25.06.2009 01:58
Norðurferð í júní - annar hluti
574. Það var þann 3. dag júnímánaðar að við Haukur Þór áttum leið um Skagafjörðinn og til tilbreytingar datt okkur í hug að aka Blönduhlíðina. Ég fór að segja honum frá gömlu brúnum yfir Héraðsvötnin sem þóttu mikil samgöngumannvirki á sínum tíma. Það varð til þess að við stöldruðum við og röltum niður að austari brúnni yfir vötnin gegnt Varmahlíð.
Hauki fannst brúin mjó og hafði á orði að varla hefðu aðrir bílar rúmast á svona mjórri brú en litlir fólksbílar, en þannig var nú aldeilis ekki. Þarna fóru um allar þær rútur svo og flutninga og vörubílar sem áttu leið um héraðið, en það er hins vegar annað mál að mikil stærðarmunur er á slíkum ökutækjum þá og nú .
Ég rakst á gamla bókun frá Sýslufundi í Skagafirði sem haldinn var 10-13 mars 1903, en í þá daga var algengt að slíkir fundir stæðu yfir í 2-4 daga en mun lengra var á milli þeirra þá en síðar. Ástæður þess munu hafa verið erfiðar samgöngur og tafsamar.
Veittur 50 kr. styrkur til að koma á kláfdrætti á Kökulsá eystri, en jökulhlaup í ánni í vetur hafði tekið kláfinn.
Veitt allt að 600 kr. til vegagerðar milli Framnes og Brekkna í Akrahreppi. Veitt allt að 400 kr. til að gera við veginn frá Kolkuósi að Hólum svo hann verði fær með kerrur; til þessarar vegagerðar hefur Flóvent Jóhannson á Hólum boðið að leggja fram 100 kr. og hreppsnefnd Hólahrepps allt hreppsvegagjaldið þetta ár.
Hallgrímur Þorsteinsson ráðinn verkstjóri við sýsluvegavinnu næsta vor.
Skorað á þingmenn sýslunnar að útvega 2.000 kr. styrk úr landsjóði til vegagerðar frá Hofsós fram að Stóru-Ökrum gegn jaf miklu framlagi frá sýslunni.
Brúarsjóðsgjald.
Samþykkt að leggja 20 aura brúarsjóðsgjald á hvert lausafjárhundrað og hvern verkfæran mann.
Tölulegar stærðir voru greinilega með öðrum hætti á þessum tíma.
Þarna er flest eins og ég man eftir því nema kofinn sem hliðvörðurinn hélt til í yfir sumarmánuðina er horfinn og var það reyndar löngu áður en brúin var aflögð. En þegar ég fór þarna mínar fyrstu ferðir á Barnaskólaárunum voru Héraðsvötnin auðvitað heppilegur tálmi að því leytinu að þau nýttust afar vel sem sauðfjárveikivarnarlína. Frá sauðburði og fram yfir réttir var búandi hliðvörður í litlum kofa við brúarsporðinn að austan verðu sem opnaði og lokaði hliði fyrir þeim bílum sem þarna áttu leið um. Áður en brúin kom til mun hafa verið þarna sams konar dragferja og við ósa Héraðsvatna, en mjög vel gerða og greinargóða lýsingu má finna á slíku samgöngutæki á vef Skagafjarðar.
Dragferjan á vestri Héraðsvatnaósnum í Skagafirði er 12 ál. lengd að ofan og tæpar 6 ál. á breidd; stefni í báðum endum með nokkrum lotum. Botninn, 10 ál. á lengd og hér um bil 3½ á breidd um miðjuna, er "stokkbyggður" úr 1½ þuml. borðum og "kalfatrað" neðan í allar fellingar með stálbiki yfir (botninn náttúrlega marflatur). Ofan í botninum eru böndin úr 2 þuml. plönkum með fullri breidd. Utan á botninn er svo súðbyrt úr 1¼ þuml. borðum neðst og 1. þuml. borðum að ofan, 7 umför, en töluverð kringing eða áhlaup er á þeim öllum, af því þau eru undin frá báðum endum til að fá útlagið (skábyrðing) sem mest um miðjuna, svo að ferjan yrði skerstöðug; dýptin á sjálfum ferjuskrokknum, þegar lögð er þverslá yfir hann, er þannig ekki meira en nálægt 20 þuml. Böndin í hliðunum eru úr 3 þml. plönkum og ganga allstaðar niður í botnborðin við hlið botnplankanna. Ofan á byrðinginn kemur skjólborð. 3 borðbreiddir eru flettu, og ganga stytturnar innan í því niður í byrðinginn eins og á þilskipum. Skjólborð þetta stendur mikið til lóðrétt upp og eru í báðum hliðum um miðjuna dyr í gegn um það með vel sterkum stuðlum (fullkomin plankabreidd) til beggja hliða, er ná nokkuð upp fyrir skjólborðið, og eru í dyr þessar gerðir hlerar, tæpar 2 ál. á hæð, sem leika á þreföldum, mjög sterkum járnhjörum að neðan. Þegar hlerum þessum er hleypt niður, mynda þeir bryggju til að fara á upp í ferjuna og út úr henni við bæði löndin, en meðan yfrum er dregið, er þeim krókað upp að dyrastuðlunum. Nálægt endanum á hlerum þessum er lítið hjól í annarri röðinni, er trássa leikur í, svo léttara sé fyrir ferjumanninn, að draga hlerann upp og hleypa honum niður. Í framstafni ferjunnar er vinda og 1 sveif á afturenda hennar, sem snúið er til beggja hliða, eftir því, hvort farið er austur eða vestur yfir ósinn. Vinda þessi er upphækkandi til beggja enda, með 2 brögðum utan um sig af dráttarfærinu, og hlaupa brögðin jafnhraðan að miðjunni þegar snúið er, en dráttarfærið leikur í hjólum ofan á keipnum báðum megin við, eða réttara sagt milli tveggja hjóla hvoru megin, sem liggja lárétt á keipnum og snúa röðunum saman innan í hlýranum, svo þó ferjan dragist hálf-skakkt yfir - sem að öðru leyti horfir beint í strauminn þegar hún liggur kyrr - þá liggja þó brögðin beint frá vindunni út á keipinn. Á báðum löndum eru 3 ál. háir trébúkkar og í þá er dráttarfærið fest; aftur af þessum búkkum, sem þá að öðru leyti eru fylltir með grjóti, eru 2 stagir úr járnþráðakaðli, 5 faðma langir hvorum megin, er liggja á ská, svo þeir halda á móti átakinu af dráttarkaðlinum, hvort sem það kemur ofan frá eða neðan frá (það kemur nefnilega oft mikill innstraumur í ósinn), en endarnir á þessum vírstögum eru þannig festir í sandinum, að grafin eru niður þvertré, sem þeir standa í gegnum, og borið grjót á þau að ofan. Stagir þessir mega ekki vera úr hampkaðli, af því væta og þurrkur hefur svo mikil áhrif á, að gera hann slakan og stirðan. Dálítið fram í vötnin er lagt akkeri með hlekkjum og kaðli við; kaðlinum er haldið ofan á vatninu með duflum, og er sá kaðall ætíð fastur í ferjunni, þegar hún ekki er brúkuð, til að varna því, að hún fari út úr ósnum, ef dráttarfærið kynni að bila, og fleira er gert til tryggingar, t.d. að ræði eru á ferjunni og árar til taks að bjarga sér að landi með, ef dráttarfærið kynni að bila, meðan verið er að ferja. - Dráttarfærið er 2 þuml. kaðall, og var áformið upphaflega að það yrði tvöfalt, þannig, að endarnir væru festir í stefnið á ferjunni frá báðum hliðum og það léki svo í blökkum á búkkunum, en straumþunginn lagðist þá svo mikið í kaðalinn, að erfitt var að snúa sig yfir með vindunni, enda þykir það nú helsti ókosturinn, að nokkuð er þungt að snúa sig yfir með vindunni, þó að dráttarkaðallinn sé að eins einfaldur, og er því búið að fá spilhjól með "drífara", er verður sett í ferjuna á næsta vori. - Í afturendanum er dálítið upphækkað innra fóðrið og þar eru bekkir settir til að sitja á, en allur miðpartur ferjunnar er ætlaður fyrir hestana, og voru þeir hafðir þar 8 í einu, þegar mikið var að flytja, enda var það sögn ferjumannanna, að umferðin hefði verið þar fullum helmingi meiri yfir ósinn næstliðið sumar en nokkurn tíma hefði áður verið. Allt járn í ferjunni og umbúnaðinum er galvaníserað.
Hraunum 23. febr. 1893. - E. B. Guðmundsson.
Og þar sem við vorum í nágrenninu datt okkur í hug að kíkja við á Flugumýri hjá litlu systir og sníkja kaffi. Það stóð ekki til að staldra lengi við á þessum ágæta stað, en oft er það svo að ekki ganga allar áætlanir eftir. Þannig varð það einnig að þessu sinni og var farið að styttast verulega í deginum þegar við fórum að hugsa til heimferðar.
Sú spurning kom upp hvernig nafn bæjarins væri til komið og ég svaraði því til að líklegt þætti mér að þarna hefður verið miklar mýrar og líklega þá í leiðinni mikið um hvimleiða flugu.
Margrét leiðrétti mig og sagði mér hið rétta um málið en þær upplýsingar má finna í Landnámu en þar segir:
Þórir dúfunef var leysingi Yxna-Þóris; hann kom skipi sínu í Gönguskarðsárós; þá var byggt hérað allt fyrir vestan. Hann fór norður yfir Jökulsá að Landbroti og nam land á milli Glóðafeykisár og Djúpár og bjó á Flugumýri.
Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárós hlaðið kvikfé, en mönnum hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt. Þórir dúfunef keypti þá vonina og fann síðan en það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.
Örn hét maður; hann fór landshorna í millum og var fjölkunnigur. Hann sat fyrir Þóri í Hvinverjadal, er hann skyldi fara suður um Kjöl, og veðjaði við Þóri, hvors þeirra hross mundi skjótara, því að hann hafði allgóðan hest, og lagði hvor þeirra við hundrað silfurs. Þeir riðu báðir suður um Kjöl, þar til er þeir komu á skeið það, er síðan er kallað Dúfunefsskeið. En eigi varð minni skjótleiksmunur hrossa en Þórir kom í móti Erni á miðju skeiði. Örn undi þá svo illa við félát sitt að hann vildi eigi lifa og fór upp undir fjallið er nú heitir Arnarfell og týndi sér þar sjálfur, en Fluga stóð þar eftir því að hún var mjög móð.
En er Þórir fór af þingi fann hann hest föxóttan og grán hjá Flugu við þeim hafði hún fengið. Undir þeim var alinn Eiðfaxi er utan var færður og varð sjö manna bani við Mjörs á einum degi, og lést hann þar sjálfur. Fluga týndist í feni á Flugumýri.
Og það má bæta því við að ennþá mótar fyrir pytti þeim sem Fluga er sögð hafa sokkið í þó hann sé fyrir löngu orðinn þurr eftir að land hefur verið ræst. En bærinn var landnámsjörð en síðan mikið höfðingjasetur og þeim sem til þekkja þarf ekki að blandast hugur um að svo er enn.
Löngu áður en Ingimar og Margrét hófu sinn búskap á þessum merka stað, réð þar húsum Gissur Þorvaldsson Jarl sem Hákon "gamli" Hákonarson Noregskonungur skipaði jarl yfir Íslandi og var sá sem hafði meiri aðkomu að "gamla sáttmála" en flestir aðrir. Gissur átti um tíma í illdeilum við Sturlunga og má með réttu segja að Flugumýrarbrenna hafi verið beinlínis afleiðing Örlygsstaðabardaga svo og aðkomu Gissurs að vígi Snorra Sturlusonar.
Eftirfarandi fann ég á vef Lundarskóla á Akureyri, en leyfði mér að bæta nokkrum smáatriðum við það.
Gissur reyndi að sættast við Sturlunga og stofnaði í því skyni til hjúskapar milli Halls sonar síns og Ingibjargar dóttur Sturlu Þórðarsonar sem þá var aðeins 12 ára gömul, en brúðkaupið var haldið á Flugmýri.
Nóttina eftir að gestir fóru komu frændur Sturlunga þeir Eyjólfur ofsi Þorsteinsson sem Þórður Kakali Sighvatsson hafði sett yfir Skagafjörð og Hrani Koðránsson sem hann hafði sett yfir Eyjafjörð, og lögðu þeir eld í húsin. Létust þar 23 úr röðum Gissurar eftir frækilega vörn, en þar á meðal voru synir hans þrír og eiginkona. Sjálfur komst Gissur undan brennumönnum á mjög hugvitssamlegan hátt.
"Gissur gekk í búrið og sá þarhvar skyrker stóð á stokkum í búrinu. Þar hleypti hann sverðinu Brynjubít ofan í skyrið svo að það sökk upp um hjöltin. Gissur sá að þar var ker í jörðu hjá lítið og var í sýra, en skyrkerið stóð þar yfir ofan og huldi mjög sýrukerið það er í jörðunni var. Þar var þó það rúm að maður mátti komast í kerið og fór Gissur þar í. Hann settist niður í sýruna sem tók honum í geirvörtur en hann var í línklæðum einum og var kalt mjög. Skamma hríð hafði hann setið þar áður hann heyrði mannamál og heyrði að um var talað, að ef hann fyndist væru þrír menn ætlaðir til áverka við hann, og skyldi sitt högg höggva hverr og fara ekki ótt að og vita hvernig hann yrði við. Hrani var til þess ætlaður, en einnig Kolbeinn grön og Ari Ingimundarson. Nú komu þeir í búrið með ljósi og leituðu. Þeir komu að kerinu þar sem Gissur sat og lögðu spjótum símum í kerið þrír menn eða fjórir. Sögðu sumir að eitthvað fyrir yrði en aðrir ekki, en Gissur hafði lófana fyrir kviði sér. Hann skeindist á lófunum og svo framan á beinum á sköflungnum en voru það lítil sár en nokkuð mörg. Svo hefur Gissur sagt sjálfur að áður er þeir komu í búrið hafi hann skolfið svo mjög af kulda að svaglaði í kerinu, en er þeir komu í búrið þá skalf hann ekki. Tvisvar leituðu þeir um búrið en ekki fundu þeir Gissur.
Brennumenn héldu að svo búnu til Hóla þar sem Heinrekur biskup tók vel á móti þeim og gaf þeim
upp allar sakir af ódæðinu af hálfu kirkjunnar, en lýsti stórmælum yfir Gissuri þegar hann reyndi að hefna harma sinna sem hann gerði að hluta. Hann lét síðar drepa fjölda brennumanna en náði samt engum foringjum þeirra.
Fyrir ofan bæinn rís fjallið Glóðafeykir sem áður og líklega upphaflega mun hafa verið nefnt Glóafeykir. Sagnir eru um að þegar Jón biskup Arason var tekinn af lífi í Skálholti haustið 1550 ásamt sonum sínum tveimur, Ara lögmanni og séra Birni á Melstað, hafi Helga Sigurðardóttir eftirlifandi kona Jóns biskups flúið frá Hólum og í fjallið. Þar hafi þær dulist um sumarið og nokkrir menn með þeim allt þangað til stríðsskipin voru sigld um haustið.
En margt hefur greinilega breyst síðan á Sturlungaaöld eins og sjá má og í garðinum sunnan við bæinn er eitt og annað sem erfitt er að standast.
Haukur reyndist vera hið ágætasta efni í loftfimleikamann og fór flikk flakk og heljarstökk bæði áfram og aftur á bak í loftinu.
Það var lagt hart að mér að skríða inn fyrir netið og taka nokkir létt hopp en ég færðist lengi undan. En svo fór að varnir brustu og afsakanir dugðu ekki gegn fram lögðum mótrökum, en læt ég hins vegar ógert að birta þær myndir sem voru teknar af mér við þessa iðju nema þessa...
...og þessa sem segir líklega meira en mörg orð.
Hann Jón Hjálmar frændi minn tók nokkra létta takta á settið og fór létt með það því hann hefur nefnilega verið að læra á trommur í vetur.
Svo fórum við að skoða fjósið undir leiðsögn Katarínu sem vissi auðvitað allt um allt, en ég sagði fátt en hlustaði þeim mun betur. Ég vissi vel að sá sem veit lítið en talar samt, er líklegur til að opinbera fáfræði sína og fáfræði mín á þessu sviði er næstum því algjör.
Svo var setið fyrir á ökutækinu sem ég kann því miður ekki að nefna, - þ.e. tegundina.
Við fylgdumst með róbótanum sem okkur fannst mikið undratæki þó að skilningurinn á því sem þarna fór fram væri svolítið takmarkaður.
Jakob vinnumaður (sem er frá Löngumýri) setti sig í sérlegar stellingar fyrir framan myndavélina. Líklega fer hann ekki svona létt með að halda á kálfinum eftir nokkur misseri en fullvaxin kýr vegur á bilinu 450-650 kíló.
Spyrjandi augnaráð og tiltölulega gáfulegt yfirbragð... En þannig eru kýrnar á Flugumýri.
Það voru heilmiklar framkvæmdir framundan í mjólkurhúsinu. Gamli 3000 lítra mjólkurkælirinn var farinn og annar splunkunýr 5000 lítra kominn í hans stað. En áður en honum yrði endanlega komið fyrir, þurfti að gera allnokkrar endurbætur á húsnæðinu. Og akkúrat og nákvæmlega hvernig sú staða kom upp eða með hvaða hætti, var ég áður en ég vissi af búinn að samsinna húsráðendum þeim Ingimar og Margréti að réttast og eðlilegast væri að ég kæmi strax daginn eftir og tæki þátt í fyrirhugaðri framkvæmd. Ég (malardrengurinn) var sem sagt eiginlega á leiðinni "í sveit" eins og ekkert væri sjálfsagðara og eðlilegra.
Og vinnan við mjólkurhúsið hófst morguninn 4. júní eftir morgunkaffi. Þarna má sjá Ingimar koma skálmandi yfir hlaðið og vel vopnaðan til verksins sem var þar með formlega hafið.
Kvöldið eftir var boðið upp á "Smjörsteikta Mumma" á Dýrfinnustöðum en sá bær er nokkru utar í Blönduhlíðinni.
En hvers konar mannanna fóður er nú það spurði ég fullur grunsemda?
Hvaða líkamshlutar á skepnunni eru kallaðir "Mummar" og þá af hvaða og hvers konar skepnu skyldu þeir vera?
Ég sem er svo sem ekkert verulega matvandur, vil nú samt vita hvað ég læt ofan í mig. Ingimar var ekkert á því að fræða mig nánar um hvað "Mummar" væru nákvæmlega, en glotti meinfýsislega þegar ég spurði og sagði það hlyti að koma í ljós. Ótti minn við hið óþekkta reyndist hins vegar ástæðulaus með öllu þegar í ljós kom að "Mummarnir" voru kótilettur eða frampartssneiðar af Íslensku fjallalambi sem beitt hefur verið á kjarnmikinn Skagfirskan gróður á sólríku sumri.
Það var hins vegar Guðmundur (Mummi) höfundur hinnar sértæku aðferðar við matreiðsluna svo og auðvitað aðverðin sjálf sem gerði "Mummana" svo sérstaka sem þeir sannarlega voru. Matreiðsla þeirra er "listform" sem Vestfirðingurinn Mummi hefur þróað í áranna rás og fundið hinn rétta og sanna farveg.
Panna er hituð og byrjað á að setja á hana hálft eða jafnvel heilt smörstykki og svo eru heil ósköp sett á hana af sneyddum lauk og hvítlauk. Svo er farið að steikja kjötið og smjöri bætt við eftir þörfum en laukurinn látinn malla með. Kjötið er síðan borið fram á fati eins og gengur en "laukfeitin" í stórum potti sem klárast oftast á undan öllu öðru. Rabbarbarasulta og grænar baunir eru svo nauðsynlegur hluti veisluborðsins og rétt er að geta þess að nokkrir "baukar" á borðum eru hreint ekki illa séðir. Menn tóku vel og rösklega til matar síns og kættust því meira sem minna var eftir af veisluföngunum, en það má koma fram að steiktar voru hvorki meira né minna en 6 pönnur af þessum sérstaka "héraðsrétti".
Í fjörugum og skemmtilegum umræðum sem stóðu svolítið fram yfir miðnætti kom fram að Mummi þessi mun vera frændi minn eins og svo margir sem rekja kyn sitt til Bolungarvíkur og Jökulfjarða.
Daginn eftir var haldi áfram hinum verklegu framkvæmdum en þó nokkuð seinna hafist handa en suma aðra daga því menn þurftu jú að jafna sig eftir Mummana og það sem þeim fylgdi. Eftir nokkra daga var búið að rífa niður úr loftum og einangra á ný svo og klæða. Þá var hafist handa við veggi mjólkurhússins og þeir lagfærðir, ýmislegt rifið í burtu sem ekki þjónaði upphaflegum tilgangi lengur, múrað, spartlað og að lokum málað. Eftir það var komið að gólfinu því það stóð ekkert annað til en að flísaleggja mjólkurhúsið. Ingimar sagði mér frá "dönsku aðferðinni" sem hann hafði séð í framkvæmd í kóngsins Köben einu sinni þegar hann hafði verið þar á ferð. Hún fólst í því að múrarar mættu gjarnan til vinnu með tvær fötur sem ætlaðar voru til mjög svo ólíkra þarfa. Önnur geymdi þau áhöld sem notuð voru til hinna ýmsu og fjölbreyttu verkþátta og einnig til að hræra í lím eða múr, en í hinni var eins kalt vatn og fáanlegt var og hún notuð til kælingar "meðlætis" þess sem Danskinum þótti tilhlýðilegt að fylgdi hinni fötunni. Við urðum ásáttir um að reyna dönsku aðferðina svona eins og einu sinni, en eftir á að hyggja var mesta furða hvað það gekk með miklum ágætum. Ég mæli samt ekki með að íslenskir iðnaðarmenn taki upp danska siði við múrverk.
En hvort sem það var vegna hinnar dönsku aðferðar eða ekki, þá kláraðist límið á undan flísunum og ég fór daginn eftir í kaupstað eftir meira lími. Á leiðinni til Sauðarkróks staldraði ég við í Varmahlíð og skaut léttu linsuskoti að þessum gullfallegu farartækjum sem lagt var á bílastæðinu fyrir utan bensístöðina meðan að ferðalangarnir stöldruðu við í sjoppunni eða erinduðust í kaupfélaginu.
Á Króknum staldraði ég við og heilsaði upp á Róbert Óttars sem stóð í stórframkvæmdum við bakaríið. Hann sagðist hafa keypt húsið sem hafði verið áfast suðurgaflinum og rifið því það hefði verið ónýtt. Nú stæði til að koma upp skemmtilegri aðstöðu til útisetu í góðu skjóli sem vonandi hefði góð áhrif á viðskiptin.
Í bakaleiðinni staldraði ég við fyrir ofan hinn merka stað Glaumbæ, en þangað hef ég ekki komið síðan ég var 12 ára sem er auðvitað ekki nógu gott og ég ætti að hafa vit á að þegja yfir en hef greinilega ekki.
Á vefnum skagafjordur.is má lesa eftirfarandi:
Bærinn í Glaumbæ er samstæða þrettán húsa. Níu þeirra opnast inn í göng sem svo eru kölluð og eru mjór gangur, sem liggur frá bæjardyrum til baðstofu, sem er aftasta húsið í húsaþyrpingunni. Sex húsanna snúa gafli/burstum að hlaði og hægt að ganga inn um þau þaðan. Þetta eru kölluð framhúsin. Inn í eitt bakhúsanna, sem svo eru kölluð, er hægt aða ganga og eru það bakdyr bæjarins þar sem heimilsifólk gekk vanalega um.
Fyrsta sýning safnsins var opnuð þar þann 15. júní árið 1952 og fjallaði hún, þá sem nú, um mannlíf í torfbæjum. Glaumbær er í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Starfssvæði Byggðasafns Skagfirðinga, sem er elsta byggðasafn landsins, er allur Skagafjörður og í dag er safnið með bækisstöðvar á nokkrum öðrum stöðum í héraðinu.
Á bæjarhólnum, þar sem bærinn stendur, hafa hús staðið í mörg hundruð ár. Bæjarhúsin hafa breyst að stærð og gerð og færst til á hólnum, eftir efnum og ástæðum húsbænda á hverjum tíma. Árið 2002 fundust leifar húsa frá 11. öld, í túninu austur af bæjarhólnum og virðist sem bæjarhúsin hafi verið flutt um set um eða fyrir 1100, um mannsaldri eftir að sagnir herma að Snorri Þorfinnsson, sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, hafi byggt fyrstu kirkjuna í Glaumbæ fyrir orð móður sinnar. Snorri var fyrsta evrópska barnið, sem sögur fara af, fætt á meginlandi Ameríku.
Glaumbær er torfríkasti bær landsins. Skýringin er sú að grjót í veggjahleðslu er vart að finna í Glaumbæjarlandi, en torfrista er góð. Það má sennilega fullyrða að hvergi í veröldinni sé torf notað í jafnmiklum mæli í jafn stóra byggingu eins og í Glaumbæ. Veggirnir eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng. Rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum. Bæjarhúsin eru misgömul að efni og gerð því menn byggðu húsin eftir því hvort þörf var á stærri eða minni húsum er kom að endurnýjun.
Það sem skipti sköpum um varðveislu Glaumbæjar að breski Íslandsvinurinn Mark Watson (1906-1979) gaf 200 sterlingspund til varðveislu bæjarins árið 1938.
Bærinn var friðlýstur árið 1947. Sama ár fluttu síðustu íbúarnir burtu úr bænum. Árið 1948 er Byggðasafn Skagfirðinga var stofnað og fékk safnið bæinn fyrir starfsemi sína.
Þegar kom að því að fúga, bættist við mikill og góður liðsauki. Það var sjálfur Agnar oddviti á Miklabæ, en Akrahreppur sker sig úr Skagafjarðarhéruðum að því leyti að hann er enn "sjálfstæður" og sameining við aðra hreppi sem mynda sveitafélagið Skagafjörð í dag var felldur af íbúum.
Það tók tímann sinn að þrífa fúguna og dettur mér í hug að þar hafi "lítilsháttar leifar" af hinni "dönsku aðferðarfræði" haft nokkuð að segja.
Jón Hjálmar sýndi mér nýtt "gæludýr" sem hann hafði eignast og var hýst um stundarsakir í þessari krukku. Það reyndist vera Araneus diadematus eða könguló upp á íslensku. Hann var nýbúinn að fóðra hana með flugu sem hann veiddi henni til matar.
Þó svo að Agnar virðist gera eins og svo margir mektarmenn þessarar þjóðar, þ.e. láta fara vel um sig í aftursæti bifreiðarinnar, með einkabílsjóra sem hlýðir möglunarlaust öllum hans fyrirmælum og fylgjist með því sem fyrir augu ber spekingslegur á svip, þá er það ekki svo. Ég var einfaldlega á undan honum að ná framsætinu, en myndin er tekin á bökkum Héraðsvatna talsvert neðan við veginn um Blönduhlíðina.
Og meðan við stöldruðum við þarna á bökkunum fjölgaði í kringum okkur.
En á Þormóðsholti sem er stutt frá býr Þröstur sem ýmislegt er til lista lagt. Hann er eins og alfræðiorðabók þegar kemur að bílum og ökutækjum hvers konar og að því leytinu komast fáir með tærnar þar sem hann hefur hælana. Hann hafði tekið að sér að bjarga afturrúðummi í Micruna sem hafði brotnað í þúsund mola við þvottavélaflutninga nokkru áður og gerði það með miklum ágætum. Þröstur er vel birgur af varahlutum eins og sést á myndunum hér að neðan og ef hann á ekki það sem vantar eru allar líkur á að hann viti hvar hlutinn er að finna. Eitt af því fyrsta sem tók á móti okkur þegar við heilsuðum upp á Þröst var þessi aldna dráttarvél sem mun fyrir margt löngu síðan hafa borið skráninganúmerið K-211.
Á milli bílanna sem e.t.v. eiga það flestir sameiginlegt að hafa verið gangfærir og jafnvel á númerum við komuna á staðinn, eru svolítil hjólför í grasinu.
Það var engu líkara en þarna væru skipulagðar bílagötur sem bæru síðan nafn af þeim tegundum sem staðsettar væru við þær.
Sko, á þessum gula þarna fórum við Þröstur á ball norður á Siglufjörð fyrir löngu, löngu síðan sagði Ingimar sem kættist mjög og lifnaði allur við þessa upprifjun. Andlitið varð eitt slælubros við endurfundi hans og þess gula og ég dró þá ályktun af hegðunarmynstrinu að það hafi verið mjög gaman á því balli.
Þröstur er greinilega mikill áhugamaður um eðalvagna eða a.m.k. fyrrum eðalvagna af hinni virðulegu tegund Mercedes-Benz.
Margir þeirra gætu líka alveg átt erindi út í umferðina á ný ef áhugasamir aðilar með fornbílabakteríuna tækju þá að sér.
Ég velti fyrir mér hvort Þröstur bónar eitthvað af flotanum reglulega því margir bílarnir þarna líta hreint ekki út fyrir að til standi að rífa þá.
Já þarna er Benzgata, Lödugata, Land-rovergata og svo mætti lengi telja.
Kvikmyndaleikkonan og söngfuglinn Ertha Kitt á fulltrúa sinn á staðnum.
Svo er líka talsverður húmor á svæðinu.
Það var gaman að skoða "safnið" hjá Þresti og ég hefði alveg getað verið þarna allan liðlangan daginn. Og þó að ég sé ekki verulega mikið á heimavelli þegar bílar eru annars vegar, skildi ég þó að það er allt hið merkilegasta fyrir margra hluta sakir. Svo mikið er víst.
Þröstur snaraðist inn í þennan gamla Opel frá sjöunda áratug síðust aldar snéri lyklunum og viti menn, míllin hrökk í gang eins og ekkert væri.
Þarna er ein af fjölmörgum "drossíum" staðarins, Agnar settist inn til að máta bílstjórasætið og ég gat ekki merkt annað en mjög vel hefði farið um hann þar.
Þessi trilla kom frá Hofsósi fyrir nokkrum árum og hét þá "Alki", en seljendur í því ágæta plássi vildu ekki láta nafnið fylgja svo að núna heitir hún "Sunna".
Þetta forláta stýri er svo ein af skrautfjöðrunum í vinnuskúrnum.
Hjónaleysin að Þormóðsstöðum tóku vel á móti okkur ferðalöngunum og voru bæði skemmtilega skrafhreyfin. Ég hef margsinnis keyrt framhjá þessum bæ í Blönduhlíðinni en aldrei tekið eftir bílasafninu mikla vegna þess að það er ekki svo mjög áberandi þegar ekið er eftir þjóðveginum. Þess vegna er full ástæða að benda á þessa "námu" ef einhver þyrfti á að halda.
Flesta daga sem unnið var að endurbótum í mjólkurhúsi renndi ég augunum upp eftir hlíðum Glóðafeykis og þegar verkinu var lokið var ekki eftir neinu að bíða. Þann 13. dag júnímánaðar var því gengið á fjallið í blíðskaparveðri og glampandi sólskini. Myndin hér að ofan er tekin af "Kirkjunni" sem er klettur ofarlega í norðvesturhlíðinni.
Uppgangan var ekkert sérlega erfið þó að brattara væri eftir því sem ofar dró. Af toppnum var hreint út sagt alveg frábært útsýni og ég sat lengi og horfði yfir hið blómlega hérað niðri á jafnsléttunni.
Ég fékk símtal frá Flugumýri með hamingjóskum og risastóru húrra. Ég stóð upp og veifaði og heyrði þá í gegn um símann að það fór ekki fram hjá þeim sem voru með kíkinn á lofti.
Svona lítur þá Flugumýri út séð ofan frá.
Sauðárkrókur og Tindastóll virtust ekki langt undan.
Og örstutt niður á Varmahlíð eða til Vatnsskarðs.
En litlu innar og sunnar var annar tildur sem einnig tilheyrir fjallinu. Og þó hann sé ekki hinn "skráði" tindur fjallsins samkvæmt mínum heimildum, ákvað ég að réttast væri að klífa hann líka í leiðinni.
Talsvert er um rauðamöl ofan til í fjallinu sem setur mark sitt á litasamsetningu hlíða og kletta.
Fyrir innan fjallið er Flugumýrardalur sem ég hef reyndar aldrei vitað að væri til, enda sést hann ekki vel úr byggð. Fyrir miðri mynd gægist svo lítil hyrna upp fyrir fjallahringinn.
Mér var sagt að hún væri toppurinn á fjalli sem héti Grasdalshnjúkur en mér láðist að forvitnast meira um hann.
Á leiðinni niður fjallið tók ég svo aðra mynd af "Kirkjunni" en frá svolítið öðru sjónarhorni.
Þegar neðar dró og ég nálgaðist bæinn sá ég hvar Jón Hjálmar kom á móti mér því hann vildi vera fyrstur að heyra allt um hvernig ferðalagið hefði gengið fyrir sig. Hann sagði mér að vel hefði verið fylgst með mér og ég hefði sést vel næstum allan tímann. Svo sýndi hann mér afdrepið á bak við hesthúsið sem hann, Rakel og Katarína höfðu komið sér upp.
Eftir að ég kom niður af fjallinu var farið að tína saman pjönkur sínar og undirbúa heimferð. Að þessu sinni var það heimferð til Siglufjarðar en ekki suður á bóginn því ég ætlaði að vera nokkra daga enn nyrðra og hann Depill kvaddi mig á sinn hæverska hátt þarna á hlaðinu.
Síðan var komið að því að kveðja heimilisfólkið en það tók miklu lengri tíma. Þetta var búinn að vera hreint út sagt alveg frábær og mjög svo gefandi tími.
Ég ók hægt niður afleggjarann, beygði til hægri þegar komið var niður að þjóðveginum og hélt af stað til Siglufjarðar. Þetta var búinn að vera frábær tími og ég vona að ég eigi eftir að eiga þar viðdvöl sem fyrst aftur.
23.06.2009 18:18
Norðurferð í Júní - fyrsti hluti.
573. Það var föstudaginn 29 maí að ég lagði af stað frá Hafnarfirði áleiðis til fyrirheitna fjarðarins, þangað sem stefnan er gjarnan tekin svo oft sem tækifæri gefst.
"Hvað á að stoppa lengi" var spurt en ég kunni engin svör við því. Ég var búinn að vera verklaus allt of lengi hérna syðra og varð að komast í annað umhverfi og finna mér eitthvað til dundurs. Það skipti ekki alveg öllu máli þó að kaupið væri lágt ef það gerði sálinni gott og það var vitað mál að verklegra framkvæmda var þörf nyrðra og hafði verið það um árabil. Ég lagði því upp með nauðsynlegt nesti þar sem uppistaðan var Diletto kaffi úr Bónus á kr. 298 kr. pakkinn, en að vísu var ég á afar gömlum og útúrslitnum skóm.
"Flutningabíllinn" sem er af gerðinni Nissan Micra var notaður til efnisflutninga þegar norður var komið og reyndist eins og ávallt, bæði rúmgóður og með ótrúlega mikla burðargetu. Þetta er líklega einn af þeim bílum sem eru miklum mun stærri að innan en utan.
Svo var farið að saga uppi á háalofti, en eins og sjá má var eitthvað bogið við annað hvort timbrið eða sögina. Það reyndist vera sitt lítið af hvoru, spýtan var sennilega lítillega blaut og sagarblaðið eiginlega búið á því. En þetta var nú ekkert sem ekki mátti kippa í liðinn sem var auðvitað gert, en síðan haldið áfram að saga. Svo var sótt meira 34x70 grindarefni og sagað enn meira, skrúfað, lektað o.s.frv.
Þar kom að búið var að ulla, plasta, lekta, og leggja fyrir rafmagni í þeim áfanga sem stefnt var að ljúka við í bili, þ.e. rými sem spannaði þrjá kvisti af fimm. Fyrir nokkrum árum þegar skipt var um þak var allt hreinsað burt og endurbyggt frá grunni, þ.e. járn, klæðning, sperrur og einnig milliveggir. Þetta rými hafði um árabil verið einn stór geimur en fyrir nokkru byrjaði ég að einangra þakið. Ullin hafði að mestu beðið í plastinu tilbúin til notkunar síðan 2005 og nú var komið að því að gera svolítið átak í þessum málaflokki.
Þá voru spónaplöturnar næsta atriði á listanum en mikið rosalega hefur allt byggingarefni hækkað síðan ég var að kaupa eitthvað verulegt af því á síðasta ári. Mig sveið í veskið og bölvaði kreppunni, útrásinni og gengi krónunnar í hljóði en lét það yfir mig ganga því ekkert annað var í boði.
Eina nóttina (eða kannski tvær) var ég að fram undir morgun og varð litið út um gluggann rétt undir lokin. Það varð auðvitað til þess að ég taldi alveg bráðnauðsynlegt að skreppa niður eftir myndavélinni og bætti í beinu framhaldi við enn einni myndinni í Hólshyrnumyndasafnið mitt sem er þó talsvert fyrir. Ég hef líklega ekki oft séð bæjarfjall Siglufjarðar svona rautt í skini miðnætursólarinnar úr norðri.
Þegar ég átti sem oftar leið upp í Samkaup einn daginn, rak ég augun í "auglýsingaskiltin" sem hanga þar uppi á veggjum og það var ekki laust við að ég slakaði brúnum í forundran.
"Betur sjá augu en möffins"...
Vááá maður, á hverju hefur hönnuðurinn verið þegar hann setti saman þessi mergjuðu slagorð?
Mig langaði helst til að æða um alla búð og mynda öll skiltin, en þá hefði líklega einhver viðstaddur farið að velta fyrir sér á hverju ÉG væri svo ég stillti mig a.m.k. um það í þetta skiptið.
En ég er hins vegar ekkert viss um að Siglfirðingar sem eiga daglega leið í Samkaup sem hét áður eitthvað annað, einu sinni KEA og þar áður KFS (Kaupfélag Siglufjarðar) hafi allir rekið augun í þessi ljóðrænu skilaboð. En þau glöddu vissulega mitt litla hjarta þarna inni á gólfinu, þrátt fyrir þær tölulegu upplýsingar sem lesa má af verðmiðunum á hillinum og heimfæra má upp á landlæga fákeppni í matvöruverslun, smæð markaðarins á klakanum, áðurnefndu gengi krónunnar, erfiða samkeppnisstöðu Samkaupa gagnvart Kaupás og Bónuskeðjunum og eflaust margs annars.
En það var búin að vera svo mikil blíða í svo marga daga samfleytt, að þetta gat hreinlega ekki haldið mikið lengur áfram því allt er jú forgengilegt. Meira að segja veðrið. Það sem blasti við syfjuðum augum mínum kom mér því lítið á óvart einn morguninn þegar ég leit út um gluggann.
Það hafði gránað í fjöll og dagatalið var langt gengið í júlí...
Ég átti leið upp á Háveg og þar sá ég nokkuð sem vakti athygli mína. Einhvers konar klifurplanta hefur tekið upp á því að fara sínar eigin leiðir upp úr blómabeðinu undir húsveggnum, fundið skjól undir Steni-klæðningunni á neðri hæðinni og þreifað sig upp milli plötu og steins. Þegar hún hefur verið komin á þriðja metra upp á við í kolniðamyrkri, hefur hana líklega verið farna að lengja eftir sólarglennu og því gægst út undan litaða bárustálinu.
Og þó að vegir hennar teljist ekki órannsakanlegir með öllu, verða þeir alla vega að teljast í það minnsta til þeirra óhefðbundnari.
12.06.2009 18:19
Nokkur orð frá Flugumýri
572. Nú eru liðnir allmargir dagar frá því að ég lagði upp frá Hafnarfirði norður á Sigló. Ferðaáætlunin átti þó eftir að breytast svo um munaði því ég beygði upp afleggjarann að Flugumýri til að betla kaffisopa og kannski "meððí" hjá henni Margréti systur minni og Ingimar bónda. En þannig hittist á að búið var að kaupa nýjan mjólkurtank og lá fyrir að koma honum fyrir til frambúðar inni í mjólkurhúsi, en áður en það gæti gerst þurfti húsnæðið nokkurra endurbóta við. Ég er því svona tæknilega séð enn í "kaffi" á Flugumýri og í dag er sjöundi dagur heimsóknarinnar að líða hjá. Búið er að rífa niður úr lofti og setja upp í það aftur, laga veggi og mála og flísaleggja gólfið. Verkinu er lokið og ég er aftur á leið á Sigló þar sem ég ætla að vera í alla vega viku til viðbótar uppi á háalofti að smíða. Myndavélin er að fyllast af myndum sem verða væntanlega komnar hingað upp úr 20. þ.m. og verður mig eflaust farið að lengja verulega eftir að berja þær augum á skjá þegar sá tími kemur. Dvölin í sveitinni hefur verið mikil upplifun og hið daglega bras mjög ólíkt því sem ég gerði mér í hugarlund. Hér gerast hlutir með öðrum og ólíkum hætti en í þéttbýlinu og í fyrsta sinn á æfinni hef ég hugleitt að það hefði líklega verið með öllu óvitlaust ef ég hefði gerst bóndi hér á árum áður.
Skrifað á Flugumýri 12. júní.
29.05.2009 16:51
Hvað sérðu margar myndir
571. Ég hef rekist á þessa skemmtilegu mynd af "gömlu hjónunum" annað slagið á netflækingi mínum undanfarin ár, en síðast þó fyrir allnokkru síðan þar til núna. Þegar hún datt svo aftur upp í "fangið" á mér eftir talsverða hvíld fangaði ég hana og stillti henni hérna upp mér og vonandi fleirum til "vangaveltna".
Hvað eru þetta annars í rauninni margar myndir?
Hingað til hafa svörin verið á bilinu 1 - 7.
Burtséð frá niðurstöðunni er ég búinn að taka saman það nauðsynlegata til útilegu og farinn norður á Sigló í nokkra daga.
29.05.2009 00:55
Gamlar myndir frá Siglufirði
Síldarsöltun niður á eyrinni.
Löngu horfin hús.
Hvanneyrarkrókurinn.
Löndunarbið.
Bátar við innri höfnina.
Tunnustafli að vori.
Drekkhlaðnir síldarbátar bíða löndunar.
Svo fann ég þessa úrklippu sem smellpassaði inn í þemað og mér fannst því nauðsynlegt að láta fylgja með.
25.05.2009 13:24
Fullt hús á balli og góð mæting í gönguna
569. Fullt hús var á Siglfirðingaballi sem haldið var á Catalinu í Hamraborg í gærkvöldi. Margur rakst þar á sveitunga sína eftir langt hlé og það var mikið skrafað, skeggrætt og auðvitað stigin nokkur létt dansspor. Þegar líða tók á kvöldið stigu þau Selma, Kristbjörn og Birgir Eðvarðs á pall og tóku nokkra gamalkunna standarda eins og þeim er einum lagið. Það fór greinilega ekkert á milli mála að þau hafa stigið á pall einhvern tíma áður því þau skiluðu sínu með miklum sóma. Arna Rut Gunnlaugsdóttir (Gulla Sínu) var með myndavélina í skotstöðu allt kvöldið og eru meðfylgjandi myndir frá henni.
Selma ásamt Axel Einarssyni gítarleikara og þeim sem þetta ritar.
Kristbjörn.
Birgir.
-
Betur fór en á horfðist með veður þegar gengið var um Búrfellsgjá og á Búrfell og voru skilyrði með allra besta móti, ágæt mæting og frábær stemming meðal göngufólks, en gangan var farin að undilagi Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni.
Fleiri myndir bæði frá ballinu og gönguferðinni er að finna í myndaalbúmi en einnig á siglo.is
23.05.2009 04:26
Logandi himinn
22.05.2009 14:29
Dagskrá í bundnu máli
567. Dagaskrárkynning helgarinnar er að þessu sinni í bundnu máli og er svohljóðandi:
Blessun Fúsa er flott að fá
færa á disk sinn randalínu
Brenna á ferð í Búrfellsgjá
brattur dansa á Catalínu.
Þessi staka barst mér póstleiðis áðan frá Gunnari Trausta og ekki er spurning um að hún á fullt erindi við okkur Síldarbæinga þessa dagana.
Ástæðan er auðvitað sú að helgin sem næst liggur 20. maí er eins konar þjóðhátíðarhelgi okkar og afmælishátíð, því þann dag fékk Siglufjörður m.a. kaupstaðarréttindi. Það er því ærin ástæða til að koma saman og gera sér svolítinn dagamun af því tilefni.
Fyrir þá sem eru ekki alveg að kveikja, þá er boðskapurinn og innihaldslýsingin eftirfarandi.
"Blessun Fúsa er flott að fá" í Grafarvogskirkju á fjölskyldusdeginum, en hann hefst með messu þar sem Vigfús Þór Árnason sérlegur klerkur Siglfirðinga þjónar.
En á eftir munu eflaust margir "færa á disk sinn randalínu" í kaffinu sem tekur við af messunni.
En það er samt eiginlega á laugardeginum sem fjörið byrjar með gönguferð kl. 13.00 með því að "Brenna á ferð í Búrfellsgjá". En mæting er í Heiðmörk við svokallaða Hjallaenda og gangan tekur væntanlega u.þ.b. 2 tíma.
Og sá sem verður ekki búinn á því eftir göngutúrinn mun væntanlega "brattur dansa á Catalínu" um kvöldið.
En á Catalinu mun hin hálfsiglfirska tveggja manna hljómsveit leika fyrir dansi ásamt þeim Selmu, Kristbirni, Bigga Ölmu og vonandi fleirum.
17.05.2009 16:07
Nokkur orð um Júróvisjón
566. Samkvæmt niðurstöðum á veðmálavefnum Ladbrokes sem Bretum þykir víst þó nokkuð áreiðanlegur, áttum við að að lenda í 8. sæti en þeir sjálfir í 2. Raunin varð sú að Bretar enduðu í 5. sæti. Annars vekur það sérstaka athygli mina hvað Grikkir voru "neðarlega" miðað við flestar spár eða í 7. sæti og aðeins með 120 stig, en margoft hafði heyrst að Gríska lagið væri jafnvel líklegt til að keppa við það Norska um toppsætið.
Óhófleg bjartsýni hefur hingað til verið helsta einkenni okkar á klakanum en nú virðist það alveg hafa snúist við sem er auðvitað mjög skemmtileg tilbreyting. Það var auk þess ekki hægt annað en að dást að því hvað þessi 18 ára gamla stelpa var hreint órtúlega svöl á sviði og söng af miklu öryggi. En ég er greinilega ekki einn um að vera aðdáandi Jóhönnu eins og sjá má á hreint órtúlegu myndbandi frá Furkan Cinar, en slóðin þangað er http://b2.is/?sida=tengill&id=317227
Og til gamans fyrir þá sem vilja bera spá Ladbrokes saman við hinar endanlegu niðurstöður þá var hún eftirfarandi:
Noregur - Alexander Rybak
Bretland - Jade
Grikkland - Sakis Rouvas
Tyrkland - Hadise
Aserbaídjan - Aysel * Arash
Bosnía & Herzegóvína -
Ukraína - Svetlana Loboda
Ísland - Johanna Gudrun Jonsdottir
Frakkland - Patricia Kaas
Svíþjóð - Malena Ernman
Eistland - Sandra Nurmsalu/Urban Symphony
Þýskaland - Alex Swings, Oscar Sings
Albanía - Kejsi Tola
Armenía - Inga * Anush
Danmörk - Brinck
Finnland - Waldo's People
Moldóvía - Nelly Ciobanu
Spánn - Soraya
Portúgal - Flor-de-Lis
Rúmenía - Elena Gheorghe
Rússland - Anastasia Prikhodko
Litháen - Sasha Son
Ísrael - Noa and Mira Awad
Króatía - Igor Cukrov
En úrslitin urðu þessi:
Noregur - 387 stig
Ísland - 218 stig
Aserbaídjan - 207 stig
Tyrkland - 177 stig
Bretland - 173 stig
Eistland - 129 stig
Grikkland - 120 stig
Frakkland - 107 stig
Bosnía & Herzegóvína - 106 stig
Armenía - 92 stig
Rússland - 91 stig
Úkraína - 76 stig
Danmörk - 74 stig
Moldóvía - 69 stig
Portúgal - 57 stig
Ísrael - 53 stig
Albanía - 48 stig
Króatía - 45 stig
Rúmenía - 40 stig
Þýskaland - 35 stig
Svíþjóð - 33 stig
Litháen - 23 stig
Spánn - 23 stig
Finnland - 22 stig.
Það má svo gjarnan fylgja að það var loksins upplýst í gærkvöldi að Ísland var í efsta sæti og næst á undan Tyrklandi í undankeppninni þó að það hafi verið lesið upp síðast.
Viðbót.
Það hefur ekki farið mikið fyrir atvikinu í fréttum en þegar liðnar voru 2.35 min.af Norska sigurlaginu sést ef vel er að gáð hvar einn dansarinn sparkar af sér öðrum skónum sem endar flugferð sína meðal áheyrenda.
Slóðin er http://www.youtube.com/watch?v=uiH4BFTELME
16.05.2009 04:19
Vorferð á Sigló
565. Ég var á Sigló í síðustu viku og tók þá svolítið til á háaloftinu á Aðalgötunni, en þar virðist vera alveg endalaust af gömlu dóti sem sumt kemur mjög svo kunnuglega fyrir sjónir eftir misjafnlega mörg ár. Eitt af því sem endaði að þessu sinni á gámasvæðinu var grindin undan Silver Cross barnavagninum sem þjónaði þrem strákum sem nú eru orðnir 27, 29 og 31 árs. Yfirbyggingin hefur ratað í einhverja allt aðra átt fyrir margt löngu svo fátt annað liggur fyrir en að afskrifa það sem eftir stendur alla leið ofan í núll.
Þetta æfingatæki sem búið var að stilla upp á svæðinu virtist vera í góðu lagi, en af augljósum ástæðum (ef grannt er skoðað) er ekkert sérlega freistandi að tylla sér á það.
Og ekki vantaði blíðviðrið á Sigló meðan allt ætlaði að fjúka um koll syðra og þannig var það alla dagana meðan ég staldraði við. Eftir að ég fór suður snérist allt við og blíðan varð alveg yfirþyrmandi syðra en þoka og lágskýjað nyrðra.
Og þar sem ég stóð þarna fyrir ofan Jóhannslund í skógræktinni varð auðvitað ekki hjá því komist að skotra augunum upp í Skarð. Þar var greinilega ennþá talsverður snjór fyrir skíðaiðkendur og ég velti fyrir mér hvenær "skíðavertíðinni" lyki. Fyrir hálfri öld eða svo voru Skarðsmótin haldin um Hvítasunnuna ef ég man rétt svo hér hefur líklega snjóað áður.
Þriðjudaginn 12. maí komu þeir Haukur Þór og Gunni Óðins við hjá mér á Aðalgötunni og buðu til grills. "Sjaldan hef ég flotinu neitað" og þáði ég auðvitað þetta góða boð með þökkum. Eftir forkeppnina í "Júró" var auðvitað almenn kæti með að "við" komumst áfram og eitthvað var minnst á gítar og létta slagara. En þá mundi heimafólkið eftir píanóinu sem var geymt á neðri hæðinni undir stiganum. Það var því ekkert annað tekið í mál en að sækja gripinn og fjórir stæltir strákar lögðu á brattann með píanóið á milli sín en það vóg sennilega eitthvað á fjórða hundrað kíló.
Erfiðust var "beygjan" í stiganum, en eftir talsvert bras, allmikinn blástur og útúrspegúleraða verkfræðilega útreikninga tókst að koma gripnum alla leið upp á efra plan.
Hljóðfærið reyndist hið besta þó það þyrfti að vísu stillingar við og það var sungið og spilað fram eftir kvöldi.
Daginn eftir frétti ég á einu bryggjuröltinu að Guðrún Jónsdóttir væri komin í eigu Rauðku ehf. og yrði væntanlega dubbuð upp og gerð út á sjóstöng á næsta ári.
En eins og gengur leið að því að "heimsóknartíminn" væri á enda runninn og á leiðinni úr bænum var auðvitað litið um öxl.
Ég hafði því miður ekki notið góða veðursins eins og ég hefði helst viljað, því ég var lengst af uppi á háalofti að einangra þakið, plasta og lekta. Það vantar nefnilega talsvert svefnpokapláss fyrir sumarið því eitt og annað stendur til.
Og hinum megin fjarðar bar austurfjöllin við bláan himininn böðuð geislum kvölsólarinnar. Ég var farinn í bili en var ákveðinn í að vera aftur á ferðinni innan tíðar.
02.05.2009 18:38
Um tilgangsleysi og endalok alls
564. Ég hef rekist á nokkrar heimsendaspár nýverið sem valda mér talsverðum ugg í brjósti. Til þessa hefur slíkt og því um líkt ekki orðið að trufla vangaveltur mínar og þankagang, en núna er einhverra hluta vegna allt sett fram með þeim hætti að ekki er hægt annað en að taka þessar kenningar alvarlega.
Auðvitað hafa alltaf verið að koma fram vafasamir boðberar uppdiktaðra og heimatilbúinna tíðinda sem spáð hafa fyrir um endalokin svo langt aftur í tímann sem heimildir eru til um. Fæstir þeirra hafa getað stutt kenningar sínar vísindalegum og illhrekjanlegum rökum, en bera gjarnan við vitrun eða dularfullri upplifun þar sem þeir hafa meðtekið boðskapinn á einhvern óútskýranlegan hátt. Yfirleitt hafa verið á ferðinni falsspámenn sem boðuðu hið endanlega svartnætti í því skyni að öðlast völd og virðingu, komast í aðstöðu til að gerast fjölkvænismenn eða jafnvel aðeins til að auðgast. Þeim hefur oft tekist að safna um sig hirð hinna einföldu, trúgjörnu og leitandi, öðlast yfir þeim vald og undantekningalítið farið illa með það. En eftir á að hyggja er ég ekki viss um að þessum myrku prédikurum hafi alltaf verið fullkomlega sjálfrátt og þeir hafi jafnvel oft trúað þeim boðskap sjálfir sem þeir fluttu vesælum og fáfróðum áhangendum sínum. En hugmyndafræðin hefur oftast verið grundvölluð á forneskju og svartagaldri, hjátrú og hindurvitnum.
En nú eru runnir upp nýir og vonandi betri tímar og fólk er almennt meðvitaðra og upplýstara. Nútíma vísindi hefðu líka eflaust getað sýnt fram á að heimsendaspámenn fyrri tíma hafi ekki alltaf verið heilir á sálinni, vitranir þeirra gætu verið komnar til vegna ofneyslu eitraðra sveppa eða bráðaímyndunarveiki vegna sjúklegrar myrkfælni. En nýjum tímum fylgja líka nýjar kenningar og því miður einnig heimsendaspár. Að þessu sinni eru þær studdar rökum sem erfiðara er að hrekja og reyndar í mörgum tilfellum sýnist mér það vera með öllu ógerlegt. Nú er ekki hrópað um hálfvolga uppvakninga eða hringlandi beinadrauga, heldur endanlega eyðingu jarðar og alls þess sem lifir. Í þokkabót tala sumir vísindamenn um heimsendi eins og ekkert sé í sjálfu sér eðlilegra og sjálfsagðara, allt muni þetta gerast af náttúrulegum og eðlilegum örsökum.
Ég finn þyngslin leggjast ofan á axlirnar, mér verður erfiðara um andadrátt og hjartað slær þyngri högg og færri en áður.
En þetta er ekki allt, því segjum sem svo að við getum lifað í voninni um að einhver breytan í hinni risastóru jöfnu sé röng hjá hinum sprenglærðu vísindamönnum og spádómurinn gangi ekki eftir, þá mun annar dómsdagur koma eftir þann fyrsta og síðan annar og annar og annar og annar...
Heimurinn eins og við þekkjum hann finnst okkur undantekningalítið alveg ógnarstór, en samt er hann eins og agnarsmátt sandkorn á óralangri strönd þegar hann er borinn saman við t.d. sólkerfið okkar. Það er svo eins og næstum því ósýnilegur depill í allri Vetrarbrautinni sem er sú stjörnuþoka sem það tilheyrir. Hún er síðan ekki nema meðalstór innan um þúsundir þúsunda eða miklu frekar milljónir, trilljóna, skrilljóna slíkra í alheiminum sem er endalaust að stækka.
Á efstu myndinni hér að ofan er jörðin ásamt þeim plánetum sem eru minni en hún þ.e. Mars, Venusi, Merkúr og Plútó. Á þeirri í miðjunni er svo hinum bætt við sem eru stærri en hún þ.e. Júpíter, Satrúrnus Úranus og Neptúnus. Á þeirri neðstu er svo sólin komin inn á myndina og stærðarhlututföllin eru vissulega ógnvekjandi í mikilfengleik sínum. Allt er þetta forgengilegt og allt mun þetta hverfa að lokum og leysast upp að lokum í eitthvað allt annað en það er í dag.
Allt hófst þetta með Miklahvelli en mun enda með Heljarhruni eins og það er kallað í heimsfræðinni sem er andstæða hins fyrrnefnda.
Á tímum Kalda stríðsins vofði sú ógn yfir mannkyni að það yrði hreinlega þurrkað út ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Eyðingarmáttur sprengjunnar er ólýsanlegur, fjöldinn og magnið er líka slíkt í vopnabúrum kjarnorkuveldanna að dugir til að eyða öllu lífi á jörðinni margsinnis. Þó að hafi hlýnað í samskiptum austurs og vesturs er þó ekki öll nótt úti enn því ýmis ríki þar sem stjórnmálaástand er óstöðugt eru að þróa þessi ógnarvopn.
Hér að ofan er mynd af reikistjörnunni Maldek eins og menn ímynda sér að hún hafi getað litið út. En þær kenningar hafa komið fram að fyrir hundruðum milljóna ára þegar jörðin var enn óbyggileg hafi verið reikistjarna á braut umhverfis sólu milli Júpíters og Mars. Þar hafi á sínum kviknað líf og þróast með líkum hætti og á jörðinni, enda skilyrði svipuð og hér eru nú. Þarna hafi vitsmunaverur að lokum farið að fikta við kjarnorkuna en talsvert skort upp á að ná nauðsynlegum tökum á þeirri tækni. Það hafi að lokum leitt til þess að plánetan sprakk í tætlur, en á þesum slóðum er nú mikið smástirnabelti.
Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær halastjarna, smástirni eða stór loftsteinn mun hitta okkur fyrir. Reyndar eru alltaf að falla inn í gufuhvolfið einhver lítil brot sem eyðast þá gjarnan upp á leiðinni til jarðar, en talið er að sending sem er u.þ.b. 100 metrar í þvermál lendi á jörðinni að meðaltali einu sinni á öld. Síðast hefur það líklega gerst í Tunguska í Síberíu.
Vísindamenn hafa fundið nokkur smástirni sem gætu rekist á jörðina í nálægri framtíð. Í desember 1997, tilkynntu þeir um fund á smástirninu 1997XF11, sem væri ef til vill ekki í frásögur færandi nema hvað að samkvæmt fyrstu útreikningum átti það að fara framhjá jörðinni í aðeins 800.000 km fjarlægð þann 26. október, 2028. Þetta smástirni er nokkrir kílómetrar í þvermál svo það gæti hæglega valdið miklum usla stefni það á jörðina.
Árið 2086 mun smástirnið 2340 Hathor koma enn nær jörðu. Fjarlægð þess frá jörðu verður þá aðeins 880.000 km. Þrátt fyrir að fjarlægðin sé sem betur fer mikil, gætu þau að lokum rekist á jörðina í framtíðinni.
Dagsetningin 16. mars, 2880, veldur mönnum hvað mestum áhyggjum. Samkvæmt útreikningum nokkurra bandarískra stjörnufræðinga eru um 0,33% líkur, eða 1 á móti 300, á að smástirnið 1950DA rekist á jörðina þann dag. Þetta eru svo sem ekki ýkja miklar líkur í daglegu lífi en engu að síður 100 sinnum meiri en áður þekktist.
Áður en braut 1950DA var reiknuð út, voru líkurnar nefnilega 1 á móti 30.000 að 1 km smástirnið 2002CU11 rækist á jörðina 31. ágúst, 2049.
Svo er það smástirnið 433 Eros sem geimfarið NEAR lenti á í febrúar 2001. Eros mun ekki rekast á jörðina í nálægri framtíð en nýlegir útreikningar þykja hins vegar benda til þess að braut Erosar breytist oft, eins og margra annarra smástirna. Samkvæmt því eru líkurnar um 1 á móti 10 að eftir nokkur milljón ár eigi Eros eftir að rekast á jörðina. Eros er frekar stórt smástirni, um 35 km að þvermáli, en það er miklu stærra en fyrirbærið sem rakst á jörðina fyrir 65 milljón árum. Við þekkjum afleiðingarnar sem urðu þá að nokkru og því ættu afleiðingar árekstrar milli jarðar og Erosar líklega þær að lífið myndi að mestu þurrkast út.
(Gúgglað af vísindavefnum).
Eftir fjóra til fimm milljarða ára hefur sólin brennt öllu eldsneyti sínu sem er vetni. Þá mun hún stækka margfallt og þenjast út, fyrst breytast í rauða risastjörnu en síðar skreppa aftur saman í svokallaðan hvítan dverg sem verður þá á stærð við jörðina. Hún mun þó áður gleypa þær reikistjörnur sem eru næst henni þ.e. Merkúr og Venus. Óvíst er hvort hún nær einnig til jarðarinnar enda breytir það ekki miklu þar sem heimaveröld okkar verður þá fyrir löngu orðin lífvana kolbrunnin klettur.
Þegar þanferlið hefst mun hiti sólarinnar fara hækkandi. Og þegar það er komið nokkuð á veg, mun hitastigið á jörðinni vera orðið það hátt að hún verður orðin óbyggileg. En þá opnast jafnframt önnur leið sem hingað til hefur ekki þótt raunhæfur kostur. Við þessar breytingar hækkar einnig hitastig á Mars sem mun örugglega sleppa við að verða gleyptur að sólinni í dauðateygjum sínum. Ef vísindin verða komin á það stig að hægt verður að flytja jarðarbúa á milli þessara reikistjarna, gætum við framlengt líf okkar um e.t.v. einhverja tugi milljóna ára. En eftir að slokknar endanlega á sólinni mun Mars ásamt þeim reikistjörnum sem utar standa, verða dæmdur til eilífðarvistar í hinni víðáttumiklu geimfrystikistu alheimsins.
Og spurningin verður þá hvert við getum svo farið eftir að hafa gerst alvöru Marsbúar um tíma.
Í fjarlægri framtíð gæti komið sér vel að getað pakkað saman og flutt sig til nýrra og lífvænlegri heimkynna. Myndin gæti allt eins verið tekin seinni part dags árið 4.240.512.169 og sýndi þá Siglufjörð langt inni í framtíðinni.
Alpha Centauri er næsta sólkerfi við okkar en engu að síður ansi langt í burtu eða í 4.3 ljósára fjarlægð. Við kæmumst því ekki þangað með góðu móti nema að vera búin að þróa með okkur álíka tækni sem hingað til hefur aðeins verið þekkt í vísindaskáldsögum.
En Alpha Centauri er að því leyti frábrugðin okkar sólkerfi að þar eru þrjár sólir eða Alpha Centauri A, B og C.
Alpha Centauri A er að mjög lík Sólinni okkar. Hún er jafnaldri hennar eða aðeins 5-6 milljarða ára gömul, hún er næstum því nákvæmlega jafn stór og hún er með sama hitastig og sólin
Alpha Centauri B er hins vegar appelsínugul og helmingi daufari. Hún snýst í kringum A á 80 ára fresti.
Alpha Centauri C er miklu minni og er það sem kallað er rauður dvergur. Birta hennar er aðeins 0,00006 af okkar sól.
En líklega verðum við að horfa lengra til með áfangastað því að flest bendir til þess að Alpha Centauri verði útbrunnin um líkt leyti og okkar sól.
Allt bendir til þess að skömmu eftir að slokknar á sólinni muni Vetrarbrautin rekast á aðra stjörnuþoku. Sú heitir Andromeda og er talsvert stærri en okkar og raunar sú stærsta í okkar hluta alheimsins (Grenndarhópnum). Ég segi skömmu eftir, því tímamunurinn er ekki nema u.þ.b. einn milljarður ára sem er varla nema eins og örstuttur kaffitími á geimsögulegan mælikvarða.
Áreksturinn mun standa yfir í milljónir ára eða jafnvel milljónatugi. Að lokum mun Andromeda gleypa Vetrarbrautina og þar sem hún var áður mun allsherjartómið eitt verða til staðar. Ljós stjarnanna sem hana mynduðu munu slokkna eitt af öðru þar til ekkert verður eftir. Í dag er Andromeda 2.5 milljarða ljósára í burtu sem er dágóður spölur, en er samt sú stjörnuþoka sem er næst okkar.
Ein stjörnuþokan gleypir aðra
Dvergþokur eru í miklum meirihluta í Grenndarhópnum. En þrátt fyrir að sumir af nálægustu nágrönnum Vetrarbrautar séu dvergþokur, er einungis hægt að greina þær í nokkuð stórum sjónaukum. Dvergstjörnuþokur eru nefnilega að jafnaði einungis fáein þúsund ljósár í þvermál og innihalda nokkrar milljónir eða best rúmlega milljarð af stjörnum. Til samanburðar inniheldur Vetrarbrautin milli 200 og 400 milljarði stjarna. Þar sem ekki er lengur stjörnumyndum í þessum litlu stjörnuþokum samanstanda þær einkum af afar gömlum stjörnum, sem lýsa ekki mjög sterkt.
En það er hreint ekki auðvelt að vera dvergþoka. Hinar þrjár stóru stjörnuþokur í Grenndarhópnum stjórna þeim með harðri hendi og margar af dvergþokunum eru svonefndar fylgdarþokur hinna þriggja stóru. Þær stóru éta síðan smám saman upp minni stjörnuþokurnar.
Það eru teikn um að Vetrarbrautin sé nú að gleypa í sig hvorki færri en þrjár af um 20 dvergþokur, sem eru á braut um hana líkt og gervihnettir. Þekktust þeirra er nefnd Bogamanns-dvergþokan. Hún uppgötvaðist árið 1994 og hlaut nafn sitt þar sem hún sást í átt við stjörnumerkið Bogamanninn, en þar er einnig miðju Vetrarbrautar að finna. Þessi litla stjörnuþoka er alveg hinu megin við miðjuna í meira en 70 þúsund ljósára fjarlægð frá sólu. Það eitt og sér gerir örðugt að skoða hana, en áhugavert má teljast að hún er nú á leið í gegnum skífu Vetrarbrautar af stjörnugasi og ryki. Ennþá hangir Bogamanns-dvergþokan nokkurn veginn saman. En þyngdarafl Vetrarbrautar hefur í milljarðir ára unnið að eyðileggingu hennar með því að teygja hana og toga til. Nú þegar má sjá hluta Bogamanns-stjörnuþokunnar, sem ógnarlangan stjörnutaum sem er meira en milljón ljósár að lengd og með massa sem nemur um 200 milljónföldum massa sólarinnar. Það má teljast eins konar kraftaverk að Bogamanns-dvergþokan hangi saman eftir að hafa verið á braut um Vetrarbrautina í milljónir ára. Kannski er að finna allnokkuð af hulduefni í þessari litlu dvergþoku, sem veitir henni óvenju mikið þyngdarafl og auðveldar henni gegn öllum líkum að hanga saman.
Nú á dögum þekkjum við fjölmarga stjörnuhópa sem umkringja Vetrarbrautina og þetta eru allt leifar af litlum dvergþokum, sem fóru of nærri Vetrarbrautinni. Svo seint sem árið 2003 uppgötvuðu stjörnufræðingar gríðarlegan taum af stjörnum, sem í 50 þúsund ljósára fjarlægð frá miðjunni snýst í hringi um Vetrarbraut.
Eftir einungis 5 milljarði ára mun Grenndarhópurinn hins vegar verða gjörbreyttur. Tvær stærstu stjörnuþokurnar, Vetrarbrautin og Andrómeda, hafa runnið saman í eina og að líkindum í millitíðinni hámað í sig fjölmargar dvergstjörnuþokur, sem finnast í dag. En þetta er ekki endalok sögunnar um Grenndarhópinn.
Hópurinn er nefnilega umlukinn öðrum stjörnuklösum. Einna nálægastir eru Maffeiklasinn og Höggmyndaklasinn, ásamt hinum miklu stærri Meyjaklasa. Sá síðastnefndi, sem er í um 50 milljón ljósára fjarlægð og inniheldur ekki minna en 2.000 stjörnuþokur, hefur gríðarleg áhrif á Grenndarhópinn. Margar stjörnuþokur Meyjarklasans eru verulega stórar, en ein þeirra virkar sem leiðsagnarþoka og liggur í miðjunni. Það er þessi risavaxna sporvölulagaða stjörnuþoka, M87, sem að öllum líkindum inniheldur 2 - 3 milljarði stjarna og hefur þvermál nærri milljón ljósárum. Bæði Vetrarbrautin og Andrómedra eru sem dvergvaxnar í samanburði við þennan risa.
M87 hefur ekki náð slíkri stærð með dvergstjörnuþokum einum saman, heldur hefur trúlega gleypt í sig stjörnuþokur á stærð við Vetrarbrautina. Vegna þenslu alheims dreifast stjörnuþokur í Meyjarklasanum í burt frá okkur með meðaltalshraða nærri 1000 - 11.000 km/sek, en þyngdaraflið frá þúsundum af stjörnuþokum í klasanum getur yfirunnið útþensluna, og útreikningar sýna að við munum á endanum dragast í átt að Meyjarklasanum og að lokum mun Grenndarhópurinn verða hluti að Meyjarklasanum.
Enn eru ekki öll kurl komin til grafar, því Meyjarklasinn er nefnilega undir áhrifum enn stærra safns af stjörnuþokum sem kallast Togarinn mikli (The Great Attractor). Við vitum harla lítið um hann, enda liggur hann dulinn að baki Vetrarbrautarinnar. En greina má eitthvað sem hefur áhrif á hreyfingu stjörnuþoka á gríðarlegu miklu svæði. Trúlega er um að ræða mikið samansafn tugþúsunda stjörnuþoka í kannski 250 milljón ljósára fjarlægð. Rétt eins og grenndarhópurinn mun dag einn verða hluti af Meyjarklasanum, þá mun Meyjarklasinn kannski í fjarlægðri framtíð ganga inn í Togarann mikla. Og kannski kann sá einhvern tímann að vera gleyptur af enn stærra fyrirbæri.
(Gúgglað að Lifandi vísindi).
Seint á síðasta ári var ræst mikið mannvirki sem er staðsett nálægt Genf í Sviss, en framkvæmdir og allur undirbúningur hafði staðið árum saman. Það er á okkar mælikvarða risastór öreindahraðall 100 metra ofan í jörðinni þar sem reynt verður að líkja eftir því sem gerðist eftir miklahvell. Miklar deilur urðu vegna þessa verkefnis eins og við mátti búast og margir þ.á.m. ýmsir fræðingar á sviði eðlisfræði og skyldra greina gagnrýndu þar harkalega. Óttuðust þeir m.a. að tilraunin gæti orsakað "keðjuverkun dauðans" eins og það var orðað, sem myndaði síðan eins konar svarthol sem síðar leiddi til eyðingu jarðarinnar. Ein kenningin gekk m.a. út á að jörðin gleypti sjálfa sig og massinn þéttist svo mikið að hún yrði á eftir ekki nema tæpir 9 millimetrar í þvermál, en það er sá þéttleiki sem talið er að sé í svartholum.
Stóri sterkeindahraðallinn í CERN (enska "Large Hadron Collider", skammstafað LHC) er stærsti eindahraðall í heimi og sá eini sem gerður er til að hraða sterkeindum. Hann er staðsettur á landamærum Frakklands og Sviss nálægt Genf í Sviss.
Í hraðlinum er róteindum og blýatómkjörnum (sínum í hvorri tilrauninni) hraðað nálægt ljóshraða. Helmingur eindanna hverju sinni fer réttsælis en hinn helmingurinn rangsælis og eru þær síðan látnar rekast saman. Agnirnar sem verða til við áreksturinn eru síðan skoðaðar og eiginleikar þeirra.
Í júlílok 2008 náði allur hraðallinn rekstrarhitastigi sínu eftir áralangan undirbúning, 1,9K (-271,25°C) sem er 0,8° kaldara en meðalhiti alheimsins (örbylgjukliðarins).
Fyrstu róteindageislarnir voru sendir í gegnum göng hraðalsins þann 10. september 2008. Fyrstu orkumiklu árekstrarnir eru væntanlegir 6-8 vikum síðar en þó með aðeins um 10 TeV (tera-elektrónuvolt). Engir árekstrar verða prófaðir á fullum krafti hraðalsins (14 TeV fyrir róteindir) fyrr en árið 2009.
Heildarkostnaður verkefnisins til þessa er áætlaður 3,5 milljarðar evra eða u.þ.b. 450 milljarðar ISK.
(Gúgglað af Wikipedia).
Öreindahraðallinn í CERN sem er stærsti öreindahraðall sem smíðaður hefur verið var gangsettur í gær. Með hraðlinum verður núteinda mun auðveldara að rannsaka þau ferli sem eiga sér stað þegar öreindir rekast saman á hraða sem nálgast ljóshraða en þegar fullt af kemst á hraðalinn getur hann hraðað trilljónum róteinda í einu á allt að 99.99% af hraða ljóss.
Lengi hefur verið deilt um hvort smíði hraðalsins hafi verið réttlætanleg vegna hættu sem getur mögulega stafað af honum. Mest hefur verið talað um þann möguleika að svarthol gæti myndast sem afrakstur af notkun hraðalsins en talið er að gagnsetning hans hafi þaggað niður í svartsýnisseggjum, a.m.k. í bili.
Augljóst er að það er spennandi tími framundan í í eðlisfræði öreinda og því um að gera að fylgjast vel með.
(Gúgglað af RAF101)
Þann 08.08.08 mátti m.a. lesa í Viðskiptablaðinu frétt sem tekin var af vef BBC undir fyrirsögninni "Heimsendir á morgun".
Á morgun verður tveimur öreindageislum skotið í gagnstæða átt í öreindahraðli evrópsku öreindarannsóknarstofnunarinnar (CERN). Því hefur verið haldið fram að við gangsetningu hraðalsins, sem ætlað er að endurskapa aðstæður sem ríktu í geimnum skömmu eftir Miklahvell (e. Big Bang) myndist lítið svarthol sem stækkar þar til það gleypir jörðina.
Aðrir hafa nefnt þann möguleika að notkun hraðalsins hrindi af stað keðjuverkun sem breytir kjörnum atóma og veldur því að allt efni jarðar breytist og hún verði heit og lin klessa.
Eðlisfræðingar á vegum CERN hafa þó bent á að á undanförnum milljörðum ára hafi sambærilegir árekstrar atóma og verða í öreindahraðlinum átt sér stað um milljón sinnum. Því sé engin ástæða til að óttast heimsendi.
Talið er að lítið svarthol geti myndast við árekstur öreindanna, en að líftími þess yrði afar stuttur.
Eðlisfræðingur við Háskólann í Cambridge, dr. Adrian Kent, hefur þó haldið því fram í skrifum sínum að vísindamenn hafi enn ekki rökstutt nægjanlega vel að gangsetning hraðalsins geti ekki haft hamfarir í för með sér. Hann benti einnig á að spurningu um hveru ósennilegur heimsendir þarf að vera til að réttlæta að haldið sé áfram með tilraunina hafi aldrei verið svarað.
Þessi heimsendaspá hefur ekki enn gengið eftir og ekkert bendir til þess að svo verði. En merkilega hljótt hefur verið um tilraunina eftir að hún hafði staðið yfir í tiltölulega skamman tíma. Einhverjir hæfilega frjóir í hugsun hefðu talið það til marks um að verið væri að leyna einhverju og sett saman einhverja skemmtilega samsæriskenningu, en málið er e.t.v. farið að gleymast. Meira að segja hjá samsæriskenningasmiðum sem oft hafa þó sett fram lífseigar tilgátur.
Kenningar hafa komið fram um að sólkerfið okkar stefni inn í svarthol en þó ekki alveg á næstunni. Það er þó ekki alveg ljóst hve margir milljarðar ára eiga að líða þar til sá atburður á að eiga sér stað. Þeir ógnarkraftar sem í slíku fyrirbæri búa eru eiginlega svo óskiljanlegir og fráleitir að manni finnst eins og má lesa úr tilvitnunum hér að neðan.
En ef jörðin sogaðist inn í svarthol myndi hún þjappast í litla kúlu sem væri aðeins 8,9 mm í þvermál en þyngd hennar yrði eftir sem áður hin sama.
Rannsókn stjörnufræðinga, sem hefur staðið yfir undanfarin 16 ár, hefur nú staðfest að það er risavaxið svarthol í Vetrarbrautinni, sem er sú stjörnuþoka sem jörðin tilheyrir.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að þýskir stjörnufræðingar hafi komið sér fyrir í í evrópsku stjörnuathugunarstöðinni í
Niðurstöður vísindamannanna voru birtar í vísindaritinu The Astrophysical Journal og þar kemur fram að svartholið sé fjórum milljón sinnum þyngri en sólin.
Einnig er talið að í miðju sumra vetrarbrauta og dulstirna sé að finna feiknastór svarthol, með milljón- eða jafnvel milljarðfaldan sólarmassa. Ekki er talið útilokað að eitt slíkt sé að finna í miðri vetrarbrautinni okkar, í aðeins 28.000 ljósára fjarlægð frá jörðu. Þessi svarthol eru annars eðlis en þau sem áður var lýst að því leyti að þau rekja ekki uppruna sinn til einnar sólstjörnu, heldur til stærri efnisklumpa, en að öðru leyti haga þau sér svipað.
(Gúgglað af Mbl.is).
Stjörnufræðingar "sáu" svarthol gleypa stjörnu. Tvær stjörnuskoðunarstöðvar hafa fundið fyrstu beinu vísbendingarnar um það hvernig svonefnt svarthol tætir í sundur og "gleypir" stjörnu sem lent hefur í gríðarlegum þyngdarkrafti svartholsins. Stjörnufræðinga hefur lengi grunað, að þetta eigi sér stað en sú kenning hefur aldrei fengist staðfest. Stjörnufræðingar urðu varir við öfluga röntgengeislasprengingu sem varð í miðju vetrarbrautar í um 700 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðu. Stjörnufræðingar telja, að lofttegundir frá stjörnunni hafi valdið sprengingunni eftir að þær hitnuðu um margar miljónir gráða við að dragast að svartholinu.
Stjörnufræðingar segja, að stjarna á stærð við sólina, hafi nálgast svartholið eftir að hafa breytt um stefnu við að fara of nálægt annarri stjörnu. Gríðarlegt þyngdarafl svartholsins, sem er talið hafa milljón sinnum meiri
"Þetta eru hin endanlegu átök Davíðs og Golíats en þarna beið Davíð ósigur," sagði Gunther Hasinger, stjarnfræðingur hjá Max Planck stjarneðlisfræðistofnuninni í Þýskalandi.
"Áhrifin eru svipuð og þau þegar tunglið togar í höfin á jörðinni en afleiðingarnar eru mun öflugri. Talið er að svartholið hafi gleypt um 1% af stjörnunni og þeytt afganginum út í geiminn."
"Aumingja stjarnan var á ferð í röngu borgarhverfi," sagði Stefanie Komossa, sem einnig starfar hjá Max Planck stofnuninni.
Stjörnufræðingar notuðu Chandra stjörnuathugunarstöð bandarísku geimferðastofnunarinnar og XMM-Newton röntgengeislaathugunarstöð evrópsku geimferðastofnunarinnar til að fylgjast með þessum atburði. Talið er svipaðir atburðir verði á um 10 þúsund ára fresti í venjulegri stjörnuþoku.
(Gúgglað af Mbl.is).
Þegar massinn hefur fallið saman í einn punkt verður þyngdarkraftur svo sterkur að ekkert innan ákveðinnar fjarlægðar frá miðju sleppur í burtu, ekki einu sinni ljós. Vegna þess að ljós sleppur ekki í burtu verður fyrirbærið algjörlega ósýnilegt og skýrir það nafngiftina.
Mörkin þar sem þyngdarkrafturinn verður nógu sterkur til að gleypa ljós eru aðeins í örfárra kílómetra fjarlægð frá miðjunni. Við þessi mörk er sagt að lausnarhraðinn sé meiri en ljóshraði. Þau nefnast sjónhvörf (e. event horizon) og má líta á þau sem yfirborð svartholsins. Ástand hins óendanlega þétta efnis í miðjunni er vissulega undarlegt. Staðurinn þar sem þetta gerist nefnist sérstæða (e. singularity) en það orð er fengið úr stærðfræði og táknar meðal annars punkt þar sem fall stefnir á óendanlegt. Ástandið í þessum punkti er svo framandi að allar viðteknar hugmyndir vísindanna bregðast. Allt í kring eru tími og rúm sveigð vegna hins gífurlega massaþéttleika, í samræmi við forsagnir almennu afstæðiskenningarinnar. Í sérstæðunni sjálfri er sveigjan óendanleg, það er að segja að jafnvel tími og rúm hætta að vera til í þeirri mynd sem við þekkjum.
Segja má að allt sem varðar svarthol sé lyginni líkast. Sem dæmi má nefna það sem við sæjum ef við fylgdumst úr fjarlægð með geimfari nálgast svartholið. Vegna sveigju tímarúmsins myndi okkur virðast sem geimfarið færi alltaf hægar og hægar og ef við sæjum klukkur um borð í því myndi okkur virðast sem þær hægðu sífellt á sér. Þegar geimfarið næði jöðrum svartholsns (sjónhvörfunum) myndi okkur virðast tíminn í geimfarinu líða óendanlega hægt þannig okkur virtist það standa í stað og því sæjum við það aldrei falla inn. Ef ólánsamur geimfari væri staddur um borð mundi honum á hinn bóginn ekki virðast tíminn hægja á sér enda hefði hann annað og verra við að glíma. Sá hluti hans sem félli á undan inn í svartholið myndi verða fyrir mun meiri þyngdarkrafti en aðrir líkamspartar, og þessir missterku kraftar mundu sundra honum í frumeindir og jafnvel sundra frumeindunum sjálfum. (Þessir kraftar eru hliðstæðir svokölluðum sjávarfallakröftum).
Þrátt fyrir ýmsa undarlega eiginleika svarthola hefur komið í ljós að ytri eiginleikum þeirra má lýsa með þremur stærðum, massa, rafhleðslu og hverfiþunga. Þessar stærðir, sem fræðilega ætti að vera hægt að mæla, eru einu eiginleikar svarthola sem birtast umheiminum, allar upplýsingar um innri gerð eru að eilífu glataðar. Vísindamenn orða þetta stundum þannig að svarthol séu hárlaus!
Ef svarthol sleppa ekki einu sinni ljósi frá sér, hvernig geta stjörnufræðingar þá fundið þau? Helsti möguleikinn er að greina áhrif hins mikla þyngdarkrafts þeirra á nágrennið, sem er hægt ef svartholið hefur fylgistjörnu. Þegar gösin frá fylgistjörnunni dragast inn í svartholið hitna þau. Áður en þau týnast endanlega í svartholinu geta þau orðið svo heit að þau gefa frá sér röntgengeisla. Með því að mæla slíka röntgengeislun hafa vísindamenn fundið fyrirbæri í vetrarbrautinni okkar sem telja má líkleg svarthol.
(Gúgglað að vísindavefnum).
Andefni, hvað er nú það?
Og auðvitað er ekki til nein mynd af andefni. Ein af þeim heimsendakenningum sem komið hafa fram, hafa á einhvern hátt með andefni eða þá orku sem í því felst að gera. Andefni á að vera eins konar önnur vídd efnis, öfugt hlaðin efniseind eða spegilmynd atómsins. Því hefur verið haldið fram að það hafi verið framleitt í lokuðu rými hjá CERN og vísindamenn fylgst með þegar efni og andefni eyddu hvort öðru og leystu við það gríðarlega orku úr læðingi. Þetta á að hafa opnað sýn inn í nýja veröld þar sem tíminn líður aftur á bak, hægri er vinstri og jákvætt er neikvætt. En þó vantar enn skýringuna á því hvers vegna heimur okkar er aðeins gerður úr venjulegu efni.
Einnig hefur því verið haldið fram (en þó án allra sannana) að við hliðina á okkar alheimi sé annar alheimur. Hann sé spegilmynd af okkar hluta og allt hérna megin eigi sér samsvörun hinum megin. Tengingin á milli þeirra sé í gegn um "holin" sem hérna megin eru svarthol en á hinum endanum hvíthol. Á milli þeirra liggi svo "ormagöng" en ekki sé ljóst hvaða tilgangi þau þjóna.
Svo má bæta enn einni kenningunni við, en þar er því haldið fram að við séum andefnismegin í þessum tveimur alheimum. Við séum ásamt öllu því sem í kring um okkur er, gerð úr eins konar "mínus" efni, þ.e. auðvitað andefni en við höfum bara enga möguleika á að átta okkur á því að svo er.
En svarið sem ég las á vísindavefnum þegar ég spurði un andefni var svohljóðandi:
Orkunni í andefninu er lýst með jöfnu Einsteins, E = m c2, þar sem E er orkan, m er massinn og c er ljóshraðinn. Þar sem hann er afar stór tala felst í þessari jöfnu að það þarf aðeins lítinn massa til að skapa mikla orku.
Ef við hugsum okkur stórt svæði í alheiminum sem væri alfarið gert úr andefni, þá yrðu öll fyrirbæri innan þessa svæðis næstum eins og í umhverfi okkar. Þar á meðal mundi þessi orka andefnisins breytast á sama hátt og orka efnisins kringum okkur, til dæmis í efnahvörfum, kjarnahvörfum og í hvörfum öreinda þar sem massi þeirra breytist í orku sem berst burt til dæmis sem rafsegulgeislun eða sem fiseindir sem eru því sem næst massalausar. Í þessum hvörfum breytist yfirleitt aðeins lítill hluti af fyrrgreindri massaorku efnis eða andefnis í aðrar orkumyndir.
Sérstaða andefnis kemur fyrst og fremst í ljós ef það er innan um venjulegt efni og andeindir rekast á samsvarandi eindir (jáeindir á rafeindir, andróteindir á róteindir og svo framvegis). Þegar það gerist breytist allur massi beggja eindanna, öll massaorkan, í aðrar orkumyndir. Þess konar öreindahvörf kallast almennt tvenndareyðing (pair annihilation) en raftvenndareyðing þegar um er að ræða rafeind og jáeind. Segja má að í tvennd eindar og andeindar felist hlutfallslega meiri umbreytanleg orka en í flestu öðru efni sem við þekkjum og það er ein ástæðan til þess að höfundar vísindaskáldsagna hafa rennt girndarauga til andefnisins sem eldsneytis í geimferðum.
Voru guðirnir geimverur? Er kannski og hefur alltaf verið vakað yfir okkur jarðarbúum af æðri (geim)verum og fylgst með hverri okkar hreyfingu? Þegar vandamálin vaxa okkur mönnunum yfir höfuð og við kunnum fá ráð okkur til bjargar, er sú leið oftlega farin að fela okkur æðri máttarvöldum á vald og sameinast í trúnni. Það skyldi þó aldrei vera að við verðum bænheyrð einhvers staðar í upphæðum og langt inni í ókominni framtíð, "æðri" verur komi þá siglandi á geimskipum sínum og sagan um Örkina hans Nóa endurtaki sig í nýrri og endurbættri útgáfu. Eða voru það kannski einmitt þessar verur sem komu okkur fyrir á jörðinni í upphafi þar sem við höfum síðan þróast og þroskast í nokkur árþúsund, þeim renni nú blóðið til skyldunnar og færi okkur því til í alheiminum vegna þess að heimkynni okkar séu nú komin að fótum fram?
En svo er líka til sagan um geimverurnar sem heimsóttu jörðina í árdaga, villtust frá skipi sínu, fundu það aldrei aftur og þess vegna erum við hérna enn.
Kannski þessu alveg öfugt farið, verurnar sem sagt er að sveimað hafi allt í kring um okkur áratugum eða öldum saman, rannsakað lífið á jörðinni en þó haldið sig til hlés, verða jafn ráðalausar og við gagnvart yfirvofandi Ragnarökum þegar þar að kemur. Þær munu jafnvel gera viljandi vart við sig og leita á náðir okkar mannanna í von um björgun kynstofnsins. Við ættum þá sameiginlegra hagsmuna að gæta og myndum eflaust reyna allar mögulegar og ómögulegar leiðir til að forða okkur frá hinum grimmilegu endalokum.
Hugsanlega yrði mögulegt að rækta nýja tegund eða framkalla stökkbreytingu og búa þannig til margfallt hæfari einstaklinga þar sem það besta frá hvorum stofni myndi renna saman í eitt. En líklega yrði þó viðhöfð önnur og mun tæknilegri aðferð við ferlið en myndin hér að ofan sýnir. Þessi nýja tegund ásamt viðbættum og ígræddum vélbúnaði af einhverju tagi ætti e.t.v. möguleika á að gera það sem fyrirrennararnir væru ekki færir um þ.e.a. ferðast um langa vegu í óravíddum geimsins og finna sér ný heimkynni.
Í tilefni af 50 ára afmæli geimumferðarstofunnar NASA mun Bítlaslagarinn Across The Universe verða spilað um heiminn og geiminn.
Já þið lásuð rétt, í næstu viku ætlar NASA að streyma laginu út í geim og þá í átt til pólstjörnunnar.
Fyrrum bítillinn Sir Paul McCartney sagði að þetta væri frábært framtak hjá NASA og bætti við:"Skilið ástarkveðju frá mér til geimveranna"
Yoko Ono sagði:"Ég sé þetta sem byrjun á nýjum tíma, nýrri öld þar sem við verðum í samskipti við billjónir pláneta út í geiminum"
Laginu verður streymt að miðnætti mánudagsins 4.febrúar en aðdáendur Bítlanna eru beðnir um að taka þátt í þessu með þeim með að spila lagið á sama tíma.
(Monitor.is 02.01.08.)
Geimverurnar tala með skandinavískum hreim og koma hingað til að gera kornhringi. Það má alla vega lesa úr tilkynningu konu sem hafði samband við breska flugherinn í Suffolk til að tilkynna að hún hefði hitt geimveru. Tilkynninguna er að finna í skjölum sem bresk stjórnvöld hafa gert opinber.
Konan sagðist hafa verið úti að ganga með hundinn sinn þegar maður með ljóst hár kom upp að henni og byrjaði að ræða við hana. Hún sagði manninn hafa tjáð sér að honum þætti mikilvægt að tala við mannverur þó honum hefði verið bannað að gera það. Jafnframt hefði hann sagt að hann væri kominn til jarðar í friði og til að gera kornhringi. Ekki virðist hann þó hafa fengið tækifæri til að segja konunni til hvers kornhringirnir væru því hún flýði eins hratt og fætur hennar báru hana. Skömmu seinna segist konan hafa heyrt mikinn hávaða og séð fyrirbæri rísa til himins þar til það hvarf.
Skjölin um tilkynningar um fljúgandi furðuhluti sem hafa nú verið gerð opinber eru frá árunum 1987 til 1993. Atvikið að ofan er frá árinu 1988. Þremur árum síðar tilkynntu tveir flugumferðarstjórar á Heathrow að þeir hefðu séð svart fyrirbæri sem leit út eins og bjúgverpill. Það hafi í fyrstu verið kyrrt en síðan flogið í áttina að sólinni.
(DV. 22.03.09.)
Edgar Mitchell, fyrrum geimfari og tunglgöngumaður hjá NASA, sem meðal annars tók þátt í Apollo 14 leiðangrinum, heldur því fram að geimverur séu til.
Hann heldur því fram að geimverur hafi ofsinnis heimsótt jörðina en að yfirvöld séu búin að halda því leyndu í sex áratugi. Þetta kemur fram á vefnum news.com.au.
Mitchell sem er orðinn 77 ára gamall sagði í útvarpsviðtali fyrir skömmu að heimildarmenn hans hjá NASA hefðu haft samskipti við geimverurnar sem væru litlar og undarlegar á að líta.
Þeim svipaði í raun til þeirra geimvera sem oftast birtust í kvikmyndum, litlar verur með stór höfuð og stór augu.
Hann bætti því enn fremur við að tækni þeirra væri margfalt lengra á veg komin en okkar eigin og hefðu verurnar verið okkur fjandsamlegar væru við horfin veg veraldar.
Mitchell á met í tunglgöngu ásamt fararstjóra Apollo 14, Alan Shepard, og gekk á tunglinu í 9 klukkustundir og 17 mínútur í för þeirra 1971.
"Ég er í þeirri forréttindaaðstöðu að vita af þeirri staðreynd að við höfum fengið heimsókn hingað á jörðina og að það eru til geimverur," sagði hann.
Stjórnandi útvarpsþáttarins varð furðu lostinn yfir yfirlýsingum geimfarans.
"Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað geimfaragrín en honum var fullkomin alvara með að það væri til geimverur og það var ekki hægt að draga í efa."
(Mbl. 25.07.08)
Þó flest virðist ætla að verða á móti okkur í framtíðinni og hver stórbömmerinn feta í slóð þess sem á undan gengur þá hlýtur alltaf að vera von.
Ég hef auðvitað talsverðar áhyggjur af framtíðinni eins og gefur að skilja...
En eftir allar þessar hyldjúpu og á köflum súru pælingar, tel ég heppilegast að fara norður á Sigló í nokkra daga og leggjast í hugleiðslu. Kannski mér batni þar.
02.05.2009 09:20
SMS-skilaboð, íbúð í gíslingu, rúðubrot,óhóflegt ísát og vandræðagangur í umferðinni
563. Skömmu eftir að klósettfréttin (hér að neðan) birtist á Mbl-inu fékk ég talsvert af sms-skilaboðum þar sem mér var m.a. bent á að ég hefði alveg mátt raka mig og greiða "ljósa" hárið fyrir viðtalið, en aðallega þó baráttukveðjur með ósk um málið fái "farsælan endi". Ég vildi bara segja: Takk fyrir það.
Fyrir rúmu ári síðan keypti ég litla íbúð í húsinu við Bergþórugötu 51 í Reykjavík. Þannig háttar til að eina snyrtingin sem hún hefur aðgang að er staðsett í sameign hússins og er því á forræði húsfélagsins sem ber lögum samkvæmt að halda því í viðunandi ástandi. Þegar ég keypti íbúðina var ástand snyrtingarinnar svo slæmt að hún var með öllu ónothæf vegna langvarandi vanrækslu á viðhaldi. Ég fór því fram á það við húsfélagið að endurbætur yrðu gerðar en því var hafnað. Ég bauðst til að gera nauðsynlegar endurbætur á minn kostnað en því var einnig hafnað. Ég bauðst þá til að kaupa rýmið sem snyrtingin er staðsett í en því var hafnað eins og öðru.
Að lokum tjáði stjórn húsfélagsins mér að vilji stæði til að loka hreinlætisaðstöðunni endanlega, en slík aðgerð hefði gert íbúðina svo gott sem verðlausa. Ég kærði þá málið til Kærunefndar fjöleignarhúsamála sem úrskurðaði mér í vil og að lög hafi verið brotin. Sá úrskurður hefur nú legið fyrir síðan í október 2008 án þess að neitt hafi verið aðhafst að hálfu húsfélagsins og þrátt fyrir fjölmargar ítekanir af minni hálfu sem hefur yfirleitt ekki verið svarað. Íbúðinni hefur því í raun verið haldið í gíslingu og það þarf auðvitað ekki að taka það fram að fjárhagslegt tjón er orðið verulegt og óhagræði mikið eins og gefur að skilja vegna aðgerða eða öllu heldur aðgerðaleysis húsfélagsins.
Ég hef fram til þessa vonast til þess að sú lausn fyndist á málinu sem allir gætu sætt sig við en er nú orðinn vondaufur um að það gerist. Þolinmæðin er á þrotum og ég er svo sem ekkert mjög hissa á sjálfum mér að þessu sinni, því ég held að hún hafi enst mun lengur en oft áður.
En þess vegna hafði ég m.a. samband við fjölmiðla, en tveir þeirra sýndu málinu áhuga og fjölluðu um það þ.e. Mbl.is og Visir.is. Næsta skref hlýtur svo að vera að fara með málið fyrir dómstóla. Slóðin á frétt visir.is er http://www.visir.is/article/20090507/FRETTIR01/111374271 en http://mbl.is/mm/frettir/sjonvarp/24450/ á Mbl.is
Auli getur maður verið, en stundum gleymist hreinlega að hugsa. Ég var eins og sjá má að flytja þvottavél í bláa smábílnum, en vegna smæðar hans var ekki hægt að koma gripnum nægilega vel fyrir. Hann (gripurinn) eða (hún þvottavélin) stóð því út úr að aftan svo ekki var hægt að loka hleranum. En auðvitað gleymdist slíkt smáatriði og þegar hann skelltist aftur kurlaðist rúðan í smátt.
Það var því ekki um annað að ræða en að staga í gatið með því sem nærtækt og nýtilegt. En nú spurning hvort borgar sig að fá nýja rúðu eða hlerann með öllu saman á partasölu. Og þá verður spurning hvort sá litli blái verður rauður, hvítur eða áfram blár í afturendann.
Og enn og aftur... Auli get ég verið!
Mér finnst ís góður og þess vegna fæ ég mér oft ís. Kannski of oft, því það er með ólíkindum hvað ísát mitt er oft í umræðunni í kring um mig. Ég fæ það stundum á tilfinninguna að það sé verið að reyna að koma einhverjum ábendingum til mín á nærgætinn og jafnvel allt að því diplómatískan hátt. En þar sem ég er í talsverðum vafa um hvort svo er, held ég mínu striki og læt þessa freistandi mjólkurafurð í ótal bragðtegundum svo og öllum stærðum og gerðum njóta vafans
Nýlega var opnuð ísbúð í Garðabæ rétt við Hafnarfjarðarveginn og skammt fyrir neðan Garðatorg. Það er því oftlega mikil freisting að staldra við á þessum nýja áningarstað því þarna er úrvalið í meira lagi. Þar fæst m.a. bananaís úr vél sem er mikil nýlunda fyrir mér og bragðast afburðavel bæði með með lúxus og lakkrísdýfu.
En svo er önnur ísbúð vestur á Hagamel og þar fæst ís sem er engum líkur, því hann er einfaldlega hvergi seldur annars staðar. Ég er mikill aðdáandi hans og á það til að skreppa í bíltúr úr suðurbæ Hafnarfjarðar í vesturbæ Reykjavíkur til þess eins að fá mér akkúrat þannig ís. Stundum er reyndar svo löng biðröð þarna að röðin nær út úr dyrunum og langt út á gagstétt, en þar sem ég er ekki mikið fyrir biðraðir hverf ég frá í þau skipti en kem þá gjarna aftur næsta dag til að "ljúka erindinu".
Um helgina lagði ég einmitt upp við annan mann í slíka vesturbæjarferð, en þegar ekið var í gegn um Garðabæinn varð freistingin skynseminni yfirsterkari og það var því staldrað við í ísbúðinni í Garðabæ. Þaðan var svo haldið vestur í bæ og það stóð á endum að búið var að koma Garðarbæjarísnum fyrir þegar rennt var í hlað á Hagamelnum. Þar var keyptur annar ís sem kláraðist auðvitað á bakaleiðinni. Í Garðabænum spurði ég farþegann hvort við ættum að líta aftur við "á hinum staðnum" í bakaleiðinni en fátt varð um svör sem hentuðu mér að þessu sinni.
Ég staldraði því við en náði samkomulagi við sjálfan mig um að lítill ís væri það sem dygði mér að þessu sinni. Þegar út í bíl kom var mér bent á að líklega vantaði sárlega einhver úrræði eða jafnvel meðferð við ísfíkn.
Hinn síðasta dag aprílmánaðar var umferð eins og hún gerist mest á föstudegi, enda rauður dagur framundan eða hinn hálfheilagi fyrsti maí. Síðdegis þennan dag átti ég leið til Reykjavíkur um gatnamótin í Engidal þar sem eru mörk Hafnarfjaðrar og Garðabæjar. Þar hafði orðið að því er mér virtist svolítið klaufalegur árekstur sem sjá má á myndinni hér að ofan og ég tók í gegn um framrúðuna þar sem ég beið á rauðu ljósi. Tjón var greinilega sáralítið og allir virtust hinir sprækustu þannig að ekkert benti til þess að slys hafi orðið á fólki. En vandræðagangurinn var hins vegar mikill og bílstjórar og farþegar gengu fram og til baka, töluðu í gemsana sína og funduðu þarna á staðnum með talsverðu handapati. Það kom grænt ljós og ég smokraði mér framhjá og hélt mína leið.
Ég lauk erindi mínu í Reykjavík og hélt til baka u.þ.b. hálftíma síðar. Flest var óbreytt á árekstrarstaðnum. Vandræðagangurinn og stressið var síst minna en áður, gemsar voru hátt á lofti og ökumenn og farþegar eigruðu um og skiptust á skoðunum með ýktum handahreyfingum. En nú hafði einnig myndast umferðarhnútur með hinu hrollvekjandi Frýgverska Gordionslagi.
Kannski hafa þetta verið Ítalir eða Frakkar. - Æ, æ...
23.04.2009 20:35
Gengið í kring um Gufunes
562. Það eitt kann að vera lítt merkileg og frekar hversdagsleg aðgerð svona ein og sér að fara með bílinn sinn á verkstæði til aðhlynningar, en aðstæður geta engu að síður orðið til þess að sú ferð vex með sjálfri sér ef myndavél, nægur tími og gott veðurfar eru til staðar. Það var raunin á að þessu sinni svo mætti á tilsettum tíma til Gústa sem hefur séð um mín bílamál undanfarin ár og ákvað að fá mér vænan göngutúr meðan viðgerð stæði yfir, en vera svo mættur aftur á upphafsreit áður en vinnudegi lyki og hann lokaði og læsti á eftir sér.
Þar sem Gústi er til húsa að Stórhöfðanum skammt fyrir ofan Gullinbrú, fannst mér upplagt að ganga fjörurnar fyrir Vog sem skilur að höfðann austan Ártúnsbrekku og Grafarvog. En þegar ég hafði gengið undir Gullinbrú snérist mér hugur og beygði til vinstri og út eftir fjörunni gegnt Sundahöfn. Hinum megin sjávar biðu þessi risavöxnu mannanna verk eftir því að næsta gámaskip legðist að Sundahöfn, tilbúnir í slaginn.
Ég leit til baka og sá að ég hafðio gengið drjúgan spöl en var strax farinn að velta fyrir mér hvað þessi göngutúr yrði langur. Ég hafði mætt með bílinn kl 15 en þurfti að vera komin aftur fyrir 18, en þá átti hann að vera tilbúinn og dagur að kvöldi kominn.
Framundan hlykkjaðist grófur vegarslóðinn meðfram fjöruborðinu og hvarf sjónum á bak við nef sem teygði sig aðeins utar en landið í kring. Svo birtist hann aftur lengra frá og aþr voru sýnilega einhverjar byggingar sem ég þurfti að vita nánari deili á.
Ég gekk fyrir "nefið" á landinu og hugsaði með mér að þetta væri fín æfing fyrir komandi sumar eftir gönguleysi liðinna vetrarmánaða. Alveg væri tímabært að fara að teygja úr sér og hreyfa skankana, því í næsta máuði væru fyrirhugaðar fyrstu ferðirnar m.a. með gönguhópnum okkar Magga Guðbrands (og auðvitað allra hinna).
Á stórgrýtinu fyrir ofan mig sá ég svolitla hreyfingu og hægði á mér. Nú er ég ekki góður að þekkja fuglana en sýnist þetta vera Tjaldur. Alla vega beið hann (eða hún) grafkyrr eftir að ég smellti af en flaug síðan á braut.
Ég nálgaðist þetta mannvirki og eins og það ber með sér mun það vera skólphreinsistöð. Ég velti fyrir mér hvort réttara sé að skrifa skolp eða skólpÉg vissi reyndar ekki af tilvist hennar fyrr en núna, en eftir svolitla athugun komst ég að því að sótt var um byggingaleyfi á árinu 2002 svo að ekki mun hún vera komin til ára sinna.
Ég lít um öxl og sé að stóru kranarnir við Sundahöfn eru búnir að fá verðugt verkefni.
Ég er nú kominn á þann stað í fjörunni sem er u.þ.b. beint fyrir neðan gömlu öskuhaugana. Þarna var allt sorp höfuðborgarsvæðisins á árabilinu 1965-1984 urðað og þarna urðu til landfyllingar sem skiptu tugum hektara. Ekki veit ég hvort það sem hér sést eru einhverjar leifar frá því árabili sem gægist undan jarðveginum sem ætlað var að hylja það sem ekki mátti sjást eða eitthvað annað.
Ég nálgaðist þessa svörtu hrúgu og var svolítið hissa á að bílhlassi af sandi eða fínni grús hefði verið sturtað á þennan stað. Litlu munaði að ég sparkaði af rælni í hauginn en sá þó rétt nægilega tímanlega að þarna var um grjótharðan malbiksafgang að ræða. Eins gott, - ég segi nú ekki annað og upp í hugann kom sagan af fallbyssukúluboltanum.
Sagt er að eitt sinn hafi óprúttnir hrekkjalómar klætt stóreflis fallbyssukúlu í leðurtuðru sem hafði verið notuð utan um uppblásinn gúmmíbelg sem fótbolti. Kúlan í tuðruni var síðan skilin eftir á víðavangi þar sem hún hreinlega bað hvern þann sparkara sem átti leið hjá að sýna snilli sína og getu. Slíkt var að sjálfsögðu mikil freisting fyrir marga og sumir hverjir fylgdu auðvitað vel á eftir þrumusparki sínu og fengu verulega bágt fyrir en kúlan hreyfðist að sjálfsögðu hvergi.
Þeir kúlusparkarar hafa þá líklega lotið snarlega í gras fyrir viðfangsefni sínu, en þó ekki þessar rúllur sem hefðu betur mátt enda á öðrum stað og betri en þessum.
Og auðvitað varð ég að hlaupa upp grasi gróna veggi dælustöðvarinnar til að geta virt betur fyrir mér útsýnið.
En þarna ofan af þaki dælustöðvarinnar sást vel í lúinn húsakost gömlu Áburðarverksmiðjunnar sem eru þarna fyrir, en á Wikipedia má lesa eftirfarandi um þá niðurlögðu starfsemi: Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var vígð 22. maí 1954 en það ár hófst framleiðsla áburðar. Hún fékk rafmagn til framleiðslunnar úr Írafossvirkjun í Sogi. Á þeim tíma var ekki markaður fyrir alla þá raforku sem framleidd var nema til kæmi stóriðja. Sú stóriðja varð að áburðarverksmiðju í Gufunesi sem framleiddi köfnunarefnisáburð sem fékk nafnið Kjarni.
Bygging Írafossvirkjunar og Áburðarverksmiðjunnar var fjármögnuð með Marshallaðstoðinni. Stofnað var fyrirtækið Áburðarsala ríkisins sem hafði einkarétt á innflutningi og sölu áburðar. Þetta fyrirtæki flutti inn steinefnaáburð, þrífosfat og kalí til að blanda með hinum íslenska Kjarna en köfnunarefnið í áburðinum var unnið úr andrúmsloftinu.
Rekstur Áburðarverksmiðjunnar og Áburðarsölunnar var fljótlega sameinaður og hafði verksmiðjan einkaleyfi á sölu á áburði á Íslandi til ársins 1995.
Framleiðsla tilbúins áburðar hjá Áburðarverksmiðjunni fór árið 1999 fram í þessum fimm einingum sem allar eru staðsettar í Gufunesi: vetnisverksmiðju, köfnunarefnisverksmiðju, ammoníaksverksmiðju, sýruverksmiðju og blöndun. Verksmiðjan seldi þá því nær eingöngu í heildsölu til kaupfélaga og verslunarfyrirtækja. Efnaframleiðsla í verksmiðjunni var lögð niður í október árið 2001 og var þá hráefni flutt inn í kornaformi og blandað saman í verksmiðjunni og áburðurinn sekkjaður.
Ég notaði linsuna til að nálgast þessi gömlu hús betur og vitna enn og aftur í alfræðivefinn Wikipedia.
Eldur kom upp í ammoníaksgeymi í verksmiðjunni 15. apríl 1990. Í kjölfar þess lýstu íbúar í Grafarvogi áhyggjum sínum á staðsetningu verksmiðjunnar svo nálægt íbúðarhverfi. Borgarráð samþykkti í apríl 1990 að krefjast þess að rekstri verksmiðjunnar yrði hætt. Öflug sprenging varð í verksmiðjunni 1. október 2001. Fimm starfsmenn verksmiðjunnar voru að störfum en engan sakaði. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var sent á staðinn og greiðlega gekk að slökkva eldinn. Sagt var "að hús í Grafarvogi hafi nötrað og margir íbúar fundið loftþrýstibylgju". Þetta varð til þess að framleiðslu þar var hætt fyrr en ella.
Áburðarverksmiðjan var seld í mars 1999 fyrir 1.257 milljónir króna til einkaaðila. Fyrirtækið velti miklum fjármunum og verðmæti birgða var metið á 750 milljónir. Því var haldið fram að innan við 500 milljónir hafi verið greiddar fyrir sjálfa verksmiðjuna og aðstöðuna. Reykjavíkurborg samdi árið 2002 við hluthafa Áburðarverksmiðjunnar hf. um stöðvun efnaframleiðslu og kaup borgarinnar á fasteignum og aðstöðu fyrirtækisins fyrir 1.280 milljónir króna. Áburðarverksmiðjan hafði starfsleyfi til ársins 2019 og var lóðin sem hún leigði af Reykjavíkurborg 20 hektarar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir íbúðarbyggð í framtíðinni á þessu svæði og landfyllingum út í sjó.
Ágætt útsýni var ofan af dælustöðinni til Viðeyjar sem er um margt merkileg og er talin hafa risið úr sæ fyrir u.þ.b. 10.000 árum ásamt næstum öllu því svæði þar sem Reykjavík stendur nú. Þar hafa fundist merki um byggð allt frá landnámi, Viðeyjarstofa er fyrsta steinhús sem byggt er á Íslandi, þar var um tíma virðulegasti embættismannabústaður landsins um tíma og þar var einnig byggð fyrsta höfnin fyrir millilandaskip hérlendis. Nú lýsir hin alþjóðlega eða kannski margþjóðlega friðarsúla upp haustmyrkrið frá þessari smáeyju öllum heiminum og boðskap Bítlahjónanna John´s og Yoko til dýrðar.
Áður en ég fetaði mig aftur niður af þessum ágæta útsýnispalli leit ég um öxl og sá að það var komið skip undir risakranana. Þetta eru auðvitað alvöru græjur og það ekkert smá...
Ég nálgaðist nú Áburðarverksmiðjuhúsin og fyrir neðan þau kenndi ýmissa grasa en þó í óeiginlegum skilningi þess orðs. Ekki veit ég tegundaheiti þessa vörubíls eða neitt sem hægt er að velta sér upp úr og hafa einhver orð um. Ég auglýsi því bara eftir slíku, en víst er að hann hefur einhvern tíma verið í betra formi.
Þessi geymir stóð uppi á bakkanum og virtist vera að horfa út á hafið fullur af angurværð og eftirsjá, rétt eins og gamall sjóari sem er kominn í land eftir að hafa siglt um höfin sjö alla sína hunds og kattartíð.
Rosalega er mikið af drasli hérna, bæði fyrir innan og utan hliðið sem lokar veginum. En þar sem greið leið var um fjöruna fór ég þá leiðina og ályktaði sem svo að ökutækjum væri ekki ætlað að vera hér á flækingi en um gangandi gilti allt annað regluverk. Ég rölti því niður fyrir endann á girðingunni og hélt áfram ferð minni.
Og hvað ætli sé svo í öllum þessum gámum? Kannski bara enn meira handónýtt drasl, hættulegur eiturefnaúrgangur sem stökkbreytir öllum þeim sem nálgast þá eða e.t.v. aðsetur geimvera? Ég hafði farið aftur upp á bakkann en leiðin var nánast lokuð af gámunum og fleira dóti svo ég fór aftur niður í fjöru og hélt áfram.
Fyrir neðan verksmiðjuhúsin er útskipunarbryggjan og þar liggur þetta sannkallaða draugaskip. Eins og sjá má gæti það tekið sig vel út í hrollvekju af bestu og vönduðustu gerð útlitsins vegna. Ég var auðvitað forvitinn um þetta fley sem siglir varla mikið meira um höfin blaut og blá úr því sem orðið er.
Ég gekk því út á bryggjuna og sá þá hið vel læsilega nafn HREFNA RE 11. Það var eins og hvíta málningin sem notuð hafði verið til merkingarinnar hefði verið annað hvort af betri gerð eða mun seinna á ferðinni en sú á skrokknum. Mér fannst þetta eitthvað skrýtið svo ég gúgglaði henni Hrefnu sem átti að vera númer ellefu frá Reykjavík. Þá kemur í ljós hinn stóri sannleikur í málinu því hún Hrefna er nefnilega hann Þór þegar betur er að gáð. Þarna er nefnilega komið hið fornfræga varðskip Þór sem búið er að dulbúa og var "látið leika" hvalveiðiskip í kvikmyndinni Reykjavík Whale Whatsing Massacre sem var tekin upp s.l. sumar. Þessi gamli harðjaxl sem siglt hefur um norðurhöf í illskulegum ólgusjó og mögnuðu gjörningaveðri, klofið brotöldur og löðurfalda eins og riddari sem vinnur drekann og frelsar kóngsdóttur, mætt sjálfum Ægi í sínum alversta ham og tekið virkan þátt í þrem þorskastríðum og haft sigur, má muna sinn fífil öllu fegri en hann er í dag
Eftir að hafa vurt fyrir mér um stund þessa gömlu hafsins hetju úti við aflóga bryggju sem var auk þess að hruni komin, snéri ég við og þá bar fyrir augu þessi forkunnarfögru og tignarlegu fley sem greinilegt var að meira og betur var hugsað um.
Og það var þá sem ég sá þessa orðsendingu sem færa mátti rök fyrir að gætu alveg átt við ferðalanga og röltara eins og mig. En það sem mér þótti athyglisvert var að skiltið snéri öfugt, þ.e. það varð ekki séð fyrr en í bakaleiðinni þegar búið var að "fremja glæpinn". Mér fannst þess vegna skipta litlu hvort ég snéri við eða héldi áfram því ég var staddur því sem næst á miðju bannsvæðinu - og ég hélt auðvitað áfram.
En nú var ég kominn að svolítilli hindrun. Ég kom þarna gangandi á syllu utan á steinveggnum (sem sést betur á myndinni hér fyrir neðan). Við endann á veggnum er svo nokkuð djúpur skurður þar sem mér sýndist renna um heil ósköp af kælivatni frá stóru húsi þarna skammt fyrir ofan. Mér virtist því eina leiðin vera að ganga eftir rörunum og yfir á hólinn hinum megin við skurðinn ef ég ætlaði að halda áfram. Ég hóf að feta mig eftir rörinu en það gekk frekar hægt. Þegar ég var hálfnaður yfir sá ég hvar var betra að komast yfir og ég fetaði mig til baka. Eftir á að hyggja var það bara svipað og að klára málið og fara alla leið yfir á rörinu. En ég gekk sem sagt fyrst rörið og síðan sylluna til baka, eftir fjörugrjótinu og upp með kælivatnslæknum. Ég fór yfir hann á spýtu sem lá bakkanna á milli eins og brú og klifraði síðan upp klettinn.
Ég var mjög feginn að vera kominn yfir, en það er svo ekki fyrr en núna að ég veit til hvers þessi rör eru. Þau flytja metangasið sem unnið er úr hauggasi frá urðunarsvæði Sorpu í Álfsnesi um 10 km. leið að áfyllingarstöðinni við Bíldshöfða. Það má svo lesa á vef Orkuveitu Reykjavíkur sem á og rekur leiðsluna að uppsetning hennar hafi kostað ríflega 100 millur.
En nú var engin fjara lengur til að ganga eftir heldur aðeins bakkar sem slúttu í sjó fram.
Þetta finnst mér ekki mjög fallegt og svona á ekki að gera.
En ég var nú kominn út af hinu afgirta svæði þar sem óviðkomandi var bannaðir aðgangur og ég fann að mér létti svolítið. Veit ekki af hverju nema ef vera skyldi að minn innri maður er heldur löghlýðnari og meira fyrir að fara að fyrirmælum en "sá ytri". Og mig langar til að gera svolítla athugasemd við þetta síðasta, því ef það er til einhver innri maður sem svo oft er vitnað til, hlýtur sú nafngift þá ekki að vera til komin til að aðgreina hann frá þeim ytri sem að vísu er ekki nærri eins mikið talað um?
Og hér í Gufunesi eru bókstaflega allar hugsanlegar tegundir og útgáfur af sorpi og rusli í gríðarlegu magni. Samt hafa hvorki meira né minna en 1.5 milljón tonna verið urðuð í Álfsnesi.
Ég gekk nú áfram meðfram ströndinni og nú lá leiðin aftur í áttina inn til landsins. Það var farið að styttast í að hringurinn lokaðist.
En mýri neyddi mig aftur upp að girðingunni og nú var það stærðarinnar kurlhaugur sem blasti við.
Ég var kominn upp að aðalhliði og þar virtist vera búið að leggja þessum vagni fullim af brotajárni. Greinilegt var að hann hafði staðið þarna lengi og mér fannst staðsetningin ansi undarleg, eða rétt fyrir utan hliðið þar sem mesta umferðin var. Út frá fagurfræðilegum þáttum hefði ég talið eðlilegra að koma honum fyrir í meira skjóli.
Og þetta eru sem sagt fyrirtækin sem eru með starfsemi sína á hinum afgirta og ysta hluta Gufuness.
Næsti áfangi fólst svo í því að rölta upp á veg sem reyndist heldur lengri spölur en mig minnti.
Og áfram gakk, og fljótlega var ég kominn að Olís stöðinni í Grafarvogi.
Þegar ég lagði af stað hugsaði ég mér að taka nokkrar myndir af Gullinbrú, mannvirkinu sem tengir Grafarvoginn við Höfðann. Ekki veit ég af hverju hún dregur gullnafn sitt því fátt er við hana sem minnir í einhverju á þann eðalmálm. En hún er hins vegar hið mesta þarfaþing því um hana fara að meðaltali um 45.000 bílar á degi hverjum.
Skyldu "skreytilistamenn" ekki hafa þurft að hafa býsna mikið fyrir upsetningu þessara verka sinna. Aðstæður hafa eflaust ekki verið upp á það besta því þarna er nánast alltaf gríðarlega mikill straumur ýmist út eða inn í Voginn og "verkin" ná það hátt upp á stöplana að "listamaðurinn" hefur eflaust þurft að standa í tuðru eða bátskel sinni.
Þegar betur var að gáð sást að allir stöplar voru merktir með sama hætti og í öllum tilfellum beggja megin.
En göngubrúin er hið mesta þarfaþing. Þarna eru líka göngustígara sem liggja í allar áttir og nokkuð var um hljólandi, gangandi og skiokkandi umferð.
Og nú var bara brekkan upp að Stórhöfðanum eftir. Ég fann að það voru byrjaðar einhverjar strengjamyndanir í lærum og kálfum eftir þennan tæplega þriggja tíma labbitúr. En skyldi litla bláa Micran vera tilbúin?
Hún var svona næstum því alveg búin var mér sagt við komuna. Farðu bara inn og fáðu þér kaffi...
Og auðvitað þáði ég það því enginn fær staðist kaffið á þessum stað.
Þeir félagarnir Gústi (t.h.) og Hjörtur pósuðu síðan fyrir mig. Nokkrum dögum síðar átti ég leið um Höfðan og var þá búinn að prenta myndina út og skella henni í ramma. Nú hangir hún uppi á áberandi stað í kaffistofunni.
"Sestu inn, vertu þar og stígðu á bremsurnar". Ég gerði það auðvitað og fékk þá svolitla upplyftingu með það sama. Ég var um tíma "geymdur" alveg fast upp við loftið og nokkur bið var á því áð mér væri skilað til jarðarinnar aftur. En þar kom að lokum að horfið var til þess konar "slökunarstefnu" sem gerði mig frjálsan á ný og ég bakkaði út.
Að skreppa með bílinn á verkstæði til minni háttar lagfæringar var þegar allt var saman reiknað hið besta mál og hin skemmtilegasta ferð.
23.04.2009 09:02
Gleðilegt sumar
(LRÓ á toppi Hólshyrnu)
561. Í dag er Sumardagurinn fyrsti sem er fyrsti dagur Hörpu, en hann er (eða öllu heldur hún) fyrsti sumarmánuðurinn af sex samkvæmt hinu gamla norræna tímatali.
(Sól úr norðri)
Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna - hátíðir og merkisdagar eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, segir um sumardaginn fyrsta:
Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.
Hvað átt er við með góðu sumri í þjóðtrúnni er nokkuð á reiki, en hugsanlega er einkum átt við að nyt búpenings verði góð, sem verður þegar taðan er kjarnmikil. Ef engjar og tún eru seinsprottin verða hey oft kjarngóð og því ætti nytin einnig að verða góð. Slíkt gerist þegar svalt er og vott framan af sumri, en síðan hlýrra og þurrt og kann þjóðtrúin að vísa til þess að þegar vorið er kalt þá er oftast frost á sumardaginn fyrsta sem leiðir líkum að því að sumarið verði seinna á ferðinni. Þá er allur gróður einnig seinni að taka við sér, en það gerir grösin kjarnbetri og bætir nyt búpenings.
(Gúgglað af Wikipedia)
Áður en rómverska tímatalið barst hingað með kirkjunni höfðu Íslendingar komið sér upp eigin tímatali sem ekki virðist hafa verið til annars staðar. Sennilega hefur Íslendingum þótt nauðsynlegt að hafa eitthvert sameiginlegt tímaviðmið eftir að þeir settu sér eigin samfélagsreglur með stofnun Alþingis snemma á 10. öld.
Rómverska tímatalið varð virkt eftir að föst skipan komst á kirkjuna með stofnun biskupsstóls eftir miðja 11. öld. Íslendingar köstuðu samt gamla tímatalinu ekki fyrir róða heldur löguðu það til svo að það lifði góðu lífi við hlið hins kirkjulega tímatals og gerir enn í vönduðum almanökum.
Í stærstu dráttum var árinu skipt í tvö nær jafnlöng misseri: Vetur og sumar. Vetrarmisserið byrjaði alltaf á laugardegi og sumarmisserið á fimmtudegi. Fram til ársins 1700 var það fimmtudagurinn á bilinu 9.-15. apríl en eftir 1700 á bilinu 19.- 25. apríl
(Gúgglað af vísindavef HÍ)
(Miðnætursól)
Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25. Á þessum tíma er hlýnun á vori komin vel í gang, meðalhiti 25. apríl er 0,3 stigum hærri en 19. apríl.
Þó að svalt sé í veðri á þessum tíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því um þetta leyti skiptir á milli kaldari og hlýrri hluta ársins. Sömuleiðis verða á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið tekur við, þá dregur að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa.
(Gúgglað af vef Veðurstofu Íslands)
(Síldarminjasafnið á Sigló)
En þessi dagur sem hefur svo lengi verið haldinn hátíðlegur á hér á Fróni, virðist vera nokkuð séríslenskt en mjög svo vel til fundið fyrirbæri. Líklega meðal annars vegna þess að forfeður okkar hafa haft meiri þörf fyrir slíkan dag en t.d. þeir sem búa þar sem veðurfar er mildara.
(Hólshyrnan)
Ég vil óska þeim sem eiga það til að rekast hingað inn sem og öllum öðrum Gleðilegs sumars.
(Lengst inni í Skútudal.)
Og í tilefni dagsins er tilvalið að skreppa út í góða veðrið og fá sér súkkulaði eða jafnvel ís.
20.04.2009 23:45
Ashley Flores, CSI, sundurlyndi í Samfylkingunni og gamlir popparar sem toppa.
560. Ég fékk þennan póst sendann áðan og eitthvað sagði mér að koma honum fyrir hér á síðunni.
Þessi póstur kemur frá Frakklandi. Sendu þetta til allra sem þú þekkir...maður veit aldrei.
Viltu vera svo væn / vænn að skoða myndina vel, lesa skilaboðið frá móður hennar og
áframsenda þetta til allra sem þú þekkir, eða hefur e-mail hjá.;
Dóttir mín er 13 ára og heitir Ashley Flores, hún hefur verið týnd í tvær vikur. Ef þið sendið þetta til allra sem þið
þekkið þá gæti einhver þekkt hana af myndinni. Ég veit í dag að bæði börn og fullorðið fólk hefur fundist eftir svona
myndum. Internetið fer um allan heim og heimsálfur.
Viljiði vera svo væn að senda þetta til allra sem þið þekkið. Með ykkar og Guðs hjálp gæti ég fundið dóttur mína.
Ég bið ykkur, ég grátðbið ykkur að senda þessa mynd áfram til allra sem þið mögulega getið.
Það er aldrei of seint.................
ÉG BIÐ YKKUR HJÁLPIÐ MÉR.!!!!!!!!!
Hafirðu einvherjar upplýsingar um hana, þá vinsamlega hafið samband við :
HelpfindAshleyFlores@yahoo.com
Það gæti í mesta lagi tekið þig 2 mínútur að senda þetta áfram.
Ef þetta væri dóttir þín.....þá myndirðu
BÆÐI MÖGULEGT OG ÓMÖGULEGT TIL AÐ FINNA HANA!!!
Ég var að horfa á CSI í kvöld sem ég geri yfirleitt, því þessir þættir eru að mínu mati hið ágætasta afþreyingarefni (þó ekki Miami afbrigðið) og heldur gáfulegri afurð en margt annað Hollywoodþunnildið. En núna eins og ég hef reyndar séð gerast nokkrum sinnum áður, var verið að dæma í máli sem þó var enn verið að rannsaka. Svona einfeldningslegur galli gerir mig svolítið pirraðan (eins og allir hljóta að átta sig á sem þetta lesa) og ég trúi ekki að réttarkerfið í henni Ameríku sé svona ófullkomið eða skyldi það kannski vera þannig? Eða er kannski enginn að spá í þessa hlið málsins nema sérvitringar eins og ég, og tilgangur "gerðarmanna" var aðeins að fara frjálslega með formið, byggja upp spennu af ódýru gerðinni og þeir fór því stuttu leiðina vegna þess að handritshöfundurinn var kominn í mikið tímahrak?
Æ, æ...
Eftirfarandi frétt má lesa á visir.is.
Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem ýmsir framámenn í Samfylkingunni tala ekki einum rómi eða ganga ekki alveg í takt og sýna það og sanna að flokkurinn er í raun samsafn margra minni flokka sem enn hafa ekki runnið saman í eina heild. Væri ekki eðlilegt að láta formanninum það eftir að gefa út yfirlýsingu af þessari stærðargráðu?
Mín tilfinning er sú að þarna sé Björgvin að leika af fingrum fram (en þó ekki án feilnótna) svolítinn sólókafla í forleiknum að væntanlegum kosningum og eiginlega stilla VG upp við vegg, en sá flokkur hefur svo aftur fyrirfram útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Maður spyr sig hverjir aðrir möguleikar séu fyrir hendi að kosningum loknum ef Steingrímur J. "lýtur ekki í gras" fyrir Björgvin og fær út töluna 1.
Sá kostur hlýtur að teljast fullreyndur í bili (Sjálfstæðisflokkur / Samfylking), enda brýtur þar ekki síður á Evrópumálum. Við eigum þá kannski það í vændum sem okkur vantar síst af öllu, þ.e. (stjórnar)kreppu á kreppu ofan.
En að öðru en þó ekki endilega alveg óskyldu...
Sem kunnugt er hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn seinkað greiðslu á öðrum hluta lánsins til okkar Frónbúa og ber við pólitískum óróleika.
Kannski ekkert skrýtið.
Seint á áttunda áratugnum