14.06.2007 11:11

Lögguhasar.

379. Við Bjarni (tengdasonur) vorum á leiðinni frá Hafnarfirði til Reykjavíkur í gær og ókum Bústaðaveginn frá Kringlumýrarbraut í áttina að miðbæ Reykjavíkur.
"Sérðu hvernig þessi sendibíll ekur?" Bjarni horfði í baksýnisspegilinn og ég sá að það var undrunarsvipur í andlitinu. Ég sá hvítan sendibíl nálgast okkur nokkuð hratt og hann rásaði undarlega milli hægri og vinstri akreinar. Þegar hann tók fram úr okkur var ekki um annað að ræða en að hægja ferðina, því hann var skyndilega kominn á miðjan veginn og ók beint yfir miðlínunni eins og hann ætti götuna. Nokkru síðar sveigði hann til hægri og upp á kantstein og svo aftur út á miðju.
"Þessi maður er dauðadrukkinn" sagði Bjarni og teygði sig eftir símanum. Hann hringdi á 112 og bað um að fá samband við lögregluna. Þegar sambandið var komið á lýsti hann atburðarrásinni ásamt því að gefa þeim upp skráningarnúmer bílsins. Meðan á samtalinu stóð hélt sá hvíti áfram för sinni og varð ökulagið jafnvel enn skrautlegra en áður. Við eltum bílinn og Bjarni lýsti ökuleiðinni meðan stjórnstöð lét boð út ganga til þeirra sem gætu verið nærstaddir. Sendibíllinn flakkaði á milli akreina og negldi svo skyndilega niður þegar hann var aðeins hársbreidd frá því að aka aftan á grænan smábíl. Þar næst fór hann upp á umferðareyju, aftur út á veginn og svona mætti lengi halda áfram. Á móts við slökkvistöðina sáum við að lögreglubíll kom á móti okkur og stöðvaði á rauðu ljósi. Það gerði sá hvíti líka eins og aðrir sem voru þarna á ferð. Þegar kom grænt ljós óku síðan allar af stað, en skyndilega tók lögreglubíllinn U-beygju og það blikkuðu ljós. Þeir virtust hafa fengið einhverja skyndilega hugljómun, en auðvitað hafa þeir verið að fá boðin í tetra-tækinu sínu. Sá hvíti ók áfram eins og ekkert væri í áttina að gatnamótum Snorrabrautar og beygði til hægri inn í slaufuna sem beinir umferðinni vestur Hringbraut. Annar lögreglubíll bættist við svo og mótorhjól, en sá hvíti hélt áfram eins og hann væri einn í heiminum. Það var svo ekki fyrr en lögreglubílarnir króuðu hann af að hann staðnæmdist. Við stöðvuðum líka skammt fyrir aftan alveg að springa af forvitni og sáum að einn "lögginn" opnaði bílstjórahurðina á þeim hvíta, en ástand ökumannsins hefur líklega ekkert farið milli mála því hann gaf félaga sínum bendingu og manninum var "hjálpað" undan stýrinu og hann leiddur til (aftur)sætis í lögreglubílnum fyrir aftan. Ég gat auðvitað ekki setið á mér og þreifaði eftir myndavélinni og smellti nokkrum af, en þær eru þó heldur í óskýrara lagi vegna þess að þær eru flestar teknar í gegn um framrúðuna.



Bjarni er ættaður frá Siglufirði. Afi hans var bróði Úbbu sem var kona Bjarna frænda míns í Visnesi.



Ökumaður sendibílsins sinnti engum stöðvunarmerkjum og hélt sínu striki.



Annar lögreglubíllinn tekur fram úr sendibílnum og keyrir í veg fyrir hann.



"Haft tal" af ökumanni, en hann hefur líklega ekki farið á milli mála að hann var ekki í ástandi til að halda uppi skynsamlegum samræðum.




Honum var því hjálpað niður úr sætinu og leiddur inn í næsta bíl. Hann var svo valtur á fótunum að þeir sem leiddu hann áttu fullt í fangi með að detta ekki með honum.

Ég leit á klukkuna og sá að hún var ekki nema 19.03. Einhver hefur tekið kvöldskemmtunina snemma að þessu sinni.

En nú er ég farinn í helgarferð til Vestfjarða sem stendur reyndar alveg fram á þriðjudag...

10.06.2007 04:10

Amma í afneitun.



378. Er hún ekki slank og flott, búin að "taka á því" til að passa í "strandardresssið." Hún getur því sýnt sig, ekki bara blygðunarlaust heldur yfir sig stolt af útliti sínu sem gerir auðvitað aðrar og mun yngri kynsystur hennar grænar af öfund.

Frábær árangur hjá "ömmu í afneitun."

07.06.2007 00:58

Jónsi & Jói.

377. Nýlega setti ég "linka" á þá Jónsa og Jóa Frank undir flokknum "Ljósmyndasíður." Ég hef þekkt Jóa um nokkurra ára bil, en Jónsa nánast frá því ég man eftir mér á Siglufirði. Það var svo fyrir tiltölulega stuttu síðan að ég vissi að þeir höfðu báðir brennandi áhuga á ljósmyndun. Mig langar til að kynna þá aðeins betur.


Jónsi.

Jónsi eða Jón Magnús Björnsson fæddist á Siglufirði árið 1955 er sonur Björns Grétars og Tótu Jóns. Hann bjó ásamt foreldrum sínum og yngri bróðir sínum Óla, að Aðalgötu 22 (á neðri hæðinni hjá Rúdolf Sæby) þar til fjölskyldan flutti til Innri-Njarðvíkur þegar hann var 10 ára gamall. En hann kom líka oft á "brekkuna," þegar hann var að heimsækja ömmu sína og afa, þau Jón og Oddnýju Nikódemusar, en þau bjuggu að Hávegi 8. Og þar sem stutt var á milli þeirra og æskuheimilis míns, lágu leiðir okkar oft saman. Og því má svo bæta við að mæður okkar voru mikar vinkonur allt frá þær hittust fyrst í svolitlum drullupolli fyrir framan Hverfisgötu 11 umlíkt leyti og skólaganga þeirra skyldi hefjast í Barnaskóla Siglufjarðar.

En hér að neðan getur að líta örlítið sýnishorn mynda sem Jóns hefur tekið.










Jóhannes Frank Jóhannessyni eða bara Jóa kynntist ég upphaflega yfir afgreiðsluborðið á Laugarásvideó, en þangað kom hann oft á árum áður. Hann er fæddur og uppalinn á Þingeyri við Dýrafjörð, en fluttist þaðan fyrir allmörgum árum. Hann hefur m.a. staðið að rekstri auglýsingastofunnar Frank & Jói og að mestu unnið störf tengd auglýsingum og markaðsmálum hér syðra.













02.06.2007 13:42

Maíferðin á Sigló.

376. Klukkan var orðin hálf ellefu að kvöldi þriðjudagsins 22. maí þegar ég lagði af stað norður á Sigló. Auðvitað hafði verið farið fram á að ég frestaði ferðinni til morguns, en það var einfaldlega ekki boðið upp á þann valkost í stöðunni því slíkur var spenningurinn að komast af stað. Það sem gerist í tilfellum sem þessum, er að væntingar hafa verið að byggjast upp smátt og smátt og einhver undirliggjandi spenna vaxið jafnt og þétt. Það varð því ekkert bakkað með það, ekki seinna en í dag fer ég norður og skítt með alla skynsemi.



Þegar ég var um það bil að stíga upp í bílinn á Öldugötunni leit ég upp og sá hvar leiðin undir regnbogann myndi liggja og hvar væri nú líklegast að hitta fyrir hina vandfundnu óskastund.



Eftir að lagt hafði verið af stað var hvergi áð og fyrsta teygjustoppið ekki á dagskrá fyrr en Siglufjarðarfjöllin blöstu við úr Fljótunum.



Og svo aftur þegar nýr dagur var sjáanlega að rísa í norðrinu yfir nesinu.



Þá var bara síðasti áfanginn eftir og það var mjög þreyttur maður sem lagðist til svefns á Aðalgötunni um nóttina skömmu eftir að þessi mynd var tekin.



En það verður ekki sagt að sól hafi skinið í heiði þá daga sem staldrað var við, enda ekki endilega verið að eltast við veðursældina sem oft samt verið mikil nyrðra eins og við vitum.



Ekki laust við að fjöllin og skýjaður himininn rynnu saman í eitt, því jörð hafði orðið alhvít um nóttina.



Það er eiginlega reykhúsið á Steinaflötum sem mér finnst alveg einstaklega flott, því það er gamalt mjölsíló á hvolfi sem mig minnir að sé úr Rauðku. En sumarið 1972 var ég ásamt mörgum góðum drengjum að vinna hjá hjá Páli frá Ljósstöðum við að rífa Gránu og Rauðku til að rýma fyrir nýju frystihúsi Þormóðs Ramma sem rísa skyldi á lóðunum. Þá minnir mig endilega að þeir bræður Gestur og Sigurbjörn Frímannssynir hafi fengið silóíð til að koma upp reykhúsinu.



Gömlu réttirnar eru ekki nema brotabrot að því sem áður var, þegar hátt í helmingur bæjarbúa var þarna samankominn á góðum haustdegi og fjárstraumarnir liðuðust niður úr fjallinu og inn í almenninginn.



Umhverfið í kring um Bakkatjörnina er afar sérstætt eftir að snjóflóðavarnargarðurinn var kominn í það horf sem hann er nú. En eftir því sem leið á daginn fór að hlána og undir kvöldið var allur snjór horfinn af götum bæjarins og víðar. Sama sagan endurtók sig svo næstu tvo daga á eftir. Það snjóaði um nóttina, stytti upp með morgninum, nokkur slydduél komu yfir daginn en um kvöldið voru allar götur orðnar auðar.



Þessar trillur sem eru fyrir sunnan síldarminjasafnið hafa lokið upphaflegu hlutverki sínu, en nú bíður þeirra nýtt, þ.e. að verða safngripir eftir að búið verður að fegra þær svolítið. Þetta eru frá vinstri talið Hafdís, Bæringur og Snarfari. Ég man eftir Svenna Björns á Snarfara þegar ég var um fermingu en ég hitti þann ágæta mann og hann sagði mér afar merkilega sögu af Bæringi sem ég þarf sennilega að rifja aðeins betur upp áður en ég treysti mér til að hafa hana eftir.



Snurpubátur á hvolfi. Það er ekki algeng sjón í dag en þegar ég var "lítill" var oft farið suður á Langeyrina og leikið sér, en þá höfðu tugir slíkra báta verið dregnir þar á land og þeir endanlega afskrifaðir. Lengi vel var svo hefð fyrir því að taka a.m.k. einn bát á ári, saga hann í sundur þvert yfir miðjuna, reisa hlutana upp á endann, snúa þeim saman og nota sem aðaluppistöðu í áramótabrennuna.



Litli og Stóri. Ég varð að leggja við hliðina á þessum sem var að koma úr Héðinsfjarðargöngum og skjóta einni. Miðað við það sem fyrir augu ber má svo hverjum manni vera það fullkomlega ljóst að ég hlýt að teljast mjög hófsamur í kröfum mínum um þægindi og fyrirferð þegar kemur að bílamálum.


Ég kíkti í kaffi og með því til hennar Guðnýjar og hins eina sanna Steingríms "útgefanda Lífsins." Ég fékk svo þessa stórskemmtilegu danssýningu í "gradís" og það verður að segjast að nýjasti íbúinn á heimilinu komst bara vel frá sínu.



Framkvæmdirnar við nýju álmuna á Sjúkrahúsinu eru greinilega komnar á fullt skrið og svo skrýtið sem það nú er, þá finnst mér stundum eins og það sé unnið að því að endurreisa það gamla sem stóð á nákvæmlega sama stað.



En menn eru reyndar ekki enn komnir alveg upp úr moldinni eins og stundum er sagt, þó greinilega styttist í að þeim áfanga fari senn að ljúka.



Það þurfti að loka göngunum hinum megin frá meðan beltagrafan var á leiðinni í gegn, en hún er allt of "hávaxin" fyrir aðstæður þegar hún er farmur á vagni.



Ég gekk fram á brúnina og leit niður í fjöru þarna við enda Strákaganganna Siglufjarðarmegin. Það var talsvert brim þótt veðurhæðin væri ekki mikil.



Ég leit líka upp til fjallanna fyrir utan gangamunnann. Það fór svolítill kuldahrollur um mig.



Bærinn er alltaf fallegur á einhvern hátt, og skiptir litlu hvernig t.d. veðrið er. Jafnvel í svona kalsa og einhver mundi segja leiðindaveðri er hægt að finna flottan flöt. Það er búið að breiða hvítt og hreint teppi yfir þá sem þarna hvíla.



Þegar ég fór fram í skógræktina til að sjá hvernig hún liti út í svona veðurfari fannst mér eins og það gætu alveg eins verið komin jól.
Upp í hugann komu eftirfarandi línur:
Í skóginum stóð kofi einn, sat við gluggann jólasveinn...



Það var lítið í ánni og fossinn hefur oftast nær verið mun tilkomumeiri. Það var samt eitthvað notalegt við þetta umhverfi, og ekkert síður þegar það gerði svolitla snjódrífu eins og glöggt sést á myndinni.



Þetta kallast að skilja eftir sig spor. Ég gekk til baka og reyndi að ganga í sömu sporunum sem urðu til þegar ég kom. Það var greinilegt að þarna höfðu ekki margir farið um þennan dag.



Ég fór niður að smábátahöfn og myndaði flest alla þá báta sem þar voru þá stundina. Ég man að Ísfirðingurinn Gunnar var líka einhvern tíma búinn að benda á að myndir af bátum væru alltaf vel þegnar. Það má því segja að næstu sentímetrar hér að neðan séu sérhannaðar fyrir hann.















Gústi er nefndur eftir Gústa guðsmanni og fylgdi björgunarskipinu Sigurvin þegar það kom til Siglufjarðar. Svona bátar sem rista ekki nema 40 - 50 cm voru mikið notaðir undan ströndum Hollands og Þýskalands vestan Jótlands, en þar er víðast hvar mjög aðgrunnt og munur flóðs og fjöru mun meiri en við þekkjum hér uppi á Fróni. Þar henta slíkir bátar vel því þeir geta m.a. siglt um grunnar lænur sem myndast milli sandflákanna þegar hefur fjarað. Til eru sögur um að fólk sem hefur gengið úr á sandinn á fjöru sérstaklega þó í grennd við Frísnesku eyjarnar, á enga von um að komast undan flóðinu á hlaupum þegar það kemur. Það nýjasta sem ég hef heyrt að væntanlegum afdrifum Gústa er að hann hafi verið seldur Þýskum bátasafnara.



Þetta er svo björgunarskipið Sigurvin, en það er nefnt eftir trillu Gústa guðmanns.




Ég átti leið á gámaslóðir og þar hitti ég fyrir feðgana Gauta ofurbloggara og Svenna Björns. Það var komið föstudagseftirmiðdegi og matseðill kvöldsins var sýnishornaveisla. Nú skyldi reynda að klára sem flesta afganga úr ísskápnum því á morgun ætlaði ég suður.



Ketilás sá gamli sveitaballsstaður sveipaður sínum draumkennda fortíðarljóma í hugum þeirra sem í dag eru komnir af léttasta skeiði. Þar sem bekkir voru enn meðfram veggjunum síðast þegar ég vissi. Þar sem mín kynslóð hafði á sínum bestu árum mætt á sín fyrstu alvöru böll. Og þar sem ég og eflaust margir fleiri höfðu komið á góðum degi og ætlað sér stóra hluti, en sofnað úti á túni og vaknað í skítakulda þegar ballið var búið og allir löngu farnir heim.



Ég stoppaði aðeins fyrir ofan Haganesvíkina og horfði út á Almenningana þar sem Kóngsnefið ber við himinn.



Það er engu líkara en þrjú veðurfarsleg tímabil séu inni á myndinni. Túnin eru farin að grænka næst okkur og það er svolítil föl í fjöllunum vinstra megin upp af Sleitubjarnarstöðum. En ef horft er inn í dalinn þar sem leiðin liggur til Hóla í Hjaltadal, er engu líkara en Vetur konungur eigi eftir að ráða þar ríkjum enn um sinn.



Ég staldraði við fyrir neðan afleggjarann að Flugumýri þar sem ein af litlu systrum mínum býr og velti fyrir mér hvort það væri á könnunni eða hvort heimilisfólkið væri farið í fjósið að mjólka. Og þegar enginn svaraði símanum lét ég nægja að hleypa af myndavélinni í átt að bænum og hugsaði með mér að hún slyppi ekki svona ódýrt næst.



Sólargeislarnir brotnuðu á fönnunum í fjöllunum fyrir ofan Varmahlíð.



Blönduóslöggan hefur þótt nokkuð skeinuhætt með hraðamyndavélar sínar. Ýmsir hafa sagt mér að þeir telji alltaf löggubílana fyrir framan stöðina á Blönduósi þegar ekið er fram hjá. Þeir eigi að vera þrír, og ef þeir séu þar allir sem sjaldan gerist, sé lítil hætta á ferðum á vegunum í sýslunni. Ekki veit ég hvort hvort það er alveg öruggt, enda hef ég ekki miklar áhyggjur af því á Micru með 1300 vél.



Ég fer stundum einn hring í þorpinu um leið og ég renni þar í gegn og yfirleitt sleppi ég því ekki að skreppa einn runt niður að "höfninni."



"Jón forseti." Lítill bátur með stórt nafn.



Alveg rétt, Vilko súpurnar eru fluttar á Blönduós. Nokkuð sem Íslendingar hafa sopið í áratugi og þótt bara ansi gott.



Þær röltu í "hægðum sínum" eftir götunni og höfðu svolítið truflandi áhrif á þá litlu umferð sem þarna var, en svo beygðu þær út af malbikinu og allt komst í eðlilegt horf.



Ég var kominn suður í Borgarfjörðinn og þegar ég kom að Grábrók við Hreðavatnsskála mundi ég eftir því að ég hafði ætlað að skreppa upp á þennan hól á suðurleiðinni ef ekki yrði alveg hundleiðinlegt veður. Ég beygði inn á stæðið, læsti bílnum og gekk af stað upp á þessa lögulegu vikurhrúgu. Þegar upp var komið sem tók ekki langan tíma reyndist fleira vera að sjá og meira myndefni bera fyrir augu en ég hafði búist við.



Bifröst blasti þarna við mér svo og Hreðavatnið, Norðurárdalurinn, Skarðshamarsleiðin, Baulan, Hafnarfjallið svo og allur sá fjallgarður sem það tilheyrir. Ég tók eina mynd af gamla Samvinnuskólanum og aðra til vara, en þá kom óvænt melding á myndavélarskjáinn.
"Memorycard full." Þá vissi ég að ég ætti eftir að ganga þarna fljótlega upp aftur, því það að vera myndavélarlaus á stað sem þessum gerði ekki nema í mesta lagi hálft gagn.



Þegar ég ók svo yfir Borgarfjarðarbrúna fann ég hjá mér sterka löngun til að skjóta einu skoti á Hafnarfjallið þar sem það speglaðist í firðinum. Ég valdi því einhverja mynd sem ég taldi að mætti missa sín og eyddi henni til að hafa pláss fyrir Hafnarfjallið í myndavélinni. En Hafnarfjallið er á óskalista sumarsins 2007 yfir þau fjöll sem mig langar til að klífa.

Margt af því sem má sjá hér að ofan kann að virðast ofur hversdagslegt og í sjálfu sér varla nokkur ástæða til að hafa um það mörg orð og hvað þá að taka af því myndir. Sérstaklega er það líklegt til að vera skoðun þeirra sem hafa þetta stórkostlega umhverfi fyrir augum sér alla daga og verða því samdauna því svo ég leyfi mér að nota það orð. En fyrir þann sem kemur á staðinn úr allt öðru umhverfi, beinlínis til að sjá hvað hefur gerst frá því síðast þar sem ræturnar liggja, hljóta að gilda allt, allt önnur lögmál. Fyrir mér er Bakkatjörnin enn hálfgerð nýlunda og endurfundir við gömlu réttirnar fyrir ofan hesthúsahverfið talsverð upplifun. Í hvert einasta sinn sem ég ek fram hjá Ketilásnum rifjast upp einhverjar löngu liðnar stundir og minningarbrot af dansgólfinu, sviðinu eða túninu sem liggur að staðnum. Það er sagt að hver peningur hafi tvær hliðar, en mannlífið í öllum sínum margbreytileika hefur svo miklu, miklu fleiri.

29.05.2007 03:18

Helgafell.

375. Þriðjudaginn 22. maí sl. var ákveðið að fara maíferðina á Sigló. En eins og áður hefur komið fram, var ákveðið fyrir nokkru síðan að stefna á að heimsækja heimabæinn að jafnaði einu sinni í mánuði og það hefur gengið eftir síðan seint á síðasta ári. Tilhlökkunin hafði farið stigvaxandi að undanförnu, en nú var dagurinn runninn upp bjartur og fagur. Undirbúningur var kominn á lokastig og bíllinn meira að segja fullur af bensíni. Allt í einu hringdi síminn og Magnús Guðbrandsson sá ágæti félagi var á línunni.
"Það á að labba upp á Helgafell á eftir, ertu ekki með?"
Þetta kom alveg flatt upp á mig og mér hreinlega vafðist "tunga um höfuð" eins og góður maður orðaði það einu sinni.
"En ég er að leggja af stað til Sigló," sagði ég og það var svolítill sjálfsvorkunnartónn í röddinni.
"Allt í lagi, en það er mæting hjá Kaldárseli kl. 18.30 ef eitthvað skyldi breytast hjá þér."
Það var engu líkara en að Maggi byggist allt eins við því að svo gæti farið.
Nú var eiginlega orðið úr svolítið vöndu að ráða, því ég var kominn a.m.k. hálfa leið norður í huganum. En mér þótti líka illt að missa af þessum "alveg passlega langa" göngutúr með öllu þessu skemmtilega fólki.
Ég hugsaði með mér að ekki yrði bæði sleppt og haldið frekar en yfirleitt, eða hvað?
Tíminn leið, það styttist í deginum og ég varð meira og meira tvístígandi.

Fyrir nokkrum árum hefði mér ekki þótt það vera neitt tiltökumál að sinna því sem þurfti yfir daginn, rölta þennan spotta um kvöldið og aka svo af stað norður í land um nóttina. En eftir því sem á líður verða menn víst hæglátari, skynsamari, jarðbundnari, e.t.v. latari, þreyttari en einnig raunsærri. Svona mætti auðvitað lengi leika sér upp að telja, en það hefur hins vegar ekki reynt á það mjög lengi hvernig gengi að takast á við verkefni sem nú virtist greinilega veri í uppsiglingu.
Það varð því niðurstaðan að rúmlega rétt í meðallagi vel athuguðu máli, að reyna að komast yfir hvort tveggja og sleppa engu. Á tilsettum tíma var ég því mættur upp við Kaldársel og var ekki sá síðasti á staðinn.
Tilgangurinn var sá að klifra upp á bæjarfjall Hafnarfjarðar, - Helgafell.



Gengið var frá Kaldárseli og stefnan tekin rakleiðis á Helgafell.


Hlíðar fjallsins voru miklu brattari en ég hafði haldið.



Sandsteinn.



Gil og skorningar.


Slétt svæði er uppi á fjallinu, en þó ekki alveg efst uppi, því síðasta lotan var enn eftir á tindinn. Klettaveggurinn á suðurhliðinni sést vel á myndinni, en frá brúninni sést vel yfir láglendið í suðri og til Bláfjalla.


Ef rýnt er í myndina sést að hún stendur mjög nálægt brúninni sem rennur svolítið saman við mosavaxið hraunið langt, langt fyrir neðan. Sá hluti vegarins til Bláfjalla sem liggur frá Hafnarfirði er eins og lítill lækjarfarvegur.


En auðvitað hafðist það sem að var stefnt og tindinum er náð. Þar er staldrað við og skyggnst til allra átta. Þó ekki sé eins víðsýnt og var frá toppi Vífilfells fyrir nokkrum dögum, er margt að sjá og það er engu líkara en verið sé að skoða risastórt landakort.


Þarna stóð það svart á hvítu (eða raunar grátt on´í gráu) að Helgafell er 340 metra hátt, og nú var að skrá sig í gestabókina. Eftir svolitla viðdvöl á toppnum var haldið af stað til suðvesturhlíðarinnar, en þar skyldi gengið niður.


Í suðaustri milli Helgafells og Bláfjalla leið ský yfir landið og neðan úr því steyptist úrkoman í formi hagléls.

Það kom einhver gulur, torkennilegur og lítill plastpoki upp úr innkaupapokanum sem geymdi gestabókina. Er þetta hass, spurði einhver og allir skoðuðu innihald hans gaumgæfilega og þefskyn okkar göngumanna og kvenna var hreinlega beitt af alefli í hvers manns nefi. Niðurstaðan var sú að þetta væri eitthvað allt annað án þess að það væri skilgreint nánar.


Ég sá klett sem ekki virtist vera hægt að klifra upp á, og þess vegna varð ég auðvitað að komast þangað upp.



Annar klettur var þarna skammt frá, ókleifur öðrum megin. (Ég segi nú bara sisona.)


Þetta skemmtilega gat var á "fjallsveggnum," en skriða gekk niður frá brúninni og í gegn um það.


Klettar og skriða, mosi og gras. - Ég áttaði mig á því í göngutúrnum að Edda bjó á Siglufirði seint á áttunda áratugnum, eða nánar tiltekið að Lindargötu 20.


Aðeins fyrir ofan okkur lágu mávar (held ég) á hreiðri.



Svo var hort til baka upp í gatið á fjallinu.



Þá varð á vegi okkar plastgerð gerfimús sem er ákaflega sjaldgæf dýrategund í "óbyggðum Hafnarfjarðar." Og nú er þessi stofn annað hvort enn sjaldgæfari eða hreinlega útdauður, því plastgerða gerfimúsin slóst í för með okkur, og hélt til byggða eftir langa og án nokkurs vafa einmanalega útilegu.


Og vegna þess að við komum annars staðar niður af fjallinu en við forum upp, þurftum við að ganga í hálfhring í kring um það til bílanna sem biðu á stæðinu við Kaldársel.


Á leið okkar varð þessi hellir, en hægt var að ganga niður í hann og svolítið undir hraunbrúnina.


Einnig lítið hraunhús sem var hægt að komast inn í og það var með þessum skemmtilega "glugga."


Vatnsverndarsvæðið fyrir ofan Kaldársel er girt af með hárri girðingu. En hún skarast á einum stað svo þar verður til hlið sem aldrei lokast. Girðing með stóru gati eða hvað? Sú kenning var sett fram á staðnum að hún væri bara til að draga úr eða takmarka umferð um svæðið. Þeir sem væru nógu vitlausir til að hvorki sjá né fatta, væru eiginlega hópur sem ætti hvort sem er ekkert erindi inn á svæðið. Ég hafði hljótt um mig og sagði nákvæmlega ekki neitt, því að ég hef aldrei tekið eftir neinu þrátt fyrir að hafa komið þarna mörgum sinnum.



Klukkan var alveg að verða 10, nú var "ævintýri á gönguför" að baki að þessu sinni, en til allrar hamingju aðeins u.þ.b. 10 min. akstur heim á hlað. Það var eiginlega eins gott, því nú styttist í öllu lengra ferðalag sem var Hafnarfjörður-Sigló.

Það er svo rétt að geta þess að miklu fleiri myndir frá ferðinni á Helgafell eru í myndaalbúmi í möppu merkt "Helgafell."

Eftir nokkra daga er áformað að ganga á Keili á Reykjanesi.

22.05.2007 00:57

Logar frá Vestmannaeyjum.

374. Fyrir nokkru síðan var fríhelgi í spilamennskunni og ég átti svolítið spjall við Axel Einarsson gítarleikara á laugardagskvöldi. Hann sagði mér þá að hann ætlaði að rölta yfir götuna og kíkja á Logana sem væru að spila á Kringlukránni þá um kvöldið, en Axel býr vestan Kringlumýrarbrautar gegnt verslunarmiðstöðinni og þá um leið umræddri krá. Ég hváði, því ég vissi ekki að Logarnir frá Vestmannaeyjum væru enn að eftir öll þessi ár.
"Þeir komu saman og gerðu sig klára fyrir nokkur gigg," sagði Axel.
Ég átti fyrst í stað ekki til eitt einasta orð, en svo komu þau bæði í belg og biðu og allt of mörg í senn. Ég talaði um hinar sætu og súru minningar frá því árum áður, mögulega upplifun og endurkomu gamalla minninga. Svo bað ég hann lengstra orða að hinkra svolítið, því ég væri alveg til í að rölta með honum yfir götuna til að hlusta á gömlu goðin og reyna að rifja upp liðnar stundir í Höllinni í Eyjum í leiðinni. Kvöldið hentaði einkar vel fyrir svolítið nostalgíukast, ég gæti bæði alveg hugsað mér að verða svolítið andvaka í morgunsárið og sofa svo fram undir hádegi daginn eftir eins og svo oft var gert í verbúðinni í Ísfélaginu eftir Logaböllin forðum.

Árin 1975 og 76 fór ég til Vestmannaeyja og vann þar í fiski, lengst af í Ísfélaginu en síðast í "Hraðinu" hjá Sigga Einars "ríka." Um helgar voru böll í "Höllinni" sem var aðalsamkomu og ballstaðurinn í Eyjum, en þar spiluðu Logarnir að öllu jöfnu. Þetta voru algjörir ofurtöffarar og "lúkkuðu" með hippalegra móti í þá daga. Þeir voru þá og eru enn mikil "Stones-fön" og héldu ávalt uppi mikilli og dansvænni stemningu.
Nú eru liðin meira en 30 ár frá mögum af mínum lífsins ljúfustu stundum, og meðlimir Loganna hafa elst og þroskast rétt eins og við hin. Þeir eiga það sjálfir til að gera svolítið grín af aldri sínum og heilsufari, og til varð skemmtileg saga um þá (sem ég hef reyndar frá þeim sjálfum) eftir að þrír þeirra höfðu fengið hjartaáfall.

Þeir voru einhvers staðar milli heims og helju, og frekar en að hafa ekkert fyrir stafni spurðu þeir til vegar og bönkuðu þeir upp á hjá Lykla-Pétri til að athuga hvort þeim yrði hleypt inn um Gullna hliðið. Sá gamli kom til dyra og spurði hverjir væru þar á ferð.
"Við erum Logarnir frá Vestmannaeyjum," svöruðu þeir í einum kór og horfðu skælbrosandi framan í gamla manninn með lyklavöldin.
Hann blaðaði í einhverjum gulnuðum skræðum og renndi fingrinum að lokum niður eina blaðsíðuna þar til hann staðnæmdist við eina línuna. Hann leit upp og sagði ábúðarfullur við drengina sem knúið höfðu dyra:
"Farið heim til ykkar aftur og verið þar þangað til ég læt sækja ykkur. Rolling Stones eru langt, langt fyrir ofan ykkur á listanum og þeir eru enn að spila á fullu."



Ég skrapp til Axels gítarleikara og við settumst inn í hljóðverið í kjallaranum, opnuðum eina græna dós og skiptum innihaldinu bróðurlega á milli okkar. Það taldist hæfilegur skammtur að sinni, því það stóð til að mynda Logana í bak og fyrir en alls ekki að hella sé á djammið.

 

Henrý hefur það "fram yfir" félaga sína að hafa fengið tvö hjartaáföll meðan tveir hinna hafa bara fengið eitt og aðrir ekkert. Eftir það fyrra hætti hann að reykja því læknarnir sögðu honum að það gæti skipt öllu máli. Þegar hann fékk það seinna ályktaði hann sem svo að bindindið hefði þá gagnast heldur illa og byrjaði aftur.



Óli Back er hörku góður trommari og hefur greinilega engu gleymt.



Laugi (eitt hjataáfall) spilaði á hljómborðið rétt eins og fyrir 30 árum+ og fyllti upp í lögin með bakkrödd.



Helgi (eitt hjartaáfall) spilaði og söng eins og honum væri borgað fyrir það, enda var það einmitt tilfellið því það kostaði 1800 kall inn.



Hermann Ingi (bróðir Helga) spilar líka á gítar og syngur.



Þetta er nýjasti meðlimurinn sem segja má að hafi fæðst inn í Loganna og heitir Ólafur. Hann er sonur Lauga hljómborðsleikara.



Þessi sagðist hafa verið vélstjóri á bát sem get var út af Ísafold fyrir góðum aldarfjórðungi eða svo. Hann bað fyrir kveðjur til Danna Bald og Ómars Hauks sem ég tel mig nú hafa komið til skila bloggleiðis.



Hún heitir Særún og er frá Siglufirði. Hún sagðist hafa flutt þaðan fyrir meira en 40 árum, en væri nú engu að síður Siglfirðingur.



Ég fann Ása Péturs svolítið inni í skugganum en hann hélt sig vel til hlés við dansgólfið allan tímann en var með kjaftagleiðasta móti.



Og Alla Hauks var þarna líka, en svei mér þá ef hún verður ekki glæsilegri með hverju árinu sem líður.



Þessi maður hver sem hann er, setti sig í stellingar og stillti sér alltaf upp þegar hann sá mig taka upp myndavélina, enda á hann alveg rosalega flottan hatt.



Ég hafði fengið nóg um hálfþrjúleytið og hugði á heimferð. En þá var þegar komin röð þar sem leigubílarnir komu að svo ég rölti upp á Listabraut og náði næsta bíl sem var á leiðinni að Kringlukránni.



Bílstjórinn sem sagðist heita Jón var viðræðugóður og við spjölluðum saman um Logana, kráarmenninguna (eða ómenninguna) á Íslandi, poppið fyrr og nú, og margt fleira. Hann sagði mér að hann hefði verið trommari í nokkrum bílskúrsböndum hér áður fyrr sem sum hver komust út úr skúrnum, og meðal annars spilað með stórgítarleikaranum Friðriki Karlssyni um svipað leyti og hann (þ.e. Friðrik) hefði ásamt félögum sínum stofnað Mezzoforte.

En fleiri myndir frá Logaballinu er að finna í myndaalbúmi, í möppu merkt "Logarnir." En um áramótin síðustu setti ég mér það markmið að heimsækja heimaslóðirnar a.m.k. einu sinni í mánuði að jafnaði, og seinni partinn í dag ætla ég að leggja upp í maíferðina á Sigló.

15.05.2007 03:30

Kvöldsólin og pósturinn sem hvarf.

373. Fyrir nokkrum dögum síðan roðuðu logar kvöldsólarinnar himininn í meira lagi og lituðu hann eldlitunum kvöld eftir kvöld. Svo mikil og afgerandi var litadýrðin að engu skipti hve djúpt ég var sokkinn ofan í sófann fyrir framan imbann, það varð engan vegin undan því vikist að standa upp og gera sér ferð út í litadýrðina og blíðuna til að fanga augnablikið. En eins og þeir vita sem fylgst hafa með sjónarspili slíkra ofurljósgeisla, standa þessir dýrðarinnar tímar oftast ekki yfir nema svolitla stund. Það dugði því ekki að slóra neitt, heldur varð að fara út að skjóta og það með hraði. Svolítið sýnishorn af uppskerunni er svo hér að neðan.

Perlan séð frá veðurstofunni.

Grótta.

Séð yfir Elliðavatn frá Heiðmörk.

Efstu byggðir Kópavogs séðar frá Heiðmörk.

Hafnarfjarðarhöfn sunnanverð.

Hafnarfjarðarhöfn norðanverð.



Horft til Álftaness frá Hafnarfirði.

Hafnarfjörður til norðurs ofan af Hamrinum.

Sólin að setjast ofan á Snæfellsjökul. Myndin er tekin úr hlíð Ásfjallsins.

En að öðru máli... Ég hef verið í vandræðum með póstforritið í tölvunni hjá mér undanfarnar vikur. Í upphafi var hægt að tala um einhverja hnökra sem versnuðu síðan smátt og smátt svo á endanum var allt komið í eina allherjar steik. Mér fannst í fyrstu ég vera farinn að fá óeðlilega lítinn póst sem minnkaði stöðugt eftir því sem á leið og í lokin hætti hann alveg að berast. Á sama tíma var líka sífellt erfiðara að koma tölvupóstinum frá sér og í einhverjum tilfellum tókst það alls ekki og það kom fyrir að það var hringt í mig og spurt um eitt og annað sem átti að vera á leiðinni. "Fráveitan" stíflaðist síðan líka alveg í lokin. Í gær (mánudag) gafst ég upp á þessu fúla ástandi og hitti Siglfirðinginn Jón Pálma hjá Tölvuvirkni, og honum tókst að leysa málið að mestu. Eftir stendur þó að engar sendingar inn og út eru til frá 16. apríl til 14. maí. Þær virðast með öllu horfnar og algjörlega "óínáanlegar." Ef einhver sem les þetta hefur sent mér póst á leor@simnet.is á þessu tímabili, bið ég þann hinn sama að senda það aftur.

11.05.2007 01:48

Úlfarsfell, Vífilfell og fleira skemmtilegt.




372. Ég er á Skoda Oktaviu þessa dagana frá Réttingarverkstæði Jóa (Jóa Valda og Ernu Rósmundar) og kann því mjög vel. Eiginlega langar mig sáralítið að skila þessum öndvegisbíl og Jói má mín vegna alveg taka sér tíma í að laga beygluna á Micrunni eftir jeppann sem rakst utan í mig á dögunum. En síðastliðinn þriðjudag átti ég erindi við byggingarfulltrúann í Mosfellsbæ og heimsótti hann í morgunsárið á Skódanum. En í bakaleiðinni gaut ég augunum á Úlfarsfellið eins og svo margsinnis áður, því mig hefur alltaf langað til að komast á topp þess og sjá hvernig borgarlandið lítur út þaðan. Ég leit á klukkuna og sá að hún var aðeins rúmlega 10 og nægur tími til að slóra svolítið. Ég beygði upp með hlíðum fellsins austanmegin og ók svolítinn spöl meðfram því áður en ég lagði bílnum. Svo rölti ég af stað í sólskininu.



Til marks um hve ferðin sóttist vel settist ég aldrei niður til að kasta mæðinni og stoppaði reyndar ekki fyrr en ég var kominn fram á brúnina sem snéri að Reykjavík. En auðvitað var skýringin sú að þetta var stutt og þægilegt rölt sem átti fátt skylt við það sem yfirleitt er kölluð fjallganga. Enda getur hæðarmunurinn á því sem skilgreint er annars vegar sem fell og hins vegar sem fjall verið talsverður, því mig minnir að miðað sé við 200 metra hæðarlínu eða er það ekki annars?




Ég var ekki svikinn af útsýninu þegar upp var komið. Höfuðborgarsvæðið var yfir að líta eins og landakort.



Húsin í bænum....



...og sundin blá.



Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í þessa áttina.




Og  Mosfellsbær í hina.



Eftir að hafa staldrað við um stund var haldið til baka.




Ég gekk meðfram brúninni austanmegin. Fyrir neðan mig var klettabeltið sem sést á næstefstu myndinni.




Og ég var annað slagið að kíkja ofurlítið fram af.



Húsin fyrir neðan voru eins og lítil leikfangahús.



Og mannfólkið eins og maurar.



Mig svimaði stundum pínulítið, en að lokum var ég kominn niður á jafnsléttu á ný.



Það var komið fram yfir hádegi og næst var að halda áfram með hina fyrirhuguðu dagskrá sem var reyndar ekki ýkja löng fyrir þennan dag.



Eftir svolitlar útréttingar heimsótti ég Gísla Viðar sem er frá Ólafsfirði, í húsið á horni Snorrabrautar og Hverfisgötu þar sem hann rekur hársnyrtistofuna Hárlínuna . Við Gísli höfum setið undanfarið á nokkrum verulega líflegum húsfundum undanfarið, en ég leigi "Tattoo og Skart" húsnæði í þessu sama húsi og er því málið skylt. Gísli hafði boðið upp á skipti á klippingu og eintaki að "Svona var á Sigló" og þáði ég það ágæta tilboð með þökkum, enda kominn tími á með rúningu. Þess er rétt að geta að hann sem er margfaldur Íslandsmeistari í hárskurði, er giftur Guðný Viðarsdóttir (dóttir Kollu Eggerts) frá Siglufirði. Og á meðan toppstykkið var snyrt ræddum við að sjálfsögðu um veðrið, þjóðina í landinu, störf stjórnar húsfélagsins, Gautana á sjöunda áratug síðustu aldar, Héðinsfjarðargöngin, böllin á Ketilási í eina tíð og Fjallabyggð eftir sameiningu svo fátt eitt sé nefnt. En þegar ég var á leiðinni út af Hárlínunni hitti ég hinn eina og sanna Gunnar Þórðarson stórgítarleikara og lagasmið í dyrunum. Og þar sem ég hef ekki hitt Gunnar síðan ég afgreiddi hann síðast á Laugarásvideó þar sem hann var mikill og góður viðskiptavinur, þurfti að sjálfsögðu að taka stutta og snarpa, en létta popp og rokkblandaða umræðu þarna á gólfinu. En nú var kominn tími á matarinnkaupin á heimleiðinni og svo stóð til að fá nýja auðkennislykilinn til að opna mér leiðir inn í bæði nýjar og eldri víddir netbankans. Rosalega er annars langt síðan ég hef komið inn í alvöru banka með útibússtjóra, gjaldkerum, þjónustufulltrúum og svoleiðis.



Sjónvarpsgláp kvöldsins hófst með fréttum sem þróaðist síðan í letilegt "dott." Ég kinkaði nokkrum sinnum kolli með hálflokuð augu, en reisti höfuðið jafnharðan upp aftur með eins og einhver hefði gert mér billt við og leit svolítið flóttalega í kring um mig. Tíminn leið og ég kom smátt og smátt til vitundar á ný en þá var hringt.
"Magnús Guðbrandsson heiti ég," sagði röddin í símanum. Ég glaðvaknaði og hváði.
En þetta var tilfellið. Maggi Guðbrands minn ágæti spilafélagi frá því á árunum um og fyrir 1980 var á línunni, og skömmu síðar var ég lagður af stað í heimsókn út á Álftanesið. Þar tók hann á móti mér ásamt tveimur ferfætlingum sem eiga lögheimili á sama stað.



Þessi að vísu óskráði, en svolítið innskeifi og vængjaði tvífætlinur býr einnig á sama stað. Ég hef alltaf haldið að munurinn á bra-bra og bí-bí væri aðallega fólginn í stærðinni, en það átti ekki við í þetta skiptið. Eftir mikið spjall og upprifjanir frá okkar skemmtilegu árum nyrðra, spurði hann hvort ég hefði áhuga á að koma með í svolitla göngu upp á Vífilfell n.k. fimmtudagskvöld. Ég var nú aldeilis hræddur um það, og þegar liðið var allnokkuð fram yfir miðnætti kvaddi ég þennan ágæta vin minn og hélt heim á leið. Daginn eftir gerði ég mér ferð í Hagkaup í Kringlunni og keypti heppilegan vind og regngalla, því ég taldi mig þurfa að lappa upp á útbúnaðinn, og nú var loksins komið að því að ég hefði einhvern félagsskap í þessu fjallaklifri sem ég hef ánetjast í það allra síðasta og ég var hreint ekki svo lítið kátur með það.



Vífilfellið sem er 655 metra hátt er nyrsti hluti Bláfjallaklasans. Þetta tignarlega fjall gnæfir yfir Litlu kaffistofuna og flugvöllinn á Sandskeiðinu. Það var ákveðið að hittast við rætur þess upp úr klukkan "átján" á fimmtudeginum. Ég var í nýja gallanum, á nýju skónum sem ég keypti í "Sappos" og með nýju göngustafina sem ég fékk í fimmtugsafmælisgjöf frá bekkjarsystrum mínum, þeim stínu Hjörleifs, Oddfríði Jóns, Klöru Sigurðar og Fríðu Birnu Kidda G. Sagt er að einhver annar maður hafi fengið gull, reykelsi og myrru (sumir segja rugl, ergelsi og pirru), en ég fékk hvítvín, rauðvín og göngustafi. Hvítvínið og rauðvínið entust ekkert sérstaklega lengi, en nú var kominn tími til að vígja stafina.
Maggi var hins vegar mættur á undan mér ásamt tveimur vinnufélögum sínum.



Við lögðum af stað og byrjuðum á að fara fram hjá gríðarlega miklum malarnámum.



Við gengum upp hlíðina neðan til í fjallinu á það var svo sannarlega á brattann að sækja.



Síðan tók við ganga yfir allmikla sléttu áður en seinni áfanginn hófst. Þessi myndarlegi snjóskafl varð á vegi okkar sem þurfti að "þvera."



Þeir kölluðu þetta landslag "steindar skjaldbökur" og ég er ekki frá því að það sé bara vel til fundið.



Þarna var rétt eins og skapari fjallsins hefði útbúið lítill pall sem eins konar hvíldarstað fyrir lokaáfangann.



En ég gat alls ekki beðið því ég er stundum svolítið mikið óþolinmóður og lokaáfanginn allt of skammt undan. Ég varð auðvitað að ná toppnum á undan hinum.



Og allir komust þeir upp, og nú var kominn tími á að kíkja aðeins á nestið.



Það var af ýmsum toga eins og sjá má...



Því ýmsar eru fóðurþarfir mannanna svo og smekkur þeirra...



Þarna erum við Magnús ásamt einum ferðafélaganum.



Okkur varð öllum starsýnt á allt víðsýnið.



Og fannst við vera á vissan hátt hærra settir en flestir aðrir.



Allar myndavélar fóru á loft þegar upp var komið.



Sumir skoðuðu landið úr "svolítið háþróaðri og nærdragandi sjónglerstækjum."



Þarna er horft í norður ofan á Reykjavík og nágrenni. En vel sást til Snæfellsjökuls, Akraness, Akrafjalls, Skarðsheiðar og Esjunnar.



Svo er horft til suður þar sem Þorlákshöfn virðist vera skammt undan.



Hellisheiðin er langt fyrir neðan okkur. Fjallið vinstra megin er Skálafell en hægra megin Meitillinn. Í fjarska og u.þ.b. fyrir miðju glittir í Eyjafjöllin og Eyjafjallajökul, en ég hugsa oft og mikið til Víkur og Mýrdalsins sem er enn austar, og ein allra, allra fallegasta sveit landsins. Þar er hægt að skemmtilegum myndum á góðum degi af hinu sérstaka landslagi sem prýðir þennan landshluta, og þangað ætla ég að fara í sumar. Við sáum líka Langjökul, Heklu, og fleiri athyglisverða staði ofan af fjallinu, en vegna þess hvað það var mikið mistur náðust engar "skynsamlegar" myndir af þeim. Einnig gægðust Vestmannaeyjar upp úr haffletinum og minntu á tilveru sína þó að mér sé hún bæði vel og að góðu kunn. Í vestrinu gátum við svo horft niður á kollinn á Keili og langleiðina til Keflavíkur. Ég hafði á orði að Keili hefði mig langað til að klífa en hann væri víst bara einhver risahundaþúfa. Mér var þá sagt af þeim sem reynt hafa að hann væri erfiðari en hæðin segði til um því hann væri svo "laus í sér.



En nú var kominn tími til að "lækka flugið" og halda af stað heim á leið og Magnús tekur til stafanna.



Það er ekki endilega alltaf auðveldara að fara niður brattann en upp. Það fengum við að reyna í þetta skiptið.



Það var farið að verða svolítið kvölsett þegar lokaáfanginn var eftir á leiðinni niður að bílunum í malarnámunni, en menn voru bæði þreyttir og kátir í senn yfir framtakinu.



Svo varð ég auðvitað að mynda hjálpartækin í sínu rétta umhverfi sem reyndust mér svo vel í ferðinni.

Ég var á dögunum að gera svolítinn óskalista yfir þá staði sem mig langar að heimsækja í sumar, og eftir nokkrar vangaveltur varð til eins konar topp-tíu listi. Hann er ekki settur fram í tímaröð, heldur er frekar um að ræða upptalningu frá norðri til suðurs, því líklegt þykir mér að Mýrdalurinn, Esjan og Hafnarfjall verði t.d. á undan Hólshyrnu í tímaröðinni þegar af stað verður farið.

Hólshyrnan (hressilegur labbitúr með Steingrími og myndavélunum okkar.)
Héðinsfjörður yfir Hestsskarð (en þangað hef ég aldrei komið.)
Illviðrishnjúkur (því ég átti enga myndavél síðast þegar ég fór)
Selvík og Kálfsdalur (sem þangað kom ég síðast fyrir 40 árum.)
Hafnarfjall (til að ná góðri mynd af Borgarnesi.)
Akrafjall (til að ná góðri mynd af Akranesi.)
Esjan (til að geta sagt að ég hafi farið þangað upp, og til að ná góðri mynd af Reykjavík.)
Reykjaneshringurinn (því það er fulllangt síðan síðast.)
Virkjanaleiðin upp eftir Þjórsá (til að telja hvað virkjanirnar eru margar, eða til að reyna að átta sig á hvað þær gætu hugsanlega orðið margar.)
Vík og Mýrdalurinn ásamt næsta nágrenni (því þar er bæði landið fagurt og fólkið gott.)

Það er svo rétt að geta þess að fleiri myndir eru á Ljósmyndasíðunni í möppu merkt Úlfarsfell og Vífilfell.

Svo er bara að sjá til hvað verður búið og gert og hvað ekki þegar haustið nálgast...

06.05.2007 04:05

Siglfirðingar á förnum vegi.


371. Þegar ég á lausa stund og finn þörf hjá mér að blogga svolítið en man ekki eftir neinu sem mig langar til að taka fyrir, hefur það reynst óbrigðult ráð að skoða nokkrar myndir úr hinu sístækkandi stafræna ljósmyndasafni. Bæði hef ég smátt og smátt verið að skanna hinar eldri, og svo tek ég allt frá 200 og jafnvel upp í 400 nýjar myndir í hverjum einasta mánuði.

Þegar ég var á dögunum að skoða mig um í möppunni sem merkt er "Ljósmyndir," datt mér í hug að taka saman nokkrar myndir af Siglfirðinum sem ég hef kynnst (að vísu misvel) í gegn um tíðina. Suma er ekki ólíklegt að hitta fyrir á góðum degi á röltinu við Ráðhústorgið, en aðra rekumst við á fjarri heimahögunum. Flestir eru þessa heims, en einhverjir hafa tekið sér far með ferjumanninum dularfulla sem flytur okkur öll að lokum yfir fljótið mikla.

Myndirnar sem eru teknar við ýmsar aðstæður og á ýmsum tímum (sólarhringsins,) endurspegla sumar hverjar staðinn, stundina og kringumstæðurnar. Þess vegna þykir mér rétt að benda þeim á sem vilja ekki sjá sjálfa(n) sig í þessu safni að hafa samband netleiðis í leor@simnet.is eða í 863-9776, og ég mun þá láta vikomandi hverfa með það sama ef vilji þeirra stendur til þess.

Hér að neðan getur að líta svolítið sýnishorn af því sem sjá má ef farið er inn á Myndaalbúm í möppu sem merkt er Siglfirðingar á förnum vegi. Afgangurinn skýrir sig sjálfur og frekari orð því með öllu óþörf.













































+



















































































































Og eins og áður er sagt er þetta aðeins svolítið sýnishorn af því sem sjá má ef farið er inn á Myndaalbúm í möppu sem merkt er Siglfirðingar á förnum vegi.

04.05.2007 03:06

Meðan bærinn sefur...



370. Meðan bærinn sefur, gerist margt undarlegt sem enginn sér?

02.05.2007 18:19

Barnapía.



369. "Geturðu passað afabörnin í smá stund?"
Það var hún Arna Rut sem var í símanum.
Mér finnst hið bestra mál að geta orðið að liði á slíkum stundum og auðvitað vildi ég það.
En það er auðvitað spurning hvort ég kann að vera barnapía, því maður ryðgar nú í þeim fræðum eins og öðrum þegar árin líða.
"Jú, jú, á ég að koma strax?"
" Nei komdu klukkan hálffjögur. Þú getur bara farið með þau í bíltúr."
Við vissum bæði hvað það þýddi og þessi hvatvísa og ófeimna stelpa hló glettnislega og spurði hvort ég myndi nokkuð gleyma hvað tímanum liði, en ég kvaðst vilja láta reyna á hversu mikið eða lítið kalkaður ég væri orðinn.
Ég klikkaði ekki á mætingunni, a.m.k. ekki að þessu sinni, og stólunum var komið fyrir í aftursætinu á Micrunni og svo var lagt af stað í bíltúrinn.
Og eins og búast mátti við leið ekki á löngum tíma þar til allt var orðið hljótt í aftursætinu. Það þurfti því ekki mikið fyrir hlutunum að hafa og það dróst að ég yrði kallaður til baka, en þegar það gerðist fannst mér sanngjarnt að koma við í næstu sjoppu og versla eins og tvo frostpinna svona rétt fyrir kvöldmatinn, því það hlýtur að vara gott að vakna við slíkt. En svo lendir það auðvitað á foreldrunum að koma útsofnum afkvæmum sínum í ró skömmu síðar...



Afabörnin eru hins vegar að öllu jöfnu hinir mestu fjörkálfar og miklir orkuboltar...

29.04.2007 14:31

Hljómborðið sem dó...


368. Enginn veit sína ævina, allt er forgengilegt eða ekkert varir að eilífu. Eitthvað af þessu gæti átt við um hljómborðið sem hefur fylgt mér á ótal ferðalögum síðustu árin, jafnt stuttum sem löngum, óvæntum sleazy-uppákomum sem vel undirbúnum og dönnuðum mannamótum, ýmist þar sem allir eru í svart/hvítu eða gallbuxum og lopapeysu. Getur verið að hægt sé að tengjast tilfinningaböndum fjöldaframleiddum svörtum og ílöngum kassa, fullum af tæknidóti sem ég kann ekki einu sinni að nefna. Ég bara veit ekki.



Solton MS-60

Ég keypti Solton MS-60 af vini mínum Birgi J. Birgissyni fyrir nokkrum árum, og kaupverðið var hundarðþúsundkall. Þá hafði hann átt gripinn í nokkur ár og notað hann mikið, því hann hefur verið síspilandi síðan ég kynntist þessum ágæta dreng. Hann sagði mér að þetta hljómborð hefði líklega ferðast meira en allt annað hljóðfærakyns sem hann þekkti til. USA, Spánn, Frakkland, Luxemburg, Danmörk, Svíþjóð, Færeyjar og margt fleira sem ekki kæmi upp í hugann í augnablikinu. Auk þess hefur það farið marga hringi í kring um skerið okkar og staldrað við á flestum stærri þéttbýliskjörnum og mörgum hinna minni. En Birgir hefur sjálfur ekkert slegið af þessi 17 ár sem við höfum þekkst. Hann hefur spilað með Sálinni, Upplyftingu, Þúsund andlit, 8-villt auk óteljandi tríóa og dúóa ásamt því að hafa lengst af rekið hljóðver og staðið fyrir útgáfu á tónlist.

Fyrir nokkru fór tónninn að verða svolítið óhreinn í gömlu græjunni, rétt eins og einhver snúra næði ekki nægilega góðu sambandi eða eitthvað í þá áttina. Þetta var mjög lítið í fyrstu og allt að því illgreinanlegt, en suðið eða surgið færðist smátt og smátt í aukana. Svo fór að við svo búið varð auðvitað ekki unað, og ég fór með Solton MS60 á verkstæði. Reikningurinn var sautjánþúsundkall, en nokkrum helgum síðar fannst mér ég heyra þetta aukahljóð aftur og þá bankaði ég létt ofan á gripinn og það hvarf. Enn leið tíminn og surgið kom aftur og var nú greinilegra en nokkru sinni fyrr. En þess utan þurfti ég að kveikja og slökkva nokkrum sinnum til að fá allt til að virka, því hið skelfilega orð "error" átti það orðið til að birtast á skjánum í upphafi leiks. Það er vart hægt að lýsa því með orðum hvernig sú tilfinning virkar á spilarann þegar kveikt er á græjunum og salurinn er að fyllast af fólki sem vill fá að heyra hvað karlarnir á pallinum kunna og það strax. Hjartað slær örar og sleppir jafnvel eins og einu slagi úr, andlitið hitnar, litlar svitaperlur myndast á enninu og það er engu líkara en nýbúið sé að taka inn eitthvað mjög svo hægðalosandi. Það var því farið öðru sinni með borðið á verkstæði. Reikningurinn var fimmtánþúsunkall og þar virkaði aftur. Nú hlyti þetta að verða í lagi, en skömmu síðar var útséð um að sá draumur rættist. Surgið kom aftur, ég þurfti að kveikja og slökkva til skiptis mun oftar en áður til þess að "error-meldingin" hyrfi af skjánum og það kom nokkrum sinnum fyrir að í miðju lagi fraus einhver nótan þannig að hún hljómaði endalaust. Einnig fannst mér eins og hljómurinn væri allur að verða einhvern vegin horaðri eða þynnri. Ég hafði sett mér það sem markmið að láta þetta ágæta hljómborð duga mér meðan ég dugaði sjálfur, því óvíst er hversu miklu lengur karlar á mínum aldri eiga eftir að verða gjaldgengir í bransanum. En þar sem nokkur eftirspurn er enn fyrir hendi, var ég að þessu sinni óvenju sáttur við að játa mig sigraðan og fór að leita að arftakanum.


Tyrus-1

Ég nefndi þetta ólán við vin minn Birgi, en hann sagðist nú aldeilis kunna lausnina á vandræðum mínum.
"Ég var einmitt að fjárfesta í nýju hljómborði og þarf að selja gamla eins og síðast. Það er ekkert mjög mikið notað og þú færð það á fínu verði plús "námskeið" í kaupbæti." Kaupverðið var aftur hundraðþúsundkall og á fimmtudegi heimsótti ég hann og sat með honum yfir hljómborðinu í þrjá tíma samfleytt og braut heilann eins mikið og ég taldi hann þola. Hann fór yfir allt það sem ég varð að kunna til að geta byrjað að nota það af einhverju viti, því ég átti að spila á Gullöldinni kvöldið eftir.
"Allt hitt lærirðu bara svona smátt og smátt af reynslunni og sjálfum þér," bætti hann við og ég borgaði og fór heim með Tyrus-1.

Síðan hef ég notað Tyrusinn og er farinn að mynda ný tilfinningatengsl.



Birgir Jóhann Birgirsson í Hljóðverinu sínu.

26.04.2007 18:38

Saumaklúbburinn.


367. Ég fór í "saumaklúbb" í gær. En í raun er líklega ekki um hefðbundinn saumaklúbb að ræða, heldur er frekar gert út á að viðhalda hinu góða sambandi sem stelpurnar í árganginum komu á eftir að hafa fluttst af heimaslóðum. Þannig er að flestar þeirra búa nú orðið á höfuðborgarsvæðinu, en strákarnir hafa miklu frekar orðið eftir fyrir norðan svo skrýtið sem það nú er. Kannski er það ekkert skrýtið því algengt bæði var og er enn að eftir að unglingar sem þurfa að fara úr fámenninu í framhaldsskóla, snúa þeir allt of sjaldan aftur þar sem markaður fyrir menntað fólk er víðast mjög takmarkaður. Og víst er að stelpurnar í okkar bekk voru yfirleitt sýnu betur gefnar en við strákarnir, og á því eru líklega engar undantekningar. Þær gengu því frekar menntaveginn, en við strákarnir sátum eftir. Skyldi annars eitthvað íblöndunarefni hafa verið sett í drykkjarvatn bæjarbúa árið 1955? "Klúbburinn" er haldinn til skiptis hjá meðlimum hans og nú var komið að Gunnu Sölva. En þar sem auðveldlega má flokka slíkt sem eins konar "afbrigði," þar sem Óttar Bjarna úr sama bekk er bóndi Gunnu. Var því farin sú leið að hóa í Þórð Þórðar og síðan mig til að "lita" stelpuklúbbinn svolítið. Hugmyndin þróaðist frekar því Þórður er listakokkur, Óttar er bakari eins og flestir vita, en ég er reyndar ekki neitt en það er nú annað mál. Ég mætti snemma á staðinn ef hugsast gæti að ég gæti orðið að liði við undirbúninginn, en það kom reyndar á daginn að ég reyndist ekki vera hæfur til neinna verka. Þórður eldaði dýrindis krásir; hreindýrabollur, skötusel og einhvern mega-saltfiskrétt sem er engan vegin hægt að lýsa með orðum. Óttar bakaði m.a. þá bestu súkkulaðiköku sem ég hef á ævinni bragðað, og hef þó goggað í eitt og annað í allnokkrum sætabrauðsbúðum. En ég gerði sem sagt fátt annað en að horfa á þá félaga undirbúa kvöldið og tefja fyrir þessum galdramönnum.



Álfhildur, Stella, Fríða Birna, Klara, Jóna, Óttar, Stína, Dóra, Ég, Gunna, Þórður og Oddfríður eru á hópmyndinni, en á hana vantaði Elenóru því einhver varð að fórna sér og taka myndina. Ég greip því til þess ráðs að galdra hana inn í hægra hornið neðan til, því við hin getum að sjálfsögðu ekki án hennar verið.

Samkvæmisljónið Óttar Bjarna horfði á mig með undarlegum svip eins og sést, og mér datt svona rétt í hug að hann vildi ekki að ég tæki mynd af honum með fullan munninn. En auðvitað var það bara tóm vitleysa svo ég smellti af og glotti aulalega.

Þórður Þórðar er óborganlegur kokkur, skemmtikraftur og vélstjóri á Mánaberginu í hjáverkum. Eiginlega get ég leyft mér að segja að á þessari mynd hafi ég fangað eitt lítið andartak og náð honum "fyrir nesið."

Því er svo við að bæta að 123.is kerfið liggur niðri að hluta laugardaginn 28. apríl, svo ekki er alveg víst að allir geti gert það sem hugurinn stendur til þann daginn. Var reyndar búinn að skrifa langan og mikinn pistil (Home alone 2) sem ég við nánari athugun þori ekki að birta af ótta við refsiaðgerðir. Ég ætlaði líka að skreppa norður á Sigló einhvern næstu daga, en hef frestað því fram yfir sauðburð vegna anna.

23.04.2007 02:37

Allt sem ég hef misst.



366. Talandi um hljómsveitina Sviðna jörð í síðasta pistli?

En það eðalband (sem er til í alvörunni fyrir þá sem ekki vita) skipa þeir Freyr Eyjólfsson, Magnús R. Einarsson, Hjörtur Howser, Ragnar Sigurjónsson og Einar Sigurðsson, en hljómsveitin gaf út plötuna "lög til að skjóta sig við" fyrir síðustu jól. Þarna er sem sagt valinn maður í hverju rúmi, en það er hins vegar gert út á undarlegri og óhefðbundnari tónlistarmið en tíðkast yfirleitt. Þessir "drengir" spila sveitatónlist, en aðeins með afar sorglegum textum. Við Axel tókum eitt lagið að okkur um nokkurra vikna skeið og spiluðum það talsvert á mannamótum, því okkur þótti textinn bæði sorglega fyndinn en með yndislega súrsætum undirtón.

Heimspekilegar vangaveltur um lífshlaup mannanna eru ekki alltaf eins stórkostlegar og glamúlkenndar og lesa má í glanstímaritum á læknabiðstofum. Betra væri að hinn einfaldi og oft á tíðum svolítið beiski sannleikur fengi að njóta sín svolítið hreinni og ómengaðri en hann er svo oft framreiddur. Það búa nefnilega ekki allir í glæstum höllum við endalausa hamingju í hvívetna, - því miður. Ég hef grun um að fleiri en þeir sem vilja gangast við því sjái sjálfa sig svolítið í ljóðlínunum hér að neðan eða a.m.k. á milli þeirra, - alla vega geri ég það.

Allt sem ég hef misst.

Bjarnafjörður, Barmahlíð, Búðir, Lómagnúpur,
Dynjandi og Dimmuborgir, Djúpavík og Núpur.
Arnarstapi og Ólafsvíkurenni,
og allir þessir staðir sem ég heimsótti með henni.
Kátt var á hjalla, - er ég kom til ykkar fyrst,
allt minnir mig þá mest á, - allt sem ég hef misst.

Að vakna að morgni, malla kaffi, mogganum hennar fletta,
sjá það þarf að taka til tár á blöðin detta.
Skæla svo eins og skrúfað væri frá krana,
jafnvel myndin í speglinum minnir á hana.
Andavaka um nætur, - með enga matarlist,
það eina sem ég hugsa um, - er allt sem ég hef misst.

Að ráfa um í reiðuleysi rétt eins og dæmdur maður,
finnast íbúðin auð og tóm og andstyggilegur staður.
Særður og lúinn og samviskubitinn,
en er far við vaskinn eftir varalitinn.
Þær yndislegu varir, - fæ ég aldrei framar kysst,
og ekkert var eins dýmætt, - og allt sem ég hef misst.

Bjarnafjörður, Barmahlíð, Búðir, Lómagnúpur,
Dynjandi og Dyrhólaey, Dritvík og Núpur.
Arnarstapi og Ólafsvíkurenni,
ég heimsæki ykkur aldrei aftur með henni.
Hjarta mitt er soltið, og sál mín er þyrst,
og alls staðar eru minningar um, - allt sem ég hef misst.

Það er engu líkara en að lofthugarnir Magnþóra og Ketilbjörn sem felldu hugi saman þegar þau voru bæði á erfiðum aldri og langaði til að verða þjóðlegir "framtíðartreflar" þessa lands og tilheyra "lopapeysuliðinu," hafi raðað saman þessum ljóðrænu línum sameiginlegum minningum sínum til dýrðar og vegsemdar. En það átti því miður ekki fyrir þeim að liggja að upplifa drauminn saman. Þau tóku einhvers staðar vitlausa beygju á lífsins göngu, settu sig niður í sitt hvorn landsfjórðunginn, áttu börn og buru og árin liðu hjá. Þegar fór svo að síga á seinni hlutann, vaknaði gamli draumurinn aftur hjá þeim báðum svo að segja samtímis. En aðstæður þeirra buðu ekki lengur upp á að þau höndluðu hamingjuna saman og þau gerðust því einmanna "skúffuskáld" með eirðarlítið blik í auga það sem eftir var þessarar jarðvistar. Sagt er að þau hafi aldrei náð saman og eða gengið í eina sæng, en upplifðu nostalgíuna upp aftur og aftur sitt í hvoru lagi. En þegar æfikvöldið nálgaðist eignuðust þau bæði gsm og lærðu að senda sms. Þau skiptust síðan á smáskilaboðum af sitt hvoru elliheimilinu allt fram undir þann sorglega tíma þegar allir hafa gleymt öllu.

19.04.2007 00:25

Bruni í miðbæ Reykjavíkur.



365. Ég átti leið um miðbæ Reykjavíkur um svipað leiti og fréttir bárust af brunanum á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Ég staldraði við og smellti af þó nokkrum myndum sem eru komnar í myndaalbúm. Rétt áðan fékk ég svo sent eftirfarandi sms sem ég sendi áfram til nokkurra útvalinna.

Hljómsveitin "Sviðin jörð" leikur fyrir dansi í kvöld á veitingastaðnum "Pravda."
Logandi heitur kebab og orkudrykkurinn BURN fylgja hverjum miða.
Eldheit stemming.
Athugið að staðurinn er ekki reyklaus.

Svo mörg voru þau orð...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 111
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477243
Samtals gestir: 52735
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 05:38:59
clockhere

Tenglar

Eldra efni