Sé hins vegar leitað samanburðar frá liðnum árum, er myndin hér að ofan líklega eitt af því fyrsta sem dúkkar upp. 

09.06.2014 13:49

Stutt sumarfrí



936. Í dag er fyrsti dagurinn í fyrsta hlutanum af sumarfríinu þetta árið. Það er því búið að pakka niður nauðsynlegu dóti og senn verður haldið af stað út úr bænum. Ekki verður þó þeyst eitthvað stefnulaust út í buskann á vit einhverra ævintýra, heldur farið rakleiðis norður í Síldarbæinn og dvalið þar alla þá laustu daga sem til falla eða til 19. júní. . Ekki er mikið aðgengi í tölvu nyrðra og því verður líka frí hér á síðunni.

Sem sagt...

Engin tölva.

Enginn strætó.

Engin vekjaraklukka.

Ekkert vesen.

-

Halló Sigló.!

07.06.2014 02:12

Gramsað í föðurgarði - þriðji hluti.

 


935. Drengurinn sem gægðist upp úr kláfnum forðum á leiðinni suður yfir heiðar hét Jón Brandsson. Hann var bróðir Guðrúnar sem lesa má um hér að neðan og langafi skrifara.

Hann var fæddur að Prestbakka í Hrútafirði 24. mars 1875. Fimm ára að aldri flytur hann með foreldrum sínum austur að Ásum í Skaftártungum þar sem fjölskyldan býr næstu 12 árin, eða þar til faðir hans andast og móðir hans ásamt börnum sínum flytur á fornar slóðir þar sem flest skyldmenni þeirra bjuggu. Séra Jón minntist oft dvalar sinnar í Ásum og náttúrufegurðarinnar þar syðra. Um það bil sem hann flutti heim í átthaga sína, hóf hann nám í Lærða skólanum, varð stúdent 1899 og tók guðfræðipróf 1903. Hann dvaldi eftir það í eitt ár á Hólmavík og starfaði þá við verzlunarstörf. Þegar Arnór prestur Árnason lét af embætti í Tröllatunguprestakalli, sótti Jón Brandsson um embættið og fékk það þar sem hann var eini umsækjandinn. Hann var síðan vígður um haustið 1904.

 


Séra Jón að koma út úr Kollafjarðarneskirkju eftir messu. - Ljósmyndari ókunnur.


Presturinn og guðshúsið.

Í minningargrein um séra Jón sem Guðbrandur Benediktsson ritar í Morgunblaðið árið 1959, tengir hann saman persónu Jóns og kirkjuna á Kollafjarðarnesi sem er ekkert skrýtið, því þau eru svo sannarlega tengd órjúfanlegum böndum.

"Kirkjan á Kollafjarðarnesi er reist á traustum blágrýtiskastala, þar er og hátt til lofts og vítt

til veggja. En í þöglu kyrru umhverfi sínu, tign sinni og mjúkum línum, bendir hún sjáandanum til þeirra heima þar sem grunnurinn er enn traustari og viðsýnið enn meira.

Kollafjarðarneskirkja má teljast minnisvarði hins nýlátna prestaöldungs sér Jóns Brandssonar.

Á fyrstu prestskaparárum sínum í Tröllatunguprestakalli og fyrir hans atbeina var kirkja

byggð á Kollafjarðarnesi og þar með sameinaðar Fells- og Tröllatungukirkjur með þvi að þá var Kollafjarðarnes gjört að prestsetri. Séra Jón Brandsson vígist til Tröllatunguprestakalls árið 1904 tæplega þrítugur að aldri. Þar höfðu forfeður hans verið prestar í um 70 ár, þeir feðgar séra Hjálmar Þorsteinsson og Björn sonur hans. Fyrstu dvalarár sín í prestakallinu

átti séra Jón heima á Broddanesi, en vorið 1908 settist hann að á Kollafjarðarnesi sem eins og að framan getur var lögákveðið prestsetur. Næsta ár var svo kirkjan byggð þar og er hún því 50 ára nú í ár. í þessu musteri sínu og safnaðarins hafði hann unnið flest hin kirkjulegu

störf, flutt söfnuði sínum í gleði hans og sorg boðskap og blessun þess máttar er alls staðar ræður og ríkir".

Áður en séra Jón gerðist prestur í Kollafjarðarnesi hafði ríkt nokkur ófriður í Tröllatungu og Fellssókn, en flestir bændur í fyrrnefndu sókninni höfðu þá leyst sóknarbönd við prest sinn séra Arnór Árnason og tekið sér prestinn á Stað fyrir kjörprest.

Með tilkomu hins unga prests voru sóknirnar ekki aðeins sameinaðar, heldur var aðalkirkjustaðurinn færður frá Felli í Kollafirði og úr Tröllatungu að Kollafjarðarnesi í hina nýju kirkju og voru samstarfserfiðleikar safnaðarins og hirðis hans þar með úr sögunni.

Ekki er vitað til að í Kollafjarðarnesi hafi staðið bygging helguð kristinni trú fyrr en kirkjan var byggð og ekki heldur eftir að séra Jón lét af prestskap, en hún varð 105 ára á þessu ári.



Kollafjarðarnes eins og það leit út um haustið 2012. Jörðin mun hafa verið seld nýlega og frést hefur að verulegar endurbætur séu í undirbúningi, en þegar nýr eigandi skoðaði ýmis gögn um íbúðarhúsið kom í ljós að það var teiknað að Guðjóni Samúelssyni. Hann hyggst nú færa það að miklu leyti í upprunalegt horf. - Ljósmynd LRÓ.


Mannasættir, fjölskyldufaðir, sálusorgari, þjónn og embættismaður,

Með dyggri aðstoð góðra manna gekk séra Jóni fljótt og vel að sáttum innan safnaðanna og var þjónandi prestur á Kollafjarðarnesi fram til 1950 þegar hann lét af prestsskap fyrir aldurs sakir og hafði þá verið prófastur í 30 ár. Honum hefur verið lýst sem hlédrægum manni sem vildi lítt láta á sér bera, en ákaflega fastur á skoðunum sínum. Þéttum á velli og þéttum í lund, jafnt í kirkju sem hversdagslega. Rökföstum og kveðjuhandtakið hlýtt og innilegt.

Séra Jón hóf búskap á Kollafjarðarnesi um vorið 1908 og gekk þá að eiga heitmey sína

Guðnýju Magnúsdóttir bónda að Miðhúsum í Hrútafirði. í Kollafjarðarnesi voru þau í 43 ár, eða til 1951, en hann var þjónandi prestur í heil 44 ár.

 


Kollafjarðaneskirkja og kirkjugarðurinn í september 2012. - Ljósmynd LRÓ.


Síðasta bókabrennan á Ströndum.

Séra Jón var rökfastur eins og áður sagði og hafði mjög fastmótaðar skoðanir sem mótuðust af lífsviðhorfi hans, starfi og köllun. Ekki er það heldur alveg útilokað með öllu að eilítið hafi stundum blandast saman pólitíkin og guðfræðin.

Eitt sinn spurðist það út um sveitir að ungt og efnilegt skáld úr Dölunum, Jóhannes Bjarni Jónasson væri í þann vegin að senda frá sér nýtt efni. Jóhannes Bjarni sem hafði áður gefið út nokkrar ljóðabækur sem allar höfðu fengið góðar viðtökur, hugðist nú harsla sér völl á nýjum völlum skáldagyðjunnar og að þessu sinni var von á skáldsögu frá þessu upprennandi skáldi.

Í hreppnum mun hafa verið til svolítill vísir að bókasafni sem vistaður var á fáeinum hillum í forstofuherbergi, sumir segja hjá hreppstjóra. Fyrir þá aura sem inn komu vegna útlána, voru svo keyptar nokkrar bækur á ári sem voru þá lesnar nánast upp til agna af íbúum hreppsins.

Jón var einn þeirra sem beið útkomu bókarinnar og þegar hún kom loksins út, var hann einna fyrstur til þess að fá hana lánaða til aflestrar.

Nokkur tími leið og prestur skilaði ekki bókinni, en aðrir sveitungarnir spurðu mikið um hana.

Og enn leið og beið án þess að bókin kæmi aftur í hús, og þar kom að haft var samband við sérann og hann spurður hvernig lesturinn gengi.

"Já bókin sú" svaraði hann, "ég náttúrulega brenndi hana".

Presur hafði eftir lestur hennar talið allt of margt í henni vera lítt uppbyggjandi efni og geta jafnvel haft neikvæð áhrif á söfnuðinn og skoðanir hans. Hann var nú einu sinni sálnahirðirinn sem hafði þann starfa að hlú sem best að hinni andlegu hlið síns fólks.

Þetta álit Jóns voru sveitungar hans ekki fyllilega sáttir við og fór svo að prestur var krafinn um andvirði bókarinnar sem hann mun hafa innt af hendi með semingi. Nýtt eintkak var þá keypt sem var auðvitað lesið af enn meiri athygli og jafnvel áfergju en ella hefði verið gert.

Þess má geta að unga skáldið úr Dölunum, Jóhannes Bjarni Jónasson tók sér nafnið Jóhannes úr Kötlum.



Að lokinni athöfn í Kollafjarðarneskirkju. Ekki er vitað hver athöfnin var og ljósmyndari er ókunnur.


Um samskipti við biskupa.

Séra Jón var líka mjög alþýðlegur maður. Eitt sótti hann prestastefnu til Reykjavíkur og bjó þá hjá Ragnheiði dóttur sinni í Skipasundinu meðan hann dvaldi syðra. Þaðan tók hann strætisvagn til fundarins, en því hafði biskup spurnir af og líkaði stórilla. Hann tók Jón á eintal og fann að ferðamátanum við hann sem hann taldi ekki sæma virðingu stéttarinnar. Prestar ættu að koma akandi á bíl eða jafnvel gangandi frekar en að blanda of miklu geði við alls konar fólk sem væri eins misjafnt og það væri margt. Jón svaraði því þá til að hann teldi að best færi á því að prestar væru í nánum tengslum við söfnuði sína en forðuðust þá ekki.

 

Öðru sinni var Jón staddur á prestastefnu og var þá verið að minnast biskups sem var nýlega látinn. Að lokinni langri lofræðu voru viðstaddir beðnir um að standa á fætur og lúta höfði í virðingarskyni við hann.

Allir stóðu þá upp nema Jón sem sat sem fastast og horfði beint fram, en nokkur kliður myndaðist í salnum í kjölfarið. Jón var auðvitað spurður að því hverju sætti að framkoma hans væri með slíkum ólíkindum.

Hann svaraði því þá til að hann hefði aldrei getað borið nokkra virðingu fyrir umræddum biskupi sem hefði ekkert batnað þótt hann væri nú dauður.

 

Eitt sinn var biskup að vísitera á Ströndum og kom þá við á Kollafjarðarnesi. Þegar hann fór þaðan varð prestur honum samferða áleiðis því hann átti erindi á bæ þar skammt frá. Á leiðinni þangað gekk kona nokkur í veg fyrir ferðalangana og bað Jón að taka fyrir sig skírnarkjól sem hún hafði fengið lánaðan og koma honum til eiganda sins á bæ sem hann ætti leið hjá í bakaleiðinni. Prestur taldi það lítið mál og tók við kjólnum. Þetta líkaði biskupi ekki alls kostar vel og vandaði um fyrir Jóni.

"Vér eigum ekki að koma alþýðubændum upp á að nota oss sem sendisveina".

Jón svaraði því þá til að þetta væri góð kona sem ætti allt gott skilið og málið þar með endanlega afgreitt af hans hálfu.

 

Öðru sinni átti biskup leið um og kom þá að Kollafjarðarnesi eins og ráð hafði verið fyrir gert, en mun hafa verið öllu fyrr á ferðinni en áætlað hafði verið. Prestur var ekki heima við og ekki hafði verið byrjað að undirbúa komu hins tigna gest í mat og drykk, en þó var nýbúið að baka firnin öll af rúgbrauði og nóg var til af fiski. Guðrún Magnúsdóttir systir Guðnýjar konu Jóns var heima við og reyndi að bjarga málum sem hún frekast gat og tíndi eitt og annað til úr búri ásamt soðningunni og rúgbrauðinu sem biskup gerði hin bestu skil.

Biskup mun hafa verið fámáll meðan hann dvaldi við, en þegar hann var farinn varð henni að orði að "nú ætti þó að heyrast í biskupi".

Guðrúnu mun hafa þótt miður að geta ekki gefið biskupi og föruneyti hans eitthvað merkilegra og staðbetra en fisk, en síðar spurðist að biskup hefði haft orð á hvað það hefði verið mikil og góð tilbreyting að koma að Kollafjarðarnesi og fá þar fiskmeti eftir allar stórsteikurnar sem fram hefðu verið bornar á öllum hinum stöðunum sem hann hefði haft viðdvöl á.

 


Fjölskylda og heimilisfólk á Kollafjarðarnesi. Séra Jón í miðju og Guðný kona hans vinstra megin við hann.- Ljósmyndari ókunnur.


Kýrnar frá Hvalsá.

Séra Jón mun ekki hafa haft verulega afskipti af búrekstrinum, enda hélt hann alla tíð bæði vinnumenn og vinnukonur á Kollafjarðarnesi. Eitt sinn hafði hann átt erindi til Hólmavíkur, en þá var ekki tekið að myndast þorp á þeim stað.

Í bakaleiðinni fer hann fram hjá Hvalsá sem er næsti bær við Kollafjarðarnes og sér hann þá að kýr eru á beit milli bæjanna. Degi var tekið að halla og stutt í mjaltir. Þykir Jóni þá upplagt að reka þær með sér heim á leið þar sem hann er hvort eð er á sömu leið og þær. Gengur reksturinn ekkert sérlega vel þrátt fyrir að leiðin sé stutt, en að endingu eru þær komnar heim að bænum. Kemur þá vinnumaður út og spyr hverju það sæti að kýrnar frá Hvalsá séu nú komnar að fjósinu á Nesi.



Myndin mun vera tekin í Fellsrétt um miðbik síðustu aldar. Þarna sést séra Jón vinstra megin við miðju með hatt á höfði. - Ljósmyndari ókunnur.

 

Að lokum.

Þeim hjónum Jóni og Guðnýju varð níu barna auðið en eitt lést í bernsku.

Kollafjarðarnesheimilið var ávallt fjölmennt, einkum þó á fyrri árum og mun þá hafa þurft að

gæta mikillar hagsýni í rekstri þess.

Jón sat í sýslunefnd Kirkjubólshrepps um árabil og einnig í hreppsnefnd, var formaður skólanefndar og sat í fasteignamatsnefnd Strandasýslu. Hann ásamt Guðjóni Guðlaugssyni alþingismanni lögðu grundvöllinn að mati fasteigna í sýslunni sem enn er miðað við.

Öll þau verkefni sem honum voru falin, innti hann af hendi með sérstakri vandvirkni, samviskusemi og réttsýni. Hafði hann því einróma traust allra.

Þegar séra Jón Brandsson prófastur á Kollafiarðarnesi lét af embætti um vorið 1951, var Kollafjarðarsókn lögð undir Staðarprestskall í Steingrímsfirði,

Séra Jón var heilsuhraustur fram til sjötugsaldurs, en þá fór hann að kenna þess sjúkdóms sem dró hann til dauða árið 1959.

Langafi minn séra Jón Brandsson hvílir í Staðarkirkjugarði í Hrútafirði.

LRÓ.

 

Heimildir:

DV 2000 - Guðfinnur Finnbogason

Morgunblaðið 1959 - Guðbrandur Benediktsson.

NN.

Sæunn Óladóttir systir mín.

Sigurður Hjálmarsson föðurbróðir minn.

23.05.2014 01:49

Gramsað í föðurgarði - annar hluti



934. Þegar séra Brandur faðir þeirra Guðrúnar og Jóns gerði tilraun til að flýja baslið, áfengisbölið og drykkjuvinina í Hrútafirðinum og fluttist suður í Skaptafellssýslu, voru börnin mjög ung að árum. Drengurinn aðeins fimm ára en stúlkan árinu eldri. Dvöl þeirra þar syðra varð þó styttri en til stóð eða aðeins tólf ár, því þegar faðir þeirra andaðist fluttust þau ásamt móður sinni aftur norður á Strandir. Hlutskipti þeirra í lífinu gátu varla orðið ólíkari því hún lifði í sárri fátæk alla sín tíð, en hann gekk menntaveginn og varð prestur og síðar prófastur. Börn séra Brands urðu alls fimmtán, en ég mun aðeins fara yfir sögu tveggja þeirra. Jóns sem var langafi minn og Guðrúnar m.a. vegna þess hve heimildir eru aðgengilegar um hana.

Saga hennar er mikil átaka og harmsaga, en hún var sterk til sálarinnar og stóð áföllin og brotsjóina af sér eins og klettur í lífsins ólgusjó.



Guðrún Brandsdóttir


Baslið beið eftir henni í sveitinni heima.

Guðrún Brandsdóttir var átján ára þegar hún kom í Hrútafjörð aftur og afburða myndarleg stúlka. Ljóst hárið liðaðist niður um fingerðan líkamann, í gráum augunum speglaðist enn bjarmi Skaftfellskra gleðistunda og allt fram á elliár birti yfir svip hennar þegar minnst var á þá sveit. En hafi hana forðum þegar hún fór um landið í kláfnum dreymt um að lífið yrði eitt heillandi ævintýri, þá var það aðeins tálsýn og heilmikill blekkingingarvefur. Fyrr en varði stóð hún í strangri lífsbaráttu, blásnauð húsmóðir í harðbýlu landi og á erfiðum tímum. Bróðir hennar og besti vinur gekk hins vegar menntaveginn og varð að lokum prófastur. Sjálf var hún að vísu mjög bókhneigð, en fátækar sveitastúlkur í lok nítjándu aldar áttu líltinn kost á námi. Hún giftist náfrænda sínum, Búa Jónssyni frá Kollsá og þau fóru að búa móti föður hans. Frændsystkinin Guðrún og Búi voru mjög ólík í skapi. Búi var mjög örlyndur, en hún ákaflega stillt og ýmislegt varð því til að gera sambúð þeirra erfiða og þá einkum framan af. Þrátt fyrir að hann væri dugnaðarmaður, búnaðist honum ekki vel og þau voru jafnan mjög fátæk. Þá voru engar tryggingar og sjaldnast neina fyrirgreiðslu að hafa, fáar eða engar skemmtanir voru haldnar og lífsbaráttan fólst að miklu leyti í því að lenda ekki á sveitinni. Danskur kaupmaður Riis, var þá á Borðeyri og annaðist allan útflutning. Hann var einráður um kaupverð afurða og réði því líka hvað hann seldi kramvöru sína dýrt og hversu hátt verð sem hann bauð fyrir saltkjöt Strandamanna, þá hrökk það oftast skammt til kaupa á brýnustu nauðsynjum úr verzlun hans. Hann hafði góðar gætur á reikningum fátækari bænda og neitaði þeim alveg um úttekt frá réttum til jóla ef þeir skulduðu sem oftast var. Fyrir jólin fékkst þó alltaf eitthvað smávegis, en meiri háttar viðskipti urðu að bíða fram yfir áramót. Tíu pottar af olíu urðu t.d. eitt sinn að endast frá hausti og fram á aðventu og ekki var hægt að hafa ljós öll kvöld í lágri og kaldri baðstofunni þar sem bókin var eina afþreyingin og það eina sem slegið gat á eymdina. Guðrún átti alltaf ákaflega erfitt með að hætta lestri, en um annað var ekki að ræða því slökkva þurfti snemma til að spara ljósmetið. Börnin voru líka hrædd við myrkrið og dreymdi, að tröllskessur væru að reyna að krækja í þau í dimmum bæjargöngunum. En svo komu jólin og þá fékkst meiri úttekt hjá kaupmanninum, en það dýrðlegasta við hátíð ljóssins var einmitt að fá að sofna við ljós og vakna síðan við það aftur.

 

Kuldinn, myrkrið - og svo hann Ásgeir blessaður.

Kuldinn var jafnvel skárri en myrkrið, en á vetrum var baðstofuglugginn loðinn innan af þykku hrími. Börnin skófu það með skeið niður í vaskafat og báru út á hlað og kysstu síðan á glerið til að gera það gegnsætt. Eina hitunin var ofnrör, sem lá upp úr eldhúsinu að neðan og upp í gegnum þekjuna. Til að nýta ylinn frá líkömum hvers annars sváfu tveir elstu drengirnir í rúminu hjá ömmu sinni, maddömu Valgerði. Alls urðu börn þeirra Guðrúnar og Búa fimm, fjórir drengir og ein stúlka. Yngsti sonurinn Ásgeir, var líkamlega bráðþroska, en þroskaheftur. Hann lifði langt fram á fimmtugsaldur og móðir hans skildi hann aldrei við sig. Hún fór með hann til Reykjavíkur þegar hún var orðin ekkja eftir langan búskap og bað til guðs að hún mætti lifa hann svo hann stæði ekki uppi einn í heiminum sem hún og gerði. Enginn gladdi hana meira og betur en sá eða sú sem var góður við hann "Geira", og hana tók sárt ef menn gerðu gys að honum. Ásgeir lést í Reykjavík árið 1945.




Dóttirin Sólveig.

Einkadóttirin, Sólveig Sigríður var falleg telpa og líktist móður sinni mjög og hafði m.a. Ijóst og sítt hár. Þegar hún óx úr grasi, dafnaði hún sérlega vel og virtist ætla að verða hin gjörvulegasta, en um vorið áður en hún átti að fermast smitaðist hún af barnaveiki. Þá var snjóþungt og ill færð, en faðir hennar fór kringum Hrútafjörð og sótti lækni á Hvammstanga sem greindi sjúkdóminn og sendi eftir öðrum lækni frá Búðardal. Saman framkvæmdu þeir barkaskurð á barninu við vægast sagt slæmar aðstæður sem var þá komið að köfnun. Í fyrstu virtist aðgerðin ætla að takast og telpunni létti um nóttina, en þá bilaði hjartað. Dauði einkadótturinnar var eflaust sárasta atvikið i lífi Guðrúnar, en henni gafst lítill tími til að syrgja. Hún þurfti nú að annast læknana tvo auk annars heimilisfólk og þurfti auk þess að ferðbúa mann sinn svo að hann gæti fylgt þeim til síns heima. Hún fór því snemma á fætur um morguninn eftir lítinn eða engan svefn til að gera honum skó. Sonur hennar Hermann, sem varð stór ættfaðir í Borgarnesi en þá smásnáði, tók eftir því að tárin hrundu í sífellu niður á hendurnar á henni meðan hún gerði skóna. Þá var hann of ungur til að skilja hvað gerst hafði og spurði: "Mamma, ætlarðu alltaf að gráta svona?" En hún svaraði: "Ég veit það ekki vinur minn." Tíminn eftir missi Sólveigar varð óbærilegur og í framhaldinu dreymdi hana um nætur að hún væri komin austur að Ásum í Skaftafellssýslu og allt væri eins og í gamla daga.




Sonurinn Georg

Elsti sonur þeirra hjóna hét Georg. Hann líktist einnig mjög móður sinni og hafði fengið bókhneigð hennar og næmi í arf, auk viljaþreksins og dagfarsprýðinnar. Hann var staðráðinn í að verða verkfræðingur og lét jafnvel ekki féleysið draga úr sér kjarkinn. Frændi hans lánaði honum fyrir fæði og húsnæði einn vetur í gagnfræðaskóla, en eftir það fékkst hann bæði við kennslu og vann í síldarbræðslu. Með ýtrustu sjálfsafneitun tókst honum að ljúka fjórða og fimmta bekk menntaskólans. Næsta haust greiddi hann fyrir húsnæði og fæði fyrirfram og keypti sér bækur, en síðan urðu guð og lukkan að ráða hvort hann ætti kol í ofninn. Bróðir hans Brandur, bjó með honum um tíma og minnist þess að einu sinni gátu þeir ekki kynt í heila viku og Georg las þá með vettlinga á höndunum. Það varð því mikil gleði þegar Brandur fékk greidd vinnulaun fyrir uppskipun og kom heim með kolapoka á bakinu. Sumarið eftir fimmta bekk ætlaði Georg enn að vinna fyrir sér við síldarbræðslu, en afli brást þá og um haustið var hann gersamlega félaus. En ekki datt honum þó í hug að gefast upp, heldur las síðasta bekkinn heima, náði prófinu um vorið og fékk styrk sem í hans augum var óhemju fé.

Um haustið fór hann utan, en þrem mánuðum síðar var hann allur. Hann hafði fengið spönsku veikina og upp úr henni lungnabólgu sem í þá daga var nánast dauðadómur.

Nú átti Guðrún aðeins eftir auk Ásgeirs, tvo heilbrigða syni þá Brand (1896-1982) og Hermann (1909-2005).




Sonurinn Brandur.

Brandur ólst upp í foreldrahúsum til tólf ára aldurs. Þá flutti hann með ömmu sinni, rnaddömu Valgerði að Kollafjarðarnesi til móðurbróður síns séra Jóns Brandssonar. Séra Jón fermdi þar frænda sinn og var hann fyrsta barnið sern fermt var í þá nýbyggðri kirkju að Kollafjarðarnesi.

Vorið 1919 réðst Brandur til starfa hjá Riisverslun á Borðeyri sem þá var enn mikill verslunarstaður, en síðar hjá Kaupfélagi Hútfirðinga á sama stað

Búi faðir Brands missti heilsuna á besta aldri og dó af berklum árið 1930. Þá fór Brandur heim að Litlu-Hvalsá til að veita búi móður sinnar forstöðu og fórst honum búreksturinn vel úr hendi. En vorið 1934 bregða Brandur og móðir hans búi. Fór þá Guðrún ásamt Ásgeiri syni sfnum að Kollafjarðarnesi til Jóns bróður síns, en Brandur vann tvo vetur við ýmis störf í Reykjavík og við vegavinnu á Holtavörðuheiði á sumrum. Sagt var að starf hans hafi að mestu verið fólgið í því að mylja grjót með sleggju. Hefur hann aðspurður játt því og að hann hafi mulið allan undirburð í veginn frá Sæluhúsi og norður á Grunnavatnshæðir sem er dágóður spotti. Haustið 1936 verða þáttaskil í lífi Brands, en þá réðst hann til starfa sem verkstjóri hjá Grænmetisverslun ríkisins sem síðar varð Grænmetisverslun landbúnaðarins. Þar starfaði hann óslitið til haustsins 1964 er hann var kominn fast að sjötugu. Önnur þáttaskil urðu í l´æifi hans árið 1942, en hóf hann búskap með konu sinni Guðrúnu Halldórsdóttur.

 

Árið 1937 fluttu móðir Brands og bróðir hans Ásgeir til Reykjavíkur og hélt hún um skeið

heimili með þeim bræðrum. Brandur ólst upp í fátækt, en með þrotlausu striti og sparsemi eignaðist hann eigið húsnæði og komst í nokkur efni. M.a. átti hann um árabil hlut í veitingastofu að Laugavegi 28 og rak hana ásamt Magna Guðmundssyni hagfræðingi og fleirum. Voru þeir Magni góðir vinir og þó Brandur minntist margra góðra vina og vinnufélaga, held ég að fáa hafi hann metið meir en Magna.

Eftir að Brandur lét af störfum hjá Grænmetisversluninni 1964 kominn fast að sjötugu, hélt hann sig enn við vinnu næsta áratuginn. Fyrst starfaði hann sem húsvörður en síðan næturvörður í Arnarhváli. Og svo mikil var eljusemi hans að eftir það annaðist hann innheimtustörf fyrir ýmis fyrirtæki, eða allt þar til heilsan var þrotin.

Verklaus gat hann ekki verið því vinnan var hans líf.




Sonurinn Hermann

Eftir barnaskólagöngu Hermanns í sinni heimasveit, lá leiðin í Héraðsskólann á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu. Þá vann hann að venjulegum bústörfum, við vegagerð á Holtavörðuheiði og um tíma hjá Kaupfélaginu á Borðeyri. Eftir það stundaði hann ýmis störf í Reykjavík. Árið 1942 flutti hann í Borgarnes ásamt Hallberu konu sinni og gerðist hótelstjóri og meðeigandi í Hótel Borgarnesi. Í lok stríðsins fór Hermann til starfa hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, þar sem hann vann það sem eftir var starfsævinnar eða í rúm 40 ár. Hermann var félagslyndur maður, sat m.a. í stjórn Verslunarmannafélags Borgarness og Starfsmannafélags KB. Hann tók þátt í undirbúningi að stofnun Félags eldri borgara í Borgarnesi og var fyrsti formaður þess. Mest starfaði hann þó fyrir Ungmennafélagið Skallagrím þar sem hann var formaður um skeið, tók virkan þátt í störfum leikdeildar félagsins og lék ýmis hlutverk í leiksýningum þess. Þá hélt hann ýmsum fróðleik til haga og birtust m.a. nokkrar greinar eftir hann í Strandapóstinum. Af honum er mikill ættbogi kominn.

 

Að lokum.

Guðrún horfði til þess í harmi sínum að sumar frændkonur hennar höfðu misst meira en hún og mest af öllum Valgerður föðursystir hennar. Valgerður systir séra Brands giftist efnuðum dannebrogsmanni í Húnavatnssýslu sem síðar tapaði öllu sínu fé vegna ábyrgða sem hann gekkst í fyrir menn sem síðan stóðu ekki í skilum. Þau eignuðust fjórtán börn og misstu þau öll. Yngstur var sonurinn Jón sem varð rúmlega tvítugur. Hann var á leið heim frá Reykjavík þegar hann veiktist í Borgarnesi og fréttist ekkert af honum norður á Strandir fyrr en búið var að jarða hann þar.

Mestu synd mannlífsins ef til vill að morðum og ránum undanskildum, taldi Guðrún vera mannlast. Hún talaði aldrei illa um aðra og væri hún þar sem menn höfðu uppi bakmælgi, kom þjáningasvipur á andlit hennar sem venjulega dugði til að breytt væri um umræðuefni.

Hún lést árið 1963, áttatíu og átta ára gömul. Lengi var hún furðu ung í anda og heimsótti Skaftafellssýslur þegar hún var um sjötugt sér til mikillar ánægju. Hún hafði þá ekki komið þar í hálfa öld, en var vel fagnað af fjölmörgum vinum sem mundu eftir henni sem kornungri stúlku. Skilningur hennar og samúð með öðrum aflaði henni vina á efri árum sem voru miklu yngri en hún sjálf.

"Kæmi ég til hennar í þungu skapi, var ég jafnan sáttari við lífið þegar ég fór aftur," sagði ung stúlka sem sótti til hennar huggun í erfiðleikum sínum.

 

Guðrún Brandsdóttir fékk ekki ráðið örlögum sínum, ekki umflúið fátækt og strit, hjónabandsörðugleika, missi tveggja efnilegra barna , vanheilsu þess þriðja og allar þær brostnu vonir sem sérhver maður og kona hlýtur að bera í brjósti sér.

Aðeins einu fékk hún stjórnað, - sinni eigin lund, og hún gerði það vel.

 

Heimildir: Tíminn frá 1967 og Lesbók Morgunblaðsins frá sama ári.

18.05.2014 04:33

Gramsað í föðurgarði - fyrsti hluti

                   


933. Sagt er að þegar menn fara að grúska í ættfræði og leita uppruna síns jafnvel aftur um marga ættliði, sé það óbrigðult merki þess að aldurinn sé farinn að færast yfir. Ég vil þó miklu frekar halda því fram að það sé miklu frekar merki um aukinn þroska. En hvað sem öllu þvílíku líður, þá hélt ég af stað í einn slíkan leiðangur fyrir margt löngu en hef verið lengi á leiðinni því mörg ár eru liðin frá því að af stað var farið. Raunar má alveg eins segja að þess konar vegferð ljúki aldrei, því lengi bætast einhverjir molar við heildarmyndina þó svo að þá sé ekki alla að finna hér. Mér þótti afar merkilegt, en þó bæði skemmtilegt og sorglegt í senn, að skoða það af lífshlaupi langa, langa afa míns í beinan karllegg sem einhverjar heimildir finnast um. Sá hét Brandur Tómasson og var fæddur 3. nóvember1836, en lést 19. júlí 1891.

Sonur hans var Jón Brandsson prestur og síðar prófastur að Kollafjarðarnesi. Af honum er kominn Hjálmar Jónsson afi minn lengst af bóndi að Ásfelli á Skipaskaga, þá faðir minn Óli Jakob Hjálmarsson svæfingalæknir og síðan ég sjálfur.


Ungur prestur sem kvæntist systrum.

Séra Brandi var veitt Einholt á Mýrum daginn eftir að hann hafði lokið prófi í Prestaskólanum sumarið 1862. Þar var hann í fimm ár, en fékk þá Stað í Hrútafirði og síðan Prestsbakka einnig í Hrútafirði og þjónaði hann þá báðum brauðunum. Þegar Staður var síðan veittur sr. Páli Ólafssyni frá Mel, sótti sr. Brandur um austur að Ásum í Skaftártungu. Það kall fékk hann og hélt því til dauðadags, en þjónaði jafnframt öðrum brauðum í Skaftárþingi þegar þau voru prestslaus. Hann var stórskuldugur Staðarkirkju í Hrútafirði þegar hann kom að norðan, en innheimta þeirrar skuldar tók mörg ár og kostaði miklar bréfaskriftir og eftirleitan af hálfu yfirvalda.


                      


Séra Brandur var trúaður og góður kennari, lúfmenni hið mesta, en ákaflega drykkfelldur. Hann kvæntist fyrst Guðrúnu Jónsdóttur frá Skriðinsenni í Óspakseyrarhreppi, en þegar hún dó giftist hann systur hennar Valgerði. Hann átti sex börn með Guðrúnu og níu með Valgerði. Komust mörg þeirra upp og eru niðjar séra Brands fjölmennir í dag. Meðan hann þjónaði að Prestsbakka í Hrútafirði byggði hann þar nýja kirkju. Sá var háttur á í þá daga að bændur áttu að gjalda sinn hlut þar í, en illa gekk presti að innheimta þeirra hlut. Jukust við það skuldir hans að miklum mun en höfðu þó verið talsverðar fyrir.


Reyndi að flýja Bakkus.

Til er stutt frásögn um það þegar Brandur hafði í raun hrakist úr Hrútafirði og var á suðurleið.

"Í brattri brekku er klyfjalest á ferð. Séra Brandur Tómasson er að flytja búferlum með skyldulið sitt norðan úr Hrútafirði suður um land og austur í Skaftártungu. Hann ætlar sér að freista þess að hefja nýtt líf á nýjum slóðum þar sem hann vonast til að sér farnist betur. Eitthvað af búslóð mun hann hafa tekið með en margt varð þó að skilja eftir. Á einum hestinum ruggar sinn kláfurinn hvorum megin. Upp úr öðrum kláfnum gægist lítill drengur, en upp úr hinum lítil telpa. Þó að ferðin gangi hægt þykir börnunum hún spennandi, enda er þetta er þeirra fyrsta ferðalag. Lestin silast áfram yfir landið, það er staldrað við og fólk og hestar hvílast, en síðan er lagt aftur af stað. Þannig gengur þetta fyrir sig aftur og aftur, en sveitirnar vestan lands og sunnan líða hjá eins og furðuveraldir, bæði ólíkar hver annari og einnig afar ólíkar heimaslóðunum. Allt í einu hrasar sá hesturinn sem börnin ber, og eitt augnablik er ekki annað að sjá en hann muni hrapa fram af gilbrúninni þar sem farið er um og farþegarnir muni þá láta lífið í urðinni fyrir neðan. Móðir þeirra biður heitt til guðs. Hún er bænheyrð og kraftaverkið gerist, klárinn nær jafnvægi og heldur áfram eins og ekkert hafi í skorizt. Forsjónin ætlar nefnilega systkinunum og leikfélögunum að eiga langt líf þó að hlutskipti þeirra verði afar ólíkt. Hann varð prestur og síðar prófastur í sinni sveit, en hún varð bóndakona og lifði í mikilli fátækt og basli alla sína æfi".

 

Hefur hann eflaust vonast til að fjárhagurinn myndi að batna í hinu nýja brauði, enda yrði hann þar fjarri drykkjuvinum sínum. Ferð úr Hrútafirði í Skaftafellssýslu, yfir ótal óbrúaðar ár, var ekki smáræðis fyrirtæki kringum 1880. Presturinm og maddama Valgerður skildu tvær yngstu dætur sínar eftir hjá bróður hans, Jóni Tómassyni á Kollsá. Sömuleiðis lét prestur þar eftir skatthol sitt, sem náði frá gólfi til lofts og var hinn veglegasti gripur. En sú, sem honum var mest í mun að yrði um kyrrt í Hrútafirði þ.e. fátæktin, fylgdi honum dyggilega eftir alla hans tíð. Fyrsta búskaparárið að Ásum í Skaftártungu, féll ekki aðeins allur bústofn þeirra hjóna i harðindum, heldur reyndust nýir drykkjuvinir auðfundnir og fylltu fljótlega skarðið sem þeir gömlu skildu eftir sig.

Væri mark takandi á ritningargreininni sem segir að gjafmildum verði þúsundfalt aftur borgað, hefði séra Brandur orðið vellauðugur maður í lifanda lífi. Hann var mjög örlátur og til marks um það kom hann eitt sinni gangandi heim úr ferðalagi með hnakk sinn á bakinu. Hafði hann þá hitt einhvern sem hann taldi að þyrfti meira hesti en hann sjálfur og gaf honum sinn.


Grasið reyndist ekki grænna hinum meginn við lækinn.

Það mun hafa verið komið fram á sumar þegar sr. Brandur kom austur. Þá var prestsetrið enn í byggingu, enda hafði verið prestslaust í Tungunni á annan áratug. Það var því ekki fyrr en vorið eftir 1881, sem hann gat hafið búskap að Ásum og festi þá kaup á nýjum búsmala. Ein kýr fylgdi þó staðnum en 40 ær fékk hann á leigu og 60 keypti hann með því að borga fyrir þær 600 kr. á þremur árum með 4% rentu.

Sumarið á eftir var með eindæmum mikið grasleysissumar og heyjaðist sáralítið í Ásum. Hann varð því að kaupa meginhlutann af fóðrunum og var allan veturinn gangandi því ekki gat hann haft reiðhestinn heima. Kúnni varð hann að koma fyrir og sá varð endirinn að prestur missti meginhlutann af fénu og líka talsvert af því sem á fóðrum var. Og nú rak hvert hallærisárið annað fram eftir áratugnum. Vetrarharðindi og vorkuldar, grasleysi og óþurrkar, basl og bágindi. Ómegðin var mikil en bústofninn enginn. Skuldheimtumenn gerðu síðan kröfur í litlar embættistekjur og kaupstaðarferðir voru ekki hollar efnahag þeirra, sem reyndu að gleyma erfiðleikum lífsins yfir staupi i Bakkabúð. Það var ein af ástæðum þess að efnahagur sr. Brands rétti aldrei við eins og vonir höfðu staðið til. Vínhneigðin var honum lítt viðráðanleg ástríða, þótt hann rækti enibætti sitt af einstökum dugnaði og frábærum vaskleika.

Þessi löstur hans hefur eflaust verið ástæða þess að bindindismálum var hreyft á fyrsta héraðsfundinum sem hann sat í Vestur-Skaftafellsprófastsdæmi. Báru þeir sr. Oddgeir á Felli og sr. Hannes á Mýrum fram þá uppástungu að prestar í prófastsdæminu og sóknarnefndarmenn yrðu forgöngumenn að því að koma í veg fyrir óhóflega nautn áfengra drykkja. "Þessa uppástungu samþykkti fundurinn, en að skuldbinda nokkurrn til að ganga í almennt bindindi var fundurinn hins vegar alfarið mótfallinn.

En þessi fundarsamþykkt kom sr. Brandi að litlu haldi í baráttunni við Bakkus. Dugðu einnig lítt vinsamlegar aðvaranir sóknarnefnda og föðurlegar áminningar biskups. En upp úr öllu þessu að því er virðist vonlausa stríði við ölhneigðina, gnæfir þó persóna sr. Brands.


"Hann var góðmennið sem í fátækt sinni gaf sóknarbörnum sínum eftir lögboðin gjöld, klerkurinn sem prédikaði af andríki og krafti, af hug og hjarta hinnar stórgáfuðu, breysku trúarhetju", segir Stefán í Litla-Hvammi í endurminningum sínum.

Hann minnist fermingarföður síns af mikilli hrifningu og getur þess að hann hafi kynnst mörgum prestum á lífsleiðinni, en enginn þeirra komist nálægt sr. Brandi að mannkostum. Svo mikil hafi skyldurækni hans og ábyrgðartilfinningin verið, að þrátt fyrir dykkjuástríðuna vissi enginn til þess, að hann svo mikið sem dreypti á víni áður en hann gekk að prestverkum, hvort sem það var messugerð, eða það var skírn eða hjónavigsla sem átti að fara fram.


Síra Brandur Tómasson var prestur í Ásum á árabilinu 1880-1891, en auk þess þjónustaði hann önnur brauð í Vestur-Skaftatfellsprófastsdæmis sem hér segir:

í Meðallandi árin 1881-1884

í Álftaveri - 1881-1888

í Mýrdal -- 1885-1886

í Meðallandi - 1885-1888.

Á þessum árum voru tvær kirkjur í Skaftártungu og fjórar í Mýrdalnum. Munu ekki aðrir prestar hafa haft erfiðari prestsþjónustu hér á landi en sr. Brandur hafði þau misseri sem hann þjónaði beggja vegna Mýrdalssands. Til að sýna hvernig þessi þjónusta var rækt, skal hér birt skrá yfir messur sr. Brands, frá trínitatis til aðventu 1885 og á útmánuðum 1886.




Hvað skuldar Brandur prestur hér?

Skaftfellingar virðast hafa fyrirgefið honum breyskleikann og það margsinnis. Eitt sinn sem oftar var hann staddur á Eyrarbakka sem var næsti kaupstaður við Ása, en fékk enga úttekt því reikningur hans í versluninni stóð mun verr en kaupmanni líkaði. Sóknarbörn hans þau er nærstödd voru vildu liðsimna sálusorgara sínum og sá sem var í forsvari fyrir hópnum gekk inn í búðina og mælti stundarhátt: "Hvað skuldar Brandur prestur hér?" Kaupmaður nefndi töluna, en bændur höfðu gert samtök um að greiða upp skuldina svo prestur fengi úttekt eins og aðrir.

(Þannig kunna niðjar Brands söguna, en aðrir vilja láta hama gerast í Reykjavik og Daníel mágur hans á þá að hafa greitt skuldina).


Loforðið efnt.

Meðan sr. Brandur var enn í prestaskólanum í Reykjavík var það eitt sumar að hann var í kaupavinnu, að æskuvinur hans sem var bóndasonur að norðan bað hann um að jarða sig ef hann lifði hann. Brandur var skiljanlega ekki viss um hvort hann mundi lifa hann en játti þó bón vinar síns. Alllöngu síðar voru Brandi sem hafði þá tekið prestavígslu, veittir Ásar í Skaftártungu. Skrifaðist hann eftir það lengi á við vin sinn sem var orðinn stórbóndi fyrir norðan. En árin liðu og smátt og smátt dró úr bréfaskriftunum uns þau lögðust af. Þá var það vor eitt að beinagrind af karlmanni rak á fjöru Þykkvabæjarklausturs. Var beinagrindin óþekkjanleg, en við hana hékk ísaumað vaðmálsbelti með nafni mannsins sem enginn þar um slóðir kannaðist við. Um þetta leyti þjónaði séra Brandur Þykkvabæjarprestakalli ásamt Ásum og var honum tilkynnt um beinagrindina og fært beltið. Brá honum mjög þegar hann sá þar nafn æskuvinar síns. Um svipað leyti hafði hann frétt að hann hefði drukknað um veturinn og líkið ekki fundist. Jarðaði séra Brandur þá æskuvin sinn eins og hann hafði lofað.


Og hann bað fyrir guðshúsinu, söfnuðinum, Jóni og sjálfum sér.

Það rættist og sem spáð hafði verið að Meðallendingum héldist illa á prestum sínum þegar það gerðist að verið var að flytja prédikunarstóllinn sem tilheyrði kirkjunni í Langholti, en hann valt af hestinum og ofan í Skarðsá. Voru prestar þar jafnan stutt eftir það og oft prestlaust. Var þá brauðinu þjónað af nágrannaprestum og einn þeirra var sr. Brandur Tómasson í Ásum.

Jón nokkur Sverrisson sagði svo frá að þegar hann var um fermingu, þjónaði sr. Brandur í Langholtssókn. Hann sagði prest hafa verið góðan mann með lítil efni en stórt hjarta, tilþrifamikinn og skörulegan. Jón minnist þess að eitt sinn þegar Brandur kom í húsvitjun, stóð hann um stund úti fyrir bænum og kallaði síðan: "Hann síra Brandur vill koma inn". Var þá skjótt til dyra gengið og prestur leiddur í bæinn. Jón var þá að læra kverið og kominn að 6. kaflanum sem var bæði langur og tornuminn og kvörtuðu foreldrar hans yfir því við prest hve illa lærdómurinn gengi. En prestur svaraði: "Verið þið alveg róleg. Þið skuluð ekki hafa ábyggjur af þessum dreng. Hann Jón litli spjarar sig".

Eitt dimmt haustkvöld kom sr. Brandur að Grímsstöðum, þar sem foreldrar Jóns bjuggu þá. Hann var að koma frá því að skíra barn og bað um fylgd að Fjósakoti því þar ætlaði hann að gista. Fór Jón með honum, en prestur bað Jón segja sér þegar þeir væru komnir móts við kirkjuna sem Jón gerði. Fór þá sr. Brandur af baki, tók ofan hattinn og bað heitt og innilega fyrir guðshúsinu, söfnuðinum, Jóni og sjálfum sér.


Samskiptin við Mýrdælinga.

Um nokkurn tíma þjónaði séra Brandur Mýrdalsþingum auk síns eiginlega prestakalls. Mýrdælingar tóku honum illa því þeir vildu fá sinn eigin prest eins og áður hafði verið. Fyrsta sunnudag sem hann messaði þar mætti enginn til kirkju. Séra Brandur tók því með mestu ró, labbaði sér niður að Hvoli til hreppstjórans sem hann vissi harðastan í andstöðunni gegn sér og beiddist gistingar. Hún fékkst, en ekki var mikið haft við gestinn. Honum var vísað til svefns hjá börnunum, en hann tók því vel og sagði þeim sögur og ævintýri fram eftir kvöldinu. Morguninn eftir kvaddi prestur og þakkaði mikið fyrir sig en fór ekki langt, því hann gisti næstu nótt á bæ þar örkammt frá. Þannig fór hann um dalinn alla næstu vikuna, en talaði alls staðar mest við bömin. Næsta sunnudag messaði hann aftur í Mýrdal, en nú brá svo við að kirkjan var troðfull. Þurfti hann ekki að kvarta undan lélegri kirkjusókn Mýrdælinga eftir það.


Brandur var einlægur trúmaður og muna hafa verið margar sögur sagðar af trú hans þó flestar séu þær nú glataðar. Einhverju sinni hvessti mjög meðan Skaftfellingar voru á sjó og komust bátarnir ekki í land því að ógurlegir brimskaflar risu ógnarhátt við sendna ströndina. Uppi á sjávarkambinum stóð fjöldi fólks og horfði á hvernig eiginmenn og synir reyndu að brjótast til lands þegar séra Brand bar þarna að. Þegar hann sá hve tvísýnt var með lendingu og að bátamir bjuggust til að snúa frá, bað hann alla viðstadda að krjúpa á kné og biðja með sér. Heit og innileig bænin steig upp frá litla hópnum á hinni kaldranalegu og eyðilegu strönd og kannski hefur hún komist í gegnum dimm óveðursskýin, því að skyndilega sló á báruna, skipin renndu upp á sandinn og engan sakaði.


En ölvaður sté Brandur aldrei í stólinn.

Allir, sem þekkja til staðhátta austur þar, vita hvert þrekvirki það hefur verið að rækja prestsþjónustu í Skaftárþingi á þessum tíma með þeim hætti sem sr. Brandur mun hafa gert. Eitt dæmi um það hve mikinn vaskleik prestur sýndi í starfi sínu, nefnir sr. Þórhallur Bjarnarson í Kirkjublaði sínu er hann minntist hans. Maður í Ásasókn bað prest að jarða fyrir sig á laugardegi, en messa var boðuð daginn eftir á Sólheimum. Sr. Brandur brást vel við beiðni mannsins, jarðsöng, skírði síðan barn á leiðinni og lagði eftir það á Mýrdalssand í náttmyrkri og vonskuveðri. Náði hann að Sólheimum til messugerðar í tæka tíð, en þetta var á þorranum. Talið var að beiðnin um jarðsetninguna hafi verið gerð af glettni við prest til að gera honum erfiðara með að rækja þjónustuna í Mýrdalnum. En hvað sem um það er að segja, kunnu sóknarbörn sr. Brands vel að meta kosti hans og báru til hans óblandna hlýju sakir hjartagæsku og ljúfmennsku. Og svo mikið er víst að hjálpsamir reyndust þeir honum og freistuðu að rétta við hag hans þótt lítt stoðaði.

 

Aðeins einu sinni mun hafa orðið messufall hjá séra Brandi sem herma má upp á hann. Var það daginn eftir að hann hélt brúðkaup Hallfríðar dóttur sinnar og Magnúsar Sigurðssonar, sem var þá vinnumaður í Ásum. Þau voru foreldrar Guðbrands Magnússonar sem lengi var forstjóri Áfengisverslunarinnar. Sjálfsagt hefur hinn fátæka og vínhneigða Ásaklerk síst af öllu órað fyrir því að dóttursonur hans yrði í fyllingu tímans eins konar æðsta ráð yfir öllu áfengi á Íslandi, en umræddan dag mun séra Brandur enn hafa verið all nokkuð ölvaður eftir veisluna og því ófær um að sinna prestverkum.

Ölvaður steig séra Brandur nefnilega aldrei í stólinn, enda hefði hann tæpast getað það, því vín gerði honum afar erfitt um mál.



Önnur silfurskeiðanna af uppboðinu sem eru í eigu afkomendanna.


Leiðarlok.

Síra Brandur Tómasson varð ekki gamall maður. Hann andaðist 54 ára á miðju sumri 1891. Það var á sunnudegi og þá hafði messa verið boðuð í Ásum sem varð eigi af, en fjöldi manns var þó þegar mættur til messunnar þegar andlátið bar að. Í kjölfarið var bú hans boðið upp til greiðslu skulda hans sem aldrei höfðu sagt skilið við hann í lifanda lífi og eftir það uppboð átti maddama Valgerður ekkert eftir nema fötin sin og börnin ef frá eru taldar tvær silfurskeiðar, skreyttar fögru hörpudiskamunstri. Skeiðarnar voru upphaflega tólf, og voru boðnar tvær krónur í þær allar. Sá sem bauð gaf ekkjunni kost á að kaupa þær aftur á sama verði, en hún sá sér ekki fært að taka nema tvær þeirra og eru þær enn í eigu niðja hennar. Hún átti nú ekki annan kost en ferðast aftur yfir fjöll og heiðar heim í Hrútafjörð Tvö stjúpbörn hennar ílentust í Skaftafellssýslu, en fjögur fóru með henni. Þau Guðrún og Jón, sem verið höfðu í kláfunum fáeinum árum áður, svo og tvö yngri sem höfðu fæðst að Ásum.


Heimildir: Tíminn frá 1967, Lesbók Morgunblaðsins frá 1967, sr. Sigurður Ægisson og Sigurður Hjálmarsson föðurbróðir minn.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 359
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 99
Samtals flettingar: 470702
Samtals gestir: 51775
Tölur uppfærðar: 12.11.2024 16:12:47
clockhere

Tenglar

Eldra efni