03.02.2011 04:16

Ingimar "trommari" Þorláksson

                   

693. Ein af skemmtilegri hljómsveitum sem hafa verið "fundnar upp" á Siglufirði eru HELDRI MENN, sem rímar auðvitað ágætlega á móti eldri menn. Hér fyrir ofan er líklega einn af elstu trommurum landsins, ekki nema 83 ára gamall. Söngvarinn Svenni Björns sem hefur munninn yfirleitt fyrir neðan nefið, kynnti hann sem Ingimar Ringo Þorláksson. Og fyrir þá sem ekki vita þá er Snorri "Idol" bróðursonur Ingimars.
-
Þegar ég var að gramsa í gömlu "dóti" eins og ég geri oft, rakst á þessa skemmtilegu mynd af honum Ingimar Láka við trommusettið á Síldarævintýrinu 2007 ásamt meðfylgjandi texta.
Ekki get ég stært mig af myndgæðunum, því ég hef greinilega verið eitthvað ókyrr rétt á meðan myndatakan fór fram.
Ingimar lést þ. 13. jan. sl. á Siglufirði 86 ára að aldri, - blessuð sé minning hans.

01.02.2011 07:49

Kominn aftur



692. Ég var meira en lítið hissa og auðvitað líka hinn kátasti þegar ég sá að enn eru um og yfir hundrað manns að kíkja inn á síðuna mína dag hvern, þrátt fyrir að ég hafi verið fjarverandi góðan hálfan mánuð og ekki sett svo mikið sem einn einasta stafkrók hérna inn. Þegar ég fór norður á Siglufjörð að morgni hins 14.jan. leit út fyrir að einhverjar bilanir á 123.is gerðu það að verkum að mér tókst ekki að koma inn svolítilli klausu þar sem greint frá því að sá sem á myndinni sést á spjalli við óþekktann og afar dularfullan mann, hyggðist bregða sér af bæ um nokkurn tíma. Nú liggur hins vegar fyrir að ekkert er að hjá 123.is, heldur eru það einhver leiðindi í tölvunni mín megin sem orsökuðu vandamálið og gera það reyndar enn, en þá kemur sér vel að það skuli vera til fleiri slík "apparöt" á heimilinu.



Erindið var eins og svo oft á undanförnum mánuðum, þ.e. að fara á heimaslóðir og vinna að endurbótum á húseigninni að Suðurgötu 46. Það er líklega eins gott að fara að spýta í lófana því afhending á seinni íbúðinni í því húsi á að fara fram þ. 1. apríl nk. Það þýðir að það verður tæplega stoppað lengur en nauðsyn krefur á suðvesturhorninu, en þó stendur til að gefa sér tíma til að spila á eins og einu þorrablóti þ. 5. febr.

14.01.2011 04:07

Vitlaust veður í Hafnarfirði - blíða í Reykjavík



691. Það var undrlegt veðurfarið
á suðvesturhorninu í gær. Ég hafði áformað að leggja af stað til Siglufjarðar seinni partinn, því veðurspáin gaf til kynna að veðrið lægði þá í nokkra klukkutíma en versnaði síðan aftur um miðnættið. Ég sat við tölvu framan eftir deginum og hafði meira en nóg að gera við bókhald og margt fleira misjafnlega skemmtilegt, en þegar leið að fyrirhuguðum brottfarartíma fannst mér ekki vitlausari hugmynd en hver önnur að líta aðeins til veðurs. Ég var bæði orðinn stirður eftir langa setu og voru auðvitað einnig þessar praktíski ástæður eðli málsins samkvæmt. Mér dauðbrá þegar ég svipti gardínunum frá og starði steinhissa á glerið í glugganum. Hafði það verið málað hvítt utanfrá eða var "útsýnið" sem var nákvæmlega ekkert, ein af þessum skrýtnu afleiðingum hnattrænnar hlýnunar sem kemur stundum fram með hinum undarlegasta hætti á hinum ólíklegustu stöðum jarðarkringlunnar nú orðið. Það hafði myndast þykkur snjófleki utan á allar rúður hússins austanmegin og það á svo skömmum tíma að undrum sætti. Ég settist aftur við tölvuna og skoðaði spána vrá Veðurstofu Íslands, en á mínu svæði var enga breytingu að sjá. Lítils háttar snjókoma og eitthvað í kring um 10 metrar á sekúndu. Það sem ég sá passaði reyndar alls ekki við það, en ég þurfti hvað sem öllu leið að skreppa til Reykjavíkur sem ég og gerði.

 

Reykjavíkurtúrinn varð vægast sagt undarlegur bíltúr svo ekki sé meira sagt. Þegar ég beygði hjá Kaplakrika inn á Reykjanesbrautina (heitir vegurinn annars það ekki?) fann ég strax að þar var veruleg hálka.  Skömmu síðar sá ég fyrstu árekstrana og einnig bílana sem húktu blautir og yfirgefnir í köntunum. Skyggni var slæmt og meðalhraði þeirra sem voru á ferðinni vart mikið yfir 50 km. Eitthvað rofaði þó til þegar fór að styttast í Kópavoginn og þegar Smáralindin var að baki, sást ekki eitt einasta snjókorn á jörðu og vegir voru þurrir.

 

Ég sinnti erindi mínu í Reykjavík og snéri til baka, fullviss um að élið hefði siglt sína leið og væri núna komið eitthvert langt út á ballarhaf. Það var nú öðru nær því sagan endurtók sig, nema að núna gerðust hlutirnir í öfugri röð miðað við það sem áður var.  Ég keyrði úr þurrviðrinu og inn í hraglandann sem þéttist jafnt og þétt eftir því sem ég nálgaðist Hafnarfjörðinn. Ég varð vitni að fjögurra bíla árekstri gegnt Ikea og bílunum í vegköntunum hafði fjölgað frá því skömmu áður. Þegar ég kom að ljósunum við Fjarðarhraun, sá ég að snjómoksturstæki voru farin að moka götur. Þetta var alveg ótrúlegt og svona skörp veðraskil hef ég aldrei séð áður. Þegar ég kom heim frétti ég af 10 bíla árekstri sem hafði orðið á mótum Selvogsgötu og Suðurgötu meðan ég "skrapp í bæinn."

12.01.2011 02:22

Hljómplata og fleira gott stöff



690. Hljómplata
er stór, hringlaga plata
sem inniheldur lög sem spilast ef hún er sett á
plötuspilara. Þá er nál tyllt á plötuna og snúist húnt, þá spilast eitthvert lagið. Plötur voru mjög algengar á 20 öldinni. Platan var fundin upp um miðbik 19. aldar og var notuð í meira en hundrað ár á eftir þangað til að kassettan kom til sögunnar.
Ég datt um þetta óborganlega gullkorn á Wikipedia og bara verð að koma boðskapnum áfram svo fleiri megi njóta...

Og ég rakst líka á mjög kunnuglegt lag á youtube sem er bæði samið og sungið af Siglfirskum rafvirkja sem er alltaf í stuði...
Slóðin þangað er: http://www.youtube.com/user/icecream3036

09.01.2011 08:51

Of feitur fyrir Stones - of dökk fyrir mig



689. Á dögunum rak ég augun í undarlega frétt
á RUV sem minnti mig óþyrmilega mikið á gamalt tilsvar manns sem ég þekkti eitt sinn, en er núna hættur að þekkja. Það sem er sameiginlegt með báðum tilfellum, er að kröfur um útlit fólks eru hærra og meira metnar en innræti þess og/eða hæfileikar.
Hjá Stónsurunum virðist gamla sagun um hana Evu sem faldi skítugu börnin sín ganga í endurnýjun lífdaga í svolítið uppfærðri mynd. Þeir Keith Richards og Mick Jagger sýna sem vantar aðeins tvö ár í sjötugt, virðast vera með smá móra yfir gömlum ímyndarvanda og síðbúnum gelgjutöktum fortíðarinnar. Bill Wyman sem er reyndar orðinn 73 ára virðist einnig finna til svipaðra  kennda, því hann ætlar að spila með félögunum sem hann yfirgaf fyrir hartnær tveimur áratugum sem er þvert á fyrri yfirlýsingar. Fyrirsögnin fréttarinnar var "Bill Wyman til liðs við Stones" og ég varð auðvitað forvitinn um leið, en síðan kom áframhaldið: "Breski bassagítarleikarinn Bill Wyman hyggst taka höndum saman við gamla félaga sína í The Rolling Stones og hljóðrita lag í minningu eins af stofnendum hljómsveitarinnar, Ians Stewarts píanóleikara. Lagið sem varð fyrir valinu er "Watching The River Flow" eftir Bob Dylan.

Frá þessu er greint á vef breska músíktímaritsins NME. Það verður gefið út síðar á árinu á minningaplötunni Boogie For Stu. Bill Wyman sagði skilið við The Rolling Stones árið 1992. Þá hafði hljómsveitin starfað saman í þrjá áratugi. Ian Stewart fékk hjartaáfall og lést árið 1985. Hann var alla tíð viðloðandi The Rolling Stones, lék á hljómplötum hennar og sinnti ýmsum verkefnum, þótt hann teldist ekki til fullgildra liðsmanna nema í blábyrjuninni. Hann var látinn hætta á sínum tíma vegna þess að hann þótti full gildvaxinn."


 

Einn af vinnufélögum mínum frá liðinni tíð (sem er með óvenju hátt og gáfulegt enni) var nýlega fráskilinn fyrir u.þ.b. 20 árum og fór eins og svo margir þjáningarbræður hans í "kynlífsferð" til Thailands. Hann sem hafði átt mjög erfitt uppdráttar á hinum íslenska kjötmarkaði eftirskilnaðaráranna, var mjög upprifinn af hinum óendanlegu og óþrjótandi tækifærum í þessu fjarlæga landi.

"Þær þyrptust að mér eins og flugur" sagði hann skömmu eftir heimkomuna og átti þá
auðvitað við nýtilkomna kvenhylli sína.

"Og að hverju þyrpast svo flugur yfirleitt" spurði ég hann á móti og hugsaði um gamalt máltæki þar sem flugur koma einmitt við sögu. Ég fékk auðvitað ekkert svar við þessu óæskilega innskoti, en augnaráð félagans eitt og sér hefði sennilega getað kæst skötu á mettíma. Hann fór skömmu síðar aðra ferð til hins fjarlæga lands þar sem hinir fúlustu karlfauskar virtust umbreytast í eðalsjarmöra. Þegar hann kom svo aftur var hann ekki einsamall því með honum kom lítil og grannvaxin mannvera sem hann kynnti sem væntanlegt konuefni sitt. Fljótlega kom þó í ljós að hún var hinn mesti vandræða og gallagripur. Þegar einhver spurði hann einhverju sinni hvort hann hefði ekki getað fundið eitthvað skárra í öllu mannhafinu þarna úti kom svarið sem aldrei gleymist.

"Það var önnur þarna sem var miklu betri og skemmtilegri en mér fannst hún aðeins of dökk."

06.01.2011 07:37

Þrettándinn er í dag

688. Þrettándi dagur jóla eða "Þrettándinn" er í dag. Á öldum áður var hann talinn fæðingadagur Jesú og voru jólin því eftir áramót, en það mun hafa breyst á 17. öld hér uppi á Íslandi sem og víða annars staðar. Í einhverjum löndum austur-Evrópu svo og í Rússlandi eru jólin þó ennþá eftir áramót, eða á því svæði þar sem Rétttrúarkirkjan er ráðandi afl í kristnu samfélagi. Þjóðtrúin sagði líka að kýrnar töluðu mannamál á Þrettándanum en fleiri tala þó um nýjársnótt. Þá átti líka að vera búið að ljúka við allan jólamatinn, húsfreyjan gengur um bæinn þar sem ljós logr í hverju horni og hefur yfir eftirfarandi þulubrot:

Komi þeir sem koma vilja,

veri þeir sem vera vilja,

fari þeir sem fara vilja,

mér og mínum að meinalausu.

Þessar línur eru tengdar sérstökum fardögum álfa og huldufólks sem einnig eru ýmist sagðir vera á nýjásrnótt eða þrettándanum. Á okkar tímum er kveikt í brennum, álfakóngar og drottningar ásamt púkum og alls kyns furðuverur og vættir fara á stjá og svo er síðasti dagur í flugeldasölu. Á þrettándanum fer Kertasníkir, síðastur jólasveinanna aftur til sins heima. Jóhannes úr Kötlum hafði eftirfarandi um þá sveina að segja:

Svo tíndust þeir í burtu,
það tók þá frost og snjór.
Á Þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór. 

 

Ég gúgglaði nokkra álfa upp á skjáinn hjá mér og miðað við útlit þeirra er ekkert skrýtið þó einhverjir smaladrengir á sauðskinnsskóm vildu gjarnan ganga álfastelpum á hönd og yfirgefa mannheima. Alla vega miðað við hvernig íslenskum kotbúskap á öldum áður hefur oftlega verið lýst. Til stuðnings þeirri skoðun minni tel ég rétt og skylt að leggja fram eftirfarandi "gögn" sem sjá má hér að neðan.



03.01.2011 05:55

Skotið á Siglufjörð



687. Ég fékk nýverið senda ábendingu
á frétt sem birtist á Eyjunni og hafði alveg farið fram hjá mér. Hún var grundvölluð á ummælum Guðmundar Ragnarssonar sem er formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna og sagður LÍÚ maður inn að beini.  Eftir að hafa farið í gegn um hana og umræðuna sem fylgdi í kjölfarið svo og öll kommentin, er nokkuð ljóst að enn eru einhverjir kuklarar sem fylgjast illa með tímanum eru enn að rembast við að magna upp gamla drauga. Umræðan um Héðinsfjarðargöngin lifir enn og nokkur Nátttröll agnúast út í það sem orðið er og verður ekki breytt (til allrar hamningju).

Ég verð alltaf svolítið full þegar ég sé minn gamla heimabæ talaðan niður og gildir þá einu þó sýnt sé að þar séu ekki endilega einhverjir gáfumenn á ferð. Ég finn þá jafnframt hjá mér ríka hvöt til að velta mér upp úr einhverju ruglinu í "Reykjavíkurpakkinu," en þar er auðvitað af nægu að taka.


Gallað glerburðarvirki rifið niður af suðurvegg tónlistarhússins. Kostnaður gæti numið mörg hundruðum milljóna, en heildarkostnaður glerhjípsins er 3,2 milljarðar skv. áætlun.

Þarna er auðvitað hvergi minnst á að afskriftir aðeins vegna Tónlistarhússins Hörpu í Reykjavík eru orðnar 10 milljarðar og áætlun gerir ráð fyrir að tilbúið kosti það 27.5 milljarða. Einnig að sterk rök hafa veið færð fyrir því að styrkir þyrftu að nema 0.8 - 1 milljarður á ári næstu 35 árin til að hægt verið að reka það.


Sagt er að fjármálaráðherra hafi fengið ástralska sjónvarpsfréttamenn í heimsókn. Þeir höfðu gagngert komið til Íslands til að sannreyna það sem heimurinn héldi að  Íslendingar væru ekki með réttu ráði í fjármálum. Þeir voru nú komnir og vildu ræða við hann um hrunið og kreppuna og m.a. þetta merkilega séríslenska framtaksfyrirbrigði að byggja í miðri kreppu, rándýrt tónlistarskrauthýsi. Kreppufríir sögðust þeir sjálfir hafa átt fullt í fangi með sitt í Sidney. Eftir viðtalið vildu sjónvarpsmenn fá mynd af ráðherra með Hörpu í baksýn en hann mun hafa þvertekið fyrir það.

Skv. heimildum sem ættaðar eru frá Seðlabankanum eru uppsafnaðar afskriftir banka og sparisjóða vegna gjaldþrota fyrirtækja frá 1.1.2009 eftirfarandi:

Gjaldþrota félög                                                        160 milljarðar

Félög yfirtekin af bönkum og sparisjóðum             71 milljarður

Rekstrarfélög í óbreyttu eignarhaldi                        41 milljarður

Samtals                                                                       272 milljarðar

Þar fyrir utan hafa bankar og sparisjóðir afskrifað 112 milljarða vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar hjá fyrirtækjum sem starfa síðan áfram. Við nánari skoðun kom svo auðvitað í ljós eins og vænta mátti, að nánast allar þessar afskriftir eru hjá félögum og fyrirtækjum sem hafa heimili og varnarþing í Reykjavík.

Hvað skyldi svo þetta suðvesturhornsævintýri kosta hvern landsbyggðarmann sem stóð hjá og tók ekki þátt í dansinum kring um gullkálfinn?


 

"Ummæli Guðmundar Ragnarssonar, formanns Félags vélstjóra og málmtæknimanna, við Eyjuna í vikunni vöktu athygli og umtal. Guðmundur sagði m.a. að "fjölmargar byggðir [væru] og hafa verið dauðadæmdar lengi". Tiltók hann tvær byggðir sérstaklega, Bolungarvík og Siglufjörð, þar sem hann sagði stöðnun ríkja í útgerð á sama tíma og að ríkið henti tugmilljörðum króna í í göng og sjóflóðavarnargarða."

 

Af því tilefni skoðaði Eyjan töluleg gögn um byggðaþróun á Siglufirði og tekur að því að mér virðist í flestum atriðum umdir orð Guðmundar. Þar mátti finna eftirfarandi fróðleiksmola:

 

"Hvanneyrarhreppur við Siglufjörð fékk verslunarréttindi 1818. Þá voru skráðir þar 161 íbúar, þar af 6 í kaupstaðnum. Öld síðar, 1918, fékk hreppurinn kaupstaðarréttindi og hét eftir það Siglufjarðarkaupstaður. Á síldarárunum var Siglufjörður fimmti stærsti kaupstaður landsins með 3100 íbúa. Auk þess var mikið um farandverkafólk sem stundaði vinnu í bænum. Síðan þá hefur íbúum stöðugt fækkað. Siglufjörður sameinaðist Ólafsfirði í júní 2006 undir nafninu Fjallabyggð.


Frá árinu 1998 hefur íbúum fækkað úr 1633 í 1214 (í janúar). Það er fjórðungsfækkun. Ef samsvarandi fækkun hefði orðið í höfuðborginni frá 1998 jafngildir það tæplega 27.000 manns.

Fækkun hefur verið í bænum öll ár frá 2000, að undanskildu 2006 þegar fjölgaði um 7. Séu þær tölur skoðar með tillti til kyns sést að konum fækkar sífellt, nema á síðasta ári þegar þeim fjölgaði um 7. Fjölgunin 2006 skýrist af 26 aðfluttum karlmönnum sem vega upp brottfluttning 21 konu.


Á seinasta ári voru kaupsamningar í Fjallabyggð 30. Heildarvelta þeirra var rúmlega 253 milljónir. 2008 voru kaupsamningar 45 og ári áður 69.  Gögn frá Fasteignamati ríkisins sýna að íbúðum á Siglufirði fækkaði úr 661 í 649 árið 2005.

Meðal fermetraverð á Siglufirði árið 2008 var 66.916 kr. Til grundvallar þeirri tölu liggja 13 kaupsamningar. Á sama tíma var meðalfermetraverð á Akureyri  164.642 kr. (169 kaupsamningar) og 50.309 á Ólafsfirði (6 kaupsamningar).


Á fiskveiðiárinu 1991-1992 var úthlutuðu aflamarki (kvóta) skipa með heimahöfn á Siglufirði 8.453.077 þorskígildistonn. Á þeim tíma var það 1,8% úthlutaðs kvóta í landinu. Á seinasta fiskveiðiári, 2009 - 2010, var hlutfallið komið í 1,3% og heildartalan 3.756.770 þorskígildistonn. Það er rúmlega 55% minnkun.

Árið 1996 komu 124.758 tonn af loðnu að landi á Siglufirði. Tæplega áratug síðar árið 2005 var sú tala komin í 29.721 tonn. Þorskafli á sama tíma hefur aukist, úr 3412  tonnum í 7050. Rækjuvinnsla fór fram úr þorskvinnslu  á tíunda áratug seinustu aldar. 1996 voru unnin 9.499 tonn af rækju á Siglufirði. Óhætt er að segja að algjört hrun hafi verið í þeirri vinnslu, því 2005 voru einungis unnin 677 tonn."

 

Og kommentin sem mörg virðast vera skrifuð í tilfinningahita augnabliksins eru eins og við má búast, misjafnlega vel ígrunduð og ekki í eina áttina. Kíkjum á svolítið sýnishorn.

 

Gulli 30.12 2010 12:59
Héðinsfjarðargöngin voru pólitík af viðbjóðslegustu gerð.
Það hefði verið ódýrara kaupa og "henda" Siglufirði.

 

SkallaÖrn 30.12 2010 12:30

Ef Siglfirðingum og Ólafsvíkingum hefði verið boðið að ráðstafa að eigin vild 12 milljörðum - Ca. 22..5 MILLJÓNIR Á HVERJA 4 MANNA FJÖLSKYLDU - Hversu margir hefðu valið að nota peninginn í Héðinsfjarðargöng ? Er einhver að halda því fram að íbúar sjálfir hefðu ekki getað fundið betri not fyrir peninginn ef þeir hefðu staðið frammi fyrir slíkir ákvörðun. Sumir hefðu vafalaust notað tækifærið og flutt burt. Aðrir hefðu viljað styrkja atvinnusköpun á Siglufirði og Ólafsfirði með öðrum hætti. Fólki heima í héraði stóð aldrei til boða að taka vitræna ákvörðun um þessi mál eftir upplýsta umræðu í eigin hópi.

 

Halldór 30.12 2010 12:36

Byggðirnar um landið hagræða í sjávarútvegi en hvar ætli nánast öll opinber störf í sjávarútvegi séu staðsett? Fiskistofa, Hafró, Matís o.sfrv. ha??
Auðvitað í hinni ríkisstyrktu Reykjavík....þar sem púkinn fitnar á fjósbitanum.

 

seifur 30.12 2010 12:52

Kaffihúsa snobbhænur úr 101 ættu ekki að kommenta um svona málefni því þau bara skilja þetta ekki.

 

Pétur Eiríksson 30.12 2010 12:58

Það hefur enginn rétt á að kveða upp dauðadóm yfir byggðum, hverfum fyrirtækjum eða atvinnugreinum.

 

Bjarni Kjartansson 30.12 2010 15:22

Ómar Kristjánsson telur, að þarna kjósi allir Framsókn eða Íhaldið. ÞAð var Krati sem kom þessari fyrru á koppinn, hann varð svo Samgönguráðherra og fékk að klippa á spottann.
Göngin hafa nú þegar kostað yfir 14 milljarða, svo að það vantar TVÖÞÚSUNDMILLJÓNIR inn í dæmið hjá ,,Skalla erni".
Svo var einnig verið að lengja flugbraut á Ak. svo að ,,bæta mætti varaflugvöll" fyrir millilandaflugið.
Samkvæmt skoðun á NOTAM og fl uppsláttaritum alþjóða flugmálastofnana er hann ekki enn kominn með þá áritun. Semsagt ekki hægt að logga á hann sem varavöll Egilstaðir eru enn á kortinu, enda nota erlendir flugmenn AK mjög lítið og lenda þar ekki nema í einsýnu. Þar fór hellingur af pening líka.

 

Níels A. Ársælsson 30.12 2010 15:54

Bjarni minn gamli vinur.
Kristján Möller tilheyrir íhaldinu, svo ? Hann er ekki krati frekar en þú ert Framsóknarmaður.

 

runar 30.12 2010 16:16

Níels Adolf Ársælsson á Tálknafirði, útgerðarmaður og skipstjóri Bjarma BA, var í dag dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða til greiðslu einnar milljónar króna í sekt og til greiðslu alls sakarkostnaðar í brottkastsmálinu svokallaða.
Er þessi frétt um þig Níels A Ársælsson ?

 

Níels A. Ársælsson 30.12 2010 19:26

Já Rúnar þessi frétt er um mig og ég er mjög stolltur yfir því sem ég gerði.

 

Guðjón II 31.12 2010 01:45

Í öllu þessu kjaftæði sem jafnan verður uppi hérna á þessu fjandans svæði hans Egils þá gleymist hversu mikið þessi skíta sjávarþorp "importa" fyrir íslenskt þjóðfélag...
Reykvíkingar hafa alltaf verið á bísanum og munu vera um aldir alda...

 

Muggur 31.12 2010 03:09

Er þá ekki í lagi að það fylgi hvað sveitarfélagið Fjallabyggð er að skapa í útflutningsverðmæti.
Tekið af heimasíðu Rammans.
Afli og aflaverðmæti skipa Ramma 2010 29. desember 2010
Afli og aflaverðmæti skipa Rammans á árinu sem er að líða var sem hér segir:
Skip afli tonn aflaverðmæti millj. kr. vinnsla og tegundir
Mánaberg ÓF 42 5.402 1.785,8 frosinn bolfiskur
Sigurbjörg ÓF 1 4.678 1.600,6 frosinn bolfiskur
Múlaberg SI 22 1.946 435,4 ferskur bolfiskur/rækja
Jón á Hofi ÁR 42 1.396 418,2 ferskur bolfiskur/humar
Fróði II ÁR 38 986 330,6 ferskur bolfiskur/humar
Alls 14.408 4.570,6
Þess má geta að öll skip félagsins fóru í slipp á árinu.
Eigum við að deila þessum 4,6 miljörðum í íbúafjöldann í Fjallabyggð og sjá svo hvað Reykjavík er að skaffa á hvern íbúa??

 

Og fyrir þá sem vilja skoða öll skrifin, þá er linkurinn á ummæli Guðmundar Ragnarssonar.

http://eyjan.is/2010/12/28/gudmundur-ragnarsson-fjolmargar-byggdir-daudadaemdar-og-hafa-verid-lengi/

 

Linkurinn á fréttaskýringar Eyjunnar er.

http://eyjan.is/2010/12/30/frettaskyring-siglufjordur-i-tolum/

29.12.2010 16:27

Gleðilegt nýtt ár!



686. Óska öllum frændum og frænkum,
vinum og vandamönnum, svo og öllum þeim sem hingað líta við góðs og gæfuríks árs.

 

Þessi áramót verða hvað mig varðar með svolítið öðru sniði en undanfarin 20 ár eða svo, því nú verður haldið norður yfir heiðar. Hinir Hafnfirsku skoteldar, bálkestir og annað það sem tilheyrir slíkum tímamótum verður því ýmsum öðrum augnayndi en mér að þessu sinni. Meiningin er að halda norður á Sigló og spila í stórafmæli Guðmundar Óla sem haldið verður með pompi og prakt á Hannes boy þ. 30., og svo aftur síðasta kvöld ársins á Hótel Varmahlíð fyrir Skagfirska hetjutenóra og annað gott fólk.


29.12.2010 02:41

Kreppubíll



685. Mig vantar lítinn, meðfærilegan, hæfilega sparneytinn, ekki mikið bilaðan, ekki allt of gamlan og ekki alveg útkeyrðan "kreppubíl" sem fengist á sanngjörnu verði. Er sem sagt að leita að einhverjum skjöktara til að komast á úr og í vinnu sem og út í búð. Þeir sem gætu verið með svar við spurningunni vinsamlegast hafið samband í síma 863-9776 (Leó).

27.12.2010 04:05

Grýla, Leppalúði, jólasveinarnir, bölvaður kötturinn og annað jólaillþýði.

684. Á jóladag var á dagskrá Rásar 2 stórskemmtilegur þáttur í umsjá Ágústar Bogasonar sem hét "Hátíð í bæ." Þar tók hann meðal annars fyrir tröllkerlinguna ógurlegu hana Grýlu, bónda hennar (í fleirtölu), jólasveinaófétin, jólakattarkvikindið stórhættulega og fleiri fyrirbæri sem tengdust jólahaldi okkar fyrr og nú. Ég hlustaði í fyrstu með öðru eyranu en eftir því sem á þáttinn leið fangaði hann sífellt meira af athygli minni. Mér fannst margt merkilegt sem þarna kom fram og margt hafði ég aldrei heyrt áður. Ég fann mig knúinn til að miðla þessum fróðleik áfram (að viðbættum þeim sem fyrir var) því ég veit að mjög margir, kannski flestir hafa verið að gera eitthvað allt annað en að hlusta á rás 2 eftir hádegið á jóladag.




Grýla mun hafa komið fyrst til sögunnar svo vitað sé á 13. öld. Þar er hún einfaldlega tröllkvendi og flagð hið versta, en er ekkert bendluð við jólin fyrr en löngu síðar eða á 17. eða 18. öld. Þá var fælingarmáttur hennar þegar orðinn mikill og hún sögð vera stórhættuleg barnaæta.
 

Og Grýla mun hafa verið þrígift sem ég vissi reyndar ekki. Fyrsti bóndi hennar var Gustur, en sá mun hafa verið afkvæmi hests og trölls. Næsta "eigintröll" Grýlu var Boli, en hann átti fyrir foreldra tröll og naut. Sá þriðji er svo sá sem allir þekkja þ.e. sjálfur Leppalúði. Hún átti fjölda barna með þessum þremur eiginmönnum (tröllum), en sumir segja aðeins með Bola og Leppalúða og þar af hafi Leppalúði verið faðir 20 þeirra.


                          

Svo líður eitt sinn að jólum og Grýla býður þeim Gust, Bola og auðvitað Leppalúða sínum til jólaveislu, en þegar allir eru mættir kemur í ljós að enginn matur er til í hellinum. Grýla býður þá Leppalúða að eiga spjall við kviðmága sína sem þarna eru komnir, en þeir munu aldrei hafa talið hann vera samboðinn henni. Grýla veit nefnilega sem er að báðir hennar fyrrverandi eru enn bálskotnir í henni og bíður þess sem verða vill. Æsast nú leikar og upphefst mikið rifrildi og slagsmál. Fer svo að lokum að Gustur lendir í pottinum, er síðan étinn af hinum tröllunum og þar með er vandamálið með matarleysið úr sögunni alla vega þessi jólin.

Grýla er örugglega skelfilegasti jólagesturinn af öllu því pakki sem til allrar hamingju hélt til í hellum inn til fjalla mestan hluta ársins. Hún var sísvöng, átti stóran pott, var alltaf með poka á bakinu og tilbúin að hremma öll þau krakkagrey sem ekki hlýddu foreldrum sínum í einu og öllu. Hún var virkilega andstyggileg og hún dó að lokum á rólunum (hvaða staður sem það nú var) en það var örugglega bara gott á hana. En til allrar hamingju er óttinn við Grýlu í mikilli rénun eftir því sem árin líða og í réttu hlutfalli við að heimili landsmanna verða sífellt bjartari m.a. vegna tilkomu Búrfells, Hrauneyjarfoss, Sigöldu, Vatnsfells og nú síðast Kárahnjúkavirkjunnar.

 


 

Fyrstu sögur af hinum íslensku jólasveinum munu vera 3-400 ára gamlar. Þar eru þeir sagðir vera afkvæmi Grýlu og hið mesta illþýði. Þeir eru ýmist sagðir vera 9 eða 13, en þau jólasveinanöfn sem þekkt eru munu vera um 70, - hvorki meira né minna. En það liggur samt fyrir að þeir eru eða voru alla vega bæði hrekkjóttir, þjófóttir og eiginlega stórvarasamir hvernig sem á er litið. Til allrar hamingju virðast þeir hafa mildast í seinni tíð og það er orðið sjaldgæft að frétta af einhverjum yfirgengilegum skandalíseringum þeirra núorðið.




Ég leitaði nafna afkomendanna grýlu og bónda og fann þau á nokkrum stöðum, en með því að "samkeyra" skrárnar varð niðutrstaðan eftirfarandi:

Askur, Ausa, Bikkja, Bokki, Bolli, Botni, Bóla, Brynki, Bútur, Böðvar, Dallur, Dáni, Djangi, Dúðadurtur, Flaka, Gráni, Hnúta, Hnútur, Hnyðja, Hnýfill, Höttur, Jón, Kleppur, Knútur, Koppur, Kútur, Kyllir, Kyppa, Langleggur, Láni, Lápur, Leppatuska, Leiðindaskjóða, Leppur, Ljótur, Loki, Lúpa, Mukka, Mösull, Nafar, Nípa, Nútur, Næja, Poki, Pútur, Sighvatur, Sigurður, Skotta, Skráma, Skrápur, Skreppur, Sláni, Sleggja, Sóla, Stampur, Stefna, Stefnir, Sikill, Strokkur, Strítur, Strympa, Stútur, Surtla, Syrpa, Tafar, Taska, Típa, Tæja, Völustallur, Þóra, Þrándur, Þröstur.

Þó er ekki að finna í þessari upptalningu hin þekktu jólasveinanöfn s.s. Stekkjastaur, Giljagaur, Stúf, Þvörusleiki, Pottaskefil, Askasleiki, Hurðarskelli, Skyrgám, Bjúgnakræki, Gluggagægi, Gáttaþef, Ketkrók, eða Kertasníki. Annað hvort vantar þau alveg, eða um er að ræða hrein og klár dulnefni þeirra sem á undan eru talin. Þau gætu auðvitað tekið sér þau til að dreifa álaginu sem fylgir því að vera jólasveinn og skipt með sér verkum.




Svo er annað sem ber að halda við í þjóðarvitundinni og má ekki gefa nokkurn afslátt af. Hin Íslenski jólasveinn er auðvitað ekkert skyldur þeim ameríska kókþambandi kapítalista og rauðklædda ýstrubelg sem situr blýfastur í hverjum strompi sem hann reynir sig við. En hvernig sem á því stendur, hafa tröllabörnin sem enginn vildi í eina tíð hitta fyrir, mildast mjög hin síðari ár. Þeir ku vera farnir að syngja, dansa og gefa börnum gjafir og góðgæti, hver svo sem skýringin kann að vera. Mér þykir þó langsamlega líklegast að það hafi orði einhver (óæskileg) kynblöndun erlendra og innlendra jólasveina. Hinn rauðklæddi og síðskeggjaði Santa Kláus er mun yngri eða ekki nema 200 ára gamall. Hann varð þó aldrei verulega þekktur fyrr en hann fékk sér fasta vinnu og fór að starfa fyrir alþjóðafyrirtæki sem hafði yfir að ráða ómældu auglýsingafé. Hann gerði stóran samning við þetta þekkta kompaný og það má segja að þá hafi boltinn fyrst farið að rúlla. Hann festi sig í sessi í kjölfar alþjóðavæðingarinnar rétt fyrir miðja síðustu öld og hefur síðan birtst okkur aldeilis ósjaldan á sjónvarpsskjám um allan hinn vestræna heim.

"I´d like to teach the world to sing, in perfect harmony."

Auðvitað alveg ógeðslega væmið en svínvirkar.

 

En það er hins vegar gömul þjóðvísa sem hefur orsakað marga vangaveltuna og einnig að heilinn hefur ósjaldan verið lagður í bleyti um lengri eða skemmri tíma.

 

Jólasveinar einn og átta,
ofan komu af fjöllunum,
í fyrrakvöld þeir fóru að hátta,
þeir fundu hann Jón á Völlunum.
Andrés stóð þar utan gátta, 
það átti að færa hann tröllunum.
Þá var hringt í Hólakirkju
öllum jólabjöllunum.

 

Ísleif hittu þeir utan gátta

og ætluðu að færa tröllunum.

En hann beiddist af þeim sátta,

óvægustu körlunum.

 

Hver er Jón, Andrés og Ísleifur? Um þessa kumpána finn ég ekki nokkurn stafkrók hvar sem ég leita, en væri svo sannarlega alveg til í að þiggja einhverja fróðleiksmola um.

 

 


Jólakötturinn var svo auðvitað ekkert annað en bölvaður óvættur og verulega illa innrættur. Hann lagðist nefnilega á þá sem minna máttu sín og fáa áttu að sem gátu gefið þeim einhverjar spjarir. Hann notaðist við sömu aðferð og Grýla, hann nefnilega át þá sem ekki eignuðust nýja flík. Einstaka sinnum kom þó fyrir að hann lét sér nægja að éta jólamatinn þeirra og þóttust þá sumir hafa sloppið með skrekkinn.

 

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. um Jólaköttinn:

"Hann gerði reyndar engum þeim mein sem eignuðust einhverja nýja flík að fara í á aðfangadagskvöldið, en hinir sem ekkert nýtt fat fengu fóru allir  í jólaköttinn svo hann tók (át) þá eða að minnsta kosti jólarefinn þeirra og þótti þá góðu fyrir goldið ef kötturinn gerði sig ánægðan með hann. En jólarefur hét það sem hverjum heimilismanni var skammtað til jólanna (í mat) á aðfangadagskvöldið. Af þessu kepptust allir við, bæði börn og hjú, að vinna til þess af húsbændum sínum fyrir jólin að fá eitthvað nýtt fat svo þeir færu ekki í ólukkans jólaköttinn né að hann tæki jólarefinn þeirra. Þegar börnum og hjúum tókst bæði að fá nýja flík, nógan jólaref og þar á ofan jólakerti og það sem mest var í varið, að þurfa ekki að fara í jólaköttinn, var ekki kyn þó kátt væri um jól til forna."

 

Menn eru ekki sammála um hvernig Jólakötturinn barst til landsins og tók sér bólfestu í íslenskum þjóðsögum, en flest bendir þó til þess að það hafi gerst um líkt leyti og jólasveinarnir komu til, þ.e. fyrir 3-400 árum. Margt bender líka til þess að hann hafi komið frá Noregi (eins og fleira) en þar var hann reyndar í geitarlíki. Enn austar eða við Eystrasalt er svo sambærilegt fyrirbæri þekkt, en það er í nautslíki. Hegðunarmynstur nautsins og geitarinnar svipar svo mjög til íslenska kattaróbermisins að líklega er talsverður skyldleiki þeirra í millum.

 

En jólin sjálf hafa reyndar vísan í mun fleira en fæðingu frelsarans og eru í raun langtum meira en 2000 ára gömul hátíð. Jólin voru fyrir kristni hátíð heiðinna manna sem haldin voru við vetrarsólhvörf. Þá var því auðvitað fagnað að senn lengdist dagur og sól hækkaði á himni. Jólatré, jólaljós og jólasveinar á allt að hafa einhverja vísan í heiðinn sið og vera jafnvel eldri en norræna goðafræðin. Annað nafn Óðins er t.d. sagt vera Jólnir og hugsi nú hver hvernig og hvað sem vill. Gulaþingslög kveða á um að blóta skuli nýju upphafi þá lægst er sól, nýs árs og friðar. Þetta er auðvitað inntak og hinn staðlaði texti sem við sjáum í jólakortum dagsins í dag. ..gott og farsælt nýtt ár - eða - .óskum þér árs og friðar.

 

Slóðin http://dagskra.ruv.is/ras2/4568637/2010/12/25/ vísar svo beinustu leið á "Hátíð í bæ" sem alla vega mér fannst svo skemmtilegur. Það má svo alveg fylgja með að umræddur umsjónarmaður Ágúst Bogason sem oftast sér um Popplandið á Rásinni, er sonur fréttamannsins góðkunna Boga Ágústssonar á sjónvarpinu. Það má því segja að máltækið þar sem sagt er að sjaldan falli eplið langt frá eikinni, sé enn í fullu gildi.

25.12.2010 08:49

Gleðileg jól


Flugumýrarkirkja.

683. Ég vil óska öllum ættingjum, vinum, svo og öllum þeim sem líta hérna inn gleðilegra jóla og farsældar um alla framtíð.

Og milli þess sem við troðum okkur út af rjúpum, hangikjöti, stórsteikum ýmis konar, ís, brauðtertum o.fl. o.fl. er auðvitað kominn tími til að narta í allar smákökurnar sem voru bakaðar fyrir jólin...

                         

                      Og svo skulum við líka gæta að okkur í umferðinni um jólin.

                               

18.12.2010 12:56

Ísbjarnarfóbía á háu stigi



682, Alveg frá því að ég fór að muna
almennilega eftir mér sem barn, hafa ísbirnir ásótt mig bæði í svefni og vöku. Það hafa þeir yfirleitt gert nokkuð reglulega, en stundum hefur samt orðið svolítið hlé á sem hefur staðið í besta falli í einhverja mánuði. Ég hef vitanlega mikið velt ferir mér hver geti verið orsakavaldurinn og hvað hafi í upphafi getað komið allri þessari skelfingu af stað. Þrátt fyrir miklar vangaveltur hef ég ekki fengið neitt afgerandi svar við þeim hugrenningum mínum, en hef helst grun um að hin ægifagra Kanadíska náttúrulifsmynd "Gull og grænir skógar" gæti hugsanlega verið kveikjan að öllu saman. Hún var sýnd í Nýja Bíó á Siglufirði, líklega árið 1963 meðan ég var aðeins 7 ára gamall. Ég man enn vel eftir því hvað ég var hræddur marga daga á eftir og hvað mér fannst grimmdin vera óhugnanlega mikil úti í náttúrunni þarna á norðurslóðum.

Ég held að upp úr því hafi þær martraðirnar byrjað sem standa enn, næstum hálfri öld síðar. Mörg hundruð sinnum hef ég komist í kast við þessi stórhættulegu rándýr og verið við það að lenda í klóm þeirra, kjafti og síðan eflaust maga, þegar ég hef vaknað upp bullsveittur og fundist hjartað vera að reyna að berja sér leið út úr brjóstkassanum.




Það er ekki nóg með að þessi dýrategund ásæki mig í svefni, heldur gerir hún það í vöku líka. Oft þegar ég hef komið heim seint að kvöldi þegar myrkrið, kuldinn og nóttin hafa umlukið mig, hef ég oftlega litið flóttalega í kring um mig og skimað eftir því hvort einhver slík skepna væri að læðupókast í nágrenninu. Þetta hefur þá gjarnan valdið einhverjum titringi í sál og jafnvel líkama og mér hefur í framhaldinu gjarnan gengið bölvanlega að koma lykli í skráargat og opna mér leið inn í hlýjuna og öryggið. Svokölluð dómínóáhrif hafa þá orðið til þess að ég hef orðið enn smeykari við umhverfið, sem orskakar svo auðvitað meiri titring og lykillinn hittir enn síður í skrána o.s.frv.

 

Þetta hefur reyndar ekki eingöngu verið bundið við birni, því ljón, tígrisdýr og önnur stór dýr hafa einnig hrellt mig í bland við Bjössa þó hann hafi verið langsamlega skæðastur.

Tilfinningin sem ég upplifði t.d. þegar ég sá Jurassic park var eins og bergmál aftur úr fortíðinni. Risaeðlurnar ógurlegu sem hrelldu mig fyrst í kvikmyndasalnum, voru einnig óþægilega nálægt mér í huganum um langan tíma eftir að sýningin var afstaðin. En strax eftir myndina staldraði ég alllengi við í útgöngudyrunim og horfði rannsakandi, ef líka svolítið flóttalega yfir bílastæðið. Mér fannst bíllinn óralangt í burtu og ég hefði alveg mátt leggja honum miklu nær. Það voru flest allir farnir þegar ég hleypti í mig kjarki og hálfhljóp við fót áleiðis að ímynduðu skjólinu með bíllykilinn því sem næst á undan mér.

 

Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum núna, eru fréttir undanfarna daga þess efnis að mikill hafís sé fyrir norðan og vestan landið. Þá benda veðurspár til þess að hann eigi hugsanlega eftir að nálgast strendur þess á næstunni.

 



Ég fór auðvitað stutta kynnisferð um vefinn með aðstoð google.is

 

(Vísindavefurinn)

Hvað deyja margir á ári eftir árás ísbjarna?

Það eru aðallega þrjár bjarnategundir (Ursus sp.) sem ráðast á menn og valda þeim tjóni, svartbirnir, skógarbirnir og ísbirnir. Svartbirnir (U. americanus) urðu 52 manneskjum að bana á tímabilinu frá 1900 til 2003. Að jafnaði drápu svartbirnir þess vegna einn mann á tveggja ára fresti. Svipaður fjöldi hefur látið lífið vegna árása skógarbjarna (U. arctos) eða 50 manns á 103 ára tímabili.
Ísbirnir (U. maritimus) eru yfirleitt taldir vera hættulegastir allra bjarna. Engu að síður hafa þeir aðeins drepið fimm manns svo vitað sé á fyrrnefndu 103 ára tímabili. Það er þó rétt að taka þeirri tölu með fyrirvara, því hér að aðeins um Vestulandabúa að ræða. Ekki eru til nægar heimildir um hversu margir inúítar hafa látið lífið vegna árása hvítabjarna.
Enn fremur þarf að hafa í huga að svartbirnir lifa á mun þéttbýlli svæðum en skógarbirnir og ísbirnir, auk þess sem stofnstærðin er margföld á við hinar tegundirnar eða um hálf milljón dýr. Skógarbirnir eru nú sennilega í kringum 200 þúsund talsins en hvítabirnir í kringum 25 þúsund dýr. Einnig er rétt að hafa í huga að hvítabirnir lifa á einum afskekktustu svæðum jarðar, þar sem lítið er um menn.
Ef við höldum áfram að leika okkur með tölfræðina þá má ætla að einn maður hafi verið drepinn af hverjum 9.600 svartbjörnum, 5.000 hvítabjörnum og 4.000 skógarbjörnum. Þessar tölur eiga reyndar aðeins við ef við gefum okkur að stofnstærð tegundanna hafi verið stöðug undanfarin 103 ár. Það er hins vegar ekki raunin því hvítabjörnum fækkaði nokkuð fram að friðun þeirra á 7. áratug síðustu aldar en hinar tegundirnar hafi frekar vaxið frá þarsíðustu aldamótum. Auk þess hefur mönnum fjölgað verulega á umræddu tímabili.



Eftir árás hvítabjarnar

Ég hef oft heyrt söguna um björninn sem réðist að bæ Reyðarárbónda á öldum áður og drap það allt kvikt. Sagan virðist hana lifað sem munnmælasaga allt fram á okkar daga og virðist vera til í nokkrun útgáfum þó grunnurinn sé hinn sami. Skýringin er væntanlega sú að hún gæti vel hafa lifað og dafnað svolítið sjálfstæðu lífi á nokkrum stöðum í sókninni. Og þar sem samgöngur hafa löngum verið minni en síðar urðu, hefur sagan tekið lítilsháttar breytingum í mismunandi áttir.

Hér fara á eftir nokkrar útgáfur.

 

sagnagrunnur.raqoon.com

Sagan segir að í fyrndinni hafi Reyðarárbóndi komið af sjó og fundið bæinn brotinn og konu sína og börn látin og limlest eftir hvítabjörn. Rann á bónda æði, elti slóð dýrsins og fann það austur í Hesti (Hestfjalli 586 m). Bangsi forðaði sér og slapp naumlega undan broddstaf bónda með því að stinga sér niður snarbratta gjá sem síðan heitir Bangsagjá.

 

sagnagrunnur.raqoon.com

Hestur heitir fjall milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar, upp í fjallinu er djúp gjá, kölluð Bangsagjá. Reyðará hét fyrrum bær á Siglunesi, þar bjó eitt sinn bóndi með konu og börnum. Einhverju sinni er hann kom af sjó að vetrarlagi lá mannsfingur á hlaðinu og er inn í bæinn kom voru konan og börnin þar sundurtætt. Grunaði bónda hvers kyns vera mundi, hljóp út með byssu og sá björninn. Tók dýrið á rás og elti bóndi það til fjalls. Rétt um það er björninn stóð á gjárbarminum fékk hann banaskotið og steyptist ofan í. Heitir þar síðan Bangsagjá.

 

fjallabyggd.is

Milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar er eyðikot sem heitir Reyðará. Þar bjuggu hjón er áttu eitt barn. Vetur þann, er sagan gerðist, voru ísalög mikil og hafði orðið vart við bjarndýr. Eitt sinn þurfti bóndi að bregða sér út á Siglufjörð til að sækja mat. Þegar hann kom heim aftur sá hann bjarndýr ganga frá bænum. Þar inni var allt brotið og bramlað og ekki annað eftir af konu hans og barni en annar handleggurinn af konunni. Maðurinn hljóp á eftir bjarndýrinu með gæruhníf. Bjarndýrið hlóp út á ísinn en snéri svo aftur að landi og hljóp upp gjá, sem er utan til við Hestinn og heitir Bangsagjá. Dýrið nam staðar á brúninni og prjónaði upp framfótunum, en talið er að þá sé bjarndýrið að biðjast vægðar. Bóndinn drap það.

 


 

Mbl. 19.3. 2006

ÍSBJÖRN réðst á grunnbúðir níu breskra fjallgöngumanna við Gunnbjörnsfjall á Austur-Grænlandi seint að kvöldi laugardagsins 11. mars síðastliðins. Þeim tókst að fæla björninn frá búðunum og sluppu óskaddaðir. Björninn gjöreyðilagði eitt tjald af fimm og felldi tvö önnur. Twin Otter-skíðaflugvél Flugfélags Íslands, undir stjórn Bjarka Hjaltasonar flugstjóra, sótti leiðangursmennina á Grænlandsjökul síðastliðinn sunnudag og flutti þá hingað til lands.

Þykir mjög óvenjulegt að ísbjörn skyldi leggja leið sína á þessar slóðir í Watkinsfjöllum, í meira en 2.000 metra hæð yfir sjó og 60 km frá ströndinni í beina loftlínu.


Pressan 30. júl. 2010

Stærðarinnar ísbjörn ruddist inn í tjald útilegumanna - "Hann ætlaði að éta okkur lifandi"

Stærðarinnar ísbjörn hugðist gæða sér á tveimur norskum karlmönnum á Svalbarða á dögunum. Mennirnir voru í mikilli ævintýraferð og átti sér einskis ills von þegar björninn reif upp tjaldið og reif annan þeirra út. Maðurinn stórslasaðist.

Félagi mannsins var snöggur að hugsa og þreif riffil sem þeir höfðu tekið með sér. Fimm riffilskot þurfti til að deyða ísbjörninn sem var frekar ófrýnilegur þegar hann ruddist inn í tjaldið.


 

Á vef hins Íslenska náttúrufélags er að finna svolítinn fróðleik um ísbirni.

Á síðustu öld sáust hér á milli 50 og 60 dýr. Flest þeirra sáust á fyrsta þriðjungi aldarinnar, þar af 27 í 18 tilvikum frostaveturinn mikla 1918. Mörg þessara dýra hurfu aftur, syndandi eða gangandi, út á hafísinn sem þá lá við land, en sum voru drepin.
Árið 1932 var ísbjörn felldur í Drangavík og annar fannst sjórekinn í Veiðileysufirði á Ströndum. Eftir það liðu ríflega þrír áratugir þar til aftur varð vart við ísbirni á landinu en í júní 1963 felldu eggjatökumenn gamla birnu í Hornvík. Þremur árum síðar fannst sjórekinn ísbjörn með molaðan haus í Þaralátursfirði og 1968 fundust hræ tveggja dy´ra rekin á fjörur (Þórir Haraldsson, munnl. uppl.). Þrír ísbirnir til viðbótar voru felldir hér á landi til loka aldarinnar. Sá fyrsti var stór, fullorðinn björn sem felldur var í Grímsey 1969, sá næsti var felldur í Fljótavík á Hornströndum 1974 og sá þriðji var ríflega ársgamall undanvillingur sem felldur var í febrúar 1988 í Fljótum í Skagafirði. Tvö dy´r til viðbótar voru drepin eftir að hafa sést á sundi; birna sem skotin var í byrjun júní 1975 á Grímseyjarsundi og karldy´r á sjöunda ári sem fiskveiðimenn aflífuðu þegar þeir hífðu það um borð í bát í lok júní 1993 skammt frá ísjaðrinum 70 mílur norður af Horni.


Á aba.is er að finna...

Sagt var um Jóhann Bessason (1839 - 1912) sem bjó ásamt konu sinni Sigurlaugu Einarsdóttur á Skarði í Dalsmynni, að hann hafi svarað vel til hugmynda manna um útlit og atgervi Egils Skallagrímssonar. Hann var manna vaskastur, víðkunnur að fimleik, afli, dirfsku og allri karlmennsku. Mikilúðlegur var hann ásýndum með alskegg niður á bringu og út á axlir.

Jóhann var járnsmiður góður og er hann var að hamra hákarlaskálm í smiðju sinni árið 1881 teygði ísbjörn óvænt hvítan hausinn inn um dyragættina.

Flestum hefði brugðið við þessa sýn en Jóhann lét sér fátt um finnast og snaraðist á móti bangsa með rauðglóandi skálmina. Bangsi hopaði undan og barst leikurinn eftir hlaðinu á Skarði, niður túnið, ofan fyrir brekkur og niður að Fnjóská, sem rann á milli skara. Þar skildu leiðir þegar bangsi stakk sér í ána og má ætla að hann hafi kosið ískalt vatnið fremur en stungusár með sjóðheitu járninu.



 

Mbl.is 3.6.2008

Ísbjörn við Þverárfjall

Lögreglan á Sauðárkróki hefur fengið fjórar tilkynningar um að fólk hafi séð ísbjörn við Þverárfjallsveg, milli Sauðárkróks og Skagastrandar. Lögreglan er að fara á staðinn og kanna hvort þetta er rétt. Þórarinn Leifsson, bóndi á Keldudal í Skagafirði er einn þeirra sem sá ísbjörninn.

"Ég var á leið vestur í Húnavatnssýslu rétt fyrir tíu í morgun, og sé fullvaxinn ísbjörn labba meðfram veginum til austurs, nálægt skagaafleggjaranum, hann var bara að labba í rólegheitunum að njóta góða veðurins," sagði Þórarinn í samtali við mbl.is.

Að sögn Þórarins voru ísjakar á Húnaflóanum í vetur og gæti ísbjörninn því hafa verið hér í einhvern tíma.


Fréttin um björninn á Þverárfjalli vakti auðvitað mikla athygli um leið og hún birtist. En ökumaðurinn sem ók fram á hann sagði líka frá því að skömmu áður en Bjössi varð á vegi hans hafi hann farið fram úr túrista á reiðhjóli sem var á sömu leið. Það fór ekki hjá því að maður velti fyrir sér hugsanlegum örlögum hans ef hann hefði verið svolítið fyrr á ferðinni.
 

Það varð auðvitað frægt þegar Þráinn Bertelson hélt því blákalt fram í útvarpsviðtali fyrir nokkru að 5% þjóðarinnar væru í raun fávitar og það yrði því að reyna að halda slíkum einstaklingum utan við umræðu ef það ætti að reyna að hafa hana vitræna að einhverju marki. Ég get ekki neitað því að þegar maður les eftirfarandi kemur hlutfallið 5%  svolítið upp í hugann.


Mbl.is 3.6.2008
"Skaðar alþjóðlega ímynd landsins"

"Ég er hneyksluð á því hvernig var tekið á þessu máli," segir Ingiveig Gunnarsdóttir, leiðsögumaður og ráðgjafi sem sérhæfir sig í vistvænni ferðamennsku, og starfar hjá Excellentia ferðamiðlun og ráðgjöf, og vísar hún í hvernig staðið var að málum þegar ísbjörn var felldur við Þverárfjallsveg laust fyrir hádegi í dag. 

Að sögn Ingiveigar eru hvítabirnir í mikilli útrýmingarhættu og því veki þessi atburður í morgun óhug hjá henni og segir hún það ekki sæma þjóð sem státar af ósnortinni náttúru og því að standa framarlega í umhverfismálum, að sýna slíka óvirðingu fyrir villtu dýralífi.  Umhverfisráðherra verður að gefa skýringar og sæta ábyrgð, segir Ingiveig. 

"Hvaða vald getur umhverfisráðherra tekið sér þegar um er að ræða dýrategund sem er í útrýmingarhættu.  Það hefði verið hægt að bjarga dýrinu, af hverju var ekki talað við dýralækni, af hverju var þessi ákvörðun tekin án þess að málið væri krufið til mergjar," segir Ingiveig og bætir við að þessi viðbrögð stjórnvalda sýni virðingarleysi fyrir náttúrunni og villtu dýralífi.

Ingiveig segir enga virka stefnumótun um dýravernd á Íslandi og segir ákvarðanatöku íslenskra yfirvalda skaða alþjóðlega ímynd landsins.  Dýraverndunarumræða sé mjög heit í alþjóðasamfélaginu um þessar mundir, og sem leiðsögumaður og skipuleggjandi ferða umhverfis- og náttúruverndarsamtaka um Ísland segir hún starfsfólk innan ferðaþjónustu hafa áhyggjur af því hvernig þessi mál koma til með að þróast.  "Ef stjórnvöld hefðu tekið ábyrgð á þessu máli og kynnt sér málið áður en dýrinu var útrýmt, hefði það spurst út í alþjóðasamfélagið og verið mjög jákvætt fyrir okkur," segir Ingiveig.

 

En það var gerð athugasemd við þessa frétt sem er líklega ekkert skrítið.
Bjössi friðaður, - ekki Skagfirðingar!
Undarleg umræða.  Þarna var ísbjörn á leið í áttina að fólkinu.  Það þurfti því að velja á milli hans og fólksins.  Átti að láta hann vaða á hópinn á þeim forsendum að Bjössi væri friðaður en ekki Skagfirðingar?  Þetta er fáránleg umræða.

Hins vegar eins og umhverfisráðherra segir er mikilvægt að lögregluembætti á Norðurlandi séu græjuð til að takast á við svona gesti.  Þeir hafa átt leið hérna í gegn í aldir og ekki ástæða til annars en að vera klár í slaginn.

Mbl. 27.7.2008

Líka hneykslast á ísbjarnardrápi 1974

Það er ekkert nýtt að hneykslast á hvítabjarnardrápi á Íslandi, að sögn Herborgar Vernharðsdóttur, sem býr í Atlatungu í Fljótavík á sumrin.

Frægt er þegar Ingólfur Eggertsson, eiginmaður hennar, varð ásamt Jóni Gunnarssyni og Helga Geirmundssyni á vegi hvítabjarnar í Fljótavík vorið 1974. "Þeir voru að gera við jeppa fyrir utan neyðarskýlið," segir Herborg. "Þá heyrðu þeir hnusið í birninum, sem stóð rétt fyrir aftan þá, jafn undrandi og þeir. Þeir hlupu inn í skýlið, en einn stökk út til að ná í byssuna sem lá fyrir utan. Hann mölvaði rúðuna og skaut björninn. Þeir voru logandi hræddir því synir mínir á unglingsaldri voru væntanlegir á hverri stundu að sækja þá í kaffi."

Og þá var hneykslast á því að hvítabjörninn væri drepinn. "Þegar Ingólfur var spurður af hverju hann hefði drepið björninn, þá svaraði hann: "Áttum við að bjóða honum að éta okkur?" 




Mbl.is 16.6.2008

Ísbjörn í æðarvarpi

Ísbjörninn sem sást við Hraun á Skaga, ysta bænum í Skagafjarðarsýslu, er enn við bæinn en hann hefur komið sér fyrir í æðarvarpi heimilisfólksins. Æðarvarpið er í um 300 metra fjarlægð frá íbúðahúsinu að Hrauni og sást fyrst til hans um hádegisbilið og vappar hann nú milli hreiðra og étur egg, samkvæmt upplýsingum frá heimilisfólki.

Merete Kristiansen Rabölle,  húsmóðirin á bænum, var í morgun úti í æðarvarpinu og varð ekki vör við ísbjörninn þá. Eins voru börnin úti í fjárhúsum að taka til eftir sauðburðinn og varð enginn var við ísbjörninn fyrr en um hádegisbilið er hundurinn á bænum rauk út geltandi og gjammandi. Dóttir Merete, Karen Helga Steinsdóttir, reyndi að ná hundinum en tókst ekki en sá hins vegar ísbjörninn og lét annað heimilisfólk vita. Grænlenskum vinnumanni tókst síðan að ná hundinum heilum á húfi inn í hús.

Að sögn Merete ráfar björninn um og borðar upp úr hreiðrum og er allt æðarvarpið í hættu. Hann virðist þó vera rólegur því hann lagði sig áðan í miðju varpinu.

Þá hefur og gengið þrálátur orðrómur um að þriðji björninn hafi verið felldur vorið 2008 skammt norðan við Skagaströnd. Ég hef m.a. rætt við mann sem fullyrðir að svo hafi verið, en sá er mikill skot og veiðimaður. Hann nafngreindi þann sem á að hafa unnið á birninum sem hann sagðist þekkja persónulega og lýsti síðan fyrir mér atvikum á mjög sannfærandi hátt. Sá á að eiga hauskúpu bjarnarins hangandi upp á vegg heima hjá sér og hafa fengið hana að launum fyrir verkið. Það fylgdi einnig þessari frásögn að yfirvöld hefðu lagt mikið kapp á að ekkert læki til fjölmiðla "til að gera ekki allt vitlaust" eins og heimildarmaður minn orðaði það.



 

DV 3. febrúar 2010

Leyfislaus skytta drap ísbjörninn

Ómar Vilberg Reynisson, ísbjarnarbani og bóndi að Flögu í Þistilfirði, hefur verið yfirheyrður af lögreglu þar sem hann hafði ekki skotvopnaleyfi og braut því lög er hann skaut hvítabjörn á dögunum. Vopnið er í haldi lögreglu og málið er í höndum ákæruvaldsins.

 

En ef Bjössi hefði drepið og étið Ómar, hefði hann þá verið yfirheyrður og sakaður um ólöglegt athæfi?



Á nat.is er að finna eftirfarandi:

Hvítabjörn eða ísbjörn er fremur sjaldgæfur gestur á Íslandi núorðið en fyrrum, þegar loftslag fór kólnandi á síðmiðöldum og allt fram yfir aldamótin 1900 voru ísár tíðari og þar með heimsóknir þessara stærstu bjarndýra jarðar.

Leiddar eru líkur að fjölgun heimsókna ísbjarna vegna röskunar búsetuskilyrða þeirra á norðurslóðum og æ fleiri dýr verði að hafast við á rekís til að finna nægilegt æti. Þegar ísinn bráðnar eiga dýrin ekki annars kost en að reyna að synda til næsta lands.

Á vef Náttúrufræðistofnunar er að finna eftirfarandi upplýsingar ásamt merkilegu korti þar sem athuganir eru staðsettar. Það vekur athygli hve þær eru hreint ótrúlega dreifðar um landið eins og t.d. á suðurlandi.

Skráðar tilvísanir til hvítabjarna á Íslandi eru einhvers staðar nálægt 500, birtar í sérstökum greinum, ævisögum eða héraðsritum, annálum, dagblöðum, vikuritum, mánaðar- eða ársritum, náttúrufræðiritum og handritum. Eflaust leynast enn fleiri heimildir um hvítabirni og sumar athuganir hafa e.t.v. aldrei verið skráðar en varðveist í munnmælum.

Samkvæmt nýjustu tölum í mars 2010 voru skráðar 289 athuganir á hvítabjörnum á Íslandi með samtals 611 dýrum. Viss ónákvæmni er í þessum tölum því hætta er á að dýr hafi verið tvítalin og stundum er aðeins getið í orðum hve dýrin voru mörg. Bein hafa fundist í jörðu í fjögur skipti og í ellefu tilvikum er aðeins um að ræða hvítabjarnaspor.



Og sá sem þetta ritar hugsar til þess með hryllingi ef Besta flokknum tækist að standa við það kosningaloforð sitt sem kveður um að fá ísbjörn í Húsdýragarðinn. Hann færi líklega aldrei út úr bíl í Laugardalnum ef hann þá æki yfirleitt þar í gegn.

12.12.2010 21:14

Að lifa af listinni

                                      

681. Ég rakst eitt sinn á skondið máltæki þar sem segir: "Ekki reyna að lifa á listinni, flestir deyja af henni." Og mikið rétt, margir listamenn sem hara skarað fram úr voru fátækir alla sína hunds og kattartíð og áttu sjaldnast til hnífs og skeiðar. Þeir urðu síðan yfirleitt ekki "ríkir" fyrr en mislangt var liðið frá andláti þeirra og þá er eins og gefur að skilja fullseint að njóta árangurs erfiðisins. En svo eru auðvitað til undantekningar á þessu sem er auðvitað gott fyrir listamanninn. Ein af þeim sárafáu sem við þekkjum í nútímanum hér á Fróni og sem slíkt gæti átt við er sennilega Björgvin Halldórsson.

Talnaglöggur endurskoðandi sem ég þekki lítillega af afspurn, fór nýverið á tónleikana "Jólagestir Björgvins" en þeir hafa notið gríðarlegra vinsælda í ár. Eins og kannski er ekki svo óeðlilegt þegar slíkur maður á í hlut, eru málin jafnframt skoðaðir með öðrum og annars konar gleraugum en aðeins þeim listrænu. Eftir tónleikana sagði þessi ágæti maður að tónleikarnir hefðu verið frábærir í alla staði og jafnvel þeir bestu sem hann hefði sótt í langan tíma. En hann hafði líka kynnt sér aðsóknina á alla tónleikana hér syðra og margfaldaði þá tölu með miðaverðinu. Heildarniðurstöðutölur voru samkvæmt þeim útreikningum u.þ.b. 70 milljónir og þá var enn ekki búið að syngja sig inn í hjörtu Akureyringa, en þar voru fyrirhugaðir tvennir tónleikar. Þessi ágæti maður spurði nokkra stórpoppara út í líklega stærð kostnaðarliða við tónleikahald og hverjar gætu verið eðlilegar greiðslur til annarra þeirra sem fram komu, en síðan hélt áfram að reikna. Eftir að hafa hugsað málið fram og til baka í nokkurn tíma spurði hann svolítið annars hugar hvort það gæti verið að Bjöggi væri að hafa 25-30 millur út úr jólabransanum. Þessu gat auðvitað enginn svarað því að bókhald stórsöngvarans er bæði lokað og ógagnsætt, en það er auðvitað gleðiefni ef einhverjum gengur vel í kreppunni.


08.12.2010 22:40

Í dag er áttundi dagur desembermánaðar


Ljósmynd af vef Reykjavíkurborgar

680. Í dag er dánardægur John heitins Lennon
sem þýðir að hin upplýsandi friðarsúla í Viðey mun taka sér venjubundið lýsingarhlé fram í nóvember 2011. Það var svolítið kaldranalegt að í síðasta viðtalinu sem tekið var við Lennon gagnrýndi hann m.a. aðdáendur poppstjarna sem vildu helst hafa goðin sín dauð eins og Sid Vicious og Jim Morrison. Þess konar poppgoð sagðist hann ekki hafa nokkurn áhuga á að verða.



Ljósmund Fréttablaðið/bg

En í dag er líka fæðingardagur Rabba trommara sem hefði orðið 56 ára hefði hann lifað. Ég man vel eftir Rabba að vestan frá þeim túima að ég bjó þar og stundaði böllin grimmt bæði úti í Hnífsdal og Alþýðuhúsinu á Ísafirði. Ég kynntist honum einnig lítillega eftir að hann hóf rekstur Hljóðhamars við Leifsgötuna. Á tonlist.is er heilmikill fróðleikur um tónlistarferil Rabba sem oftast er kenndur við Ísafjörð þó að sú sé ekki raunin, en þar segir...

"Rafn Jónsson eða Rabbi eins og hann er oftast kallaður fæddist 8. desember 1954 á Suðureyri við Súgandafjörð. En tónlistargáfuna segir Rabbi komna úr föðurættinni. Á sjöunda ári flutti hann með móðir sinni til Ísafjarðar, þar sem hann bjó allt til ársins 1979. Tónlistarsaga Rabba hófst árið 1967 þegar hann í félagi við bekkjabræður sína
stofnaði hljómsveitina Perluna, með honum þar voru Ásgeir Ásgeirsson, bassi og orgel, Guðmundur Baldursson, gítar og Þráinn Sigurðsson, orgel. Rerlan hélt til í tvö ár en án þess að sveitin sendi frá sér efni.

Ári síðar eða 1970 stofnuðu Rabbi ásamt Reyni Guðmundssyni söngvara þungarokkssveitina Náð sem starfaði til árssins 1973. Náð lét nokkuð á dansleikjum í nágrenni heimabygðar sinnar, en til eru nokkur demó með sveitinni en frumsamið efni var alltaf á dagsskrá sveitrarinnar. Auk annara voru í sveitinni Sigurður Rósi Sigursson, gítar og Örn Ingólfsson, bassi seinna bættust þau Svanfríður Arnórsdóttir söngkona og Ásgeir Ásgeirsson í hópinn. Árið 1972 yfirgáfu þeir Rabbi, Reynir og Örn sveitina en í þeirra stað komu Örn Jónsson, bassi og Haraldur Sigurðsson, trommur og hélt sá mannskapur sveitinni úti, allt þar til hún hætti árið1973.
Í árslok sama ár voru þeir félagar Rabbi og Reynir komir aftur af stað með nýja hljómsveit ÝR, sem starfaði til ársins 1977. Upphaflegir meðlimir hennar voru Rabbi, trommur, Reynir Guðmundsson, gítar og söngur, Hálfdán Hauksson, bassi og söngur og Guðmundur, gítar. 1974 yfirgaf Guðmundur bandið en Sigurður Rósi Sigursson, gítar tók sæti hans. Sá hópur stóð að upptökum á fyrstu og einu hljómplötu sveitarinnar, ÝR var það heillin, í september 1975 en upptökur fóru fram í Soundteck studios New York undir stjórn Jakobs Magnússonar. Platan kom út desember 1975 á vegum ÁÁ records og lagið Kanínana vakti athygli almennings á bandinu.
Í byrjun ársins 1976 yfirgaf Haldán sveitina og Örn Jónsson, bassaleikari tók stöðu hans. þannig stafaði sveitin til fram í júlí mánuð sama ár en þá fluttist Rabbi til Reykjavíkur í nokkura mánuði til þess að vinna hljómplötu með hljómsveitinni Haukum. sem fékk nafnið Fyrst á rönguni..., er innihélt m.a lagið Fiskinn hennar Stínu. Haukar voru skipaðir þeim Gunnlaugi Melsted bassi og söngur, Magnúsi Kjartanssyni hljómborð og Rúnari Þórissyni gítar ásamt Rabba. þannig  voru Haukarnir skipaðir þangað til í desember 1976 en þá flutti Rabbi aftur á Ísafjörð og endurreisti Ýr. Ýr var komin á fullt skrið aftur í byrjun ársins 1977 með þeim Rabba á trommur, Reynir Guðmundsson söng, Örn Jónsson bassi, Rúnar Þórisson gítar og Vilberg Viggósson hljómmborð.
Seinnipart ársins 1977 stofnuðu nokkrir meðlimir Ýr nýja hljómsveit, Danshljómsveit Vestfjarða sem var skipuð þeim Rabba á trommur, Reynir Guðmundsson söng,Örn Jónsson bassi, Sven Arve Hovland gítar og trompet, Sigurður Rósi Sigurðsson gítar og Jóhannes Johnsen hljómborð. Þessi mannskapur skipaði bandið fram í maí 1978 en þá yfirgáfu þeir Sigurður Rósi , Reynir Guðmundsson, Sven Arve og Jóhannes sveitina en stöður þeirra tóku Vilberg Viggósson hljómborð, Rúnar Þórisson gítar, Hörður Ingólfsson hljómborð og bongó og Ásdís Guðmundsdóttir söngur. Í September urðu þær breytingar að Reynir og Sven Arve komu aftur í stað ?eirra Ásdísar og Harðar en þannig  starfaði DV fram á mitt ár 1979 er hún lagði upp laupana.
Í ágúst 1979 flutti Rabbi til Uppsala í Sví?jóð og settist á skólabekk þar sem hann hóf að læra á slagverk m.a hjá Pétri Östlund. Eftir að Svíþjóðar dvölinni 1981 lauk stofnaði hann hljómsveitina Grafík sem starfaði við miklar vinsældir til loka ársins 1987.
Grafík varð til þegar  Rabbi, Örn Jónsson bassaleikari og Rúnar Þórisson gítarleikari voru að gera prufuupptökur uppá lofti Félagsheimilsins í Hnífsdal á 8 rása upptökutæki Rabba sem má kalla fyrsta heimastúdíóið á Íslandi. þess má geta að Rabbi lánaði Þursaflokknum tækið til þess að taka upp tónleikaplötu sína.
þetta var um áramótin 1980-1981 og síðan um vorið 1981 var tekið  til við að klára upptökurnar og bættust þá í hópinn Vilberg Viggósson hljómborð og Ólafur Guðmundsson söngvari í hópinn. Platan hlaut nafnið Út í kuldan og kom út í september og hlaut góða dóma innanlands sem og erlendis en plötunni var dreift bæði í Ameríku og Evrópu. Vinnsla við plötu númer tvö hófst ári seinna en hún kom ekki út fyrr en í  apríl 1983 og hlaut nafnið Sýn, þótti platan þung og tormelt. þær breytingar höfðu orðið á sveitinni að Ólafur var hættur og Ramó eða Ómar Óskarsson kom í hans stað.
Í júní 1983 kom Helgi Björnsson í stað Ómars og um svipað leiti flutti hljómsveitin aðsetur sitt frá Ísafirði til Reykjavíkur. Í setember 1984  hélt Grafík í stúdíó Hljóðrita á Hafnarfirði til þess að taka upp sína þriðju plötu Get ég tekið sjéns og er skemmst frá því að segja að platan sló algjörlega í gegn með lögunum 1000 sinnum, Mér finnst rigningin góð og Sextán. Þegar hér var komið við sögu hafði Hjörtur Howser leyst Vilberg Viggósson af hólmi. Örn Jónsson bassaleikari og einn af stofnendum Grafík yfirgaf hljómsveitina í byrjun ársins og kom Jakob Smári Magnússon bassaleikari úr Tappa tíkarrass  í hans stað. 
Árið 1985 var það viðburðarríkasta í sögu hljómsveitarinnar  enda spilaði hún á tvennum stórtónleikum í Laugardalshöllinni og var fulltrúi Íslands á Norrock tónleikum í Aarhús og Kaupmannahöfn auk þess að fara 15 daga hljómleikaferð um Ísland. Fjórða plata Grafík Stansað, dansað og öskrað kom út í desember 1985 og vakti mikla athygli og vann myndband við lagið Tangó til verðlauna sem besta myndbandið á Norðurlöndum í samkeppni sem haldin var í Svíþjóð.  Árið 1986 tóku meðlimir Grafík sér nokkura mánaða frí en um haustið kom sveitin saman aftur og urðu þær mannabreytingar að Helgi Björnsson og Jakob Smári yfirgáfu sveitina en í þeirra stað komu þau Andrea Gylfadóttir söngkona og Baldvin Sigurðarson bassaleikari áður í Baraflokknum. þannig skipuð fór Grafík í stúdíó til ?ess að taka upp fimmtu plötuna Leyndarmál í október 1986 en vinnslu lauk ekki fyrr en í ágúst 1987. Leyndarmál hlaut feikna góðar viðtökur og þá sérstaklega lögin Presley og Prinsessan. Grafík  kom síðast fram með þessari skipan um áramótin 1987-88 á áramótadansleik á Hótel Íslandi.
Árið 1986 stofnaði Rabbi ásamt fleirum hljómsveittina Bítlavinafélagið, sem starfaði óbreytt með hléum allt  til ársins 1989. Bítlavinafélagið skipuðu þeir Jón Ólafsson hljómborð, Haraldur Þorsteinsson bassa, Eyjólfur Kristjánsson gítar og söngur, Stefán Hjörleifsson gítar ásamt Rabba á trommur. Bítlavinafélagið rak eigið hljóðver Glaðheima og sendi frá sér fjórar hlljómplötur Til sölu 1986 , Býr til stemmningu 1987, 12 íslensk bítlalög 1988 og Konan sem stelur mogganum1989. Í einu af hléum Bítlavinafélagsins stofnuðu þeir bítlavinir Rabbi, Jón Ólafsson og Haraldur Þorsteinsson ásamt Stefáni Hilmarssyni söngur og Guðmundi Jónssyni gítarlkeikara Sálina hans Jóns míns en þannig gaf hún út eina hljómplötu Syngjandi sveittir 1988.
Seinni hluta ársins 1989 stofnaði Rabbi hljómsveitina Galíleó sem hann starfaði með allt til ársins 1993 er hann lagði kjuðana á hilluna.
Rabbi hefur komið mikið við sögu í íslensku tónlistarlífi s.l. 25 ár. Hann byrjaði að spila á trommur árið 1968 og spilaði á þær allt til ársins 1993 þegar hann lagði kjuðana á hilluna vegna veikinda. Meðal hljómsveita sem Rabbi hefur leikið með eru Náð,Ýr, Grafík, Bítlavinafélgið, Sálin hans Jóns míns o.f.l. Frá árinu 1987-89 var Rabbi dagsskrárgerðarmaður á Rás 2 og sá um þátt sem fjallaði eingöngu um íslenska tónlist. 
Einnig gaf hann út tvær sóló plötur Andartak árið 1991 og Ef ég hefði vængi árið 1993. Rabbi og Rúnar (Þórisson) gáfu út plötuna í álögum árið 2000.Platan er byggð á kvæðum eftir Kristján Hreinsson og sem unnin upp úr íslenskum þjóðsögum en söngvarar á henni eru gamlir félagar þeirra úr Grafík þau Andrea  Gylfa og Helgi Björnsson. Rabbi og Rúnar gerðu árið 1998 einnig plötu um íslensku jólasveinana við ljóð Kristjáns Hreinssonar sem heitir Jólasveinarnir okkar.
Árið 1993 snéri Rabbi sér eingöngu að stúdíórekstri og upptökustjórn. Hann rak ásamt Guðmundi Guðjónssyni stúdíóið Hljóðhamar og plötuútgáfuna Rym til ársins 1998. Ferill  Rabba sem upptökustjóra hefur verið glæsilegur og hafa plötur sem hann hefur stjórnað upptökum á hlotið viðurkenningar á Íslenskutónlistarverðlaunum. m.a Fólk er fífl með Botnleðju og Magnyl einnig með Botnleðju og plata Önnu Halldórs Villtir morgnar. Meðal annara sem hann hefur stjórnað upptökum hjá  eru Grafik, Nýdönsk, Bítlavinafélagið, Sálin hans Jóns míns, Sixties, Woofer, Stolíu, Ragnari Sólberg, Sign, Noise. Einnig má nefna plöturnar Íslandsklukkur og Legg og skel sem hann vann í samvinnu við Magnús Þór Sigmundsson.
Rafn Jónsson / Bárður Örn Bárðarson"

 

Svo mörg voru þau orð en á vefnum Wikipedia er fjallað um hljómsveitina Ýr og þar má lesa eftirfarandi...

"Ýr var íslensk hljómsveit frá Ísafirði sem starfaði á árunum frá 1974 til 1979. Hún gaf út eina breiðskífu sem hét einfaldlega Ýr, árið 1975 hjá ÁÁ Records en var fyrst og fremst danshljómsveit. Hún átti smellinn "Kanínan" sem Sálin hans Jóns míns tók á 9. áratug 20. aldar. Síðar stofnaði lykilmaður hljómsveitarinnar, Rafn Jónsson, hljómsveitina Grafík.

Meðlimir hljómsveitarinnar voru: Rafn Jónsson trommur, Reynir Guðmundsson söngur, Hálfdán Hauksson bassi og Sigurður Rósi Sigurðsson sólógítar. Rafn starfaði með mörgum hljómsveitum hérlendis, tók upp tónlist og var útgefandi með meiru. Rafn er látinn. Reynir hefur starfað við tónlist sem hliðargrein alla tíð og er nú söngvari hljómsveitarinnar Saga Class. Hálfdán er búsettur í Noregi og Sigurður Rósi er bóndi á Nýja Sjálandi. Hann hefur einnig haldið úti hljómsveit þar í landi."



Þegar ég bjó á Ísafirði og vann í Norðurtanganum, voru böllin stunduð grimmt bæði út í Hnífsdal og í Alþýðuhúsinu á Ísafirði. Snemma árs 1974 var hljomsveitin Náð ennþá starfandi og Ýr var um það bil að stíga á pall  hið fyrsta sinni. Það var talsverð spenna í loftinu og þónokkrar væntingar gerðar til hinnar nýju hljómsveitar. Þar kom að auglýstur var dansleikur í félagsheimilinu Hnífsdal þar sem Ýr mundi stíga á svið í fyrsta skipti og ég var auðvitað einn af þeim fyrstu sem mættu. Lengi vel stóð ég og hlustaði af alefli á þetta nýja band sem svo mikið var búið að tala um og það var ekki laust við að vonbrigðin væru mikil.

Hljómsveitin var bara alls ekki góð og mér fannst t.d. Náðin á þessum tíma vera miklu betri og þéttari svo ég tali nú ekki um B.G.

Prógrammið var greinilega ekki langt, mörg lögin voru spiluð aftur og aftur og mér fannst "Hooked on a feeling" með Sænsku sveitinni "Blue Swede" vera t.d. spilað a.m.k. 10 sinnum um kvöldið. En það var nú líka vinsælasta lagið á landinu eða jafnvel í öllum heiminum, hvað vissi ég svo sem?

En þetta var nú bara fyrsta ballið og líklega hefur það átt við í þessu tilfelli að fall sé faraheill. Hálfum mánuði síðar var Ýr aftur í Hnífsdal og ég fór þangað, en með hálfum huga þó. En nú brá svo við að engu var líkara en að þarna væri komið allt annað band en síðast. Ég fylltist mikilli hrifningu á þessum frábæru snillingum og hellti mér út í kraumandi stuðið og algleymið og týndi svo sjálfum mér að lokum eins og stundum gerðist á þessum árum. Daginn eftir vaknaði ég svo heldur slæptur og með hvimleiða lágþokubletti í kollinum þar sem hugsunin fer yfirleitt fram. En ég mundi samt að það hafði verið alveg ROSALEGA gaman í gærkvöldi.



Ljósmynd Spessi

Rafn Ragnar Jónsson tónlistarmaður lést á heimili sínu í Reykjavík þ. 27. júní 2004 og var þá á fimmtugasta aldursári.
Það var sá illvígi hreyfitaugahrörnunarsjúkdómur, MND sem varð að lokum hans banamein, en Rabbi hafði glímt við hann um nokkurra ára skeið.

06.12.2010 08:15

Grænmeti

679. Ég fékk þessar myndir sendar í pósti fyrir nokkru og varla verður annað sagt en að þær séu bara býsna skemmtilegar og geti jafnvel ýtt undir markaðssetningu grænmetis á jákvæðan hátt. Það er reyndar alveg með ólíkindum hvað það getur tekið á sig margar myndir eins og getur að líta hér að neðan og óneitanlega eru sumar þeirra ansi skondnar svo ekki sé meira sagt. Það er svo auðvitað rétt að láta þess getið með tilliti til umfjöllunarefnisins að grænmeti er alveg meinhollt, verulega gott á bragðið og það ættu allir að borða mikið af því.
















Fái hins vegar einhver sem þetta les og skoðar einhverjar undarlegar hugmyndir um grænmetið sem hér getur að líta, er það aðeins lýsandi fyrir þankagang viðkomandi en þessari hollu fæðutegund í raun með öllu óviðkomandi.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 341
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 742
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 322277
Samtals gestir: 35572
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 14:18:39
clockhere

Tenglar

Eldra efni